Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Skaðar af sjógangi og sandfoki í Vík í Mýrdal

Ég fjallaði á dögunum um lágþrýstimet októbermánaðar (19. október 1963) og lét þess getið að tjón tengt lægðinni hafi einkum tengst sjávarflóði fremur en fárviðri. Sjógangur olli tjóni allt frá Grindavík í vestri austur til Víkur í Mýrdal. Allmikið tjón varð í Vestmannaeyjum og sömuleiðis í Þorlákshöfn, mig rámaði eitthvað í það, en hins vegar var ég búinn að gleyma Vík. Eftirfarandi má lesa í Morgunblaðinu 22. október, fréttaritari í Vík segir frá:

Í þessu veðri gekk sjórinn nokkur hundruð metra á land síðari hluta dags. Komst sjórinn yfir þjóðveginn þar sem hann liggur undir Víkurkletti. Þaðan er annars um kílómetri út að sjó. Miðja vega milli Víkurkletts og strandarinnar fannst í gær lifandi og spriklandi hnísa, fremur lítil, sem borizt hafði svona langt upp á sandinn í hafrótinu. Var hnísan skorin í gær. Sjórinn flæddi einnig upp í Víkurá, svo að hann komst þar alla leið upp að aðalbrúnni hér í þorpinu.

  

Ágangur sjávar við Vík hefur verið nokkuð í umræðunni upp á síðkastið og því datt mér í hug að athuga hvort oftar er getið um atburði af þessu tagi í Vík í gagnasafni sem ég er að koma mér upp. Taka verður fram að heimildir mínar eru dagblöð og fréttablöð, langoftast skömmu eftir að atburðirnir hafa átt sér stað. Vel má vera að ég hafi rangt eftir í einhverjum tilvikum. Skrá mín er mjög ófullkomin og stuttaraleg, enda hugsuð sem vegvísir, auðvelt er að leita ítarlegri heimilda þegar vitað er að hverju á að leita.  

13. til 15. nóv. 1898. Mikið sjávarflóð um sunnan- og suðvestanvert landið og varð tjón á bátum í Vík í Mýrdal. Í þessu veðri varð tjónið reyndar mest við Faxaflóa, m.a. í Reykjavík. Ég á eftir að athuga dagsetningu nákvæmlega, en líklega var þetta síðdegis þann 13.

27. des. 1914. Aftakaflóð varð í Vík í Mýrdal, þar flæddi sjór í hús og skemmdi matvæli og verslunarvarning.

21. jan. 1916. Sjór gekk á land í Vík. Eftir þessa tvo síðustu atburði var óhugur í mönnum um öryggi þorpsins.

Á næstu áratugum hef ég ekki fréttir af sjávarflóðum í Vík, þar flæddi Víkurá hins vegar yfir bakka sína og mikil skriðuhlaup urðu.

15. febrúar 1954 er fyrsta fréttin þar sem sandfoks í Vík er getið sem tjónvaldar. Ofsaveður var um stóran hluta landsins þennan dag og víða skaðar.

19. október 1963 (áður á minnst).

21. mars 1976 urðu miklar skemmdir á bílum og húsum í Vík vegna sandfoks.

9. janúar 1990 Þakplötur fuku af húsum í Vík í Mýrdal og sandur barst í stórum stíl inn í þorpið og olli tjóni á rúðum, málningu og í görðum. Miklar skemmdir urðu af sjávarflóði suðvestanlands, en ég hef ekki heimildir við höndina um að sjór hafi gengið inn í þorpið í Vík eins og 1914 og 1916. Vel má þó vera að svo hafi verið.

22. mars 1994. Sandfok olli tjóni á húsum í Vík.

10. okt. 2000. Sjór gekk á land við Vík.

Grjótflug og ofsaveður hafa oft valdið tjóni í Vík, en aðallega í landáttum og kemur sjór þar ekki við sögu. Sem kunnugt er bætti Kötlugosið 1918 miklu við af sandi framan við Vík og þar austur af. Áhyggjur manna nú minna að sumu leyti á svipað fyrir 100 árum. Í Morgunblaðinu 20. febrúar má lesa í fréttapistli Guðjóns Jónssonar að:

Kunnugir menn segja, að [sjávar] flóð þessi séu heldur að ágerast, áður hafi þau verið miklu strjálari og ekki eins stórvægileg.

 

Þó ég þykist vita nokkurn veginn við hvaða skilyrði sjávarflóð verða í Vík er ég fáfróður um ástand þar nú og veit ekki hvernig það muni þróast á næstu árum. Það er hins vegar lærdómsríkt að sjá að menn höfðu einnig af þessu áhyggjur fyrir síðasta Kötlugos.


Íslenzkir þjóðhættir og fleira af bókum

Nýlega var ritið Íslenzkir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili endurútgefið. Ritið er mikil fróðleiksnáma og útgáfan fagnaðarefni. Þegar ég var á unga aldri lagðist ég í veðurkafla verksins. Þar er fjallað um alþýðuveðurspár af mörgum toga á 16 blaðsíðum. Gaman má hafa af spánum, þótt því sé ekki að neita að ýmislegt af þeim sé okkur veðurfræðingum stundum til ama. Þegar ég var yngri (veðurfræðingur) gat ég haft gaman af tuði um kyndilmessu, frost á aðfaranótt sumardagsins fyrsta og 18 bræður öskudagsins, en að þurfa að svara fyrir þetta í nærfellt 40 ár er farið að verða þreytandi. Ekki veit ég hvers vegna einmitt þessi atriði lifa en ekki önnur sem vel mætti taka upp fréttir af til tilbreytingar. Nefnum dæmi frá Jónasi:

Sólbráðir fyrir þriðja fimmtudag í góu borgast aftur. Sé sólskin fyrstu þrjá daga lönguföstu verður oft sólskin á föstunni. Ef votviðri verður riddaradaginn (9.mars) verður gott sumar, en hart ef frost er þann dag. (allt á bls.124). Á sömu síðu er einnig, neðanmáls, vísa um bræður öskudagsins. Hvers vegna er aldrei minnst á hana - hún er skemmtileg:

Öskudagsins bjarta brá, bætti úr vonargögnum, þar hann bræður átján á, eptir gömlum sögnum.

Svo er allnokkuð af alþýðlegum athugunum sem nokkuð er til í, dæmi er vísan um góu:

Ef hún góa öll er góð, að því gæti mengi, þá mun harpa hennar jóð, herða á mjóa strengi.

Þarna segir að ólíklegt sé að mikil blíða á góu standi til vors. Það er oftast rétt - en ekki alltaf.

Frásögnin af vermisteininum er líka góð. Gamla fólkið sagði að á sunnudaginn í miðgóu kæmi vermisteinninn í jörðina og upp frá því átti að fara að batna, því að úr því fóru svell að flísast frá jörðu og holast undan fönnum. Þetta geta menn á hverjum vetri séð að er rétt.

Jónas lætur þess getið að margt af þessari veðurspeki sé útlent að uppruna, jafnvel margra alda gamalt. Það er örugglega rétt. Í Svíþjóð hefur bók um alþýðuveðurspár komið í mörgum útgáfum. Bókin heitir Väderspåmannens bondepraktika. Útgáfan sem ég hef undir höndum er frá árinu 1985. Þar má finna sjöhundruð sænskar (evrópskar?) veðurspáreglur.

Þar segir m.a. um kyndilmessu 2. febrúar (í lauslegri þýðingu): Snjókoma á kyndilmessu boðar að sumarið komi snemma. Ef sólin skín nægilega mikið þennan dag til þess hæna geti drukkið vatn úr bráðnum snjó, þá mun vel vora.

Í þessari bók má líka lesa um Torre kóng af Gotlandi og Finnlandi og þrjú börn hans, m.a. dótturina Goe eða Göje. Um hana segir m.a. Om Göja er milder, blir mars vilder = mild góa - verri mars þannig að góutrúin íslenska á sér e.t.v samsvörun í Svíþjóð.

Veðurtrú sem tengist kyndilmessu má einnig finna í Bretlandi og Bandaríkjunum - trúlega einnig á meginlandi Evrópu. Kannski ætti ég að vinda úr mér kyndilmessuþreytuna?

Bókin er:

Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir. 4. útgáfa, Opna, 2010. 504s.


Háþrýstimet í október 1919

Fjallað var um lágþrýstimet októbermánaðar í fyrri pistli. Gætum einnig að háþrýstimetinu. Það er sjaldgæft að þrýstingur fari yfir 1040 hPa í október. Sennilega er líklegra að háþrýstimet séu slegin í síðari hluta mánaðarins heldur en þeim fyrri, ég treysti mér ekki til að segja hvort sá líkindamunur er marktækur eða ekki.

En alla vega er metið frá þeim 26. árið 1919. Það var á Ísafirði kl. 6 um morguninn. Á Ísafirði var veðurstöð sem sendi skeyti út um heim um ritsíma. Byrjuðu skeytasendingar þaðan í apríl 1909, trúlega um leið og símasamband komst á.

Október 1919 var talinn hagstæður á landinu og lengst af var hægviðrasamt.

Lofttrystingur_px_okt1919

Myndin sýnir loftþrýsting á Ísafirði í október 1919. Mjög kröpp lægð gekk yfir þann 3. með stormi, regni og hlýindum. Hlýjast á landinu var 16,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 4. Hlýjasti dagurinn á Ísafirði var hins vegar sá 20. þegar hiti komst í 11,8 stig.

Mánuðurinn var ekki skaðalaus. Tveir bátar fórust við Austfirði í illviðrinu þann 3. Það á að hafa gerst í norðaustanillviðri, en getur ekki verið rétt. Hafi bátarnir farist þann dag var það í vindi af suðvestri eða vestri. Ef til vill varð slysið ekki þann dag heldur einhvern annan. Sjóskaðar urðu einnig er tveir menn drukknuðu á Seyðisfirði, að sögn í illviðri þann 20. og timburflutningaskip fórst við Mýrar með sex mönnum þann 22. Veður var ekki sérlega slæmt þann dag, en trúlega nokkur vindur og vont skyggni.


Á hausti 1963 - lágþrýstimet og fleira

Margir bændur hafa sagt mér að þeir muni best sín fyrstu búskaparár og minnstu smáatriði þeirra. Seinni árin renni síðan saman og fátt sé af þeim munað nema helstu atburðir og meira að segja þá vilji árin ruglast saman. Sama á við um helstu veðuráhugamenn - veðurnördin.

Alla vega varð árið 1963 mjög minnisstætt þeim sem hér skrifar og fylgdist hann með veðri í smáatriðum og man margt enn. Veturinn var mjög sérstakur, páskahretið auðvitað einstakt og sumarið með sínum köflum öllum, hitabylgjurnar í upphafi og enda júní, kuldakastið mikla og langvinna í júlí, síðan haustveðrin óvenjulegu og blíðan mikla framan af desember.

Í september gerði bæði landsynningsstorma og útnorðanköst, Morgunblaðið sagði í fyrirsögn um réttarkastið mikla: Einstakt á þessari öld. Ég heyrði þá fyrst talað um haustkálfa - hret snemma hausts. Haustkálfarnir voru taldir boða hlýjan og mildan vetur. Eitthvað virtist veðuráhugamanninum unga vera til í því - veturinn 1963 til 1964 er einhver sá hlýjasti og besti sem um er vitað.

Á tímabilinu 13. til 25. október gengu yfir mikil veður, merki þeirra má sjá á línuritinu sem hér fylgir.

p-815-okt1963

Ritið sýnir loftþrýsting á Stórhöfða í Vestmannaeyjum dagana 14. til 25. október 1963. Þarna má meðal annars sjá lágþrýstimet októbermánaðar hér á landi 938,4 hPa en að kvöldi þess 19. gekk óvenjudjúp lægð yfir landið úr suðsuðvestri til norðurs um Húnavatnssýslur. Trúlega hefur hún verið farin að grynnast því tjón varð ekki mikið vegna hvassiviðris. Mikið sjávarflóð gerði hins vegar á svæðinu frá Grindavík austur í Mýrdal og olli miklu tjóni.

Fyrsta þrýstifallið á línuritinu, þann 14. fylgdi leifum fellibylsins Flóru sem hafði valdið gríðarlegu tjóni á Kúbu og víðar nokkrum dögum áður. Lægðarmiðjan komst aldrei alveg til Íslands. Minniháttar foktjón varð suðvestanlands.

Langmesta foktjón mánaðarins varð samfara óvenju krappri lægð sem fór yfir landið svipaða leið og hin fyrri, aðeins vestar reyndar. Hugsanlegt er að miðjuþrýstingurinn hafi verið ámóta og í metlægðinni nokkrum dögum fyrr. Gríðarlegt tjón varð austan við lægðarmiðjuna. Rekjum það ekki að sinni. En látum þess getið að þá var 10-mínútna vindhraði á Stórhöfða talinn/mældur 16 vindstig. Leggjum út af því meti síðar.

Síðan gekk á með stórtíðindum af öðru tagi, Surtseyjargosið hófst 14. nóvember og í útlöndum var Kennedy bandaríkjaforseti myrtur nokkrum dögum síðar. Þá hljóp aldeilis á snærið hjá fréttanördum.

 

 


Smábiti fyrir veðurnördin

Spurt var á dögunum hver væri hæsti hiti sem mælst hefur í 500 og 850 hPa-flötunum yfir landinu í október og hver væri mesta þykktin. Háloftaskrár Veðurstofunnar hafa ekki verið alveg samræmdar fyrir langt tímabili og svarið um hitann því með ákveðnum fyrirvara. Hæsti hiti í 500 hPa í október er -11,1 stig. Mínus 12 stigum er spáð nærri landinu á laugardagskvöld (9. október). Ekki munar miklu, en 500 hPa fletinum er spáð í um 5780 metra hæð á sama tíma (októbermetið er 5820 metrar - sáralitlu munar.

Hæsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa hæð í október er +10,8 stig. Því er spáð að á laugardagskvöldið fari hitinn í þessari hæð (ca. 12-1400 metrar) í 8 stig. Hér er lengra í met en í 500 hPa. Þykktinni er spáð 5580 metrum, það er ekki langt frá meti. En hver er þessi þykkt? Það er alltof langt mál til að rekja í aðaltexta bloggs af þessu tagi, en ég legg með word-skjal þar sem nördin geta fundið upplýsingar um hvað er átt við og hvað þykktartölur þýða.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira um (veðurfars)skeið á nútíma

Hér er orðið nútími enn haft í sinni tæknilegu merkingu, þ.e. tímabilið eftir að síðasta jökulskeiði lauk fyrir rúmum 11 þúsund árum.

Nútíminn byrjaði á skeiði sem að mér vitandi hefur enn ekki fengið íslenskt nafn, heitir pre-boreal á alþjóðatungum. Forskeið nútíma? Síðan er almennt samkomulag um það sem ég kýs að kalla bara bestaskeið(climatic optimum), það endar í ritum fyrir 4500 árum eða svo, gróflega.

 Nöfn virðast vera að festast við ákveðna hluta síðustu fjögur þúsund ára. Ekki er þó formlegur samningur til um þau.

Fyrsta af skeiðum þessum er: (i) Akkadísku þurrkarnir. Þetta skeið hefur aðsetur fyrir 4000 til 4500 árum síðan, rúmlega tvö þúsund árum fyrir Kristsburð. Veðurvitnum ber ekki saman um hvort skeiðið eigi að teljast hlýtt eða kalt sé litið á norðurhvel í heild, en það hefur ábyggilega verið kalt á okkar slóðum. Nafnið tengist umróti hjá menningarsamfélögum Miðausturlanda um þetta leyti.

(ii) Kólnun sem oftast er kennd við forn-Grikkieða upphaf mýrarskeiðsins síðara. Það hefur óljóst upphaf og endir en miðja þess er oft sett við 2300 til 2600 ár (300 til 600 f. Kr).

(iii) Rómverska hlýskeiðið svonefnda fyrir um 2000 árum. Þetta er merkimiði sem er mikið á floti.

(iv) Snemmiðaldakuldakastið, kaldast þá fyrir 1400 til 1500 árum (500 til 600 e.Kr.).

(v) Miðaldahlýskeiðið, frá því um 700 til 1200, síðmiðaldaskeiðið væri betra nafn á íslensku. Þetta skeið er gott dæmi um merkimiða sem sést allvel úr fjarlægð, en leysist talsvert upp við nánari skoðun. Hlýindi eru víða um þetta leyti og varla nokkur sem efast um það, en þegar farið er í saumana á því hvenær nákvæmlega þetta er kemur í ljós að það er misjafnt eftir stöðum. Mjög líklegt er talið að 30 til 50 ára kafla einhvern tíma á þessu árabili minni á nýlegt hlýindaskeið, 1925 til 1965 hvað umfang varðar. Tuttugustualdarhlýskeiðið varð jöklum t.d. mjög erfitt. Því er einnig líklegt að ámóta hlýskeið á síðmiðöldum hafi orðið jöklunum erfitt - ekki síst ef þau hafa verið fleiri en eitt eða tvö.

(vi) Litla-ísöldin svonefnda, en hvorki er samkomulag um upphaf hennar né endi. Víst er þó að jöklar víða um heim náðu þá sinni mestu útbreiðslu á nútíma. Sums staðar gengu jöklar þó lengra fram á fyrri kuldaskeiðum nýísaldar (tíminn síðustu 4500 ár). Almennt er talið að Litla-ísöld sé að meðaltali kaldasta skeið síðari árþúsunda.

Á síðustu árum hefur mikill haugur (þúsundir að minnsta kosti) af greinum um verið birtur sem vitna um veðurfar á nútíma. Geta menn þar fundið rökstuðning fyrir hverju sem er til staðfestingar skoðunum sínum. Ég mun vonandi síðar fá tækifæri á þessum vettvangi til að fjalla um fáeinar nýlegar greinar sem að mínu mati mest varða veðurfar hér á landi. Þrasi sinni ég hins vegar ekki.

Þrasgjörnum er hins vegar bent á nýja grein eftir einn helsta þrasspámann veðurfarssögunnar, Niels Axel Mörner. Þeir geta þá þrasað yfir henni án minnar aðkomu. Greinin er aðgengileg um landsaðgang hvar.is

Niels Axel Mörner (2010): Solar Minima, Earth's rotation and Little Ice Ages in the past and in the future: The North Atlantic–European caseGlobal and Planetary Change, 72, 4, p 282-293


Fer illviðrum fækkandi hér á landi?

Rétt er að taka það fram strax í upphafi að spurningunni í fyrirsögninni er ekki svarað hreint út. Tilgangurinn er fremur að sýna breytileika illviðratíðni síðustu 60 árin og að benda á að gætni er þörf þegar leitni er túlkuð.

Illiviðratíðni 1949 til 2009

Myndin sýnir fjölda illviðradaga á 5-ára tímaskeiðum. Fyrsta tímabilið nær yfir 1949 til 1953, en það síðasta frá 2005 til 2009 (2010 er ekki búið). Notaðar eru tvær mismunandi skilgreiningar. Gerð er dagleg talning á fjölda þeirra veðurathugana þegar vindhraði er meiri en 17 m/s. Nái 15% athugana þessum mörkum er dagurinn talinn illviðradagur. Þetta þýðir að því lengur sem hvassviðrið stendur því líklegra er það að komast á blað, jafnvel þótt þess gæti aðeins á fáum stöðvum. Hvassviðri sem fer hratt yfir á minni möguleika.

Hin skilgreiningin er þannig að gerð að talinn er fjöldi þeirra veðurstöðva þar sem vindur, einhvern tíma dagsins nær meir en 20 m/s. Sé hlutfall stöðva (af heildarfjöldanum) meiri en 25% er dagurinn talinn með. Þetta þýðir að því útbreiddara sem veður er, því líklegra er það að komast á blað, jafnvel þó skamvinnt sé. Illviðri sem hittir fyrir flestar stöðvar er talið mest.

Nú sjáum við á myndinni að önnur talningaraðferðin (bláa línan) sýnir ákveðna fækkun illviðra síðan 1950 auk þess að sýna miklar sveiflur innan tímabilsins. Hin aðferðin (rauð lína) sýnir nokkurn veginn stöðugt ástand, en líka miklar sveiflur. Takið eftir því að línuritin sýna samt hámörk og lágmörk á sömu árabilum, sömuleiðis eru þau sammála um að síðustu árin séu róleg í langtímasamhengi.

En hvað veldur þessu misræmi - er það misræmi? Auðveldast er að kenna breytingum á veðurathuganakerfinu um. en samt liggur ekki alveg i augum uppi hvernig það má vera. Einnig er mögulegt að hlutfall ofviðrategunda hafi raskast á síðari árum og línuritið sýni þá þróun. 

Hinn almenni lærdómur er að rétt sé að greina fyrirbrigðin á fleiri en einn hátt eða hafa það í huga að fyrirbrigði sem virðast eins eru það ekki (tegundir illviðra eru margar).  

 


Storma- og illviðratalningar

Fyrir nokkrum dögum fjallaði ég um árstíðasveiflu illviðra í bloggpistli. Ef við skiptum illviðrum í annars vegar norðlægar (norðvestur til austurs), en hins vegar suðlægar (suðaustur til vesturs) vindáttir kemur í ljós að norðanveður eru mun algengari en sunnanveður mikinn hluta ársins. Hér lítum við á mynd því til áréttingar.

Stormdagatíðni

Við skulum sleppa því að velta vöngum yfir talningatækninni, en á myndinni sjáum við bláa línu og aðra rauða sem dregnar eru ofan í súlurit (sem varla sést). Á lárétta stiganum eru mánuðir ársins, skammstöfun er sett við miðjan mánuð. Bláa línan sýnir árstíðasveiflu norðanveðranna. Þau taka nokkuð snögglega við sér í september, þeim fjölgar hægar í október og nóvember, en tíðnin vex aftur í desember að hámarki um miðjan janúar. Þegar líður á veturinn dregur smám saman úr tíðninni.

Rauða línan sýnir suðlægu áttirnar. Þar fer tíðnin hægar af stað og eru suðlægu veðrin færri en þau norðlægu fram yfir áramót. En um sólstöður fer tíðnin að vaxa mjög eindregið og sunnanveðrin komast loks fram úr þeim norðlægu fyrir janúarlok. Hámarkstíðni sunnanveðranna er svo skömmu síðar. Eftir miðjan febrúar fækkar suðlægu veðrunum miklu hraðar en þeim norðlægu og eru ekki hálfdrættingar þegar komið er fram yfir miðjan mars og áfram fram til vors.

Hægt er að telja á ýmsa vegu og hlutfall norðlægra og suðlægra veðra er breytilegt eftir talningaraðferðum. Hins vegar er það sameiginleg niðurstaða aðferðanna að norðanáttin verður ætíð herðabreið, en sunnanáttin mjóslegin á myndunum.

Hvers vegna skyldi þetta vera svona?  

Í veðurlýsingu í Þjóðólfi 8. mars 1907 segir Jónas Jónassen landlæknir um veðrið í febrúar:

Eins og vant er í febr. hefur suðvestanvindur (útsuður) verið langoptast, með svörtum éljum í milli; eptir miðjan mánuðinn (18.) norðanveður með blindbyl og hvass mjög með köflum (19.-20.). Til sjávarins hefur optast verið foráttubrim. Óvenju mikill snjór hefur legið hér á jörðu, sem nú um lok þessa mánaðar hefur tekið mikið upp í landsynnings rigningu tvo síðustu dagana.

Við tökum eftir orðalaginu, „eins og vant er í febrúar“. Jónas var þegar þetta var skrifað búinn að fylgjast vel með veðri á fjórða áratug. Sennilega voru veðrahlutföll svipuð á hans tíma og síðustu 60 árin.


Stöðvahámörk í október

Spáð er áframhaldandi hlýindum þannig að rétt er að bíða ekkert með stöðvametalista október. Hann fylgir í viðhenginu (excel-skjal). Þar má sjá þrískiptan lista. Byrjað er á metum mannaðra stöðva frá og með 1961, síðan kemur kaflinn 1924 til 1960 og loks sjálfvirku stöðvarnar í belg og biðu. Menn ættu að geta raðað þessum listum að vild, t.d. eftir stöðvanöfnum eða þá eftir hámörkunum sjálfum.

Minna má á að hæsti hiti sem vitað er um í október hér á landi er 23,5 stig. Hann mældist á Dalatanga aðfaranótt 1. október 1973 - og því með naumindum að hann slyppi inn i mánuðinn. Fimmtán aðrar stöðvar eiga sín met einmitt þennan dag. Sjálfvirka stöðin á Dalatanga á síðan næsthæstu töluna, frá því 26. október 2003, 22,6 stig. Sennilega liggur 25 stiga hámark í október einhvers staðar í framtíðinni.

Byrjun október (1. og 2.) 2002 á 28 stöðvamet á mönnuðu stöðvunum og 60 á sjálfvirku stöðvunum. Í þeirri syrpu mældist hæsti hitinn á Reykhólum í A-Barðastrandarsýslu, 19,0 stig. Í sama skipti mældist hiti á Holtavörðuheiði 14,8 stig. Afskaplega óvenjulegt.

Fjöldi meta var settur 6. til 9. október 1959 í óvenjulegu veðurlagi. Fleiri góðir dagar leynast í listunum.

Reykjavíkurhámarkið í október er hálfgert plat, því að samkvæmt reglum lýkur september kl. 18 þann 30. varðandi hámarks- og lágmarksmælingar. Hitinn fór í 15,7 stig að kvöldi þess dags, þannig að september á októberhitametið í Reykjavík. Þetta er heldur pirrandi en svona eru leikreglurnar. Hiti lækkar ekki fjarri 0,1 stigi á dag í október. Þann 18. október 2001 mældist hámarkshiti í Reykjavík 15,6 stig, það er satt best að segja meira afrek heldur en 15,7 stiga metið - sem skrifast á þann fyrsta. Þ 18. 2001 mældist hiti á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúninu 15,8 stig.

Hæsti hiti á Akureyri í október er 19,5 stig, það gerðist 15. október 1985. Met voru sett á fleiri stöðum þan dag, m.a. á Seyðisfirði þar sem hitinn fór í 22,0 stig.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlý byrjun október

Október fer svo fjörlega af stað að vissara mun að hafa skilningarvitin opin. Dagurinn er gerður upp hjá Sigurði þ. en hér er til fróðleiks mesti hiti sem mælst hefur á athugunartímum í október í Reykjavík og á Akureyri frá 1949.  Þar undir er smáumfjöllun um mesta hita einstaka daga í október og skrá yfir stöðvar sem eiga metin er í viðhengi.

Klukkuhámörk í Reykjavík
31020022113,2
310195910113,2
610195910113,6
910195910114,2
1210200118114,2
1510200118115,3
181019581113,8
2110200115114,4
241020021113,4
Klukkuhámörk á Akureyri
3101973142218,2
6101964342215,7
91019782642216,2
12102002242216,4
151020032642217,5
181019622042217,5
211019622042216,2
241019652042216,0

Töflurnar ættu að skýra sig sjálfar að mestu leyti. Klukkustund mælingar er í fyrsta dálki, síðan mánuðurinn, árið og dagur. Síðan er stöðvarnúmer (1 = Reykjavík, 422 = Akureyri). Methitinn er í síðasta dálki. Þetta þýðir að ef hiti fer í 13 stig í Reykjavík í október er rétt að vakna og 15 stig á Akureyri.

Myndin sýnir mesta hita á landinu alla daga í október. Við sjáum að lægri hita þarf til að slá met í lok mánaðarins heldur en í upphafi hans, þar munar um 3 stigum.

hitamet_daga-oktober

Hæsti hiti sem mælst hefur i október er 23,5 stig. Það var á Dalatanga þ. 1. árið 1973. Talan frá Daltanga þann 26. árið 2003, 22,6 stig er eiginlega enn meira met, því þá hefur hiti lækkað um 2,5 stig frá þeim fyrsta.

Taflan með tölunum öllum er í excel-viðhengi. Tvær stöðvar, Dalatangi og Seyðisfjörður eiga 18 dagamet af 31. Í framtíðinni eru meiri líkur á metum þá daga sem eru undir rauðu línunni á myndinni. Í listanum er ein mjög óvænt tala,  það er að segja að staðurinn er óvæntur. Kjörvogur í Árneshreppi á Ströndum á hæsta hita sem mælst hefur þann 12., 18,5 stig. Þetta var í merkilegu veðri í hinum ofurhlýja október 1946. Elst á listanum er metið þann 16. og var sett á Seyðisfirði 1934. Tíu dögum síðar gerði hins vegar dæmafátt norðanveður með brimróti, snjóflóðum og stórsköðum öðrum.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1513
  • Frá upphafi: 2348758

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1319
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband