Storma- og illviðratalningar

Fyrir nokkrum dögum fjallaði ég um árstíðasveiflu illviðra í bloggpistli. Ef við skiptum illviðrum í annars vegar norðlægar (norðvestur til austurs), en hins vegar suðlægar (suðaustur til vesturs) vindáttir kemur í ljós að norðanveður eru mun algengari en sunnanveður mikinn hluta ársins. Hér lítum við á mynd því til áréttingar.

Stormdagatíðni

Við skulum sleppa því að velta vöngum yfir talningatækninni, en á myndinni sjáum við bláa línu og aðra rauða sem dregnar eru ofan í súlurit (sem varla sést). Á lárétta stiganum eru mánuðir ársins, skammstöfun er sett við miðjan mánuð. Bláa línan sýnir árstíðasveiflu norðanveðranna. Þau taka nokkuð snögglega við sér í september, þeim fjölgar hægar í október og nóvember, en tíðnin vex aftur í desember að hámarki um miðjan janúar. Þegar líður á veturinn dregur smám saman úr tíðninni.

Rauða línan sýnir suðlægu áttirnar. Þar fer tíðnin hægar af stað og eru suðlægu veðrin færri en þau norðlægu fram yfir áramót. En um sólstöður fer tíðnin að vaxa mjög eindregið og sunnanveðrin komast loks fram úr þeim norðlægu fyrir janúarlok. Hámarkstíðni sunnanveðranna er svo skömmu síðar. Eftir miðjan febrúar fækkar suðlægu veðrunum miklu hraðar en þeim norðlægu og eru ekki hálfdrættingar þegar komið er fram yfir miðjan mars og áfram fram til vors.

Hægt er að telja á ýmsa vegu og hlutfall norðlægra og suðlægra veðra er breytilegt eftir talningaraðferðum. Hins vegar er það sameiginleg niðurstaða aðferðanna að norðanáttin verður ætíð herðabreið, en sunnanáttin mjóslegin á myndunum.

Hvers vegna skyldi þetta vera svona?  

Í veðurlýsingu í Þjóðólfi 8. mars 1907 segir Jónas Jónassen landlæknir um veðrið í febrúar:

Eins og vant er í febr. hefur suðvestanvindur (útsuður) verið langoptast, með svörtum éljum í milli; eptir miðjan mánuðinn (18.) norðanveður með blindbyl og hvass mjög með köflum (19.-20.). Til sjávarins hefur optast verið foráttubrim. Óvenju mikill snjór hefur legið hér á jörðu, sem nú um lok þessa mánaðar hefur tekið mikið upp í landsynnings rigningu tvo síðustu dagana.

Við tökum eftir orðalaginu, „eins og vant er í febrúar“. Jónas var þegar þetta var skrifað búinn að fylgjast vel með veðri á fjórða áratug. Sennilega voru veðrahlutföll svipuð á hans tíma og síðustu 60 árin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 123
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 632
  • Frá upphafi: 2351423

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 549
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband