Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Veðurkortin í Morgunblaðinu - persónuleg minningarorð

Þann 1. desember 1959 fór Morgunblaðið að birta veðurkort sem sýndu loftþrýsting, þrýstikerfi, skilakerfi og veður í táknum. Þetta var mikill fengur fyrir veðuráhugamenn á sínum tíma og jók mjög áhuga og þekkingu almennings á samhengi veðurs og þrýstikerfa. Þessu var fram haldið þar til í nóvember 1967 að síðasta kortið birtist. Sagt var að veðurfregnir í sjónvarpi hafi drepið kortin en þar birtust svipuð kort daglega (nema á fimmtudögum og í júlí).

Þetta með sjónvarpið er sjálfsagt rétt, þar voru kortin líka nýrri og fengu allgóða kynningu í orðum veðurspámanns dagsins. Aftur á móti sáust sjónvarpskortin aðeins örstutta stund en kortin í Morgunblaðinu sjást enn. Þrátt fyrir þjónustuna í sjónvarpinu grétu nördin prentuðu kortin - og gráta víst sumir enn.

mbl301159

Þetta er fyrsta kortið (fengið af Morgunblaðinu á timarit.is). Því miður hefur sá sem teiknaði ekki kvittað fyrir það. Ýmsir veðurfræðingar teiknuðu kortin. Það er sem mig minni að blaðið hafi greitt eitthvað lítilræði fyrir, en gjaldið hafi runnið til tímaritsútgáfu veðurfræðinga, en þeir gáfu um þetta leyti út hálfs-árs ritið Veðrið. Það er einnig grátið sárlega.

mbl161167 

Ég held að þetta kort hafi verið það síðasta. Það birtist 17. nóvember 1967 og er merkt Páli Bergþórssyni. Kort hans þóttu sérlega skýr.

mbl160262

Ég fór að gefa þessum kortum gaum fyrir alvöru haustið 1961 en þá var margt um að vera í veðrinu. Í febrúar 1962 hófst síðan seta mín yfir kortunum og missti ég ekki af einu einasta þeirra allt til loka. Kortið hér að ofan, frá 16. febrúar 1962 var það fyrsta sem ég klippti út samdægurs með eigin hendi, en nokkrum eldri kortum tókst mér að nurla saman úr eldri blöðum.

Fullyrða má að kortin hafi mjög undirbúið jarðveginn fyrir sjónvarpsspárnar og menn sáu í fyrsta sinn hvernig þrýstikerfin hegðuðu sér frá degi til dags og einnig varð hugtakið veðraskil mun meira lifandi heldur en ella hefði orðið. Þegar ég fór að fylgjast reglulega með tók ég eftir því að háttur fræðinganna í greiningu kortsins var á ýmsa lund. Þeir litu veðrakerfin greinilega ekki sömu augum.

Margir sakna nú skilakerfa á sjónvarpskortum. Ég geri það að sumu leyti líka, en hef hins vegar gengið til alvarlegrar villutrúar varðandi slík fyrirbrigði. Gömlu Bergenskólakennarar mínir vildu nú sjálfsagt brenna mig á báli fyrir villuna. En það er önnur saga.

Veðrið 16. febrúar 1962 var reyndar mjög merkilegt. Sé kortið skoðað má sjá óvenju djúpa lægð yfir Svíþjóð. Hún beinir norðvestan ofsaveðri inn Norðursjóinn og að ströndum Austur-Englands, Niðurlanda, Þýskalands og Danmerkur. Í fyrirsögn í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar var þetta sagt versta veður á öldinni. Á fjórða hundrað manns drukknuðu í Hamborg og nágrenni og 100 þúsund mistu heimili sín tímabundið við Norðursjávarstrendur. Íslensk skip í Norðursjó löskuðust. Á Hjaltlandseyjum mældist vindhviða 154 hnútar. Menn hafa seinna dregið þá tölu eitthvað í efa en fárviðri var á stóru svæði í Norðursjó og nágrenni.

Daginn áður var óhuggulegt veður um sunnan- og austanvert Ísland. Mikið snjóaði í miklum bakka sem lá nærri suðvesturströndinni jafnframt því sem loftvog hríðféll. Það er oftast mjög ills viti ef loftvog hríðfellur í kalda loftinu bakvið lægðir. Ísland slapp þó að mestu í þetta sinn, útihús fuku í Neskaupstað og brakið skaddaði íbúðarhús. Aðrir fengu að kenna á illskunni.


Ólígósenskeiðið og kuldahvelið

Hvoru tveggja framandi nöfn. Ólígósenskeiðið hófst fyrir um 34 milljónum ára og lauk 11 milljónum árum síðar. Í upphafi skeiðsins urðu afdrifaríkar breytingar á veðurfari, einar þær mestu sem vitað er um. Í ensku hefur orðið aberration verið notað um nokkrar skyndibreytingar á veðurfari á nýlífsöld. Í ensk-íslenskri orðabók Máls og menningar eru þýðingar gefnar: 1. Frávik eða afbrigði frá því sem er rétt, heilbrigt, eðlilegt eða venjulegt. 2. Stundarbilun á geði, augnabliks óráð. Getum við þýtt þetta sem veðurlagsrof? Ég held það sé rétta orðið, veðurlagið rofnar skyndilega og eitthvað allt annað tekur við.

Í upphafi Ólígósen þykjast menn geta greint um 400 þúsund ara langt skeið sem var kaldara en öll önnur sem vitað er um næstu tugmilljónir ára á undan. Ekki er fráleitt að kalla það fyrsta jökulskeiðið þó sennilega hafi hiti þá verið svipaður og nú er. Miklu hlýrra var áður. Eftir þetta kaldasta skeið hlýnaði nokkuð aftur, en hiti hélst þó lágur mestallt Ólígósen og mun lægri en áður og eftir.

Um þessar mundir (þó alls alls ekki skyndilega) opnaðist djúphaf milli Ástralíu og Suðurskautslandsins og við það hætti hlýr hafstraumur úr norðri að gæla við austurhluta þess síðarnefnda. Sjávaryfirborð kólnaði þá mjög í suðurhöfum. Mikil umskipulagning virðist hafa orðið á hringrás heimshafanna og lífræn framleiðni sjávar jókst. Djúpsjór kólnaði um víða veröld (um 5 stig) og við það varð til eða styrktist mjög svokallað kuldahvel (psychrosphere) í höfunum og hefur það sennilega verið til samfellt síðar (sjá neðar). Djúpsjórinn hefur trúlega eingöngu orðið til í suðurhöfum.  

Jökulhvel mynduðust í fyrsta sinn á Suðurskautslandinu og svo virðist sem hin mestu þeirra hafi stóran hluta ólígósenskeiðsins verið litlu minni að heildarrúmmáli en nú er. Líklegt er þó að eðlið hafi ekki verið alveg hið sama. Þar sem sjávarhiti hélst talsvert hærri um mestalla jörð en nú er má telja líklegt að úrkoma á suðurskautsjöklum hafi verið talsvert meiri en nú og ekki var þar alveg jafnkalt.

Hér er talað um jökulhvelin í fleirtölu því nær fullvíst er að skiptst hafi á hlýskeið með engum hvelum, en aðeins háfjallajöklum, og kuldaskeið með talsvert stórum hvelum. Þetta er álíka gangur og hefur verið viðloðandi á norðurhveli um langa hríð. Engir jöklar að ráði voru á norðurhveli á Ólígósen nema háfjöllum. Undir lok skeiðsins gekk kólnunin að miklu leyti til baka og ís fór aftur að hverfa af Suðurskautslandinu. Skýringar eru ekki þekktar en á þessum tíma urðu miklar breytingar á landaskipan víða um heim.

Kuldahvelið

Heimshöfin eru nú mjög köld, jafnvel í hitabeltinu þar sem yfirborðssjór er mjög hlýr. Aðeins nokkur hundruð metra undir 27°C hlýju yfirborði er hitinn kominn niður í 10°C og neðar er hann ekki nema 1°C til 4°C. Þar sem hitinn fellur mest er kallað hitaskiptalag (thermocline). Undir því komum við niður í kuldahvelið sem ég kýs að kalla svo og er bókstafleg þýðing á orðinu psychrosphere.

Reikna má út að ef engin samskipti væru milli yfirborðs og undirdjúpa myndu hin síðarnefndu hlýna um 1°C á hverjum 6 þúsund árum vegna hitauppstreymis/leiðni úr jarðskorpunni. Tölur um hitastreymið eru að vísu nokkuð misvísandi en flestir virðast fallast á að það sé yfirleitt á bilinu 20 til 60 milliwött á fermetra þar sem hveravirkni er engin. Ef djúpin fengju að vera í friði myndu þau hitna í 10°C á nokkrum tugþúsundum ára. Kuldahvelið þarf því sífelldrar endurnýjunar við og er það kæling yfirborðs ásamt seltuskiljun við hafísmyndun sem sjá um þá endurnýjun.

Djúpsjór hefur verið að kólna hægt og bítandi mestalla nýlífsöld. Kuldahvelið hefur orðið sífellt öflugra.

Snjókomutíðni

Eftir gamla íslenska misseristímatalinu byrjar veturinn á laugardaginn kemur. Þá hefst fyrsta vika vetrar og jafnframt gormánuður. Ég hef minnst á það áður að sumardagurinn fyrsti og fyrsti vetrardagur kallast nokkuð á hvað meðalhita varðar. Hér sjáum við annað dæmi, snjókomutíðni.

Snjókomuathuganir

Myndin sýnir fjölda snjókomuathugana á landinu á löngu árabili á tímanum frá 1.júlí (lengst til vinstri á myndinni, til 30. júní (lengst til hægri). Blái ferillinn sýnir fjöldann frá degi til dags, en rauða línan er útjöfnun. Mánaðanöfnin eru sett við 16. dag hvers mánaðar. 

Snjókomutíðnin er í hámarki frá því rétt fyrir jól og fram undir lok mars. Hún rís hægar á haustin heldur en hún fellur á vorin. Smádæld virðist vera um mánaðamótin janúar og febrúar - varlega trúum við því.

Svört lína er sett nærri gildi dagsins í dag (19. október). Nú er snjókoma um það bil fimm sinnum líklegri heldur en fyrir mánuði, en um jól verður hún nærri þrisvar sinnum líklegri heldur en í dag. Við sjáum líka að það er í byrjun maí sem snjókoma verður aftur jafn (ó-)líkleg og er í dag. Nú eru fáeinir dagar til fyrsta vetrardags og í byrjun maí eru nokkrir dagar liðnir frá fyrsta sumardegi. Skiptir gamla tímatalið ekki árinu í tvennt á sannfærandi hátt hvað snjókomutíðni varðar? Það held ég nú.

 

 


Hvers megnug er sólin á októberdegi?

Sól lækkar mikið á lofti í október og í lok mánaðarins er skammdegið í nánd. Dægursveifla hitans er þó mjög greinileg og meiri í léttskýjuðu heldur en skýjuðu veðri.

 

oktober_d-sveifla

Myndin sýnir þetta. Ferlarnir sýna dægursveiflu hitans í Reykjavík í október 1997 til 2005. Blái ferillinn á við léttskýjað veður. Hiti er að meðaltali lægstur milli kl. 8 og 9 að morgni, um það leyti sem sólin kemur upp. Hann hækkar síðan nokkuð hratt og kl.15 er hann um 3,3 stigum hærri en um morguninn. Eftir kl. 16 fellur hann hratt. Taka má eftir því að kl. 24 er hann orðinn hátt i 1 stigi lægri en á miðnætti nóttina áður. Þrátt fyrir sólarylinn tapar loftið varma þegar sólarhringurinn er gerður upp.

Rauði ferillinn sýnir aftur á móti meðalhita í Reykjavík í alskýjuðu veðri í október. Athugið að hér á hægri kvarðinn við. Hver gráða er jafnstór á myndinni, en kvarðinn er 6 stigum hærri en lágmarkskvarðinn. Hér má sjá ógreinilegt lágmark um kl. 7. Síðan hækkar hitinn hægt og bítandi þar til klukkan 14, þá fellur hann hægt aftur til kvölds. 1,5 stigi munar á morgunlágmarki og hádegishita (munum að hádegi miðað við sól er um kl. 13:30 í Reykjavík). Kólnunar gætir ekki yfir sólarhringinn. Þótt sólin hafi hér áhrif (1,5 stig) eru áhrif hennar mun dempaðri heldur en í léttskýjuðu. Alskýjað veður er einkum í suðlægum vindáttum í Reykjavík og hár hiti því væntanlega aðstreymi suðlægs lofts að þakka, en skýjahulan dregur mikið úr varmatapi vegna útgeislunar.


Þegar jörðin leit út eins og snjóbolti

Fyrirsögnin ætti e.t.v. að vera: Hefur jörðin einhvern tíma litið út eins og snjóbolti? Um það er deilt, en margt virðist þó benda til þess að jöklar og hafís hafi náð vel inn í hitabeltið fyrir 600 til 900 milljónum ára. Hvort jörðin varð öll hvít er ekki vitað með vissu og ekki heldur hvort um eitthvað samfellt ástand hafi verið að ræða eða hvort það hafi gerst ítrekað.

Fyrir 40 til 50 árum var farið að reyna að herma geislunarjafnvægi lofthjúpsins í líkönum sem á vissan hátt eru einföld, en eru það samt ekki þegar nánar er skoðað. Í fyrstu líkönum af þessu tagi kom í ljós að hægt var að stilla geislunina og þá þætti sem ráða jafnvægi hennar þannig að hiti hélst nokkurn veginn í jafnvægi fyrir jörðina í heild eftir að tillit hafði verið tekið til eðlilegs endurskinshlutfalls og efnasamsetningar lofthjúpsins.

Ef fiktað var í endurskinshlutfallinu fór veðurfar að rása mikið til en hélst samt í aðalatriðum ekki fjarri því sem nú er. Væri endurskinshlutfallið hins vegar aukið upp í endurskinshlutfall snævar og íss kom í ljós að þar var líka annað jafnvægi, jörð hulin ísi og snjó. Þetta var auðvitað mjög athyglisvert fræðilega, en ekki talið mjög raunverulegt vegna þess að til að koma ástandi sem þessu á þarf fyrst umtalsverða minnkun á sólgeislun. Ef ástandið kæmist framhjá þeim hjalla gat það hins vegar haldið áfram við núverandi geislun frá sól. 

Menn hafa lengi vitað af miklum ísaldarskeiðum á fornlífsöld jarðar, um það eru jarðfræðilegar minjar. Yfirleitt tengjast þessar leifar þó breiddarstigum eðlilegrar jökulskjaldamyndunar, það er norður- og suðurslóðum. Einnig eru minjar um miklu eldri ísaldarskeið. Þar á meðal frá því fyrir 600 til  800 milljón árum eins og minnst var á að ofan. Fyrir rúmum 20 árum eða svo fór að koma í ljós að sumar minjarnar voru frá svæðum sem talin hafa verið staðsett nærri miðbaug. Þá vandast málið. Fyrsta mótbáran er auðvitað sú að þessi svæði hafi alls ekki verið nærri miðbaug á þessum tíma. Ekki er auðvelt að sanna hvernig horfin meginlönd hafi legið fyrir 600 milljón árum.

En - fleiri og fleiri virðast þó komast á þá skoðun að jöklar hafi eitt sinn komist nærri miðbaug. Líkön af þróun sólar benda til þess að hún sé hægt og bítandi að bæta í ofninn, um 1% á 100 milljónum ára. Fyrir 600 milljón árum hafi hún verið um 6% veikari en nú. Líkur á óðajöklun vaxa að mun nái ís inn að hvarfbaugum við daufari sól.

Þá kemur upp öfugt vandamál, nefnilega það að þrátt fyrir að sólin hafi verið enn daufari fyrir 3000 milljónum ára eru engin merki um óðajöklun þá. Hvað er þá í gangi? Björgunarlið er þá kallað til, okkar ágætu gróðurhúsalofttegundir. Ætlan manna er sú að koltvísýringur hafi verið miklu meiri en nú er fyrir 3000 milljónum ára og líka talsvert meiri en nú er fyrir 600 milljónum ára. Það mál er utan efnisins í pistli dagsins - ef til vill fjalla ég um það síðar (?).

Á ensku er aljöklaástandið kallað (hard) snowball earth. Mjög myndræn lýsing, alhvítur hnöttur speglandi megninu af sólgeislunum beint út í geiminn aftur, allt hvítt nema öskugeirar frá einhverjum eldfjöllum. Komist svona ástand á er hætt við að það verði viðvarandi. Reiknað hefur verið út að til að ná jörðinni út úr aljöklun með 6% lægri sólfasta en nú er þyrfti hundrað- til þúsundfalt núverandi koltvísýringsmagn. Þar sem ekkert getur bundið koltvísýring þegar lokað er á samskipti lofthjúpsins annars vegar og hafs og lands hins vegar safnast sá sem berst lofthjúpnum smám saman fyrir og setur bráðnun í gang um síðir.

Líklegra er talið að ísaldarskeiðið fyrir 600 til 900 milljón árum hafi verið mýkri gerð snjóbolta (krapabolti, slush eða soft snowball), en ekki aljöklun. Einhver hafsvæði hafi verið auð og þar að auki hafi þurr svæði langt inni á meginlöndum verið auð líka. Mun minna koltvísýringsmagn þar til að ljúka þannig ástandi. Snjóboltinn og aljöklunin verða væntanlega áfram til umræðu á næstu árum.

Flestar vísindagreinar um málefnið eru heldur tæknilegar en margs konar upplýsingar koma fram ef orðin snowball eartheru gúggluð. Efst á blaði er skínandi ítarleg grein á Wikipedia. Þar er miklu meira en ég kann.

Mér er kunnugt um eina bók fyrir almenning um málið og heitir hún einfaldlega Snowball Eartheftir Gabrielle Walker - nokkuð froðukennd bók en engu að síður er hún vel þess virði að vera lesin. Þar er m.a. fjallað um rannsókn jarðlaganna sem nefnd voru að ofan - athyglisverð lesning. Fæst fyrir nokkra dollara á Amazon. Sami höfundur skrifaði aðra bók sem mæla má með: An ocean of air. Þar er fjallað um nokkur atriði úr sögu loftslagsfræða. Þriðju bók höfundar mæli ég ekki með, en sú fjallar um hlýnun jarðar og gróðurhúsaáhrifin - ég skil ekkert í frú Walker eftir tvær ágætar bækur.

 

 

 


Tíðni illviðra af mismuandi vindáttum

Hægt er að flokka illviðri á áttir á ýmsan hátt. Hér eru fyrst valdir út dagar þar sem að minnsta kosti 15% athugana dagsins hafði vindhraða meir en 17m/s. Síðan var meðalvindátt (vigurvindur) reiknaður fyrir þessar athuganir. Niðurstöðunni skipt á 8 áttir áttavitans, n, na, a, sa, s, sv, v, nv. Þá kemur eftirfarandi mynd í ljós:

 Skipting_illividra-d8

Heildarfjöldi illviðra á árabilin 1949 til 2002 er settur 100 prósent. Við sjáum að nærri fjórðungur veðra er úr norðaustri (tvöfalt fleiri en slembival myndi gera). Bæði norðan- og austanveður eru einnig mörg: Suðvestanveður eru einnig algeng. Langsjaldgæfustu veðrin eru af norðvestri og suðaustri. Ég tel að við sjáum hér annars vegar áhrif Grænlands en vindur hefur tilhneigingu til að liggja samsíða ströndum þess en ekki þvert á þær. Og hins vegar hina norðaust-suðvestlægu legu fjallahryggja og dala á Íslandi.

Mikilla norðvestanstorma gætir helst allra norðaustast á landinu en þá sjaldan þau ná til annarra landshluta verða snjóalög óvenjuleg. Suðaustanátt er geysilega skæð á sumum svæðum landsins.


Eldgos og veðurfar - stutt yfirlit

Eldgos geta haft mikil áhrif á veðurfar til skemmri tíma, en til þess að svo megi verða þurfa þau að vera mjög stór eða „vel“ staðsett og helst hvoru tveggja. Langflest stór gos eru eru sprengigos. Þau dreifa miklu magni tiltölulega grófra gosefna í veðrahvolfið en gosefnin falla tiltölulega fljótt út og því er það lítið magn sem nær að breiðast yfir stórt svæði. Næst gosstað geta skammtímaáhrif á dægursveiflu hita og jafnvel úrkomu verið veruleg.

Mest áhrif hafa fín gosefni sem berast upp í heiðhvolfið. Þessi fínu gosefni eru smágert ryk, en einnig brennisteinssambönd margs konar. Sé gosið í hitabeltinu berast gosefnin um alla jörð á fáeinum mánuðum. Heiðhvolfið er ofan við veðrahvörfin sem eru hér á landi venjulega í 9 til 10 km hæð (stundum neðar - stundum ofar). Í hitabeltinu eru veðrahvörfin í 14 til 18 km hæð.

Eldgosið sem varð í Pinatubofjalli á Filippseyjum í júní 1991 var sennilega það stærsta á 20. öld. Mjög vel var fylgst með gosinu og afleiðingum þess. Öskuskýið sást vel hér á landi haustið eftir og blámi himinsins varð hvítgrár á annað ár. Sérkennilegur hringur (baugur Bishop - „biskupsbaugur“) sást um sólu. Heiðhvolfið var vel á annað ár að jafna sig og lítilsháttar kólnun varð í veðrahvolfinu.

Skaftáreldagosið 1783-84 var allt annars eðlis, sprengi- og gjóskuvirkni var lítil (miðað við stærð gossins) en framleiðsla brennisteinssambanda því meiri. Áhrif Skaftáreldagossins var því líkara því sem um stórfellda iðnaðarmengun væri að ræða, en slík mengun virðist lækka hita þar sem hennar gætir. Málið getur þó verið flóknara. Bestu lýsinguna á þessum þætti Skaftáreldagossins og afleiðingum þess um heiminn má lesa í grein eftir Þorvald Þórðarsson og Stephen Self, tilvitnun er hér að neðan.

Veðrahvolfsmengun getur haft áhrif á meginhringrás lofthjúpsins en þau eru flókin, t.d. bundin upprunabreiddarstigi mengunarinnar. Því þarf af herma hvert gostilvik fyrir sig í lofthjúpslíkani ef finna á óbein áhrif þess.

Allar eldfjallaafurðir sem berast í lofthjúpinn hafa einhver áhrif á geislunarbúskap hans. Það er af tvennum meginástæðum, annars vegar hækkar endurskinshlutfall lofthjúpsins í heild en hins vegar tekur heiðhvolfið til sín meiri geislunarorku heldur en venjulega. Þetta samanlagt veldur því að heiðhvolfið hitnar en veðrahvolfið kólnar.

Sé eldgosið í hitabeltinu hitnar heiðhvolfið þar meira en yfir heimskautasvæðunum. Þetta hefur þær lúmsku afleiðingar að vestanvindabeltin styrkjast. Þar með berst meira af hlýju lofti frá höfunum inn yfir meginlönd. Fyrsti vetur eftir stórt eldgos í hitabeltinu hefur því tilhneigingu til að vera hlýrri þar sem aukinna hafvinda gætir.

Sú skoðun er útbreidd og studd af geislunarlíkönum að tímabil tíðra stóreldgosa séu kaldari en skeið þegar eldvirkni er lítil. Yfirgripsmesta vísindagreinin um áhrif stórra eldgosa á veðurfar og mér er kunnugt um er eftir Alan Robock og er tilvitnun hér að neðan. Því miður er hvorug greinanna sem hér er vitnað í aðgengileg um landsaðgang (nema ágripið) þar sem þær eru úr safni ameríska jarðeðlisfræðisambandsins (AGU). Hægt er þó að gúggla þessa höfunda og greinarnar og má þá átta sig á flestu sem þar stendur.

Þessi pistill er uppkast að ívið ítarlegra svari við spurningu sem til mín var beint frá vísindavef H.Í. (Hvenær sem ég nú lýk við það).

Greinar:

Robock, A. (2000) Volcanic eruptions and climate REVIEWS OF GEOPHYSICS 38 2 s. 191-219

 

 

Thordarson, T, Self S. (2003) Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: A review and reassessment JOURNAL OF GEOPHYSICAL RESEARCH-ATMOSPHERESIssue: D1Article Number: 4011   Published: JAN 8 2003

 


Samanburður á illviðrum - almenn lausmælgi 2

Þegar listar um helsta tjón af völdum veðurs eru skoðaðir 140 ár aftur í tímann koma breytingar á tjónnæmi í ljós. Það hefur mjög breyst eftir mannfjölda, atvinnuháttum og samgönguvirkni. Sömuleiðis fer það eftir verðmæti eigna, frágangi þeirra, en einnig eftir stöðunni í björgunar- og slysavarnamálum.

Fyrir 140 árum eða svo voru miklar breytingar að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Í hinu eldra þjóðfélagi voru fénaðarhöld mikilvægari en flest annað. Mjög tilfinnanlegt tjón gat orðið vegna þess að fé hraktist til bana í hríðarbyljum á öllum árstímum eða í fóðurskorti í hörðum vorum. Sömuleiðis urðu oft miklir mannskaðar á sjó, sérstaklega á vetrarvertíðinni. Þau veður sem mestu tjóni ollu á þessum tíma myndu e.t.v ekki öll skora mjög hátt á veðralistum nútíma sem eingöngu byggjast á vindhraðamælingum.

Á síðari hluta 19. aldar jókst útgerð stórlega. Þá varð úthald í gangi lengri tíma ársins en áður hafði verið og bátar urðu stærri. Sömuleiðis jókst umferð kaupskipa við landið mjög. Þetta olli því að oft urðu nú miklir skaðar bæði á vondum hafnarlegum víða um land og mikið tjón varð á bátum á legum og í uppsátrum. Tjón vegna brima á haustin er mikið á þessum tíma.

Um 1900 varð algengara að farið var að hrófla upp hlöðum og byggingum úr timbri. Kirkjubyggingar urðu viðameiri. Fok á timburhúsum af öllu tagi verður áberandi og tjón oft mikið. Sjóskaðar halda áfram af engu minni tíðni en áður. Sumir þeirra eru reyndar ekkert tengdir veðri.

Samfara aukinni útgerð var farið að byggja bryggjur þó hafnaraðstaða væri léleg. Tjón á bryggjum og á húsum við þær vex samfara þessari þróun. Vetrarútgerð eykst um land allt, fleiri eru á bátum. Þrátt fyrir betri hlöðu- og útihúsabyggingar er tjón á slíkum húsum einnig mikið. Bárujárnsfok vex í beinu hlutfalli við aukningu bárujárnsnotkunar. Símalínur fara að slitna, því tíðar eftir því sem þær eru lengri. Rafmagnslínur bætast síðan við.

Þorp og þéttbýlisstaðir teygja sig út frá malareyrum og upp í hlíðar, við það vex skriðu- og snjóflóðatjón. Sambýli við ofanflóð virðist síðan hafa náð einhverju jafnvægi þar til ör vöxtur hljóp í byggingar eftir miðja öldina. Þá jókst það að nýju.

Á fyrri hluta aldarinnar er nokkuð algengt að menn verði úti. Fjölgun slíkra tilvika virðist ekki vera mikil - alla vega miðað við mannfjöldaþróun. Hrakningum fólks á bifreiðum fjölgar, bifreiðar teppast i hópum. Hrakningar í tómstundaleiðöngrum svosem skíðaferðum aukast.

Þótt framfarir yrðu snemma í hafnamálum virðast margar hafnir hafa verið illa varðar fram undir síðustu áratugi. Mikið var þá um tjón í höfnum þegar illviðri gerði. Bílar fóru að fjúka af vegum, ekki sér fyrir endann á aukningu slíkra atburða. Betri vegir auka hraða og umferð þannig að tjónnæmi gagnvart hvassviðrum hefur aukist talsvert miðað við það sem áður var. Bætt upplýsingagjöf mun þó vinna eitthvað á móti.

Miklar og kostnaðarsamar línuskemmdir upp úr 1970 ollu því að línuhönnun batnaði stórlega og tjón minnkaði. Þá urðu einnig mikil járnfoksveður sem ollu gríðarlegu tjóni, byggingastaðlar voru þá bættir. Það virðist hafa skilað einhverjum árangri.

Betri búnaður, slysavarnir og betri veðurspár fóru að skila árangri varðandi sjóslys og fækkaði þeim að mun þegar leið undir lok 20. aldar. Skipulögð viðbrögð voru hafin gegn ofanflóðatjóni. Mikil breyting varð til batnaðar í hafnamálum og hefur tjón í höfnum stórminnkað. Sóknarmynstur til sjávar hefur einnig breyst.

Spurning er því hvernig bera eigi saman norðanofviðri sem gerði t.d. í októberbyrjun 1896 við annað mikið veður í október 2004. Bæði ollu tjóni, fjárskaðar veigamestir 1896 en 2004 bar mest á járnplötufoki og miklum skemmdum á bifreiðum - hvorugt var til staðar 1896. Sauðfé miklu betur varið 2004.


Samanburður á illviðrum - almenn lausmælgi 1

Stundum fæ ég spurningar um hver séu mestu illviðri sem orðið hafa hér á landi. Jú, eitthvað má segja um það en sannleikurinn er sá að ekki er létt að bera þau saman - hlið við hlið. Eiga menn við þau verstu á einhverjum veðurfræðilegum kvarða eða eiga menn við þau verstu miðað við tjón? Hvor kvarðinn um sig er heldur ekki einfaldur. Landið hefur verið sæmilega þakið veðurathugunum í um það bil 80 ár þannig að svo má heita að hægt sé að gera samanburð um það tímabil, en eldri veður eru erfiðari viðfangs.

Tjónkvarði er heldur ekki einfaldur því tjón ræðst ekki aðeins af mætti veðursins heldur líka þoli þess eða næmi sem fyrir því verður. Fárviðri sem gengur yfir höfuðborgarsvæðið veldur því miklu meira tjóni heldur en veður af sama afli getur valdið á Langanesi. Búsetuþróun og breytingar á atvinnuháttum skipta einnig miklu máli. Skaðaveður eru þannig samsett úr tveimur þáttum, annars vegar hinum veðurlæga (styrkur, útbreiðsla, tímalengd) en hins vegar því sem ég kýs að kalla tjónnæmi (þau verðmæti sem fyrir veðrinu verða, ástand þeirra og afturbati).

Tjónnæmi kemur talsvert við sögu í umræðum um veðurfarsbreytingar. Stundum er því t.d. haldið fram að tíðni eða afl hitabeltisfellibylja muni aukast þegar fram líða stundir vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Ekki ætla ég að dæma um hvað rétt er í þeim efnum, en þær tölur sem nefndar eru virðast oft vera tilfærðar á einhverju prósentubili, t.d. 2 til 5% tíðniaukning á nokkrum áratugum. Látum það gott heita.

Þegar þróun tjónnæmis er skoðuð blasir málið öðruvísi við. Á velmektarárum þessarar aldar var hagvöxtur í heiminum gjarnan talinn vera um 2-3% á ári. Hagvöxtur á strandsvæðum sem næm eru fyrir fellibyljum var hins vegar um 8% á ári. Sjálfsagt hefur eitthvað slegið á þennan vöxt upp á síðkastið, en ekki þarf að framreikna mörg ár til að sjá að tjónnæmi á fellibyljaslóðum margfaldast á þeim tíma sem undir er þegar rætt er um tjón vegna aukinnar tíðni eða afls fellibyljanna sjálfra. Þess vegna virðist óhætt að spá margföldun á fellibyljatjóni í framtíðinni jafnvel þótt tíðni þeirra minnkaði. Fátt nema heimsefnahagshrun virðist geta komið í veg fyrir það.

Ég skipti nú þessum pistli í tvennt. Í þeim síðari eru vangaveltur um breytingar á íslensku tjónnæmi - í fortíðinni.  


Meir um hafís í norðurhöfum (2. lestur)

Þetta er reyndar allt of mikið efni fyrir bloggpistla, en það sakar varla að vera með nokkrar framhaldssögur í gangi. Fyrsti lestur hafísbálks Trausta var 19. september. Hefst nú annar lestur.

koch-trj_hafis 

Myndin sýnir norðurheimskautssvæðið. Síðla vetrar þekur hafís allt Norðuríshafið og þar að auki er þá mikill ís í Barentshafi, við Austur-Grænland og við Baffinsland og Labrador - suður til Nýfundnalands eða jafnvel lengra. Útbreiðslan á sumri er um eða innan við helmingur vetrarþekjunnar, hin síðari ár rúmlega þriðjungur.

Straumur ber ísinn þvert yfir norðurskautið frá svæðinu norður af Beringssundi og í átt að Framsundi. Einnig liggur straumur meðfram nyrsta hluta Grænlands til vesturs og suðvesturs meðfram Kanadísku heimskautaeyjunum og inn i hringstraum norður af Alaska. Þar heitir Beauforthaf.

Sumir muna e.t.v. eftir íseyjunni ARLIS II sem brotnaði upp undan Grænlandsströnd vestur af Íslandi snemmsumars 1965 og var talsvert í fréttum hér á sínum tíma. Þessi eyja hafði brotnað úr íssyllu við Ellesmereeyju 1955 að því er talið var. Árið 1961 var hún norður af Alaska og þá var komið fyrir vísindabúðum á eyjunni. Höfðu menn aðsetur á eyjunni fram undir það að hún brotnaði. Frá Alaska rak eyjuna til þess að gera hratt þvert yfir heimskautið. Önnur ámóta eyja sem brotnaði frá landi á svipuðum slóðum 1949 slapp ekki inn í þverstrauminn og hringsólaði í 30 ár í Beauforthringnum. Lesa má um íseyjamálin á netinu, t.d. hér. Arlis var næst Íslandi í um 80 sjómílna fjarlægð. Í ísnum á eyjunni var talsvert af grjóti frá Ellesmereeyju og ekki munaði svo miklu að það endaði hér.

Mikill ís berst í gegnum Framsundið og inn í Austur-Grænlandsstrauminn, í meðalári eru það um 2800 rúmkílómetrar (um 90 þúsund rúmmetrar á sekúndu) auk álíka magns ferskvatns.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 2343325

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 370
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband