Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Veik fyrirstaða - en heldur þó

Nú fer enn ein háloftalægðin til austurs fyrir sunnan land - skilakerfi hennar strandaði á veikri fyrirstöðu norður undan. Fyrirstaðan á uppruna sinn í tveimur hæðarhryggjum sem slitnuðu í sundur í vikunni sem leið. Lítum á norðurhvelskort sem gildir um hádegi á mánudag, 3.12.

w-blogg031212

Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins svartar og heildregnar, en þykktin er sýnd með litakvarða. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Upplausn kortsins batnar mjög við stækkun. Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan hvarfbaugs.

Heimskautaröstin hringar sig um mestallt norðurhvelið með bylgjum sínum (þéttar jafnhæðarlínur). Kuldinn er mestur yfir Síberíu og litlu minni kuldapollur yfir Kanadísku heimskautaeyjunum. Síberíupollurinn á síðar í vikunni að verpa eggi - sérstök lægð skilur sig út úr honum og gengur þvert yfir norðurskautið til liðs við Kanadakuldann og styrkir hann.

Fyrir sunnan Ísland er veik háloftalægð - hún fer til austurs fyrir sunnan land og eyðist, styrkir reyndar kuldann við Noreg í leiðinni og dregur hann til suðurs. Slóði af hlýju lofti er ennþá yfir Íslandi (grænt aflangt svæði). Þetta hlýja loft lyftist trúlega og hverfur þar með úr sögunni en ívið kaldara loft streymir að úr báðum áttum.

Lægðin djúpt suðaustur af Nýfundnalandi er býsna öflug, það sjáum við af því að tunga af hlýju lofti stingur sér inn í háloftalægðina. Sameiginlega hafa þessi lægð og fyrirstaðan fyrir norðan Ísland stíflað greiðan gang lægðakerfa úr vestri.

Þetta ástand mun eiga að halda áfram - kuldapollurinn vestan Grænlands nær ekki taki - en sendir stuttar bylgjur austur fyrir sunnan Ísland - bæði á miðvikudag og föstudag - en hvorug nær að hnika við fyrirstöðunni. Mörkin milli stuttra og langra bylgja eru ekki endilega skýr en ef miðvikudagsbylgjan hegðar sér eins og nú er spáð má sýna hvað átt er við með stuttri bylgju á heimskautaröstinni.

Ef og þegar Síberíukuldapollurinn lánar Kanadapollinum meira fóður gætu breytingar farið að eiga sér stað. 


Munur á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita dagsins - taka tvö

Enn ein nördafærslan. Fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um mun á (spönn) hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita allra veðurstöðva á landinu. Seint á kvöldin geta menn séð á vef Veðurstofunnar hver hann var þann sama dag. Að vísu þarf að bera saman tvær tölur og reikna muninn.

Þegar tala er fengin er hún auðvitað merkingarlítil fyrr en hún er sett í samhengi við spönnina aðra daga - er hún óvenjuleg - eða bara eitthvað sem oftast er? Þá er þörf á að stika eða norma væntingarnar (?). Gerum það fyrir desembermánuð með því að líta á mynd. Hún sýnir talningu á spönninni - miðað er við allar hefðbundnar sjálfvirkar veðurathugunarstöðvar landsins (hálendi jafnt sem láglendi) og tímabilið 1998 til 2011.

w-blogg021212

Lárétti ásinn sýnir spönnina í gráðum, en sá lóðrétti sýnir fjölda daga. Línuritið þá. hversu margir dagar 14 desembermánaða hafa fallið á hvert hitabil. Við tökum strax eftir því að meðalspönnin er 20 stig, sú mesta 33 stig en sú minnsta 11 stig. Tveggja fimmtungamarka er einnig getið.

Fimmtungamörk - hvað er það? Þau eru reiknuð þannig að safninu er skipt í fimm hluta eftir stærð spannar. Sá fimmtungur sem inniheldur lægstu 20% af safninu er eðlilega kallaður lægsti fimmtungur þess. Efsti fimmtungurinn inniheldur hæstu 20% safnsins. Fimmti hver dagur í desember er því undir 16,7 stigum í landsspönn hita og fimmti hver yfir 24 stigum.

Nú vitum við hvað er venjulegt og hvað er óvenjulegt í desember. Það hlýtur að teljast óvenjulegt ef spönnin er ekki nema 11 eða 12 stig og sömuleiðis ef hún er 32 stig eða meira. Nú er það svo að ekki er alveg víst að þessi tölfræði sé skotheld - ýmsar ástæður má nefna - en við látum það eiga sig - heilsunnar vegna.

En samt vakna nokkrar spurningar. Hvers vegna fer talan ekki niður fyrir 11? Í hvers konar veðurlagi væri það hugsanlegt? Hvað gerist við aukin gróðurhúsaáhrif?


Suðaustanstormur - en lægðin víðs fjarri

Landsuður er annað nafn á suðaustri. Þegar hvasst er af suðaustri með rigningu (eða slyddu) á Vesturlandi er talað um landsynningsveður. Hægt er að flokka þessi illviðri í nokkrar undirtegundir. Én við lítum á veðurkort dagsins, það gildir á miðnætti á laugardagskvöldi 1. desember.

w-blogg011212

Þetta er svokallað grunnkort (þarf að taka það fram?). Á því eru jafnþrýstilínur við sjávarmál heildregnar á 4 hPa-bili. Úrkomusvæði eru græn - misgræn eftir úrkomumagni síðustu 6 klukkustundir. Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum - en veðurfræðingar notast gjarnan við mínus 5 stiga línuna sem greini á milli rigningar og snjókomu. Sjá má að einmitt sú lína liggur í einhverju kruðeríi við Vesturland á þessu korti - enda veðurfræðingar nokkuð óvissir um hvar og hvenær snjókomunni eða slyddunni fremst í úrkomusvæðinu lýkur og rigningin byrjar.

Lægðin sem stýrir þessu er að grynnast skammt suður af Hvarfi á Grænlandi, 973 hPa eru við lægðarmiðju. Hún var miklu dýpri í dag (föstudag) og fór niður undir 950 hPa. Skil lægðarinnar halda þó áfram - en hægja á sér. Áður en tölvuspár urðu jafngóðar og nú er var venja að reikna framrásarhraða skilanna með því að áætla vindhraða hornrétt aftan á þau. Þegar lægðir grynnast fækkar þeim þrýstilínum bak við skilin ört og hornrétti vindhraðinn minnkar.

Á þessu korti er smáafbrigði. Annað úrkomusvæði er um það bil miðja vegu milli Íslands og Hvarfs. Það hefur meiri vind í bakið (fleiri hornréttar þrýstilínur) og dregur því fyrra úrkomusvæðið uppi. Þetta tefur framrás þess fyrra og framlengir landsynninginn. Þegar hvorki voru gervihnattamyndir eða tölvuspár var nánast ómögulegt að sjá tvö úrkomusvæði í stöðu sem þessari. Biðin eftir því að landsynningurinn gengi niður gat því orðið ansi trekkjandi í heljarstormi og rigningu.

Vilji menn setja niður skilatákn á kortið er úr vöndu að ráða (auðvitað). - Of seint virðist að senda hreinsideild Björgvinjarskólans á vettvang.

Eiginlega var ætlunin að fjalla hér um tvær tegundir landsynningsveðra (af fleirum). Við nefnum þær en látum skýringar koma síðar - það verða víst næg tækifæri til þess því seint verður lát á veðrum af þessu tagi.

Í annarri tegundinni hagar þannig til að vindátt í neðsta hluta veðrahvolfs en önnur heldur en í því miðju og þar ofan við. Vindáttarsnúningurinn er þá sólarsinnis eftir því sem ofar dregur og það þýðir að aðstreymi af hlýju lofti er í fullum gangi. Algengast er í þessari stöðu að hámarksvindhraði í lóðréttu sniði sé mestur niðri í jaðarlaginu, 500 til 1500 metra yfir sjávarmáli en nokkru minni - eða jafnvel mun minni ofar. Hámarkið er þá óformlega kallað lágröst. Orðið hljómar ekki vel en verður að notast þar til eitthvað skárra birtist.

Hin tegundin er þannig að vindátt er samsíða í mestöllu veðrahvolfinu (aðeins trufluð af fjöllum og núningi) - landsynningur uppi og niðri. Oftast er vindhraði þá mestur ofarlega - en annað hámark niðri í fjallahæð þar sem landslag þvingar vindinn. Fyrra úrkomusvæðið í þessari lægð er klárlega af fyrri gerðinni - en meira vafamál með það síðara.


Litið á heimskautaröstina - á laugardaginn

Til tilbreytingar lítum við nú á norðurhvelskort sem sýnir hæð 300 hPa-flatarins - sá er talsvert ofar en í hinn heilagi 500 hPa-flötur þar sem við erum venjulega á ferð. Grunnur kortsins er sá sami og á hinum „venjulegu“ norðurhvelskortum - en það lítur í fljótu bragði talsvert öðru vísi út. Kortið skýrist að mun við smellistækkun og er mælt með því að það sé skoðað þannig kannist menn ekki við sig. Kortið er úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir á hádegi á laugardag, 1. desember.

w-blogg301112

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar. Örsmáar tölur sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Línan sem snertir suðurhluta Kúbu sýnir 9600 metra, en lægsta jafnhæðarlínan er næst miðju kuldapollsins yfir Síberíu og markar 8280 metra.

Á kortinu eru líka litlar vindörvar, þær benda með vindáttinni og eru því fyrirferðarmeiri eftir því sem vindur er hvassari. Til að auðvelda lesturinn eru svæðin þar sem vindurinn er mestur lituð - kvarðinn er til hægri við myndina og sést hann auðvitað betur við stækkun.

Litasvæðin hafa svipað form - eru pulsu- eða bananalaga utan í hryggjum og lægðardrögum. Á myndinni sjást tvær meginvindrastir, með því að tengja pulsurnar lauslega saman kemur heimskautaröstin í ljós. Hún hringar sig um norðurhvelið - ekki alveg samfellt en með miklum sveigjum norður og suður á bóginn - beinlínis öldugangur. Hún er sterkust þar sem veðrahvörfunum hallar mest.

Við sjáum ekki mjög mikið af hinni röstinni en við kennum hana lauslega við hvarfbaugana - hvarfbaugaröstin nyrðri er hér á ferð (heitir „subtropical jet“ á ensku). Í henni er vindur mestur ofar í lofthjúpnum en hesið teygir sig hér niður í 300 hPa yfir Norður-Afríku og annað hes er yfir Indlandi og Himalayafjöllum. Hes birtist stundum líka yfir Karíbahafi eða þar austur af - og sæist reyndar á þessu korti ef við notuðum liti niður í minni vindhraða en hér er gert.

Það er e.t.v. nokkuð sérviskulegt en ritstjórinn hallast að því að nota orðið „skotvindur“ um pulsurnar í stað þess að nota það orð um alla heimskautaröstina og sumir gera. Skotvindur er samkvæmt þessari orðanotkun þýðing á því sem á ensku er kallað „jet streak“. Hungurdiskar hafa reyndar áður fjallað um rastir og skotvinda í gömlum pistli.  

En víkjum aftur að kortinu. Mikill hæðarhryggur er við Ísland og hefur hann hér tekið við af hæðarhrygg þeim sem fjallað var um í nokkrum pistlum á þessum vettvangi fyrr í vikunni. Hlýtt loft teygir sig þar til norðurs hátt í lofti. Skotvindurinn suðaustur af Grænlandi hreyfist með hryggnum í austsuðaustur til Bretlandseyja, nærri því þvert á vindstefnuna. Eins fer því fyrir þessum hrygg eins og þeim næsta á undan - hann slitnar í sundur.


Mikill munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki dagsins (28. nóvember)

Á vef Veðurstofunnar má á hverjum degi sjá yfirlit yfir hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita sem mælst hefur á sjálfvirkum stöðvum á landinu þann dag. Sömuleiðis síðasta klukkutímann.

Skipt er um sólarhringa eftir athugun kl. 24 og byrjað að telja upp á nýtt. Athugunin kl. 24 er talin sú síðasta á sólarhringnum en ekki merkt kl. 00 þann næsta. Ástæður eru tvær - önnur er sú að athugunin kl. 24 nær strangt tekið yfir tímann 23:50 til 24:00 - en hin er sögulegs eðlis. Mikið er þrýst á að þessu verði breytt, 24 í dag verði kl. 00 á morgun - alþjóðavæðingin í öllu sínu veldi - sókn í átt til framtíðar (1 sekúnda). Sjálfsagt verðum við einn daginn búin að samþykkja þessa breytingu án þess að vita af því. Er það í stíl við reglugerðahríðina sem stöðugt stendur að utan og virðist lítið við að gera. Tugabrotakomman mun fljótlega fara sömu leið og hinn alþjóðlegi (les: ameríski) punktur taka við - okkur er sagt að skiptin séu skynsamleg - svo hlýtur því að vera. En hættum þessu fjasi og lítum á tölur.

Í dag (28. nóvember) mældist hæsti hámarkshiti dagsins við Blikdalsá (eða Blikadalsá), 10,5 stig, en lægsta lágmarkið í Möðrudal -15,7 stiga frost. Munurinn er 26,2 stig. Hæsti hiti á almennri sjálfvirkri stöð mældist 9,0 stig á Lambavatni á Rauðasandi og í Hvammi undir Eyjafjöllum, 24,7 stigum ofan við lágmarkshitann í Möðrudal.

Einhvern veginn er tilfinningin sú að þetta sé óvenju mikið. En er það svo? Talning var gerð á tilvikum sem þessum síðustu 12 árin og í ljós kom að munur á lægsta lágmarki og hæsta hámarki hefur 506 sinnum mælst meiri en 24 stig, rúmlega 40 sinnum á ári að meðaltali, tíunda hvern dag (gróflega).

Algengast er þetta að vetrinum og fram eftir vori. Það er apríl sem á flest tilvikin síðustu 12 árin, 76 talsins (rúmlega 8 sinnum á ári að jafnaði). Það hefur hins vegar aðeins einu sinni gerst í ágúst á þessu tímabili að munað hafi meira en 24 stigum á hæsta hámarki og lægsta lágmarki dagsins.

Ef til vill gefst tækifæri til þess síðar að gera betri grein fyrir árstíðasveiflu og fleiru varðandi mun á hæsta hámarki og lægsta lágmarki. Hér skal þó upplýst að munurinn var aðeins 6 sinnum minni en 12 stig og aldrei minni en 10 á tímabilinu 2001 til 2012 og 23 sinnum meiri en 32 stig. Taka skal fram að þessar tölur eru allar án heilbrigðisvottorðs. Það hefur frést frá nágrannalöndum að nú taki meiri tíma að gefa út heilbrigðisvottorð veðurathugana heldur en að vinna úr þeim að öðru leyti. - Jæja - þetta eru e.t.v. dálitlar ýkjur en samt var forstjóri norsku veðurstofunnar að kvarta í opnu bréfi á vef hennar fyrir um það bil viku eða svo. Taldi hann vottunaræði vera farið að koma niður á gæðum veðurspáa þar í landi. Excelbólgan (excelitis) lætur ekki að sér hæða en hún er hægfara, ævirkur, framsækinn sjúkdómur og virðist engin lækning vera til - því miður.  


Slitinn sundur

Enn er fylgst með hæðarhryggnum (ómerkilega). Kort dagsins sýnir enn spá einn og hálfan sólarhring fram tímann (frá birtingu pistilsins).

w-blogg281112

Kortið sýnir mikinn hluta norðurhvels jarðar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, en þykktin er sýnd með litakvarða. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Greina má útlínur Íslands nærri efsta hluta rauðu strikalínunnar. Kortið skýrist að mun við stækkun.

Háhryggurinn er merktur með rauðri strikalínu og við sjáum með samanburði við kortið í pistlinum í gær að hann hefur sveigst mjög til austurs fyrir sunnan land - en aftur á móti er hefur norðurendinn hreyfst lítið úr stað. Línan sem markar hæðina 5460 metra hefur nú slitnað í sundur og sérstök hæð myndast í norðurenda hryggjarins - slitin frá syðri hlutum hans. Norðurhlutinn gengur að mestu inn í fyrirstöðuhæðina veiku við norðurskautið.

Lægðardragið (blámerkt) vestur undan hefur keyrt á hrygginn og er í hálfgerðri þröng á milli hans og nýja hryggjarins sem lægðardragið við austurströnd Kanada (líka blámerkt) er að ýta upp á undan sér jafnframt því að það dýpkar. Ekki er ólíklegt að nýi hryggurinn slitni líka i sundur á svipaðan hátt og hinn fyrri.

Milli hryggjar og drags er allhvöss suðaustanátt. Þegar hryggurinn slitnar gefur hún eftir og við tekur óráðin vindátt og veður - eftir því hvort hefur betur - hálfdauður hæðarhryggurinn eða leifarnar af lægðardraginu. Þegar komið er í vesturhlíð nýja hryggjarins hvessir aftur af suðaustri - ef trúa má spám verður það á laugardag/sunnudag.  


Fylgst með hæðarhryggnum

Við fylgjum þróun hæðarhryggjarins eftir í dag með því að líta á spá sem gildir um hádegi á miðvikudag. Kortagrunnurinn er sá sami og í gær og sýnir kortið hæð 500 hPa-flatarins (svartar, heildregnar línur) og þykktina (lituð svæði). Kortið batnar að mun við tvöfalda smellistækkun en það er eins og oftast úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg271112

Háhryggurinn er merktur með rauðri strikalínu. Hann hefur hér svignað talsvert mót austri, nyrðri endinn hefur á sama tíma færst lítið úr stað. Þessi hæðarhryggur er í sjálfu sér ekkert merkilegur umfram aðra en er nokkuð gott dæmi um mjóan hrygg sem slitnar í sundur - en það sjáum við ekki fyrr en á morgun - í spá sem gildir á fimmtudag. Lægðardragið sem sér um klippinguna er merkt með bláu striki skammt vestur af því rauða.

Næsta lægðardrag er blámerkt vestur yfir Ameríku. Það á að endurnýja hrygginn sundurklippta - aðeins austar heldur en hryggurinn okkar myndaðist. Þá er spurning hvort sagan endurtekur sig með nýrri klippingu eða hvort sá hryggur hneigir sig einfaldlega til austurs og hleypir lægðagangi að.

Fleira markvert má sjá á kortinu. Fyrirstöðuhæðin veiklulega er enn við norðurskautið og kuldapollarnir tveir (þeir ógurlegu) hafa heldur styrkst (fjólublái liturinn eykur umfang sitt í þeim báðum). Lokuð háloftalægð er orðin til yfir Miðjarðarhafi - með miklu leiðindaveðri. Þar eru víða aðvaranir í gildi um úrhellisrigningu, þrumuveður, snjókomu og vind - bara að nefna það. En engin af veðurstofunum á þeim slóðum gerir þó ráð fyrir aftökum - en þau eru táknuð með rauðri málningu á vefsíðunni góðu meteoalarm.eu sem forfallin veðurnörd fylgjast auðvitað með daglega.

Viðbót sólarhring síðar: Í frumgerð pistilsins var meinleg villa í titiltexta myndarinnar - hann hefur nú verið leiðréttur. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.  


Hæðarhryggur tekur við

Nú (um miðnætti sunnudagskvöldið 25. nóvember) er hæðarhryggur að koma úr vestri inn yfir landið. Hann mun ráða veðri næstu daga en ekki er enn vitað hversu lengi.

Hæðarhryggjum af þessu tagi fylgir yfirleitt meinlaust veður - jafnvel nokkuð hlýtt. Þunnt lag af köldu lofti yfir landinu mun þó þrjóskast við eins og venjulega í hægum vindi. Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um 500 hPa hæð og þykkt á mestöllu norðurhveli um hádegi á þriðjudaginn (27. nóvember).

w-blogg261112

Ísland er við efri enda grænu strikalínunnar en hún sýnir háhrygginn sem liggur langt sunnan úr höfum og í átt til Norður-Grænlands. Veik en þrálát fyrirstöðuhæð er yfir norðurskautinu og skiptir kuldanum á norðurhveli í tvennt. Gríðarlegir flatbotna kuldapollar eru yfir Norður-Kanada og Síberíu. Kuldinn í þeim miðjum er þó ekkert sérlega mikill miðað við hnattstöðu og tíma árs.

Nokkrar bylgjur eru á ferð vestan hryggjarins - ein alla vega milli Nýfundnalands og Suður-Grænlands og önnur við vötnin miklu í Bandaríkjunum. Þær munu reyna að hnika hryggnum til austurs - en þegar þetta er skrifað er talið líklegast að þær slíti hann í sundur - en slitni jafnframt í sundur sjálfar. Þau átök verða síðar í vikunni og þá skiptir máli fyrir veðrið hér á landi hvar slitin verða.


Tíu ára mánaðameðaltölin - nýi og gamli tíminn

Nú lítum við á 10-ára keðjumeðaltöl hita almanaksmánaða í Stykkishólmi á sama hátt og 30-ára meðaltölin voru tekin fyrir í fyrri pistli.

Enn eru janúar og október teknir fyrir sem sýnidæmi.

w-blogg251112

Tíu ára meðalhiti í janúar er nú um þessar mundir vel fyrir ofan það hæsta sem hann var á hlýindaskeiðinu mikla 1925 til 1964 - rétt eins og í 30-ára meðaltalinu. Október hefur enn ekki náð fyrri hæðum - og talsverðu munar. Samt er hann nokkuð hár miðað við enn eldri tíma. Fyrsta tíu ára meðaltalið á myndinni er frá árunum 1823 til 1832.

Ýmis konar skemmtileg smáatriði koma fram. Til dæmis voru janúarmánuðir áranna 1975 til 1984 sameiginlega fullt eins kaldir og bræður þeirra á 19. öld - en þetta stóð stutt. Við sjáum líka að október kom mun seinna inn í hlýindin eftir 1920 heldur en janúar. Þrátt fyrir undirliggjandi hlýnun geta komið margra ára mjög köld tímabili - líka í næstu framtíð.

Eins og síðast skulum við bera saman hæstu gildi nýja og gamla tímans fyrir alla almanaksmánuðina. Í keppninni um hæstu 30-ára gildin er staðan: 8 - 1 - 3 gamli tíminn heldur enn hæstu gildunum í átta af mánuðum ársins en sá nýi þremur, í einum mánuði er staðan jöfn.

w-blogg251112b

Nýju tíu ára meðaltölin standa sig betur, þau eru hærri í 8 mánuðum ársins en þau gömlu. Það eru maí, september, október og nóvember sem enn sitja eftir í keppninni. Í sex tilvikum er tímabil sem endar á árinu í ár (2003 til 2012) í hæsta sæti, en í tveimur (júní og desember) er það tímabilið 2001 til 2010 sem á hæsta gildið. Staðan 4 - 8.

Á næsta ári (2013) detta mánuðir ársins 2003 út úr tíu ára meðaltalinu - það var sérlega hlýtt ár og því er líklegt að eftir eitt ár standi 2003 til 2012 enn með sín sex gildi í metsætinu en 2004 til 2013 verði aðeins neðar.

Þrjátíu ára meðaltölin eiga hins vegar mjög góðan möguleika á að vera slegin enn á ný á næsta ári. Júlímánuður, sem jafnaði eldra met nú í ár, keppir á næsta ári við hinn illræmda júlí 1983 sem við vonum svo sannarlega að fari ekki að endurtaka sig. Þá var meðalhiti í Stykkishólmi 8,7 stig, en var 11,8 síðastliðið sumar. En veðrið getur tekið upp á nærri því hverju sem er.


Nærri miðju lægðar sem grynnist

Nú (föstudagskvöld 23. nóvember) er stór og til þess að gera flatbotna lægð að grynnast yfir landinu eða í nágrenni við það. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð og iðu í 500 hPa-fletinum um hádegi á laugardag (24. nóvember) auk þykktarinnar (500/1000 hPa).

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og iðan er mörkuð með bleikgráum tónum.

w-blogg241112

Lægðarsvæðið nær yfir mestallt kortið og enga lægðarmiðju að sjá utan aðalmiðjuannar við Ísland. Sem stendur hreyfist hún til norðausturs og grynnist ört. Suðaustan við lægðarmiðjuna er ákveðin suðvestanátt í 500 hPa, um 15 m/s næst Íslandi en meiri þar utar. Við sjáum að jafnþykktarlínur eru fáar og enn lengra er á milli þeirra heldur en jafnhæðarlínanna. Það þýðir að háloftasuðvestanáttin nær lítt trufluð til jarðar.

Nú kemur erfið rulla sem alloft hefur verið farið með á hungurdiskum - og á vonandi eftir að fara margoft með í framtíðinni. Þeir sem ekki vilja í kvörnina geta hætt að lesa og snúið sér að öðru - eða hoppað sér að skaðlitlu yfir næstu málsgrein.

Rifjum upp reglu: (i) Sé hæðarbratti lítill og þykktarbratti það líka er vindur hægur við sjávarmál. (ii) Sé hæðarbratti mikill en þykktarbratti miklu minni er mjög hvasst við sjávarmál og fylgir sá vindur stefnu háloftavindsins. (iii) Sé þykktarbratti mikill en hæðarbratti miklu minni er líka mikið hvassviðri við jörð. (iv) Séu þykktar- og hæðarbrattar hvorir tveggja miklir þarf að fara að hugsa - því þeir annað hvort upphefja hvorn annan (miklu, miklu algengara) eða hjálpast að við að búa til ógnarhvassviðri við sjávarmál. Kortið að ofan er sýnidæmi um ástand (i) - aðeins litað af ástandi (ii).

Á kortinu má sjá tvo iðuhnúta  sem eiga að angra Breta um helgina. Annar er á kortinu yfir Biskaíflóa norðanverðum. Honum fylgir mjög öflug lægð sem breskir veðurfræðingar hafa haft áhyggjur af - ekki síst vegna þess hversu misjafnlega krassandi hún hefur verið í spám. Vonandi fer það vel. Hinn hnúturinn er í lægðardragi suðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Lægðardragið er á leið til suðausturs og mun snúast upp í aðra lægð - ekki jafnkrappa og þá fyrri - en blauta á haus og hala, jafnvel suður við Miðjarðarhaf.

Á okkar slóðum er gert ráð fyrir því að hæðarhryggurinn vestan Grænlands rísi upp og komi til okkar. Sumar spár gera jafnvel ráð fyrir því að úr verði meðalsterk fyrirstöðuhæð sem þá myndi vernda okkur gegn illviðrum í nokkra daga - en það er e.t.v. óskhyggja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 126
  • Sl. sólarhring: 410
  • Sl. viku: 1835
  • Frá upphafi: 2484097

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1641
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband