Suðaustanstormur - en lægðin víðs fjarri

Landsuður er annað nafn á suðaustri. Þegar hvasst er af suðaustri með rigningu (eða slyddu) á Vesturlandi er talað um landsynningsveður. Hægt er að flokka þessi illviðri í nokkrar undirtegundir. Én við lítum á veðurkort dagsins, það gildir á miðnætti á laugardagskvöldi 1. desember.

w-blogg011212

Þetta er svokallað grunnkort (þarf að taka það fram?). Á því eru jafnþrýstilínur við sjávarmál heildregnar á 4 hPa-bili. Úrkomusvæði eru græn - misgræn eftir úrkomumagni síðustu 6 klukkustundir. Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum - en veðurfræðingar notast gjarnan við mínus 5 stiga línuna sem greini á milli rigningar og snjókomu. Sjá má að einmitt sú lína liggur í einhverju kruðeríi við Vesturland á þessu korti - enda veðurfræðingar nokkuð óvissir um hvar og hvenær snjókomunni eða slyddunni fremst í úrkomusvæðinu lýkur og rigningin byrjar.

Lægðin sem stýrir þessu er að grynnast skammt suður af Hvarfi á Grænlandi, 973 hPa eru við lægðarmiðju. Hún var miklu dýpri í dag (föstudag) og fór niður undir 950 hPa. Skil lægðarinnar halda þó áfram - en hægja á sér. Áður en tölvuspár urðu jafngóðar og nú er var venja að reikna framrásarhraða skilanna með því að áætla vindhraða hornrétt aftan á þau. Þegar lægðir grynnast fækkar þeim þrýstilínum bak við skilin ört og hornrétti vindhraðinn minnkar.

Á þessu korti er smáafbrigði. Annað úrkomusvæði er um það bil miðja vegu milli Íslands og Hvarfs. Það hefur meiri vind í bakið (fleiri hornréttar þrýstilínur) og dregur því fyrra úrkomusvæðið uppi. Þetta tefur framrás þess fyrra og framlengir landsynninginn. Þegar hvorki voru gervihnattamyndir eða tölvuspár var nánast ómögulegt að sjá tvö úrkomusvæði í stöðu sem þessari. Biðin eftir því að landsynningurinn gengi niður gat því orðið ansi trekkjandi í heljarstormi og rigningu.

Vilji menn setja niður skilatákn á kortið er úr vöndu að ráða (auðvitað). - Of seint virðist að senda hreinsideild Björgvinjarskólans á vettvang.

Eiginlega var ætlunin að fjalla hér um tvær tegundir landsynningsveðra (af fleirum). Við nefnum þær en látum skýringar koma síðar - það verða víst næg tækifæri til þess því seint verður lát á veðrum af þessu tagi.

Í annarri tegundinni hagar þannig til að vindátt í neðsta hluta veðrahvolfs en önnur heldur en í því miðju og þar ofan við. Vindáttarsnúningurinn er þá sólarsinnis eftir því sem ofar dregur og það þýðir að aðstreymi af hlýju lofti er í fullum gangi. Algengast er í þessari stöðu að hámarksvindhraði í lóðréttu sniði sé mestur niðri í jaðarlaginu, 500 til 1500 metra yfir sjávarmáli en nokkru minni - eða jafnvel mun minni ofar. Hámarkið er þá óformlega kallað lágröst. Orðið hljómar ekki vel en verður að notast þar til eitthvað skárra birtist.

Hin tegundin er þannig að vindátt er samsíða í mestöllu veðrahvolfinu (aðeins trufluð af fjöllum og núningi) - landsynningur uppi og niðri. Oftast er vindhraði þá mestur ofarlega - en annað hámark niðri í fjallahæð þar sem landslag þvingar vindinn. Fyrra úrkomusvæðið í þessari lægð er klárlega af fyrri gerðinni - en meira vafamál með það síðara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Bretarnir fara létt með skilin! http://brunnur.vedur.is/kort/ukmo/2012/12/01/18/ukmo_nat_fax.html

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2012 kl. 19:58

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Bretum er ætíð treystandi (að þessu leyti)?

Trausti Jónsson, 2.12.2012 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 1344
  • Frá upphafi: 2349813

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1223
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband