Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Enn í verndarhringnum

Eins og kom fram í pistli á hungurdiskum í gær ræður risastór lægð suður í hafi veðri á öllu Atlantshafi norðanverðu og gerir það næstu daga. Sá hluti skilakerfis hennar sem liggur norðan lægðarmiðunnar nær þó trauðla til landsins því vindar blása að mestu samsíða því. En meira er að gerast sunnan og austan í lægðinni þar sem kalt loft frá Kanada nær að skafa upp hlýrra loft úr suðri og senda í átt til Bretlandseyja og síðar meginlands Evrópu.

Hér á landi er að mestu meinlaust veður - en ansi kalt þó inn til landsins í hægu bjartviðri. En svipaðar lægðir og þessi valda oft illviðrum hér á landi - en þurfa þá að ná í heimskautaloft úr norðri til að búa til þann þykktarbratta sem nauðsynlegur er til að keyra upp vindinn. Háloftahlýindi fyrir norðan land koma í veg fyrir að það verði í bili að minnsta kosti. Við lítum á spá um 500 hPa hæð og þykkt sem gildir um hádegi á föstudag (14. desember).

w-blogg131212

Ef vel er að gáð má sjá Ísland fyrir neðan miðja mynd. Skandinavía ætti einnig að sjást sæmilega á myndinni. Annars er táknmálið hefðbundið, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en þykktin sýnd með litum. Mörkin á milli grænu og bláu svæðanna er við 5280 metra - Ísland er rétt inni í bláu og er ekki fjarri meðallagi árstímans.

Allmikil - en þó minnkandi fyrirstöðuhæð er yfir Grænlandi og önnur öflugri við norðurströnd Rússlands. Kuldapollurinn ægilegi er með miðju ekki fjarri norðurpólnum, þar er þykktin í miðju rétt neðan við 4800 metra - veturinn er ekki alveg í fullum styrk í dag - en lægsta lágmark norðurhvelsins er nokkuð breytilegt frá degi til dags. Í sameiningu halda hæðirnar tvær kaldasta loftinu alveg í skefjum og hjálpar lægðin hlýja suður undan til. Segja má að við séum umlukin verndarhring.

En nokkrar hræringar eru innan hringsins. Þar er veikur kuldapollur, miðja hans er yfir Skandinavíu og mun hluti hans sleppa út norður í gegnum verndarhringinn sem þó lokast aftur. Annar hluti beyglast til vesturs í átt til okkar þegar hlýja loftið sem sjá má yfir Ermarsundi og nágrenni þrýstir sér til norðnorðausturs - eins og rauða örin á að sýna.

Við þetta skýst hluti kalda loftsins í mjóum fleyg til vesturs yfir Ísland - fleygurinn er mjór m.a. vegna þess að hlýindin yfir Grænlandi halda á móti. Kaldasta loftið á að fara hér hjá á laugardag - en það er ekkert sérlega kalt, þykktin fer e.t.v. niður í 5180 metra eða þar um bil - vel sloppið.

Fleygurinn sést enn betur á veðrahvarfakortinu hér að neðan (kortið er ekki fyrir viðkvæma).

w-blogg131212b

Ísland er nærri miðri mynd og Bretlandseyjar ættu að sjást þar neðar til hægri. Þetta kort verður skýrara við stækkun heldur en það fyrra. Hlýja loftið er komið lengra norður á bóginn við veðrahvörf heldur en í 500 hPa. Þrýstingur á gulu og grænu svæðunum er á milli 200 og 250 hPa en nærri 300 á bláu svæðunum. Tölur og litakvarði eiga við mættishita, en hann er því hærri sem veðrahvörfin eru ofar. Tölur eru í Kelvingráðum - en við höfum engar áhyggjur af því - dáumst frekar að formunum.

Hér má (með smávegis ímyndunarafli) sjá kalda loftið (bláa svæðið) í þrenglum á milli hlýju skjaldanna í norðri og suðri. Þar sem kalt og hlýtt loft mætast eru dökkbláar rendur - þar sveigjast veðrahvörfin niður við áreksturinn og kalda loftið fleygast undir það hlýja - fyrirstaðan er minni neðan til í veðrahvolfinu. Í botni sveigjunnar segir reiknimiðstöðin að veðrahvörfin nái niður í 600 hPa - eða um 4 km hæð.

Á efri myndinni (500 hPa-kortinu) má sjá að Ísland er í greinilegri hæðarbeygju en hún er oftast merki um niðurstreymi. Þegar kuldafleygurinn kemur til landsins skiptir um beygju, loft verður þá óstöðugra og úrkomulíkur aukast.


Risastór lægð

Risastór lægð er nú yfir Atlantshafi frá Labrador í vestri og ná áhrif hennar austur til Þýskalands, nærri suður til Madeira og norður fyrir Jan Mayen. Við lítum á spákort sem gildir um hádegi á fimmtudag.

Þegar ritstjórinn var yngri og vildi hafa fútt í hlutunum fylltist hann ákveðinni mæðu við að horfa á lægðir af þessu tagi - þeim fylgdi fyrirsjáanlegt tíðindaleysi dag eftir dag. Allar veðurfréttir byrjuðu á pistlinum: „Víðáttumikið og hægfara lægðasvæði er langt suður í hafi. Suðvesturland til Breiðafjarðar og Suðvesturmið til Breiðafjarðarmiða: Austan kaldi eða stinningskaldi, léttskýjað með köflum“. Nú er allt orðið með öðrum brag og sami ritstjóri harla ánægður - enda er nú hægt að drekkja sér í allskonar smáatriðum í veðurkortunum. Eins og roskin veðurnörd átta sig á var þetta fyrir spásvæðabreytinguna miklu fyrir rúmum 30 árum.

w-blogg121212

Hér má sjá þrýsting við sjávarmál eins og evrópureiknimiðstöðin spáir honum um hádegi á fimmtudag (13.12. 2012). Við sjáum úrkomusvæði hringa sig í kringum risavaxna lægðarmiðjuna. Flestallt virðist í læstri stöðu. En þó ekki allt.

Punktalínur á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum og ef rýnt er í þær (stækkið kortið) má sjá að talsvert og ákveðið aðstreymi af köldu lofti er frá Labrador og langt austur á Atlantshafi - þessi straumur tekur þátt í því að hnika lægðinni austur á bóginn næstu daga. Kalda loftið skefur líka upp sneiðar af hlýrra lofti úr suðri og býr þar með til minniháttar lægðabylgjur.

Ein af þeim er nú við Landsendahöfða á Norðvestur-Spáni og stefnir inn á Evrópu. Önnur er að verða til rétt austan við þar sem bláa örin endar á kortinu og mun lenda á ívið norðlægari braut en sú fyrri. Gæti hún eða einhver ómynduð valdið leiðindaveðri og trúlega hláku í Danmörku eða Suður-Noregi undir helgina. Spá dagsins nefnir þann möguleika að rusl úr henni komi hér við sögu enn síðar - en allt of snemmt er að tala um það. 


Þurrt loft

Mynd dagsins er fyrst og fremst valin vegna litanna - en sýnir fleira. Þetta er samsett spákort fyrir 700 hPa-flötinn og gildir síðdegis á fimmtudag, 13. desember. Evrópureiknimiðstöðin sá um reikningana. Hungurdiskar hafa kynnt kort af þessu tagi áður en samt er rétt að fara í gegnum táknmálið.

w-blogg111212b3

Jafnhæðarlínur flatarins eru svartar og sýna dekametra. Hæð 700 hPa-flatarins er oftast rétt undir þremur kílómetrum og það er 2820 metra línan sem strýkst við suðvestanvert Ísland. Hefðbundnar örvar sýna vindhraða og stefnu. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina milli 700 og 1000 hPa. Þetta er undantekning frá því sem er algengast (500/1000 hPa-þykkt) en alveg sama á við - því hærri sem tölurnar eru því hlýrra er loftið á hæðarbilinu.

Gráu og gulbrúnu svæðin skera mest í augu. Á gráu svæðunum er rakastig í 700 hPa hærra en 70%. Þar sem rakinn er yfir 90% má gera ráð fyrir að ský séu í 3 km hæð. Gera má ráð fyrir því að aflangir dökkgráir flekkir séu tengdir úrkomusvæðum, jafnvel skilum.

Á gulu og rauðbrúnu svæðunum er loft mjög þurrt, rakastig minna en 15% og á dekkstu brúnu svæðunum er rakastigið undir 5% - þetta er auðvitað með ólíkindum þurrt og getur einungis átt sér stað í niðurstreymi - loftið á uppruna sinn talsvert ofar - jafnvel langt fyrir ofan.

Þurrkur af þessu tagi nær aldrei niður til jarðar [nema?] og á samsvarandi korti fyrir 850 hPa (um 1100 metra hæð) er um 70% raki á þessum slóðum. Þar er hins vegar mjög þurrt norður af Vestfjörðum.

Á kortinu má einnig sjá litlar tölur í hvítum kössum og þeim tengdar mjóar bláar og rauðar línur. Við sjáum bláu töluna 5 inni í brúna svæðinu við suðurströnd Íslands - og rauða fjóra nokkru austar. Þessar tölur sýna lóðrétta hreyfingu eins og hún reiknast í líkaninu, blátt segir frá niðurstreymi, en rautt frá uppstreymi. Mælieiningin er afar torkennileg, Pa/s (paskal á sekúndu), okkur svelgist ekki á slíku. Talan 10 er ekki fjarri uppstreymishraðanum 1 m/s, fimm segir því að niðurstreymið sé um 0,5 m/s - það telst mikið, enda nýtur loftstraumurinn trúlega aðstoðar Vatnajökuls eða Mýrdalsjökuls á floti sínu. 

Svo er auðvitað spurning hvort þessi þurrkspá rætist - og hvort við sjáum þurrkinn (?).


Mildur hryggur - enn á ný

Enn tekur mildur háloftahæðarhryggur völdin hér við land eins og gerst hefur aftur og aftur síðustu 3 vikur. Þótt hver um sig lifi ekki lengi halda þeir kuldanum frá landinu. Kortið gildir á hádegi á þriðjudag, 11. desember.

w-blogg111212

Hér má sjá megnið af norðurhveli jarðar norðan við hvarfbaug. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þar sem þær eru þéttar er vindur mikill. Lituð svæði gefa þykktina til kynna. Mörkin á milli grænna og blárra lita eru við þykktina 5280 metra. Allt grænt telst frekar hlýtt á þessum árstíma.

Rauða þykka strikalínan er lögð ofan í hryggjarmiðju og liggur yfir Ísland. Lægðin suður af Grænlandi endurnýjast á næstu dögum með tilleggi úr bylgjunni sem á kortinu er nærri Nýfundnalandi. Þá slitnar hryggurinn okkar enn í sundur og myndar létta fyrirstöðu við Norðaustur-Grænland - á hagstæðum stað fyrir okkur.

Önnur fyrirstaða er talsvert austar og nær rauða strikalínan þangað. Sú verður næstu daga styrkt af hæð sem nú gengur til norðurs yfir Rússlandi. Sameiginlega verður til eins konar veggur gegn ásókn aðalkuldans - en hann lætur ófriðlega á mjög stóru svæði frá Kanada norður til póls og þaðan til Síberíu.

Ef vel er að gáð má sjá nokkar smálægðir og lægðardrög yfir Vestur-Evrópu og Skandinavíu. Sú súpa fer í kringum sjálfa sig - en mun sennilega senda anga hingað til lands þegar kemur fram yfir miðja viku. Það er þó ekki mjög til spillis - þó loftið sé nokkuð kalt þar sem það er nú hlýnar það fljótt yfir sjónum austan og suðaustan við land stefni það hingað.

Veikar fyrirstöður á heimskautaslóðum eru oft þaulsetnar - eins og við höfum nú séð að undanförnu.


Spákort sem sýna þykktarbreytingar

Það er  hálf klúðurslegt að nota fjögur orð þar sem komast má af með eitt. Hér er vísað í fyrirsögn pistilsins - hún kemst þó nærri því að vera skiljanleg. Orðið eina er hins vegar þetta: Þykktarhneigðarkort. Hefði einhver skilið þá fyrirsögn? Við lítum á eitt kort af þessu tagi.

w-blogg091212

Reyndar er margt sýnt á kortinu, en það gildir um hádegi á mánudag, 10. desember. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnþrýstilínur við sjávarmál og eru algengastar allra lína á veðurkortum. Þykktin er sýnd með daufum rauðleitum strikalínum. Sé kortið stækkað má sjá að 5340 metra jafnþykktarlínan þverar Ísland. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og hraða í 700 hPa-fletinum. Við sjáum að í öllum aðalatriðum fylgja þær jafnþrýstilínunum - þó bregður út af vegna þess að 700 hPa-flöturinn er í um 3 km hæð frá jörðu.

En þykktarbreytingar eru aðalatriði kortsins og eru sýndar með breytilegum litaflötum. Hér er miðað við síðustu 6 klukkustundir. Bláu litirnir sýna þau svæði þar sem þykktin hefur minnkað mest - þar hefur loftið kólnað umtalsvert, en þau gulu og brúnu sýna vaxandi þykkt - þar hefur hlýnað.

Mest áberandi er gusa af köldu lofti sem streymir til austurs út á Atlantshaf frá Kanada. Sé kortið stækkað má sjá töluna 23,1 í miðju bláa svæðinu. Þetta er ansi há tala - þykktin hefur fallið um 231 metra á 6 klst - jafngildir nærri 12 stiga kólnun að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Á næstu dögum mun sjórinn hita þetta loft þar til jafnvægi næst milli sjávar- og lofthita. Það tekur nokkra daga - sérstaklega vegna þess að gusan fer smám saman yfir hlýrri og hlýrri sjó.

Talsvert hefur hlýnað yfir Grænlandi síðustu 6 klukkustundir spárinnar en hér við land er þykktarhneigðin minni en 30 metrar (ekki litarhæfar á litamáli kortsins). Sé farið í saumana á afstöðu vindörva og jafnþykktarlína má þó sjá að vindurinn er að bera meiri þykkt inn yfir landið úr suðvestri, en hún hefur ekki aukist nægilega til þess að fá á sig lit. Tuttugu metrar samsvara um einu stigi.

Það er ekkert úrslitaatriði að miðað sé við 6 klst þykktarhneigð á kortinu - það gæti rétt eins verið sólarhringur eða eitthvað annað.

En á mánudaginn er sum sé spáð heldur hlýnandi veðri. Aðstreymið á þó í mikilli samkeppni við miskunnarlausa útgeislun í björtu veðri. Staðan á að haldast svipuð næstu daga en lægðasvæðið á þó að styrkjast eftir því sem á líður.


Langar, fastar bylgjur

Leggjumst nú andartak í fræðsluham. Þeir sem ekkert vilja vita um efni fyrirsagnarinnar geta eins hætt strax og snúið sér að áhugaverðara efni. Þrautseigustu lesendur hungurdiska munu kannast við eitthvað af efninu úr eldri pistlum.

Fyrir nokkrum dögum var lítillega fjallað um stuttar bylgjur í vestanvindakerfinu - en hér er litið á þær lengstu. Þótt bylgjurnar ólmist stöðugt frá degi til dags og breyti sífellt um lengd og lögun kemur samt í ljós að þrjár til fjórar liggja nær stöðugt í bakgrunni og sjást alltaf á meðaltalskortum sem ná til lengri tíma. Við lítum á eitt slíkt meðaltalskort og sýnir það hæð 500 hPa-flatarins í janúar á tímabilinu 1981 til 2010. Það er fengið úr smiðju bandarísku veðurstofunnar.

w-blogg081212a

Kortið sýnir norðurhvel jarðar suður að 35. breiddarstigi. Landaskipan sést að baki litanna, norðurskaut á miðri mynd. Mjúkar, heildregnar, svartar línur sýna meðalhæð flatarins og eru merktar í metrum. Það er 5220 metra línan sem sker Ísland norðvestanvert.

Litirnir eru viljandi aðeins tveir þannig að sem best sjáist hvernig 5400 metra línan hringar sig um hvelið. Greinilega sést að mismikið fer fyrir gula svæðinu utan við hana og að bláa svæðið teygir sig mislangt til suðurs. Ísland er í suðvestanátt  - en þó ekki eins sterkri og finna má sunnar þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttari.

Við sjáum að 5400 metra jafnhæðarlínan nær sinni nyrstu stöðu rétt við Skotland og er þar áberandi norðar heldur en yfir austurströnd Norður-Ameríku þar sem hún teygir sig alveg suður á Nýja-England. Á Kyrrahafi við og austan við Japan fer hún enn sunnar. Þar sem línan er í syðri stöðu heldur en vestan og austan við eru lægðardrög. Þau eru þrjú á myndinni. Það sem skiptir okkur mestu máli er Baffinsdragið, kuldasvæði sem teygir sig til suðurs úr mikilli lægðarmiðju rétt vestan Norður-Grænlands.

Næsta lægðardrag fyrir austan er kennt við Austur-Evrópu og er mun veikara en Baffinsdragið. Síðan eru eitt mjög stórt lægðardrag yfir Kyrrahafi. Hæðarhryggir eru þrír. Austan við okkur er Golfstraumshryggurinn þar sem hlýja loftið nær sinni nyrstu stöðu. Klettafjallahryggurinn yfir Norður-Ameríku vestanverðri skiptir okkur líka miklu máli. Veikur hryggur er yfir Mið-Asíu og kenndur við það svæði.

Það er fyrst og fremst landaskipan sem ræður því hvernig bylgjurnar raðast upp. Klettafjöll og hálendi Mið-Asíu ráða mestu - en síðan eru það meginlönd og höf. Klettafjöllin styrkja háloftavestanáttina austan við verulega - það þýðir að loft sem kólnar yfir Norður-Kanada á oftast greiða leið langt til suðurs og þar er enginn fjallgarður fyrir. Kalt loft er fyrirferðarlítið og styrkir því lægðardragið, sem er þannig talsvert öflugra að vetrarlagi heldur en fjöllin ein stjórna.

En á móti norðanátt verður sunnanátt að vera annars staðar. Lægðardragið nær svo langt til suðurs að það nær á austurhlið sinni í mjög hlýtt loft sem berst til norðurs og býr að lokum til Golfstraumshrygginn. Reyndar er það svo að sunnanáttin austan lægðardragsins ber mun meiri varma til norðurs að vetrarlagi heldur en hafstraumarnir. Ástand lægðardragsins skiptir höfuðmáli fyrir veðurfar á Íslandi. Fjarlægist það um of eða veikist verða norðanáttir yfirgnæfandi hér á landi - nálgist það um of verður landið undirlagt vestankulda á vetrum með snjó og illviðrum.

Það er algjörlega opið hvort og hvernig hlýnandi veðurfar af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa breytir þessari stöðu. Verður kortið alveg eins? Hlýni aðeins um 1 stig og jafnt um allt hvelið birtist kort sem er nærri því nákvæmlega eins - það þarf þjálfað auga til að sjá muninn. Línan sem á kortinu liggur um Breiðafjörð myndi færast norður í Grænlandssund - upplausn kortsins myndi vart sýna þann mun.

Hlýnun um þrjú stig flytur allar jafnhæðarlínur um eitt línubil til norðurs. Við ættum að sjá það. En það versnar (eða batnar) í því ef dregur úr vestanáttinni þvert á Klettafjöllin. Þá veikist lægðardragið - og sennilega meir en sem nemur beinum áhrifum fjallgarðsins vegna minnkandi norðanáttar austan fjalla. Ekki er létt að sjá hvaða áhrif þetta hefði á Golfstraumshrygginn.

Við lítum á aðra mynd sem líka sýnir bylgjuskipanina - en á allt annan hátt.

w-blogg081212b

Hér er lega 5400 metra jafnhæðarlínunnar einnig sýnd - en teiknuð á móti lengd og breidd. Lárétti ásinn sýnir lengdarstig, núll er sett við hádegisbaug Greenwich og síðan til beggja handa á venjulegan hátt. Lóðrétti kvarðinn sýnir breiddarstig - frá 33 gráðum og norður á 60°N. Myndunum ber ekki alveg saman - línuritið er gróflegar teiknað heldur en kortið og tekur ekki til nákvæmlega sama tímabils. En bylgjurnar koma vel fram.

Veðurfarsbreytingar koma fram sem tveir þættir: Annars vegar hliðrast línan öll til norðurs (í hlýnandi loftslagi) eða til suðurs (í kólnandi), hins vegar breytast bylgjulengd og spönn einstakra bylgja.

Á suðurhveli jarðar eru fastar bylgjur mun ógreinilegri heldur en á norðurhveli. Breytingar á samsvarandi mynd þar eru því líklegar til að koma frekar fram í hliðrun heldur en í mynsturbreytingu. Þó er þar ekki allt sem sýnist.

Auðvitað má fjalla um bylgjurnar föstu og stöðu þeirra í miklu lengra máli en við látum málið niður falla að sinni.


Eftir helgina?

Eftir að stutt háloftabylgja (lægð föstudags og laugardags) hefur gengið yfir tekur mikill hæðarhryggur völdin. Honum fylgja mikil háloftahlýindi sem við fáum e.t.v. að njóta góðs af. Meta er þó vart að vænta - fyrir utan dægurmetahrinu á nýlegum veðurstöðvum. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir um hádegi á sunnudag (9. desember).

w-blogg071212

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, lituð svæði sýna hita í 500 hPa-fletinum (kvarðinn til hægri skýrist mjög við stækkun). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Meðalhiti í 500 hPa-fletinum yfir Keflavíkurflugvelli fyrsta þriðjung desembermánaðar er um -29°C. Á myndinni eru mörkin á milli grænleita svæðisins og þeirra bláu sett við -28°C. Evrópureiknimiðstöðin spáir því að hiti fari upp í um -22°C á þriðjudag - miðvikudag, sjö stig ofan við meðallag. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í desember er -15 stig, talsvert hærri heldur en nú er spáð.

Nú er spurningin hvort hæðarhryggurinn og hlýja aðstreymið verða nægilega öflug til að fyrirstöðuhæð myndist í námunda við landið. Slíkt ætti að tryggja hæglætisveður í nokkra daga hér á landi.

Fyrirstaða við Ísland er ekki vinsamleg meginlandi Evrópu - þar liggur þá venjulega pollur af köldu eða mjög köldu lofti þar sem skiptast á kuldaköst norðan úr höfum og önnur jafnvel verri ættuð frá Síberíu. Kalt er þá í illa upphituðum húsum, færð slæm á vegum í slyddu, snjókomu eða frostrigningu - og tafir á flugi í snjókomunni.

Annars getur frostrigning verið til leiðinda hér á landi í hlýjum fyrirstöðum að vetrarlagi, sérstaklega ef skiptast á heiðir og skýjaðir dagar. Yfirborð landsins kólnar óðfluga í heiðríkju og ef vindur er lítill blandast loft illa. Þegar ský dregur að í hægri hafátt getur verið frostlaust í nokkur hundruð metra hæð og súldað niður í grunna landátt með frosti. 

En spenna heldur áfram.  


Mikið um að vera á norðurhveli - eins og vera ber nærri sólstöðum

Enn lítum við á hefðbundið norðurhvelskort - það breytir stórlega um útlit frá degi til dags og sýður á flestum bylgjum. Kortið gildir um hádegi á laugardag 8. desember.

w-blogg061212

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, nærri því ofan í einni stuttbylgjumiðjunni (laugardagslægðin). Sú situr óþægilega ofan á stórum hrygg og fellur hratt til suðausturs og suðurs á jaðri hryggjarins og styrkir kuldasvæðið á meginlandinu. Afleit og kröpp lægð er að komast suður á Miðjarðarhaf. Sú fór tíðindalítið hjá hér í dag (miðvikudag) - en er orðin illvíg þar suður frá. Þykkt er spáð niður undir 5200 metra á Ítalíu á sunnudaginn - það er efni í mikla snjókomu í inn- og uppsveitum.

Hér hvessir eitthvað í svip meðan laugardagslægðin skýst hjá en léttir fljótt til aftur þegar hæðarhryggur fylgir á eftir. Gríðarlegar sveiflur eru síðan í spám sem ná lengra fram í tímann og virðist lægðin sem á kortinu er langt suðvestur í hafi sé erfið viðureignar.

Heimskautakuldinn (fjólublár litur) sem var mestur yfir Síberíu fyrir nokkrum dögum hefur á kortinu fært sig yfir á vesturhvel og svæðið kringum norðurskautið. Hann heldur áfram að sullast um. Þótt hann sé ekkert á suðurleið að sinni hefur hann samt mikil áhrif á bylgjumynstrið með umbrotum sínum.


Stuttar bylgjur

Háloftabylgjur eru misstórar, þær eiga sér meira að segja stærðarnúmerakerfi rétt eins og skór eða skyrtur. Stærsta bylgjan er númer núll síðan koma þær í minnkandi röð - lítið er minnst á hærri tölur en 15 eða svo.

Tölurnar ráðast af því hversu margar bylgjur væru í hringnum kringum jörðina gætu þær legið hlið við hlið. Breiddarhringurinn 65°N er um það bil 17 þúsund kílómetrar að lengd. Bylgja sem er 1700 km frá einum bylgjufaldi (hæðarhryggur) til þess næsta hefur því bylgjutöluna 10. Suður við miðbaug er hringurinn hins vegar um 40 þúsund kílómetrar - þar er bylgja af stærðinni 10 fjögur þúsund km frá hrygg til hryggjar.

Í raunveruleikanum er allt í einni súpu - stuttar bylgjur liggja ofan í löngum og taka lítið tillit til því hvar ein endar og önnur byrjar.

Bylgjan sem á að fara framhjá landinu á morgun (miðvikudaginn 5. desember) er til þess að gera hrein og klár - og við skulum líta á hana á 500 hPa-korti sem gildir kl. 18 á miðvikudag.

w-blogg051212a

Hér er táknmálið það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá. Við sjáum lægðarbylgju og er hún um 1700 km að lengd - engu skiptir í þeim bylgjuheimi sem við erum að heimsækja hvort bylgjan myndar lokaða lægð eða ekki. Bylgjutalan er tíu (eða þar um bil).

Við sjáum hins vegar að bylgjurnar (lægðardrögin) vestan og austan við eru hvort um sig eitthvað lengri en þetta - e.t.v númer sjö. Við sjáum líka að þetta er allt hluti af enn lengri bylgju sem við sjáum aðeins að hluta  - mikinn og breiðan hrygg sem nær yfir Atlantshafið allt og reyndar lengra í báðar áttir. Hann virðist eiga heima á 45 gráðum norður (alls ekki nákvæmt) og spanna um 100 lengdarstig - af 360. Hér er því um bylgjutölu 4 að ræða (enn má ekki taka þá ágiskun alvarlega).

Almenna reglan er sú að stuttar bylgjur hreyfast hratt til austurs en þær stærri mun hægar og þær stærstu jafnvel vestur á bóginn. En víxlverkun af ýmsu tagi villir stundum sýn og í raun og veru er mjög erfitt fyrir augað að sjá hvert stefnir hverju sinni nema svo sem eins og einn dag fram í tímann (ritstjórinn talar af reynslu þess sem bjó við mun verri tölvuspár en þær sem nú tíðkast).

Og á kortinu sést vel að þessi ákveðna bylgja af stærð 10 hreyfist hratt til austsuðausturs og síðan suðausturs - utan í stóra hryggnum með bylgjutöluna fjóra. Þeir sem sjá vel - eða stækka kortið mega taka eftir því að lægðin stutta inniheldur tvo jafnþykktarhringi - bæði 5220 metra og 5160 metra. Það þýðir að lægðarmiðjan við jörð er ansi flöt og fóðurlítil sem stendur.

En þessi bylgja fer hratt hjá - og síðan kemur sú næsta en hún er ámóta stutt og verður við landið á laugardaginn - eins og kortið að neðan sýnir.

w-blogg051212b

Tölvuspám hefur gengið illa að ná slóð laugardagsbylgjunnar og sent hana til austurs ýmist fyrir sunnan eða norðan land. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir okkur. Sjónskarpir sjá að þótt fyrirferð lægðanna tveggja sé svipuð hefur sú síðari ekki nema eina hringaða jafnþykktarlínu innanborðs. Það út af fyrir sig þýðir þéttari þrýstilínur niður undir jörð - og þá e.t.v. meiri vind en fylgir fyrri lægðinni. En spár um það eru vafasamar marga daga fram í tímann - og hungurdiskar eru spálausir að vanda.


Alhvítur nóvembermánuður á Akureyri

Þegar upp var staðið var alhvítt á Akureyri allan nóvember. Frá því að byrjað var að athuga snjóhulu á Akureyri hefur það aðeins gerst einu sinni áður að hún hafi verið 100 prósent í þessum almanaksmánuði. Það var 1969. Hér má rifja upp að í fyrra var desember alhvítur á Akureyri - en vitað er um allnokkra alhvíta jólamánuði á Akureyri. En við lítum á nóvembersnjóhuluna á Akureyri á línuriti.

w-blogg041212

Lárétti ásinn markar árin, en sá lóðrétti sýnir fjölda daga. Línuritið sýnir fjölda alhvítra daga í hinum aðskiljanlegu nóvembermánuðum frá 1924 að telja. Þarna má sjá að tvisvar hefur ekki fest snjó í nóvember á Akureyri, það var 1949 og 1987. Fyrra árið voru snjóhuluathuganir á Akureyri í einhverju klandri fram eftir ári en vonandi var allt orðið sæmilega rétt í nóvember. 

Rauða línan sýnir 7-ára keðjumeðaltöl alhvítra nóvemberdaga. Það er athyglisvert hvað tímabilið 1962 til 1986 sker sig úr sem áberandi snjóþyngra heldur en tíminn áður og eftir. Við sjáum líka að nóvember 2010 var býsna drjúgur, með 29 alhvíta daga - nærri því fullt hús.

Annars hefur árið 2012 verið snjólétt á Akureyri - og það svo að ef alhvítt verður alla daga desembermánaðar yrði fjöldi alhvítra daga á árinu samt 20 undir meðallagi. Snjóhula er ekki alveg tilviljanakennd frá degi til dags - snjói mikið vaxa líkur á því mjög að einnig verði alhvítt á morgun og hinn. Þrátt fyrir þetta er varla hægt að sjá fylgni á milli snjóhulu nóvember og desember - varla - en þó þannig að séu alhvítir dagar í nóvember fleiri en 25 er líklegt að alhvítir desemberdagar verði að minnsta kosti 14. - Við bíðum spennt eftir niðurstöðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 310
  • Sl. sólarhring: 514
  • Sl. viku: 2019
  • Frá upphafi: 2484281

Annað

  • Innlit í dag: 287
  • Innlit sl. viku: 1812
  • Gestir í dag: 277
  • IP-tölur í dag: 270

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband