Af árinu 1844

Árið 1844 þótti almennt hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, en reiknast 3,4 stig í Stykkishólmi, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Mjög kalt var í febrúar og einnig var nokkuð kalt í apríl, en hlýtt í maí, júní, ágúst og desember. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum frá Norður- og Austurlandi. 

ar_1844t 

Fjórtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (sjá lista í viðhengi), kaldastur 24.apríl (síðasti vetrardagur). Þá fór frost í -10 stig í Reykjavík og hámarkshiti dagsins var -5,0°C. Átta dagar voru mjög hlýir og komst hiti í 20 stig 14 sinnum um sumarið. Hafa verður í huga að nákvæmni í aflestri var ekki mikill, átta þessara daga var hitinn nákvæmlega 20 stig. Allur kaflinn frá 20. til 30.júní hefur verið óvenjugóður. 

Árið var úrkomusamt í Reykjavík, mældist úrkoman 992 mm. Einna þurrast var í febrúar, júní og júlí, en úrkoma í nóvember óvenjumikil. 

Þrýstingur var sérlega lágur í apríl og þá var þrýstiórói einnig mjög mikill. Miðað við meðallag var þrýstingur einna hæstur í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 959,3 hPa, þann 26.nóvember, en hæstur 1028,7 hPa þann 26.maí. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Við getum sum sé vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.  

Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1844, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:

Ár 1844, gott ár, frostlítið, en veðrátta ókyrr og úrfellamikil. Hagabann fyrir útigangsfénað varð hvergi langvinnt. Grasár gott, helst á úthaga, og nýting hagfeld. Hlutir við sjó í betra lagi, vetrarhlutir undir Jökli frá hálfu þriðja til fimm hundraða. Í Dritvík mjög lítill afli, vegna ógæfta, 60 fiska hlutir hæstir. Aftur aflaðist betur í veiðistöðvum vestra. Ennþá var kvefsótt í landinu. Árið 1844 engir skipskaðar [á Vesturlandi].

Suðurnesjaannáll:

Skipstapi á Vatnsleysuströnd í marsmánuði. ... Ofsaveður með sjávarangi 2. apríl, svo að skip tók upp og brotnuðu. Skipstapi um vorið frá Landakoti að Miðnesi. Drukknuðu þrír menn. ... 50 fjár flæddi á Býjaskerjum og 80 í Leiru. Ufsaveiði mikil í Hafnarfirði. Þá fórust tveir bátar með ufsafarm þaðan í ofsaviðri. Annar var úr Njarðvíkum, en hinn úr Keflavík.

Jón Jónsson í Dunhaga í Hörgárdal er erfiður í lestri að vanda - en vonandi hér í stórum dráttum rétt eftir honum haft (ekki þó orðrétt): 

Janúar má teljast í betra lagi, febrúar allstilltur að veðráttufari og oftast nægar jarðir, áköf frost. Lagís mikill á Eyjafirði en hafís utar. Marsyfirlitið er torlesið en að sjá sem hart hafi verið með köflum - en ekki alslæm tíð. Fyrri hluti apríl sæmilega góður, en síðan mjög óstöðug tíð. Að sjá sem maí hafi ekki verið harður - en samt stormasamur og erfiður að því leyti. Júní góður. Júlí heldur kaldur. Ágúst sæmilega hagstæður. September í meðallagi, en heldur óstilltur. Heyskap má yfirhöfuð telja í meðallagi, sumstaðar í betra lagi. Október má kallast mikið góður. Góð veðrátta í nóvember og næg jörð. Desember merkilega stilltur að veðurátt, oft þíðviðri og jörð auð.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Veður stillt og frostamikið til 13. jan., þá 4 daga hláka og aftur þítt 21.-24. Í febrúar óstöðugt, köföld og hart frost á milli, 19. jarðleysi allvíða og hross tekin á gjöf, en í lágsveitum gengu þau af. Alla góu harðviðrasamt og gaddmikið til dalanna.

Einar Thorlacius skrifar: Saurbæ 6.febrúar 1844 (s110) Vetur allt að þessu í betra lagi með jarðsæld, engin teljandi illviðri né sterk frost, síst lengi, og ekki yfir 12 gráður hafa enn komið, en óstöðugt heldur veðráttufarið.

Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 13. mars 1844 (s214) Vetur er í meðallagi.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Með einmánuði bati góður og blíðviðri, sólbráð og stillt veður, 5 daga fyrir sumar frostmikið og sumardag fyrsta [25.apríl] sunnanhríð mikil, en föstudag [26.] hastarlegur norðanbylur; brátt aftur hláka. 4. maí heiðarleysing og flóð í ám og allan þann mánuð (s148) vorblíða og góður gróður.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní lengi náttfrost með norðanátt og stilltu veðri. Seint fært frá og í júlíbyrjun sterkir hitar 6 daga, þá til 16. þokur og hretviðrasamt og gaf illa í kaupstaðarferðum, en vel í lestaferðum suður, er stóðu yfir seinast í júní. Sláttur byrjaði 18.-20. júlí. Var þá rekjusamt og lítið um þerri til 7. ágúst. Skemmdust töður mjög, þar miður voru hirtar. Þá notagott veður til 25. ágúst. Á sunnudagskvöld [25.], upp á góðan þerri, kom hret og eftir það votviðri til 3.-5. sept. Þann 10. kom ógnarrigning, mörgum til skemmda, þar sæti var óhirt, sem þó víða var. Um gangnatímann mátti hirða allt hey. Þó ónýting yrði allvíða, varð nýting góð hjá þeim, er haganlega notuðu stuttan þerri og litlar flæsur og ekki geymdu hey sitt í föngum, eins og mörgum er tamt sér til skaða. Nú varð gangnafærsla austan Blöndu vegna rímspillis-sumarauka. Annars bar nú réttardag á 25. sept.

Jón Austmann í Ofanleiti segir að 5.júní hafi hiti farið niður í 2° í norðvestan kafþykkum slyddubyl og að snjóað hafi á fjöll.

Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 8. júlí 1844: (s216) Hér er nú heldur gott í ári.

Hiti fór í 24°C á Valþjófsstað 28.júlí og þann 4.september varð þar jarðskjálfti um kvöldið.

Páll Melsteð fer snjöllum orðum um landsynninginn í bréfi til Jóns Sigurðssonar: Landakoti, 22.september 1844 „Ég kom hér suður [til Reykjavíkur] eins og kjörstjóri í besta veðri með 3 hesta. Nú fer ég héðan af stað eins og förukarl, búinn að missa frá mér 2 hesta, og veðrið svo illt að varla er sigandi út hundi fyrir regni og stormi. Minnir þig nokkuð til þess hvernig landsynningurinn var á stundum, þegar hann hafði lengi legið undir fyrir norðanvindinum, en reis á fætur aftur. Ekki hefir honum farið aftur síðan. Og því skyldi honum fara aftur núna í þessu landi sem nú er nýbúið að fá alþing, og þar sem allt er að lifna við og byrja nýjar framfarir“.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haustið varð mikið gott, eitt hret 9. okt. Frá veturnóttum til 7. nóv. blíðviðri besta, svo berja og ausa mátti af túnum. 8.-12. nóv. hart frost, svo lækir botnfrusu mörgum til vandræða og náðu ei farveg aftur lengi. Veður var stillt og gott, snjólítið oftast, auð jörð og hláka á jólunum, allvíða ei farið að gefa lömbum. Ár þetta má kalla, sem 6 ár undanfarin, hagsældar- og blómgunarár, þeim sem notuðu tíðina réttilega. (s149)

Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 10. nóvember 1844: (s220) Haustið hefur verið heldur gott ...

Grímur Jónsson segir í bréfi dagsettu á Möðruvöllum 6.febrúar 1845 (lengri kafli úr bréfinu er hér settur á árið 1845]: „Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma“.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1844. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af nýliðnum febrúar

Eins og kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn febrúar hlýr og tíð var hagstæð. Hann fer einnig í bækur sem veðragóður mánuður. Meðalvindhraði var undir meðallagi, á landsvísu sá minnsti í febrúar í nokkur ár - eða frá 2010. Illviðradagar voru einnig fáir. 

w-blogg020321c

Þetta riss sýnir „stormavísitölu“ febrúarmánaða aftur til 1949. Fjallað hefur verið um gerð hennar áður á þessum vettvangi. Há vísitala bendir til þess að mánuður hafi verið óvenjuillviðrasamur - en lág vísitala segir frá góðviðrum. Þó ekki sé allt einhlítt má sjá greinilegan mun á milli mánaða. Við sjáum t.d. að síðustu árin, frá 2015 til 2020, hefur febrúar lengst af verið illviðrasamur og að febrúar 2013 aftur á móti ámóta hægur og nú. Enga leitni er að sjá á myndinni - allt harla tilviljanakennt þó votti fyrir „klasamyndun“. 

Skipti frá mönnuðum athugunum yfir í sjálfvirkar valda smávegis tengivanda - en í aðalatriðum eru vísitölur beggja kerfa samhljóða að mestu. Hálendisstöðvar eru ekki inni í talningunni. Ritstjórinn fylgist sérstaklega með þeim. Vísitala hálendisstöðvanna var nú hin lægsta í febrúar frá 2010. Græna strikalínan sýnir vísitölu sem reiknuð er frá stöðvum Vegagerðarinnar. Fyrstu árin sýnir hún áberandi hærri gildi en hin stöðvakerfin - en verður síðan samstíga. Ástæðan er líklega sú að fyrstu árin var vegagerðarstöðvunum beinlínis komið fyrir á sérlega vindasömum stöðum - en eftir því sem árin hafa liðið hefur stöðvum á stöðum þar sem vindur er „venjulegri“ fjölgað og svo virðist nú sem munur á kerfunum sé ekki mjög mikill hvað þetta varðar. Meðalvindhraði vegagerðarstöðvanna er þó að jafnaði lítillega hærri en að meðaltali í byggðum landsins - þrátt fyrir að hæð mælis sé lægri (6 m í stað 10 m). 

w-blogg020321a

Hér má sjá stöðuna í háloftunum í febrúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, daufar strikalínur sýna þykktina, en litir vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Hún var undir meðallagi á bláu svæðunum, en yfir því á þeim gulu og rauðbrúnu. Með afbrigðum hlýtt var í norðanverðum Labrador. Hér á landi ríkti eindregin sunnanátt - út frá legu jafnhæðarlína einni og sér hefði mátt búast við að úrkoma væri vel yfir meðallagi, en svo var ekki. Mánuðurinn var frekar þurr - nema á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þó áttin hafi verið jafneindregin af suðri og hér er sýnt var hún mun austlægari við sjávarmál - eins og sunnanáttin hafi staðið í stöðugri baráttu við kalt loft úr norðri - en langoftast haft svo miklu betur að ekkert varð úr átökum.

Leit að nánum „ættingjum“ skilar ekki miklu. Þetta virðist vera fremur óvenjuleg staða. Nánastur ættingjanna er febrúar 1926. Á svæðinu næst landinu var staðan þá afskaplega svipuð og var nú, en þegar litið er lengra til beggja átta sést skyldleikinn síður.

w-blogg020321b

Rétt að benda á að viðmiðunartímabil þykktarvikanna er ekki hið sama og á fyrri mynd - hér nær hún til allar 20.aldarinnar. Jákvæðu vikin væru heldur minni á síðari myndinni væri sama tímabil notað. 

Veðráttan (tímarit Veðurstofunnar) gefur þetta yfirlit um febrúar 1926:

„Einmuna veðurblíöa um allt land. Tíðin mjög hagstæð fyrir landbúnað og einnig fyrir sjóróðra fyrri hluta mánaðarins. Fremur óstöðugt síðari hlutann“. 

Við gætum notað svipað orðalag um þann nýliðna - alla vega þvældist veðrið fyrir fáum og flestir hafa vonandi notið þess til fulls. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.  


Smávegis af jarðskjálftum 1789

Ekki þarf að fletta lengi eða mikið í gömlum blöðum til að finna eitthvað um jarðskjálfta á Reykjanesskaganum. Það er þó misjafnt hvar meginvirknin hefur verið hverju sinni. Ritstjóri hungurdiska er ekki fræðimaður á þessu sviði, veit lítið og ætti því að segja sem minnst um málið. Honum finnst þó freistandi að minnast á jarðskjálftana 1789, en snemma sumars það ár gekk mikil jarðskjálftahrina yfir landið suðvestanvert. Hún er almennt talin hafa átt upptök sín á Hengilssvæðinu - en ekki þar sem nú skelfur. Þorvaldur Thoroddsen nefnir í riti sínu „Landskjálftar á Suðurlandi“ ýmsar heimildir um skjálftana og segir meðal annars (s.36):

„Miklir jarðskjálftar i Árnessýslu og víðar um suðvesturlandið svo hús hrundu á allmörgum bæjum; þó voru jarðskjálftar þessir ekki nærri eins harðir eins og kippirnir 1784. Landskjálftarnir byrjuðu 10. júní, og í viku á eftir var varla nokkurn tíma kyrrt nótt eða dag, og voru varla 10 mínútur milli hræringanna; oft urðu menn síðan varir við jarðskjálftana fram eftir sumri“. 

Síðan lýsir Þorvaldur ýmsum breytingum sem urðu við skjálftana, einna mestar virðast þær hafa orðið á Þingvöllum og „sökum skemmda og breytinga þeirra, sem urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að alþingi var flutt frá Þingvöllum og breyttist í yfirrétt i Reykjavík“. Væntanlega hefur Þorvaldur þetta síðasta eftir Magnúsi Stephensen. 

Í bókinni „Sendibréf frá íslenzkum konum 1784-1900“, sem Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Rvk, 1952) er að finna bréf sem Guðrún Skúladóttir (landfógeta) ritar Sveini Pálssyni, en hann var þá náttúrufræðinemi í Kaupmannahöfn:

„Viðey 16. ágúst 1789: Þann 8. júní um kvöldið komu þrír jarðskjálftar, og (s16) þar eftir aftur og aftur nætur og daga í heila viku. Þann 10. taldi eg 108, en nóttina þar eftir taldi stúlka, sem vakti, 39. Flestir voru þeir smáir, þó nokkrir æði miklir, en hér um pláss varð ei skaði af þeim. Hér og hvar duttu og skemmdust gömul hús. Í Ölvesi féll bær, sem heitir Þurá, og í Selvogi annar, heitir Hlíð, nema eitt hús stóð, og þar lá í vanfær manneskja, sem ei gat hrært sig. Fólkið þorði ekki að liggja í bæjunum á nóttunni, meðan á þessu stóð, og lá úti í tjöldum og undir berum himni. Í Þingvallahrauni urðu stórar umbreytingar, 2 gjár komu í Þingvallatún, Öxará er orðin þurr hjá Þinginu, því hún rennur ofan í jörð, en vatnið rennur uppheftir farvegnum langtum lengra en fyrri, því að er orðið miklu dýpra Þingvallamegin en það var, en hitt landið á móts við sjást upp úr því steinar, þar sem var 7-8 faðma djúp. Í jarðskjálftunum kom upp á Hellisheiði vellandi hver og 3 austur í Ölvesi, þar enginn var áður. Eftir þetta sást hér nokkra daga jarðeldsreykur eða einhver móða honum lík, og sagt var að eldur væri í Krýsivíkurfjalli. En norðanvindur kom, og þá hvarf móðan, og síðan hefur ei verið getið um eldinn. Síðan vindurinn kom á austan, hefur móðan sézt öðru hverju“.

Þorvaldur segir (og hefur eftir „Mannfækkun af hallærum“ eftir Hannes Finnsson):

„Grundvöllur Þingvallavatns sökk að norðan og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en suðvestan grynnkaði það svo, að þar sem áður var 4 faðma dýpi var þurrt á eftir“.  

Trúlega er ítarlegustu upplýsingar um jarðskjálftana sjálfa að finna í athugasemdum Rasmusar Lievog stjörnuathugunarmeistara í Lambhúsum við Bessastaði. Þó ritstjóri hungurdiska eigi í ákveðnum erfiðleikum með að lesa skrift hans er hún þó mun viðráðanlegri en flestir þeir dagbókartextar og bréf sem hann hefur séð frá þessum árum. Ekki leggur hann þó í uppskrift - slíkt ætti að vera vanari augum auðvelt verk. Myndin sýnir blaðsíðu úr skýrslu Lievog. [Þann 6.júní segist hann sjá Snæfellsjökul - [Vester-Jökelen saet] - eins og slíkt sé viðburður.

lievog_jardskjalftar_1789

Fyrsta hræringin sem Lievog minnist á þetta vor (1789) er 31.maí. Þá segir hann að kl.1 1/4 að kvöldi hafi komið „temmelig stærkt Jordstød, eller Rystelse“. Nokkuð sterkur jarðskjálfti eða hræring. Síðan kemur að 8. júní. Þá segir hann (lauslega eftir haft): Kl. 9:42 að kvöldi. Kom fyrst lítill, en eftir fáeinar sekúndur, nokkuð meiri jarðskjálfti, sem virtist koma úr suðvestri. 

Mest var síðan um að vera þann 10.júní. Lýsing á atburðum þess dags tekur hátt á þriðju síðu í yfirliti Lievog. Segir að hann hafi talið 88 nokkuð sterka skjálfta þennan dag - en ábyggilega hafi þeir verið fleiri. Hálfleiðinlegt veður var þennan dag, sunnanstrekkingur með skúrum eða rigningu - en svo virðist sem hann hafi samt ákveðið að sofa í tjaldi - morguninn eftir vakti skjálfti hann kl.6 og frá kl.10 árdegis til 6 síðdegis hafi komu að sögn 6 skjálftar. Næstu daga voru einhverjir skjálftar á hverjum degi, til og með 16. Síðan kom nokkurra daga hlé, til þess 21. að vart varð við hræringar. 

Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal (á Skarðsströnd) getur skjálftanna í dagbók sinni í júní 1789:

„Jarðskjálftar oft til þess 14da svo stundum brakaði í húsinu“. 

Í dagbókum Sveins Pálssonar er sagt að vart hafi orðið jarðskjálfta í Viðey bæði 1785 og 1786 - ekki er vitað hvar upptök þeirra kunna að hafa verið. 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • ar_1844t
  • w-blogg020321b
  • w-blogg020321a
  • w-blogg020321c
  • lievog jardskjalftar 1789

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.3.): 21
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 2377
  • Frá upphafi: 2010531

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2043
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband