Af árinu 1830

Tíð þótti almennt hagstæð á árinu 1830, en var samt misskipt, talsvert hagstæðari syðra heldur en norðanlands, enda var hafís að flækjast þar fyrir ströndum. Meðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig en reiknast 3,8 stig í Stykkishólmi. Svo hlýtt var í Reykjavík í maí að talan er ótrúverðug (10,0 stig). Tölur frá Ketilsstöðum á Völlum staðfesta að maí var hlýr, meðalhiti mánaðarins þar reiknast lauslega 7,6 stig (óstaðfest tala), í flokki mjög hlýrra maímánaða þar um slóðir. Aftur á móti eru tölur úr Eyjafirði lægri - kannski hafísáhrif. Einnig var hlýtt í Reykjavík í janúar og júní, en fremur kalt í febrúar, mars apríl, júlí, nóvember og desember, nóvember kaldastur að tiltölu. Á Ketilsstöðum var júní hlýrri en bæði júlí og águst - sá síðastnefndi var mjög kaldur þar. En allar þessar mælingar þyrftu nánari athugunar við. 

ar_1830t

Í Reykjavík voru 15 dagar mjög kaldir, flestir í febrúar og mars (sjá má lista í viðhengi). Kaldastur að tiltölu var 11.mars. Sautján dagar voru mjög hlýir. Hiti fór 6 sinnum í 20 stig, mest 22,5 stig þann 30.júlí og var sá dagur einnig sá hlýjasti að tiltölu. Framan af ágúst var mjög hlýtt í Reykjavík. Þá sömu daga var hins vegar lengst af kalt austanlands. 

Árið var fremur úrkomusamt. Úrkoma í Reykjavík (Nesi) mældist 883 mm. Óvenjuþurrt var í desember, úrkoma mældist aðeins 18 mm og hefur aldrei mælst minni í þeim almanaksmánuði. Aftur á móti var úrkoma sérlega mikil í mars, 180 mm, og hefur aðeins einu sinni mælst jafnmikil, það var 1923. Höfum þó í huga að þessar gömlu mælingar eru ekki alveg samanburðarhæfar við þær síðari þegar að metametingi kemur.

Loftþrýstingur var óvenjulágur í júlí og september og einnig lágur í mars, apríl og nóvember. Hann var hins vegar óvenjuhár bæði í janúar og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 13.nóvember, 942,3 hPa. Hæstur varð hann 17.desember, 1038,2 hPa.

Eldgos varð undan Reykjanesi og virðist hafa staðið með hléum fram á næsta ár. 

Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.  

Skírnir 1831 (bls. 73-74) segir af veðri 1830:

Á Íslandi var vetur blíður í fyrra [1830], en þegar útá leið lagði að með hríðum og frostum, og rak hafís að norðurlandinu og vesturlandinu og austurlandinu um sumarmál; varð því vorhart, einkum þar sem ísinn lá við land. Í áttundu viku sumars [12.júní] gerði svo mikla snjóhríð, að sauðfé fennti í Skagafirði og Húnavatnsýslu. Sú hríð hélst í viku. Á Suðurlandi var hvervetna mesti fiskiafli, og góður grasvöxtur, og góð nýting, og mátti þar heita veltiár, en fyrir vestan, norðan og austan hélt hafísinn kulda að landinu, og kippti vexti úr grasinu, en nýting var góð allt til ágústmánaðar loka; þá versnaði veðrið snjóaði mjög í fjöll, þó fengu menn bjargað heyi sínu. Afli var þar í betra lagi. Hafísinn rak eigi burt með öllu fyrri en í septembermánuði.

Suðurnesjaannáll:

Jarðskjálftar miklir á Reykjanesi og út af því á hafsbotni. Þá sukku Geirfuglasker ... sem voru um kýrfóðursvöllur að stærð, með 17 faðma háum björgum. ... Skipstapi frá Bakkakoti í Leiru, 29. nóv. um haustið, af brimi. Drukknuðu 5 menn. 

Jón á Möðrufelli talar vel um janúar, segir frá snjó í febrúar, telur apríl harðan. Í síðustu viku maí segir hann merkilega stillta og góða og gróður í betra meðallagi.  Fyrsta vika júní var líka stillt, en andköld og sú næsta líka hlý og góð fram að hretinu þann 12., en síðan allgóð tíð. Júlí segir hann í kaldara lagi. Hann hrósar ágúst og talar einnig um september og október sem allgóða mánuði. Snjóþungt og hart var hins vegar í nóvember. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar þíður miklar. Í febrúar lengst stillt og gott vetrarfar. Aftur með mars þíða mikil og svo þægilegt vetrarveður til 28.-30., að norðanhríð gerði fönn allmikla. Áður varð ei innistaða. Hafís rak þá inn og með honum við mikinn í Þingeyra-og Hjaltabakkasand. Allgóður reki varð líka kringum Skaga.

Espólín: [vetur]

CLXI. Kap. Vetur þessi hinn næsti var afargóður til miðs, svo at enginn mundi slíkan, frusu varla mýrar, og lagði lítt ár, voru ýmist staðviðri frostlaus, eða með litlum stirðnanda, eða hlákur hægar. (s 168). CLXII. Kap. Hinn 10da dag [febrúar] féll aurskriða á Ráeyri í Siglufirði, mikil og breið, tók hún bæinn allan og eina konu gamla inni, og kvikfénað allan nema 6 ær, og túnið allt, en menn aðrir gátu borgið sér sem nauðuglegast, og hey náðist síðan ótekið. (s 170). Selafli var þá fyrna mikill á Siglunesi og víðar í útfjörðum. (s 170). Þá gjörði vetur rysjóttan frá imbruviku, með snjóum og umhleypingum, drukknuðu 22 menn syðra, var þar með Grímur bóndi Árnason í Þingholti og Hannes Gizurarson snikkari, er nefndist Ólsen;

Gufunesi 2. mars 1830 (Bjarni Thorarensen): Veturinn hefir enn verið hér sá besti, en allir eru hræddir við Heklu, því nú í mikið rigningasömu ári, hafa lækir næstum þornað kringum hana, og af og til fundist hræringar þar. (s186)

Bessastöðum 13. mars 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s124) Vetur var góður þangað til í miðjum febrúar, þá kom eitt frostkast. Nú er hér nógur snjór og umhleypingar.

Brandsstaðaannáll [vor]:

... Mannskaðabylur varð á þriðjudag fyrir páska [6.apríl]. Á Álftanesi fórust 8 bátar og 1 fjögramannafar. (s103) Ísinn fór aftur með maí. Í miðjum apríl vorgæði og snemmgróið. Túnavinna búin um krossmessu, þar sem hún er stunduð. Besta tíð allt vorið, utan mikið hret 12.-13. júní.

Bessastöðum 2. júní 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s126) Þann sjötta apríl gjörði hér ofsaveður af landnorðri. Fórust þá 8 bátar og eitt skip frá Reykjavík og í grennd við hana.

Espólín: [vor, sumar og haust]

kom íshroði nyrðra, og batnaði þó veður seint í apríl, og voru kópar mjög margir drepnir á jökum hvervetna um Skagafjörð og víðar. (s 171). CLXIII. Kap. Vor var einkar gott á sjó og landi, og höfðu allir menn nægtir, en kólnaði þegar fram kom á sumarið; komu skip að vanda, og sögðu þá frið, og var kauphöndlun engu lakari en hið fyrra árið. Sumarið var gott syðra, kalt nyrðra, en þó nýtingagott, grasvöxtur minni á engjum en túnum, spratt lítt í Þingeyjarþingi. Ár var enn gott til sjávar, og haustið gott. (s 172). CLXV. Kap. Þá gjörði kast og snjókomu mikla á allraheilagramessu, og jarðbönn mikil norður undan og á útkjálkum, og var lengi að leysa upp; var lógað allmiklum peningi nyrðra, (s 174).

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Lestir fóru um Jónsmessu. Sláttur byrjaði 16. júlí. Gafst æskileg heyskapartíð, rekjur og þurrkar á víxl, ásamt grasvexti besta á túni og þurrlendi.

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir af veðri hretdagana í júní:

10. Oftast suðlægur fyrst, þá hafgola, stundum sólskin og hiti.
11. Sama veður, skúraleiðingar áliðið.
12. Norðan hvass, mikil krapahríð og regn [Ísinn kominn inn á Poll].
13. Norðan hvass, mikið kaldur, þykkur og þokufullur, stundum með regnkrapi.
14. Norðan sárkaldur og þokufullur.
15. Kyrrt og sólskin fyrst, svo hafgola. Mikið næturfrost.

Bessastöðum 5. ágúst 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s127) Árferði er í meðallagi. Þó er hér stór grasbrestur. Fiskirí hefur í vor verið í minna lagi og venju fremur horaður fiskur. Sumir geta til, að hann hafi gleypt töluvert af vikur, þegar eldurinn var uppi í vor fyrir Reykjanesi.

Laufási 19. ágúst 1830 [Gunnar Gunnarsson]: (s39) Vetur var hér mikið góður, allsstaðar allt fram til þorraloka, síðan áhlaupa- skakviðra og snjóasamur allt til sumarmála, svo hjá mörgum gafst meiri partur heyja upp. Eins hefur verið á Suðurlandi besti vetur og árgæska bæði til sjós og lands og heybirgðir þar nægar, eins hefur vor og sumar verið þar hið æskilegasta. – Lítið eitt af hafís kom hér inná Eyjafjörðinn í vor, en fór skömmu seinna alfarinn aftur, og var hér síðan frameftir vorinu æskileg veðrátta og teiknaði vel til góðs grasvaxtar, en síðan fóru að koma kuldar, sem kipptu úr því öllum vexti, svo hann er hér víðast hvar lítill, og norður undan mjög svo vesæll. .... Fiskur sá er á Suðurlandi aflaðist í vor og seint í vetur, skal hafa verið ærið magur, og liggur fólki þar við að kenna um það Vulcan-útbroti, sem í næstliðnum marsmánuði hafði uppkomið úr hafi fyrir Suðurnesjum vestur af Blindafugla skerum. Hafi reykur sá, er þar skaut upp, glöggt sést frá Reykjavík, hafa og vikurkol víða rekið þar syðra.

Gufunesi 20. ágúst 1830 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir víða verið í lakasta lagi og næturfrost í sjálfum júlí hverri nóttu þá heiðskírt hefir verið. (s187)

Bessastöðum 28. ágúst 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s129) Sumarið hefur verið kalt og þurrt og nýting á heyi hin besta.

Reykjavík 1.september 1830 (Jón Þorsteinsson athsemd):

„Denne Sommer anses ellers for at have været meget tör, vinteren derimod meget mild, og kun i Marts noget kold“. Í lauslegri þýðingu: Sumarið hefur þótt mjög þurrt, veturinn aftur á móti mjög mildur og aðeins kaldur í mars.

4. september 1830 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 184)
Árferðissögur frá hólma vorum hafa sunnanlandsskipin svo glögglega fært yður, að ég get það ekki eins vel, því síður betur. Seinni hluti vetrarins varð hér um pláss miklu harðari en hinn fyrri, hafís og vorkuldar þar á eftir. Sumarið til höfuðdags frá sláttarbyrjun yfir höfuð þurrt og kalt með iðuglegum næturfrostum. Tún spruttu víðast í meðallagi og betur, en engjar og úthagi allvíðast í sáraumasta lagi, nema í einstökum plássum, hvar aldrei er vant að bregðist grasvöxtur. Nýting heyja til höfuðdags hin besta, en síðan bág vegna rigninga.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Sama blíða hélst um haustið til 21. okt., að fyrsta hret gjörði og svo þann 30. snöggleg fönn, 5.-25. nóv. fönn og kafaldasamt, þó lengst nóg jörð, síðan þíða og besta tíð til nýárs. Árgæska fór nú stöðugt vaxandi til lands og sjóar. ... 9.-10. nóv. urðu miklir fjárskaðar, svo sem Háagerði, Harastöðum, Kambakoti, Mýrum, Ystagili, Kolugili, Þóreyjarnúpi og frá Hausakoti urðu úti 2 kven- (s101) menn, er fóru til fjár, því ei var maður þar heima. (s102)

Bessastöðum 19-11 1830 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s130) Haustið hefur verið gott, en nú er vetur kominn með frosti, stormi og nokkrum snjó.

Brot úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1830:

Síðast liðinn vetur hálfur var hér góður
hross og hjarðir fengu fóður
fram um grösug jarðar-rjóður.

Vetrar partur var hinn seinni víða harður
hjörðum byrgðist hagans arður
heyja svengdist margur garður.

Eitt stórkast með einmánuði ýmir sendi
sem að feikna fönnum renndi
fölnað yfir hnikars kvendi.

Þurrt kom vorið, þegar vetur þá var liðinn
hafís nyrðra hafði biðin
höldum færði sel og viðinn.

Júníus tólfti él gaf nyrðra jarðar-breiðum,
grasa fólk svo heim af heiðum,
hrakið komst úr byljum leiðum.


Talinn var á túnum sumum töðu-brestur
oft þó þerrir yrði bestur
engja skortur þótti mestur.


Nóvember hinn níundi varð nærskta slæmur,
hörku bylur norðan næmur
nokkrum gjörðist óhagkvæmur

Hrakti og fennti féð á köldum foldar rana,
fjórir menn og fengu bana,
fundnir síðan andarvana.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1830. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 410
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 1726
  • Frá upphafi: 2350195

Annað

  • Innlit í dag: 370
  • Innlit sl. viku: 1573
  • Gestir í dag: 360
  • IP-tölur í dag: 348

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband