Af árinu 1819

 Talið meðalár á sínum tíma - en heldur kalt nú á dögum. Reglubundnar hitamælingar voru aðeins gerðar á einum stað á landinu svo vitað sé, Víðivöllum í Skagafirði. Út frá þeim mælingum giskum við á meðalhita í Reykjavík (4,7 stig) og í Stykkishólmi (3,8 stig). Veturinn var ekki frostamikill, fremur hlýtt var í mars, en kuldi í apríl og síðari hluta maímánaðar spilltu heldur fyrir. Sumir sögðu vorið þó hagsstætt. Rigningar spilltu sumrinu mjög á Suður- og Vesturlandi og gætti þeirra líka fyrir norðan - en eyfirðingar segja að hlýtt hafi verið í ágúst. Þó tókst að koma heyjum í garða - en þau voru vond. Haustið var fremur hagstætt.

ar_1819t 

Þegar horft er á myndina þarf að hafa í huga að mælingarnar eru gerðar í morgunsárið - á kaldasta tíma dags. Að sumarlagi var einnig mælt um miðjan dag, en þá skein sól stundum á mælinn - en þær mælingar hafa verið felldar brott á myndinni.

Aðalprentheimildir um tíðarfar og veður eru fengnar úr Klausturpóstinum og Brandstaðaannál og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins eru rýrar þetta ár - en gagnorðar. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.  

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þíða og góðviðri hélst til 15. jan., að snjó og frostveður gjörði, oftast stillt veður og jarðsælt. Jarðskjálfti varð á þorraþrælinn. Í mars óstöðugt; hláka 4.-5. og 13., en 16. fyrsta innistaða og vikufönn og aftur mikil páskahríð á norðan, 11. apríl. Varð að öllu afferðagóður vetur og hvergi þungur. Hross úti gengin í besta standi. Á þessum vetri var aldrei jarðskortur.

Espólin er heldur stuttorður um tíðarfar á árinu:

Espólín: CIII. Kap. Þá var góður afli syðra öndverðan vetur, en lítill um vertíð, og höfðu menn þó sótt langt að, og allt norðan af Sléttu; var ofanverður vetur góður og vorið, nema lítið kast um páskatímann, en eigi rættist þó vel úr vorinu. (s 111). CV. Kap. Sumar það var votsamt og eigi gott. Um vorið var drepið á ís mikið af vöðuselum í Norður-Múlasýslu. (112).

Klausturpósturinn 1819 (II, 4, bls 60) segir af vetrartíð, aflabrögðum og fleira:

[...] Vetur má þá segja hér, einhvern hinn besta og mildasta, frosta- og snjóa-lítinn, en storma og hretviðrasaman mjög, um allt Suðurland, fram yfir nýár [1818/19]. Hey reynast nú víða dáðlaus til holda og mjólkur, líka stórum skemmd um Suðurland og víðar, og því illa fóðurgæf; enda er gagn af kú sár-rýrt, og bjargarskortur víða almennur, nema syðra við sjá, hvar aflabrögð allgóð bættu úr kaupstaðaörbyrgð matar. Nyrðra er velmegun almennt góð sögð; en vestra, einkum undir Jökli, bágindi meðal fólks, vegna sérlegs aflabrests af sjó, kringum Jökulinn. Nú er fyrir nokkru besta aflavon líkleg með öllu Austurlandi, á Suðurnesjum og í Norðvíkum, og þegar í blóma væntist og, að hún þá og þegar færast muni inn með Strönd og öllum Nesjum. Aflalítið fyrir Norðurlandi næst afliðið ár, nema af hákarli og seli í vissum plássum. Góður afli varð þó í Suðurmúlasýslu, en rýr í þeirri nyrðri árið sem leið [1818]. Ofsastormur af norðaustri tjáist, þann 23ja janúar þ.á. að hafa til muna skemmt höndlunarhús í Siglufirði nyrðra. [...] [Hér kemur síðan langur kafli um alls konar slys – ekki tengd veðri þar til]: Í miðjum september [1818] króknaði unglingsmaður til dauðs, við fjárgöngur, á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Þann 22.janúar 1819, drukknuðu 7 menn af skipi við Ólafsvík; formaðurinn einn komst af.

Klausturpósturinn heldur áfram í 6.hefti 1819 (II, 6, bls 93):

Vetrarvertíð umliðin fyllti engan veginn þá líklegu aflavon, sem menn víðast um Suðurland gjörðu sér við hennar byrjun, en hún varð í flestum veiðistöðum austan með – í Vestmannaeyjum þó góð – í rýrasta meðallagi: sunnan með allvíðast aum; á Innnesjum og Akranesi sáraum, og sama var frá Jökulveiðistöðum vestra að heyra. Af Vestfjörðum fréttast harðindi mikil, allt að sumarmálum, og þar mikill hafís og eins nyrðra fyrir. Bráðdauði mikill á mönnum og skepnum, 8(?) menn bráðdauðir í Önundarfirði, nokkrir annarstaðar vestur um firði, og 3 í Hornafirði austur, allir, að menn halda, af óhollri nautn illa þurrkaðs verkaðs og nýlegs hákarls, sem bágindi þrýsta of mörgum til í ótíma, og heldur frekt í einu, sér til munns að leggja, máski sem einmeti.

Um seinan er mér nú kunngjörður skiptapi, þann 28.apríl 1818, á sundinu milli Vestmannaeyja og lands; fórust þar 8 menn, en 2 varð bjargað úr landi. Þann 10da sama mánaðar drukknuðu 2 menn í lendingu undir Eyjafjöllum ...

Brandsstaðaannáll [vor]:

Vorið gott. Sást með maí gróður og kýrgras um krossmessu á láglendi. Kuldakast fyrir fardaga, svo þurrkasamt með góðviðrum. Fráfærur voru í fyrra lagi, um sólstöður og lestir fóru í júlíbyrjun.

Sveinn Pálsson getur um tvo væga jarðskjálftakippi 16.apríl.

Klausturpósturinn 1819 (II, 7, bls 110) segir af vortíð og síðan í næsta tölublaði frá hafís og fleiru:

Veðurátt hefir fallið hin besta á umliðnu vori; grasvöxtur varð því víðast ágætur, svo skepnur tóku bráðri bröggun, nema hvar létt, skemmd og óholl hey á næstliðnum vetri stóðu þeim fyrir þrifum, sem allvíða reyndist svo um Suðurland, að óvenja þótti að sjá fjölda fullorðins nautpenings, kúa og nauta vella í lús, tálgast og dragast við það í hor; en þetta varð þó almennt um mýrarjarðir, hvar hey voru slæm og skemmd. Nokkrir reyndu að kaffæra pening í sjó eða vatni, til að eyða henni, en forgefins, því – aðeins við langt sund drepst þessi vargur til fullnustu. Besta meðalið verður því ítrekaður þvottur gripsins í keitu og ösku, sem skerpir lútina, eða, hvar föng eru til, í kalkblöndnu vatni, hver skerpa er þeim illyrmum banvæn. Vorafli syðra varð af ýsu í meðallagi á lóðum, en mjög rýr á færi. Á Suðurnesjum var nú með góðri heppni reynd hákarlalóð, ...

Klausturpósturinn 1819 (II, 8, bls 127)

Sá hafís, hvers No. 6. á bls.94 getur fyrir Vestfjörðum, og nyrðra, kom og við fyrir austan, en aðeins um stutta hríð þar og nyrðra, og ýmsum héruðum til óvenjulegra heilla; því á þessum hafísi kom þvílík mergð af vöðuselum og kópum, að í Þingeyjarsýslu urðu 491 veiddir í nótum, en 664 rotaðir á ísnum. Í Norður-Múlasýslu er talan enn þá óviss, þó tjáir prófastur Hr. Guttormur Pálsson, að þar muni rotaðir vera á ísum af vöðuselum og kópum, full 2000 eða fleiri. Eitt bjarndýr var þar og fellt, en 12 hreindýr í Þingeyjarsýslu, við hvað þessu þó sást lítið fækka. Heyrt hefi ég kunnuga reikna 1 vætt fisks af hverjum meðal vöðuseli fullorðnum, en miklu meira af þeim stærstu.

Slysfarir og voveiflega dánir. [...] Þann 17da júní þ.á., týndist fiskafarmsskip fyrir Eyrarsveit vestra, með 4 mönnum. Þann 26ta f.m. [?] drukknuðu 2 danskir farmenn af slúffu á Reykjarfirði. Þann 7da júlí fórust 2 menn af báti fyrir Leirársveit í Borgarfirði, í svo kölluðum Ósum. [...]

Brandsstaðaannáll [sumar]:

1.-22. júlí stórrignt og seinast hret mikið. Tóku síðbúnir lestamenn út neyð vegna ófærðar og snjóa i fjöllum. Sláttur hófst á miðsumri. Ekki varð grasvöxtur meiri en í meðallagi, regnsamt um töðuslátt til 2.-3. ágúst, að góður þerrir kom, svo rekjusamt til 10. ágúst, að mikið hey var sætt. 3 daga eftir það (með sunnanátt) rigndi ákaflega í sífellu, svo skemmdir urðu miklar á þurru heyi, er olli sóttardrepi á fé síðar. Eftir það lítið um þurrk, þó hljóp (s80) mesta vatnið af og varð nýting sæmileg. Til Mikaelsmessu oftar vætusamt en frostalaust að mestu.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Fyrst í október hörkufrost vikutíma, svo óstöðugt með slyddum og þíðu og síðari helming hans þurrt og stillt. Í nóvember sunnanátt og þíður til 15., þá hríð og snjór, óstöðugt, harka og blotar. Með desember snjór af suðvestri allmikill, 5.-9. góðhláka; 13. norðanhríð og stórhríðar fyrir jólin með fannlögum, svo fé kom á gjöf. Varð þá krafsjörð móti austri, þó snjókyngja væri hins vegar. Árferði var nú gott og blómguðust sveitabúin með vaxandi lifandi pening og heyjanægtum. (s81)

Klausturpósturinn 1819 (II, 12, bls. 189) lýsir sumar- og hausttíð

Á veðráttufar og árferði frá vetrarkomu 1818, allt fram á slátt 1819, minntist ég á bls. 61,61,93-94, 110 og 127. Úr því reyndist sumarið kalt og vætusamt um mest allt Suður- og Vesturland, grasvöxtur góður en nýting slæm, svo töður og hey hröktust og skemmdust víða í haustrigningum. Í Húnavatnssýslu var og vætusamt, betri heyjafengur í Skagafirði, ágætur og árgæska norðar og um allt Austurland. Haustveðrátta góð, mild, en vindasöm, svo sjógæftir urðu bágar, sumar og haustafli mjög rýr, hvar af – og af algjörlegu þroti allra lífs-nauðsynja í kaupstöðum Suðurlands (...) við útsiglingu skipa, og póstskipsins útvist ennþá þ. 2. desember, sem menn vonuðu, að þó bæta kynni bágindi og almennan bjargræða útvega hnekkir, komist það ekki hingað í ár. Að vestan fréttist betri haustafli undir Jökli, þó sjaldgæft væri. Mælt er að nálægt því 100 smáhvalir hefi hlaupið á land við Þingeyrarsand en hér um 16 náðust í Hrútafirði; líka að ósamheldi og ágreiningur um upprekstursstaðinn hafi opnað stórvöðum nokkurra þúsunda smáhvala í haust, aðkrekktum af upprekstarmönnum nálægt Vogastapa, útgöngu leið það til hafs um greipar þessara. ... Eystra tjáist Skeiðarárjökull syðri, enn þótt oft svo áður, mjög svo ókyrrlátur í sumar og hlaupsamur; sem afsprengi eldjökla, en enginn eldjökull sjálfur, boðar hann máski minna, á meðan umbrot ekki sjást í eldjöklunum norður og austur af honum, við hver hann oft áður hefir mjög órór sést. En – mjög gjósa nú eldfjöllin Vesuvius á Vallandi, og Etna í Sikiley, sem oft hafa samfara orðið eldgosum hér, hverjum Drottinn oss forði!

Bessastöðum 31. ágúst 1819 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s71): „Sífelldar rigningar hafa fordjarfað flestra töður, en rétt nú kom þerrir“.

Gufunesi 15. september 1819 (Bjarni Thorarensen): „Sumarið hefir hér syðra verið eitthvert hið argasta og nú er enn kominn óþerrir, nyrðra hefir alltaf verið besta tíð. Þú getur þá nærri að heyskapur hefir orðið að ganga hér illa“.

Jón á Möðrufelli talar vel um veður á árinu - (að því er virðist) af þessum fáu orðum sem ritstjóri hungurdiska gat lesið. Í almennu yfirliti í lok árs 1839 segir hann 1819 hafa verið meðalár:

Febrúar mikið stilltur og hægviðrasamur, mars mikið góður, apríl yfir höfuð góður, fyrripartur kaldur. Maí, fyrri partur dágóður, síðari partur í kaldara lagi. Gróður í meðallagi. Júní andkaldur um tíma. Júlí allur rétt góður að veðráttufari, ágúst allur sérlega hlýr. September óstöðugur. Október mikið góður. Nóvember góður, snjólaust að kalla.

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1819

Vetur góður var í ár
víðast hér á landi
hjalls um rjóður hópur fjár
hlaut því fóður stór og smár.

Vorið svalt en veður hreint
vökvan jörðu sparði
lagði kalt um loftið beint
láðið allt því greri seint.

Spruttu túnin þegna þæg
þó í betra lagi
mörk tilbúna mild og væg
mána rúna vermdi næg.

Stormi blandið hret og hríð
hæst oss sumar færði,
baga vanda veitti lýð
voru landi óþörf tíð.

Svall um haga hlýrnis sút
heyja nýting gjörði
hunda-daga alla út
Ýmis baga hvarma lút.

Veðrið harða vítt um bý
vinnu arði spillti
haddur jarðar hrakinn því
haugaðist garða fólksins í.


Tíð á hausti valla vær
var, en hörkulítil
tregðulaust því fóður fær
fíls um naustið jór og ær.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1819. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 2343338

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 383
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband