Af árinu 1817

Árið 1817 er oftast talið til harðindaára, þó betur hafi e.t.v. farið en á horfðist. Við höfum litlar upplýsingar um hitafar. Einu mælingar sem tekist hefur að koma höndum yfir voru gerðar af séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði. Heldur ófullkomnar, en þó miklu betri en ekki neitt. Ritstjóri hungurdiska hefur leyft sér að nota þær til að áætla hita í Stykkishólmi og Reykjavík og giskar sú ófullkomna áætlun á 2,5 stig í Hólminum, en 3,6 stig í Reykjavík. Kalt var fyrstu þrjá mánuði ársins og var þá jafnframt kvartað undan umhleypingum og hríðarveðrum. Aprílmánuður virðist hins vegar hafa verið mjög hlýr, en aftur á móti var kalt í maí og fram eftir júní. Heyskapur gekk yfirleitt vel þó kalt væri nyrðra í ágúst og allgóð tíð var síðan um haustið eftir hret seint í september. 

ar_1817t 

Samantektir birtust í bæði Íslenskum sagnablöðum sem og Klausturpóstinum og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins tína einnig til. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru sömuleiðis upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.

Íslensk sagnablöð B2.deild 1817 (s1 til s2) segja af tíð fram á vor - þar er minnst á hitamælingar sem ekkert er vitað um hver gerði (ekki heldur víst að þær hafi verið reglulegar eða færðar til bókar):

Þó árferði Íslands sé oft í tíðindi sett má þess ei vænta að hér verði nákvæmlega frásagt veðuráttufari, aflabrögðu, grasvexti og nýtingu hvert ár. Það nægir að geta þess, að öll þessi ár, til næstu vordaga [1817], frá nýári 1804, hafa verið meðalár, sum betri önnur lakari, þegar ég undantek næstliðinn vetur, sem vegna langsamara óverðra reyndist víða mjög skaðsamur; Frost voru þá, hörð með köflum, þó aldrei meir en 19° við sjó í Gullbringusýslu, og stóð sú frostharka mjög stutta stund. Það var ei heldur lengi vetrar að frost næði 16°, en köföld, umhleypingar og áfreðar, gjörðu vetur svo affara slæman. Margir, helst nyrðra og eystra, misstu fjölda af útigangspeningi; fyrir norðan land jukust harðindin mest vegna hafísa er inn að landi rákust, svo hvergi sá útyfir í kóngsbænadagsvikunni [mánaðamót apríl/maí], lá ís sá þar mestan hluta sumars, og þokaði sér að kalla kringum allt land. Mesta snjókyngja barst niður undireins á norðursveitum svo varla var mögulegt að komast milli bæja. Fjármissir mundi samt hafa orðið miklu meiri víða um land, hefði ei næst undangengið sumar verið eitthvert hið besta, og heyskapur góður.

Klausturpósturinn I, 1818, segir af árferði 1817 (bls 4):

Um þetta skal ég hér verða því fáorðari, sem fleirum lesendum þessa Pósts er árferði hér á landi gagnkunnugt og minnisstætt; þess vegna aðeins drepa lítið eitt á helstu þar að lútandi atriði eftirkomendum til minnis:

[Vetur] Frá nýári 1817, féll hér á einhver hinn þyngsti snjóa- og ofviðrasamasti vetur, einkum um allt Suðurland, og því þyngri austur eftir, einkum um báðar Skaftafellssýslur og Fljótshlíð, sem austar dró. Hér af leiddi mikinn hrossa- og fjárfellir, líka talsverðan kúa. Frá Hvalfirði um Kjósar- og Gullbringusýslur nokkurn, þó minni í Árnessýslu, mestan í nokkrum sveitum Rangárvallasýslu, einkum Fljótshlíð, og Skaftafellssýslum. Þó veturinn þætti víðar annarstaðar um land frá nýári, einkum frá þorrakomu, þungur og snjósamur, leiddi þó ekki sérlega stórfellir þar af, nema ... á einstökum bæjum. Stormar og köföld sífelld tóku víðast fyrir sjógæftir, og gjörðu því vetrarafla rýran austan með og um allt Suður- og Vesturland, nema í Vestmannaeyjum urðu hlutir, sem undanfarin ár, geysi háir. Vestfirðinga og Norðlendinga bagaði þar hjá mikill hafís og Múlasýslur, sem fyllti upp allt. Yfir Ísafjarðardjúp var fram á vor á ísum með hesta farið, eins firði norðan- og austanlands og urðu af honum svo mikil hafþök framundir miðsumar, að kaupför norðan- og austanlands seint náðu þar höfnum, og jafnvel þá varð vart við rekís austan með út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar vestur eftir. Vorið varð því sárkalt og jörð seingróin, víða gróðurlaus fram á messur; sumargagn málnytu rýrt og stutt, fénaður víðast mörlítill um haustið, eftir stutt sumar.

[Afgangur ársins] Vorveðurátt og allt sumarið, haustið og veturinn árið út, var annars víða um land einhver hin mildasta, blíðasta, logna- og góðviðrasöm, en lengi of þurr langt fram á slátt, sem, ásamt hafíssins löngu spennu um svo mikinn hluta landsins, ollu sumstaðar rýrum grasvexti, þó mun hann víða náð hafa meðallagi, nema í eyjum, sem flestar brugðust nú stórum. Heyjanýting og fengur varð og víða nálægt meðallagi, nema á Austursveitum, hvar óþurrkar gjörðu hann auman, einkum seinni part sláttar, og þó bágastan austarlega í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum, rýran á Vesturlandi, en góður varð hann Norðanlands. Frá fyrrnefndu vorsins blíðviðri er mælt, að Múlasýslur megi allt að messum undanskilja, og að þau miklu kuldahret, snjóa- og kafalda aðköst, sem frá því 12 vikur voru af vetri [þorrabyrjun], geisuðu þar með ofsastormum og byljum, og felldu hér og hvar töluverðan fénað, hafi langt fram eftir vorinu viðhaldist, jörð því verið gróðurlítil, og fjöll hvítleit fram á messur, þá hafísinn fyrst rak frá landi, er var alltaf á hrakningi fyrir Austfjörðum, frá liðnu nýári til Bænadags [2.maí], þá hann fyrst lenti þar. Fé varð því mjög grannt og arðlítið um vorið, og unglömb ásótt af óvenjulegum hrafnagrúa.

Vor-, sumar-, haust- og vetrar-afli til nýárs 1818, varð um mestallt Suðurland, einkum í Gullbringu-, Kjósar- og Borgarfjarðarsýslum, hinn allra besti, og óvenjulega mikill og góður, nema í veltiárum. Gekk fiskur hér allstaðar svo á grunn, að megnir hlutir tókust rétt við landsteina og inn um firði, við Akranes, Kjalarnes og allstaðar, djúpt og grunnt, og mælt er, að 7 til 8ta hundraða hlutir séu í haust og í vetur, það af er, komnir í Njarðvíkum og á Strönd, en 4 til 5 hundruð á Innnesjum. Sami góður afli er sagður af Vestfjörðum; minni undan Jökli. Að norðan hefi ég ekki greinilega um afla frétt, eða úr Múlasýslum. Það er merkilegt, og haldinn boði mikils fiskiafla eða máski réttara sagt, þessum samfara, að á afliðnu sumri, rak sumstaðar hér syðra, einkum í Kollafirði, inn til Sunda og víðar, ótöluleg mergð af smokkfiski, eftir hverjum, sem ljúffengustu beitu, mikill fiskigangur sótti hér uppá grunn. Líka má þess geta; að þó laxveiði þetta ár, yrði með rýrasta móti allvíða, einkum í Elliðaám, gafst hún þó á Hvítárvöllum í Borgarfirði óvenjulega vel, með þar uppfundinni nýrri veiðiaðferð, í stuttum, en mörgum fljótandi laxagripneta stúfum, lögðum út frá vöðum í Hvítá, hvar aðdjúpt er og iðukast straums ber netstúfinn beint út frá landi, við hvert festur er annar endi hans. Gáfust þar með þessari veiðiaðferð, fleiri en 1000 laxar á land, svo stórir að hver, að meðalvigt, var liðugur fjórðungur, þá hver bætti annan upp. Veiðiaðferð, sem óskandi væri, að víðar um land yrði reynd og notuð, einkum í straum- og jökulvötnum, sem fyllast ár hvert af ríkulegri mergð stórlaxa, hverra veiði mönnum oft er sýnd, en ekki gefin, vegna aðburðaleysis, og snýr því sú mikla blessan, er forgefins býður sig mönnum fram, víða ónotuð aftur til hafs, hvar álíka veiði þó vel mætti viðhafa.

Klausturpósturinn segir síðan frá nokkrum skipreikum:

Nokkurra tjón, annarra happ gjörðu: Skipreikar 1817.
1) Þann 13da mars lagði út frá Hafnarfirði Íslands póstskip, slup-skipið Dorothea kallað, fært af Skipara-Knúti Clausen, á heimleið aftur til Danmerkur. Ofsastormar, sem af suðvestri (útsuðri) strax eftir uppákomu, gjörðu, að þetta skip skammt eftir, nefnilega á skírdag (3.apríl), fannst strandað, sundurliðað og nokkrir partar þess fastir í bjargskorum, við Saxahóls bjarg hjá Öndverðarnesi undir Snæfellsjökli. Menn allir sem á voru, týndust með því alls 9, þar á meðal einn af kennendunum við Bessastaða Latínuskóla adjunct Jón Jónsson, sem mælt var, að í áformi haft hefði að sækja um Breiðabólstað í Fljótshlíð.Hann lét eftir sig ekkju með 4 ungum börnum. Af líkömum skipverja fannst ekkert, nema ein hönd, og mjög lítið af farmi skipsins, eða af góssi þeirra, kom á land. Margir hrepptu töluverðan skaða við þessa skips ströndun, einkum reiðari þess, riddari B. Sívertsen og sonur hans.

2) Þann 14da nóvember sama ár, fann hreppstjórinn í Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu, Jón Árnason, stórt útlenskt skip mannalaust, rekið á Hnappavallafjöru, með einu mastri uppistandandi, en öðru brotnu. Af 4 patent-kúlum, eða 2 á hvert borð, sem líklegast er að sjá, að verið hefi innsettar í þilfarið ofanvert, til að bera birtu ofan í káetuna í glugga stað, fannst einungis 1 eftir, hér um ¼ álnar í þvermælir, og löguð sem hálfkúla, af skæru gleri, við hvers rönd stóð orðið; Patent [löng neðanmálsskýring á fyrirbrigðinu fylgir – en er sleppt hér]. Nafn Skipsins: The Rover **) of Newcastle. (Það er: Víkingurinn frá Newcastle, stórum höndlunarstað í Norðymbralandi á Englandi, nafntoguðum einkum fyrir útfærslu bestu steinkola) sýnir að það muni [** Orðið Rover þýðir líka Ráfari] engelskt verið hafa, og engelsk bók á því fundin styrkir sömu tíðindi. Það var hlaði með stórtrjám af furu og beyki (ég vil þó heldur trúa af eik), brimgarðar og boðaföll höfðu afbrotið þess káetu, stýri og undirhluta skutsins, þegar það fyrst fannst, en síðan liðað það svo í sundur, að parta þess allmarga, og töluvert af farmi, tók út aftur og bar víðs vegur um sjó og fjörur, þar ekki varð hægt, í brimróti, að festa eða bjarga því undan þar á eyðiplássum; svo að af 302 bjálkum, sem Sýslumaður J. Guðmundsson hafði þegar uppskrifað, bjóst hann ekki við að fleiri en hér um 200 mundu í vor eftir verða. Það er ekki ólíklegt, að þessum skipsfarmi vera kunni þau mörgu stórtré, sem í vetur rekið hafa syðra í Gullbringusýslu, einkum á Suðurnesjum og í Höfnum og máski víðar. Enginn bátur og engin skipsskjöl fundust með þessu skipi. Af því varð bjargað nokkrum bútum af akkertogum, 2 akkerum og 30 faðma langri járnhlekkjafesti, hvar af sérhver vegur nálægt ½ pundi, en 8ta liðir eru í alin.

3) Þann 29da október sama ár, er þrímastrað fregátuskip, að nafni F. Strombole, strandað og rekið á Starmýrar fjöru í Álftafirði í Suður-Múlasýslu, mastralaust, líka án bugspjóts, stýris og segla, en að öðru heilt, þó laskað í botni, fullt með timbur, stórvið af eik og furu, eikarplanka og mestu mergð af eikarstykkjum. Með því voru engir lifandi menn, en dauðir 5, allir alnaktir nema 1, haldinn að vera skipari, á hverjum fundust 27 heilar enskar, aðrir segja spanskar, speciur og 3 hálfar, 7 gull guineur, nokkrir bankóseðlar (máski enskir), úrfesti, með nokkrum hringum og signeti við, allt af hálfgulli (semidor). Nafn hans er haldið verið hafi Thomas Nicolay, eftir 2ur á honum fundum bréfum frá konu hans í Skotlandi, hvaðan hann sigldi í fyrra eftir nýár, líklega til Norður-Ameríku, hvaðan enskir nú flytja mikla trjáviðar farma, og er trúlegt, að bæði þessi skip hafi með þessa útvöldu timburfarma þaðan komið, en í ofsastormum hrakist áfram hjá siglingu heimleiðis ofnærri Íslands austurbyggðum, hvert trjáviðarlausa og fátæka land nú má sanna, sem margir ella: að eins dauði er oft annars brauð. Þó þessar strandanir séu nú allar hingað suður sannfréttar, er lesendum þessa blaðs miður annt um ýtarlegri frásögu sérhvers af þessum skiprofum rekins eða bjargaðs, framyfir það hértalda markverðasta.

4) Fiskiskip íslensk forgengu árið 1817: Sexæringur í Njarðvíkum, á vetrarvertíð, með 7 mönnum á, og annar um vorið frá Staðarsveit í Snæfellsnessýslu, með 6 mönnum, og týndust menn allir af báðum. Þriðja skip er mælt að farist hafi í Dritvik, með 7 mönnum á, hvar af 5 drukknuðu, og annar af 2ur, sem bjargað varð, deyði litlu síðar. Báti frá Helgafellssveit skal syðra hafa hvolft, hvarvið annar maður af honum fórst. Á áliðnu sumri fórst og annar bátur á blindskeri við Akranes skaga, og drukknaði annar maðurinn. Um fleiri ófarir annarra á sjó í öðrum landhéruðum, er mér enn ókunnugt, ef fleiri eru.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar kafaldasamt af öllum áttum, jarðlítið, frostasamt og ekki gott veður fyrr en 5 síðustu daga hans. 1. febr. mesta stórrigning 2 dægur, er víða ollu skemmdum á heyjum. Á eftir sletti í og bólgnaði yfir allt með svellalögum. Fylgdi því versta veður og sífelld köföld, mest af norðri. Mánudag síðasta í þorra [17.febrúar] kom harður bylur, svo fé hrakti, þar snapir voru í Skagafirði. Á góu blotar og sami hríðarbálkur og jarðleysi. Frá jólum (s75) til skírdags [3.apríl] var óvíða messað vegna illviðra. Karlmenn höfðu sífellt nóg að starfa við peningahirðing og og snjómokstra. Víða voru hross inntekin fyrir þorra.

Espólín [vetur]:

LXXXIV. Kap. Byljir voru þann vetur margir og skyndilegir, og höfðu menn víða tjón af; hafði sagt Sæmundur prestur Hólm, að sá mundi verða manndrápa-vetur, en hann fór oft nærri um bylji. Mánudaginn seinastan í þorra, er var hinn 17. febrúar, gjörði byl, varð þá úti piltur í Skagafirði, og sauðfé hrakti víða og misstist; urðu menn úti í ýmsum stöðum vestra. Margir menn urðu úti um veturinn, og týndist víða fé. (s 92).

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á páskum, 6. apríl, blotaði með rigningu. Eftir það kom bati góður. Í síðustu vetrarviku varð vatnsgangur voðalegur. Hlupu lækir á tún og bæi, svo sem á Eiríksstöðum og Gili. Komu og víðar skriður. Jörð var auð og allgott veður til maí, þá kuldar og frost mikið, því hafís var mikill út fyrir, kom góu og lá til fardaga. 16., 17., 18., og 19. [maí] var minnilegasta stórhríð með fannkyngju. Eftir það var 5 daga bjargleysi neðra, svo lambfé var inni gefið, þar hey var til; án þess töpuðust lömbin. Þraut það nú víða. Af 13 bæjum var sótt hey að Eiríksstöðum og ýmsir voru aflögufærir. Úr hvítasunnu [25.maí] kom bati 28. maí.

Snemmsumars var mikið ísrek við Suðurland. Sveinn Pálsson segir af stöðunni við Vík í Mýrdal frá degi til dags. Það sem hér fer á eftir er endursögn ritstjóra hungurdiska. Kann hann Björk Ingimundardóttur á Þjóðskjalasafni bestu þakkir fyrir að hafa brotist í gegnum dagbókarfærslur Sveins.

Fyrsta frétt Sveins af ísnum er frá 22.maí. Þá getur hann þess að menn segi ís kominn til Djúpavogs. Þann 6.júní fréttist að íshrafl sé komið á Meðallandsfjörur. Þann 9. júní rak mjóa ísspöng framhjá Vík úr austri til suðvesturs - kom síðan með aðfallinu að landi og varð landföst um kvöldið. Þann 10.sést aðeins út yfir ísinn, sem að sögn hafi farið milli Vestmannaeyja og lands. Þann 11. kom nokkuð los á ísinn - en 12. var ís með öllu landi, mest á Víkinni. Þann 13. rak ísinn til hafs en kom aftur úr austri þann 14. og var útifyrir þann 15. og 16. Þann 17. lá hann í langri mjórri ræmu og stórir jakar þar á meðal austan við. Þann 18. var mikill ís á Víkinni og sama ástand þann 19. Þann 20. þétt hella að austan. Þann 21. losnaði nokkuð frá landinu, en rak fram og aftur. Alla vikuna ríkti kaldur austanvindur með ísþoku og súld, stundum rigningu. Þann 22. rak ísinn nokkuð til hafs - þá var alsnjóa á fjöll. 23. kom ís aftur að landi og stórir jakar um allt. Þann 24. var ísinn landfastur og Víkin full. 25. Sama, en sagður minni utan við Jökulsá og hlaup í henni. 26. Óbreytt ástand. 27. Var öll víkin full til hafs - en rak nokkuð frá með fallinu - en kom aftur. Þann 28. rak hann til hafs - en kom aftur úr austri. 29. Minni úti í hafi. 30. Sást fyrst ekkert vegna þoku, en síðan var engan ís að sjá nema á ströndinni - loks kom hrafl að austan. Þann 1. júlí var allmikill ís og 2. var mikill ís, fastur, á Víkinni og sama þann 3. Þann 4. rak hann með ströndinni. Þann 5. var minna, og um tíma enginn rekís, en síðan stakir jakar. Þann 6. var enginn ís á reki og eins þann 7. Þann 8. var allur ís farinn nema á ströndinni við Meðalland og annars staðar á grynningum við ströndina. 

Espólín [vor og sumar]:

LXXXVI. Kap. Hinn 13.maí, og helst hinn 16., gjörði hríð svo mikla norðanlands, að varla vissu menn dæmi til slíks í þann tíma, varð að grafa sig niður að fjárhúsum á útsveitum, og svo var þar snjórinn djúpur, að ekkert varð komist til að leita heybjargar fyrir pening; féll þá mikill kvikfénaður á Tjörnesi og í Axarfirði, í Ólafsfirði, Fljótum og Sléttuhlíð og víðar. Rak þá hval fertugan á Höfðaströnd, annan lítinn á Reykjaströnd; einn á Skagaströnd; hvalur var og í ísi framundan Höfðahverfi, og náðist ei fyrr en hann var líttnýtur orðinn, hann var níræður að álnatali; hrognkelsisveiði hjálpaði mönnum á Tjörnesi mest. Refar höfðu um veturinn gengið inn í hús, og drepið sauðkindur; en allt var vorið kalt og gróðurlítið, og gagnaðist illa kálrækt, lá ís fyrir Vesturlandi og Norðurlandi um allt vor, og til miðsumars. (s 94). LXXXVIII. Kap. Þá var mikil ótíð af rigningum um Austurland allt, og hið syðra og nyrðra, skriðuföll og jarðarspillingar, og hey blaut borin út; bjó það undir mikil harðindi síðan, og mest í Múlasýslum og Skaftafellssýslum, og um hið eystra Suðurlandið.

Íslensk sagnablöð 3. deild 1818 (s1 til s2) segja frá tíðarfari frá sumarmálum og út árið:

Árferði á Íslandi var, yfir höfuð að tala, frá sumarmálum 1817 til jafnlengdar 1818 lakara en í meðallagi. Vorið 1817 þurrt og kalt allvíða: olli því eftir sem almennt er haldið, hafís sá er lá við landið óvenjulega langt fram á sumar, og hraktist kringum það mest allt til og frá, kom jafnvel suður fyrir land að austanverðu, útfyrir Eyrarbakka í júnímánuði, grasvöxtur varð af þessu, eins og nærri má geta, harla rýr, einkum eystra, og víða við sjó. Heyföng urðu þó um sumarið í meðallagi að vöxtum, nær ég undantek austursveitir, helst Skaftafellssýslu, hvar dæmalaus óþerrir var allt sumarið; en að gæðum reyndist heyafli betri en í meðallagi, vegna hagstæðrar veðráttu, og þurrvirðra langt fram eftir sumri. Seinni partur sumars varð syðra votsamur og eins haustið. ... Vetrarfar fram að nýári 1818 var gott, allvíðast, nema í Norðursýslu [Þingeyjarsýslur] – þar lagðist vetur snemma að.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Varð mikið fardagaflóð. Leysti þá fyrst gadd af heiðum og fjöllum. 7. júní kólnaði aftur og hélst lengi norðanátt, þurrkar og næturfrost, en hretalaust og stillt til sláttar. Í júnílok fært frá við lítinn gróður og fóru ei lestir suður fyrr en 8.-10. júlí vegna ófærðar og gróðurleysis. Gaf þeim æskilega. Af því gadd leysti seint, urðu vorflæði orsök til góðs grasvaxtar á votlendi og flæðiengi, líka allvíða móti austri, en graslítið á túni og þurrlendi. Sláttur hófst 23.-24. júlí. Gafst besta veður allan sláttartímann og fengu margir gott og mikið hey í tómar tóftir, en töðuskortur varð almennur. Vestan Blöndu var göngum frestað um viku og jókst heyafli mikið við það.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

25. sept. kom hret og snjór, er varði vikutíma; úr því gott haust, þíður og og þurrviðri, stundum hvasst mjög, en frostalítið til 18. nóv., að snjó gjörði um tíma. Jólafasta góð. 24. des. lagði sunnanhríð á snjó mikinn, svo fé kom á gjöf allvíða. (s76) ... Aflaleysi norðanlands, því ísinn lá við til júlí, ... (s77)

Reykjavík 10. september 1817 (Bjarni Thorarensen): „Udsigterne for Oplandsbonden i Island ere for Tiden ikke behagelige, thi Græsvæxten har slaaet meget Feil, og vedholdende Regn siden denne Maaneds Begyndelse lader befrygte at Höeslætten ikkun giver lidet Udbytte“.

(s21) Í lauslegri þýðingu: Útlitið er ekki þægilegt fyrir íslenska (upplands-)bændur um þessar mundir, því grasvöxtur hefur brugðist mjög og viðvarandi rigning frá byrjun þessa mánaðar veldur mönnum ugg um að heyskapur verði harla rýr“.

Reykjavík 6.október 1817 (Geir Vídalín biskup):

„Veturinn sem leið verður þá fyrsta umtalsefnið. Hann (s148) lagðist snemma að með frostum og kuldum, samt snjókomum hér sunnanlands, en norðan og austanlands var öndvegis vetur (teste [vitnast af] sjálfum síra Árna Thorst.) allt fram yfir jól. Þó voru hér jarðir sæmilegar til mið-kyndilmessu, úr því til páskaviku [páskar voru 6.apríl] einn sá harðasti vetur með fannfergjum, umhleypingum og harðindablotum á milli. Var um allan þann tíma að mestu jarðlaust og veður svo óstöðugt, að varla var óhætt bæja á milli. Urðu og menn víða úti, suma kól og sumir misstu fé sitt. Ekki voru frost um þenna tíma venju framar nema alls tvisvar, og stóðu þau í hvorugt sinn lengi. Í miðri páskaviku gerði hláku, þó kom hér ekki jörð upp til gagns fyrr en í áliðinni vikunni eftir páska, svo mikil voru snjóþyngslin. Hafís kom fyrir norðan strax í febrúar, en rak burt aftur í byrjun af apríl. Frá páskum til kóngsbænadags [2.maí] var veður gott, og tóku menn nú að búast við góðu vori. En varla var farið að biðja fyrir kónginum fyrr en hér kom mesta norðanveður með frosti og snjó. Rak þá hafís aftur inn fyrir norðan etc., svo fréttin sagði, að hafþök hefðu verið hjá Látrabjargi, vestan Breiðafjörð allt austur að Horni. Í þessum byl rak og niður óvenjulegan snjó sumstaðar norðanlands, svo ekki varð komist bæja á milli. Frá þessum tíma var vorið kalt með stöðugum næturfrostum allt til Jónsmessu, var þá varla komin sauðagróður á túnum, og sumstaðar til sveita var enn nú snjór á þeim, og þeir, sem heyráð höfðu, gáfu enn nú kúm sínum vikuna fyrir Jónsmessu, en þeir voru þá orðnir fáir. Ekki féll stórkostlega af peningi, því margir voru vel undirbúnir að heyjum frá fyrra sumri og heyin góð, en víða hróflaðist nokkuð af, og svo voru hestar horaðir, að sagt var, að hér í næstu sveitum væri varla nokkur ferðafær. Þar hjá var mikill fjárfellir í Skaftafells- og Rangárvallasýslu ofanverðri, og allstaðar hvar til fréttist dó fjöldi af unglömbum. Frá Jónsmessu var veður sérílagi þurrt allt til höfuðdags, grasvöxtur í lakasta og minna meðallagi á þurrlendi, en sæmilegur sumstaðar í mýrum, en nýting sú besta. Síðan með höfuðdegi hafa gengið regn, en þorni nú aftur, sem menn vona, held ég margir fái bjargleg hey. Frá hafísnum er það að segja, að þegar hann losnaði frá Austurlandi, fór hann langs með Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslu, og loks komst hann allt út í Grindavík, og var í (s149) heilan mánuð ófært fyrir ís milli lands og Vestmannaeyja. Líka skemmdi hann nokkuð sölin á Bakkanum, en þegar minnst varði hvarf hann allur í einu. Norðanlands lá hann allt fram á slátt, þó var hann burtu þaðan, þegar seinast til fréttist. ... Einn sexæringur týndist í Njarðvíkum með sjö manns ... Tveir bátar týndust og undir Jökli ... Prófastur síra Hákon var á vegi frá annexíu sinni fyrir snjóflóði“. (s150)

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín árið 1817:

Vetur harður hjá oss varð
hrönnum fönnin djúpa
gripum sparði grundararð
gaf í hjarðir líka skarð.

Hafís grár um hvala-krár
hauðrið snauður girti
varð því mara básinn blár
bjargarsmár það hálfa ár.


Vorsins tíð var þurr óþýð
þráði láðið raka
grasið fríða fróns um hlíð
fannst því víða smátt hjá lýð.

Töðubrest á túnum mest
tíðan lýðir segja
engi flest sem orðað sést
arðarhrest þó greru best.

Nýting þæga þjóðin fræg
þáði fjáð á töðum
hríð óvæg þó heyja sæg
hausts um dægur vætti næg.

Haustveðráttan hefur mátt
heita neyt að gæðum
Kári þrátt þó góma gátt
glennti hátt með afl ósmátt.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1817. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Þakka Björk Ingimundardóttur fyrir lestur á ísfréttum i veðurbók Sveins Pálssonar í Vík í Mýrdal. Örfáar tölur má finna í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 1789
  • Frá upphafi: 2347523

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1539
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband