Af árinu 1828

Árið 1828 var sérlega hlýtt og hagstætt um meginhluta landsins. Meðalhiti í Reykjavík var 5,5 stig. Hafa verður í huga að mikil óvissa er í mælingunum og hvergi var mælt annars staðar á landinu (svo vitað sé með vissu). Giskað er á að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 4,7 stig. Árið gæti verið það næsthlýjasta á allri 19.öld, lítillega kaldara heldur en 1847. Veturinn var mildur og frostalítill, vorið hagstætt, og sumarið mjög hlýtt, (nema júnímánuður). Október var einnig mjög hlýr og enginn mánaða ársins var kaldur. 

ar_1828t

Við sjáum hér morgunhitamælingar Jóns Þorsteinssonar, gerðar í Nesi, um hálfellefu að morgni að okkar tíma (9 að sólartíma). Skammvinnt kuldakast gerði upp úr páskum, en þeir voru 6.apríl. Verulega hlýnaði seint í júní og síðan var lítið lát á hlýviðri fyrr en um 20.september. Stutt kuldakast gerði eftir miðjan nóvember.

Loftþrýstingur var óvenjulágur í desember og fremur hár í mars og september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 10.desember 956,6 hPa, en hæstur 1037,3 hPa þann 30.október. 

Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar er mjög stuttorður um veðrið á árinu 1828 (rúmar 2 línur). Hann getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri. 

Jón á Möðrufelli segir árið dágott í heild og flesta mánuði segir hann ýmist góða eða sérlega góða eða merkilega góða. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar stillt og frosthægt veður og jarðlag gott, snjólítið og smáþíður. 12. febr. hláka og ofviðri 4 daga. Urðu allar ár þíðar. Vermenn fóru flestir Tvídægru. Eftir það sömu góðviðri. Í marsbyrjun aftur (s97) hláka, seinni helming góu snjór með vestanéljagangi og seinast norðanhríð, síðan góðviðri.

Espólín [vetur]: „Veður voru góð“. 

Saurbæ Eyjafirði 8.febrúar 1828 [Einar Thorlacius]: (s20) „Vetur allt hingað til yndislega góður“.

29.febrúar 1828 ritar Jón Þorsteinsson athugasemd með veðurathugunum sínum:

„Ved et blik paa denne Liste [veðurskýrslan], bemærkes meget Let det Islandske Climats Særkjende, nl: at det er saa liden Forskjel mellem Sommer og Vinter: thi et stormfuldt Efteraars Vejrlig, vedvarer næsten uafbrudt det heele Aar; 6° Kulden er den stærkeste Frost vi endnu have havt denne Vinter, men den kand giærne blive stærkere in Martz, som ofte er den haardeste Maaned“.

Í lauslegri þýðingu: Af athuganaskránni sést sérkenni íslensks veðurlags vel, nefnilega að lítill munur er á sumri og vetri, stormasamt haustveður stendur næstum látlaust allt árið. 6°R frostið er það mesta sem við enn höfum fengið í vetur, en það verður gjarnan meira í mars, sem oft er harðasti mánuðurinn.

Bessastöðum 28. mars 1828 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s112) „Hér er nú árferði gott, vetur því nær snjólaus, lítil frost, en geysi austanstormar voru oft í janúar. Stórflóð merkust hér tvö, það fyrra í desember, það seinna þann 19. janúar. Þau brutu og brömluðu nokkur skip, byrgi og túngarða við sjávarsíðuna“.

Gufunesi 28-3 1828 (Bjarni Thorarensen): „Vinteren har i det hele været paa de allerbedste“. [Veturinn hefur í heild verið með því besta].

Brandsstaðaannáll [vor]:

Aftur eftir páska (6. apríl) snjór og frost vikutíma. Aldrei innistaða og hross með haustholdum. 13. apríl byrjaði besta vorveður, aldrei hret né mikil rigning. Æskileg tíð til allra vorverka.

Espólín [vor og sumar]:

Var þá harla vorgott, og betra og betra (s163). Þá var harla gott sumar, og grasvöxtur sem mestur og nýting, en þó urðu hey létt (s164).

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir Jónsmessu stórrigning, 28. júní farið suður og gaf vel, 11.-16. júlí mest kauptíð í Höfða í sláttarbyrjun, töðufengur sá mesti, er menn höfðu til vitað og nýting góð, norðanátt lengst til 11. ágúst, svo sunnan-og vestanátt með rekju og nægum þerri. Í september þurrkar og bjartviðri. [neðanmáls: Fyrsta hret gjörði 26. sept.] Engi spratt í besta lagi líkt og 1825.

Sveinn Pálsson minnist á 2 jarðskjálfta í Vík 11.júní. 

Saurbæ Eyjafirði 21-6 1828 [Einar Thorlacius]: (s21) „Það veit almennast til að greina er einhver hinn besti vetur, sem næstliðinn er, og þó vorið því ágætara, svo nú er kominn gróður og gras líkt og í meðalári þá byrjað er með heyskap, enda hefur veturinn sem leið mest líkst sumri, en vorið framyfir það að gæsku sem elstu menn muna“.

6. ágúst 1828 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls. 182) „Héðan frá landi er ekki sérlega neitt í frásögur færandi, það ég veit eða man, nema árgæska yfir höfuð að kalla til lands og sjávar frá því um þetta leyti í fyrrasumar. Sumar þetta er þurrt og oftar heitt, með góðum grasvexti á túnum og valllendi, en mýrar og flóaslægjur bregðast vegna ofurþurrka“.

Bessastöðum 18-8 1828 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s114) „Hér er nú í stuttu máli það æskilegasta sumar, sem ég man til, hey fáum við nú meiri en nokkurntíma áður“.

Gufunesi 18-8 1828 (Bjarni Thorarensen): „Það sem liðið er af sumrinu hefir í alla staði verið uppá það æskilegasta, grasár hið besta og nýting rétt góð af túnum, um eld hafa menn talað í Öræfajökli eða Grímsvötnum, en ég veit ekki sönnur á því, svomikið er víst að í Rangárvallasýslu hefir enginn var orðið við neitt öskufall“. (s179)

Gufunesi 15-9 1828 (Bjarni Thorarensen): „Árferði hefir hér verið í sumar og á næstliðnum vetri eitthvert hið allra besta sem menn tilmuna ... “ (s231)

Saurbæ Eyjafirði 25-9 1828 [Einar Thorlacius]: (s25) „Sumarið hefur hér og um allt land verið minnisstætt fyrir veðráttublíðu og ríkulegustu uppskeru alls þess, sem land þetta getur gefið af sér ... “

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haustið gott, svo kýr fóru út til 20. okt. Þá gjörði 5 daga hret og snjó, er brátt tók upp. Eftir það þíður, svo torf var þítt til 5 nóv., svo stillt veður. 24. nóv, íkast um vikutíma, jólafasta og góð og stillt, 14.-16. des. hláka, auð jörð og blíðviðri um jólin. ... Afli varð nú alstaðar nokkur, því íslaust var, ... (s98)

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín [1828]

Vetur besta þáði þjóð
þar með vor og sumar
heyskap mesta lands um lóð
lýði hressti nýting góð.

Haustið góða veðrið víst
veitti drótt á láði
heilla gróður höldum líst
hjarðir fóður vantar síst.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1828. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 14. mars 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 1581
  • Frá upphafi: 2350208

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband