Óvenjuhlýtt (án spurningamerkis)

[Breytt - 2] Óvenjuhlýtt hefur verið á landinu undanfarinn sólarhring. Þegar síðast fréttist (upp úr kl.15 þann 18.mars) hafði hiti komist í 20,4 stig á Dalatanga og 20,2 stig í Neskaupstað. Hiti fer sárasjaldan svona hátt á landinu í mars. Metið er 20,5 stig, sett á Kvískerjum í Öræfum þann 29. árið 2012. 

Ljóst er að slatti af stöðvahámarksmetum fyrir marsmánuð hafa einnig fallið. Við skulum þó ekki gera það upp fyrr en hrinan er alveg gengin hjá. 

Það sem er líka merkilegt er að marsmet féllu líka í háloftunum yfir Keflavíkurflugvelli. Hiti fór hærra en nokkru sinni áður í 400, 500, 700 og 850 hPa-flötunum og í 925 hPa hefur aðeins einu sinni mælst hærri hiti í mars. Athuganir eru samfelldar (í gagnagrunni ritstjóra hungurdiska) í 925 hPa síðan 1993, en frá 1952 í hinum flötunum fjórum.

w-blogg180321

Til gamans er hér mynd sem sýnir hæsta hita hvers dags á landinu (dægurhámörk) frá jafndægrum að hausti til jafndægra að vori. Hiti hefur aldrei áður mælst meiri en 20 stig hér á landi frá vetrarsólstöðum til jafndægurs á vori. Síðustu 20 stig sem vitað er um að hausti mældust 26.nóvember - 2013. Eftir metið í dag er 20-stigalausi tíminn hér á landi kominn niður í 113 daga. Eins og sjá má á línuritinu eru enn allmargir dagar sem ekki hafa skilað 15 stigum, og nokkrir sem ekki hafa náð 14. Sá sem situr mest eftir er hlaupársdagurinn, 29.febrúar. Hiti þann dag hefur aldrei mælst meiri en 12,0 stig - enda má segja að hann fær bara tækifæri til að bæta sig fjórða hvert ár. „Næstaumastur“ er 5.mars - með 12,3 stig. Hitinn í dag er líka sá mesti sem mælst hefur á góunni hér á landi.

Það má nefna að allar háu tölurnar sem eru nefndar sérstaklega á línuritinu eru mælingar frá Dalatanga - sá staður er sérlega vænlegur til meta að vetrarlagi. Það hefur komið fyrir að vetrarhámark á Dalatanga er jafnframt hæsti hiti ársins á staðnum. 

Sé aldur metanna athugaður kemur í ljós að 88 (tæpur helmingur) eru sett eftir aldamót og 127 eftir 1990. Enn lifa 19 dægurmet frá því fyrir 1961 - það elsta sett á Seyðisfirði 1907. Þrjátíu og níu metanna 184 eru sett á Dalatanga og 40 á Seyðisfirði. Skjaldþingsstaðir eiga 20 og aðrar stöðvar í Vopnafirði 6.  

Þessi texti verður uppfærður telji ritstjórinn tilefni til. 

 


Bloggfærslur 18. mars 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 141
  • Sl. sólarhring: 191
  • Sl. viku: 1920
  • Frá upphafi: 2347654

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 1649
  • Gestir í dag: 113
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband