Bloggfærslur mánaðarins, október 2022
22.10.2022 | 14:39
Sumarmisserið 2022
Um leið og ritstjóri hungurdiska þakkar lesendum fyrir liðið sumar og óskar þeim farsæls vetrarmisseris lítum við lauslega á hitafar sumarmisseris íslenska tímatalsins - eins og við höfum oft gert áður.
Sumarmisserið stendur frá og með sumardeginum fyrsta fram að fyrsta vetrardegi.
Myndin sýnir sumarhita í Stykkishólmi frá 1846 til 2022 (eitt sumar, 1919, vantar í röðina). Það sumarmisseri sem nú er að líða var hlýtt (já), sé litið til langs tíma, en er hiti þess var nærri meðallagi á þessari öld í Stykkishólmi. Ekkert sumar á árunum 1961 til 1995 var hlýrra en þetta - og aðeins þrjú mega heita jafnhlý (1961, 1976 og 1980). Reiknuð leitni sýnir um 0,7 stiga hlýnun á öld - að jafnaði - en segir auðvitað ekkert um framtíðina frekar en venjulega.
Hitinn í Stykkishólmi var í sumar ekki fjarri meðallagi landsins. Ólíkt því sem var í fyrra var nú fremur lítill munur á hitavikum í einstökum landshlutum.
Þó fellur hiti sumarmisserisins í hlýjasta þriðjung dreifingar á öldinni á einu spásvæði, Suðausturlandi, þar sem hiti þess raðast í 6. sæti - eins og sjá má í töflunni. Röðin nær til þessarar aldar (22 sumarmisseri), en vikin reiknast miðað við síðustu tíu ár. Vonandi er rétt reiknað.
Að tiltölu var kaldast á Norðurlandi eystra. Þar raðast hitinn í 13. sæti aldarinnar, en við sjáum að engin hitavik eru stór.
21.10.2022 | 13:37
Fyrstu 20 dagar októbermánaðar
16.10.2022 | 13:54
Fyrri hluti október
14.10.2022 | 16:37
Hugsað til ársins 1932
Tíð var lengst af hagstæð á árinu 1932, úrkoma var yfir meðallagi og hlýtt var í veðri. Janúar var heldur umhleypingasamur og tíð var óhagstæð, víða var mikill snjór og gæftir erfiðar. Við tók einmunagóður febrúar, sá hlýjasti sem vitað er um og jörð fór að grænka. Mjög þurrt var þá á Norður- og Norðausturlandi. Í mars gerði hret í upphafi og enda mánaðarins, en annars var tíð hagstæð. Gróður sölnaði aftur í köldum aprílmánuði, en í maí var tíð nokkuð góð og sólrík. Óvenjuþurrt var vestanlands. Í júní var góð og hægviðrasöm tíð. Í júlí var nokkuð votviðrasamt um landið norðanvert, en tíð var hagstæð á Suður- og Vesturlandi. Nokkuð skipti um í ágúst, þá var væta sunnanlands og vestan, en hagstæð tíð á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýtt var í veðri. September var umhleypingasamur og október líka, en þó var tíð almennt talin hagstæð. Í nóvember var hagstæð tíð til landsins, en gæftir mjög stopular. Á Norðurlandi var síðasti þriðjungurinn óhagstæður. Desember var umhleypinga- og úrkomusamur.
Það voru fyrst og fremst Vísir og Morgunblaðið sem birtu fréttir af veðri, en oftast heldur fáorðar. Eins og venjulega notum við okkur þær blaðafregnir (timarit.is), gagnagrunn Veðurstofunnar og tímarit hennar, Veðráttuna, þar sem oft eru nefndir atburðir sem ekki er getið annars staðar. Sömuleiðis grípum við niður í veðurlýsingar athugunarmanna. Textar eru alloft nokkuð styttir (vonandi sætta rétthafar sig við slíkt). Stafsetning er oftast færð til nútímahorfs og augljósar prentvillur lagfærðar (og nýjum e.t.v. bætt við).
Eins og venjulega var mikið um óhöpp á sjó, skip og togarar strönduðu og bátar hurfu. Í sumum tilvikum tengdust þessi óhöpp veðri á einhvern hátt. Flestra óhappanna er ekki getið hér að neðan, enda ekki um slysaannál að ræða.
Janúar var heldur umhleypingasamur og töluverður snjór var á jörðu, t.d. var alhvítt 27 daga mánaðarins í Reykjavík og snjódýpt fór í 37 cm þann 17. til 19. Við látum nokkra veðurathugunarmenn lýsa tíðarfari mánaðarins:
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið mjög jafn óstöðugt og fremur stórgert. Haglaust hefir verið hér nær allstaðar í hreppnum og er víst langt síðan að jafn haglaust hefir verið allstaðar svona snemma að vetri. Snjór hefir verið töluverður og er svo þegar blotarnir hafa komið hefir allt hlaupið í svell og harðfenni. Nú er töluvert orðið leyst og jörð komin upp ef ekki fennir í blautt.
Grænavatn (Páll Jónsson): Umhleypingasamt fyrri hluta mánaðarins, fremur slæmt til jarðar fyrir storku, en þá líka af og til æði frosthart, en yfirleitt úrkomulítið og síðast í mánuðinum þegar gekk í hlákurnar, leysti að kalla upp nema ísa. Mývatnsheiði mikið til auð í lok mánaðarins.
Fagridalur (Kristján V. Wiium): Sífellt ótíð og jarðbönn þar til þ.23. Þá kom góð hláka og nú er góð jörð og fremur lítill snjór í byggð.
Sámsstaðir (Klemans Kr. Kristjánsson): Veðráttan allóhagstæð yfir þennan mánuð. Snjóasamt í meira lagi og á stundum allhörð veður öðru hvoru. Algjört jarðbann fyrir útipening svo að segja yfir allan mánuð, enda ekki ástöðuveður. Ekki bílfært yfir Hellisheiði frá 5. til 28.
Þann 12. varð maður úti á leið frá Heiði á Skálum á Langanesi. Í Þistilfirði hrakti 32 kindur fyrir björg og 43 kindur tók út af skeri við Leirhöfn. Þakplötur losnuðu af húsi í Reykjavík. Nokkrar símabilanir urðu í þessu veðri sem og þann 17.janúar. Alþýðublaðið segir frá því þann 13. að ófært séu út úr bænum fyrir bifreiðar vegna snjóa.
Þann 14. eða 15. janúar féll mikil skriða úr Reynisfjalli, ekki er ljóst hver tengsl hennar við veður voru. Í heimildum er eitthvað óljóst hvaða dag skriðan féll, dagsetningu og vikudegi ber ekki saman. Hér tökum við beint úr frétt Morgunblaðsins (sunnudaginn) 16.janúar - fréttin hefur varla borist Morgublaðinu - og verið prentuð ef atvikið hefur átt sér stað þann 15.:
Stórt stykki klofnar úr Reynisfjalli og hrapar niður skammt vestan við Víkurkauptún. Matjurtagarðar og girðingar eyðileggjast. Kl. á 7. tímanum á föstudagsmorgun [14.] vakna allir íbúar í kauptúninu Vík í Mýrdal við ógurlegan gný, er mest líktist stórfelldum þrumum. Húsin í þorpinu skulfu og nötruðu. Er menn fóru að aðgæta, hvað hér var um að vera, kom í ljós, að stórkostlegt hrap hafði komið úr Reynisfjalli, skammt vestan við kauptúnið. Þegar bjart var orðið, sáu menn, að hrap þetta var stórkostlegra en dæmi eru til áður, þar um slóðir. Reynisfjall er þarna hátt, yfir 200 metrar, og hafði stórt stykki klofnað úr fjallinu og hrapað niður á sand. Heitir það Breiðuhlíð, þar sem fjallið klofnaði; var bergið þar grasi gróið og hvannstóð mikið á sumrum og fugl mikill. Eftir fyrsta hrapið komu mörg smærri hröp hvert af öðru og hélt þannig áfram mestan hluta dags. Undir fjallinu, þar sem hrapið kom, voru stórir matjurtagarðar, sem þorpsbúar áttu. Þeir gereyðilögðust á stóru svæði, einnig girðingin umhverfis garðana. Er tjón þorpsbúa því tilfinnanlegt.
Aftur var ófærð á höfuðborgarsvæðinu að kvöldi þess 15. janúar - enda fannkoma mikil, Morgunblaðið segir frá þann 17.:
Ófært gerðist aftur í fyrrakvöld fyrir bíla milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en um miðjan dag í gær var aftur búið að moka snjónum af veginum svo að bílferðir gátu hafist aftur.
Þann 23. sló eldingu sló niður í símann á Hólströnd sunnan við Berufjörð, 7 staurar brotnuðu. Þá sló einnig niður eldingu í fjárhús að Leiðvelli í Meðallandi, 13 ær drápust (Morgunblaðið segir af því 12. febrúar).
Alþýðublaðið birti pistil úr Borgarnesi þann 3. febrúar:
Frá Borgarnesi. Þaðan var FB (fréttastofa blaðamanna) símað í gær: Sæmilegt tíðarfar hér að undanförnu. Snjóþyngsli voru mikil í uppsveitum til skamms tíma, en nú er alls staðar auð jörð. Mikil flóð hlupu í Norðurá og Hvítá í hlákunni, en ófrétt að þau hafi valdið miklu tjóni.
Febrúar var afbrigðilega hlýr, suðvestanáttir ríkjandi. Minnir að mörgu leyti á febrúar 1965 en enn hlýrri. Í báðum tilvikum hröktu vindar hafís til austurs fyrir norðan og norðvestan land. Magnið var þó minna 1932 heldur en 1965 og varð ekki upphaf margra ára hafískafla. Það er einnig athyglisvert að getið er um meiri trjáreka vestanlands heldur en um langa hríð áður.
Kortið sýnir (ágiskaða) hæð 500 hPa-flatarins, þykkt og þykktarvik í febrúar 1932. Risahæð sat við Bretlandseyjar og beindi hlýju lofti langt sunnan úr höfum til landsins og nágrennis þess - langt norður fyrir land. Hinar þrálátu suðvestlægu vindáttir drógu mjög úr streymi rekíss til suðvesturs um Grænlandssund. Algengast er að ís reki um 30 gráður til hægri við vindátt, suðvestanátt dregur því ís til austurs. Þetta er ekki ósvipuð staða og var í febrúarmánuðum áranna 1965 og 2005. Árið 1965 var mikill ís í Austurgrænlandsstraumnum og varð mikið ísár við Ísland, það mesta frá 1918. Árið 2005 var töluverð ísfylla í Grænlandssundi og reif úr henni þannig að ísdreifar komust allt austur fyrir Langanes og þar suður fyrir. En lítið varð úr vegna þess að heildarísmagnið var ekki mikið, ísinn bráðnaði fljótt og bráðin blandaðist. Svipað virðist hafa verið uppi á teningnum 1932, en magnið þó meira en 2005. Rekaviður berst helst til Faxaflóa og Breiðafjarðar eftir langvarandi hafáttir eins og í febrúar 1965. Viðurinn hefur þá borist úr Austurgrænlandsstraumnum - en ísinn sem fylgdi honum ekki lifað af ferðina yfir hlýjan sjó vestan Íslands. Rekaviður sem kemur að Suðurlandi er líklega oftast kominn að austan, fylgifiskur hafíss í Austuríslandsstraumnum.
Blíðviðrið náði um land allt - við grípum niður í lýsingar veðurathugunarmanna:
Lambavatn: Það hefir verið óslitið blíðviðri. Sífelld frostleysa og fremur stillt, en þykkvíðri og þokur oft. Aðaláttin suðvestan. Vegna þess að sól hefir sjaldan sést hefir minna lifnað í jörð en vænta mætti eftir hlýju og jörð víða klakalaus.
Þórustaðir í Önundarfirði (Hólmgeir Jensson): 25. febrúar: Tún eru að gróa og gróður kominn í úthaga.
Hraun í Fljótum (Sigurður Egilsson): Veðrátta þessa mánaðar hefir verið með fádæmum góð. Suðlæg átt og hlýindi allan mánuðinn.
Húsavík (Benedikt Jónsson): Ómunablíð veðrátta; man enginn maður slíkan þorra og góu sem nú.
Morgunblaðið birti þann 12. febrúar frétt um eldinguna að Leiðvelli þann 23. janúar:
Fyrir nokkru sló niður eldingu í fjárhús að Leiðvelli í Meðallandi. Um 30 ær voru í fjárhúsinu og drápust. Engin ummerki sáust eftir eldinguna önnur en þau, að smágat var á fjárhúsþakinu, og ekki stærra en svo, að handleggur manns komst þar í gegn.
Morgunblaðið greinir frá foktjóni í frétt þann 19.febrúar:
Hlaða fauk í fyrrinótt [aðfaranótt 18.] í ofsaveðri að Hrafntóftum í Holtum í Rangárvallasýslu.
Morgunblaðið ræðir blíðuna í pistli þann 28. febrúar, en segir líka af hafís:
Enginn getur orða bundist yfir veðurblíðunni, sem verið hefir á þorranum. Hér í Reykjavík hefir jörð stirðnað í næturfrosti þrem sinnum síðan í byrjun febrúar, annars sífeldar þíður, hiti venjulega 58 stig hér sunnanlands, en oft hlýrra á Norður- og Austurlandi. Fleiri hafi þar verið frostnætur. Gróðurnál svo mikil komin í úthaga, þar sem góð er beit, svo sem í skóglendi Skorradals, að þar hafa bændur sleppt fé sinu. Hér í Reykjavík grænka túnblettir, með degi hverjum og stöku blóm springa út í skrúðgörðum.
Hafísinn. Rétt eins og til þess að minna landsfólkið á að þorrabróðir, hafísinn, hafi eigi yfirgefið þetta vetrarhlýja land, hefir sá grænlenski sýnt sig fyrir annesjum Norðurlands. Hafa hafísbreiður verið undanfarna viku á austurreki meðfram Norðurlandi, en sunnanáttin svifað þeim frá landinu. Er síðast fréttist úr Grímsey, var ísinn að hverfa þaðan úr augsýn til austurs og var á hraðfara reki fyrir Melrakkasléttu.
Morgunblaðið segir þann 4.mars af góðri tíð í Dýrafirði:
Í fréttabréfi til FB úr Dýrafirði segir: Þorri var óvenjumildur að þessu sinni hér vestra. Kom aðeins vægt frost fjóra daga; annars rignt mikið og flesta daga hægviðri af vestri og suðvestri með þægilegum vorhita. Nýlundu verður að telja það í búnaðarsögu Dýrafjarðar og áreiðanlega eins dæmi, þó að slíkt kunni að hafa komið fyrir fyrr á öldum, þegar sóleyjar sprungu út á miðgóu, eins og búnaðarsagan getur um, að dæmi sé til, að á þessum nýliðna þorra var á einum bæ hér (Höfða) rist ofan af bletti í túninu og flagið fullunnið undir þakningu og þakið að nokkru. (Lengri gerð af sama bréfi er í Vísi).
Þann 24.mars birti Vísir fréttabréf úr Húnaþingi, dagsett 1. mars:
Úr Húnaþingi, 1.mars. Janúarmánuður var vinda- og umhleypingasamur, frostavægur, oftast norðaustan átt, á tímabili slæmt til jarðar í sumum sveitum. Með febrúarbyrjun breyttist tíðarfarið og komu blíðviðri, sem héldust allan mánuðinn út. Þann 18. febrúar var jörð og straumvötn orðin alauð sem á sumardegi og byrjað að grænka i túnum, álftir og endur komnar á tjarnir. Undir mánaðamótin voru komin klakahlaup í mela, en í túnum var yfirleitt 67 þumlungar ofan að klaka. í mánuðinum voru alls tvær frostnætur. Sumstaðar var byrjað á útivinnu, t.d. að herfa flög. Sauðfé var búið að sleppa á nokkrum stöðum, bæði í Vindhælishreppi og Sveinsstaðahreppi, á Þingeyrum og fremstu bæjum í Vatnsdal. Rjúpur hafa vart sést á vetrinum. Vafasamt hvort hér hefir komið jafn blíður febrúarmánuður síðan 1847. Er það því merkilegra sem hafís hefir legið skammt undan landi.
Töluvert hret gerði snemma í mars, veður var sérlega slæmt þann 5. en eftir það varð mánuðurinn hlýr nærri því til loka - þegar næsta hret gerði. Veðurathugunarmenn segja frá:
Lambavatn: Það hefir verið óvenjustillt og hlýtt, nema fyrst og síðast. 6. og 7. kom hafís hér um víkurnar (vestan Bjargtanga) og varð jakastrjálingur landfastur að töngum og töluvert á reki, en þetta hvarf fljótt aftur. Nú áður en gerði þessa kulda sem nú eru var allt farið að grænka og á fjöllum var nær allur snjór horfinn eins og vanalega 4-6 vikur af sumri (júníbyrjun).
Hraun í Fljótum: Fyrstu daga mánaðarins voru kaldir og snjóaði talsvert og rak þá inn hafísbreiða sem hélst hér útifyrir fram um þann 20., en hvarf þá austurmeð. Þann 10. tók að hlýna og héldust stillur og hlýindi fram undir mánaðarlok, en þá kom allhvöss norðanátt með dálítilli snjókomu og allmiklu frosti.
Fagridalur: Einmuna góð tíð, úrkomulaus og hlý.
Fagurhólsmýri (Ari Hálfdanarson): Veðrátta hefur verið líkari vor- en vetrar. Tún oftari klakalaus og grænkað allmikið. 25. og 26. varð vart við vott af öskufalli, hér á bæ og á Kvískerjum. Þar urði hvítar kindur blakkar.
Það var vaninn á þessum árum að merkja ísfréttir inn á veðurkort. Það var gert í mars og apríl 1932. Hér er dæmi um slíkt kort. Ísfréttir höfðu þá borist viða af Vestfjörðum og Norðurlandi vestanverðu - þennan dag hefur einnig frést af lítilsháttar ís við Melrakkasléttu. Ísrek þakti vestanverðan Skagafjörð, en autt var austanmegin í firðinum.
Morgunblaðið segir allítarlegar ísfréttir þann 8. og 9.mars:
[8.] Undanfarna daga, laugardag og sunnudag [5. og 6.mars], var stórhríð um Vesturland og Norðurland. Áður en hríðin brast á hafði sést allmikill hafís fyrir Norðurlandi, jafnvel borgarjakar á stangli skammt frá Grímsey. Og þegar Súðin fór fyrir Rauðugnúpa á Sléttu hinn 3. þ. mán. var aðeins lítil rás auð, er hún komst í gegn um. Þegar norðvestanstórhríðin brast á, óttuðust menn að hafísinn mundi reka að landi, en vegna dimmviðris bárust engar fregnir um það fyrr en í gær. Þá fékk Veðurstofan fréttir víðs vegar að og í gærkvöldi fékk Morgunblaðið þetta yfirlit frá henni:
Mikil ísbreiða hefir sést norðnorðvestur af Patreksfirði. Jakastrjáling hefir rekið inn Húnaflóa, og er hann kominn inn á Þingeyrarsand og í fjöruna hjá Blönduósi. Mikinn hafís hefir rekið inn á Skagafjörð vestanverðan. Sést nú (í gær) ísbreiða frá Hegranesi út með Reykjaströnd. En enginn ís er að austanverðu í firðinum. Jakastrjálingur er norðan við Grímsey, en skyggni er slæmt til hafsins fyrir norðan, og erfitt að gera sér grein fyrir hvort um spengur eða hafþök sé að ræða Eftir því sem Morgunblaðið frétti í fyrradag, hafði talsverðan ís rekið inn í Dýrafjörð, Húnaflóa, Siglufjörð og Eyjafjörð. Nova kom norðan um land í fyrrinótt, sagði hafíshroða fyrir öllu Norðurlandi, en siglingafært. Lagarfoss, sem var á Borðeyri í fyrradag komst til Hólmavíkur í gær. Nú eiga tvö skip Eimskipafélagsins að fara í strandferðir, Dettifoss norður til Akureyrar í hraðferð og Brúarfoss austur um til þess að safna saman frystu kjöti til útflutnings á höfnunum: Reyðarfirði, Kópaskeri, Húsavík, Akureyri, Sauðárkrók og Hvammstanga. Nú er undir hafísnum komið, hvort úr þessum ferðum getur orðið. Í gær komu þær fréttir að Ingólfsfjörður og Ófeigsfjörður á Ströndum væri fullir af ísi. Var þar kafaldsdimma, svo að ekki sást hve ísinn var mikill úti fyrir. Eftir fregnum Útvarpsins, reyndu tveir enskir togarar í fyrradag að komast frá Reykjarfirði, en urðu að hætta við vegna íss. Frá Akureyri var símað í gær, áð töluverður ís væri kominn alla leið inn fyrir Hrísey.
[9.] Af hafísnum bárust þær fréttir í gær, að hann myndi hafa rekið að landinu víða í norðvestan-garðinum um daginn. Vita menn þó ógjörla hve hann er mikill, hvort um alger hafþök sé að ræða, vegna þess að sums staðar var ekki orðið svo bjart í gær að sæist yfir stór svæði. En eftir því, sem frést hefir, er ísinn landfastur af og til, alla leið frá Dýrafirði og norður á Seyðisfjörð. Í Steingrímsfirði lá Lagarfoss í gær, inniluktur af ís, og kemst hvergi. Er honum þó engin hætta búin, en farþegar yfirgefa hann og fara landleið suður í Borgarnes og koma hingað með Suðurlandi næst. Nova, skip Bergenska félagsins, sem hér er nú og ætlaði norður um land, hætti við þá för og fer nú fyrsta sinni suður um land. Dettifoss ætlaði að fara hraðferð norður til Akureyrar, en er hættur við það í bili.
Þann 12. apríl birti Vísir pistil úr Grundarfirði sem dagsettur er 24. mars:
Grundarfirði 24. mars. FB. Veðrátta var hér óstöðug og illviðrasöm fyrri hluta vetrarins. Í janúar gerði óhemju snjó og hefir ekki.komið svo mikill snjór síðan árið 1920. Þ.23. janúar fór að þíða og var hlákan hin hagstæðasta sem menn muna. Aðeins frost einn dag í febrúar og dálitill snjór og nokkurt frost í byrjun þessa mánaðar. Annars sífeld vorhlýindi.
Þann 15. sökk vélskipið Vísir eftir að hafa rekist á ísjaka undan Sléttuhlíð í Skagafirði. Í lok mánaðarins, líklega þann 30. urðu miklar símabilanir á Norðurlandi og 40 staurar brotnuðu í Bitru. (Páskadagur þ.27.)
Apríl var óhagstæður og hretasamur, veðurathugunarmenn lýsa tíð:
Lambavatn: Það hefir verið mjög kalt og óstöðugt. Allur gróður sem var farinn að lifna í febrúar og mars hefur alveg dáið og er ekki farið að lifna enn, þó hafi verið gott veður nú síðustu dagana, en er svo kalt að ekkert getur lifnað og jörð öll freðin. 16. apríl: Ég sá hafísjaka hér útí bukt. 18. apríl: Rak hafísjaka hér á rifið. Mjög sjaldgæft að það komi fyrir.
Hraun í Fljótum: Nálega allan þenna mánuð hefir verið norðlæg átt, sífelldir kuldar og stundum mikil fannkoma og hefir lengst af verið jarðlítið fyrir sauðfé og hross um þessar slóðir nema þegar veður hefir leyft að beita til sjávar.
Sandur (Heiðrekur Guðmundsson): Mjög slæmt tíðarfar. Norðanátt mjög tíð og oft hvasst.
Fagridalur: Fremur köld og óstöðug tíð, en snjólétt.
Hrepphólar (Jón Sigurðsson): Allan mánuðinn er tíðin köld og vindasöm sem veldur miklu ryki og óhollustu fyrir búpening. Nýgræðingur hefir að mestu fölnað aftur.
Morgunblaðið segir af tíð - og ís í nokkrum stuttum pistlum í apríl:
[3.] Norðangarðurinn. Er norðangarðurinn byrjaði með frostinu hellulagði alla Þverá frá Hemlu og niður að Rangá.
[5.] Hafís. Töluvert hafíshröngl er á skipaleiðinni fyrir norðan Langanes. Talsvert íshröngl rak upp á nesið í stórhríðunum á dögunum, en rekur nú aftur til hafs. Enginn ís er sjáanlegur lengra til hafsins. (FB).
[14.] Bryggjur skemmdust af ísreki á Siglufirði fyrir síðustu helgi. Tjónið áætlað um 70 þúsund kr. að því er blaðið frétti að norðan í gær.
Morgunblaðið segir af óhappi á Akranesi í pistli 19.apríl:
Fyrir nokkru strandaði vélbáturinn Heimir (áður Sverrir) á Akranesi með þeim hætti, að hann slitnaði upp á legunni og rak í land. Var ofsaveður á og stórflæði og fór báturinn upp í hákletta og stóð þar.
Og Vísir greinir frá öðru óhappi í pistli 20.apríl:
Vélbátinn Express frá Vestmannaeyjum rak á land í Innri-Njarðvíkum í fyrradag [18.] í roki. Bátinn rak fyrst á sker, en losnaði af því og rak síðan upp í sendna fjöru og liggur þar enn.
Vísir birti þann 22.apríl fréttapistil úr Rauðasandshreppi sem dagsettur er þann 16.:
Úr Rauðasandshreppi er FB. skrifað 16. apríl: Fram að jólum var góð tíð, en þá skipti um og gerði ótíð út janúar, fannir og hagleysi. Yfir febrúar var einmunatíð, þíðviðri og hlýindi. Þá var rist ofan af og gerðar þaksléttur, eins og á vordegi, því klaki fór alveg úr jörð allvíða. Fyrst i mars gerði norðanbyl og kyngdi þá niður feikna snjó, en það hret stóð stutt og snjóinn leysti mest af sólbráð. Var svo öndvegistíð til páska [27.mars] og um 20. mars sáust útsprungnar sóleyjar á túnum. Eftir páska kom hret og frost upp í 7 stig og allur gróðurinn er nú horfinn. Snemma i mars komu hafísjakar inn á Patreksfjörð og í Víkunum lenti allmikið af is. Í vetur hefir nokkur trjáreki verið í Víkunum og á Rauðasandi, en allt er það óunninn viður. Hefir ekki rekið jafn mikið síðan fyrir aldamót.
Sérlaga kalt varð undir lok aprílmánaðar. Kortið hér að ofan sýnir veðrið að morgni þess 25. Þá var -11 stiga frost á Hesteyri í Jökulfjörðum, -9 stig í Grímsey og -6 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Maí varð mun betri en apríl og veðurathugunarmenn ánægðir.
Lambavatn: Það hefur mátt heita óslitin stilla og blíðviðri allan mánuðinn. En mjög þurrt svo allt hefur skrælnað og því mjög hægt að gróður hefur lifnað. Þar til 26. og 27. að gerði mikla rigningu, mátti heita óslitin í 2 sólarhringa, var vatnskoman óvenjumikil svo allt var á kafi eins og eftir mestu haustrigningar og þó var hver pollur og tjörn þurr undir. Nú þýtur grasið upp.
Sandur: Tíðarfar gott, en helst til þurrviðrasamt.
Grænavatn: Einmuna gott veðurfar allan mánuðinn. Þurrt að vísu, hitar og stillingar. Jörð spratt mjög jafnt og vel. Í mánaðarlok má segja að tún væru fyllilega á vel komin, sem mánuði síðar í fyrra. Mest sérkenni þessarar maítíðar eru næturhlýindin, eins og loft var léttskýjað oftast. Slíkur maí er fágætur.
Fagridalur: Ágæt tíð, en heldur þurrviðrasöm fyrir gróðurinn.
Hrepphólar: Tíð mjög hagstæð og grasspretta ágæt.
Tvö leiðinleg hret gerði í júní - en tíð var hagstæð á milli þeirra.
Lambavatn: Það hefir mátt heita fremur hagstætt (tíðarfar). 10. og 11. gerði norðankulda svo frost var á fjöllum, en ekki varð ég var við að frysi í byggð og nú síðustu dagana hefir verið kalsaveður og krapahrakningar.
Hornbjargsviti: ... oftast bjartviðri og hlýtt. Þó gjörði kast 9. með norðaustanstormi og snjókomu svo mikilli að djúpfenni var í lautum og til fjallað, en kast þetta stóð aðeins einn sólarhring og gjörði hér sömu veðurblíðuna.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt gott, en þó nokkuð misjafnt. Gerði mjög slæmt hret þ.10. [þá festi snjó um hádegið]. Og síðustu daga mánaðarins var mjög kalt í veðri. Annars voru hlýindi.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar hagstætt. Hlýindi þar til síðustu daga mánaðarins. Helst til þurrksamt. [Þ.10: Veðurhæð í nótt ca. 10. Snjóaði í fjöll og í Jökulsárhlíð ofan í byggð].
Hrepphólar: Tíð mjög hagstæð og spretta góð.
Eins og kom fram í pistlunum hvítnaði ofan að sjó víða norðanlands í hreti kringum þann 10 og sunnanlands snjóaði þá í fjöll. Annað hret gerði síðan seint í mánuðinum.
Hretið í kringum 10. júní var bæði snarpt og kalt. Kl.8 að morgni þess 10. var hiti um frostmark í Grímsey, +3 stig á Akureyri og 5 stig í Reykjavík. Hvasst var um land allt.
Vísir segir lauslega af hretinu í pistli þann 13. júní:
Siglufirði 11. júní. FB. Ágætis tíðarfar að undanförnu þangað til i fyrrinótt [aðfaranótt 10]. Gerði hér þá norðvestan bleytu-hríð og hélst hún allan daginn i gær og varð alhvítt niður að sjó. Sólskin í dag og hefir snjóinn leyst upp.
Þann 14. segir Morgunblaðið af kulda - og einnig af vatnsþurrð í Vestmannaeyjum:
Frost var á laugardagsnóttina [11.] fyrir austan fjall. Gerði það talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka, því að kartöflugrösin, sem nýlega voru komin upp, sölnuðu talsvert. Sömu sögu er að frétta ofan úr Borgarfirði.
Vatnsþurrð í Vestmanneyjum. Vegna hinna miklu þurrka, sem gengið hafa að undanförnu, var orðinn tilfinnanlegur vatnsskortur í Vestmanneyjum. Bílar sóttu vatn í lindina í Herjólfsdal, en svo var lítið vatn í henni, að 46 klukkutíma tók það að fá á bílinn.
Alþýðublaðið segir af moldarmistri í pistli þann 21. júní:
Það var óvenju-myrkt yfir borginni í gær. Veðurhæð var mikil, og loftið var mettað af sandi og mold. Sú fregn barst hér um borgina í gær, að óvenjumikill stormur væri austur á Rangárvöllum, og hefði hann leyst upp hina miklu sanda og fleygt þeim, ekki aðeins yfir hin grónu héruð Rangárvalla- og Ársesssýslna, heldur einnig hér suður til Reykjavíkur. Þessi fregn mun hafa verið að nokkru orðum aukin. Að vísu var mikill stormur austur á Rangárvöllum í gærdag og sandfok töluvert, en þó ekki svo mikið, að Rangvellingum, sem eru slíku vanir, þætti mikið um. Alþýðublaðið átti í gær um 5-leytið tal við stöðvarnar á Efra-Hvoli, Ægissíðu og Þjórsárbrú. Stöðvarstjórinn á Efra-Hvoli sagði, að sandarnir væru að vísu utar (nær Reykjavík), en hann gæti ekki séð, að sandfokið væri stórkostlegt. Hann kvaðst hafa talað við Gunnarsholt á Rangárvöllum, en þar kvað hann mikið kveða að sandfoki í storminum, og þar væri nú töluvert fok, en þó ekki svo mikið, að ekki sjái á milli bæja, sagði hann. Stöðin á Ægissíðu kvað og sandfok töluvert vera þar, en þó ekki svo mikið, að óvenjulegt væri þar eystra, er stormar væru. Hún taldi ólíklegt, að sandurinn bærist alla leið til Reykjavíkur. Stöðvarstjórinn að Þjórsárbrú kvað moldviðri vera þar afar mikið, og kæmi það austan af Rangárvallasöndunum. Kvað hann áður í vor hafa komið annað eins veður, en þá hefði áttin verið önnur, og væri því mjög líklegt, að sandfokið bærist til Reykjavikur.
Morgunblaðið segir af góðri sprettutíð 26.júní:
Túnasláttur byrjaði í vikunni sem leið víða um land. Er það óvenju snemmt, eða hálfum mánuði fyrr en vant er.
En þann 30. júní er frétt um hret í Morgunblaðinu:
Siglufirði, FB. 29. júní. Síðustu sólarhringa hefir verið hér mikil úrkoma og snjóað í fjöll. Í morgun var alhvítt í sjó fram. Slydda í dag. Spretta er orðin góð og allmargir hafa byrjað slátt.
Júlí var hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en mun síðri nyrðra.
Lambavatn: Það hefur verið mjög hagstætt fyrir heyskap, væta og þurrkur á milli, svo hey hafa jafnóðum komist undan skemmdum. Nú síðustu vikuna hefir verið óslitinn þurrkur og blíðviðri.
Hornbjargsviti: Veðurfar mánaðarins byrjaði með krapahríð og var hvítt í sjó um miðjan dag þann annan. Eftir það héldust stöðugar norðaustan- og norðanvindáttir, kaldi og gola með þykkviðrum, þokulofti og súldum, svo varla þornaði á steini til 28., en síðan, eða síðustu daga mánaðarins hefir verið bæði þurrkur og sólskin en þó þoka um nætur.
Sandur: Tíðarfar mjög óhagstætt til heyskapar. Því nær óslitnir óþurrkar allan mánuðinn, en úrkomur þó aldrei stórfelldar. Hægviðrasamt mjög og þokur tíðar. Grasspretta góð.
Fagridalur: Tíðin votviðrasöm, en engin stórveður.
Hrepphólar: Tíðarfar mjög hagstætt og gott.
Þann 2. voru skriðuföll í stórrigningu á norðanverðum Ströndum og bát rak á land í hvassviðri við Hesteyri, en náðist síðar út.
Að minnsta kosti tvisvar var í blöðunum rætt um spár Veðurstofunnar. Ritstjóra hungurdiska þykja slíkir pistlar stundum fróðlegir. Fyrri pistillinn hér að neðan gerir tillögu um úrbætur (sem er því miður óframkvæmanlegar - og á seinni árum algjörlega úreltar) en sá síðari kvartar undan kostnaði sem bréfritari varð fyrir vegna þess að hann trúði á veðurspána (sem hann hefði ekki átt að gera).
Í Morgunblaðið ritar Roskinn bóndi 22. júlí:
Veðurstofan í Reykjavík er vissulega nytsöm stofnun og hefir unnið þarft verk, eigi síst með aðvörun um aðdynjandi illviðri. Helst eru það sjómenn og flugmenn, sem hafa góð not af þessu. Bændur, ferðamenn o.fl. geta líka haft góða hjálp og leiðbeining af veðurspám, fyrir næstu dægur, ef óhætt væri að reiða sig á þær. En það má líka verða mjög bagalegt fyrir marga og til mikils tjóns, m.a. við þurrkun og hirðing eða meðferð á heyi og fiski, ef þerrir bregst eða þurrveður, sem veðurskeytin segja að sé í vændum. Fullyrðingar um slíkt, á helstu annatímum, eru því ærið varasamar. Þó oft fari þær furðu nærri lagi, þá hafa þær líka brugðist nokkrum sinnum. Síðasta dæmi þess er frá sunnudeginum 17. þ.m. Veðurspáin sagði: Stillt og bjart veður fram eftir deginum, en hæg SV-átt og þykknar upp með kvöldinu. Þegar um nótt 17. varð þó alþykkt loft, kaldi á suðaustan og vætti með morgninum, síðan vindur af sömu átt og væta öðru hvoru fram yfir nón, þá kul útsyntara með þoku og svækju um kvöldið. Veðurglöggum mönnum varð þetta ekki að sök. Þeir sáu vel blikuna á vesturloftinu kl.5 daginn áður (þegar veðurspáin var gefin út), og þeim duldist ekki að bjartviðrið var þá búið, en landsynningur og regn í nánd. Reynsla og nákvæm eftirtekt áratugum saman um bliku, skýjafar og loftsútlit, um veðurbólstra og skyggni til fjarlægra fjalla, sjávarlag, fegurð málma og ótal margt fleira, hefir gert marga roskna menn furðu nærfærna um flest það er að snöggum veðrabrigðum lýtur. Menn þessir fara líka einatt meira eftir sínu áliti en eftir spádómum veðurskeyta. Fjöldinn af yngra fólkinu verður þó að reiða sig á veðurskeytin, því ekki hefir það sömu athygli yfir höfuð í þessu efni, né aðra reynslu og eldra fólkið, sem um langt skeið hefir átt afkomu sína að miklu leyti undir veðurfarinu og því að hagnýta það eftir bestu þekking og orku. - Vísindastarfsemi Veðurstofunnar mundi græða á því ef hún vildi í viðlögum hagnýta sér þekking og reynslu veðurglöggra manna. - Og ýmsir ungir vísindamenn og verkfræðingar, mundu sjálfir, auk almennings - hafa gagn og sóma af því , ef þeir vildu lúta svo lágt að spyrja kunnuga menn, þó ólærðir séu, og færa sér það í nyt er langvinn athugun, þekking og reynsla hefir sannað þeim. - Roskinn bóndi.
Vísir birtir 8.ágúst bréf frá Ungum manni:
Veðurspárnar. Því verður ekki neitað, að veðspárnar eru nú orðnar nokkurn veginn áreiðanlegar og óhætt að fara eftir þeim. Er það mikil breyting frá því, sem áður var (t.d. vorið 1926), því að þá þóttu spárnar ekki ganga eftir, frekar en verkast vildi. Það er vafalaust miklum erfiðleikum bundið, að spá um veður hér á þessu umhleypingasama landi og í rauninni furða, hversu oft spárnar rætast. En stundum getur maður orðið fyrir sárum vonbrigðum, að því er þetta snertir. Spáð var t.d. síðastliðinn laugardagsmorgun [væntanlega 6.ágúst], að létta mundi til þá um kveldið og gera norðan kalda hér umhverfis Faxaflóa og á Suðvesturlandi. Þetta rættist ekki, og hefir verið leiðindaveður síðan oftast nær og úrkoma með köflum. Við tókum okkur til nokkur, sem treystum veðurspánni, og lögðum í ferðalag á laugardaginn og áttum von á norðanátt og bjartviðri. Þetta rættist ekki, og varð veðurspáin til þess, að við eyddum miklum peningum (bifreiðakostnaður), en hlutum enga skemmtun. Ungur maður.
Í ágúst skipti um veðurlag að nokkru, þá gerðust þurrkar ótryggir á Suður- og Vesturlandi, en norðaustanlands batnaði.
Lambavatn: Það hefir verið mjög vætusamt og óhagstætt fyrir heyskap. Sífelldir óþurrkar. Heldur stillt nema nú síðustu vikuna hafa verið stórgerðar rigningar.
Sandur: Tíðarfar var gott í þessum mánuði. Fyrst og síðast í mánuðinum var þó nokkuð rigningasamt. En frá þeim 11. til 25. voru lengst af góðir þurrkar. Hlýindi lengst af og eru fjöll venju fremur snjólítil.
Fagridalur: Hlý og stillt tíð, ágæt heyskapartíð.
Hrepphólar: Heyþurrkar í þessum mánuði voru helst til ótryggir.
September var óstilltur.
Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt svo hey komust ekki frá fyrr en 17. þó löngu væru slegin og voru þá sumstaðar velkt orðin. Hlýindi hafa verið svo aldrei hefir komið frost nema aðeins stirðningur að nóttu og einu sinni sést grámi á fjöllum.
Sandur: Tíðarfar fremur óstillt og úrkomusamt; þurrkar stopulir.
Fagridalur: Umhleypingasöm tíð, köld og votviðrasöm, en engin stórveður.
Þann 3. er sagt frá talsverðum heysköðum á sunnanverðum Austfjörðum og þann 27. fórst vélbátur frá Fáskrúðsfirði í róðri og með honum þrír menn.
Flestir veðurathugunarmenn hrósuðu október - en þó ekki allir.
Lambavatn: Það hefir verið ágætis tíð yfir mánuðinn, aldrei komið frost né snjór nema aðeins föl og stirðningur á jörð, þar til nú síðustu dagana að gerði skarpt frost og dálítill snjór.
Sandur: Tíðarfar fremur slæmt. Mjög úrkomusamt fyrri hluta mánaðarins, en oftast fremur kalt í veðri þann síðari.
Grímsstaðir á Fjöllum: Ágæt tíð allan mánuðinn og snjólaust að mestur.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar heldur kalt, en þó stillingar og engar stórfelldar úrkomur.
Reykjanesviti (Jón Á. Guðmundsson): Yfirleitt mjög góð tíð. Þurrviðrasamt og hægviðri miðað við árstíma. Einnig óvenjuhlýtt.
Þann 4. nóvember birti Morgunblaðið bréf úr Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadal. Segir þar m.a. af miklum skriðuföllum þar um slóðir þann 13. september, snjóalögum í Skarðsheiði og óvenjumiklum reka:
Úr Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu er FB. skrifað 21. okt.: Sumarið, sem endar í dag, hefir verið eitthvert hið besta sumar að veðráttufari í langa tíð. Grasspretta á túnum var ágæt, en á mýrum í meðallagi. Taða náðist með góðri verkun, en úthey verkuðust ekki eins vel. Spretta í kálgörðum varð í meðallagi, í stöku stað afleit. Snjór þiðnaði óvenjuvel úr fjöllum í sumar. Hafa fjöllin ekki orðið eins snjólítil á þessari öld a.m.k. Til sannindamerkis um það skal þess getið, að í Skarðsheiði norðanverðri hefir lengi verið samfeld snjóbreiða, hálfgerður jökull, en nú í sumar voru þar aðeins nokkrir sundurlausir skaflar. Þessi mismunur á snjómagninu í sumar samanborið við fyrri sumur sást að vísu víðar, t.d. í Ljósufjöllum, en ekki eins greinilega og í Skarðsheiði. 13. september var hér stórrigning allan daginn af landsuðri. Hrundu þá skriður margar úr Kolbeinsstaðafjalli. Stærstu skriðurnar breiddust yfir fallegar engjar, sem slegnar hafa verið með sláttuvél, einkum í Kaldárbakkaflóa. Skriðuhlaup úr Kolbeinsstaðafjalli hafa ekki verið nein að heitið geti frá því á öldinni sem leið. Síðastliðinn vetur rak mikið af óunnum við með sjónum en annars hefir lítið rekið frá því um aldamót. Í september rak hræ af 10 hvölum á fjörur fyrir hreppnum hérna. Nýlega fannst lifandi marsvín á fjöru rétt hjá Hítarnesbænum. Hafði sjór fallið út undan marsvíninu og var það skotið og hirt.
Þann 30. október hrakti kindur í Laxá í Austur-Húnavatnssýslu.
Nóvember var órólegur, en tvískiptur, suðlægar áttir fram eftir, en síðan norðlægar.
Lambavatn: Til þess 19. var sífelld hlýja, en miklar rigningar framan af mánuðinum. En seinni hlutinn hefir verið harður og töluverður kuldi svo allstaðar á gjafajörðum var farið að hýsa allar skepnur.
Sandur: Tíðarfarið í mánuðinum skiptist mjög í tvö horn. Fyrri hluta mánaðarins og allt il hins 19. var einmuna góð tíð. Um miðjan mánuðinn voru ár og vötn orðin örísa og frost farið úr jörð. Þann 19. brá til norðanátta með frosti og fannkomu og hélst svo til mánaðarloka. Hlóð þá niður töluverðum snjó og er nú víðast illt til jarðar.
Fagridalur: Mjög góð tíð fyrri hluta mánaðarins. Síðan 20. hefir verið mjög hryðjusamt, 23. stórhríð og fennti þá fé víða.
Hrepphólar: Tíð mjög umhleypingasöm og enda töluvert votviðrasöm. Aðfaranótt 12. klukkan nálega eitt skall á fárveður og stóð það í tæpar 2 klukkustundir. Snerist vindur á þeim tíma frá suðaustri til suðsuðvesturs. Skemmdir urðu á húsum á nokkrum bæjum og töpuðust hey á stöku stað. Hvergi verulegur skaði.
Reykjanesviti: Nóttina milli 11. og 12. var feikna mikið brim með suðurströndinni. Náði þó lítið vestur fyrir Reykjanestá. Gekk sjór í kjallara bæði í Grindavík og einkum í Herdísarvík.
Dagana 10. til 12. nóvember gerði mikil illviðri.
Morgunblaðið segir frá þann 13.:
Veðrið (vikuna 5. til 12. nóvember) hefir verið umhleypingasamt og rysjótt. Fyrstu tvo dagana var vestanátt og gerði dálítinn snjó nyrðra. Síðan hefir hver lægðin af annarri farið norður eftir Grænlandshafi fyrir vestan Ísland og valdið suðaustan- og suðvestanhvassviðrum á víxl. Hafa fylgt þeim hlýindi all-mikil og stórrigningar sunnan lands og vestan. Norðaustan lands hefir hins vegar mjög lítil úrkoma orðið, en hiti oftast 812 stig. Mest kvað að lægð þeirri, sem fór hér fram hjá aðfaranótt laugardagsins. Var hún komin langt sunnan úr hafi, frá Azoreyjum, og hreyfðist beint norður eftir, og var í gærkvöldi komin norður með Vestfjörðum. Í Reykjavík var veðurhæðin frá 912 vindstig kl.1 1/2 á föstudagskvöld til kl. 5 um nóttina. Mestur varð vindhraðinn rúmir 30 m/s. Á laugardagsmorguninn gekk á með þrumum og eldingum á tímabili. Loftþrýsting var mjög mikil um Bretlandseyjar og því rakin sunnanátt og hlýindi um austanvert Atlantshafið, allt norður fyrir Ísland.
Kort úr bandarísku endurgreiningarröðinni sýnir stöðuna að morgni föstudagsins 11.nóvember. Víðáttumikið lægðasvæði er fyrir suðvestan land og hæð yfir Suður-Noregi beina mjög hlýju og röku lofti hingað til lands. Úrkoma var mikil, sólarhringsúrkoman í Reykjavík að morgni þess 11. mældist t.d. 44,0 mm og 68,0 mm á Hvanneyri í Borgarfirði. Hvasst var á landinu og hvessti enn um kvöldið þegar lægðarbylgja kom um kvöldið sunnan úr hafi og fór til norðvesturs skammt undan Suðvesturlandi.
Myndin sýnir klippu úr athuganabókinni í Reykjavík, dagana 9. til 13. Tölurnar í fyrstu fjórum dálkunum sýna loftþrýsting í mm kvikasilfurs. Fremsta tölustaf, 7, er sleppt, fyrsta talan 50,0 er því 750,0 mm sem jafngildir 1000 hPa. Næstu fjórir dálkar sýna vindátt og styrk í vindstigum (Beaufort). Um miðnætti að kvöldi þess 11. eru austsuðaustan tíu vindstig, enda nálgast þá lægðabylgjan. Neðri hluti myndarinnar sýnir veður, neðri línan þann 12. Þar segir að rigning hafi verið um nóttina (punktur og n), síðan kemur skúramerki og bókstafurinn a, skúr um morguninn, þ segir frá þrumum og sömuleiðis þrumuveðurstáknið þar á eftir, og þar kemur einnig tímasetning þess, kl. 8:30 til 9 um morguninn. Einnig má sjá vindör, 6 heilar fanir segja 12 vindstig. Í sviga er talan 32,5 m/s, en þessi ár var vindhraðamælir í Reykjavík, sem ritaði merki á blað. Því miður eru þessi blöð glötuð. Hér þarf að gæta þess að 12 vindstig voru á þessum tíma ekki skilgreind á alveg sama hátt og nú. Um það má lesa stuttlega í eldri pistli hungurdiska. Þrátt fyrir þennan mikla vindhraða virðist tjón í Reykjavík ekki hafa orðið mikið - en varð töluvert fyrir austan fjall auk sjávarflóðs sem gerði í Grindavík og nágrenni (sjá fréttapistla hér að neðan).
Myndin sýnir skráningu loftvogarsírita í Reykjavík 10. til 12. nóvember. Skil fyrri lægðarinnar fóru yfir Reykjavík að morgni 11., en þau síðari upp úr miðnætti þá um kvöldið (aðfaranótt 12.).
Hér má sjá síðari lægðina fara hjá. Kortið gildir á miðnætti föstudagsins 11. nóvember. Sé farið í saumana á því kemur í ljós að endurgreiningin vanmetur styrk lægðarinnar (eins og algengt er). Þrýstingur í Reykjavík var (samkvæmt veðurathugunarbókinni) á miðnætti 734,9 mm eða 979,8 hPa - og fór lítillega neðar ef trúa má síritanum (kannski í 978 hPa), en það er dýpt lægðarinnar á kortinu - nokkuð suðvestur í hafi. Ætli hún hafi í raun ekki verið 5-8 hPa dýpri. Það má taka eftir því að hæðin yfir Suður-Noregi styrkist um 9 hPa milli kortanna tveggja, á 18 klst. Það er nokkuð mikið og sýnir hvað mikið gekk á á stóru svæði.
Morgunblaðið heldur áfram þann 13. og greinir frá sköðum - byrjar á fréttum af norsku flutningaskipi - við sleppum þeim kafla ekki - hann er að ýmsu leyti fróðlegur. Loftskeytatækni er hér komin til sögunnar þannig að áhöfnin kemur frá sér fréttum:
Í þessu ofviðri var norska flutningaskipið Ingerto á leið til Reykjavíkur. Var það með kolafarm frá Englandi til H.f. Kol og Salt. Þegar það var komið svo sem miðja vega milli Vestmannaeyja og Reykjaness, um 35 sjómílur suðaustur af Reykjanesi, fékk skipið áfall. Kom á það brotsjór og braut af því skipstjórnarpall og skolaði honum fyrir borð ásamt stýri, áttavita og fjórum mönnum sem í brúnni voru. Mennirnir drukknuðu allir. Var það skipstjóri, stýrimaður og tveir hásetar. Loftskeytatæki skipsins voru ekki í brúnni og gat það sent út neyðarmerki og bárust þau um miðja nótt til Slysavarnafélags Íslands. Var skipið þá í nauðum statt, hrakti fyrir stórsjó og ofviðri. Skipverjum þeim, sem eftir voru lifandi í skipinu, tókst þó að koma í lag stýrisútbúnaði, sem er aftur í skut. Vélin var í lagi, en skipið, sem er um 4000 smálestir, fullhlaðið af kolum og afar þungt í sjó, gat ekki annað en reynt að verjast áföllum. Um kl. 2 1/2 í gærdag var það statt um 20 sjómílur suðaustur af Reykjanesi, eða út af Selvog. Þegar, er neyðarmerki bárust frá því í fyrrinótt til Slysavarnafélags Íslands, reyndi Jón Bergsveinsson að fá danska skipið Dronning Alexandrine sem hér lá, að fara út til björgunar. En svo var veðrið þá vont að talin voru öll tormerki á því að Dronning Alexandrine gæti komist slysalaust út úr höfninni, og fór því hvergi. Um hádegi í gær var enskur togari kominn Ingerto til aðstoðar og rjett á eftir var von á togaranum Venus þangað. Ennfremur bar þar að togarann Max Pemberton og varðskipið Óðinn, sem mun um kvöldið hafa verið hér í flóanum, en flýtti sér þegar suðureftir til aðstoðar. Dettifoss fór frá Vestmannaeyjum í fyrrakvöld á leið hingað. Hafði hann samband við loftskeytastöðina hér fram eftir kvöldinu, en allt í einu tók fyrir það og heyrðist ekkert til skipsins langa lengi. Mun loftskeytastöð þess hafa bilað, en margir voru orðnir hræddir um, að honum hefði hlekkst á. Svo var þó eigi, sem betur fór, og um hádegi í gær kom skeyti frá skipinu. Var það þá statt út af Selvogi og hafði ekkert orðið að hjá því. Mun það hafa ætlað sér að vera Ingerto til aðstoðar.
Miklar símabilanir urðu í ofviðri þessu, bæði á Suðurlandi og Vesturlandi. Í gærmorgun náði símasamband frá Reykjavík ekki lengra austur á bóginn en að Seljalandi undir Eyjafjöllum. Er óvíst hvað símabilanir eru miklar þar fyrir austan, en þegar voru menn gerðir út af örkinni til þess að gera við þær. Í Mosfellssveit brotnuðu sjö símastaurar skammt frá Korpúlfsstöðum, og 5 símastaurar brotnuðu hjá Hamri í Borgarfirði (skammt fyrir ofan Borgarnes). Sambandslaust var við Stykkishólm, en við Akureyri var samband á einni línu, og dugði það í gærdag. Margar smærri bilanir urðu á landsímanum. Ofviðrið sleit niður loftnet loftskeytastöðvarinnar á Melunum. Tókst í gær að gera við það til bráðabirgða. Fyrir nokkrum dögum slitnaði sæsíminn milli Færeyja og Íslands. Viðgerðarskip er komið á Seyðisfjörð og var búist við að sæsíminn kæmist í lag í gær En svo varð ekki, því að skipið liggur veðurteppt í Seyðisfirði. Síðan sæsímaslitin urðu, hafa skeyti héðan verið send loftleiðina. Hefir útvarpsstöðin komið þeim til Thorshavn í Færeyjum, og hefir stöðin þar sent þau lengra áleiðis.
Engin slys urðu hér í höfninni í fyrrinótt, en vélbáturinn Vega, sem lá inni á Kleppsvík, hvarf. Bátur þessi var 25 smálestir og mun hafa verið eign Útvegsbankans. Enginn maður var þar um borð, og er haldið að báturinn hafi sokkið.
Togarann Kára Sölmundarson, sem lá mannlaus fyrir festum inni á Eiðisvík hrakti norður sundið milli Viðeyjar og Geldinganess, þangað til hann var kominn á móts við hina svokölluðu olíubryggju í Viðey, og staðnæmdist þar í miðju sundinu. í gærkvöldi var hafnarbátur Reykjavíkur sendur þangað inn eftir til þess að færa skipið í lægi aftur. Togarann Ver, sem lá undan Kleppi, hrakti þaðan norður sundið og alt upp undir Kríusand í Viðey. Þar staðnæmdist hann og mun vera alveg óskemmdur. Mörg fleiri skip, sem lágu inni í sundum, hrakti talsvert, en ekki varð neitt slys að.
Frá Grindavík var símað í gær að aldrei í manna minnum hefði verið þar eins mikið brim eins og þá um nóttina. Gekk flóðbylgja á land og sópaðist lengst upp á túnin í miðju þorpinu. Hjá Viðey var afskaplegt hafrót. Gekk sjórinn þar upp á háey, en olli þó ekki neinum skemmdum. En veðrið braut þar gjörsamlega niður fiskiskúr, sem stóð niður við ströndina, og var ekkert eftir af honum annað en sundurmalin timburhrúga.
Ingerto á leið til Reykjavíkur. Um klukkan 5 í gærkvöldi barst hingað skeyti frá Ingerto. Var skipið þá statt um 5 sjómílur undan Reykjanesi á leið hingað. Við áfallið, sem skipið fékk, hafði það misst alla áttavita sína, og stýrið í skut var eitthvað í ólagi fram eftir deginum. Vél skipsins var í lagi, og þegar tókst að koma stýrinu í lag, var lagt á stað til Reykjavíkur. Þurfti skipið ekki á því að halda að annað skip tæki það í eftirdrag, en fékk Max Pemberton til að sigla á undan sér til Reykjavíkur, og stýrði í kjölfar hans og sigldi eftir ljósum hans. Klukkan 8 í gærkvöldi voru skipin fram undan Sandgerði og var búist við því að þau myndi koma hingað laust eftir miðnætti.
Og áfram segir blaðið af sköðum í pistli þann 16.nóvember:
Í veðrinu mikla, aðfaranótt laugardags, þegar norska skipið Ingerto varð fyrir áfallinu sunnan við land, urðu miklar skemmdir víðsvegar hér sunnanlands. Hefir þó hvergi frést að veðrið hafi orðið mönnum né skepnum að tjóni. Í ofviðrinu slitnuðu símar víða, og var því örðugt að ná glöggum fréttum utan af landi, og enn eru símar bilaðir sums staðar. Í gær reyndi Morgunblaðið að ná fréttum af því tjóni, sem afviðrið olli hér syðra, og átti tal við nokkrar símstöðvar hér sunnanlands. Fara hér á eftir frásagnir þeirra.
Frá Efra-Hvoli var símað, að ekki hefði frést um neina skaða á Rangárvöllum, en frá Breiðabólstað í Fljótshlíð, þar sem síra Sveinbjörn Högnason býr, hefði fokið þak af hlöðu og tveimur fjárhúsum sem stóðu þar efst í túninu, þar sem heitir Hákot og skemmdist þar eitthvað af heyi af rigningu á eftir. Frá Fellsmúla var sagt að fokið hefði þök af hlöðu og skúr á Skammbeinsstöðum í Holtum. í Kvíarholti í Holtum hefði fokið nokkuð af heyi. Á Hjallanesi á Landi munu hafa fokið 30 hestar af heyi, sem stóðu í heygarði. Víða fuku torfþök af húsum og skemmdir urðu á heyi bæði af foki og rigningu. Frá Sandlæk var símað að fokið hefði járnplötur af haugshúsi á Hæli, en meiri skemmdir hefði þar ekki orðið, svo teljandi sé. Í Þrándarholti fauk hey, um 30 hestar, og nokkuð á Sólheimum. Þak tók af fjósi og hlöðu í Hrepphólum, og víða á bæjum fuku járnplötur af þökum, t.d. talið að fjórða hluta hafi rifið af hlöðu í Sandlækjarkoti. Enn hafði heyrst þangað að tvö eða þrjú útihús hefði fokið á Skeiðum. Þá var og sagt að í Torfastaðakoti hefði lyfst af grunni nýsmíðað fjárhús úr timbri og með járnþaki. Ekki skemmdist húsið mikið og mun brátt fært í samt lag aftur. Frá Minni-Borg var símað að töluverðar skemmdir hefði orðið víða þar í nágrenni. Á Ormsstöðum fauk þak af heyhlöðu. Nokkuð mun hafa fokið af heyi og skemmst. Á Reykjanesi fauk þak af heyhlöðu og á Stóru-Borg þak af hlöðu og fjárhúsi. Á Minna-Mosfelli fauk og þak af heyhlöðu og meiri og minni skemmdir urðu á flestum bæjum í Grímsnesi. Frá Tryggvaskála við Ölfusárbrú var símað að furðu litlar skemmdir hefði orðið í Flóanum, þótt rokið væri afskaplegt. Þó fauk þak af hlöðu í Súluholti og skemmdist þar eitthvað af heyi. Í Hraungerði fuku nokkrar járnplötur af þinghúsi hreppsins, en það sakaði ekki að öðru leyti. Í Kaldaðarnesi fuku líka nokkrar járnplötur af heyhlöðu og víða annars staðar hefir heyrst um þakfok, en ekki stórvægilegar skemmdir. Frá Steinum undir Eyjafjöllum var símað, að veðrið mundi hvergi nærri hafa verið eins hart undir Fjöllunum eins og vestar. Hefir þar hvergi frést um neinar skemmdir. Hvergi þar sem Morgunblaðið frétti til í gær um veðrið, þar sem það hafði verið verst, voru neinar fregnir af fjársköðum. En miklu tjóni hefir veðrið valdið bændum á Suðurlandsundirlendinu, og er þó ekki víst að allar fregnir um það sé enn komnar.
Dunur miklar heyrðust hér í bænum í gær [þriðjudaginn 15.nóvember] , er menn álitu helst að væru skruggur. Heyrðust dunur þessar hvað eftir annað með nokkuð reglulegu millibili. Stundum var undirgangur þessi svo mikill, að hrikti í húsum, einkum í úthverfum bæjarins, og glamraði í rúðum. Þorkell Þorkelsson forstjóri Veðurstofunnar fullyrti, að um skruggur gæti ekki verið að ræða, því veður var ekki þannig. En hann gat þess helst til, að dunur þessar stöfuðu af skothríð frá skipum úti í Flóa. Hvort þessi tilgáta er rétt, hefir blaðið ekki frétt. Dunur þessar heyrðust upp á Akranesi, og jafnvel upp um Borgarfjörð.
Þann 15. segir Morgunblaðið frá vatnavöxtum:
Stórfeldir vatnavextir urðu í stórvötnunum á Skeiðarársandi, Núpsvötnum og Skeiðará, núna fyrir helgi. Tóku vötnin nokkra símastaura svo að sambandslaust varð næstu daga. Skemmdir urðu nokkrar við Affallsbrúna núna fyrir helgi. Gerði feikna vöxt í árnar eystra; einn áll úr Affallinu fór inn í uppfyllinguna við brúna, vestan árinnar, og tók talsvert skarð úr uppfyllingunni, en braust ekki í gegn. Er nú verið að lagfæra þetta. Mikill vöxtur varð einnig í Álunum; rann mikið vatn utan við bráðabirgðabrú þá, sem þar var reist, svo eigi varð komist á brúna með kerrur eða bíla.
Enn segir af símabilunum og fleira í Morgunblaðinu þann 23.nóvember:
Símabilanir miklar urðu í ofviðrinu sem geisaði yfir landið í fyrrinótt [aðfaranótt 22]. Ekkert talsímasamband var við Ísafjörð í gær og slæmt samband til Akureyrar. Á suðurlínunni náðist ekki samband lengra en til Hóla í Hornafirði. Ofsaveður var í Vestmannaeyjum í fyrrinótt og urðu þar nokkrar skemmdir á tveimur húsum.
Í þessu veðri fennti einnig fé á Norðausturlandi. Þann 26. urðu tveir menn úti, annar á Siglufjarðarskarði, en hinn nærri Litla-Dal í Skagafirði.
Þann 29. urðu enn skemmdir í illviðri. Morgunblaðið segir frá þann 1.desember:
Skemmdir af sjávargangi. Aðfaranótt þriðjudags [29.] urðu nokkrar skemmdir af sjávargangi á Akranesi, en þó ekki eins miklar og sögur fóru af í fyrstu, eftir því sem blaðið frétti frá Akranesi í gær. Tveir vélbátar, sem lágu á höfninni rákust á, og löskuðust lítilsháttar, grunnur skemmdist, sem verið er að gera undir fiskhús á sjávarbakkanum og nokkrir skúrar skemmdust. Brimið skemmdi og vegarkafla einn sem liggur að dráttarbraut Akurnesinga. Í Sandgerði brotnaði skúrgafl, og ruddist nokkuð úr grjótgörðum á sjávarbakkanum.
Desember: Illviðri í upphafi mánaðarins, en síðan allgóð tíð.
Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt. Krapahræringur og rigningar, snjóað töluvert á milli.
Sandur: Tíðarfar mjög gott, utan tvo fyrstu daga mánaðarins. Hlákur ekki stórvirkar og hvassviðri sjaldgæf. Óveðrið þ.2. desember náði sér ekki hér sem annars staðar vegna þess hve vindstaða var austlæg. Því hér er hlé í þeirri átt. Svellalög voru mikil, einkum síðari hluta mánaðarins.
Fagridalur (Oddný S. Wiium): Tíðin hefir verið ákaflega óstöðug og víðast jarðbönn framan af fyrir bleytusnjó sem hlóð niður 2. desember. En síðari hluti mánaðarins hefir verið góður og má nú heita alautt.
Þann 2.desember gerði mikið illviðri, það var sérlega skætt á Siglufirði og sums staðar á Norðausturlandi. Vísir segir frá þann 5.:
Siglufirði 3.desember FB. Ofsarok á norðaustan gerði hér í gærmorgun svo menn muna vart slíkt. Hríð var um nóttina, en um fimmleytið herti veðrið svo óstætt var og ófært húsa milli. Hélst veðurofsinn fram um hádegi, en dró þá dálítið úr þótt ofsarok héldist til kvelds. Skemmdir urðu miklar. Stórt sjóhús, eign Ásgeirs Péturssonar & Co., byggt í síldarplássi hans í Hafnarfjörum, fauk svo ekkert stóð eftir nema gólfið. Meginhluti þaksins hafði lyfst og svifið hátt í lofti yfir ljósastaura, hús og mótorbát, sem stóð á landi með reista siglu, og kom hvergi við neitt, fyrr en það lenti á íbúðarhúsi Péturs Bóassonar, nálægt 500 metrum ofar. Fór það þar í gegnum útvegg á nýju, járnklæddu húsinu á báðum hæðum og inn í herbergin. Helgi læknir Guðmundsson hvíldi þar á efri hæð og braut brakið rúmið, sem hann lá í, og stóðu spýtnabrotin gegnum sængurfötin og yfir í vesturvegg herbergisins. Helgi meiddist vonum minna, en er þó nokkuð þrekaður, enda gamall maður. Skemmdir á húsinu voru metnar í dag á 4500 krónur. Sumt af brakinu úr Ásgeirshúsinu fauk lengst upp í fjall. Braut það rúður í mörgum húsum og orsakaði minni háttar skemmdir. Járnþak fauk af húsi Jóhanns Guðmundssonar verkstjóra Ríkisverksmiðjunnar, og þök fuku af húsi Guðmundar heitins Skarphéðinssonar, og húsi Magnúsar Blöndals. Olli járnfokið miklum skemmdum á ljósa- og símaneti bæjarins og ýmsum húsrúm. Vildi það til láns, að engin umferð var, sökum þess, að mesta járnfokið var fyrir fótaferðatíma og þá líka varla fært út úr húsi fyrir veðurofsa, ella talið víst, að slys hefði orðið á mönnum. Nokkurn hluta af þökum tók af síldarhúsum Ragnarsbræðra og minni háttar skemmdir urðu á mörgum húsum. Reykháfar fuku og rúður brotnuðu að kalla má í hverju húsi. Bátar slitnuðu frá bryggjum. en skemmdust lítið, því að sjólaust var að kalla. Nokkuð af heyi fauk hjá mjólkurbúinu á Hvanneyri. Stórhríð hélst þar til í gærkveldi, en var létt upp í morgun. Skemmdir urðu miklar á ljósanetinu. Er talsverður hluti bæjarins ljósalaus, en sími bilaði einnig. Munu staurar hafa brotnáð allvíða. Hefir verið sambandslaust þar til áðan. (Kl. 17.10)
Morgunblaðið segir af símaskemmdum í ofviðrinu þann 2. í pistli þann 9.:
Símabilanir urðu meiri í ofviðrinu 2. desember en búist var við í fyrstu. Alls brotnuðu um 300 símastaurar; eru það mestu skemmdir, sem komið hafa í einu síðan síminn var lagður hér á landi.
Enn sagði Vísir frá skemmdum í veðrinu þann 2. í pistli sem birtist 29.desember:
Úr Norður-Þingeyjarsýslu er FB. skrifað 9. des.: Ofsaveður gerði hér föstudaginn 2. des. af norðaustri með hríð og dimmviðri. Var veðurhæðin geysimikil og muna menn varla eftir öllu hvassara veðri hér um slóðir. Fé var víðast hvar hýst, en þó var það á nokkrum bæjum í Núpasveit, að fé var uppi í heiði. Urðu menn að brjótast þangað í veðrinu og tína það saman og draga úr fönn. Var það erfitt verk og illt og auk þess afar vont að koma fénu til bæja, því að það var mjög brynjað. Nokkrar kindur fundust dauðar og nokkrar vantar enn. Samt er það furðu fátt, sem farist hefir í þessari hrinu. Símabilanir urðu miklar í þessu veðri. Á símalínunni frá Kópaskeri fram á móts við Daðastaði eru 4050 símastaurar brotnir. Á einum stað voru 18 staurar brotnir og aðeins 1 óbrotinn. Þræðirnir voru slitnir og kubbaðir sundur og lágu sumstaðar á kafi í snjó. Hafði hlaðist svo mikil ísing á þá, að þeir voru gildir sem skipskaðlar. Á Leirhafnarlínunni, sem lögð var í sumar, voru 3 staurar brotnir og þræðirnir mjög víða slitnir og lágu niðri á löngum kafla á leiðinni. Unnið hefir verið að því að tengja saman þræðina og lagfæra mestu bilanirnar. Hefir náðst samband milli Leirhafnar og Kópaskers og einnig til annarra stöðva á aðalsímalínunni, en mjög er það annmörkum bundið að nota það. Er nú búið að panta efni frá Akureyri til að endurbæta símann eitthvað meira, svo að dugað geti a.m.k. í vetur.
Afgangur mánaðarins varð skaðalítill, þótt talsverður fyrirgangur væri í veðri með köflum. Á gamlársdag nálgaðist djúp lægð landið úr suðri. Þá hvessti af austri og gerði fádæma stórsjó í Papey og bátar skemmdust í vetrarnaustum. Þá fauk þar þak af húsi og þrír bátar töpuðust á Djúpavogi.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og veðurlag á árinu 1932. Margskonar tölulegar upplýsingar eru að vanda í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2022 | 15:10
Fyrstu tíu dagar októbermánaðar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2022 | 21:06
Hugsað til ársins 1946
Tíðarfar á árinu 1946 var lengst af hagstætt og hlýtt. Úrkoma var í rúmu meðallagi. Þó allmikið tjón yrði í fáeinum veðuratburðum, voru slíkir atburðir færri þetta ár heldur en gengur og gerist - nærri helmingi færri á skrá ritstjóra hungurdiska heldur en árin á undan og eftir. Nokkuð var um skriðuföll, tvisvar urðu þau sérlega skæð, í ágúst á Austurlandi og í september fyrir norðan. Um báða þessa atburði hefur verið fjallað á hungurdiskum áður og verður ekki endurtekið hér (opnið tenglana í textanum hér að neðan). Í febrúar urðu mikil sjóslys í óvæntu illviðri, um það verður nokkuð fjallað hér að neðan.
Janúar var mjög hlýr, votviðrasamt var á Suður- og Vesturlandi og tíð hagstæð um land allt. Febrúar var illviðrasamari, en yfirleitt var snjólétt. Nokkuð kalt síðari hlutann. Mars og apríl voru umhleypingasamir og snjóléttir. Í maí var tíð hagstæð, en þurrkar stóðu gróðri sums staðar fyrir gróðri. Gróðri fór einnig hægt fram í júní, í fremur köldu veðri. Júlí var hagstæður og heyskapur gekk vel. Sama má segja um ágúst. Framan af september var tíð áfram hagstæð, en síðri hlutinn var erfiðari á Norður- og Austurlandi. Mjög hlýtt var í október, suðlægar áttir ríkjandi með mikilli úrkoma á Suður- og Vesturlandi, en þurrviðri norðaustanlands. Nóvember þótti hagstæður framan af, en síðan kaldrananlegur, einkum norðaustanlands. Desember var aftur á móti hlýr og snjóléttur, en úrkomusamur.
Eins og venjulega notum við okkur blaðafregnir (timarit.is), gagnagrunn Veðurstofunnar og tímarit hennar Veðráttuna. Sömuleiðis grípum við niður í veðurlýsingar athugunarmanna. Textar eru alloft nokkuð styttir (vonandi sætta rétthafar sig við slíkt). Stefsetning er oftast færð til nútímahorfs og augljósar prentvillur lagfærðar (og nýjum e.t.v. bætt við).
Veðurathugunarmenn fóru fögrum orðum um janúar:
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið eins og oftast í vetur, vinda- og úrkomusamt en kuldalaust þar til nú síðustu dagana hefur verið kulda næðingur og dálítið frost. Annars hefir jörð verið klakalaus og hvergi svell á polli og nær snjólaust í fjöllum nema einstaka stað smáskaflar. Þ.19. Mikið brim, stórflæði um morguninn.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar einmuna gott allan mánuðinn, hlýtt og hlákusamt. Auð jörð að kalla um allar sveitir.
Fagridalur (Oddný S. Wiium): Ágætt tíðarfar svo fátítt er. Lítið frost í jörðu og lítil úrkoma yfirleitt.
Þann 13. urðu mikil skriðuföll í Hvalfirði og vegurinn tepptist í nokkra daga. Mjög mikil úrkoma var um landið sunnan- og vestanvert þessa daga. Sólarhringsúrkoma mældist 68 mm í Stykkishólmi þann 14.janúar, og hefur aðeins tvisvar mælst ámóta (1. nóvember 1946 og 17. september 2007). Þann 26. gerði skammvinnt norðanskot, tvær heyhlöður fuku þá á Snæfellsnesi.
Friðjón á Sandi lýsir hagstæðu veðri febrúarmánaðar - sammála flestum öðrum athugunarmönnum:
Tíðafar milt og gott lítill snjór á jörðu og vatnsföll hálfauð fram yfir miðjan mánuð.
Laugardaginn 9. febrúar gerði snarpt og óvænt illviðri um landið vestanvert, ekki af verstu gerð, en olli þó miklum mannskaða á sjó. Morgunblaðið segir frá þann 12. febrúar:
Þeir sorglegu atburðir gerðust í óveðrinu mikla, sem skall á allt í einu, aðfaranótt laugardagsins s.l. [9.febrúar] að 20 sjómenn drukknuðu. Fjórir bátar fórust í óveðrinu og með þeim 18 manns, en tvo menn tók út af vélbáti,sem gerður er út frá Sandgerði. Þrír bátanna fórust hér í Faxaflóa, en einn fyrir Vestfjörðum. Eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu, komust margir bátar við illan leik til lands úr veðrinu á laugardag, sumir brotnir og veiðarfæratjón var mikið hjá fiskiflotanum.
Veðurstofan var gagnrýnd mjög fyrir slaka frammistöðu. Svo segir í leiðara Morgunblaðsins 15.febrúar:
Hér verður vitanlega ekki dregið í efa, að veðurspáin hafi verið rétt, miðað við þau gögn, sem Veðurstofan hafði í höndum, er spáin var send út. En hitt dylst engum, að Veðurstofan hefir haft mjög ófullnægjandi gögn við að styðjast, þegar hún sendi þessa veðurspá. Veðurstofan hlýtur að hafa komist að þeirri raun síðar, að gögnin voru of ófullnægjandi, til þess að senda út svona ákveðna veðurspá. En þar sem enginn fyrirvari var um veðurspána, treystu sjómenn henni og fóru því allir til róðurs um nóttina. Fullyrt er, að veðurfræðingar ameríska hersins, sem hér eru, hafi sent út til sinna manna allt aðra veðurspá, en Veðurstofan. Þeir hafi sagt fyrir um stórviðrið, sem var í nánd. Þetta hafi m.a. verið orsök þess, að einhverjir bátar hér suður með sjó hafi snúið aftur og hætt við róður, er þeir fengu vitneskju um veðurspá hersins. Morgunblaðið veit ekki um sönnur á þessu. En sé hér rétt hermt, er þetta svo alvarlegt mál fyrir Veðurstofuna, að ekki verður við unað. Verður að krefjast þess, að þetta verði tafarlaust rannsakað. Það verður að upplýsa, hvaða gögn Veðurstofan studdist við, er hún sendi út veðurspána aðfaranótt laugardags. Einnig verður að upplýsa, hvort veðurspá Veðurstofunnar hafi verið í ósamræmi við veðurspá hersins, og ef svo er, hver orsökin er. Þessi rannsókn verður að fara fram strax og öll gögn lögð á borðið.
Veðurfræðingar á vakt þurftu að svara fyrir sig - og gerðu í bréfi sem birtist í blöðunum, þann 16. febrúar í Þjóðviljanum og þann 20. í Morgunblaðinu. Það er athyglisverður lestur þar sem vel kemur fram hversu erfitt var að stunda veðurspár á þessum tíma, án öruggra athugana og tölvuspáa:
Út af veðurspám Veðurstofunnar dagana 8. og 9. febrúar og mannskaðaveðrinu þann 9. febrúar hafa veðurfræðingarnir Jón Eyþórsson, Björn L. Jónsson og Jónas Jakobsson, sem önnuðust spárnar þessa daga, samið eftirfarandi greinargerð, samkvmt tilmælum atvinnumálaráðuneytisins:
Við undirritaðir höfum borið saman veðurspár og veðurkort dagana 7. 9. þ.m., og sérstaklega reynt að meta aðstæður til að segja fyrir mannskaðaveðrið, er skall á hér vestan lands undir hádegið á laugardaginn 9. febrúar. Fimmtudaginn 8.[svo] febrúar voru slæm móttökuskilyrði og fregnir af mjög skornum skammti. Vantaði þá allar fregnir frá Grænlandi allan daginn og sömuleiðis að heita mátti öll skip, sem verulega þýðingu gátu haft, á norðanverðu Atlantshafi. Var því erfitt að fylgjast með veðurbreytingum vestur undan, og samhengi rofnaði við kortin frá dögunum á undan.
Kl.5 á föstudagsmorgun [8.] vantar enn öll skeyti frá Norður-Ameríku, Grænlandsskeyti nema frá 2 stöðum kl.2 um nóttina og öll skip frá Atlantshafinu, sem þýðingu gátu haft nema eitt á 51°5 N og 51°V [austur af Nýfundnalandi]. Kl.11 á föstudag vantar allar Grænlandsstöðvar, N-Ameríku og öll skip norðan við 52°N. Allan þennan tíma var vindur norðaustanstæður og veðurlag þannig, að unnt var að gera allöruggar veðurspár eftir veðurfregnum frá Bretlandseyjum, Færeyjum og skipum um eða sunnan við 50°N, Þess var oft getið í veðurlýsingu, að erlendar veðurfregnir vantaði alveg eða að miklu leyti, vegna slæmra hlustunarskilyrða.
Kl.17 á föstudag telur veðurfræðingur (Jónas Jakobsson), sem annaðist veðurspána, að hann hafi fengið skeyti frá 4 stöðum á V-Grænlandi á síðustu stundu, áður en spáin skyldi afgreidd. Virðast þær,ekki benda á snöggar veðurbreytingar. Hins vegar vantaði þá fregnir frá veðurathugunarskipinu Baker" (62°N og 33°V) [það sem síðar var kallað Alfa] sem síðan hefur verið sett inn á kortið frá þessum tíma. Hann spáði því: SV og S golu og sums staðar smáéljum fyrir svæðið frá Suðvesturlandi til Vestfjarða, eða nákvæmlega sömu spá og Björn Jónsson hafði sent út kl.15:30. Kveðst Jónas hafa ráðfært sig um þetta við Björn Jónsson, áður en hann fór af Veðurstofunni þá um kvöldið. Kl.23. um kvöldið koma skeyti frá fjórum stöðvum á Suður-Grnlandi. Er þar hægviðri. Enn fremur er þá komið skeyti frá skipinu Baker kl.17, og er vindur þar suðvestan 6 vindstig og hægt fallandi loftvog. Hér á landi er hægviðri. Bendir þetta á grunna lægð yfir Grænlandshafi norðanverðu. Gerir hann þá ráð fyrir að vindur muni fara hægt vaxandi af suðvestri og spáir fyrir vesturströndina kl.1 eftir miðnætti: S og SV gola fyrst, síðan kaldi. Dálítil rigning eða slydda á morgun.
Um þessar mundir segir breska veðurstofan í London í veðurlýsingu sinni frá lægð vestur af Íslandi og bætir við: This system uncertain due lack of observation."
Laugardagsmorgun kl.5 vantar gersamlega fregnir frá Grænlandi og Ameríku. Hins vegar eru þá fyrir hendi tvær fregnir frá veðurathuganaskipinu Baker". Önnur, kl. 23 kvöldið áður, segir VSV átt, 7 vindstig og hægt fallandi loftvog, og hin kl.02, segir einnig VSV, 5 vindstig og loftvog stígandi. Hér vestanlands var S og SV kaldi og rigning. Til viðbótar við þetta komu svo innlendar veðurfregnir kl. 8. Er þá SV-átt, 46 vindstig vestan lands og loftvog fallandi en alls ekki óvenjulega ört. Á þessum grundvelli telur veðurfræðingur (Jón Eyþórsson), er þá annast veðurspána ekki fært að gefa út venjulega ákveðna veðurspá að svo stöddu, og tekur fram í veðurlýsingu, að engar fréttir (séu) frá Grænlandi eða Atlantshafi og segir í veðurspánni fyrir allt Vesturland: Vaxandi SV-átt. Rigning. Þess má aðeins geta, að skeytin frá skipinu Baker kl. 23 og kl.02 virtust mæla gegn því, að um skaðaveður væri að ræða. Að öðru leyti var rennt blint í sjóinn með, hvar lægðarmiðjan væri í raun og veru eða hve djúp hún væri. Kl.11 er vestan veðrið skollið á með 9 vindstigum á Horni og Kvígindisdal, en 67 vindstig annars staðar. Fregnir berast þá ekki frá S-Grænlandi fyrr en að veðurspá hafði verið gerð kl.12 og frá NA-Grænlandi, sem skiptir höfuðmáli í svona veðurlagi, koma alls engar fregnir. Skeyti koma síðar frá tveimur skipum á sunnanverðu Grænlandshafi, og er veðurhæð þar ekki nema 68 vindstig.
Veðurspá kl. 12 er á þessa leið fyrir Vestur- og Norðurland: Hvass, V og síðan NV. Skúra- og éljaveður. Kl. 15:30 er þessi veðurspá endurtekin, því nær alveg óbreytt (Björn Jónsson). Kl.17 laugardag vantar enn allar fregnir frá Grænlandi. Vindur er þá V eða NV-stæður um allt land, veðurhð mest 10 vindstig í Vestmannaeyjum og Kvígindisdal og 9 vindstig í Grímsey, Horni og Reykjanesi. Lægðin er nú sjáanleg á milli Íslands og Jan Mayen á hraðri ferð austur eftir. Á þessum fregnum er byggð veðurspá kl. 20 (Jónas Jakobsson), því nær alveg samhljóða hádegis og miðdegisspánum, en bætt við, að veður muni skána næsta dag og reyndist það rétt.
Það er áberandi, þegar litið er yfir veðurkort þessara daga og raunar flesta daga vikunnar, sem leið, hve oft vantar allar fregnir frá stórum svæðum, og stafaði þetta fyrst og fremst af alveg óvenjulega slæmum heyrnarskilyrðum. Hefur því hvað eftir annað verið tekinn fyrirvari í veðurlýsingum um þetta, enda er það eini möguleikinn til að gefa til kynna eins og sakir standa að veðursjáin sé ekki byggð á traustum grundvelli. Reykjavík 15. febrúar 1946 Jón Eyþórsson, Björn L. Jónsson, Jónas Jakobsson.
Með hjálp endurgreininga má nú í stórum dráttum sjá hvað gerðist. Hafa ber þó í huga að þessar greiningar ná ekki styrk lægðakerfisins að fullu. Munar 5 til 10 hPa á dýpt lægðarinnar - og þar með vindhraða.
Kortið sýnir hæð 1000-hPa-flatarins kl.18 síðdegis föstudaginn 8. febrúar. Af bréfi veðurfræðinganna er ljóst að vestari hluti kortsins var nánast auður hjá þeim. Atburðir yfir Grænlandi og suðvestan við það voru óþekktir. Nú er ritstjóri hungurdiska nokkuð vanur að ráða í veðurkort og satt best að segja er ekki margt á þessu korti sem bendir til þess að mikið illviðri skelli á Vesturlandi aðeins 12-15 tímum síðar. Ekki er að sjá stórar þrýstibreytingar samfara grunnri lægð ((1002 hPa) við Grænlandsströnd. Til þess að sjá að eitthvað sé að gerast þarf að líta á stöðuna í háloftunum.
Ekki er hún heldur mjög eindregin, en samt er ljóst að lægðardragið við Vestur-Grænland er hættulegt. Því fylgir mikill vindstrengur sem er á austurleið, í stefnu á Ísland. Í hinu ágæta riti Saga Veðurstofu Íslands (s.119-120) er greint frá þeirri rannsókn sem fram fór á spá Veðurstofunnar og spám herveðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli. Spárnar reyndust svipaðar, þótt almannarómur segði annað. Aftur á móti var í rannsóknarskýrslunni bent á að veðurfræðingar hersins hefðu haft heldur betri upplýsingar, móttökutæki þeirra væru betri en tæki Veðurstofunnar auk þess höfðu þeir aðgang að háloftaathugunum sem rétt var byrjað að gera á flugvellinum. Alþjóðasamvinna um dreifingu flugveðurskeyta var þar að auki ekki komin á fullt skrið eftir styrjöldina - en aðeins voru fáir mánuðir frá lokum hennar.
Klukkan 6 að morgni laugardags 9.febrúar, rétt áður en veðrið skall á var háloftalægðardragið skæða komið á Grænlandshaf - og við sjáum greinilega hvað var á seyði. Endurgreiningin nær trúlega ekki snerpu veðursins til fulls.
Kl.9 er veðrið skollið á. Lægðin var í raun og veru dýpri en hér er sýnt, þrýstingur á Vestfjörðum var um 980 hPa, en ekki 988 eins og kortið sýnir. Nánari greiningu þarf til að segja til um það hvort kalt loft hefur sloppið yfir Grænlandsjökul og borist til Íslands, en slík veður eru smáum skipum alveg sérlega varasöm vegna þess hve snögglega þau skella á.
Línuritið sýnir þrýstispönn (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum tíma) og lægsta þrýstingi fyrri hluta febrúar 1946. Enn hafa ekki allar þrýstiathuganir þessara ára verið skráðar í gagnagrunn og líklegt að þrýstispönnin sé heldur vanmetin á myndinni. Hún rýkur upp síðla nætur og nær hámarki um kl.9 að morgni þess 9. Loftvog hríðféll um svipað leyti - en enginn veðurfræðingur á vakt yfir blánóttina - vegna mannfæðar.
Líklegt er að tölvuspár nútímans hefðu náð þessu veðri vel. Hugsanlega líka þær ófullkomnu spár sem veðurfræðingar bjuggu við á fyrstu árum ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni í kringum 1980, (en það er samt vafamál) en árið 1946 hefði þurft nánast kraftaverk til að sjá þetta veður fyrir.
Þann 6. febrúar féll snjóflóð á Norðureyri við Súgandafjörð. Það olli flóðbylgju á Suðureyri sem braut bryggjur og skemmdi báta. Mikil snjókoma var víða um norðvestanvert landið dagana áður, ekki mjög hvasst þó. Snjódýpt á Hamraendum í Miðdölum mældist 49 cm þann 6., sem er óvenjulegt. Snjóflóðið væntanlega afleiðing veðurs í nokkra daga. Þann 19. febrúar urðu skemmdir á bátum og bryggju á Húsavík í snörpu norðvestanveðri.
Tíminn segir þann 20. frá óvenjugóðri vetrarfærð, þar er líka fróðleikur um nýlegar vegaframkvæmdir:
Í allan vetur, hafa verið óvenju greiðar samgöngur á vegum landsins vegna þess, hve snjólétt hefir verið. Bílfært hefir verið um alla helstu fjallvegina, að heita má í allan vetur. Fram til þessa tíma hefir verið tiltölulega auðvelt að halda vegunum opnum. Tíðindamaður blaðsins sneri sér í gær til Ásgeirs Ásgeirssonar skrifstofustjóra á Vegamálaskrifstofunni og fékk hjá honum upplýsingar um færðina á helstu bilvegum landsins. Milli Suður- og Norðurlands hefir, að heita má, alltaf verið fært bifreiðum í vetur um Holtavörðuheiði og Stóravatnsskarð, allt norður á Sauðárkrók. Hins vegar hefir Öxnadalsheiði verið ófær bifreiðum nú um nokkurt skeið, vegna snjóa. Um Vesturland hefir verið fært allt vestur í dali, um Bröttubrekku. Yfir Bröttubrekku hefir bæst við nýr fjallvegur, sem lokið er við að fullgera á síðastliðið haust, og var það fyrir þær aðgerðir, sem nú í fyrsta sinn, hefir tekist að halda leiðinni vestur yfir Bröttubrekku opinni yfir vetrartímann. Hinar bættu vetrarsamgöngur hafa orðið Dalabúum til mikils hagræðis, og hafa verið fastar bílferðir yfir fjallaveginn í allan vetur með mjólk og farþega. Einnig hefir verið bílfært til Stykkishólms um Kerlingarskarð. Yfir Fróðárheiði til Ólafsvikur var fært bifreiðum með lengsta móti, en sú leið hefir nú verið teppt um skeið vegna snjóa. Vegurinn austur yfir fjall um Hellisheiði og Þingvelli, hefir verið fær bifreiðum að heita má í allan vetur allt austur til Víkur í Mýrdal. Frá Akureyri hefir að mestu verið bílfært í allan vetur til Húsavíkur, þó fyrir allmiklar aðgerðir vegamálastjórnarinnar. Þess má einnig geta, að Fjarðarheiði var óvenjulega lengi fær bifreiðum í vetur. En hún lokast venjulega í fyrstu snjóum á haustin. Leiðin frá Reykjavík til Borgarfjarðar um Hvalfjörð hefir einnig að mestu leyti verið bílfær í allan vetur. Sú leið er nú öruggari en nokkru sinni fyrr, vegna hins nýja vegar um Hafnarskóg, sem að mestu leyti var lokið við síðastliðið haust.
Í Tímanum 28. febrúar er frétt um skíða- og skautaiðkun á Akureyri:
Í gær var nokkur snjókoma á Akureyri, en undanfarið hefir gott skíðafæri verið þar og skautafæri á Pollinum, sem nú hefir lagt í stillunum undanfarna daga, en annars er það sjaldgæft nú seinni árin, að pollinn leggi. Fjöldi fólks hefir verið á skíðum og skautum á Akureyri síðustu daga, og hafa skólarnir gefið skauta - og skíðaleyfi.
Marmánuður hlaut góða dóma, sérstaklega austanlands:
Lambavatn (Halldóra S. Ólafsdóttir): Framan af mánuðinum var hæg suðaustanátt og blíðviðri. Síðan skiptust á norðaustan- og sunnanátt, en seinni hluta mánaðarins var tíðin umhleypingasöm, skiptust á krapahryðjur og rigning. Frostlítið var yfir mánuðinn og úrkoma ekki mjög mikil nema seinustu dagana.
Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Einhver mildasti marsmánuður sem að hefur komið hér. Lítið um vinda og litlar úrkomur. En oft logn eða þá landátt.
Apríl fékk kannski ekki alveg jafn góða dóma og mánuðirnir á undan:
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið umhleypingasamt og af og til snjóhreytingur og hafa skepnur verið heldur þungar á fóðrum.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Óvenjulegt snjófall hér 23. náði aðeins yfir lítið svæði ca. 6 ferkílómetra (snjódýptin mældist 30 cm - en alautt var áður). [Sama dag snjóaði reyndar líka mikið á Grímsstöðum á Fjöllum - og víða snjóaði á landinu.]
Bátar á Vestfjörðum urðu fyrir veiðarfæratjóni í vestanillviðri þann 1. apríl.
Maí var stilltur og blíður, nema rétt síðustu dagana, smávegis af ís var að þvælast fyrir Vestfjörðum og laskaðist lítið olíuflutningaskip í ís um 25 sjómílur austur af Horni þann 29. maí:
Lambavatn: Það hefir verið óslitin stilla og blíðviðri yfir mánuðinn. Gras þýtur upp eins og í gróðurhúsi því smáskúrir eru með hitanum. Nú, síðustu tvo daga mánaðarins, hefir verið norðaustanrok og kuldar.
Sandur: Tíðarfar einmunagott allan mánuðinn, hlýtt og óvenjulega sólríkt. Þurrkar voru miklir og stöðugir, en þó greri ágætlega vegna hlýindanna. Var gróður mun meiri í mánaðarlok en verið hefur um mörg ár.
Reykjahlíð: Elstu menn muna ekki betri maímánuð hér í sveit.
Fagridalur: Afbragðsgóð tíð allan mánuðinn. Stillur og mikill hiti frá miðjum mánuði til 28. Þá kólnaði og gekk til norðaustanáttar. Tún voru þá töluvert farin að spretta og úthagi mikið farinn að grænka.
Morgunblaðið segir af ís 26.maí:
Eimskipafélagi Íslands barst í morgun svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum á Fjallfossi: Samfelld ísbreiða sjáanleg til austurs frá Horni, samhliða siglingaleið, 10 - 15 sjómílur. Einnig sjáanleg austureftir eins langt og sést. Skyggni ágætt. Staður skipsins 24 sjómílur suðaustur af Horni.
Talsvert hret gerði snemma í júní, en svo batnaði tíðin.
Flateyri (Hólmgeir Jensson): Um útlíðandi fardagana (8.) snjóaði hér í byggð af norðaustanátt [alhvítt var í byggð þann dag].
Kortið sýnir veðurlag að morgni 6. júní. Hríðarhraglandi er um landið norðanvert og urðu sums staðar fjárskaðar. Snjódýpt mældist 15 cm á Nautabúi í Skagafirði þann 9. júní og 14 cm á Horni þann 10., þar var alhvítt 5 morgna í mánuðinum, og 4 í Reykjahlíð og á Grímsstöðum.
Við getum þess í framhjáhlaupi - þótt það komi veðri ekki við - að þann 3. júní varð stórbruni á Ísafirði. Þrjú stór hús brunnu og fimm manns fórust. Um 70 manns urðu húsnæðislausir.
Júlí var hagstæður. Um miðjan mánuð komu nokkrir mjög hlýir dagar. Þá fór hiti í Hallormsstað í 30 stig. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í júlímánuði. Lítillega er fjallað um þessa mælingu í gömlum hungurdiskapistli. Páll Guttormsson veðurathugunarmaður segir um mánuðinn:
Hallormsstaður: Hitinn fór hærra en hann hefur farið hér síðan að veðurathuganir byrjuðu (1937). Vöxtur var ekki í hlutfalli við hitann vegna ónógra rigninga en breyttist þó seint í mánuðinum.
Þessarar hitabylgju varð vart viða um land, þó ekki væri hún langvinn. Hiti fór í 23. stig í Síðumúla í Borgarfirði og 22 stig á Hlaðhamri í Hrútafirði þann 16., hvort tveggja óvenjulegt, í 23 stig á Nautabúi, 24,7 í Reykjahlíð, 24,9 á Grímsstöðum og 25,5 stig á Kirkjubæjarklaustri, svo einhverjar tölur séu nefndar. Alvöruhitabylgja, þótt ákveðinn efi fylgi 30 stigunum á Hallormsstað.
Ágúst fékk einnig góða dóma, en þó gerði stórrigningu austanlands sem olli þar miklum skriðuföllum. Í eldri pistli hungurdiska var fjallað um skriðuföllin eystra. Við endurtökum það ekki hér.
Í Tímanum 20. ágúst er sagt af hingaðkomu Hans Ahlman en hann var um þær mundir frægur fyrir rannsóknir sínar á jöklum og veðurfari:
Hans Ahlman, prófessor í Stokkhólmi, er nýlega kominn hingað til lands. Hann er íslendingum nokkuð kunnur og einkum af rannsóknarferðinni á Vatnajökul 1936. Annars er Ahlman prófessor í fremstu röð vísindamanna, sem nú eru uppi í jarðfræði og skyldum greinum og hefir einkum lagt sig eftir rannsóknum í norðurvegum. Hann hefir farið rannsóknarferðir um Spitsbergen, Grænland, Ísland, Finnmörk og ýmsar nálægar eyjar. Prófessorinn gerði grein fyrir ferð sinni hingað með því að gefa yfirlit um rannsóknir síðustu ára, sem leiddu það í ljós, að skriðjöklar fara nú hvarvetna minnkandi í norðlægum löndum. Jafnframt er minni hafís í norðurhöfum en áður hefir verið. Nefndi hann það til dæmis m.a. að síðastliðið haust var auður sjór fram í nóvember við Spitsbergen, þar sem hafís lá allan ágústmánuð 1910, og að sjóleiðin norðan Asíulanda væri nú einatt farin á einu sumri milli meginhafanna og þess væri jafnvel dæmi að siglt væri frá Arkangelsk til Vladivostok án þess að lenda í hafís. Um raunverulegar ástæður fyrir þessum breytingum vita fræðimenn ekki. En þessar rannsóknir eru hið mesta áhugamál fræðimanna viða um lönd. T.d. telur landfræðingafélagið í London þær einna merkastar allra jarðfræðilegra rannsókna, sem nú er unnið að. Og Ahlman prófessor væntir þess að ferð sín hingað geti verið þáttur í undirbúningi þess að þær óskir rætist, að menn skilji hvað hér er að gerast.
Prófessor Ahlman víkur aftur að sérgrein sinni í vísindunum. Hér ætti að vera miðstöð, sem stjórnaði rannsóknum í veðurfræði, jarðeðlisfræði, jarðmyndunarfræði og skyldum greinum. Það eru hvergi í heimi jafngóð skilyrði til þess að stunda þær rannsóknir og hér á landi, og því væri óskandi, að ástæður íslensku þjóðarinnar leyfðu það, að hún yrði forystuþjóð á sviði þeirra rannsókna. Tækist henni það, hefði hún unnið sér virðulegan sess í samfélagi þjóðanna. Íslendingar munu yfirleitt fylgjast af vakandi áhuga með rannsóknum prófessors Ahlmans og samherja hans, því að hér er verið að leita skýringa á þeim náttúrulögmálum, sem allt atvinnulíf íslendinga er háð. Það er staðreynd, að loftslag er að verða mildara hér á landi, og sjávarhiti við strendurnar eykst þessa áratugi. Enginn veit, hvað lengi sú þróun heldur áfram, svo örlagarík sem sú spurning er þó fyrir afkomu íslendinga. Meðan þessi þróun heldur áfram fara jarðyrkjuskilyrði batnandi og fiskigöngur breytast. Það stendur t.d. í beinu sambandi við þessar breytingar á loftslagi og sjávarhita, að helstu síldarmiðin færast norður og austur með landi, þorskgengd minnkar á Selvogsbanka, en vex á Grænlandsmiðum.
En hvað er framundan? Hvers er að vænta? Þannig spyrja allir. Prófessor Ahlman er í fremstu röð þeirra manna, sem leita svarsins. Því er honum og störfum hans veitt alþjóðar athygli, þegar hann kemur til Íslands.
Enn var september hagstæður, að undanskildum fádæma rigningum norðanlands upp úr þeim 20. Mikil skriðuföll urðu, einkum í Eyjafirði. Við höfum í eldri pistli hungurdiska fjallað alltíarlega um rigninguna og skriðuföllin og endurtökum það ekki hér.
Reykjahlíð: Mánuðurinn yfirleitt góður nema nokkrir dagar frá 22. Þann dag stórfelldari vatnsveður hér en nokkur dæmi hafa þekkst áður í okkar athugun.
Tíminn segir frá heyskap í pistlum þann 7. og 14. september:
[7.] Viðtal við Jón H. Fjalldal, bónda á Melgraseyri. - Þetta hefir verið yndislegt sumar, sagði Jón, glaður í bragði besta sumar, sem komið hefir síðan 1939. Þá var tíð ákaflega hagstæð hjá okkur við Djúpið og mun hlýrra en i sumar. Í sumar hefir hitinn aldrei farið yfir sextán stig 1939 varð hitinn mestur 28 stig í skugganum.
[14.] Frásögn Steingríms Steinþórssonar búnaðarmálastjóra. Heyskapartíð hefir yfirleitt verið mjög góð í sumar upp á það besta í raun og veru um allt land. Sérstaklega hefir þó tíðin verið góð á Suðurlandi og betri síðari hluta sumars en fyrri hluta þess. Aldrað fólk segir, að slíkt sumar hafi ekki komið síðan 1896, jarðskjálftasumarið. Aftur á móti hefir tíðin verið heldur erfiðari norðaustan lands, en heyskap þar er nú samt að verða lokið. Nokkrir bændur eiga þó hey úti ennþá, en hvorki er það í stórum stíl né almennt.
Athugasemd ritstjóra hungurdiska. Sumarið 1896 var mikið óþurrkasumar á Suður- og Vesturlandi (öfugt við það sem haldið er fram í pistlinum hér að ofan). Um það er fjallað í pistli hungurdiska um árið 1896.
Þann 15. september skemmdist brimbrjótur í Bolungarvík í norðaustanillviðri. Ítarlega lýsingu má finna í Tímanum 26. september.
Október var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. En samt var tíð talin hagstæð. Þetta er með allrahlýjustu októbermánuðum ásamt 1915 og 2016.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, þykktina og þykktarvik í október 1946 (ágiskun era-20c endurgreiningarinnar).
Lambavatn: Það hefur mátt heita óslitið rigning yfir mánuðinn. En óvenju hlýtt.
Sandur: Tíðarfar í mánuðinum sérlega hagstætt. Þurr, hæg og hlý sunnanátt ríkjandi. Frost eða úrkoma óvenjulítil miðað við árstíma. Jörð ófrosin allan mánuðinn.
Fagridalur: Einstaklega góð tíð, stillt og hlýtt svo menn muna ekki annað eins.
Sámsstaðir: Tún voru víða beitt fram undir mánaðamót og aldrei svona lengi enda jörð óvenjulega græn.
Þann 2. október fórst vélbátur frá Ísafirði í róðri og með honum þrír menn.
Síðari hluta nóvember snjóaði nokkuð norðaustanlands, en tíð annars talin hagstæð í þeim mánuði.
Lambavatn: Það hefir verið stillt veður, en frost og bjartviðri oftast seinni hluta mánaðarins.
Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Ágæt tíð fram eftir mánuðinum, en úr því slæm og kom allmikill snjór.
Tíminn 26.nóvember:
Um og fyrir seinustu helgi hefir mikið kuldakast gengið yfir landið og talsverð fannkoma verið, einkum austan lands og norðan.
Desember var heldur órólegur og hvassviðrasamur, en stórfelldra skaða er ekki getið. Norðanlands var almennt góð tíð og úrkoma ekki mikil. Þar var snjór hins vegar furðumikill eftir hríð í lok nóvember og um mánaðamótin. Talsverð úrhellisillviðri gerði sunnan- og vestanlands í mánuðinum. Vísir segir frá þann 5. desember:
Töluverð veðurhæð var í Reykjavík síðari hluta dags í gær og komst hún upp í 9 vindstig. Ekki er vitað um neitt tjón eða slysfarir, sem veður þetta hafi valdið, nema loftnet útvarpsstöðvarinnar bilaði og var því ekkert útvarp í gærkveldi. Vélbáturinn Fram frá Hafnarfirði var með bilaða vél út af Akranesi og var honum bjargað af v.b. Hermóði. Hvítá, sem nú fer milli Akraness og Reykjavíkur sneri við á siglingunni til Akraness i gær sökum óveðurs og komst skipið heilu og höldnu til Reykjavíkur. Veður þetta mun hafa verið stórfelldast i Reykjavík og grennd.
Tíminn segir frá sama veðri 6.desember:
Síðdegis í fyrradag [4.] gerði mikið hvassviðri með úrkomu suðvestanlands. Verst mun veðrið hafa verið í Reykjavík og í kringum Faxaflóa, og mátti heita, að óstætt væri um tíma. Um miðnætti í fyrrinótt tók veðrið að lægja. Kl.5 í gærmorgunn hafði rignt 20 mm. seinustu 12 klst. í Reykjavík. Skemmdir munu hafa orðið víða af völdum þessa veðurs á Suðvesturlandi. Einkum hafa skemmdir orðið á símalínum, sem slitnað hafa niður, og er nú símasambandslaust með öllu við Búðardal og vestur um fjörðu til Patreksfjarðar og Bíldudals, en línur þangað liggja um Búðardal. Þá hafa einnig orðið aðrar minniháttar skemmdir á öðrum símalínum. Vegna úrkomunnar rann víða mikið af ofaníburði úr vegum, og gerir það umferð erfiðari. Dæmi eru til þess að bílar hafi fokið út af veginum í veðrinu, þannig lágu tveir bílar foknir út af veginum milli Akraness og Reykjavíkur, en þá sem í þeim voru, mun ekki hafa sakað. Loftnet útvarpsstöðvarinnar slitnaði niður í veðrinu og féll sending niður af þeim orsökum, um tíma i gær og fyrradag. Lægðin, sem olli óveðri þessu, er nú komin vestur fyrir land, útlit er fyrir áframhaldandi sunnanátt í dag, með skúra eða éljaveðri.
Afgang mánaðarins var umhleypingatíð og oft rigndi mikið um landið sunnanvert. Veðurathugunarmenn segja frá:
Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt. Krapahræringur og rigningar, snjóað töluvert á milli.
Sandur: Tíðarfar mjög gott, utan tvo fyrstu daga mánaðarins. Hlákur ekki stórvirkar og hvassviðri sjaldgæf. Óveðrið þ.2. desember náði sér ekki hér sem annars staðar vegna þess hve vindstaða var austlæg. Því hér er hlé í þeirri átt. Svellalög voru mikil, einkum síðari hluta mánaðarins.
Fagridalur (Oddný S. Wiium): Tíðin hefir verið ákaflega óstöðug og víðast jarðbönn framan af fyrir bleytusnjó sem hlóð niður 2. desember. En síðari hluti mánaðarins hefir verið góður og má nú heita alautt.
Þann 18. gerði allmikið sunnanveður. Tjón varð þó lítið. Um það er fjallað í sérstökum pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum.
Lýkur hér þessari lauslegu upprifjun á veðri og tíð á árinu 1946. Talnaflóð má finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2022 | 23:09
Tvö norðanillviðri í október 2004 - til minnis
Árið 2004 var eins og margir muna óvenjuhlýtt. Í ágúst gerði eina mestu hitabylgju sem við þekkjum hérlendis. Þrátt fyrir hlýindin voru samt helstu illviðri ársins norðlægrar áttar - og voru nokkur. Tvö þeirra gerði með hálfs mánaðar millibili í október. Við lítum nú lauslega á þau.
Þótt kalt loft langt úr norðri kæmi við sögu í báðum veðrunum bar þau samt ólíkt að.
Lagardaginn 2. október var djúp og víðáttumikil lægð fyrir sunnan land. Austanátt var ríkjandi á landinu, en mikill norðaustanstrengur djúpt úti af Vestfjörðum. Lægðin hringsólaði á svipuðum slóðum daginn eftir, en lægðarbylgja fór þá yfir Bretlandseyjar, dýpkaði talsvert um síðir og lenti við Færeyjar. Á meðan varð loftið að norðan ágengara.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum að kvöldi mánudags 4. október, þé er veðrið um það bil í hámarki. Kalda loftið ryðst í lægri lögum suður yfir landið - en hlýrra loft að austan heldur við.
Sjávarmálskortið sýnir vindstrenginn vel, munur á þrýstingi á Vestfjörðum og á Austurlandi er hátt í 30 hPa. Þetta veður kemur við sögu í tveimur stuttum greinum sem birtust í 2004-árgagni Náttúrufræðingsins. Þar er ritað um gervihnattamynd sem sýnir mikinn sandstrók frá landinu og langt suður í haf. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ritar líka um aðstæður þær sem sköpuðu sandstrókinn - áhugasamir ættu að fletta greininni upp á timarit.is.
Foktjón varð nokkuð. Í Neskaupstað gerði svokallað Nípukollsveður. Morgunblaðið segir um það í frétt þann 5.október:
Norðfirðingar fóru ekki varhluta af veðurofsanum í fyrrinótt. Telja margir að brostið hafi á með Nípukollsveðri, en svo kallast mjög slæm veður í austnorðaustan- eða norðnorðaustanáttum, þegar sterkar bylgjur myndast niður með Nípunni með tilheyrandi ofsahviðum, einkum í ytri hluta bæjarins. Nípukollsveður eru tiltölulega sjaldgæf og oft líða mörg ár, jafnvel áratugir, á milli þeirra. Veðurfræðingar skýra slík fyrirbrigði sem dæmigert ofsaveður sem verður hlémegin fjalla, en þá myndast fjallabylgjur er valda sterkum hviðum sem oft eru tvisvar sinnum sterkari en meðalvindurinn. Töluverðar skemmdir urðu í veðurofsanum og segjast margir ekki muna svo slæmt veður í langan tíma. Tré rifnuðu upp með rótum, þakplötur fuku og garðhús bútaðist niður. Gömul hús á Neseyrinni urðu illa úti og m.a. skemmdist austurgaflinn á gamla vélaverkstæðinu og þak fór af íbúðarhúsi. Þá urðu skemmdir á þaki tónskólans sem stendur ofarlega á eyrinni og rafmagnslaust var um tíma í öllum bænum.
Bílar lentu í vandræðum, stór jeppi fauk út af vegi skammt frá Almannaskarði, annar bíll fauk við Kúðafljót og fleiri bílar lentu í vandræðum, m.a. í Suðursveit.
Á norðanverðum Vestfjörðum gerði mikla úrkomu og olli hún flóðum í frárennsliskerfum á Ísafirði og í Hnífsdal - flæddi inn í fj0lmarga kjallara.
Það má taka eftir því að loftþrýstingur var ekki sérlega lágur í þessu veðri.
Rauða línan á myndinni sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á klukkustundarfresti fyrstu 25 daga októbermánaðar 2004 og grái ferillinn (og blálitaði flöturinn) mun á hæsta og lægsta þrýstingi þessa sömu daga. Illviðrið þann 4. og 5. sést mjög vel, þrýstimunur varð mestur rétt eftir miðnætti að kvöldi þess. 4. Eftir það fór þrýstingur austanlands að stíga hratt og það dró úr veðrinu.
Næsta hálfan mánuð var mun skaplegra veður, dálítið hvessti reyndar af suðri og suðaustri þann 12. þegar myndarleg lægð kom að landinu. Það veður var þó ekki hálfdrættingur á við það sem á undan var gengið og það sem kom í kjölfarið. Ekki var sú lægð djúp heldur. Úrhelli olli þó vegaskemmdum í Árneshreppi og í Steinadal.
Hér má sjá meðalvindhraða í byggðum landsins þessa sömu daga - á klukkustundarfresti og ber lögun vindhraðaferilsins vel saman við þrýstispannarferilinn á fyrri mynd.
Síðara veðrið bar mjög ólíkt að. Mikil hæð var við Suðvestur-Grænland laugardaginn 16. október. Alltaf varasöm staða hér á landi. Lægðardrag var þá milli Vestfjarða og Grænlands. Þetta er afskaplega sígild norðanáhlaupsstaða. Mest finnst fyrir veðrum af þessu tagi í hretum á vori og sumri, en þau eru líka slæm á öðrum árstímum. Lægðardragið dýpkar snögglega þegar komið er suður yfir Ísland og myndar lægð austurundan. Mikil kuldastroka fylgir - oft alveg norðan úr Norðuríshafi.
Hér má sjá háloftastöðuna þegar veðrið var hvað verst. Lægðin búin að hringa sig undan Suðausturlandi og farin að draga upp hlýtt loft austan við og þrýsta því að kuldanum yfir landinu. Þetta veður er miklu kaldara en það fyrra.
Vindur lagðist mjög í strengi og varð óvenjulegur sums staðar á hálendinu og á Snæfellsnesi. Á stöð Vegagerðarinnar á Hraunsmúla í Staðarsveit fóru vindhviður í meir en 60 m/s.
Margvíslegt tjón varð í þessu veðri. Átakanlegast var þó þegar fjárhús með 600-700 sláturlömbum brann til kaldra kola á bænum Knerri í Staðarsveit. Fárviðri var á og slökkvi- og björgunarstarf nánast útilokað. Foktjón varð víðar á Snæfellsnesi sunnanverðu. Fokskemmdir urðu einnig allvíða um sunnan- og suðaustanvert landið og fjárskaðar á Héraði og á Austfjörðum. Stórt þak fauk í Vestmannaeyjum og nokkrir bílar skemmdust. Allmikið foktjón varð í Vík í Mýrdal er grjót reif upp og það fauk og skemmdi yfir tug bíla. þakplötur losnuðu af húsum og fuku. Flutningabíll með tengivagn fór á hliðina í Skaftártungu, skemmdir urðu á Höfn í Hornafirði og mikið tjón varð á búnaði vinnuflokks við jarðgangagerð í Almannaskarði. Kerra aftan í flutningabíl fauk af vegi undir Eyjafjöllum. Veðrið var talið eitt hið versta uppblástursveður um árabil. Brúin á Núpsvötnum skaddaðist vegna hvassviðris. Rúta með 45 manns fauk af vegi við Akrafjall, meiðsl voru lítil á fólki.
Þau eru margs konar illviðrin.
7.10.2022 | 01:34
Sennilega varasamt veður
Eins og fram hefur komið í spám til þess bærra aðila er gert ráð fyrir illviðri víða um land á sunnudaginn (9. október).
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á laugardag. Allsnörp, köld háloftalægð er á austurleið skammt fyrir sunnan land og inn í hana gengur mun hlýrra loft úr suðri. Þar er lægðabylgja á ferð, ættuð af suðlægari slóðum. Allra hlýjasta loftið í henni fer reyndar suðaustur til Spánar, en hluti fer til norðurs á móts við kuldann.
Svo vill til að ritstjórinn er nú nýlega búinn að skrifa um lægðir af (nákvæmlega?) þessu tagi í tveimur ársupprifjunarpistlum sínum, bæði 1961 og 1953. Í októberveðrinu árið 1953 urðu miklir fjárskaðar norðanlands, ekki síst vegna þess að veðrið skall óvænt á - og engar tölvuspár að hafa. Veðrið (í nóvember) 1961 var mun verra, þá varð umtalsvert tjón af völdum sjávargangs á Norður- og Norðausturlandi.
Rétt er að gefa þessari þróun gaum og fylgjast vel með spám og aðvörunum. - En tölvuspárnar segja okkur líka að þetta muni sennilega ekki standa mjög lengi.
5.10.2022 | 21:20
Hver er að jafnaði sólrikasti mánuður ársins?
Lesandi spurði að því fyrir nokkrum dögum hver væri að jafnaði sólríkasti mánuður ársins? Í Reykjavík er það maí. Á 99 árum samfelldra mælinga var hann 31 sinni sólríkastur, júní var það 24 sinnum, júlí 20 sinnum, ágúst 13 sinnum, apríl 10 sinnum og mars einu sinni (1947).
Það sem hér fer á eftir er óttalegt stagl - en hugsanlegt að einhver nörd fái samt eitthvað að bíta.
Sólargangur er heldur lengri í Reykjavík í júní heldur en í maí, en þá er einnig meira skýjað. Maí er líka einum degi lengri heldur en júní - það munar um það. Ef metsólskinsstundafjöldi væri jafnaður á hverjum einasta degi maímánaðar eitthvert árið yrði sólskinsstundafjöldinn í þeim mánuði samtals um 524 stundir (hefur mestur orðið 335), í júní gæti hann orðið 538 stundir (hefur mestur orðið 338) og í júlí 539 stundir (hefur mestur orðið 278).
Desember er (eins og við má búast) oftast sólarminnsti mánuður ársins, 74 sinnum af 99. Hefur einu sinni náð upp í 10. sæti - það var 1993. Janúar er oftast í 11. sæti, en hefur hæst náð upp í það 8. Það var 1959, ef til vill muna einhverjir eftir því - afskaplega eftirminnilegur mánuður. Nóvember hefur hins vegar náð 8. sætinu 5 sinnum. Það var 1962, 1963, 1965, 1996 og 2000. Fyrstu þrjú ártölin eru einmitt þegar ritstjóri hungurdiska var fyrst að reyna að læra á árstíðasveifluna - kannski átti nóvember að vera tiltölulega bjartur - (en það er hann ekki - erfitt með þessar reglur). Október hefur komist hæst í 3. sæti (vel af sér vikið), það var árið 1926 (afskaplega kaldur mánuður). Febrúar náði einu sinni 2. sæti - næstsólríkasti mánuður ársins 1947 í Reykjavík - og mars varð sá sólríkasti. Fyrir minni ritstjóra hungurdiska, en á þessum bjarta tíma voru frægir kuldar í Evrópu - og rússagrýlan fitnaði sem aldrei fyrr - og svo kom Heklugosið.
September hefur 6 sinnum verið næstsólríkasti mánuður ársins í Reykjavík, 1926, 1954, 1975, 1982, 1992 og 2018. Nokkur kuldaslikja yfir þessum mánuðum - sól og hiti fara sjaldan saman í september í Reykjavík.
Nóvember hefur tvisvar verið sólarminnsti mánuður ársins, 1955 og 1958, annars sjá janúar og desember alveg um 12. sætið. Október hefur einu sinni verið í 11. sætinu, það var 1969. September hefur neðst lent í 10. sæti, það var 1996 (þegar hlýindin voru hvað mest fyrir norðan). Ágúst hefur einu sinni lent í 9 sæti, árið 1995. Júlí hefur líka komist niður í 9. sæti, það var árið 1977. Júní hefur neðst verið í 8. sæti á árinu, það þrisvar sinnum, 1986, 1988 og 2018. Maí hefur aldrei verið neðar en í 6. sæti, en fimm sinnum, síðast árið 1991.
Á Akureyri (dálitlar gloppur í mæliröðinni) hefur júní oftast verið sólríkasti mánuður ársins, 38 sinnum á 89 (heilum) árum. Maí kemur rétt á eftir með 31 tilvik, en aðrir mánuðir eru sólríkastir mun sjaldnar, júlí 14 sinnum og ágúst ekki nema fjórum sinnum. Apríl hefur tvisvar verið sólríkasti mánuður ársins á Akureyri. Fjöll stytta sólargang mjög á Akureyri, minnst þó í júní. Ef sólskinsstundadægurmet yrði jafnað á hverjum degi í júní á Akureyri færi mánaðarfjöldinn upp í 522 stundir (en var 538 í Reykjavík) - ekki munar mjög miklu. Nýtt met á hverjum degi í desember skilar hins vegar ekki nema 6 stundum á Akureyri (þar er alveg sólarlaust á mælislóðum frá og með þeim 8.), en gæti skilað 104 stundum í Reykjavík (það mesta sem hefur mælst þar í desember er 32 stundir).
Ljúkum nú stagli að sinni - en vonandi ekki í síðasta sinn.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 185
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010