Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Þurrklengd í Reykjavík?

Af einhverjum ástæðum er verið að tala um að það í fjölmiðlum að alveg úrkomulaust hafi verið í Reykjavík frá og með 19.janúar til þessa dags (9.febrúar) - en það er bara ekki rétt. Að morgni þess 31.janúar mældist úrkoma 0,4 mm - tegund talin snjór í yfirliti Veðurstofunnar. Þó þurrkurinn sé að verða fremur óvenjulegur klippir þessi eini dagur kaflann í sundur og metlengd er því enn víðs fjarri - hvað sem svo síðar verður.

Þeir sem nenna geta rifjað upp gamlan pistil á vef Veðurstofunnar - hann fjallar um þurrklengd í Reykjavík - hugsanlegt er að hann þarfnist endurnýjunar - en flest sem í honum er stendur þó lítt eða óhaggað. - Þurrkkaflar í Reykjavík.


Strandveður

Ritstjóri hungurdiska flettir í gömlu dóti og rekst á sérprent úr riti sem þýska sjóveðurstofan í Hamborg (Seewetteramt) gaf út 1951 [Klima und Wetter der Fischergebiete Island - Veðurfar og veður á fiskimiðum við Ísland). Sérprentið ber yfirskriftina „Wetterlage bei Strandungen an der Südostküste Islands“ - eða Veðurlag við skipströnd við suðausturströnd Íslands. Þar fjallar Martin Rodewald (1904-1987 og var mjög þekktur veðurfræðingur á sinni tíð) um efnið. 

Greinin hefst á stuttri frásögn hans um eigin reynslu undan ströndinni í maí 1926 í hægri suðaustanátt og þoku - og þau óþægindi sem því fylgdu, vitandi af ströndinni skammt undan og það sem loksins sást var flak sem þar lá. Það var það fyrsta sem Martin Rodewald sá af Íslandi. Í greininni er síðan tafla yfir 12 þýsk „strönd“ á þessum slóðum, það fyrsta 1898 en það síðasta 1949. Hann vekur athygli á því að veður var í flestum tilvikum ekki sérlega vont, engin fárviðri alla vega. Strekkingsvindur, upp í 7 vindstig, en oftast minna. Vindátt oftast af austri, en skyggni slæmt.

Skanni_20210208

Kortið sýnir „meðalveðurlag“ í 10 af þessum 12 ströndum, tvö eru víst talin lítt veðurtengd. Athygli er vakin á því að þetta víkur nokkuð frá meðalþrýstingi í desember - þrýstivindur er mun suðlægari en venjulega. Háþrýstingur meiri en oftast er yfir Skandinavíu - og Íslandslægðin svonefnda í fremur vestlægri stöðu. Það þýðir væntanlega að skyggni er verra en algengt er. Sömuleiðis bendir hann á að vindátt á strandstað víkur mjög frá þrýstivindáttinni (fylgir ströndinni eða stefnir jafnvel út frá landi) - en er suðlæg þar fyrir ofan. Við þekkjum þetta veðurlag vel. 

Fjölmargir þýskir togararar stunduðu veiðar við Ísland og flotanum fylgdu gjarnan eftirlits- og aðstoðarskip. Veðurskeyti þeirra komu oft að góðum notum á Veðurstofunni þegar veður voru válynd og hafa vafalítið bjargað einhverjum mannslífum - ekki aðeins þýskum. Sum nöfnin urðu kunnugleg, t.d. Poseidon og Meerkatze - og fleiri. Við, gamlir veðurfréttanaglar, hugsum til þeirra af hlýhug (þó eitthvað hafi verið kvartað undan þeim á landhelgisbaráttuárunum). En þessi gamli veðurfréttaheimur er löngu horfinn. Þó spám hafi fleygt fram er samt margs sem sakna má. 


Af árinu 1838

Árið 1838 þótti almennt hagstætt, sérstaklega um landið sunnanvert, þar sem var óvenjuþurrt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 0,1 stigi ofan meðallags næstu tíu ára á undan, og það hlýjasta frá 1831. Meðalhiti í Stykkishólmi reiknast 3,2 stig. Engar mælingar hafa fundist frá Norður- eða Austurlandi. Hafís var nokkuð á sveimi - og hefur nær örugglega haft áhrif á sumarhita þar sem hans gætti. Hafísmagnið var þó miklu minna en árið áður. Júlímánuður var sérlega hlýr suðvestanlands, meðalhiti í Reykjavík reiknast 13,0 stig - en talsverð óvissa samt í þeirri tölu. Janúar og maí voru einnig í hlýja flokknum, en mars, apríl, september, október og nóvember kaldir.  

ar_1838t 

Í Reykjavík voru 14 dagar mjög kaldir, kaldastur þeirra að tiltölu var 22.ágúst. Níu dagar voru mjög hlýir, hlýjast að tiltölu 29.júlí. Hiti fór fjóra daga í 20 stig eða meira í Reykjavík, mest 21,3 stig - alla dagana fjóra (aðeins mælt með 1°R nákvæmni). Slæmt kuldakast gerði snemma í júní, og fór hiti þá niður fyrir frostmark nokkrar nætur í Vík í Mýrdal. 

Árið var sérlega þurrt í Reykjavík, þurrara en árið þurra 1837, en ekki alveg jafn þurrt og metþurrkaárið 1839. Spyrja má um vatnabúskap í þessari löngu þurrkasyrpu. Ársúrkoma í Reykjavík mældist ekki nema 436 mm, nærri helmingur hennar (199 mm) féll í tveimur mánuðum, janúar og desember. Úrkoma mældist 10 mm eða minni í 5 mánuðum ársins, minnst í júní, 3 mm (sjá tölur í viðhengi).

Loftþrýstingur var mjög hár í nóvember og hár í 6 öðrum mánuðum, en lágur í þremur, að tiltölu lægstur í september. Órói frá degi til dags var með minnsta móti í febrúar, maí og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 27.október, 960,4 hPa, en hæstur á sama stað 27.janúar 1034,6 hPa. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Annáll 19. aldar telur ýmis slys og óhöpp sem ekki er getið hér að neðan. Dagsetninga er sjaldan getið og samband við veður oft óljóst. Þó er rétt að nefna að maður frá Útibleiksstöðum í Miðfirði fór ofan um ís á firðinum. Þann 28. september segir annállinn að verið hafi „ofsaveður sem rauf víða bæði hús og hey og spillti förum manna. Þilbát tók út hjá Birni bónda á Sævarlandi í Laxárdal og braut í smátt“. Segir einnig frá því að í öndverðum nóvember hafi sjór gengið mjög á land syðra um næturtíma, braut skip og báta og gerði fleiri spellvirki. 

Fjölnir V 1839 (3-8 fréttabálkurinn) Eftirmæli ársins 1838, eins og það var á Íslandi:

Þó að árið 1838 gæfist nokkuð misjafnt á Íslandi, eftir því sem sveitum og héruðum hagar, og það yrði með köflum fullerfitt sumstaðar, má þó kalla, þegar á allt er litið, að það hafi verið fagurt og blíðviðrasamt og affaragott í flestu. Veðuráttan, sem um Suðurland víða hafði verið fádæma góð, hélst við, að kalla mátti, fram yfir miðja góu; því þó eftir nýárið um svo sem hálfsmánaðartíma væri nokkuð hryðju- og umhleypingasamt, gekk þó hinn tímann lengst af á hægviðrum með stillingu til loftsins, svo að hvorki voru stórkostleg hrök né frostaíhlaup; stóð vindur oft af austri eður suðri, og loftið létt og fagurt, þar sem þessum áttum eru miklu algengari slyddur og stórrigningar, einkum á þeim tíma ársins. Þessi veðurátta var algeng um Suðurland, en þó kom veturinn þar harla misjafnt yfir; því til og frá — einkum í þeim sveitunum, sem hærra liggja og heldur til fjalls — lagði jörðina undir að nokkru leyti, og tók fyrir eður skemmdi haga, þegar eftir nýárið, sem seint vildi taka af eða lagast aftur, af því veðuráttan var heldur aðgjörðalítil; þó komu á þorranum slíkar þíður, að víðast munu þá hagar hafa komið upp aftur fullkomlega, og sumstaðar tók enda að mestu leyti klaka úr jörðu; hrakaði útifénaði seint vegna góðviðranna, og var hann þar sem best lét fram yfir miðgóu í haustholdum, þó lifað hefði þangað til eingöngu af jörðunni. Frá því í seinustu viku góu til þess komið var af sumarmálum, svo sem í fimm vikur, var  fullkomið hagleysi og jarðbann að kalla allstaðar, nema máski á fáeinum bestu hagajörðum, og þó mátti kalla, að alltaf héldist sama góðviðrið — sáldraði snjónum mest niður í logni, og lá löngum við frostleysu, og tók upp mestan snjóinn með sólbráði og þíðvindum. Eftir sumarmálin, nær því hálfan mánuð af sumri, gjörði aftur mikið íhlaup af norðri í 3 daga; en þaðan af tók að batna algjörlega, og tók upp snjó og ísa, en klaki leið úr jörðu smátt og smátt. Fénaður gekk undan vel til fara, og voru víða ærnar heyfyrningar, féll og vel um sauðburðartímann. Heldur var seint um gróðurinn fram eftir vorinu, og varð það grasvextinum að nokkrum hnekki, að á hvítasunnunóttina [3.júní] og fram eftir deginum þeytti niður snjó með svo miklum kulda, að hann var sumstaðar ekki tekinn upp að kvöldi, og aftur á trínitatishátíð [10.júní] gjörði norðanveður með allmiklu frosti; en úr því var og veður ætíð blítt og hagstætt.

Nyrðra var veturinn erfiðari; því þó veðurreyndin væri lík að því, að vera heldur hæg og góð, þá tók þó sumstaðar fyrir jörðu þegar með veturnóttum, og kyngdi þá niður slíkum fjarska af snjó, einkum í Norðursýslu og á einstöku útkjálkum víðar, að varla sá til jarðar fyrr en á þorra, að víðast komu upp snöp nokkur tímakorn, en tók þó fyrir þau bráðum aftur, svo sumstaðar mun hafa dregist að því, að hafa yrði allan fénað á gjöf í nærfellt 30 vikur, þar til leið af fardögum. Þykir það allri furðu gegna, hvað vel menn komust af, að óviða varð fellir til rauna, og munu þess trautt dæmi í árbókum vorum eftir slíkan vetur. Má það eigna allgóðum heyafla undan sumrinu, en heldur fénaðarfátt undir; það er þessu næst, að heldur eru menn farnir að sjá að sér með ásetninguna og láta leiðast til að fella fénaðinn, einkum þegar veturinn leggst snemma á; en helst hefir þó stutt að þessu góð og viturleg meðferð á fénaðinum, og lag það og kunnátta, sem norðlenskir hafa fram yfir sunnlendinga á því, að koma fram fénaðinum skemmdalaust með litlum heyföngum. Hafís varð landfastur fyrir Ströndum vestra þegar í nóvembermánuði, en losnaði þó aftur; og á flökti var hann norðanlands öðru hverju vetrarins, en ekki lagðist hann um kyrrt þar, nema í Þingeyjarsýslu, og þó ekki fyrr en undir sumarmálin, og var hann nokkuð fram eftir vorinu; en ekki varð hann aflabrögðum manna til mikillar hindrunar, nema helst hákarlaútveginum.

Þegar vetrinum var af létt og vorið hjá liðið, tók við svo gott og blítt, fagurt og indælt sumar, að fáir muna annað eins; og kom það að kalla jafnt yfir allt landið; voru löngum hægviðri og hitar, stundum dumbungar og smá-áleiðingar, enn þó miklu oftar heiðskírt og bjart veður, einkum sunnanlands. Grasvöxturinn varð og víðast i meðallagi, og sumstaðar betur; einna lakast mun hafa sprottið á þjóttumýrum vegna langvarandi þurrka; ávöxtur fénaðar var með betra móti víðast hvar; allar sýslanir manna, ferðalög og aðdrættir, urðu því hægar og ánægjulegar og leystust vel af hendi. Eins var með sláttinn, að hann gekk með æskilegasta móti, nema hvað erfitt þótti að vinna á um miðju hans, þar sem ekki var annað að ganga lit á, en valllendi; en því betur veitti þeim, sem höfðu votlendar mýrar eða damma, því allt var að kalla veltiþurrt, svo að kostur var að flekkja þar sumstaðar, sem sjaldan eður aldrei hafði slegið verið að undanförnu fyrir vatni; enda var löngum kostur á að taka eftir ljánum það sem losað varð. Studdi allt þetta til þess, að erfiðið yrði sem drjúgast og fyrirhafnarminnst og aflinn sem mestur og bestur; ræður það af því er varla nokkurt handarvik er unnið fyrir gýg og veðuráttan hamlar aldrei að standa að verki, en grasið fölnar í seinasta lagi og allt sem tekið er af heyjum er ómætt þegar í garðinn kemur. [Hér kemur nokkuð langur almennur kafli um „góða heyskaparhætti“ sem við sleppum að sinni - en hann má lesa í Fjölni, 1839]

Það reyndist svo enn í sumar, að hollast er að taka snemma til sláttar og eiga sem minnst undir haustinu; undir göngurnar um miðju septembermánaðar brá til rosa, sem sumstaðar gjörði heyaflann nokkuð endasleppan; því þeim sem ekki heppnaðist að ná undan fyrstu dagana eftir það fór að bregða, varð bið á því næstu 5 eður 6 vikur, þar til seinast í októbermánuði, að liðið var af veturnóttum og tókst þó enn, og þótti svo betur enn ekki. Var þessi kaflinn, svo sem 6 vikna tími fyrir veturnæturnar, hretviðrasamur mjög og umhleypingasamur sunnanlands; gekk mest á stórrigningum af landsuðri og austri eður feiknarlegum útsynningshryðjum, svo varla fékkst þurr dagur, og það svo, að ekki varð hlaðið úr böggum né lagfærð hey, svo að vikum skipti, enn að síðustu hljóp í norður með gadd og nokkurn snjó; varð af því að taka kýr á gjöf og enda lömb með fyrsta móti, en öðrum fénaði hrakaði mjög; varð og fyrir þessa sök lítið um öll hauststörf manna. En eftir veturnæturnar kom aftur góðviðrakafli viðlíka langur seinni hluta októbermánaðar og nóvembermánuð allan var þó stundum nokkurt föl á jörðu, en oftast gott til haga, lygnt og gott veður til loftsins og hægt veður, hvorki frost til drátta — svo enda lá nærri stundum, að klaka drægi úr jörðu aftur — né heldur rigningar. Enn með desembermánuði brá aftur til hrakviðra og umhleypinga, og kvað því meira að því, sem lengra leið á mánuðinn; var mánuð þennan veður lengst af austri, suðri eða útsuðri með slyddum eða rigningum, og hafði snjórinn sjaldan viðnám degi lengur. Verður mönnum lengst í minni sjálfur jóladagurinn: varð þá messufall svo að sýslum skipti; stóð veður af austri eður landsuðri fram eftir deginum, en gekk til útsuðurs, þegar á leið; gengu þá þrumur og eldingar, svo að undrum gengdi og ofanfall að þvílíku skapi, þar til minnkaði undir kvöldið. Einni skruggunni sló niður í Árnessýslu í lambhús, og fórust af því nokkur lömb. Var þetta undanfari harðindanna, sem tókust algjörlega undir nýárið og héldust við fram eftir vetrinum þaðan af. — Nyrðra varð nýting á heyi hin besta að lokum heyanna; var haustið þurrt og gott og tíðin góð fram undir lok nóvembermánaðar. Seinna hafa ekki þaðan fréttir borist. Ár þetta var næsta rekasælt; því hinn fyrra veturinn urðu einhverjir mestu trjárekar víðast kringum landið bæði af rekaviði og aftur annarstaðar, helst syðra, af stórtrjám tilhöggnum.

Í október-mánuði haustið 1837 varð vart við hræringar nokkrar fyrir norðan land — og aftur á útmánuðunum syðra hér, en ekki varð meint að því; en í júnímánuði gjörði svo mikla hræring nyrðra, nóttina milli 11. og 12. júní-mánaðar nokkru fyrir fótaferð, að bæir högguðust, og einstöku hrundu að mestu; varð mest að því í Fljótum í Skagafirði, og á þeim kjálkunum landsins þar í nánd, sem skaga lengst norður. Þóttust menn verða þess varir, að hræringin kæmi að norðan, og þeir, sem úti voru staddir, létust séð hafa álíkt bylgju nokkurri, þá aðalhræringin gekk að, úr norðurátt — er þess og getið, að vikurkol hafi fundist þar við sjó, og hafa það sumir menn fyrir satt, að eldsumbrot nokkur hafi verið undir sjónum einhverstaðar gegnt norðri þaðan. Um sama leytið þóttust menn verða varir við öskufall á nokkrum bæjum á Rangárvöllum, og að vísu var á hvítasunnukvöld og stöku sinnum þar eftir loftið harla líkt því, þá vikur og ösku mistur hefur fyllt það og eldur er uppi, og enda veðurreyndin lengi síðan, þar sem varla kom dropi úr lofti, hvað líklega sem þar til virtist horfa, en hlýindi og hitar með mesta móti. Ætluðu menn að eldur mundi kominn upp í Öræfajökli, og drógu það til þess með fram, að Skeiðará, sem allt vorið hafði verið þurr, að kalla, ruddist um það bil fram aftur með miklu jökulflóði, og komst eftir það aftur í eðli sitt. En ekki eru, svo heyrst hafi, fleiri líkindi til þess, eldur hafi uppi verið sumar þetta. Er þetta helst eftirtektavert, ef reynast kynni, að eldsuppkoma hefði átt einhvern hlut í veðurblíðunni, sem í sumar var, og stundum mátti kalla að furðu gegndi.

Bréfamaður milli Skaptafellssýslu og Suður-Múlasýslu varð og úti á vesturleið sinni í haust. Bræður tveir urðu enn úti eða fyrir snjóflóði í Kelduhverfi á heimleið úr Húsavíkurkaupstað. ... Það var helst landi voru til óhæginda þetta ár, að sjávaraflinn var lítill og kaupverslunin erfið.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Jarðbönn með köföldum og blotum hélst til 17. jan., að snöp með góðviðri gafst. 23.-24. hláka. Lagðist þá fjarskamikill svellgaldur á flatlendi. Veður var lengst stillt og frosthægt til miðgóu, en hnjótar entust ei til framsveita fram yfir miðþorra. Hélst jarðleysi þíðulaust, án talsveðra illviðra, til sumarmála. Í Skagafirði gengu nokkur hross af, sem gefin voru út til að falla, hefði harðar hríðar komið. Gjafatími varð hinn lengsti og hey hjá öllum að þrotum komin, fáir öðrum bjargandi.

Sunnanpósturinn (6.tölublað 1838, s.94) segir af tíð og fleiru - 1838:

Vetur hér á Suðurlandi hefur mátt heita góður, frostið aldrei gert betur en ná 11° sunnanlands og varað stutta stund í senn, jarðleysukaflar hafa komið við og við, helst upp til fjalla og frést hefur að fénaður sé hér og hvar farinn að hrökkva af. Á útkjálkum landsins hefur vetur orðið harður, helst í Norðursýslu hvar jarðbönn hafa verið allan veturinn og nú seint í fyrra mánuði fréttist til íssins við Norðurland. Allstaðar er kvartað um bjargræðisskort, og eins við sjávarsíðuna, hvar afli hefur lítill gefist.

Bessastöðum 3-4 1838 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s175) Vetur hefur verið frostalítill, en síðan að vorinu leið er heldur kalt og umhleypingasamt.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á sumardaginn fyrsta kom upp snöp og í annarri viku góður bati. 1.-2. maí hart hríðarkast, svo allar ár lagði og ís rak inn á Skagafjörð, síðan kalt og þurrt. Eftir krossmessu heiðarleysing og kom gróður í byggð, bjarglegur. 1. júní hret og harka og á hvítasunnu, 3. júní, minnileg suðaustan-fannkomuhríð allan daginn, eftir það frost á nætur og smáhret.

Frederiksgave 4-5 1838 (Bjarni Thorarensen): Hafís segja menn mér að nú sé að sigla inná Eyjafjörð! Í Þingeyjarsýslu og með undantekningu af Bárðardal, Fnjóskadal og Svalbarðsströnd og þar út með Eyjafirði, hefir verið að öllu jarðlaust síðan á veturnóttum, en til páska [15.apríl] hafa þeir þó allir haldið út, þá voru þeir í fári og nú býst ég við að heyra allt hið versta þaðan því síðan 30. apríl til datum [dagsins í dag] hefir sífellt að kalla má, verið norðanhríð. Heyleysi verst og mesta að frétta úr Skagafirði og Húnavatnssýslum ... (s297)

Frederiksgave 5-5 1838 (Bjarni Thorarensen): ... nema að hafís hefir nú látið sjá sig í Hríseyjarálnum og norðlendingar í mestu hættu sökum heyleysis nema því betur vori – enda hefir í mestum hluta Þingeyjarsýslu jarðlaust verið frá veturnóttum og þangað til framyfir sumarmál – og frá 30. apríl til 3. þ.m. hefir verið kafaldskast á norðan, nú í gær og í dag betra. (s162)

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Laugardagsnótt 9. júní stórrigning. Um morguninn brast á norðanhörkuhríð með mestu fannkomu, svo svellbunka lagði yfir mela og flatlendi. Á trinitatis [10.júní] augaði í á túnum, en fannkoman hélst um 5 dægur. Á mánudagskvöldið tók af hnjótum og þótti nú gott að geta gefið inni kúm og lambfé eða miðlað öðrum með sér. Í fyrsta sinn sá ég (s127) nú lokið heyi síðan um Jónsmessu 1802, enda varð nú flestum að sópa tóftir innan. Ekki varð samt fellir, þar heylaust var, utan lambadauði. Nóttina eftir hríðina [12. júní] varð landskjálfti svo mikill, að alla felmtraði, svo ei hafði slíkur komið síðan brunasumarið 1783. Þessi varð einasta norðanlands. Lá við að hús skemmdist. Af hillum hrundi sérhvað. Hrökk leirtau þá víða í sundur. Drangeyjarmenn komust í lífsháska af grjóthruni. Stukku þeir fram í sjó sem lengst er stætt var. Skip og byrgi skemmdust og 1 maður fórst. Mestur varð hann á norðurkjálkum og bæir hrundu í Héðinsfirði. Menn á sjó fundu líka mikið til hans. Aðrir 3 minni fylgdu eftir um nóttina og morguninn. Eftir hretið var veður stillt og þurrt, en greri seint. Um Jónsmessu kom besti bati og lauk þá þessum 3-4 ára harðindakafla. Suðurlestir fengu aura mikla og snjóbleytu. Skagfirskir lestamenn misstu (8) hross í Haukadal í trínitatishretinu. Í júlí hitar og blíða, svo gras spratt í betra lagi. Sláttur byrjaði 22. júlí. Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda.

Sunnanpósturinn (8.tölublað 1838, s120) segir af jarðskjálftunum norðanlands:

(F)yrir norðan land varð töluverður jarðskjálfti nóttina milli 11. og 12.júní; nálægt 2 tímum eftir miðnætti. Kippirnir urðu þrír og leið svosem tími milli þeirra; sá fyrsti var lengstur og líka harðastur. Við fleiri hreyfingar varð vart, þó miklu minni, fram eftir júnímánuði (syðra varð aðeins hér og hvar vart við jarðskjálftann 12.júní). Bæir hrundu hér og hvar nyrðra í þessum jarðskjálfta, helst í Fljótum og Héðinsfirði. Björg hrundu í Drangey og Málmey í Skagafirði. Maður sem var að fuglaveiðum á flekum við Drangey skal hafa orðið það að banameini að bergið sem hann lá í hrapaði á hann. Í Grímsey þykjast menn og vita að þessi jarðskjálfti hafi komið. Seinasta fregn að norðan segir að töluverð vikurkol hafi borist þar að ströndinni, hvar af menn giska á að eldur hafi í hafinu fyrir norðan Ísland brotist út og þykjast nú margir geta vitni umborið að jarðskjálftinn hafi komið úr norðri, en áður var altalað að hann hefði komið úr landsuðri.

Sunnanpósturinn (10.tölublað 1838, s155) segir af árferði vor, sumar og í byrjun hausts:

Vorið varð bæði kalt og þurrt og seinn gróður allstaðar: aldrei festist samt ís við landið. Þurrviðri varaði fram eftir öllu sumri; samt varð grasvöxtur í meðallagi, en nýtingin ein sú besta sem menn muna. Þurrkurinn var svo langgæfur of mikill að flestir brunnar þornuðu við sjávarsíðuna og með hesta mátti fara yfir mestu mýrarforæði. Veðurblíðan var stöðug og henni samfara almenn heilbrigði; hitinn jafnaðarlega í skugganum 14° og stundum þar yfir. Grasvöxtur og veðráttufar var mikið líkt um allt land, sem ekki er alvenja, jafnvel á Vestfjörðum í Ísafjarðarsýslu var hitinn stundum 14° í skugganum. Heyskapur hefur því verið að kalla góðu, þó bágt væri að heyja þar sem harðslægt var, og hey hafi orðið úti hjá mörgum sem voru við heyskap því haustrigningar komu snemma í október og enduðu með frosti og nokkurri snjókomu, helst upp til fjalla. Mitt í mánuðinum hefur frostið orðið sunnanlands 8° og meir og nyrðra 10°. Snjó lagði á jörð töluverðan, helst sem frést hefur í Dalasýslu og má það mikið kalla um þetta leyti, en eftir vikutíma mildaðist veðrið og hefir haldist mánuðinn út. Afli hefur á þessu sumri verið í betra lagi um Suðurland.

Saurbæ 20-8 1838 [Einar Thorlacius] (s79) Að vísu var veturinn næstliðni fram til góu ekki verri en í meðallagi, en upp frá því og allt fram til Jónsmessu vægðarlaus að heita mátti, er því grasár vart í meðallagi.

Bessastöðum 1-9 1838 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s177) Sunnanlands hefur verið besta sumar, ...

Laufási 2-10 1838 [Gunnar Gunnarsson] (s82) Næstliðinn vetur varð mörgum þungbær, einkum hér í Norðursýslu, vegna snjófergju og jarðbanna fyrir útigangspening. Þó varð óvíða skepnumissir. Vorið var kalt og þyrrkingasamt, en síðan með júlímánuði hefur hér mátt heita árgæskutíð bæði til sjós og lands ... Hérumbil kl. 2 um nóttina milli þess 11. og 12. næstl. júní kom slíkur jarðskjálfti hér nyrðra, að eldri menn mundu ei slíkan. Hann var mikilfengastur og skaðamestur á Ólafs-, Siglu- og Héðinsfjörðum, samt Fljótum, hvar bæjarhús allvíða hristust sundur og hrundu niður. ... Fleiri smærri fylgdu á eftir í sama sinn, og síðan af og til nokkra daga eftir.

Frederiksgave 6-10 1838 (Bjarni Thorarensen): ... útfall heyskaparins var hið æskilegasta – svo nú er óhætt ef vetur verður ekki því langvinnari. (s138)

Frederiksgave 6-10 1838 (Bjarni Thorarensen): Þú ert búinn að frétta um jarðskjálfta. Þetta hús musiceraði poetiskt og hrikalega um nóttina og tjörukaggi við gafl þess, brá á leik og tók að dansa. ... Heyskapur hefir lukkast rétt vel ... (s243)

Frederiksgave 24-10 1838 (Bjarni Thorarensen):: Hér hefir allstaðar heyjast vel, og ég vona nú að fleirstir verði óbilugir með hey þó harður vetur komi ... (s164)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í september norðanátt og frostnætur, síðan snjóalaust til 11. okt. Á sunnudagskvöld [væntanlega 14.október], upp á lognfönn, brast á mikill hríðarbylur, svo víða fennti nokkuð af fé, síðan harka og kóf til 22. okt., að hláku gjörði með góðviðrum á eftir til miðs nóvember, síðan allgott vetrarfar, en óstöðugt á jólaföstu, en beit allgóð. Jólin urðu hin verstu, er menn mundu til. Á jóladaginn, með degi, kom á landsunnan ofsaveður með krapaslettingi. Bræddi kvartelsþykkt svell á steina til hálsanna og gjörði jarðlaust. Var þó lengi rigning neðra, en klambraði allt að lokum. Um nóttina og daginn eftir gott til þess um miðjan dag brast á norðanbylur. Braust þó messufólk heims um kvöldið. Á þriðja vestanhríð, svo jarðlaust til nýárs. (s128) ... Jarðeplafengur varð enn lítill og enginn, þar sumir hættu að leggja alúð á hann. Seint varð sáð og nokkuð dó út um nóttina 3. ágúst við frost og hélu. 14. okt. varð sá atburður að Hnjúkum, að bóndinn, Sveinn Halldórsson, kom um kvöldið ríðandi frá Holti. Brast bylurinn á hann milli bæjanna, og varð hann þar úti, en Sölvi sonur hans kom gangandi frá Kúlukirkju og varð líka úti sömu nótt skammt frá bænum. (s129) Á góu hrakti skip úr Höfða.

Tvær dagbækur úr Eyjafirði eru aðgengilegar þessi árin - sú ítarlegri þeirra, sem Jón Jónsson á Möðrufelli hélt, er hins vegar illlæsileg óvönum. Þó má draga eftirfarandi út um árið 1838: 

Henn segir janúar mega kallast allgóðan, en kvartar þó undan nokkrum jarðbönnum. Febrúar segir hann kallst mikið góðan bæði að stillingu og jörð. Sömuleiðis telur hann mars allgóðan hér um pláss og apríl í meðallagi, en maí í löku meðallagi. Ekki gott að lesa umsögnina um júní, en að sjá sem hann telji júlí stilltan en heldur loftkaldan. Ágúst mikið stilltur. September mikið stilltur til þess 26. Október mátti heita allgóður og nóvember dágóður. Desember merkilega góður fram að sólstöðum. 

Hvorki Jón né hinn dagbókarritarinn, Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi, kvarta mjög undan jarðskjálftanum mikla, Jón getur þess að nokkrir skjálftar hafi fundist, en Ólafur getur einskis.  

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1838. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þráviðristilbreyting (varla - en þó)

Breytingar í veðri frá degi til dags eru ekki stórvægilegar um þessar mundir. Þó er alltaf eitthvað á seyði ef vel er að gáð. Fyrst skulum við líta á veðurspá fyrir Grænland, en þar á eftir líta stuttlega á gamalt dæmi um veður.

Nokkuð snarpt lægðardrag sækir nú að austurströnd Grænlands vestur af Íslandi. Það er nokkuð áberandi í háloftunum, en gætir heldur minna við yfirborð. Það er athyglisvert hvernig spár taka á því. Gert er ráð fyrir gríðarmikilli úrkomu yfir háfjöllum næstu tvo daga.

w-blogg020221a

Kortið sýnir uppsafnaða úrkomu næstu daga (í mm). Spáð er að hún verði yfir 300 mm þar sem mest er. Lægðardragið verður nærri því kyrrstætt. Það er líka skrýtið að sjá hina miklu úrkomu sem spáð er yfir Mýrdalsjökli og Öræfajökli - en sáralítilli á láglendi. Hvort rétt er að trúa þessu veit ritstjórinn ekki. Það er talsvert vandamál að austantil í lægðardraginu er líka töluverð úrkoma - en aðeins á örmjóu belti. Blái flekkurinn vestur af landinu sýnir að þetta belti skakast til og frá og þessi spá gerir ráð fyrir því að úrkoman nái til ysta hluta Snæfellsness á aðfaranótt föstudags. Sumar spár hafa jafnvel sent það lengra inn á land. Gerist það mun snjóa talsvert - áhugamenn um snjó fylgjast því með næstu daga - hvort sem þeir eru hlynntir honum eða ekki. Þegar upp er staðið verður stunið - annað hvort af feginleik - eða vonbrigðum - á báða bóga. 

Þetta vakti gamlar minningar (eða þannig). Einhvern tíma fyrir löngu heyrði ritstjórinn af misjafnri snjókomu í Borgarfirði - ekkert eða nánast ekkert snjóaði vestan einhverrar línu um héraðið vestanvert - en mikið austan hennar. Líkur benda til þess að þetta hafi gerst þann 8.febrúar 1947. 

Janúarmánuður það ár var fádæma hlýr, efstur eða næstefstur í janúarhlýindakeppni síðustu 200 ára ásamt nafna sínum hundrað árum áður, 1847. En tíð breyttist mjög með febrúar. Þá tók við langur landnyrðingskafli - sá stóð reyndar þar til snemma í apríl - mikið þráviðri bæði hér á landi og á meginlandi Evrópu þar sem menn bjuggu við sult og seyru svo við þjóðfélagshruni lá - ofan í heimsstyrjöldina sem lagt hafði flest á hliðina - þar á meðal matvælaskapandi landbúnað. Hreinlega ömurlegt ástand. 

En þráviðrið var ekki alveg tilbreytingarlaust hér á landi. Þann 8. gróf einkennilegt lægðardrag um sig við landið suðvestan- og vestanvert.

w-blogg020221b

Hér má sjá veðurkort frá því kl.11 þennan dag. Eindregin sunnanátt er á Stórhöfða en annars austan- og norðaustanátt á landinu. Það snjóar mjög víða - en mjög mismikið. Vestur í Stykkishólmi snjóaði nærri því ekki neitt, um 15 cm snjór kom í Reykjavík og á Síðumúla í Hvítársíðu mældist úrkoman samtala rúmir 30 mm - sem allt var snjór - en nær ekkert snjóaði að sögn vestur á Mýrum. 

Ingibjörg Guðmundsdóttir athugunarmaður í Síðmúla lýsir tíðarfari í febrúar og mars:

Febrúar 1947
Nú er vetrarríki. Mikill snjór. Mjög litlir hagar. Öllum hrossum gefið. Það er frost og kuldi daglega, en glampandi sól og fagurt veður, oft nokkuð hvasst. Við, sem vindrafstöð höfum, köllum að sé góður hleðsluvindur og höfum þá yndislega björt rafljós,þá við vildum láta þau loga allan sólarhringinn.

Marz 1947
Í Marzmánuði var veðrátta yfirleitt góð, en snjór svo mikill, að varla er um jörðina fært. Alla mjólk verður að flytja á klökkum óravegu þaðan, sem lengst er, þangað sem bíllinn kemst. Vegarútur halda aðalbílleiðunum færum, og mörgum sinnum hafa þær verið settar á dalavegina, en brátt hefir skafið í förin hennar aftur og allt ófært á ný. Hagar eru mjög litlir. Öll hross eru á gjöf.

Nær snjólaust var í Stykkishólmi - eins og áður sagði, en á Hamraendum í Miðdölum varð snjódýpt 40 cm. Einnig var mikil úrkoma á Þingvöllum og Írafossi - en mun minni austur í Hreppum. Töluverð úrkoma ver í Vestmannaeyjum, en bæði snjór og krapi, snjódýpt þar mældust 10 cm þegar mest var. 

Það sem olli þessu var veðurlag ekki óskylt því sem við fjölluðum hér um fyrir nokkrum dögum (febrúarbylurinn 1940) - þetta þó ekki jafn illkynja - ekki varð eins hvasst. 

Veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar er svona:

w-blogg020221c

Mikil lægð er suðvestur af Bretlandseyjum, en hæð yfir Grænlandi. Milli þeirra er austanátt - norðaustlæg vestan Íslands - en sjá má lægðardrag við Vesturland. Greiningin nær styrk þess ekki alveg, en samt sjáum við vel hvað er á seyði. 

Uppi í háloftunum er hálfgerð áttleysa - eða væg suðvestanátt.

w-blogg020221d

Öflug fyrirstöðuhæð er við Baffinsland - en grunnt lægðardrag á Grænlandssundi. Þetta er dæmigerð óvissustaða. 

Því er þetta rifjað upp hér að við sitjum nú í svipuðu - bæði gagnvart lægðardraginu sem nú er að verða til á Grænlandshafi (kannski sleppum við alveg við það) - en einnig vegna þess að staðan á lítið að breytast næstu vikuna - sé að marka spár. Varla þarf að taka fram að árið 1947 var enn erfiðara fyrir veðurspámenn að eiga við stöðu af þessu tagi heldur en nú. 

Snjókoman varð hvað mest upp úr miðjum laugardeginum 8. febrúar. Klukkan 22 kvöldið áður hljóðaði veðurspáin svo: „Suðvesturland og Faxaflói: Norðaustan stinningskaldi. Léttskýjað“. Klukkan 23 barst fregn um að farið væri að snjóa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Spáin á miðnætti breyttist því lítillega og hljóðaði svo: „Suðvesturland: Norðaustan- og austan kaldi. Dálítil snjókoma austantil, léttskýjað vestantil. Faxaflói og Breiðafjörður. Norðaustan kaldi. Víðast léttskýjað“. Klukkan 3:30 var sama spá lesin. Klukkan 8 var ekki farið að snjóa í Reykjavík, gerði það skömmu síðar. Kl.8:55 var eftirfarandi spá lesin: „Suðvesturland til Vestfjarða. Norðaustan og austan kaldi. Sumstaðar dálítil snjókoma“. Síðan var talað um dálitla snjókomu það sem eftir lifði dags - þar til kl.22 - þá var skipt yfir í „snjókoma“ (enda hætt að snjóa að mestu). Við skulum hafa í huga að engar tölvuspár var að hafa, engar gervihnattaathuganir eða veðursjár og veðurskeytastöðvar fáar - og sárafáar að næturlagi. Veðurfræðingar þurftu nokkuð harðan skráp til að éta ofan í sig allar vitlausu veðurspárnar - sem voru mun fleiri en nú. Aftur á móti sluppu þeir við langtímaspár - gildistími var aðeins sólarhringur. 

En mjög óvæntur hlutur annar gerðist (mjög óvæntur). Blaðafregnin hér að neðan sýnir hann - laugardagurinn sem átt er við er þessi sami.

w-blogg020221e

Harla óvænt - og sýnir að þrátt fyrir allt hefur verið töluverður munur á bylnum 1940 og því veðri sem hér er fjallað um. 

Að lokum skulum við minnast kyndilmessu sem var í dag. Vísan alkunna um sól og snjó er auðvitað bull - þannig séð - enda er kyndilmessa hengd við jólin í tímatalinu (hreinsunarhátíð Maríu). Þess vegna var hún líka 2.febrúar í gamla stíl - og því á öðrum stað miðað við sólargang - það er frekar hann sem ræður veðri (ef merkidagar segja eitthvað á annað borð) - en ekki kirkjuárið. Kyndilmessa var nær miðjum vetri í gamla stíl - samkvæmt íslenska tímatalinu - þetta er í grunninn miðsvetrarhátíð - svipað og bóndagurinn. Kannski er átrúnaðurinn á daginn eldri en kristni? En öll Evrópa lítur til kyndilmessunnar - og ameríka líka (þeir kalla hana að vísu stundum „groundhog day“. 

Sækja má almennan fróðleik um kyndilmessu í rit Árna Björnssonar og verður ekki um bætt hér - m.a. með tilvitnun í latneskan „spátexta“. Ritstjórinn rakst á dögunum á annan slíkan - og má ljúka þessu með honum:

„Si Sol splendescat Maria purificante, major erit glacies post festum quam fuit ante“. Skíni sól á hreinsunarhátíð Maríu (kyndilmessu) verður meiri ís eftir hátíð en fyrir hana. Thomas Browne [Pseudodoxia, Sixth Book, Chap.IV, 1672]

Æ-já. 


Af janúar

Meðan við bíðum eftir lokatölum frá Veðurstofunni skulum við líta aðeins á háloftavikakort mánaðarins. Það er 500 hPa-flöturinn eins og venjulega.

w-blogg010221a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik sýnd í lit, neikvæð vik eru bláleit, en þau jákvæðu brún og svo bleik þar sem þau eru mest (ekki alltaf sem við sjáum þann lit á korti sem þessu). Kortið segir ekki síst af fjarveru kuldapollsins Stóra-Bola úr hefðbundnu bæli vestur við Baffinsland. Af vikamynstrinu má ráða að norðlægar áttir hafa verið mun algengari en að jafnaði í háloftum að þessu sinni - en hæðarlínurnar segja okkur að meðalvindur hefur verið úr vestnorðvestri í miðju veðrahvolfi - og Ísland því í skjóli Grænlands og nýtur niðurstreymis austan þess. Neðar ríkir síðan eindregin norðanátt sem borið hefur úrkomu að landinu norðaustanverðu. Annars er algengast í stöðu sem þessari að úrkoma sé ekki mjög mikil þar heldur. 

Við getum auðveldlega leitað að ættingjum þessa janúarmánaðar í fortíðinni - með hjálp endurgreininga - þær eru nægilega nákvæmar til að skila ættareinkennum allvel. Sá almanaksbróðir sem er greinilega skyldastur er janúar 1941. Lítum á vikakort hans.

w-blogg010221b

Ættarsvipurinn leynir sér ekki. Textahnotskurn ritstjóra hungurdiska (sem hann hefur í þessu tilviki nappað úr Veðráttunni) segir: „Óvenju stillt, úrkomulítið og bjart veður. Fé gekk mikið úti. Gæftir góðar. Færð mjög góð. Hiti ekki fjarri meðallagi“. - Við megum taka eftir því síðasta - hiti ekki fjarri meðallagi, mánuðurinn var þó á landsvísu -0,2 stigum kaldari en sá nýliðni. Greinilega önnur hugarviðmið (eins og fjallað var um á hungurdiskum í gær). 

Við lítum líka á þykktarvikakortið. 

w-blogg010221g

Jafnhæðarlínur eru heildregnar sem fyrr, jafnþykktarlínur eru strikaðar, en þykktarvik sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og var nærri meðallagi áranna 1981 til 2010 hér við land - lítillega neðan þess um landið austanvert. Mikil hlýindi voru ríkjandi vestan Grænlands - mesta vik sem við sjáum er 147 metrar - það þýðir að hiti hefur verið um 7 stig ofan meðallags. Kalt var hins vegar við Norðursjó - mesta neikvæða vikið er um -65 metrar - hiti um -3 stigum neðan meðallags. Á samskonar korti fyrir janúar 1941 eru jákvæðu vikin vestan Grænlands svipuð og nú eða litlu minni, en neikvæða vikið yfir Skandinavíu miklu meira heldur en nú - enda var veturinn 1940 til 1941 einn af þremur hryllingsvetrum í röð á þeim slóðum (sá í miðið). 

Hér á eftir er meiri útkjálkatexti - fyrir fáa og því þvælnari sem á líður.

Samband hita og þykktar er oftast nokkuð gott hér á landi - ekki síst á vetrum. Til gamans skulum við líta á tengsl meðalhita janúarmánaðar í byggðum landsins og þykktarinnar. 

w-blogg010221d

Athugunin nær til janúarmánaða 1949 til 2021. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er á landinu. Bláa örin bendir á janúar 2021. Hann er á sínum stað, meðalhiti um -1,6 stig og þykktin um 5220 metrar (522 dekametrar). Við sjáum að janúar 1971 hefur verið talsvert kaldari en vænta mátti, meðalhiti þá var -4,4 stig, en þykktin hefði viljað hafa hann um -1,5. Sum okkar muna enn þennan mánuð - hann var afskaplega tíðindalaus - en á þó lægsta lágmarkshita sem mælst hefur í Reykjavík eftir 1918. Ætli eindregin hitahvörf hafi ekki verið yfir landinu? Staðan var öfug árið 1956, þá var þykktin mjög lítil - meðalhiti hefði átt að vara um -5,3 stig, en var -3,9 stig. Loft hefur trúlega blandast enn betur heldur en venjulega. Það má taka eftir því að hver dekametri í þykkt samsvarar tæpum 0,4°C, - ætti að vera 0,5°C ef fullt samband væri á milli. Köldu mánuðirnir 1979, 1959 og 1984 eru um það bil á réttum stað. 

En róum nú aðeins dýpra. Ritstjórinn hefur oft rætt um þáttun þrýsti- og háloftavinda í vestan- og sunnanþætti (eða austan- og norðanþætti). Hægt er að gera það á grunni beinna vindmælinga, en líka með því að líta á þrýstisviðið - eða hæðarsvið háloftaflata. Sé þetta gert má finna samband vindátta og hita - ekki síst ef við bætum hæð þrýstiflata við í púkkið. Hæðin segir okkur talsvert um það hvaðan loftið er upprunnið. Liggi þrýstiflötur hátt eru líkur á því að loftið undir honum sé af suðrænum uppruna (málið er þó talsvert flóknari fyrir neðstu fletina) - en liggi hann lágt sé uppruninn norrænn. Það getur því komið fyrir að loft sé af suðrænum uppruna þótt norðanátt ríki við jörð (og öfugt). 

w-blogg010221e

Myndin sýnir samband á milli þriggja háloftaþátta (vestanáttar, sunnanáttar og hæðar 500 hPa-flatarins í janúar) annars vegar og meðalhita í byggðum landsins. Því er þannig háttað að því sterkari sem vestanáttin er því kaldara er í veðri, því meiri sem sunnanáttin er því hlýrra er (sunnanþátturinn er reyndar meira en þrisvar sinnum áhrifameiri heldur en vestanþátturinn). Því hærra sem 500 hPa-flöturinn liggur því hlýrra er í veðri (að jafnaði). 

Við sjáum að fylgnistuðullinn er glettilega góður, nærri því 0,8 og myndu tölfræðingar sumir segja að við höfum þar með „skýrt“ hátt í 2/3-hluta breytileika hitans frá einum janúarmánuði til annars. Bláa örin á myndinni bendir á nýliðinn janúarmánuð (2021) - hann reynist lítillega hlýrri en vænta má af vindáttum og hæð 500 hPa-flatarins. Sjá má að ekki gengur heldur vel hér með janúar 1971 - hann var talsvert kaldari heldur en vindáttir segja til um. Við gætum (með kúnstum) lagað þetta samband lítilsháttar (en það yrði ætíð á kostnað einhvers annars) - sumir myndu t.d. hiklaust leggja bogna aðfallslínu í gegnum punktaþyrpinguna - en það vill ritstjóri hungurdiska ekki gera - nema að því fylgi sérstakur rökstuðningur (hann er svosem til). Janúar 1979 var líka kaldari heldur en vindáttir segja til um, en betur tekst hér til að giska á hita í janúar 1956 heldur en á hinni myndinni. 

Sé rýnt í myndina kemur í ljós að janúarmánuðir þessarar aldar hafa margir hverjir tilhneigingu til að liggja ofarlega í þyrpingunni. Það hefur verið hlýrra heldur en „efni standa til“. Þeir sem halda fram hlýnun jarðar umfram aðrar skýringar velja hana kannski - en það er rétt að hafa líka í huga að gögnin eru e.t.v. ekki alveg einsleit allan tímann. Við skulum ekki fara of djúpt í slíkar vangaveltur. Lítum samt á mynd sem sýnir hvernig munur á reiknuðu og mældu (svokallaðri reikni- eða aðfallsleif) hefur þróast í gegnum tíðina.

w-blogg010221f

Jú, leifin á þessari öld hefur yfirleitt verið jákvæð - það hefur verið hlýrra heldur en í samskonar vindafari fyrir aldamót - munar nærri 1 stigi að jafnaði. Við vitum reyndar að norðanáttir hafa verið mun hlýrri heldur en áður var - kannski hefur þetta eitthvað með það að gera. 

Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 2398
  • Frá upphafi: 2410700

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2112
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband