Bloggfærslur mánaðarins, október 2020

Af árinu 1853

Árið 1853 hlaut nokkuð misjöfn eftirmæli, flestum þótti tíð þó hagstæð þegar á heildina er litið, oft hafi litið illa út en ræst úr áður en illa fór. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,1 stig, -0,4 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhiti 3,9 stig, -0,5 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan. Á Akureyri var meðalhiti 2,8 stig. Allir mánuðirnir júní til september teljast hlýir, ekki þó sérlega. Þeim hlýindum virðist þó hafa verið nokkuð misskipt, hlýrra var að tiltölu fyrir norðan heldur en syðra, sumarið var fremur kalt í Reykjavík (um hita á Austurlandi vitum við ekki að svo stöddu). Desember var einnig hlýr. Október var sérlega kaldur og sömuleiðis var einnig kalt í janúar og febrúar.

ar_1853t

Einn dagur var sérlega kaldur í Reykjavík, 29.júní, en enginn dagur sérlega hlýr. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir fimm, allir í röð, 17. til 21.janúar. Þrír dagar voru sérlega hlýir í Stykkishólmi, 13.júní og 6. og 7.september. Síðastnefnda daginn mældist 19,8 stiga hiti á Akureyri (engin hámarksmæling þó). 

Úrkoma í Reykjavík mældist 956 mm. Hún var óvenjumikil í janúar, september, nóvember og desember, en fremur þurrt var í febrúar og október.

ar_1853p

Loftþrýstingur var að meðaltali sérlega hár í febrúar og desember og einnig hár í ágúst. Aftur á móti var hann sérlega lágur í nóvember og janúar. Ágúst var rólegur mánuður. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 956,7 hPa þann 21.október en sá hæsti á Akureyri 10.febrúar, 1043,9 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.  

Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1853 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:

Árið 1853 var enn góð árferð, eins og að undanförnu. Árið gekk að sönnu nokkuð harðindalega í garð með frosti og fannkomu. Fyrir haga tók fyrir þorra og sumstaðar fyrri, og hélst jarðbann það víða fram undir góulok; breytti þá til þíðviðra, svo að hagar komu upp; kólnaði þó aftur með einmánuði, og héldust kuldar þeir fram yfir hvítasunnu. Eftir það voru þurrkar tíðir, en sjaldan vætur. Eftir Jónsmessu gjörði norðanhret mikið með snjó, sem olli því, að búsmali nytkaðist mjög illa, og allvíða týndust unglömb að mun, því hretið dundi á um fráfærutímann. Eftir þingmaríumessu [2.júlí] komu hlý staðviðri og hélst þaðan af jafnan góð veðrátta fram yfir höfuðdag. Sökum vorkuldanna og Jónsmessuhretsins spruttu tún ei betur en í meðallagi; aftur urðu úthagar betri. Það bætti og líka mikið um, að tún tóku þá hvað best að spretta er búið var að slá þau, svo nokkuð þeirra var allvíða tvíslegið, og sumstaðar þríslegið. Þó óþerrar væru nokkrir framanaf slættinum, urðu þeir óvíða vestra að miklum baga, svo heyafli bænda varð í góðu lagi, og urðu þó heyannirnar fremur afsleppar, því þau hey, er seinast voru slegin, hröktust mjög, og fóru sumstaðar undir snjóa, sem ei leystu upp af þeim aftur. Haustið var fremur harðviðrasamt og ógæftir miklar til sjóar. Fjárskurður varð nú laklegur mjög, einkum á mör, svo menn mundu ei jafnrýran. Þegar um veturnætur komu fannalög mikil, og var veðrátta ill framyfir miðja jólaföstu, svo allvíða lagðist vetur á þegar eftir allraheilagramessu með köfuldum og hagaskorti; en frost voru varla teljandi. Hálfum mánuði fyrir árslokin kom bati góður, svo víða komu upp hagar aftur.

Afli varð víða allgóður; en í Dritvík hálfu minni en best hafði verið hin árin. Steinbítsafli vestur um fjörð varð og mjög rýr; aftur á móti fiskaðist vel bæði þorskur og hákarl. Þá aflaðist og vel í Strandasýslu allt sumarið, haustið og frameftir vetrinum, einkum í Steingrímsfirði. Undir Jökli urðu bestu hlutir ...

[Þann 15.janúar] fórst bátur á leið úr Fagurey undir Jökul með 4 mönnum, sem týndust allir; formaðurinn hét Jón Jóhannsson. ... [Þann 24.júlí] týndust 4 menn af báti á heimleið úr Svefneyjum til Bjarneyja. Maður, er Gunnar hét, týndist af báti í Jökulfjörðum. Það var og í Skálavík, að börn léku sér í fjöru niðri, brotnaði þar þá hafísjaki, og varð eitt barnanna undir honum og beið bana af. Í ofsaveðri því, er gjörði 22. september, rak kaupskip 50 lesta á land á Reykjarfirði, og brotnaði svo, að við uppboð var selt skipið og farmurinn, sem á því var. Miklu af farminum varð bjargað, en ýmsar fóru sögur af uppboðsþingi þessu, að eigi hefði því sem skipulegast hagað verið; er svo sagt, að skiphróið með öllu, nema seglunum, en með miklu í af trjáviði, 50 tunnum brennivíns, sykri og öðru, sem dulið var fyrir þingheyendum, hefði verið selt fyrir 270 rdl., en þótti þó, þá er aðgætt var, allt að 4000 rdl. virði. Í ofviðri því, er hér var getið, týndust og 2 fiskiskútur Ísfirðinga; var önnur þeirra nýlega keypt frá Hafnarfirði, og áttu þeir hana saman Paulsen kaupmaður í Hafnarfirði, Ásgeir, borgari á Ísafirði, Ásgeirsson prófasts Jónssonar í Holti, og formaðurinn Bjarni Össurarson, er drukknaði á henni. Hin skútan var þilbátur, er „Jóhannes" hét; áttu þeir hann Dýrfirðingarnir, formaðurinn hét Guðmundur Guðmundsson úr Dýrafirði. Á skútum þessum drukknuðu alls 12 menn.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Til þorra stillt frostveður, fannkomulítið og jarðbann fyrir fé. Með þorra gerði 4 smáblota. Komu þá hross á gjöf hér um sveitir, en jörð hélst í lágsveitum norðan Skarð. Fyrri part vetrar kom einn bloti um 13 vikur, 30. nóv. Jarðleysi hélst enn lengi; oftar stillt veður og gaddlítið. Í þriðju viku góu sólhlýindi, tók vel í mót sólu. Aftur 16.-25. mars frostamikið; þá á föstudag langa [25.mars] lognsnjór.

Þann 21.febrúar segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði frá hafís útifyrir. 

Norðri segir í ódagsettu febrúarblaði:

Veðurátta hafði verið allgóð um Suðurland, nema nokkuð frostasöm. ... Í Skaftafellssýslu varð sumstaðar haglaust með jólaföstu og á Síðunni með nýári, og víða fyrir austan fjall á jólum. Blota hafði gjört í miðjum næstliðnum mánuði (janúar), og hafði þá komið upp jörð undir Eyjafjöllum og Mýrdal. En aftur á móti hafði hann hleypt öllu í gadd um Mýrar og Borgarfjörð og í Kjósar- og Gullbringusýslu. Fannfergja er sögð og jarðbönn á Vesturlandi. Í miðjum janúar, hafði komið nokkur afli suður í Höfnum og Vogum.

Ingólfur segir frá þann 12.febrúar - og lýsir fyrst janúarmánuði:

[Janúar] Þennan mánuð hefur hér á vesturkjálka Sunnlendingafjórðungs verið vetrarfar meira, en menn hafa átt að venjast um mörg undanfarin ár; hefur snjókoma verið töluverð, og þess á milli frosthörkur og spilliblotar. Líkt þessu er að heyra um vetrarfar úr öðrum fjórðungum, nema hvað harðindin hafa byrjað þar miklu fyrr á vetrinum, en hér sunnanlands, því þar komu þau ekki að kalla má fyrr enn með nýári. Það mun þó mega fullyrða, að eigi hefur vetrarfarið gengið jafnt yfir allar sveitir, því þær eru sumar, sem til þessa tíma hafa fyrir litlum, eða engum harðindum orðið, að minnsta kosti hafa þær fréttir borist úr vesturhluta Borgarfjarðar. Vér höfum fengið fréttir nýlega bæði að norðan og úr austursveitum, og tala þær helst um harðindi þessi.

Enn má heita að vetrarfar sé allt hið sama og verið hefur að undanförnu. Hér eru nú helst á orði hafðar slysfarir þær, sem orðið hafa austan fjalls: hefur einn maður orðið úti á Rangárvöllum, 2 menn i Flóanum, og maður í Ölvesi dó í höndum samferðamanna sinna, áður þeir gátu komið honum til byggða. Þar að auki hefur nokkra skammkalið svo, að sumir hafa þegar dáið, en sumum er varla talið lífvænt.

Ingólfur lýsir þann 26.febrúar tíðarfari í mánuðinum til þessa:

Þessi mánuður fer yfir höfuð að tala líkan vitnisburð hjá oss, og fyrirrennari hans; því þó veðrátta hafi verið miklu mildari seinni hluta hans, þá hefur hún samt eigi getað unnið neina bót á jarðbönnunum, sem víðast voru komin um allt land og haldast við enn í dag. — Nú eru póstarnir komnir að norðan og vestan, og menn og bréf koma að úr öllum áttum. Harðindin eru hin helstu tíðindi; byrjuðu þau sumstaðar þegar með vetri, víðast hvar bæði nyrðra og vestra þegar hálfur mánuður var af vetri. — Slysfarir heyrast og nokkrar auk þeirra, sem áður er getið. Skip fórst með 4 mönnum undir Jökli í þessum mánuði. Kvenmaður varð úti í Skagafirði; hún var á ferð með manni; þau villtust bæði, fór hann þá að leita fyrir sér og bjó áður um stúlkuna, en gat eigi fundið hana aftur. Unglingspiltur varð og úti milli bæja í Vatnsdal i Húnavatnssýslu. ... Fiskiafli er í veiðistöðunum hér fyrir sunnan, og sækja Nesjamenn þangað fisk enn að nýju.

Þjóðólfur segir almennar tíðarfréttir í pistli 2.mars:

Þegar seinast spurðist (um 20. febrúar) voru svo að segja allstaðar jarðbönn eystra, austur að Skeiðarársandi. Eins er að frétta vestan- og norðanlands. Úr Mýra- Og Borgarfjarðarsýslum er sagt að alltaf hafi haldist hagar að nokkru, einkum fyrir hross. En nú virðist æskilegur bati að vera kominn.

Ingólfur segir 18.mars:

Þá er komið í seinustu viku góu, og verður ekki annað um veðráttufar hennar sagt, enn að það hafi verið að minnsta kosti hér á Suðurlandi allmjúkt og blítt. Þó eru varla líkur til, að harðindunum sé farið að létta af í þeim héruðum landsins, þar er jarðbönnin hafa verið mest og staðið lengst; en vér fögnum nú bót á þeim úr þessu, því veðurbatinn sýnist verða æ eðlilegri. — Frá sjónum getur nú Ingólfur borið góðar fréttir upp í sveitirnar, og glatt konur og kærustur útróðrarmannanna, því út lítur fyrir góðan afla á Suðurlandi.

Í marsblaði Norðra (ódagsett) eru fréttir af tíð, aflabrögðum og slysförum (við styttum þær nokkuð hér):

Veðráttufarið hafði, frá því er seinast fréttist af Suðurlandi, ... undan, verið allgott, einkum síðan á leið og linnti hvass- og harðviðrum, og víða verið þar jörð fyrir útigangspening, einkum í Mýra- og Borgarfjarðar sýslum. Þegar seinast fréttist að austan, hafði víða verið jarðbönn, og þá sjaldan gaf að róa, hafði varla orðið fiskvart um Innnes; þar á móti hafði ætíð fiskast nokkuð, þá róið varð frá Suðurnesjum, ... Af öllum útkjálkum landsins vestra, nyrðra og eystra, er að frétta fannfergju og jarðbannir; aftur víða til sveita komin upp nokkur jörð, einkum í Fljótsdal, á Jökuldal, í Uppsveit, í Kelduhverfi, við Mývatn, vestanvert í Eyjafirði, og í Hörgárdal, þó best í Skagafirði, og nokkur jörð hér og hvar um Húnavatnssýslu. Margir eru sagðir komnir að þrotum með heyföng sín, og skepnur orðnar dregnar og farnar að megrast. Sumir hafa og gefið peningi sínum korn og önnur matvæli. Það vofir því yfir, batni ekki því betur og fyrr, minni og meiri fellir á peningi. Hreindýr hafa sótt venju framar í vetur til byggða, helst út á Sléttu og að Mývatni; það hafa því á Sléttunni verið unnin 100 hreindýr, og við Mývatn 50; og þar að auki er mælt, að þau hafi fyrir hungurs sakir fækkað mjög. Hafís rak hér að Norðurlandi, seinast í næstliðnum mánuði (febrúar), einkum fyrir Sléttu, og með landi fram til Sigluness, allt vestur um Skaga, svo að víða varð ekki eygt yfir hann af fjöllum. Engin höpp fluttust með honum, hvorki hvalur né viður. Nokkru síðar hvarf ís þessi allur úr augsýn.

Mann hafði kalið í vetur á Mýrdalssandi, svo að af varð að taka fyrir víst aðra höndina. Í Flóanum er sagt, að hafi farist 2 menn, og 2 úr Ölvesi, og aðra kalið til stórskemmda. Í Haga á Barðaströnd, er sagt, að bændurnir þar misst hafi allt fé sitt í sjóinn, en hvernig, hefur enn ekki frést, og höfðu nokkrir þar í sýslunni bætt þeim skaðann. ... Skiptapi hafði orðið með 6 mönnum á Barðaströnd um miðsvetrarleytið. Unglingsmaður hafði orðið úti á Fjarðarheiði, hér á deginum; hann hafði verið í mjög skjóllitlum klæðum. Annar handleggsbrotnaði í sama mund og á sömu heiði; en honum varð bjargað. Í haust sem leið, fóru 2 menn yfir svonefnt Hestskarð, sem er millum Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, með kindur; vildi þá svo til, þegar upp á skarðið komu, að 1 eða fleiri af kindunum hlupu út úr rekstrinum; það hljóp því annar maðurinn fyrir þær; en í sama bili verður honum litið við, hvar hann sér dauðan mann liggja; hann kallar til samferðamanns síns; þeir fara svo að hreyfa við líkinu; var það þá sem fölskvi eða hismi, þá á því var tekið; en þó voru ýmsir partar úr fötunum lítt fúnir. Þegar menn þessir komu til bæja, sögðu þeir hvað til tíðinda hafði orðið í ferð þeirra; uppgötvaðist þá, að unglingsmaður hefði í október 1833 orðið úti á leið þessari, en aldrei fundist.

Þjóðólfur segir þann 16.apríl:

Með mönnum, sem nýkomnir eru að vestan og norðan úr Húnavatnssýslu hafa litlar fréttir borist. Hagasnöp nokkur eru nú komin víðast fyrir vestan, og hefir þar verið mjög misskipt vetrarfari, svo að allt að 20 vikna gjöf á fé hefir verið sumstaðar, en aftur á öðrum stöðum aldrei gefið fullorðnu fé, t.d. í kringum Patreksfjörð. Á 3. í páskum [29.mars] var engi hláka né verulegur bati kominn í Húnavatnssýslu, og þá því síður lengra norður, eftir því sem að líkindum ræður. Er í munnmælum, að margir búendur í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu hafi verið teknir að skera niður nautpening sinn og fénað, sakir heyjaþrota. Fyrir austan fjall eru alstaðar komnir upp góðir hagar, allt austur að Mýrdalssandi.

Ingólfur segir af árferði í pistli þann 12.apríl:

Það er nú næstum mánuður síðan vér drápum á þetta atriði í Ingólfi, þá er 3 vikur voru af góu. Veðurreyndin hefur haldist lík því, sem þá var sagt, allgóð hér á Suðurlandi; hafa oftast verið kælur, þó hægar, með töluverðu næturfrosti; hefur nú viðrað svo fram í miðjan einmánuð. þess vegna er hætt við, að seint hafi orðið um bata í þeim sveitum, þar sem jökullinn var mestur; en vér höfum engar vissar fregnir þaðan fengið, og getum því ekki að svo komnu sagt, hversu úr hefur ráðist. Af Vesturlandi höfum vér fregnað svo mikið, að flestir hafa staðist harðindin, og eigi mun vetrarríkið hafa unnið þar neitt verulegt tjón velmegun manna. Bestu aflabrögð hafa verið undir Jökli, eru þar taldir hlutir almennt 500 til 800 frá nýári til páska. Á Suðurlandi má árferði heita yfir höfuð að tala æskilegt bæði til sjós og sveita. Harðindin voru þar aldrei nema svo sem 6 vikna skorpa, þar sem þau voru ríkust; og svo munu víðast hvar nægar jarðir hafa verið upp komnar þegar á páskum [27.mars]. Þegar litið er hér á aflabrögð um þessa vertíð, mega þan víða heita góð, sumstaðar í betra lagi, en sumstaðar líka sáralítil, svo næst gengur fiskileysi, eins og verið hefur til þessa í Njarðvíkum og Vogum. ... Frá Norðurlandi getum vér ekkert sagt með vissu; en ískyggilegar fregnir berast þaðan um harðindi og felli í sumum sveitum.

Norðri segir í ódagsettu aprílblaði:

Veðráttufarið hefur um næstliðna 3 mánuði, fremur mátt heita kyrrt og úrkomulítið, en aftur mjög frostasamt og kalt; enda er enn víðast mikill jökull á jörðu, og í sumum byggðum baldjökull yfir allt. Margir höfðu á útsveitunum í Norðurmúlasýslu verið búnir öndverðlega í þessum mánuði, að reka af sér sauðfé sitt og hross, bæði frammi í Fljótsdal og eins í Jökuldal, svo að þúsundum skipti af sauðfé og tugum af hrossum. Einnig hefur verið sagt, að nokkrir útsveitamenn í Skagafjarðarsýslu hafi rekið fram í miðsveitirnar þar sauði sína og hross. Í almælum er nú að fleiri en færri muni þegar komnir á nástrá með pening sinn, og hjá einstökum farið að hrökkva af. Á Vesturlandi kvað jörð vera að nokkru uppkomin hér og hvar; ... Á Barðaströnd aflaðist næstliðið haust 280 tunnur af jarðeplum; og í Skriðuhrepp í Eyjafjarðarsýslu 150 tunnur. Víðar höfum vér enn ekki fengið að vita um jarðeplatekju hið næstliðna sumar ...

Í sama tölublaði Norðra er alllöng grein eftir Jón Hjaltalín: „Fáeinar nýtar athugasemdir um barómetrið (loftþyngdarmælirinn) sem veðurspá“. Þar eru raktar reglur kenndar við Fitzroy aðmírál sem síðar varð fyrsti forstjóri bresku veðurstofunnar. Minnst er á þessar reglur í pistli hungurdiska: Spár með hjálp loftvogar og hitamælis.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir páska tók upp. 8.-16. apríl altók upp í sveitum, án þess hláku gerði. Eftir sumarmál mikil næturfrost. 4. maí sást litka tún. 13. maí kom fyrst fjallbyggða- og heiðarleysing og varð langur og þungur gjafatími. Vorið var þurrt, hretalaust, oftar næturfrost.

Þann 2.maí greinir Þorleifur í Hvammi frá jarðskjálfta kl. 3 1/2. Aðfaranótt 11.apríl er getið um jarðskjálfta á Hvanneyri í Siglufirði. 

Ingólfur segir þann 10.maí:

Til þessa hefur hér á Suðurlandi haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hefur, og út lítur fyrir að eftir sumarmálin hafi gjört illt kast fyrir norðan, sem enn eigi er til spurt hvern enda haft hefur.

Norðri segir í ódagsettu maítölublaði:

Framan af mánuði þessum gengu hér nyrðra, og hvað til fréttist, hörkur og hríðar, og voru þá flestir komnir að þrotum með heyföng sín, og ekki annað sýnna, en skepnur mundu horfalla hrönnum saman. Fannfergjan var enn víða hvar dæmafá, og margir höfðu rekið sauðfé sitt og hross þangað, er jörð var helst upp komin. Allri venju framar var og bjargarskortur meðal fólks, og einkum smjörekla, svo að fáir muna slíka, og mun því ekki aðeins valda gagnsemisbrestur af kúm næstliðinn vetur, heldur og það ekki minna, hvað eyðist af rjóma til kaffidrykkjunnar. Flestir verslunarstaðir hér nyrðra, munu og hafa verið matvörulitlir og lausir, og olli því nokkuð það, að sumstaðar hafði kornið verið tekið til að gefa það skepnunum, auk hins sem margír, er fiskráð höfðu, gáfu hann peningi sínum. Og hefði ekki forsjóninni þóknast að veita oss hina blíðustu og hagstæðustu veðuráttu, gróður og grasvöxt síðan fyrir næstliðna hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þenna dag, mundi skepnudauði og hallæri, flestra von fyrri, geisað hafa víða yfir landið. ... Það er mjög kvörtun um það, einkum í Eyjafirði, að grasmaðkur (tólffótungur) sé kominn svo mikill hér og hvar í tún og úthaga þar sem vatn ekki kemst að, að gróður allur og enda grasvöxtur sé í burtu numinn, og peningur flýi pláss þessi.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Þess hefur og gleymst að geta, að hinn 21. dag maímánaðar seinast féllu skriður úr fjallinu ofan Garðsvík og Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd, sem liggur austanvert við innri hluta Eyjafjarðar, og vita menn ekki til, að þar hafi nokkru sinni áður fallið skriður; þær tóku töluvert af bithaga; ein þeirra var og nær 50 föðmum á breidd, og spilltu mjög engi á Sveinbjarnargerði; aðeins eitt trippi fórst undir skriðuföllum þessum.

Ingólfur segir fréttir af árferði þann 16.júní:

Vér drápum seinast á árferði hér sunnanlands rétt fyrir [vertíðar]lokin, og gátum vér þess þá, að til þess tíma hefði haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hafði að undanförnu, með sífelldri norðanátt og næturfrosti. En strax eftir lokin sneri veðrátta sér til gagnstæðrar áttar, svo viðrað hefur nú kalsa af suðri og krapaskúrum síðan á hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þennan dag. — Aflabrögð hafa hér á Innnesjum verið með minnsta móti þessa vorvertíð; en vel hefur fiskast á lóðir í veiðistöðunum undir Vogastapa, og má það verða nokkur bót fyrir fiskileysið, sem þar var í vetur. — Bréf úr Snæfellsnessýslu frá 12. maí segir: „Vorið frá sumarmálum og hingað að hefur verið kalt, skakviðrasamt og gróðurlaust, skepnuhöld slæm og pest í fénu, aflalaust að kalla við Hellna, á Stapa og fyrir allri Staðarsveit". — Bréf úr Múlasýslu syðri frá 21.apríl segir: „Tíðarfar hefur verið svo, að einstök harðindi hafa verið síðan fyrir jólaföstu og það til páska [27.mars]; þá fór að batna hér í sumum sveitum, en sumstaðar er lítil eða engin jörð enn þá upp komin, því það setti hér niður svo mikið snjókyngi, að menn muna eigi slíkt, og lítur nú helst út fyrir fénaðarfellir nokkurn, einkum ef illa vorar, því almennt heyleysi er hér um sýslu, svo enginn má heita hjálplegur, en einstaka menn sér bjargandi; litt er að frétta yfir höfuð úr Norðurlandi".

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í miðjum júní voru fjöll fær. Eftir Jónsmessu norðanstormur og kuldi. Með júlí þurrkar, en 8.-14. gott grasveður og varð snemmgróið, en þó í minna lagi. Sláttur byrjaði í miðjum júlí. Gafst þá hagstætt veður, þó þótti þoku og óþerrasamt til fjallbyggða. Frá 9. ágúst til 13. sept. sífelldir þurrkar og gekk seint sláttur á þurrlendi, með því graslítið var, en vel heyjaðist á flóum og votengi, sem nú var allt að kalla þurrt. Í september, einkum 3., 4., 6., 8., og 9., mjög hvasst af suðri, þar eftir rekjur. Útsynningur 17. sept., mátti ná heyi inn, en ekki að skaðlitlu síðar. Á mánudag 19. sept. í göngum rak niður lognfönn mikla á útheiðum og fimmtudag [22.september] eitthvert mesta norðan-ofsaveður með stórrigning. Nóttina og daginn eftir sama ofviðri með slettingshríð, svo fannir lagði miklar. Lögðu Svínvetningar þá með Vatnsdalssafn út fyrir og náðu með miklum mannafla og besta fylgi daglangt á vatnsbakkann hjá Mosfelli, sem þá var auður. Heiðar og fjöll urðu ófær. Nokkrar kindur fórust af norðansöfnum frá Stafnsrétt, sem yfirgefin voru á fjallinu. Enginn mundi slíkt illviðri og ófærð á fjallbyggðum á þeim tíma, ásamt hungur og hrakning á réttafé. Sauðfjárrekstrar tepptust að öllu frá Stafns- og Kúluréttum, en kaupafólk var komið suður áður. Úr vestursýslu komst sumt af því í mesta fár, en fjárrekstrar komu seinna. Hey, er úti var, fórst að mestu og ást upp yfir allar sveitir, því aldrei tók snjóinn upp, en aðeins kom snöp til fjallbyggða, Sæmundarhlíð og Efribyggð. Í lágsveitum var hey nokkuð upp kraflað 5.-8. okt. Á Vatnsnesi og fram Miðfjörð, á Ströndinni, kring Skaga, Reykjaströnd og Hegranesi kom lítil fönn, en veðurofsinn sami. Engum torfverkum varð við komið.

Norðri segir í ódagsettu júníblaði:

Veðráttufarið hefur dag eftir dag, þenna mánuð til hins 25. verið hverjum degi blíðara og betra, og úrkomur endrum og sinnum, svo að grasvöxtur mun víðast hvar vera orðinn um þenna tíma með besta móti; en nú seinustu dagana af mánuði þessum, gekk veðráttufarið til landnorðurs, með hvassviðrum, kulda, éljagangi og hríð til fjalla, svo þar gjörði nokkurn snjó. Yfir mánuð þenna hefur mjög lítið fiskast, nema á Húnaflóa var sagður fyrir skemmstu mikill afli. ... Fuglatekja er sögð mikil við Drangey, einkum hjá nokkrum þar.

Ingólfur segir 2.júlí:

Kalsa- og vætuveðrátta sú, sem vér síðast gátum um að verið hefði hér á Suðurlandi fram yfir miðjan júnímánuð, hélst til sólstaða. Með þeim komu eðlileg hlýindi og þurrviðri. — Vér höfum nú úr flestum héruðum landsins fengið þær fregnir, sem segja léttari og betri afleiðingar vetrarins, enn í raun og veru leit út fyrir. Eftir því sem menn segja, þá hefir veðrátta á Norðurlandi verið betri síðan á hvítasunnu en hér á Suðurlandi; kalsi og vætur hafa þar verið minni, enda er gróður sagður þaðan betri en hér.

Norðri segir frá í júlí:

[16.] Sunnanlands hafði veðráttufarið í vor og allt fram í júnímánuð verið rosa- og óþerrasamt, sem tálmaði góðri verkun á fiski og ull, og eins því, að eldiviður hirtist vel. Fiskiafli varð víða hvar allgóður; og nokkrir höfðu fengið full 12 hundruð, en yfir höfuð var meiri hluti fiskjarins smár og ýsa. Skepnuhöldin urðu þar allvíðast góð og heilbrigði var manna á meðal. Á Vesturlandi voru harðindin víta hvar hin sömu og hér nyrðra og eystra, en heybirgðir og skepnuhöld betri; fiskiafli hinn besti í vetur og allt til páska, ... Á Austurlandi hafði harðindunum algjörlega linnt um hvítasunnu, og hefðu þau staðið þar viku lengur, er mælt að þar hefðu víða orðið skepnur aldauða, og búið var að reka af útsveitum nær því 4000 fjár, og hátt á annað hundrað hross fram í Fljótsdal, Fellin og upp á Jökuldal, sem flest, ef ekki allt, var hýst og gefið hey. Það var og í ráði að reka millum 30 og 40 kýr upp í Fljótsdal utan úr Hjaltastaðaþinghá, og ætlaði stúdent og alþingismaður G. Vigfússon að taka 12, en vegna snjókyngjunnar varð þeim ekki komið, því ekki varð farið bæja á millum nema á skíðum. — Frá Reyðarfirði með sjó fram og allt suður í Hornafjörð, er sagt að hafi orðið ærinn fellir af sauðfé, bæði af því, hvað féð var orðið magurt og langdregið, en þó einkum vegna fjársýkinnar er þar eins og víðar, nemur ár hvert meira og minna burtu af fjárstofni manna. Horfur á grasvexti í besta lagi, einkum á deiglendri jörðu; en í móum og harðvelli grasmaðkur, ýmist meiri eða minni, og víða hvar mjög mikið mein að honum, eins og hér á Norðurlandi, hvar hann ollað hefur stórskemmdum í gróðri og grasvexti, og sumstaðar málnytubresti.

[31.] Veðráttufarið hefir seinni hluta mánaðar þessa verið gott, en fremur óþerrasamt, og nokkra daga landnyrðingur með ákafri rigningu.

Ingólfur segir 5.ágúst:

Til júlímánaðarloka hefur hér á Suðurlandi haldist sú hin góða og hagstæða veðurátta, sem vér áður gátum um að byrjað hefði með sólstöðum. Viða heyrast kvartanir um það, að grasvöxtur sé með minna, og sumstaðar jafnvel með minnsta móti; og er það eðlileg afleiðing kalsa þess, sem hélst fram eftir öllu vori, og svo þurrviðranna og sólarbakstursins, sem þá tók við. Aftur hefur nýting verið hin æskilegasta það sem af er.

Þjóðólfur segir 20.ágúst:

Úr héruðunum fjær og nær er sagður grasvöxtur í lakara lagi, helst til allra uppsveita og á valllendi. Þerrilint hefir og verið allstaðar hér sunnanlands, einkum í Skaftafellssýslu, það sem af er slættinum, og eru því víða sagðar hirðingar ekki sem bestar, og að hitna taki í görðum.

Norðri lýsir tíð í ágúst þann 31.:

Aðeins fyrstu dagana af mánuði þessum rigndi nokkuð; voru þá töður orðnar sumstaðar til muna hraktar; en hinn 4. þ.m. hófst sunnanátt með sólskini og þerri allt til hins 12.; nýttust þá töður vel og flestir hirtu tún sín. Síðan, og allt til þessa, hefur jafnast verið hæg norðanátt og stundum kyrrur, og yfir höfuð hagstæðasta heyskapartíð, að svo miklu vér til vitum, yfir allt á Norðurlandi. Grasvöxtur í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu. Heyföng munu og víðast hvar um þetta leyti vera orðin meiri en oftar að undanförnu. Þar á móti er sagt að sunnan, að grasvöxtur sé þar í rýrara lagi, og enda sumstaðar með minnsta móti og þá áleið, nýtingin heldur ekki góð. Annars hafði þó veðráttan þar verið hagstæð frá sólstöðum og til júlímánaðarloka.

Ingólfur segir af veðri í septembertölublöðum:

[7.] Allan ágústmánuð hélst hér á Suðurlandi besta og hagstæðasta veðurátta. Það var að sönnu nokkuð vætusamt framan af honum, svo heldur leit út fyrir, að nýting og heyföng manna yfir höfuð mundi verða með lakara móti. En þegar leið á mánuðinn rættist blessunarlega úr þessu, með því að þá kom þurrviðri og stöðugir þerrisdagar. Þannig geta menn vænt þess, ef tíðin breytist ekki því meir, að heygarðar bænda verði í haust þrátt fyrir grasbrestinn allt eins búlegir og í fyrra, að minnsta kosti hér á Suðurlandi, þar sem fyrningarnar voru víðast hvar svo miklar.

[23.] Þegar með byrjun þessa mánaðar breyttist veðrátta hér á Suðurlandi til hins lakara, því til þessa hafa oftast verið þennan mánuð rigningar og rosar með krapaskúrum, svo að snjóað hefur undir húsum. Þó höfum vér heyrt að minna hafi orðið af rigningum víða til sveita, en hér á kjálkanum við sjóinn. Eftir því sem oss berast nú fréttir úr sveitunum bæði fjær og nær, þá láta þær allar vel af árferðinu í sumar yfir höfuð að tala.

Ingólfur birti þann 28.október bréf ísfirðings ritað 15. og 16.september:

Annars hefur hér verið góð tíð og mikið ár í sumar, svo menn muna varla annað eins. Að vísu hefir verið umhleypingasamt síðan um höfuðdag, en varla má heita, að skúr hafi komið úr lofti fyrr enn í gær og í dag — það er 16. núna — það gjörir hafísinn, sem hér hefir verið við vesturlandið, eða skammt frá því síðan með slætti. Er hér þá oft þokufýla úr hafi og sjaldan skarpur þerrir, en aldrei heldur regn. Hér hefur því heyjast í besta lagi og nýst vel. Hákarlaafli er og í mesta lagi, 300 tunnur mest.

Þjóðólfur segir af tíð þann 24.september:

Að norðan hvívetna er sögð og skrifuð góð sumarveðrátta, allgóður heyafli og besta nýting. En hér sunnanlands hafa þessar, nær því 3 vikna, rigningar og stormar gjört heyskapinn næsta endaslepptan, jafnvel ollað heyskemmdum í görðum sumstaðar, og meinað sjóarbændum alla róðra, enda var mjög fiskilítið áður, hér um öll nes.

Norðri segir í ódagsettu septembertölublaði:

Fyrri hluta mánaðar þessa mátti kalla, að enn héldist hin sama blíða og hagstæða veðurátta; en úr því hófust hvassviður á sunnan, einkum hinn 15. og 16. svo að hér um sveitir gjörði óttalegt útsunnan veður. Hinn 19. var hér mesta stórrigning, og síðan bleytuhríð, meiri og minni, allt til hins 24., svo talsverðan snjó gjörði, einkum til fjalla, hvar menn enda halda að fé hafi ekki óvíða fennt. Aðfaranóttina hins 22. kom svo mikið landnorðanveður, að fáir þóttust muna þvílíkt hér innfjarðar. — Heyföng eru víðast hvar orðin mikil, og nýting á þeim hin besta, þó mun hey allvíða enn úti. 6. [september] logaði upp í töðuheyi Hrólfs bónda á Öngulsstöðum í Eyjafirði; sagt var, að þar hefðu brunnið 30 hestar, sem súldað var saman í óþerrunum í sumar, og hefði ekki vindstaðan á sömu stundu breytt sér, þá mundu fleiri hey og bærinn hafa verið í voða.

Þann 31.mars birti Norðri pistil um skipskaða sem líklega varð í september:

Þilskipaskaðar: Þess var getið í janúar [tölublaði Norðra bls.7] að 2 jagtir [úr Hafnarfirði og frá Ísafirði] hafi brotnað við Vesturland [í októberveðrunum], en síðan hefur verið ritað, að þetta hafi ekki verið þann veg, heldur svo, að jagtirnar hafi lagt út fyrir hin miklu veður í september og ekkert til þeirra spurst. Það er því meining manna, að þær muni með öl!u týndar. Þilskip þessi höfðu verið góð og skipverjar ungir og duglegir.

Þann 22.september segir Jón Austmann í Ofanleiti: „Ofsaveður, fjúkkrapi“ og þann 29. segir Þorleifur í Hvammi frá ökklasnjó sem féll um nóttina í sjó niður. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Stillt og frost var lengst um haustið, að mestu autt í lágsveitum eftir 6. okt. Urðu þá seinni göngur en miðréttir gjörðar í septemberlok. Eldiviður skemmdist og aldrei tók klakann norðan úr hlöðunum. Eftir áfellið var stillt frostveður, þíðulaust og fjúkalítið til 18. og 20. okt., fimmtudaginn síðasta í sumri, að mikla hríð og fönn gjörði. Föstudag mesta harka og strax á eftir norðanrigning, er skeljaði fönn, svo jarðlaust varð á Skagafirði. Var þá lítt fært yfir jörð utan á skíðum, er nú fjölgaði óðum hjá heiðargöngumönnum. Með nóvember skipti um til óstöðvunar með blotum, snjókomum og oft bleytifjúki. Var oftar snöp og hér vestra nóg jörð til 22. nóv., þá svellgaddur byrgði þá. Voru þá hross og fé orðið magurt og illa undirbúið að taka á móti hörðum vetri. Blotar og köföld gengu á víxl til 12. des., Tók allvel upp til lágsveita fyrir jólin. Var þá mikill hrossafjöldi kominn þar á hagagöngu. Gömul hross og folöld voru nú mörg drepin, því mörgum þótti hross of mörg.

Norðri segir fréttir í ódagsettu októberblaði:

Veðráttan yfir þenna mánuð hefur oftar verið hæg, og logn hér innfjarðar, en norðlæg og sjaldan frostlaust. Snjófallið er því enn víða hvar, að kalla, hið sama og það varð á dögunum, og meiri og minni jarðbannir á sumum útsveitum, síðan i næstliðnum mánuði, svo peningar lenti hér og hvar, að nokkru og sumstaðar að öllu, á gjöf. Heyskapur manna varð því víðast mjög endasleppur. Hey urðu allvíða meira og minna úti, og eldiviður margra var ekki kominn í hús fyrir ótíð þessa. Skepnur gátu því ekki, sem venjulegt er, tekið neinum haustbata. Skurðarfé reyndist í rýrara lagi, einkum á mör. Fjárheimtur urðu og víða ekki góðar, auk hins, sem menn vissu til, að ekki allfátt hafði fennt, sem sumt fannst dautt eða lifandi. Í hinum miklu veðrum, hinn 16. og 21.—22. [september], urðu ýmsir fyrir tjóni á heyjum sínum og skepnum, og enda hér og hvar á húsum, því t.d. er sagt, að 2 timburkirkjur nýbyggðar fokið hafi um koll á Vesturlandi, að Gufudal 16.[september], og aftur að Reykhólum á Reykjanesi 21. s.m. Um sama leyti fuku og brotnuðu 7 skip í Fljótum, Siglufirði og Héðinsfirði og sum þeirra í spón. Þá var og sagt, að fokið hefðu 40 hestar af töðu í Höfn í Siglufirði, og á Hvanneyri tekið 1 eða jafnvel 2 hey ofan að fyrirhlöðuveggjum, og 1 á Myrká í Hörgárdal. Veðrið hafði og á nokkrum stöðum slengt kindum svo hart til jarðar, að fundust dauðar. Það er og sagt, að heyskaðar hafi orðið bæði vestra og syðra, t.a.m. í Kjalarnesi, um Borgarfjörð og fyrir austan Hellisheiði. Þá hafði og flætt 60 fjár í Hvanneyrarsókn í Borgarfirði, og er mælt að Teitur nokkur bóndi á Hvanneyrarskála hafi átt af því fé helminginn. Í téðu landnorðanveðri [16.september] var kaupskip eitt, er fara átti til Skagastrandar og Grafaróss verslunarstaða, fermt korni og annarri vöru, komið inn á Húnaflóa þá veðrið brast á, jafnframt og þar var kominn að skipinu verslunarfulltrúi J. Holm, til þess sjálfur að geta náð til þess, og fylgt því inn á höfn; en nú hlaut skipið að láta berast undan veðrinu og stórsjónum, inn á Reykjafjörð eða Kúvíkur, hvar það lagðist við akkeri, en sleit upp, og bar þar að landi, og brotnaði mjög, samt varð mönnum og hinu mesta af farminum bjargað, er síðan var selt við opinbert uppboð, og er sagt að þar hafi, sem venja er til við slík tækifæri, fengist góð kaup. Skipverjum er sagt að hafi verið fylgt til Reykjavíkur.

Ingólfur segir af árferði í pistli þann 28.október:

Ingólfur gat þess seinast, að veðráttufarið hefði verið fremur stirt í september, og hélst það við fram yfir réttir, svo að heita mátti rétt fullkomið vetrarfar um tíma. En þegar leið undir enda mánaðarins batnaði aftur veðráttan, svo að hver dagurinn hefur mátt heita öðrum betri sumarið út.

Norðri segir frá sköðum í októberveðrum þann 31.desember:

Hinn 21. október létti briggskipið Þingeyri, eign Örum og Wúlffs, akkerum sínum af Vopnafjarbarhöfn, og var komin skammt á leið út eftir firðinum, þá landnorðanveður brast á, svo hún hlaut að láta berast til baka undan veðrinu inn að hólmum þar utan við höfnina, hvar hún varpað 3 akkerum, og lá við þau um nóttina í ofviðrinu, í sjó og brimi; en morgninum eftir hafði veðrinu nokkuð slotað, svo skipverjar freistuðu þá að komast inn á höfnina; en vegna hvassviðris, er allt í einu rauk á, straums og brimólgu, fleygði skipinu þar að skerjum og grynningum við hinn svonefnda Varphólma, hvar það festist og þegar kom gat á það, og sjór þar inn í sömu svipan; en fyrir stakan dugnað skipverja og annarra, varð farminum að mestu bjargað óskemmdum.

Aðfaranótt hins ofannefnda 22. október brotnuðu 2 bátar eða för í veðri og brimi á Látraströnd. Það er og sagt, að hákarlaskip og 3 bátar hafi brotnað í Ólafsfirði, og nokkur róðrarskip á Skagaströnd.

Ingólfur segir af árferði þann 30.nóvember:

Síðan veturinn byrjaði hefur veðrátta hér á Suðurlandi mátt heita mjög stirð; veður hefur verið næsta umhleypingasamt, ýmist með snjógangi af útsuðri, eða blotum af landsuðri og frosti þess á milli. Eftir veðráttufarinu hafa gæftirnar verið stirðar; en þá sjaldan sem gefið hefur á sjó, hefur þó aflast til matar hér á innnesjum; aftur hefur til þessa verið fiskilaust í veiðistöðunum syðra, ...

Norðri segir frá sköðum í nóvemberveðri þann 31.desember:

Nóttina hinn 17. nóvember hafði gjört fjarska veður á útsunnan á Suðurlandi, sér í lagi í Innnesjum, svo að 2 kaupskip sem lágu á Reykjavíkurhöfn, og sagt er að tilheyrt hafi kaupmanni Siemsen, krakaði út fyrir rif nokkurt, er liggur utan við höfnina, svo að undan öðru gekk strákjölurinn, en af hinu brotnaði bugspjótið. ...  Um þær mundir að Norðanpósturinn fór úr Reykjavík, (17. nóvember) hafði gjört mikla fönn, allt upp í Borgarfjörð og um Mýrar, sem líklegast hefur bráðum tekið upp aftur.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Fyrir tæpum 3 vikum síðan fréttist að sunnan, að þá hefði þar verið góð tíð og snjólaust að mestu, allt norður undir Holtavörðuheiði, en aflalaust að kalla á Innnesjum; matvælabrestur í kaupstöðum, og horfur á að hart mundi manna á millum. Í framsveitum og helst til dala í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var sögð allt að þessu nokkur jörð, og ekki farið að gefa fullorðnu fé til muna; þar á móti harðindi á öllum útsveitum. 4. og 11.[nóvember] gjörði hér blota, svo að nokkur jörð kom upp, þar áður hafði verið snjólítið, en að líkindum hleypt í meiri gadd þar snjóþyngsli eru. Fyrir skömmu síðan er sagt, að millum 30 og 40 sauða hafi orðið í snjóflóði á Lundi í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Bæjarklettum fyrir utan Hofsóskauptún er sagt, að þar hafi brotið tvö skip í spón.

Þjóðólfur segir lítillega af tíð þann 17.desember:

Vér höfum fengið fréttir að vestan og norðan og austan yfir fjall. Eftir þeim hefir vetrarfarið verið hvað þyngst hér sunnanfjalls og orðið hvað mest úr blotum og jarðbanni; því víða var hér orðið hagskart; en úr því bætti hlákan í byrjun þ. mán., svo nú eru hér víðast syðra allgóðir hagar. Vestra hafði víðast orðið mesta snjókyngi, og eins upp til dala í Húnavatnssýslu, en hagar voru þar víðast miðsveita um mánaðamótin.

Norðri segir tíð í tveimur pistlum í desember:

[16.] Hið helsta, er vér frétt höfum, með austan- og norðanpóstunum sem komu hingað á Akureyri 2. og 6. [desember] er þetta: Að í Múlasýslum hefði næstliðið sumar viðrað svipað því og hér nyrðra; eins verið með grasvöxt, heyafla og nýtingu, og áfellið, sem kom í september, orðið þar víða stórkostlegt, og fé fennt; sumstaðar orðið hagskart fyrir áfreða í byggð, en á fjöllum uppi vegna snjóþyngsla. Aftur hafði hlánað þar í næstliðnum mánuði [nóvember], svo að víða varð örís, og hvervetna við sjávarsíðuna, norðan með, allt inn fyrir Húsavík, gott til haga. Þar á móti á Jökuldal og Hólsfjöllum snjómeira, og hart í Mývatnssveit, svo og víðar til framsveita og dala í Þingeyjarsýslu. Hér um sveitir er víða nokkur jörð, óvíða góð, og á útsveitum sumum jarðbannir. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum er sögð víða hvar góð jörð, en þá aftur harðara í sumum sveitum. Af Vesturlandi höfum vér ekki nýskeð greinilega frétt; en syðra tjáist hafa við sjávarsíðuna verið góð tíð með snjóleysur; í seinustu sumarvikunni lagði þar svo mikinn snjó til fjalla, að stóðhross fenntu og nokkur þeirra til dauðs; og svo lagði mikla fönn um allar uppsveitir í Árnessýslu, að fá dæmi þóttu svo snemma í tíma; aftur fölvaði varla í sveitum þar er liggja með sjó fram. Það hafa menn fyrir satt, að fé hafi víða fennt, enda eru heimtur hér og hvar ekki góðar. Yfir höfuð hefur skurðarfé reynst í lakara lagi, einkum á mör.

[31.] Seinni hluti mánabar þessa hefur hér og þar, sem til frést, verið miklu veðurstilltari en lengi að undanförnu, og besta hláka um sólstöðurnar, svo nú er víða komin upp næg jörð fyrir útigangspening, enda mun það allstaðar hafa komið sér vel í þarfir, og ekki síst þar, sem mjög hafði sorfið að með jarðbannir síðan í haust, er áfellið dundi yfir. Hey og eldiviður varð víða úti, auk heyskaðanna í hinum mikla veðrum 16. og 21. september. Fiskiaflinn er hér enn innfjarðar hinn sami og áður, og eins fyrir Tjörnesi þá róið hefur verið og beita góð.

Ingólfur ræðir árferði 6.janúar 1854:

Vér gátum þess í seinasta blaði voru, að vetur hefði allt að nóvembermánaðarlokum mátt heita næsta umhleypingasamur hér á Suðurlandi, og verulega harður til allra sveita, þó að frost væri alltaf væg. Sama veðurreyndin hélst og til miðju desembermánaðar; en þá skipti um með sæluvikunni til mesta bata; snjó og klaka hefur leyst upp hér syðra, því þíðviðri hefur oftast verið með hægri rigningu, eða þá einstöku kæludagar með litlu frosti; og þannig skilur nú árið við oss blítt og blessað. Síðan batnaði hefur verið róið hér á Seltjarnarnesi og alfast allvel; minna er oss kunnugt um aflabrögð í öðrum veiðistöðum; en þó höfum vér heyrt, að nokkur afli væri farinn að gefast i veiðistöðunum syðra og fer það að vonum, að enn sannist sem fyrr, að þá er hjálpin næst, þegar neyðin er stærst. — Þegar þá á allt er litið, má með sanni telja þetta hið liðna ár 1853 meðal hinna mörgu góðu áranna, sem nítjánda öldin hefur leitt yfir land vort, og vér getum ekki annað sagt enn að það sé áframhald undanfarinnar árgæsku. Raunar hefur á ári þessu brytt á ýmsum annmörkum og erfiðleikum venju framar nú um langan tíma; teljum vér til þess vetrarríki í sumum sveitum, fiskileysi í sumum veiðistöðum, matarskort í sumum kaupstöðum og sóttferli, sem hefur stungið sér niður í sumum héruðum, þó ekki hafi mikil brögð að því orðið. En af því að þetta hefur ekki gengið almennt yfir, og öllum nauðum hefur til þessa af létt áður vandræði yrðu úr, þá getum vér ekki talið þetta annað en eins og smákálfa, sem eiga að minna oss á magrar kýr, svo að vér ekki innan um glaðværðir góðu áranna gleymum forsjálni og fyrirhyggju Jósefs hins egypska.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1853. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ekki alveg - en samt

Fellibylurinn Epsilon hitti ekki jafnvel í vestanbylgju og margar spár á dögunum höfðu gert ráð fyrir - þannig að ekkert verður úr metum. En lægðin sem nú (mánudagskvöld 26.október) er fyrir sunnan land er samt óvenjudjúp miðað við árstíma, fer að sögn reiknimiðstöðva niður í um 940 hPa í fyrramálið.

w-blogg261020a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl.6 á þriðjudagsmorgni. Lægðin á síðan að hringsóla fyrir sunnan land næstu daga og valda nokkrum vindi hér á landi þegar miðjan færist smám saman nær - en hún grynnist jafnframt. Lægðin sér til þess að hiti verður líklega ofan meðallags á landinu næstu daga. Nokkur úrkoma fylgir - sérstaklega suðaustanlands. 

Það er ekki oft sem þrýstingur fer niður fyrir 940 hPa í október. Hér á landi er aðeins vitað um eitt tilvik - þrýstimælingar hafa þó staðið í 200 ár. Það var þegar þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór niður í 938,4 hPa þann 19.október 1963 kl.17. Endurgreiningar giska á að þrýstingur í þeirri lægðarmiðju hafi farið niður í um 935 hPa. Þrýstingur fór þá niður í 939,8 hPa í Reykjavík kl.24 og 940,0 hPa á Eyrarbakka og Keflavíkurflugvelli. Þetta var þá lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu (í nokkrum mánuði) allt frá 1942 og því mikill viðburður fyrir ung veðurnörd eins og ritstjóra hungudiska. Hefur hann fjallað um þennan viðburð áður á þessum vettvangi, sem og mun verra veður sem gerði nokkrum dögum síðar. Þurfti svo að bíða í meir en 18 ár eftir enn lægri tölu (8.febrúar 1982). 

Næstlægsta (mælingarnar 1963 eru sama lægðin) októbertalan hér á landi er 945,5 hPa, sem mældist á Raufarhöfn 26.október 1957. Við sjáum af þessu bili á milli lægstu tölunnar og þeirrar næstlægstu [rúm 7 hPa] hversu sjaldséð það er í raun að þrýstingur fari svona neðarlega í október. Lægsti þrýstingur sem við vitum um í október hér á landi á þessari öld er 945,9 hPa og mældist á Gjögurflugvelli þann 23. árið 2008. 

Þétting þrýstimælinetsins hefur þær afleiðingar að minni líkur eru á að metdjúpar lægðir fari hjá í skjóli nætur - eða á svo miklum hraða að hefðbundnar mælingar missi af þeim. Allt frá því um 1925 hafa þrýstiritar þó verið í notkun, lægsti þrýstingur sést að jafnaði á þeim þó ekki sé lesið á loftvog á venjulegan hátt. Gallinn er hins vegar sá að í allradýpstu lægðunum fer penni þrýstiritanna gjarnan niður fyrir blaðið - gæti athugunarmaður þess ekki að skrúfa hann upp. Þannig höfum við ábyggilega misst af einhverjum metum í tímanna rás. Fyrir 1925 var yfirleitt aðeins lesið af loftvogum þrisvar á dag og jafnvel aðeins einu sinni. Líkur á að missa af metum voru því mun meiri þá heldur en nú. Við þurfum því ekkert að verða sérstaklega hissa á aukinni tíðni sérlega lágra þrýstimælinga. Sömuleiðis sjá reiknilíkön til þess að við missum mun síður af miðjuþrýstingi í mjög djúpum lægðum á okkar slóðum - svo lágum að gisnar athuganir á sjó á fyrri tímum misstu alveg af lægstu tölunum. 


Íslenska sumarið 2020 (hiti)

Fyrsti vetrardagur er á morgun (24.október). Við lítum hér á hita sumarsins í Reykjavík og á Akureyri - síðustu 184 daga. Daglegur meðalhiti er ekki til á lager á Akureyri nema aftur til 1936 - þar hefur þó verið mælt linnulítið síðan 1881. Við eigum daglegan meðalhita í Reykjavík frá 1920 og slatta frá tímanum þar á undan. 

w-blogg231020a

Meðalhiti sumarmisserisins í ár í Reykjavík var 8,8 stig, nákvæmlega í meðallagi 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á myndinni sjáum við að hitinn í sumar var hærri en hann varð nokkru sinni á þrjátíu ára tímabilinu 1966 til 1995 - og hlýskeiðið sem byrjaði í kringum aldamót stendur greinilega enn. Hlýjast var í Reykjavík 2010 og ámóta hlýtt bæði 1939 og 1941. Kaldasta sumarmisseri sem við vitum um í Reykjavík var 1886, en á síðari áratugum 1979 og 1983. 

w-blogg231020

Meðalhiti nú á Akureyri var 8,5 stig, 0,1 stigi ofan meðallags síðustu 10 sumarmissera og 0,2 ofan meðallags 1991 til 2020. Á síðari árum varð hlýjast á Akureyri 2014, og hlýrra 1939. Reyndar varð enn hlýrra 1933 - en það er utan þessarar myndar. Kaldast var 1979 - rétt eins og í Reykjavík. Fáein hlý sumur komu á Akureyri á árum 30-árakuldans í Reykjavík, t.d. sker 1976 sig nokkuð úr - en á þessari öld hafa þó komið 5 hlýrri sumur en það á Akureyri. 

Ritstjóri hungurdiskar þakkar lesendum fyrir sumarið og óskar þeim ánægjulegs vetrar. 


Af árinu 1852

Tíð þótti hagstæð árið 1852. Meðalhiti var 4,0 stig í Reykjavík og í Stykkishólmi og 3,1 stig á Akureyri. Apríl var sérlega hlýr, ekki er vitað um nema tvo hlýrri aprílmánuði í Stykkishólmi (1974 og 2019) og þrjá í Reykjavík. Sömuleiðis var hlýtt í mars, maí, júní og júlí. Aftur á móti var óvenjukalt í desember, fremur kalt var einnig í janúar, september og nóvember. 

ar_1852t

Fjórir dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, kaldast að tiltölu 12.ágúst (en þá var lágmarkshiti aðeins 2 stig). Enginn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi - þar voru aftur á móti óvenjuhlýir dagar í apríl. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 786 mm. Þurrt var í nóvember og desember, en úrkomusamt í febrúar. 

ar_1852p

Þrýstingur var í hærra lagi í mars, september og október, en fremur lágur í janúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 21.janúar, 937,7 hPa en hæstur í Stykkishólmi 25.febrúar, 1042,6 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.   

Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1852 í pistli sem birtist 1855:

Árið 1852 byrjaði enn með góðri veðráttu. Með þorra varð hagaskarpt af blotum, og voru víða vestra hagleysur fram til miðgóu; batnaði þá veðrátta, en þó komu hret, er ollu sumstaðar fjársköðum. Á einmánuði voru góðviðri svo mikil, að gróður var kominn í jörð að liðnum sumarmálum. Allt vorið heldust góð veður, svo í fardögum var gróður kominn jafnvel upp til fjalla; sumarið var og allt hið veðurblíðasta og hagstæðasta sumar um alla Vestfjörðu. Einatt voru á sumri þessu hitar miklir, og kenndu menn það þeim, að víða varð vart við orma vestra, sem venju fremur voru hingað og þangað út um haga; þeir voru að stærð og sköpulagi líkir tólffótungum. Svo voru mikil brögð að þeim sumstaðar, að amboð og reipi og fatnaður sláttumanna og hvað annað skreið kvikt af þeim; ekki urðu menn með neinni vissu þess varir, að ormar þessir yrðu búsmala að tjóni, hvorki í högum að sumrinu, eða af heyjunum að vetrinum. Haustið var fremur vindasamt; landveðrátta var þó fremur góð, þangað til undir lok nóvembermánaðar, að snjóa lagði á upp til sveita, og jók við þá talsvert í desembermánuði með allhörðu frosti, svo að við árslokin voru víða komin jarðbönn. Hafís sást einatt fyrir vestan land þetta ár, en ei varð hann landfastur svo teljandi væri. Það þykir undrum sæta, hve lítil höpp hafa þessi ár fylgt honum, við það sem áður hefur einatt verið; og kalla menn svo, að rekabann hafi verið þessi ár.

Meðalhlutir undir Jökli urðu alltað 5 hundruðum. 14 skip stunduðu þar auk þorskveiða hákarlaveiði, og heppnaðist sumum allvel, en flestum miður, svo mest varð 1 tunna lifrar til hlutar. Um Vestfjörð var bæði þorsk- og hákarlsafli í góu lagi. Einkum eykst þorskaflinn talsvert á Ísafirði og í Strandasýslu; en aftur hnignar selveiðinni mjög við Ísafjörð. Þetta ár var bjarndýr unnið á Ströndum.

[Þann 10.janúar] týndust 9 menn af hákarlaskipi í Önundarfirði; formaðurinn hét Guðmundur Jónsson hreppstjóra Guðmundssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal. 7.desember fórst skip af Hjallasandi undir Jökli á heimleið úr Ólafsvík; týndust þar 6 menn. Formaðurinn var Skúli Jónsson frá Fagurey, sem þá var nýorðinn útvegsbóndi í Hallsbæ. Þá ráku að landi 3.maí 2 útlend skip, galeas og jagt, er lágu á Vatneyrarhöfn. Skip þessi löskuðust svo, að þau voru bæði seld við uppboð; frá skiprekum þessum er greinilega sagt í „Nýjum Tíðindum", 7l.blaðsíðu.

Norðri rekur tíðarfar ársins 1852 í pistli í janúar 1853:

Næstliðið vor og sumar má, þegar á allt er litið, telja hér norðanlands eitthvert meðal hinna bestu er komið hafa. þannig munu þess fá dæmi, að ekki hafi komið eitthvert kuldaskot yfir jafnlangan tíma og þessi var, þar sem svo mátti að orði kveða, sem hver dagurinn væri öðrum betri. Að sönnu gengu í vor eð var sífeldir þurrkar fram yfir fráfærur, svo nálega kom enginn deigur dropi úr lofti; olli það sumstaðar nokkrum misferlum á grasvexti, einkum á harðvellis- og hólatúnum, sem brunnu mjög og skemmdust víðahvar af maðki, er kviknaði venju framar bæði í túnum, harðvellisgrundum og afréttum; þó varð grasvöxtur yfir höfuð að tala í betra lagi, og sumstaðar enda upp á hið besta, svo tún urðu hér og hvar meir eða minna tvíslegin. Eftir fráfærur snerist veðráttan upp í óþurrka, er héldust við að öðru hverju fram í 16.viku sumars [kringum 10.ágúst]; átti því margur bágt með töður sínar, er hröktust víða hvar meira eður minna. Eftir þetta kom aftur góður þurrkkafli, er hélst víð það eftir var heyskaparins, svo uppskera og nýting á útheyi varð almennt í besta lagi. Frá heyskaparlokum og fram til messna má og kalla að verið hafi einkar góð tíð. Eftir Þjóðólfi og Nýtíðindunum er og að frétta líkt tíðarfar, heyafla og nýting í hinum fjórðungum landsins, sem hér nyrðra, nema í Skaftafellssýslum voru óþerrar í meira lagi, en þó allgott fóðurhey í garði. En eftir messur breytti veðráttan sér og gekk til norðurs; hófust þá rigningar og krapahríðar miklar; síðan víða hvar, einkum á útsveitum, fádæma miklar snjókomur með hörkum og harðviðrum, svo að bæir fóru í kaf, og við og við spilliblotum, þangað til komnar voru fullkomnar jarðbannir, svo víða kom útigangspeningur algjörlega á gjöf, þá hálfur mánuður var af vetri. Tíðarfar þetta, hefur hvað til hefir frést, haldist einlægt við, að kalla má; því þó síðan áleið, nokkuð hafi linnt hríðum og harðviðrum, þá hefur aldrei svíað svo til, að jörð hafi getað upp komið til gagns, enda er fannfergjan allvíðast svo mikil, að nú til margra ára mun ekki slík hafa komið. Sagt er og að víða muni heybirgðir manna ekki hrökkva, einkum í þeim sveitunum, hvar venjulega er mjög stólað á útiganginn, en peningshöldin þó mest, komi jörð ekki upp, þegar fram á nýárið kemur. Það hefur og frést hingað, að sumir meira og minna hafi skorið af heyjum sínum, t.a.m. í Kelduhverfi, Axarfirði, Vopnafirði og víðar; og í Suðurmúlasýslu hefðu nokkrir haft það í áformi, batnaði ekki því fyrri. Þar á mót tjáist, að í einstökum héruðum, hafi jarðir haldist, svo sem á Fljótsdal, á Efri Jökuldal, við Mývatn.og hér og hvar fremst til dala, en þó einkum á mið- og framsveitum Skagafjarðar, hvar allt að þessu hefur að sögn verið nógur hagi fyrir útigangspening. Eins fréttist að sunnan, að þar hafi hvervetna verið góð tíð og nægar jarðsældir, aðeins venju framar frostasamt. Viðlíkar fréttir hafa og borist af Vesturlandi sunnan Breiðafjörð; aftur á mót af Vestfjörðum, kringum Húnaflóa og öllum útsveitum Skagafjarðarsýslu, sem hér. Á jólaföstunni voru heljurnar stundum svo miklar, að hitamælir Celsiusar féll hér á Akureyri rúm 25 mælistig niður fyrir frostmerki, og mun það þó hafa orðið meira til sveita og dala. Eins og að árgæskan var á landi í vor, sumar og til messna, eins var hún í sjónum allvíðast hér við land, og í besta lagi, einkum hákarlsaflinn á Vestfjörðum, hvar þiljuskip öfluðu hærst undir og yfir 200 og eitt hartnær 250 tunnur lifrar.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þó jörð væri snjólítil, var storka og farið að gefa fé eftir þrettánda. Viku eftir hann frostamikið, annars mátti kalla, að aldrei hélaði glugga veturinn út. Síðari part janúar blotasamt og óstöðugt, en jörð allnóg til miðþorra. 8. febr. fyrst innistaða, svo hríðarkafli og jarðlítið til mars, með honum blotar og þíður góðar. 8.-19. hláka og heiðarleysing, klakalítið og þurrir melar. 21.-23 norðanhríð, þó snjólítið.

Þjóðólfur segir fréttir 1.mars

Þó vér segjum, að hinn göfugi þorraþræll hafi verið í gær, þá mun það þykja lítil tíðindi; eigi að siður ætlum vér, að flestir sunnlendingar hafi fagnað honum, því hann rak þó þorra úr landinu, er að minnsta kosti á suðurkjálka þess hefur verið æði þungbúinn; hefur snjókoma jafnan verið mikil með óþverra blotum, svo snjóþyngslin og áfreðarnir banna nú allar bjargir. En það höfum vér heyrt, að bæði fyrir norðan og þegar langt kemur austur, muni hafa orðið miklu minna, og lítið sem ekkert, af þessum snjó; og er það merkilegt, að snjórinn skuli ekki eins og regnið ganga jafnt yfir rangláta sem réttláta. En það er líklega eins með þessar fréttir, og hafísinn og bjarndýrið; hamingjan ein má vita, hvað satt er af því!

Ný tíðindi segja þann 10.mars:

Eftir bréfum, sem ritstjóri „Tíðindanna" hefur fengið úr Snæfellsness- og Strandasýslum, hefur veturinn þar verið einhver hinn besti og veðurblíðasti fram að þorra, og jafnvel fyrstu viku hans. En þá brá til harðviðra, og gjörði fullkomin jarðbönn, eins á Vesturlandi og víðast hvar annarstaðar, sem frést hefur til. — Hafís hefur verið skammt undan landi á Ströndum, en þó ekki borist að landinu, nema jakar á stangli. — Snemma í vetur var unninn hvítabjörn einn, sem kom á land, vestur í Stigahlíð. — Það þykir undrum gegna hversu lítil höpp fylgja hafísnum vestur um Strandir; því varla kvað þar sjást spýta rekin á nokkurri fjöru. Í ágúst f.á. rak hvalkálf á Krossnesi í Trékyllisvík, og voru á honum 100 vættir af spiki. — Í sumar eð var fiskaðist alls ekki sunnan jökuls, en í haust var allgóður afli í Ólafsvík, norðan jökuls. Nú kvað þar og aflast allvel, og eins í Rifi og á Sandi undir Jökli. Í þessum veiðistöðum kvað nú margir vera farnir að stunda hákarlaveiði (14 skip i staðinn fyrir 2 eða 3 árin fyrirfarandi). Sumir af þessum hákarlaveiðendum hafa aflað allvel, en fleiri þó fremur illa. — Engra skipskaða er getið að vestan. — Það er sagt, að kaupstaðirnir vestra séu nú komnir á þrot með flest.

Ný tíðindi segja af hrakningum og skipskaða í pistli 20.apríl:

[Þann 21. febrúar] voru 6 menn nærri því orðnir úti í byl á Kambsskarði vestra; lágu þeir úti um nótt, grófu sig í fönn og komust til byggða daginn eftir, og þó naumlega einn þeirra. — Úr Holtssókn í Önundarfirði vantaði í marsmánuði hákarlaskip með 10 eða 11 manns á.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Aftur með apríl mesta vorblíða, heiðar auðar og vötn þíð og 9. apríl farið að grænka næst bæjum, á sumarmálum sauðgróður og mátti vera búið að breiða tún. Í maí óstöðugt skúraveður. Eftir krossmessu frost og kuldar og svo kalsasamt út mánuðinn.

Ný tíðindi segja af manntjóni í pistli þann 11.maí:

[Þann 17.apríl] barst skipi á suður í Leiru. Formaðurinn hét Árni. Mönnunum varð öllum bjargað, en 1 þjakaðist mjög svo hann lagðist á eftir, og vitum vér ekki hvort hann hefur dáið, eða ekki. — Þetta var í norðanstormi og ósjó. — 23.[apríl] fórst bátur fyrir framan Kálfatjarnarhverfi, og héldu menn að hann hefði siglt sig um. Formaðurinn hét Kjartan Jónsson frá Svartagili, en hásetinn Björn Halldórsson frá Skarðshömrum í Norðurárdal, og týndust þeir báðir. — Snemma í sama mánuði barst á báti í Hraununum; formaðurinn komst af, en hásetinn, vinnumaður að austan, drukknaði. [Þann 1.maí] barst á skipi í Grindavík. Höfðu menn róið alskipa um daginn, og drógu fiskinn mjög ótt. Síðan kippti skip þetta og reyndi á grynnra miði, en er gangurinn fór af, sökk það þegar. Fórust þar, að sögn, 12 menn, þar af 5 bændur úr Grindavík, en 3 varð bjargað. [Nánar segir af þessu slysi í sama blaði 2.júní og takið þar að um ofhleðslu hafi verið að ræða, enda hið besta veður]. — 2.maí barst báti á í Viðeyjarsundi; 2 mönnunum varð bjargað, en hinn 3. drukknaði. Var það ungur maður, og hinn efnilegasti, uppeldissonur sekretera Stephensens; hann hét Ólafur Jónsson.

Ný tíðindi segja skaðafréttir frá Patreksfirði í pistli þann 29.júlí:

[Þann 3.maí] um morguninn kom galíasin: De tvende Brödre, sem skipsforingi Hansen var fyrir, og lagðist við akkeri á Patreksfirði. Vindurinn var á sunnan-landsunnan (SSA) og byljóttur mjög. Um hádegisbil fór skipið að reka, og lenti á jagt, er einnig hét De tvende Brödre, og rak hana með. Brandurinn (Sprydet) á jagtinni flæktist í reiðanum á galiasinni, og áður en flækjan yröi greidd stóð jaglin á grunni á bakborða. Stjórborðí jagtarinnar sneri þá galíasinni, svo að „Röstbolterne“ á henni gengu í gegn um borðið á jagtinni, og áður en skipverjar gátu borgið eigum sínum fylltist jagtin af sjó, og af því öldurnar gengu þá og yfir hana alla, fóru þeir burtu af henni. Um flóðið setti galíasin segl upp til þess að komast hærra upp í fjöruna, eða á grunn, til að affermast; náðist og farmurinn mestallur þurrúr henni. Bæði skipin voru síðan seld við uppboð, hinn 24. s.m. og fóru þau með rá og reiða fyrir lítið, nema vara sú, er kaupmaður á Patreksfirði Thomsen átti, sem gekk með hér um bil fullu verði.

Ný tíðindi segja enn af sjóskaða í pistli þann 2.júní:

[Þann 18.maí] barst á báti á Stokkseyrarsundi við Eyrarbakka. Hann kom úr róðri, og var stormur á sunnan-landsunnan, og brim. Á bátnum voru 4 menn, og týndust þeir allir. Formaðurinn var Jóhann bóndi á Stokkseyri.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní blíðviðri, en rigndi lítið. Besti gróður á fráfærum, eftir það rekjur hægar. Sláttur byrjaði 7.-10. júlí. Héldust þá þurrkar og sterkir (s178) hitar. Þann 17. júlí var fífa fallin og berin sortnuð. Seint í júlí hagstæðar rekjur. Í ágúst sömu blíðviðri og hagstætt veður allan sláttinn. Fyrsta hret 19. sept. Þetta var sá lengsti og blíðasti sláttartími, er menn hafa fengið, töðumegn og útheyja allt að því eins og mikla grasárið 1847. Heilbrigði var almenn sem sjaldan er í mestu hitasumrum. Heyskapartími var 11 vikur og heyjanægtir yfir allar sveitir, en minnst við þurrlendar mýraslægjur.

Þorleifur í Hvammi segir af mistri þann 1. til 4.júní. Í Hvammi fór hiti í meir en 20 stig bæði 19. og 20.júní og svo aftur alla dagana 13. til 17.júlí, hæst 24 stig þann 16. Lengi var mælt í Hvammi og eru þetta óvenjuleg hlýindi. Líklega hefur verið hlýtt víðar inn til landsins þessa daga. Jón Austmann í Ofanleiti nefnir jarðhræringu kl.10 að morgni 2. (og) 3.september. Þann 7.september fór hiti í 21,4 stig á Akureyri. 

Þjóðólfur segir lauslega af tíð þann 24.júlí:

Nú í langan tíma hefur enginn hlutur frést neinstaðar að úr héruðum landsins, og síðan Páll Eyfirðingur var á ferð í vetur í mikla snjónum. Um blessað árferðið þurfum vér varla að tala, því flestir taka til þess. þó er það ætlun vor, að eigi sé tíðin og veðráttan jafn æskileg um allt land. Heyrst hefur kvartað um of mikla þyrrkinga að norðan, og of miklar vætur sumstaðar í Skaftafellssýslu. En það mun mega fullyrða, að eigi verði kosið á hagstæðari tíð en verið hefur víðast hvar i öllum Sunnlendingafjórðungi; er það eitt til merkis, að búið er að tvíslá blett hér í bænum fyrir byrjun hundadaga [13.júlí].

Ný tíðindi segja þann 29.júlí:

Árferði hér á landi segja menn hvervetna í betra, eða jafnvel besta lagi, nema hvað menn kvarta víða um þerrileysi á töður sínar.

Norðri segir frá í janúarhefti 1853:

Hið mikla útsynningsveður 23 september sem mörgum mun minnilegt, olli hér og hvar meiri og minni skemmdum og tjóni: er þó mest gjört orð á því í Skriðdal í Suðurmúlasýslu, í hvar sagt er að fokið hafi hey á nokkrum bæjum, 50 til 100 hestar; og í hinu sama veðri sleit upp á Seyðisfjarðarhöfn briggskipið „Nornin“, 65 lesta stór, eign höndlunarhússins Örum og Wulffs, með 300 tunnum af korni, nokkru af timbri og litlu af íslenskri vöru og rak þar að landi, hvar molaðist undan því allur botninn; skipverjum varð bjargað; kornvaran ónýttist að kalla öll, nema einar 50 tunnur; Og var skipskrokkurinn ásamt því er bjargað varð, seldur við uppboð, og fara sögur af því, að þar hafi fengist góð kaup eins og oftar er við slík tækifæri.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í göngum snjór og frost, svo heiðarvötn lagði, rigning réttardaga og ofsa-vestanveður 23. sept. og snjór á eftir, síðan stillt frostveður til 7. okt., þá gott og frostalítið haustveður og snjólítið til 14. nóv., að gjörði langa hríð og snjó allmikinn til útsveita, en stórfannir norður og austur á landi, er gerði þar mjög harðan vetur. Hér til framsveita var snjólítið. 30. nóv. kom rigningarbloti, er víða gjörði jarðlaust, þó auða jörð á láglendi í Skagafirði og hér vestur í sýslu, en brotajörð til afdala. Á jólaföstu hörkur miklar og kafaldasamt, hríð á jólum og mikið búið að gefa á nýári. Nú var sannkallað mesta veltiár. Skurðarfé í besta máta, en málnyt þótti í lakara lagi. Grasið létt, hitatíð, margt í högum og lítið vönduð hirðing mun hafa valdið því. (s179)

Þjóðólfur segir fréttir þann 5.nóvember:

Síðan Þjóðólfur kom seinast út, vitum vér ekki til að neitt hafi sérlegt til tíðinda orðið, og hafa þó fregnir víða borist að bæði úr héruðum landsins og frá útlöndum. Árgæskan er alltaf hin sama, því þó sumarið sé búið að kveðja oss, svo blessað og blítt sem það var í alla staði, þá sýnist svo sem veturinn ætli að taka víð af því, og vilji ekki verða miður.

Ný tíðindi segja 6.nóvember:

Norðan og vestanpóstarnir komu hingað um mánaðamótin, og heyrist ei annað fréttnæmara með þeim en árgæska og veðurblíða.

Norðri segir frá í janúarblaði 1853

Í svonefndu Bessahlaðnaskarði í Yxnadal, fórst húsmaður nokkur, að nafni Jón Ólafsson í snjóflóði 1 dag nóvember [1852]. Hafði hann verið í kindaleit og ætlað yfir gil eitt, hvar flóðið sprakk á hann og kæfði þegar. [Í sama blaði er frásögn af hrakningum þann 6.nóvember - hún er mjög stytt hér á eftir] Að áliðnum laugardegi hins 6. nóvember lögðu frá Húsavíkurverslunarstað, upp á Reykjaheiði, sem hart nær er þingmannaleið byggða á millum, 3 menn úr Axarfirði og hétu Jón, Hallgrímur og Árni, allir ungir og frískir menn: Jón var og húsasmiður; höfðu þeir 2 hesta meðferðis, sem voru með áburði: þá þeir komu upp á svonefndan Grjótháls, brast á þá krapahríð, með hinu mesta landnorðanveðri, er meir og meir varð í móti þeim þá norðureftir kom; héldu þeir samt áfram að þarnefndum sæluhúsatóttum; voru þeir þá mjög máttfarnir af þreytu og vosi, lögðust þar fyrir og sváfu nokkuð; en er þeir vöknuðu, var komin harka og harðviður, og fötin frosin utan á þeim. Jón var í léreftsskyrtu og klæðistreyju einni; þá hann tók að hreyfa sig og berja sér, sprungu fötin utanaf honum, svo að kuldinn gagntók hann því meir, enda treystist hann þá ekki til að ganga, hafði líka misst annan skóinn af fæti sér, úr hverju Árni bætti, með því að leysa annan skóinn af sér og binda aftur uppá Jón, svo og setja hann upp á annan hestinn; drógust þeir en áfram; dró þá svo af mætti Jóns, að hann treystist ekki lengur til að halda áfram; var því það ráð tekið, að búa um hann í gjá eða gjótu sem nógar eru á Reykjaheiði síðan var tekið reiðverið af öðrum hestinum og þakið yfir með því, og annar hesturinn skilinn þar eftir. [Hallgrímur gafst einnig upp - en Árni komst til byggða eftir nær tveggja sólarhringa útivist, svo að segja berfættur og þó samt ekki stórskemmdur, Jón og Hallgrímur fundust frosnir. Blaðið segir að lokum]: Mat höfðu menn þessir haft í för sinni, og því miður eitthvað af brennivíni. Annar hesturinn hafði sjálfur leitað til byggða, en hinn var ekki fundinn þá seinast fréttist. [Síðan segir blaðið af hrakningi á Flateyjardalsheiði 22.desember, þann mann kól svo illa á fótum að nema varð þá brott á legg].

Norðri segir í janúarhefti 1853:

Sagt var í sumar, að Breiðamerkurjökull, sem liggur sunnanvert í hinum mikla Vatnajökli, hver að er víst 1/10 hluti af stærð landsins, og austan Öræfajökuls, nær því að sjá, hefði hlaupið í sjó fram, og þess jafnframt getið, að jökulhlaupið mundi hafa tekið allan veg af, svo ófært væri, og skipt þannig Skaftafellssýslu í sundur. Líka var þess getið, að Skjaldbreiðarjökull [hér er átt við Dyngjujökul] eða Trölladyngjur, sem liggja í útnorður af téðum Vatnajökli og Kistufelli og syðst að kalla í Ódáðahrauni, hefði þiðnað venju framar, sem merki þess, að honum mundi vera farið að hitna undir hjartarótunum; eins og að þar í grennd vart hefði orðið við jarðskjálfta, og höfðu merki þessi að undanförnu verið undanfari eldsuppkomu. Jöklanám mun annars venju framar hafa verið næstliðið sumar [meira bráðnað en venjulega].

Þjóðólfur segir þann 31.desember:

Þar sem hinni blíðu sumar- og haust veðuráttu sleit, hefir veturinn tekið við og haldið til þessa hér sunnanlands hinni bestu veðuráttu, og varla komið nema lítið föl, sem var ekki nema til bóta bæði fyrir útifénað og jörðina sjálfa. En nokkuð hefir hér verið frosthart á jólaföstunni. Frostið mun hafa orðið mest 13°R [-16,3°C]. Nokkru frostharðara og snjómeira var sagt að vestan um jólaföstu komuna, einkum i Dala- og Barðastrandarsýslum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1852. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu 20 dagar októbermánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga októbermánaðar er 6,0 stig í Reykjavík. Það er +0,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu ár og raðast í tíundahlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá var 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti 4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 43.sæti (af 145). Hlýjastir voru dagarnir árið 1959, meðalhiti 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti -0,3 stig.

Á Akureyri er meðalhiti í mánuðinum til þessa 4,1 stig, -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 en -1,0 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, hiti er þar í 8.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast á Suðausturlandi þar sem hitinn er í 14.hlýjasta sæti. Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gagnheiði, þar er hiti +1,0 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ár. Kaldast að tiltölu hefur verið á Kálfhóli á Skeiðum, hiti þar er -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 17,5 mm og er það innan við þriðjungur meðalúrkomu og hefur aðeins 9 sinnum mælst minni sömu daga, minnst 10,3 mm 1993. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 52,9 mm og er það um fimmtungur umfram meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst 72,2 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það í ríflegu meðallagi.

Óvenjuhægviðrasamt hefur verið í mánuðinum það sem af er, meðalvindhraði í byggðum landsins hefur ekki verið jafnlítill sömu daga síðan í október 1960 (en nákvæmur samanburður á vindhraða svo langt aftur er vandasamur).

Spár gefa nú í skyn að breytinga kunni að vera að vænta. Alla vega virðast þær sammála um að lægðir verði ágengari og dýpri heldur en að undanförnu. Skemmtideildir reiknimiðstöðva hafa meira að segja boðið upp á harla óvenjulega djúpar lægðir - jafnvel árstímamet á svæðinu - og jafnvel hér á landi líka. Enn er þó mikið ósamkomulag um þetta - lægsti miðjuþrýstingur sem sést hefur í þessum spám er 888 hPa - en ætli við teljum það ekki hreina dellu - (sýningaratriði) enda langt neðan allra meta. Það mun vera fellibylurinn Epsilon sem veldur mestu um metaóvissuna - hitti hann ekki nákvæmlega í verður minna úr en ella.
Hungurdiskar munu að vanda gefa metum gaum aukist líkur á slíku. - en Veðurstofan gefur út spár.


Hálfur október

Hálfur október. Meðalhiti í Reykjavík er 6,2 stig, +0,2 ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 11 hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2010, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti 3,8 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 44.sæti (af 145). Hlýjastir voru sömu dagar 1959, meðalhiti þá 10,2 stig, en kaldast var 1981,meðalhiti -0,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 4,5 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið kaldast á Suðurlandi, hiti raðast þar í 15.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast hefur verið á Vestfjörðum þar eru meðalhiti dagana 15 í 8.hlýjasta sæti aldarinnar.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gagnheiði, +1,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára en kaldast hefur verið á Hveravöllum þar sem hiti hefur verið -1,7 stigum neðan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 14,4 mm og er það innan við þriðjungur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 50,5 mm og er það um 70 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst 54 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.

Spár virðast gera ráð fyrir því að hiti verði fremur neðan meðallags heldur en ofan þess síðari hluta mánaðarins. 

 


Af árinu 1851

Tíð var yfirleitt talin hagstæð á árinu 1851 að því undanskildu að mjög slæmt hret gerði um mánaðamótin maí/júní og var óvenjukalt um tíma eftir það. Meðalhiti í Reykjavík var 4,6 stig, 0,1 stigi ofan meðaltals næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,1 stig, 0,6 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti á Akureyri var 3,5 stig. Sérlega kalt var langt fram eftir júnímánuði, hiti fór niður í frostmark í Reykjavík þann 14.júní og niður í rúmt 1 stig þann 19. og 20. Þann 5.júní var hámarkshiti þar aðeins 2,5 stig. Júlí og ágúst voru einnig fremur kaldir. Aftur á móti var sérlega hlýtt í desember (enn hlýrra heldur en í sama mánuði árið áður - sem þó var óvenjulegt). Hlýrri desember kom ekki í Hólminum fyrr en 82 árum síðar (1933), sama á við um bæði Reykjavík og Akureyri. Hlýtt var einnig í janúar, apríl, maí, september og nóvember. 

ar_1851t

Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík, en einn í Stykkishólmi, 26.desember. Hiti fór þó þrisvar í 20 stig í Reykjavík, 24., 25. og 26.júlí - en svalt var að nóttu. Einn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi, 24.ágúst, en í Reykjavík voru köldu dagarnir 12, þar af 8 í júní og 4 í ágúst. Kaldastur að tiltölu var 5.júní.  

Úrkoma í Reykjavík mældist 816 mm. Frekar þurrt var í mars, júní og júlí, en úrkomusamt í september og desember. 

ar_1851p

Meðalþrýstingur var sérlega lágur í janúar og sérlega hár í nóvember, hann var einnig nokkuð hár í apríl og í júní til september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík á nýársdag, 943,5 hPa, en hæstur á Akureyri 26.febrúar, 1040,5 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Þó heimildir um veður frá degi til dags megi teljast allgóðar er óvenjulítið ritað um veður og afleiðingar þess á árinu í heimildum. Blaðaútgáfa var að nokkru lömuð. Þjóðólfur, sem reyndar var allt of upptekinn af stjórnmálaþrasi til að skrifa mikið um veður, var bannaður í kringum Þjóðfundinn og kom ekki út um hríð. Lanztíðindi hættu líka að koma út (eitthvað þras þar líka). Þannig er t.d. litlar upplýsingar að hafa um almyrkva á sólu sem varð norðaustanlands 28.júlí. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. 

Gestur vestfirðingur tekur saman tíð ársins 1851 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:

Árið 1851 var ennú árgæska, sem hin fyrri árin. Janúarmánuður var hinn besti vetrarmánuður; því þó vindar væru af ýmsum áttum, og þó hagar spilltust nokkuð af blotum, sem komu milli kyndilmessu og góu, var veðrátta jafnan hagstæð og góð allt fram til sumarmála. Að sönnu komu frost nokkur á einmánuði; varð þá og vart við hafís fyrir norðan land, og um tíma sáu menn hann af fjöllum ofan á hafi úti. Góðviðri voru alla hörpu; en seinustu viku maímánaðar gjörði íkast með ofsaveðrum og fannkomu; linnti því hreti ekki fyrr en komið var fram í miðjan júnímánuð, og hafði ei jafnmikið hret komið allan veturinn áður; var þá ei óvíða, að sauðfé fennti og króknaði af kulda, einkum sauðir, er úr ullu voru komnir [Varð þó miklu minna af fjártjóni þessu hér vestra, en sagt var frá úr Norðurlandi, þar sem fé fennti hundruðum saman, og sumstaðar fennti hesta.] Af þessu kom kyrkingur í gróður þann, sem kominn var að vorinu. Eftir miðjan júnímánuð og júlímánuð út voru sífeldir þurrkar og veðurkyrrur svo miklar, að ei þóttust menn muna jafnmikil logn dag eftir dag. Í ágústmánuði voru vindar og úrkomur tíðari; en mest skipti um til rigningar og sunnanáttar í septembermánuði, og héldust vætur öðruhverju allan októbermánuð út. Nóvembermánuður var fremur skakviðrasamur, en frosta og snjóalítill, og þvílíkur var og desembermánuður. Ár þetta má að öllu aðgættu einnig teljast góðærisár.

Vetrarafli varð góður undir Jökli: minnstur hlutur ... Vestur um fjörðu varð sjáfarafli í meðallagi, enda þótt haustaflinn yrði víða rýr sökum ógæfta.

Þjóðólfur fer lauslega yfir tíðarfar ársins 1851 í pistli sem birtist þann 10.febrúar 1852:

Árið 1851, sem Þjóðólfur á nú yfir að lita, má að líkindum telja með hinum merkari árunum í „ævintýri Íslands", ekki svo fyrir þá atburði, sem orðið hafa í landinu af völdum náttúrunnar, heldur hins vegna, sem fram hefur komið í þjóðlífinu vegna þess anda, sem fyrir var í þjóðinni sjálfri. Og munum vér nú fara fáum orðum um hvorttveggja. Veðráttufarið veturinn út frá nýári mátti kalla gott, var það einkum úrkomulítið, og einatt logn og heiðríkjur er út á leið. Vorið var ákaflega kalt og næðingasamt allt fram að Jónsmessu. Þá komu fyrst hlýindi og veðrátta hin besta, hvervetna úrkomulaus, og hélst fram að höfuðdegi. En nú brá svo til rigninga, og hretviðra einkum allan september, að varla kom þurr dagur allt til árslokanna.

Brandsstaðaannáll [um árið í heild]:

Á þessu ári varð einstakleg tilbreyting á veðurlagi. Fyrst 10 vikna þurrviðri um vorið, annað fardagahretið, þriðja 6 vikna breiskjur og sólbruni, fjórða haustfannkyngjan og fimmta jólaföstuþíðan.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar suðlægt, frostalítið og nær því auð jörð til 20., þá snjóþyngsli til 27., svo bloti og góðviðri til 6. febr., þá landnorðan-hríðarkafli og úr því óstöðugt og jarðlítið; hross tekin inn til dalanna. Grimmir 3 fyrstu góudagar, síðan gott veður, en jarðleysi. 7.-9. mars vestan- og norðanhríð, kýrbylur kölluð. 17.-23 harka mikil.

Lanztíðindi lýsa þann 10.febrúar veðurfari í janúar:

Í þessum mánuði hefur veðurátta verið mjög óstöðug, og umhleypingasöm; lengst af hefur austanáttin haldist við, oft með hvassviðrum, sem stundum fljótlega hafa snúist til útsuðurs, suðurs eða landnorðurs, ýmist með éljum, og snjó lítilfjörlegum, eða, sem oftar verið hefur, með rigningum. Frost var ekki stöðugt nema frá þeim 17. til þess 23., að öðru leyti oftar þíður, einkum um daga, og seinustu 3 dagana var landnyrðingsveður, og þó frostlaust að kalla.

Lanztíðindi lýsa veðurfari í Reykjavík í febrúar þann 23. mars:

Fram eftir þessum mánuði allt til þess 18. var mjög óstöðug veðurátta, og vindasöm, ýmist á austan eða útsunnan, með rigningum eða snjógangi. Þann 18. og 19. var mikið norðan hvassviðri, en upp frá því var hægð, góðviðri, og stundum hæg austangola, og alltaf þurrviðri til mánaðarins enda.

Lanztíðindi segja þann 10.mars almennt af árferði:

Það sem af vetrinum er hefur veðurátta allstaðar þar sem tilspurst hefur hér á landi, verið góð og þó hún sumstaðar hafi verið nokkuð umhleypingasöm, hafa þó frost og hörkur verið með minnsta móti. Með öllu Norðurlandi hefur verið óvenjulegur fiskiafli, einkum á Eyjafirði og er mælt, að þar séu komnir 18 hundraða hlutir frá því á haustnóttum og til þorrakomu. Þar á mót hefur verið lítið um fisk vestra og með þorrakomu var í veiðistöðum undir Jökli mestur 1 hundr. hlutur, en hæglega getur ráðist hót á þessu enn, því þar er oft vant að fiskast vel þegar fram á kemur ef gæftir eru góðar. Sunnanlands hefur og verið fátt um fisk til þessa.

Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í mars í pistli þann 15.apríl:

Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austan og norðan kæla á víxl, og gott veður; þá næstu 4 daga frá 6. til 9. var útsynningur og vestanátt, ýmist með snjóéljum eða regnskúrum, en frá því, til mánaðarins enda var oftast austan landnorðan átt, og frost, einkum á næturnar, þó oft yrði frostlaust um daga; þann 31. var hvasst veður á austan með rigningu.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á Maríumessu [25.mars] blíðviðrisbati, svo gott og þurrt til páska, 20.apríl. Eftir þá alljafnt frostasamt. 6. maí sást fyrst gróður í úthaga. 9.-12. heiðarleysing. Hey gáfust mjög upp og töðuskortur mikill var í fardögum, ásamt gagnsskortur kúa. Hross gengu af, þar jarðasælast er í Skagafirði. Frá 10. mars til 20. maí kom engin úrkoma, en á uppstigningardag, 29. maí, gerði hið mesta bleytu-fannkomu-ofviðri og um nóttina hljóp á norðanhríð. Fé nýrúnu lá við dauða, áður en næðist inn og króknaði í ofviðra plássum. Enginn mundi slíkt áhlaup á þeim tíma.

Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í apríl í pistli þann 15.maí:

Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austanátt með rigningu, einkum þann 4. og 5., en frá því, og til mánaðarins útgöngu, hefur oftast nær verið hæg landnyrðings- eða vestanútnyrðingskæla, með næturfrosti næstum á hverri nóttu, og hefur hvorki regn né snjór fallið á jörðina, nema lítið snjóföl þann 14., er því engin gróður kominn á jörðina vegna þurrka og næturkulda, en að öðru leyti hefur verið besta veðurátta til sjóróðra, því vindur hefur oftast verið mikið hægur og stundum logn og heiðviðri.

Þjóðólfur segir þann 13.júní:

[Þann] 20. dag maímánaðar var hér rok mikið og hroði á vestan. Þá hleypti Norðmaður, sem lagður var út héðan fyrir fáum dögum, aftur inn í flóann, og náði inn á Skerjafjörð; missti hann fyrir framan Vatnsleysuströnd einn af mönnum sínum og skipsbátinn. En til þess tóku þeir, sem sáu, hve fimlega og kunnuglega Norðmaður stýrði í því veðri og innan um þau sker; enda eru Norðmenn bestu sjómenn. Sama dag kom hér inn á höfnina póstskipsherra Aanensen; hann er Norðmaður líka, og kallar ekki allt ömmu sína, þó loft og lögur leiki saman; en það trúi ég, að honum hefði ekki fundist til þessa sumarveðurs vors.

Þann 30.maí segir Þorleifur í Hvammi frá snjófalli og skaflar séu komnir. 1.júní festi snjó í éljum, 4.júní „festi snjó hádag, en birti að kvöldi“, 5.júní „snjór í sjó niður með sköflum og 25.júní „frost og héla að nóttunni“. Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 31.maí og 2.júní. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Aftur kom 1.júní norðan-fannkomuhríð í sífellu um 9 dægur. Ókjör af stórfenni rak niður til fjalla, fyllti hlíðar, gil og stíflaði kvíslar, svo fjöldi sauða og gemlinga fennti á Reynistað, Vík og víðar og hér mest á Höskuldsstöðum, um 100 fjár á þessum 3 bæjum og margt náðist úr fönn. Um 30 hross fórust í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Eftir hretið frostasöm þurrviðri. Ei kom frostlaus nótt til fjalla að sólstöðum. Eftir það grasviðri og góð tíð. ... Í júlí lengst þurrkar. Grasbrestur var á túnunum. Með hundadögum farið að slá. Náðist illa af þeim vegna breiskju og bruna. Gekk illa heyskapur á harðlendi. 25. ágúst skipti um til votviðra. 28. alsnjóaði. Eftir það kom allt hey, en þeim því slepptu varð hey ónýtt allmikið utan í Langadal, sem 16.-17. sept. náðist í vestanstormi að mestu. Eftir það kom enginn þerrir. Nokkuð svældist inn um Mikaelsmessu. Í göngum á þriðjudag vestanhríð [sennilega 23.september], miðvikudag norðanfannkoma og 30. september [líka þriðjudagur] mikil fannkoma, versta veður og færð í öllum göngum.

Þorleifur í Hvammi nefnir sólmyrkvann 28.júlí: „Sólmyrkvinn álíka og hálfrokkið inni í húsum, en hálfhúmað úti“. Þann 9.júlí segir athugunarmaður í Siglufirði að nógur hafís sé útifyrir og daginn eftir, 10.júlí „mikið frost í nótt“. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

[Þann] 8.-9 okt. rifu menn hálfblautt hey úr snjóhrafli og létu inn. Það þá var eftir varð úti meira og minna hjá flestum í öllum sveitum og mikið ást upp í svo langri snjóatíð um og eftir göngur. 11.-12. okt. gerði mikla rigningu, en fönn til fjalla, en. 13. snjóhlaðning, 14. stórhríð og 15. enn snjókoma. 16. birti upp hér, en hlóð niður mestu fönn austan Vötn, fram í dali. Varð jarðlaust og ófært yfir af fanndýpt til hálsa og framdala, en augaði í árbakka og með vötnum á litlum rima til lágsveita. Fé varð ei sumstaðar heim komið úr högum á 2 dögum. Hross og fé tók út hungur. Fönnin lá á og rýrnaði lítið, þó frosthægt væri, þar til 27. okt., að jörð nokkur kom upp. Aftur hríð og fönn til, 1. nóv., þann 3. harka mikil. Eftir það frostalítið mánuðinn út, svo ár lagði ei. 4.-9. þíða, svo nóg jörð gafst úr því, oft blotar og slyddusamt og urðu svellalög mikil. Með desember frost og staðviðri 6 daga, 4.-6. hláka og 14.-15. heiðarruðningur og eftir það þíður og leysti vötn í sveitum og flóar urðu þíðir, auð fjöll og heiðar á jólum, en vatnsagi var mikill í jörð og á.

Ný tíðindi segja 20.janúar 1852 frá fjárskaða í Þingvallasveit og víðar:

[Þann 23.nóvember] varð séra Símon Bech á Þingvöllum fyrir fjárskaða miklum. Var það í útnyrðingsbyl og ákafri fannkomu, að sauðirnir hröktust niður í hraungjá eina, sem liggur vestur úr Almannagjá fyrir ofan Öxarárfoss. Voru þó fyrst 2, en síðan 4 menn hjá fénu, en þeir gátu engu við ráðið. Þegar þeir sáu, að féð fór að fjúka niður í gjána, fóru þeir niður í hana, og reistu hverja kind á fætur, sem niður kom; því allt kom féð lifandi niður. Svo reyndu þeir og að koma því fram úr gjánni, en gátu það ei. Hættu þeir þá við, og ætluðu varla að komast heim um kveldið; því svo var veðrið þá illt orðið og fjarskalegt. Daginn eftir var gjáin full orðin af harðfenni. Voru þá fengnir menn til að moka upp gjána, og voru þeir að því 6 daga. Fátt eitt af fénu náðist lifandi, en á milli 70 og 80 dautt. — Gjáin kvað vera hér um bil 2 faðma breið, 4 faðma djúp og slétt í botninn. — Sama dag heyrist, að nokkrir fjárskaðar hafi orðið bæði á Hæðarenda í Grímsnesi, og í Eyvindartungu í Laugardal, en ekki höfum vér heyrt um þá greinilega sögu, né heldur, hvert þeir hafi víðar orðið.

Þann 10.mars segja Ný tíðindi frá mannskaða í sama byl: „Maður varð úti á Hrófá í Steingrímsfirði í hríðinni 23. [nóvember]“.

Þann 17.desember segir Jón Austmann í Ofanleiti að farið sé að grænka og Þorleifur í Hvammi segir að á jólum hafi jörð verið þíð og snjólaus. 

Þjóðólfur birti þann 27.mars 1852 úr bréfi úr Múlasýslu - þar segir:

Með nýári 1851 kom víðast um Austurland talsverður snjór, þó mestur efst til inndala, og tók þar þá víða þegar fyrir jörð, bæði af snjóþyngslum og blotum, sem bræddu allt í svell, kom þar víða ekki upp jörð aftur fyrr en á einmánuði. En allstaðar til útsveita og við sjávarsíðu hlánaði snjór þessi aftur, og héldust víðast nægar jarðir fram úr. Stillingar og veðurblíður voru allstaðar miklar fram á vor, svo, þegar hálfur mánuður var af sumri, var besti stofn kominn á gróður. En eftir það skipti um; komu þá norðansvakar, snjóáfelli og grimm frost, svo jörð kól upp aftur. Héldust kuldar þessir fram að túnaslætti, svo grasbrestur var þá hræðilegur. En seint í júlí kom votviðrakafli svo sem vikutíma, og skánaði þá grasvöxtur nokkuð. Eftir það komu hitar miklir, sem héldust fram í september, og oftast þurrviðri til septemberloka; heyjaðist því víðast öllum vonum framar, því nýtingin varð svo góð. Haustið var líka sérlega gott, og vetur þessi fram til nýjárs, sífellt þurrviðri og veðurhægð og frostleysur; mátti varla heita að föl kæmi nokkurn tíma í byggð, svo það stæði við degi lengur, enda var lömbum ekki kennt át fyrr en nú frá með nýjárinu. Að aflabrögðum til var ár þetta í meðallagi. Fjársýkin, sem verið hefur hér skæð að undanförnu, var þetta árið með vægasta móti.

Þann 2.júní 1852 birtu Ný tíðindi lýsingu á loftsjón sem sást norðanlands 26.október. Við birtum aðeins inngang frásagnarinnar hér. Þann 29.júlí 81852] birtist í blaðinu almenn umfjöllun um loftsteina, líklega eftir Björn Gunnlaugsson. Hann dregur þar saman fróðleik um fyrirbrigðið eins og menn best vissu á þeirri tíð:

Á sunnudaginn fyrstan í vetri [26.október] nær miðjum degi, í heiðríku lofti og glaðasólskini, sáu fáeinar manneskjur mikinn ljóshnött líða frá austri til útvesturs (lágt á lofti) yfir norðurloftið. Hafði sá verið, að sagt var, vel svo mikill fyrirferðar á himni, sem tunglið er, og svo bjartur, sem líkast væri að sjá til sólar gegnum þunna bliku, og engin duna heyrðist til þessa.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1851. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Öflug hæð

Nú er öflug hæð fyrir austan land. Hún stíflar nokkuð framrás lægða og skilakerfa til austurs þannig að þau sveigja til suðausturs og gætu grafið þar um sig næstu daga - og smám saman unnið á hæðinni.

w-blogg121020a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á morgun (miðvikudaginn 13.október). Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstefnu háloftanna. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hæðin er 5780 metrar í miðju. Það er ekki met, en telst samt fremur óvenjulegt í október á þessum slóðum. Mjög hlýtt loft fylgir hæðinni - við sjáum að þykktin er meiri en 5520 metrar þar sem hún er mest (norðaustur af landinu). Allt landið er þakið meiri þykkt en 5460 metrum - heiðarlegt sumarástand. 

Hlýindin ná að minnsta kosti niður í fjallahæð. Spáð er meir en 10 stiga hita í 850 hPa-fletinum yfir Austurlandi síðdegis á morgun (yfir 20 stiga mættishita), og 13 stigum í 800 metra hæð við Austfjarðafjöll. Þetta er óvenjulegt í október. Vindur er hins vegar svo hægur á þessum slóðum að engin spá gerir ráð fyrir því að byggðir muni njóta þessa hita sérstaklega - að vísu fer hiti í meir en 10 stig sem telst nokkuð gott í október. En það er svosem aldrei að vita hvað gerist nærri háum fjöllum eystra. - Happdrættið er alla vega í fullum gangi - þó vinningslíkur séu litlar. 


Af árinu 1850

Árið 1850 var talið hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 0,4 stigum neðan við meðalhita næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,2 stig, -0,3 stigum neðan meðalhita þánýliðinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti 2,6 stig. Hlýtt var í apríl, september og desember, sérlega kalt var í ágúst og fremur kalt var einnig í janúar, febrúar, maí, júní og október.

ar_1850t

Hiti fór tvisvar í 20 stig í Reykjavík, mest 23,8 stig þann 25.júlí - og var sá dagur sá eini þar á árinu sem telst mjög hlýr (í langtímasamanburði). Tuttugu dagar voru hins vegar kaldir í Reykjavík, 14 þeirra í ágúst, hinn 19.kaldasti dagur ársins að tiltölu og bæði þann dag og þann 14. fór næturhiti í Reykjavík niður í frostmark, sem er óvenjulegt. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir 11, þar af 8 í ágúst. Þá hrímaði eina nótt við Ofanleiti í Vestmanneyjum (sjá hér neðar) og snjóaði víða norðanlands. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 833 mm. Þurrt var í apríl, en úrkomusamt í febrúar. 

ar_1850p

Meðalþrýstingur var fremur hár í mars, og einnig fremur hár í janúar, og júlí til október, en fremur lágur í febrúar, júní og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi síðasta dag ársins, 31.desember, 947,8 hPa en hæstur í Stykkishólmi 23.mars, 1047,3 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Áberandi lítið er rætt um veðurlag á Austurlandi - nánari upplýsingar um það kunna að finnast við ítarlegri leit. 

Gestur vestfirðingur lýsti tíðarfari ársins 1850 í pistli sem birtist í blaðinu árið 1855:

Árið 1850 hófst vestra með góðviðrum og þíðum, en síðan komu fannalög, hvassviðri og umhleypingar; sjaldan voru þó frost mikil, en haglaust allvíðast frá því viku fyrir þorra allt fram á miðgóu; þá kom hagstæð hláka, er stóð í 10 daga, og var þaðan frá til sumarmála jafnan góð veðrátta. Vorið var fremur kalt, og langt frosthret gjörði með fjúki eftir miðju maí; rak þá hafís víða að landi á Vestfjörðum; ísinn tók að sönnu skjótt frá landinu aftur, en sást þó lengi frameftir sumri af farmönnum í höfum ekki langt undan landi. Miðsumarmánuðurinn (júlíus) var jafnast kaldur og þurrkar miklir; grasvöxtur varð því í lakara lagi vestra, nema á votlendi; aftur varð heynýting einhver hin besta sökum hægviðra og þerra. Septembermánuður var að sönnu vætumeiri, en þó hagstæður til aðdrátta; októbermánuður var fremur skakviðrasamur, en í nóvember og desember var snjókoma lítil og frost að því skapi væg, og veturinn því góður fram á nýár; svo ár þetta mátti kalla árgæskuár eins og hin næstu á undan.

Afli var góður víðast um Vestfjörðu, en þó einna bestur á Ísafirði; því aukist hefur þar afli og haldist, að kalla má, árið um kring. Undir Jökli urðu vetrarhlutir 4 hundruð og þaðan af minni; en vorhlutir í Dritvík urðu að meðaltali um 2 hundruð. Steinbíts- og þorskafli vestur um fjörðu var að sínu leyti þessu líkur. Í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp var bestur afli með skipi 50 hundruð þorsks og 90 skötur, sem gjörðu 1 tunnu lifrar. Í Arnarfirði var besti haustafli, hæstur hlutur 800 af þorski og ýsu. Í Steingrímsfirði 4 hundraða hlutir og þaðan af minna; þótti sá afli nýlunda þar. Á Breiðafirði var aflinn rýrari, líkt og árin hér á undan. Hákarlsaflinn varð víðast í góðu meðallagi.

Árið 1850. 9. dag mara urðu 2 kvenmenn úti í áhlaupskafaldi milli bæja í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Þá datt og unglingspiltur ofan af ísjaka í Mjóafirði í Ísafjarðarsýslu, og beið þaraf bana. Á vetri þessum týndist maður í Dýrafirði í snjóflóði, og er sagt, að það bæri uppá sama dag, sem stúlka fórst frá sama bæ veturinn áður. Í maímánuði hrapaði maður til bana í Önundarfirði. Þá drukknaði og maður af hesti í Steingrímsfjarðarbotni; hann var úr Saurbæ, og var mælt, að hann hefði drukkinn verð; þá datt maður út af fiskiskútu frá Flatey, og annar af „Svaninum" frá Ólafsvík, og varð ei bjargað. Í nóvembermánuði varð kvenmaður í Steingrímsfirði úti í kafaldsbil. Á sumri þessu týndist þilbátur, sá er „Tréfótur" hét, úr Önundarfirði; áttu þeir hann Guðmundur Bjarnason og Jón Bjarnason á Sæbóli, bændur, og stýrðu honum synir þeirra, Pálmi Guðmundsson og Kristján Jónsson. Það vissu menn síðast til, að skúta þessi var að hvalskurði á hafi úti í hvassviðri, og halda menn, að þiljur hafi opnar verið, en skútan þrauthlaðin, og muni þetta hafa orðið henni að tjóni. 15. júní týndist skip með 4 mönnum á Ísafirði á leið frá Æðey til Skálavíkur; var þar á bóndinn frá Skálavík og stjúpsonur hans. 18. desember týndust 4 menn af báti á Ísafirði, og bar það svo við, að bátur sá var á heimleið frá Ísafjarðarkaupstað, fyllti þá bátinn af grunnboðum, og hvolfdi örskammt frá landi norður frá Arnardal. Á bátnum voru 6 menn, og varð tveimur þeirra bjargað; meðal hinna, er drukknuðu, var og sóknarpresturinn úr Grunnavík, Hannes Arnórsson prófasts Jónssonar úr Vatnsfirði. Hann var gáfumaður og skáld, enda er haft eftir þeim tveimur mönnum, er bjargað var, að presturinn, sem komst með þeim á kjölinn, hafi þá orkt og mælt fram með sálarstyrk allmiklum vers hjartnæmt mjög; en ekki námu þeir versið.

Þjóðólfur dró stuttlega saman veðurlag ársins 1850 í pistli sem birtist 15.janúar 1851:

Veturinn 1849 og 50 má vist telja með betri vetrum að veðuráttufari til. Eftir stutt en hart íhlaup, sem kom snemma í nóvember [1849] viðraði svo, að ýmist var hæg sunnanátt og mari, eða þá norðankæla og hreinviðri með vægu frosti. Hélst sú veðurreynd fram yfir miðjan vetur. Úr því tók heldur að snasa að með snjógangi og hryssingi, en aldrei var frost til muna, og var veðrátta heldur umhleypingasöm veturinn út. Vorið var venju framar kalt fram eftir öllu, og varð því gróður víða hvar með minnsta móti. Eins var sumarið fremur kalt, en þurrkasamt, og hélst sú veðurreynd til veturnótta, hefur og haldist svo allt fram að árslokunum, að minnsta kosti á Suðurlandi, að varla hafa menn haft af vetri að segja. Vetrarvertíðarafli var þetta ár mikill í flestum útverum, en með minnsta móti allstaðar innan Faxaflóa, og brugðust bændum net enn meir, en árið áður.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Sama góða vetrarfar hélst til þorra, blotasamt og frostlítið; á honum jarðleysi, sumstaðar lítil snöp. 24. febr. kom jörð upp. Aftur með mars köföld og smáblotar, jarðlítið. 11.-12. mars rigning mikil, vatnsgangur og skriðuskemmdir miklar á túni og engjum, þar eftir þíður, svo vel gaf að moka skriður.

Lanztíðindi segja 28.febrúar af veðurlagi í Reykjavík í janúar:

Í þessum mánuði hefur, líkt og i næstundanfarandí verið hin besta og mildasta vetrarveðurátta, austan og landnorðan átt hefir lengst af viðvarið, þó oftast hæg, nema þann 7. var hvassviðri, fyrst á austan landsunnan, þann 8. líka hvasst á útsunnan með éljum, og þann 9. framan af degi, en um kvöldið gjörði ofsaveður af suðri, með stórrigningu og miklum skruggugangi, um miðnætti hægði veðrið og gekk til vesturs. Eftir það þann 12. kom hin hæga austanátt sem áður var, og hélst við til mánaðarins enda; 22 dagar hafa einhverntíma orðið frostlausir, en einar 5 nætur voru þíðar til enda svo, að frost hefur ekki verið stöðugt dag og nótt, nema eina 9 daga, og þó þiðnað oft á milli þeirra. Töluvert vetrarfrost var ekki, nema 5 daga, þ. 25. til 29.

Lanztíðindi segja 20.mars af veðurlagi í Reykjavík í febrúar:

Þá fyrstu 9 daga af þessum mánuði var eins og að undanförnu í vetur góð veðurátta, og hæg, með landnyrðingskælu og litlu frosti; en strax eftir það varð bæði meira frost með köflum, og einkum mikið snjófall með hvassviðri af ýmsum áttum. helst af útsuðri, austri og landsuðri, og tvisvar með mikilli blotarigningu, þ. 24. og 28., svo að seinni hluta mánaðarins, hafa lengst og mest verið köföld og illviðri.

Lanztíðindi segja 6.apríl af veðurlagi í Reykjavík í mars:

Fyrstu 10 dagana af þessum mánuði var sama veðurátta og seinast í febrúar, ýmist landnyrðings hvassviðri með köföldum, og stundum blotum, þegar vindáttin komst í landsuður, eða útsynningsstormi t.a.m. þann 9., með kafaldséljum eða rigningu; upp frá þeim 10. var þíðviðri og hláka, fyrstu 3 dagana með rigningu af suðri og landsuðri, svo allan snjó leysti af láglendi, síðan var hægð og góðviðri í viku, oftast með hægri austanátt, og frostleysu, en þann 22. byrjaði hart norðankuldakast, sem varaði á sjötta dag, var þá frost oft 10° og stundum lítið minna; þó féll enginn snjór þá daga. Seinustu dagana var aftur hægð og gott veður.

Eggert Jónsson athugunarmaður á Akureyri segir að 21. til 29.mars hafi hafís rekið um við Norðurland - en hann hafi horfið dagana 4. til 13.apríl, en síðan snúið aftur 6. til 15.maí.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir 23. [mars] frostasamt og í apríl lengst af þurrt og stillt frostveður. Með maí grænkaði í túni. 6.-12. [maí] hríðarkast mikið og harka á nætur. Bar þá mikið á töðuskorti. Um krossmessu gott, en aftur kuldakast og mikil hríð ytra 23.-29. maí.

Lanztíðindi segja 7.maí af veðurlagi í Reykjavík í apríl:

Strax í byrjun þessa mánaðar minnkaði kuldinn. er var seint í mars, og varð gott veður með austan- og landnyrðingskulda, þó oftar með hægð, en hvassviðri og stundum logn, frost var aldrei heilan dag til enda. en næturfrost við og við, til þess 24.; þann 14. rigndi nokkuð til muna, annars lítið, og eftir þann 15. ekkert til muna, en þurrt veður, hæg austanátt og góðviðri viðhélst til mánaðarins enda.

Lanztíðindi segja 15.júní af veðurlagi í Reykjavík í maí:

Þessi mánuður var að sínu leyti miklu kaldari en apríl, fyrstu 2 vikurnar var oftast nær töluverði næturfrost með köldum landnyrðingi, stundum með kafaldi eða vestan útsynningi með éljum, eða krapaskúrum. Eftir miðjan mánuðinn hlýnaði dálítið og var oft hægð og gott veður, en þó kalt og næturfrost við og við, nema seinustu 3 næturnar, þá var austanátt og rigning, svo jörðin fór að grænka.

Þann 7. maí segir Jón Austmann í Ofanleiti frá norðan bálviðri, kollheiðu veðri, en skarafjúki. Hita segir hann svo: Kl.9: -4, kl.12 -5, kl.15 -6. „Ísdringlar yfir gluggum viknuðu ekkert á móti sólu“. Þorleifur í Hvammi segir að þann 23.maí hafi verið snjókóf að nóttu og þann 24.maí rak inn hafíshroða á Siglufirði að sögn athugunarmanns. 

Þann 15. júní birtist í Lanztíðindum fróðleikspistill um vindhraða og ísrek:

Afl og hraði vindsins. Menn hafa gjört margar athugasemdir um afl vinds hér. Ályktanir segja, dregnar af þessum athugunum: Hægasti vindur (andvari, blær), eða sá vindur, sem menn finna aðeins, fer 5,400 fóta langan veg á klukkustundu hverri, nokkuð meiri vindur (kalda-korn) fer 10.800 fet, golu-vindur 21.600, stinningskaldi 58.800, storm-korn 108.000 til 216.000, stormur eða hvass vindur 313.200 og fellibylur, eða sá vindur, sem þeytir um koll og brýtur bæði hús og tré, 416.000, eða 135 fet á einni sekúndu. Það er alkunnugt, að á sama tíma blása oft vindar úr gagnstæðum áttum. þannig að annar vindur er ofar eða hærra í lofti uppi, en hinn. Sjófarendur hafa þráfaldlega tekið eftir því, að ísar í norðurskautshöfunum hala borist i tvær gagnstæðar áttir, svo að annar jakinn hefur sýnst renna þvert á móti vindi, er annar hefur farið undan vindi og kemur þetta af því, að jakar þeir, sem fara móti vindi, ná dýpra niður í sjóinn og berast af strauminum í djúpinu, sem þá mega sín meira, en vindurinn á þeim hluta jakanna, sem upp úr sjó stendur og minni er fyrirferðar. Af því að nú jakarnir standa mishátt upp og mislangt niður í sjóinn, þó þeir séu hvor hjá öðrum, eða í sömu ísbreiðunni, þá verkar líka vindur og straumur misjafnt.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní allgott. 25. brutust lestamenn suður, en 27.-28. gjörði mikið hret og vatnsaga, svo, stöku kindur króknuðu og fráfærur frestuðust til 30. júní. 4. júlí bati góður og enn þann 12. stórrigning með kalsa. Gras varð lítið fyrir ofvætu og oft kulda. Sláttur byrjaði með hundadögum. Fékkst þá góð rekja og þerrir til 29. júlí til 3. ágúst. Taða varð í minna lagi. Engi spratt lengi. Þó varð rýr heyskapur. 16. og 21. ágúst rigndi mjög og snjóaði. Fennti þá nokkuð af lömbum í norðurfjöllum og fylgdu því kuldar út mánuðinn. Í september góðviðri og nýting góð, 15. [september] flóð í jökulám.

Lanztíðindi segja 1.ágúst af veðurlagi í Reykjavík í júní:

Fyrstu 6 dagana var landsynningur með hægu regni, og gott vorveður, svo þá vikuna spratt vel gras, en frá því voru oftast norðankælur og heldur kalt í veðri, allt til mánaðarins enda, en lítið regn, og skjaldgæft. Þann 28. og 29. var norðan hvassviðri, en annars oftast hægvindi.

Þann 28.júní segir athugunarmaður á Siglufirði að snjóað hafi niðrum byggð. 

Lanztíðindi segja 6.september af veðurlagi í Reykjavík í júlí:

Framan af þessum mánuði var oftast hæg norðankæla og heldur kalt á næturnar, og þurrt veður, en frá þeim 6. var stundum þoka með sudda smáskúrum af vestri og útsuðri, og sjaldan vel hlýtt í veðri; frá þeim 16. til þess 21. var gott og bjart veður, og frá því þurr og hæg austan og sunnan átt til þess 28., en seinustu 4 dagana var aftur vestanátt, með þoku og rigningu.

Þorleifur í Hvammi segir að þar hafi verið snjóél í 1° hita aðfaranótt 2.júlí. Þann 24. og 25.júlí fór hiti í yfir 20 stig á Akureyri og þann 23. og 25.júlí á Odda á Rangárvöllum (23,2 stig). Sama dag (25.) fór hiti í 23,8 stig í Reykjavík. 

Lanztíðindi segja 6.október af veðurlagi í Reykjavík í ágúst

Fyrstu vikuna af þessum mánuði var hæg vestan átt með þoku og suddaskúrum, en frá því var næstum allan mánuðinn þerrir, með oftast hægri norðanátt, og oft heldur kalt í veðri, einkum frá þeim 18. til 23., því þá var hvass norðanvindur. Seinustu 2 daga mánaðarins voru regnskúrir af útsuðri og þoka.

Jón Austmann í Ofanleiti segir af hrímfalli þar í heiðríkju aðfaranótt 23.ágúst. Þá segir af Siglufirði að þar hafi þann 21.alsnjóað í nótt - bleytuhríð svo alhvítt er. 22. ágúst - alhvítt enn yfir allt. 23. ágúst: Snjókoma í nótt svo alhvítt var í morgun. Eggert á Akureyri segir þann 21. ágúst af Snjókomu og slyddu til kl.15 (hiti 0,8 til 2,3 stig) og daginn eftir að snjóað hafi af og til. 

Lanztíðindi segja 1.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í september

Fyrstu 12. dagana af þessum mánuði var góð veðurátta með hægri austanlandnyrðingskælu, og jafnan þurrt veður, og nýttist því heyskapur manna vel. Frá þeim 12. til 20. var austan og sunnanátt með rigningum, en þornaði aftur eftir þann 20. með ýmist logni og góðviðri, eða landnyrðingskælu og hægri vestanátt, en rigndi sjaldan að mun, svo góð nýting hefur orðið á heyjum allstaðar hér nálægt.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haust gott og hretalaust til 13. okt., þó sama góðviðri eftir það 27. okt. Lagði þá á mikla fönn og þunga skorpu. 10. nóv. varð jarðlaust fyrir fé í lágsveitum, en betra til dala og fjallabyggða. Veður var oftar frostalítið, óstöðugt og slyddusamt. 17. kom upp snöp og voru mikil svellalög með jólaföstu, en með henni kom stöðug, góð hláka um 12 daga, svo allan gadd tók af heiðum. Eftir það besta tíð til nýárs. (s170)

Lanztíðindi segja 12.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í október

Fyrstu 5 dagana af mánuðinum var austanvindur, og þann 5. stórrigning; frá því var oftast hæg veðurátta lengi fram eftir mánuðinum, og stundum logn og besta veður, nema einstaka daga var útsynningur með hvassviðri og rigningu, þann 11., 12. og 13. með vestanvindi og hagléljum, þann 21. með þoku og stórrigningu, og 22. með þurru hvassviðri á vestan; eftir það var austan- og norðanátt til mánaðarins enda. Eftir þann 14. var flestar nætur frost, en ekki viðhélst það allan daginn, fyrri enn þann 28, Snjór féll ekki á láglendi fyrri| enn þann 29, sem þiðnaði aftur eftir 3 daga.

Lanztíðindi segja 10.desember af veðurlagi í Reykjavík í nóvember

Þann 1. dag mánaðarins kom skyndilegt hvassviðri upp úr logni að kalla, litlu fyrir hádegi, sem varð skaðræðisveður fyrir nokkra menn, er á sjó voru; frá því var oftast hægð og gott veður lengi fram eftir mánuðinum ýmist með landnyrðingi, eða útsynningi með þoku og þíðum, til þess 16. Eftir það var frost við og við, og einkum á næturnar, til útgöngu mánaðarins, með austan og norðanátt, nema seinasta daginn var hláka og rigning á austan-landsunnan.

Þjóðólfur segir 1.desember:

Fyrsta dag nóvembermánaðar brast á upp úr logni hastarlegur stormur með hafróti á vestan útsunnan; týndist þá bátur með 4 mönnum ofan úr Andakíl, er lagt höfðu héðan frá Reykjavíkursandi. Hefur báturinn að líkindum farist fram undan Kjalarnesstöngum, því sagan segir, að þar hafi rekið á land 8 brennivínskútar auk stóru ílátanna; og má þá segja út af atviki því, eins og mælt er, að Steingrímur biskup hófsami hafi sagt við prest einn, sem átti dagleið fyrir höndum, og reiddi 2 pottflöskur fyrir aftan sig: ekki ætlið þér þó að fara nestislaus, prestur góður! [Einn mannanna var Jón Pálsson, langa-langa-langafi ritstjóra hungurdiska, þá bóndi á Hvanneyri]. Í þessu sama veðri týndist líka róðrarbátur í Vogum með 2 mönnum; en þriðji maðurinn bjargaðist í land.

Lanztíðindi segja 10.janúar 1851 af veðurlagi í Reykjavík í desember 1850:

Allan fyrri hluta mánaðarins eða til þess 15. var oftast austanvindur, stundum með þoku og rigningu eða hvassviðri, en alltaf þíðviðri; frá þeim 15. til þess 20. var norðankæla, þó oftast hæg, og frost, og féll hrím á jörðu; eftir þann 20. og til mánaðarins enda, var ýmist austanvindur, með rigningu eða snjógangi, eða þegar vindurinn hljóp í útsuður, með útsynningséljum, Ýmist með þíðu eða frosti, svo að seinni hluta mánaðarins hefur verið óstöðug og umhleypingasöm veðurátta.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1850. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar októbermánaðar

Meðalhiti fyrstu 10 daga októbermánaðar er 5,3 stig í Reykjavík, -0,7 stigum neðan meðaltals sömu daga árin 1991 til 2020, en -1,2 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 13.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá 9,7 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti 2,6 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 81.sæti (af 145). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 1959, 11,0 stig, en kaldastir 1981, þá var meðalhiti aðeins 0,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 3,7 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,1 stigi neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu árin.

Kaldast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi, þar raðast hitinn í 15.hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast hefur verið á Austfjörðum þar sem hitinn er í 9.sæti.

Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest í Oddsskarði, +1,0 stig og +0,9 stig á Gagnheiði, en neikvætt vik er mest á Hveravöllum, -2,8 stig.

Úrkoma hefur mælst 5,4 mm í Reykjavík, aðeins sjöttihluti meðalúrkomu sömu daga 1991 til 2020 og hefur aðeins 9 sinnum verið minni sömu almanaksdaga, síðast árið 2010. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 48,6 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst 42,8 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband