Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Enn af júní síðastliðnum

Við lítum á meðalhæð 500 hPa-flatarins í nýliðnum júnímánuði og vik hennar frá meðallagi. Við þökkum Bolla Pálmasyni fyrir kortagerðina. 

w-blogg110719ia

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik sýnd með litum. Jákvæð vik eru rauðleit, en þau neikvæðu blá. Sjá má að mikil og þrálátur hæðarhryggur var fyrir vestan land, 500 hPa-flöturinn þar mun hærri en venjulega. Fyrir austan land var hins vegar lægðardrag sem teygði sig langt til suðurs og var flöturinn mun lægri en venjulegt er suðvestur af Bretlandi. Norðanátt var ríkjandi í háloftum yfir landinu. 

Allir muna vonandi enn að fremur hlýtt var sunnanlands, en svalt fyrir norðan. Norðanáttin var að þessu sinni af þurru gerðinni, enda algengast í júní að loftið væri komið yfir Grænland heldur en úr austri eins og stundum er með norðanáttina. Sérlega sólríkt var fyrir sunnan, en dumbungsveður nyrðra - en úrkoma ekki mikil nema rétt á bletti við ströndina á Austurlandi norðanverðu. 

Svo virðist sem norðanáttin hafi ekki mjög oft verið jafneindregin í júní og hún var nú, helst að finna megi svipað 2011 og 2012. Júní 2011 var alveg sérlega kaldur - engin mildandi hæðarhryggur í næsta nágrenni, en júní 2012 var heldur líkari júnímánuði nú  - Grænlandsloft þá í háloftum frekar en norrænn bleytukuldi eins og árið áður. 

Þetta er mjög ólíkt stöðunni í fyrra, en þá var hæð 500 hPa-flatarins langt undir meðallagi fyrir vestan land, en yfir því við Bretland. Ekki á vísan að róa varðandi veðrið - engu að treysta. 

Við skulum nú fara á dálítið hugarfyllerí - heldur sterk blanda höfð um hönd og ábyggilega ekki fyrir alla að ganga með - þakka þeim sem ekki treysta sér lengra fyrir samfylgdina.

Landsmeðalhiti í nýliðnum júnímánuði reiknaðist 8,7 stig, +0,4 stigum ofan meðallags síðustu 80 ára - þrátt fyrir það að norðanátt var umtalsvert þrálátari heldur en að meðaltali. Oft hefur hér á hungurdiskum verið fjallað um samband þykktar (mismun á hæð 500 hPa og 1000 hPa-flatanna) og hita á landinu. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þetta samband er þó lakara að sumarlagi heldur en á vetrum og verst er það í júlí og ágúst - þegar sjórinn er iðnastur við að kæla loftið - að meðaltali vermir hann á öðrum tímum árs.

Þetta samband hita og þykktar sést samt vel á línuriti - hér gert fyrir júnímánuði áranna 1949 til 2019.

w-blogg110719aa

Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð - stækkanlegt pdf-eintak er að auki í viðhengi pistilsins. Þykktin er á lóðrétta ásnum, en landsmeðalhiti á þeim lóðrétta. Júní 2019 er inni í skýinu - meðalþykkt júnímánaðar var 544 dekametrar og ef við fylgjum þeirri línu upp frá lárétta ásnum komum við að rauðu aðfallslínunni við 8,5 stig, en meðalhitinn var í raun 8,7 stig. Ekki fjarri lagi og hefur áætlun oft verið verri. Hlýjustu júnímánuðirnir eru efst í skýinu - allir frá þessari öld, nema 1953 og allir talsvert hlýrri heldur en þykktin ein og sér benti til. Hlýtt loft að ofan hefur notið sín betur en að meðaltali. 

Ríkjandi vindáttir - bæði við sjávarmál og í háloftum ráða miklu um meðalhita mánaða. Það gerir hæð 500 hPa-flatarins líka - hún segir talsvert um það af hversu suðlægum (norrænum) uppruna loftið er. Hægt er að giska á hver mánaðarmeðalhiti hefði átt að vera - miðað við áttirnar og 500 hPa-hæðina. Reynum það fyrir júnímánuð:

w-blogg110719ab

Lárétti ásinn sýnir þann hita sem hringrásarþættirnir segja að hefði átt að vera - en sá lóðrétti hinn raunverulega. Eins og á fyrri mynd eru hlýju júnímánuðirnir allir ofan aðfallslínunnar - það er nýliðinn júní reyndar líka. Meðalhiti hefði ekki „átt að vera“ nema 8,1 stig (miðað við vindáttir og hæð 500 hPa-flatarins) en var 8,7 stig. 

Næsta mynd sýnir þróunina síðustu 80 ár. Við köllum mismun á hringrásarhitanum og hinum raunverulega „hitaleif“.

w-blogg110719ac

Súlurnar sýna hitaleif einstakra júnímánaða (hversu langt þeir eru ofan eða neðan við aðfallslínuna á fyrri mynd). Á þessari öld hafa aðeins tveir júnímánuðir lent neðan línunnar, 2011 og 2015. Það er áberandi að júnímánuðir áranna 2010, 2013, 2014 og 2016 voru miklu hlýrri heldur en vænta mátti miðað við ríkjandi vindáttir. Aftur á móti voru hin miklu hlýindi í júní 2003 nær væntingum. 

Hvort þetta afbrigðilega ástand leifanna heldur áfram vitum við ekki (því er ekki lokið) og við vitum ekki heldur hvers vegna þetta er svona. Það gæti tengst hlýnun á heimsvísu. Fyrir 30 til 35 árum þegar umræða um heimshlýnun komst á skrið fyrir alvöru var ritstjóri hungurdiska nokkuð viss um að henni myndi fylgja aukinn stöðugleiki að sumarlagi hér við land - stöðugleiki í þeirri merkingu að verra samband yrði milli lofts við sjávarmál og þess fyrir ofan. Tíðni sjávartengdra hitahvarfa myndi vaxa og styrkur þeirra aukast líka. Samband þykktar og meðalhita myndi versna að sumarlagi. Hann var þess vegna nokkuð viss um að þó hlýna myndi að vetrarlagi myndi verulegrar sumarhlýnunar langt að bíða. Eins og við sjáum af þessum myndum hafði hann rangt fyrir sér - eða alla vega ekki rétt - hvað svo sem síðar verður. 

Það er athyglisvert að hitaleif júnímánaðar 2018 er nánast hin sama og þess nýliðna - þrátt fyrir að ríkjandi vindáttir hafi verið þveröfugar. Hér skulum við þó hafa í huga að við erum að vinna með landsmeðalhita en ekki hita einstakra veðurstöðva - eitthvað annað kæmi væntanlega út úr því. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar júlímánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga júlímánaðar í Reykjavík er 11,6 stig, +1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en +0,2 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 10 eru þeir áttunduhlýjustu (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2009, 13,4 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra, 9,1 stig. Á langa listanum (145 ár) er meðalhitinn í 32.sæti. Hlýjast var sömu daga 1991, +14,0 stig, en kaldast 1874, meðalhiti +7,6 stig (sú tala að vísu nokkuð óviss, næstlægstir eru sömu dagar 1892 þegar meðalhitinn var 7,8 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 10,0 stig, -0,1 stigi neðan meðallags 1961-1990, en -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára víða um landið suðvestan- og vestanvert, en annars undir því. Mest er jákvæða vikið í Bláfjallaskála, +0,9 stig. Kaldast að tiltölu er á Gagnheiði þar sem hiti er -2,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 14,8 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur hún mælst 15,0 mm og er það heldur umfram meðallag.

Í Reykjavík hafa mælst 90 sólskinsstundir, um 35 umfram meðallag sömu daga. Fjöldinn er í 11.sæti á lista sem nær til 109 ára. Flestar voru sólskinsstundir þessa sömu daga 1957, 131,4, en fæstar 1977, aðeins 5,2.

w-blogg110719a

Taflan sýnir hitavikastöðuna á spásvæðum landsins. Vikin miðast við síðustu tíu ár, en röðin við meðalhita sömu daga á öldinni til þessa (19 ár). Að þriðjungatali (sem miðað er við þessa öld) telst hafa veið kalt um landið norðan- og austanvert (blámerkt), en hiti hefur verið í meðallagi í öðrum landshlutum - þar með á hálendinu.


Lauslega af snjóalögum

Varla að uppgjöri snjóathugana síðasta vetrar sé lokið, en látum samt slag standa og lítum á eins konar heildarútkomu. Venja er að miða snjóauppgjör annað hvort við árið í heild eða þá veturinn (september til ágúst) - en við hliðrum aðeins til og miðum við uppgjörsár frá júlí í fyrra til júníloka í ár. [Ekki alveg að skapi ritstjórans - en látið eftir óskum lesenda]

Venja er að reikna snjóhulu í prósentum. Sé alhvítt allan mánuðinn er snjóhulan 100 prósent, sé alautt er hún núll prósent. Sé helmingur daga alauður en helmingur alhvítur er snjóhulan talin 50 prósent, en hún er líka 50 prósent sé jörð hvorki alauð né alhvít heldur flekkótt sem kallað er allan mánuðinn. Auðvitað er venjulega engin snjóhula í byggð að sumarlagi þannig að vik eru ætíð tölulega smá á þeim tíma árs.

w-blogg080719c

Myndin sýnir vik snjóhulunnar frá meðallagi í einstökum mánuðum 2018 til 2019. Bláu súlurnar eiga við byggð, en hinar brúnu fjalllendi (í 500 til 700 metra hæð ofan sjávarmáls). Við sjáum að snjór var meiri á fjöllum en vant er í október 2018, en nóvember og desember 2018 voru sérlega snjóléttir, bæði í byggð og á fjöllum. Janúar 2019 var nærri meðallagi, en heldur meiri snjór var í byggð í febrúar en venjulega, mars var nærri meðallagi. Mjög lítill snjór var í apríl og maí - mun minni en að meðallagi. Það eru vetrarfyrningar sem oft halda uppi snjólagi að vorlagi - en þær voru litlar sem engar nú - væntanlega vegna snjóleysisins fyrir áramót. 

Heildarsnjóhulu vetrarins reiknum við með því að leggja saman snjóhulu einstakra mánaða. Væri alhvítt allt árið er hæsta mögulega summa 1200, væri alautt allt árið væri summan núll.

w-blogg080719a

Myndin sýnir vetrarsummur áranna 1924 til 2019, ártalið er sett við síðara ár vetrarins, ártalið 2019 á þannig við veturinn 2018 til 2019 og ártalið 1929 við veturinn 1928 til 1929. Við sjáum (eins og ráða mátti af myndinni að ofan) að snjóhula síðastliðins vetrar var nokkuð undir meðallagi tímabilsins alls - rétt eins og algengast hefur verið allt frá því veturinn 2001 til 2002, en þá urðu mikil umskipti í snjóalögum (og hitafari). Við þekkjum varla jafnlangt snjórýrt tímabil og þessi 18 síðustu ár. Snjór var einnig mjög lítill á árunum 1959 til 1965 og mörg snjórýr ár komu einnig fyrir 1949. 

w-blogg080719b

Ekki var farið að athuga snjólag á fjöllum (í nágrenni veðurstöðva) fyrr en 1935. Aðalatriði myndanna eru svipuð - þó komst fjallasnjór rétt yfir meðallag á árunum 2013 til 2016. Áhugamenn um skaflinn í Gunnlaugsskarði geta rýnt í þessa mynd og velt vöngum. 


Hlýr svipur

Óvenjulegur hlýindasvipur er nú á korti sem sýnir hita í 850 hPa-fletinum á norðurhveli. Spurning hvort hlýindi sumarsins hafa náð hámarki við Norðuríshaf. Mikil hlýindi yfir Alaska og Síberíu hafa sótt að kuldanum og hann hefur látið undan síga - en verður á suðlægari slóðum samt ekki eins snarpur og norðurfrá.

w-blogg040719a

Kortið gildir kl.18 nú síðdegis 4.júlí. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar, mikil hæð er yfir Grænlandi og Norðurísahafinu og önnur yfir Alaska. Alldjúp lægð er yfir Rússlandi. Það er satt best að segja óvenjulegt að sjá aðeins einn grænan lit á þessu korti, hann sýnir hita í 850 hPa-fletinum, á bilinu -2 til -4 stig. Að auki er svæðið sem hann þekur sérlega lítið. Mestar líkur á því að sjá kort með þessari litasamsetningu eru heldur síðar í júlímánuði - en þó langt í frá á hverju ári. Það er heldur enginn blár litur á þykktarkortinu - líka fremur óvenjulegt - og meira að segja er þykktin hvergi neðan við 5340 metra. 

En sé rýnt í þetta kort má sjá hlýjan strók úr austri berast vestur á bóginn á milli Norður-Noregs og Svalbarða. Hita er spáð vel yfir 15 stigum í innsveitum á Svalbarða um helgina og hláku upp fyrir hæstu fjöll. Hámarksmetið í Longyearbyen á Svalbarða er þó varla í hættu, það er 21,3 stig - sett 16.júlí 1979. Það eru víst 40 ár síðan - og ritstjóri hungurdiska á fullu í veðurspánum. Um tíma var útlit fyrir að þetta hlýja loft kæmist alla leið til Íslands, en af slíku mun þó líklega ekki verða að þessu sinni. 


Kaldar nætur (á stöku stað)

Fyrstu tvær nætur mánaðarins (júlí) voru nokkuð kaldar á stöku stað á landinu og júlílágmarksmet féllu á 16 stöðvum þar sem athugað hefur verið í 15 ár eða meira. Landsmeðallágmarkshiti var þó ekkert nærri metum. Bjartviðri, hægur vindur og þurr jarðvegur eru samverkandi þættir sem auka líkur á næturkuldum. Aðfaranótt þess 1. varð frostið mest í byggð á Brúsastöðum í Vatnsdal, -1,4 stig, en aðfaranótt 2. á Haugi í Miðfirði, -1,7 stig. Landsdægurlágmarksmet þessara tveggja almanaksdaga er -3,0 stig (1.) og -2,9 stig (2.). Vantaði nokkuð upp á að þeim væri náð að þessu sinni. Aðfaranótt þess 1. mældist -3,3 stiga frost á Gagnheiði - ekki langt frá dægurlágmarksmeti landsins, en það er -3,5 stig (sett á sama stað). 

Dægursveifla (mismunur hámarks- og lágmarkshita) var víða stór, mest meiri en 18 stig í Skaftafelli, Þingvöllum og í Hjarðarlandi - virðist vera um nýtt júlímet fyrir fyrstnefnda staðinn að ræða (rétt eins og mánaðarlágmarksmet), en ekki á hinum tveimur. 


Fleiri háloftaskemmtiatriði (í gúrkutíð)

Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur veðurnördin. (Skyldi einhver örvænting vera í okkur?) Við lítum á norðurhvelsháloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir snemma á fimmtudagsmorgun (4.júlí).

w-blogg010719a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af legu þeirra má ráða vindátt og vindstyrk. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Blái liturinn er horfinn af kortinu - slíkt gerist helst í júlí. Við viljum helst vera í gulum eða brúnum litum - þeir eru líklegir til hlýinda. Í júlí liggja mörkin á milli grænu og gulu litanna (þykkt = 5460 m) að meðaltali um Ísland þvert. 

Lægð á að koma að landinu annað kvöld (þriðjudag) - háloftalægðin sem hún fylgir er ekki mikil um sig - en er frekar köld í miðju og fer hratt yfir landið á fimmtudaginn (á kortinu við Suðvesturland). Á eftir fylgir síðan önnur minni, er við Grænland á kortinu og fer líklega fyrir sunnan land á föstudag - norðanátt síðan í kjölfarið. 

En lítum nú á atriði í fjarlægð. Tvö stór og mikil - og hlý, háþrýstisvæði sitja hvort sín megin Norðuríshafs. Annað yfir Alaska en hitt yfir Síberíu (gulu örvarnar benda). Almennt er þetta frekar óþægileg staða fyrir okkur því fyrirferðin í hlýindunum er svo mikil að kalda íshafsloftið hörfar undan - og einhvers staðar verður það að vera. Kannski hér - en kannski ekki. 

Spár virðast almennt sammála um að Alaskahæðin hreyfi sig ekki mikið - en ef trúa má spám á Síberíuhæðin að teygja sig til vesturs - og það svo (segir skemmtideildin) að hún nái alla leið til Íslands. Sé sú hugmynd rétt fáum við aldrei þessu vant sumarhlýtt háloftaloft úr norðaustri þegar líður á helgina - evrópureiknimiðstöðin nefnir allt að 5600 metra þykkt og meir en 12 stiga hita í 850 hPa-fletinum (frá Síberíu af öllum stöðum). 

Taka verður fram að þegar þetta er ritað verður þessi möguleiki enn að teljast til skemmtiatriða - og sömuleiðis verður að hafa í huga að leið loftsins liggur yfir hafsvæði sem er mjög fjandsamlegt öllum hlýindum - líklegt að neðstu loftlög verði alls ekki sérlega hlý. 

Bandaríska veðurstofan býður upp á svipaða sögu - en þó þannig að hlýindin að austan komist ekki alveg alla leið til okkar heldur sveigi þau af til suðurs áður en hingað er komið. 

Kannski verða horfurnar gjörbreyttar strax á morgun (jafnlíklegt). 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 219
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1998
  • Frá upphafi: 2347732

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 1724
  • Gestir í dag: 186
  • IP-tölur í dag: 179

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband