Gömul frétt af hitum og veðurfarsbreytingum

Í dag, 13.júlí, hefjast hundadagar. Um þá, veðurlag þeirra og „hundadagakvíða“ hefur verið áður fjallað hér á hungurdiskum, auðfundið með því að leita í eldri færslum. Nokkuð skiptar skoðanir voru uppi um það hvort telja skyldi upphaf þeirra 13. eða 23. júlí. Hef ekki enn fundið ritgerð Jóns Árnasonar um það mál og rök hans fyrir þeim 13. En það mun hafa verið á þriðja áratug síðustu aldar að 13. lenti endanlega á síðum almanaksins sem upphafsdagur hundadaga. Í öðrum löndum er oftar vísað til þess 23. Trúlega stafar þetta misræmi einhvern veginn af skiptunum milli Júlíanska og Gregoríska tímatalsins. En hvað um það. Hin árangurslausa leit að greinargerð Jóns skilaði öðru - tveimur smápistlum hlið við hlið í 2. árgangi Heilbrigðistíðinda, 7. til 8. tölublaði 1872, bls.53-54. Þar segir: 

„Ákafur hiti

Allt frá byrjun júlímánaðar og það til enda hundadaganna var hinn megnasti hiti víða um norðurálfuna. Þó tók út yfir með þennan hita í Bandafylkjunum í Vesturheimi, því þar varð hann að miklu tjóni, einkum í Nýju-Jórvík, þar sem fjöldi manna varð bráðkvaddur, og dóu af sólstingjum. Það var mælt, að hitinn í Nýju-Jórvík hefði orðið yfir 34 mælistig á Reaumeurs hitamæli [42,5°C], en það er meira en hiti blóðsins. Ferðamenn, er ég talaði við, og sem komu frá Vesturheimseyjum, báru sig sárilla yfir hitanum í Vesturheimi; þeir kváðu hann óþolandi verið hafa. Fólkið hímdi í kjöllurum og skúmaskotum, og margir misstu svefninn um nætur; nokkrir fengu hita-feber, og dóu á stuttum tíma. Þessi skaðvænlegu áhrif sólarhitans sýndu sig mest í borgunum, en á landsbyggðinni bar allt minna á því. Í Lundúnaborg var reyndar mikill sumarhiti, en þó eigi svo, að til skaða yrði, enda er Lundúnaborg einhver hinn heilnæmasti bær norðurálfunnar. Í Kaupmannahöfn og Edinaborg var og mikill hiti um tíma, en í hvorugri þessari borg voru svo mikil brögð að því, að menn biðu skaða af.

Hitaaukning í Norðurálfunni um hin síðustu 20 ár.
Lærður maður meðal Engla, Glaiser að nafni, nafnfrægur loftsiglari, hefur með samburði við eldri veðurskrár sannað það, að meðalhitinn hefur aukist á hinum síðustu 20 árum, og það svo, að það munar allt að 1 mælistigi á hitamæli Celsiusar. Lærðir menn, sem fyrir 2 árum voru norðarlega á austurströndu Grænlands um og fyrir norðan 70. mælistig norðlægrar breiddar, benda á hið sama, og kveða svo að orði, að það sé auðsjáanlegt, að hitinn hafi vaxið þar um hin síðustu árin. Af þessum aukna loftshita ætti það þá að koma, að ísrekið frá norðurheimskautinu hefur aukist svo mjög um hin síðustu árin. Svona eru skoðanirnar nú meðal lærðra manna, en enginn veit, hversu lengi þetta kann að vara, og eins er það alveg óljóst, við hverjar grundvallar-ástæður það á að að styðjast. Það er nú sjálfsagt, að það væri yfir höfuð að eins þægilegt fyrir oss norðurbúa, ef þessi hitaaukning héldist við, en þó má þess geta, að ef mikil brögð eru að því, getur það haft talsverð áhrif á heilsufar norðurbúa, og jafnvel gefið tilefni til hættulegra sjúkdóma. Þetta á einkum við það að styðjast, að í heitu lofti er mjög hætt við allri rotnun, fremur en þegar kalt er“.

Svo mörg voru þau orð. - En þess má geta að ekki hlýnaði á Íslandi frá 1850 til 1870 - kólnaði heldur. Áratugurinn 1861-1870 var sérlega kaldur hér á landi. En það er alltaf hollt að lesa gamla pistla um veðurfarsbreytingar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 368
  • Sl. viku: 1584
  • Frá upphafi: 2350211

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1457
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband