Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019
12.6.2019 | 02:07
Nýtt háþrýstimet júnímánaðar
Á miðnætti (að kvöldi 11.júní) mældist loftþrýstingur á Reykjavíkurflugvelli 1040,6 hPa. Svo hár þrýstingur hefur aldrei mælst hér á landi í júnímánuði. Gamla metið, sett í Stykkishólmi 21. júní 1939 var 1040,4 hPa. Munurinn er sannarlega ómarktækur, en nýja talan verður trúlega staðfest sem nýtt met - fari þrýstingur ekki enn hærra á vellinum eða á einhverri annarri löglegri stöð í nótt.
Þegar við íhugum met sem þetta skulum við hafa í huga að nú á dögum er ívið líklegra en áður að met falli. Ástæðan er sú að athuganir eru mun þéttari en áður, bæði í tíma og rúmi. Að vísu var landið allvel þakið þrýstiathugunum þegar gamla metið var sett 1939, en hvergi var þá athugað að næturlagi. Hefði það verið gert er hugsanlegt að enn hærri tala hefði sést. Venjulega var reynt að leita útgildi uppi á þrýstisíritum - en betur var leitað að lægstu gildum heldur en þeim hæstu. Þetta þykir veðurnördum afskaplega merkilegt - þó minni athygli veki en hita- eða úrkomumet.
Það má rifja upp að daginn eftir að háþrýstimetið var sett í Stykkishólmi var Íslandshitamet sett á Teigarhorni, sem enn stendur, 30,5 stig. Sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri. Um þessi hitamet var fjallað í pistli hungurdiska 21.ágúst 2018.
Loftið sem yfir landinu verður á morgun er ekki alveg jafnhlýtt og var 1939, líklega 3 til 4 stigum kaldara í neðri hluta veðrahvolfs - og enn meiri munur eystra. Líkur á nýju hitameti eru því ekki miklar. En veðurlagið er samt ekki ósvipað.
Sólskinssyrpan mikla heldur áfram á Suður- og Vesturlandi, sólskinsstundafjöldi í Reykjavík í mánuðinum kominn í 171,3 stundir, 8,3 stundum meira en mest hefur áður mælst sömu daga. Það var 1924. Sólskinsstundafjöldinn er líka kominn upp fyrir meðalsólarstundafjölda í júní í Reykjavík 1961-1990 (161,3 stundir) og einnig yfir meðalsólskinsstundafjölda júnímánaðar alls síðustu tíu árin (170,5 stundir). Langt er þó enn til mánaðamóta og mánaðarsólarmeta, þar trónir júní 1928 á toppnum með 338,3 stundir - enn vantar 167 stundir upp á þá tölu.
Í dag (þriðjudag 11.) skein sól líka allan daginn við Mývatn, þar mældust sólskinsstundirnar 19,4 - og mánaðarsumman komin í 84,1 stundir.
Viðbót 13.júní:
Eins og við var að búast féllu líka fáein júníhæðarmet háloftaflata í þessari háþrýstihrinu. Met voru slegin í 925 hPa, 850 hPa (1659 metrar - gamla metið var 1652 m), í 500 hPa (5870 metrar, það gamla var 5860 m) og metið í 400 hPa var jafnað. Hiti í 700 hPa var sá þriðjihæsti sem mælst hefur í júní, 4,8 stig. Metið er 5,4 stig (sett 1958).
Vísindi og fræði | Breytt 13.6.2019 kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2019 | 17:32
Almennt af óvenjulegu veðri
Sólin skín enn um landið sunnan- og vestanvert - komin fram úr því sem mest er vitað um áður í júníbyrjun. Við tökum betur á því máli í tíudagauppgjörinu þegar það hefur borist. Fyrir nokkrum dögum var hér á hungurdiskum minnst á einkennilega spá evrópureikninmiðstöðvarinnar um methita í þessari viku. Það fór eins og ritstjórann grunaði að þessi spá var strax dregin til baka - en samt er enn spáð góðum hlýindum víða í nokkra daga - einkum þó á Suðurlandi.
Við skulum fyrst líta á spá sem gildir á sama tíma og spáin afbrigðilega (sjá fyrri pistil) - seint að kvöldi fimmtudags 13.júní.
Hér má sjá þykkt (heildregnar línur) og hita í 850 hPa-fletinum (litir). Ekki eru mikil líkindi með þessu korti og methitaspánni. Kuldapollur hefur náð að skjóta sér úr norðri suður með Austurlandi og þar með þrengja hlýjasta loftinu vestur fyrir. Hámarkshlýindin eru hér alveg vestan við land 5610 metrar. Það er að vísu mjög mikið, en samt 3 stigum minna en þeir 5670 metrar sem var áður spáð - og þykktin yfir landinu er mun minni en spáð var.
En nú er miðvikudagurinn sá hlýjasti í þykktarspánni - hvað sem svo verður. Kortið að neðan sýnir spá sem gildir á miðvikudagskvöld 12.júní.
Þykktin við Grænland er í hæstu hæðum, m.a. vegna niðurstreymis á þeim slóðum. Það er mjög sjaldan sem við fáum að njóta grænlensks niðurstreymishita - en hlýindin yfir Íslandi vestanverðu eru mjög mikil. Kuldapollurinn sem áður var minnst á er hér í norðausturhorni kortsins á hraðri leið til suðvesturs eins og örin (og fyrra kort sýna) - og stuggar við hlýindunum.
Hlýindi þessi eru þó ekki beinlínis upprunnin á Grænlandi (þó það bæti í þau) heldur fylgja þau óvenjulegum hæðarhrygg sem verður yfir landinu á þriðjudag og miðvikudag. Loftþrýstingi er spáð yfir 1036 hPa hér á landi, en svo hár þrýstingur er mjög óvenjulegur í júnímánuði og hefur aðeins tvisvar svo vitað sé farið yfir 1038 hPa - og einu sinni í 1040 hPa. Þetta þykir ritstjóra hungurdiska merkilegur viðburður - ef spár rætast.
Sömuleiðis er hæð 500 hPa-flatarins spáð nærri meti. Mesta hæð 500 hPa sem vitað er um yfir Keflavík í júní er 5860 metrar - mælt þann 9.júní 1988. Rétt hugsanlegt er að það met verði slegið nú rætist spár - og hitti rétt í athugun (aðeins tvær háloftaathuganir eru gerðar á sólarhring).
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (litir) og sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) á miðvikudag 12.júní kl.18. Hæsta talan á kortinu er 5890 metrar. Í endurgreiningum má finna hærri tölu - í hitabylgjunni miklu í júní 1939 (sama dag og háþrýstimetið var sett).
Við erum nú að sjá stöðu sem minnir að ýmsu á þessa fornu hitabylgju - en kerfið sem um hana sá virðist þó hafa verið sjónarmun öflugra heldur en þetta - og hitti líka heldur betur á landið. Þetta er fáeinum breiddarstigum of vestarlega til að við njótum þess til fulls.
Í hitabylgjunni 1939 náði hiti í Reykjavík ekki 20 stigum - þoka kom í veg fyrir það. Nú eru spár einmitt að gera ráð fyrir svipuðu nú - að þoka eða köld hafgola leiki um borgina og haldi raunverulegum hlýindum þar í skefjum. Reynslan hefur þó sýnt að erfitt er að spá um þokuna. Fari allt sem nú horfir (munum þó að spár eru alltaf að bregðast) ætti hitabylgja þessi að verða mest á Suðurlandi - hlutar Suðausturlands geta líka komið vel út - og stöku staður inni í sveitum í öðrum landshlutum. Sem stendur er hámarkshita spáð á bilinu 20 til 25 stig - en hitti vel í vind og sól gætu talsvert hærri tölur sést á stöku stað.
Innan um öll þessi óvenjulegheit er eitt atriði til viðbótar sem rétt er að minnast á. Nær engri úrkomu er spáð um landið vestanvert á miðvikudag - en samt er heildarrakainnihald veðrahvolfsins í hæstu hæðum - nærri því eins og í verstu haustrigningum.
Korið sýnir þetta - litir og tölur í mm. Allt yfir 20 mm telst hátt, og meir en 25 mm mjög hátt. Einhver ský hljóta að fylgja (og spilla sólaryl) - og e.t.v. verða þessi ský eitthvað skrítin fyrst ekki fellur úr þeim úrkoma.
Viðbót - um fyrstu tíu daga júnímánaðar:
Fyrsti þriðjungur júnímánaðar er nú liðinn - bjartur og þurr syðra en svalur nyrðra. Meðalhiti í Reykjavík 8,9 stig, +0,5 stigum ofan meðallags 1961-1990, en -0,6 neðan við meðallag sömu daga síðustu tíu árin, hlýjastir voru sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 11,5 stig, kaldastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti 6,5 stig. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti (af 19 á öldinni). Á langa listanum er hiti í 52.sæti (af 145) - 2016 er þar á toppnum, en kaldast var.1885, meðalhiti 4,9 stig.
Kalt hefur verið á Akureyri, meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins þar er 5,9 stig, -2,5 stigum neðan meðallags áranna 1961-1990, en -3,4 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu 10 árin.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Kambanesi, hiti þar +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Gagnheiði, -5,4 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þurrt hefur verið um nær allt land. Úrkoma hefur aðeins mælst 1,9 mm í Reykjavík, sú næstminnsta sömu daga á öldinni - sjónarmun þurrara var sömu daga 2012. Árin 1924 og 1935 mældist engin úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu daga júnímánaðar og 11 sinnum hefur úrkoma mælst minni en nú. Á Akureyri hefur úrkoma aðeins mælst 3,0 mm, langt neðan meðallags.
Sólin hefur skinið af fádæma ákafa á landið suðvestanvert. Nú hafa 157,5 sólskinsstundir mælst í Reykjavík, 15,7 á dag, um 100 stundir umfram meðallag sömu daga. Næstflestar mældust sólskinsstundirnar í Reykjavík sömu daga árið 1924, 145,4, en fæstar voru þær þessa daga árið 2013, aðeins 13,4. Í fyrra mældust 22,9 sólskinsstundir fyrstu tíu daga júnímánaðar. Við Mývatn hafa til þessa mælst 65 sólskinsstundir í júnímánuði.
Vísindi og fræði | Breytt 13.6.2019 kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2019 | 12:55
Frá skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar
Ritstjóri hungurdiska var varla búinn að sleppa orðinu með að þrátt fyrir hlýnandi veður (í spám) sýndu þær engin merki þess að hitabylgju væri að vænta. - Nú þá sendi skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar frá sér spána sem kortið hér að neðan sýnir.
Spáin gildir á fimmtudagskvöld í næstu viku (13.júní). Þykkt (sem segir frá hita í neðri hluta veðrahvolfs) er hér meiri en 5660 metrar yfir landinu sunnanverðu. Þetta er alveg við met - svipað því sem var í íslandsmetshitabylgjunni í júní 1939 og í ágústhitunum 2004. Hiti í 850 hPa er meiri en 14 stig - sem yrði nýtt júnímet yfir Keflavíkurflugvelli - rætist spáin.
Við verðum samt að leggja áherslu á að þetta er sýnd veiði en ekki gefin - líklegast að hitinn verði horfinn í næstu spárunu - ekki var hann í þeirri næstu á undan - og ekki hefur hann sést í bandarísku spánum.
En þetta er merkileg spá engu að síður -
Óviðkomandi viðbót:
Það er út af fyrir sig athyglisvert að meðalhiti fyrstu viku júnímánaðar í Reykjavík nú (2019) skuli vera nákvæmlega sá sami og sömu daga í fyrra (2018), 8,1 stig - í fyrra var svalt dag og nótt, en nú er kalt að næturlagi - en sæmilega hlýtt yfir hádaginn. Í fyrra var nánast sólarlaust - en nú hefur sólin skinið sem aldrei fyrr sömu daga. Skyldi þetta segja okkur eitthvað?
Vísindi og fræði | Breytt 8.6.2019 kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2019 | 22:14
Hæðarhryggurinn fyrir vestan land
Háloftahæðarhryggurinn fyrir vestan land virðist lítið ætla að gefa sig - en þokast ýmist fjær eða nær.
Kortið sýnir nýjustu hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um norðurhvelsstöðuna seint á laugardagskvöld (8.júní). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim má ráða vindstyrk og átt. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við viljum helst vera inni í gulu eða brúnu litunum á þessum tíma árs - en meðaltalið er þó lægra. Grænu litirnir eru þrír, sá dekksti kaldastur þeirra - hann liggur reyndar yfir landinu norðanverðu í dag (fimmtudag) en á sunnudag hefur hann hörfað heldur - og vesturhluti landsins er kominn í ljósgræna litinn (þykkt meiri en 5400 metrar). Þannig að heldur hlýnar á landinu í heild frá því sem nú er.
Kuldapollurinn sumarhrellir er nú við austanvert Barentshaf og á að halda sig þar næstu daga. Bræður hans reika um stefnulítið á íshafsslóðum - en gætu komið við sögu hér síðar - beint eða óbeint.
Sé rýnt í smáatriði kortsins kemur í ljós að austlægari átt nær til syðsta hluta landsins. Kortið hér að neðan sýnir þetta nánar.
Þetta er sami tími - og jafnhæðarlínurnar eru þær sömu (dregnar þéttar). Mikill norðaustanstrengur er yfir landinu vestanverðu - þar er þurrt og hlýtt loft frá Grænlandi - en kalt lægðardrag yfir landinu - austan þess er hæg austlæg átt - en leifar háloftakuldans sem gekk yfir okkur er fyrir sunnan land. [Litir sýna hita]. Austanáttin er skammvinn að sögn og hæðarhryggurinn á að styrkjast enn frekar á hvítasunnudag og næstu daga á eftir. Hvort hann nær að hreinsa burt kuldann í neðri lögum verður bara að koma í ljós.
En skemmtideild reiknimiðstöðvarinnar er farin að sýna dag og dag með mun hlýrra veðri - við skulum þó taka þeim sýningum með varúð þar til nær dregur - vona það besta. Jafnframt er verið að veifa mjög háum sjávarmálsþrýstingi um miðja næstu viku, jafnvel ofan við 1035 hPa sem er mjög óvenjulegt hér við land eftir 10. júní. - Aðeins eitt dæmi þekkt - hitabylgjan mikla í júní 1939 - ekkert slíkt er reyndar í spánum sem stendur.
Það styttist í að sólskinið í Reykjavík fari að teljast óvenjulegt - viðbrigði frá því í fyrra - en þá var algjörlega sólarlaust í Reykjavík þann 6. til 11.júní. Við bíðum með að ræða tölur þar til síðar.
3.6.2019 | 23:57
Smávegis enn af maí
Eins og fram kom hér á hungurdiskum á dögunum var meðalloftþrýstingur í maí hár - tvisvar áður jafnhár og sex sinnum sjónarmun hærri. Varla mjög marktækur munur á hæstu gildum. En vikið er +7,8 hPa yfir meðallagi maímánaða áranna 1961-1990 og 9,3 hPa yfir meðallagi síðustu tíu.
Við sjáum hér að neðan hvernig vikin hafa lagst á Norður-Atlantshaf (kortið gerði Bolli Pálmason). Hér er miðað við maímánuði áranna 1981 til 2010.
Hæðin yfir Grænlandi óvenjuöflug, en þrálátar lægðir suður í hafi og reyndar líka yfir Skandinavíu. Eins og minnst var á í fyrra pistli hefur meðalþrýstingur maímánaðar ekki verið svona hár hér á landi frá 1975, var þá 1020,2 hPa í Reykjavík eins og nú. Hann var rétt aðeins hærri í maí 1968 (1020,5 hPa), en síðan þarf að fara aftur til 1935 (1020,5 hPa) og 1915 (1020,3 hPa). Hæsta maímeðaltalið sem við þekkjum er frá 1840, 1022,7 hPa - en eins og áður sagði er nákvæmni þeirrar tölu ekki fullvís - þó vafalítið hafi þrýstingur verið óvenjuhár.
Það gerist auðvitað endrum og sinnum að þrýstingur hittir vel í og mánaðarmeðaltöl verða há - þarf þvi ekki að koma á óvart. Það kom meira á óvart að lægsti þrýstingur sem mældist á landinu öllu í maí (miðað við sjávarmál) var 1008,2 hPa. Við flettingar í metaskrám ritstjóra hungurdiska kom í ljós að þetta er óvenjuleg tala. Lægsti þrýstingur maímánaðar hefur að vísu tvisvar verið hærri, 1838 (1009,7 hPa) og 1843 (1009,1 hPa) en hafa verður í huga að þau árin var þrýstingur ekki mældur nema á einum stað á landinu - og 1838 ekki nema einu sinni á dag. Töluverðar líkur eru því á því að hefði núverandi stöðvakerfi verið í rekstri hefðu einhverjar lægri tölur sýnt sig einhversstaðar í þessum mánuðum. Auk þess er ákveðin óvissa í þessum gömlu mælingum - en sú óvissa er reyndar á báða vegu - til lækkunar og hækkunar.
Ritstjóri hungurdiska fylgist líka með þrýstibreytileika frá degi til dags (jú - það má margt gera sér til hugarhægðar). Breytileikinn (eins og ritstjórinn skilgreinir hann) hefur aðeins 7 sinnum verið minni í maí heldur en nú. Síðast 1931.
Við höfum sum sé verið að upplifa eitthvað óvenjulegt - við erum reyndar oft að því en tökum ekki eftir (og kunnum lítt að meta). Við tökum t.d. ekkert eftir því hversu óvenjulegt það er að draga tígulsjöið úr spilastokk fyrst spila - enda lítið merkilegt við það fyrr en við drögum síðan tígul eftir tígul eftir tígul eftir tígul - án þess að aðrir litir geri vart við sig. Svipað er með veðrið - stakur háþrýstimánuður (eða hlýindamánuður) segir ekkert, en þegar ekkert dregst annað úr stokknum fer grunur um að eitthvað kunni að vera á seyði að gera vart við sig.
1.6.2019 | 14:49
Smávegis af maí
Nú stendur þannig á helgi að mánaðaryfirlit Veðurstofunnar birtist varla fyrr en seint á mánudag eða þriðjudag. Maímánuður var afskaplega ólíkur almanaksbróður sínum í fyrra. Þá ríktu suðvestlægar áttir nær sleitulaust allan mánuðinn, en nú skiptust norðlægar og suðlægar á, þær norðlægu höfðu þó betur - en vestlægar áttir gerðu varla vart við sig, ólíkt því sem var í fyrra.
Loftþrýstingur var líka með öðrum hætti. Meðalþrýstingur í Reykjavík var nú 1020,2 hPa. Það eru nokkur tíðindi því svo hátt mánaðarþrýstimeðaltal hefur ekki sést þar síðan í febrúar 1986 - og ekki í maí síðan 1975, en þá var það jafnt meðaltalinu nú. Á fyrri tíð má finna 6 hærri þrýstimeðaltöl í maí, en fjögur þeirra eru svo lítið hærri að ómarktækt er. Þau tvö hæstu eru frá 19.öld (1840 og 1867) og margs konar óvissa fylgir þeim tölum - en á báða vegu.
Í maí í fyrra var mánaðarmeðalþrýstingur hins vegar með allra lægsta móti - sá 9.lægsti í maí í nærri 200 ára samfelldri sögu þrýstimælinga.
Hitafar nú var einnig með allt öðrum hætti heldur en í fyrra. Taflan sýnir meðalhitavik á spásvæðum landsins - og í hvaða röð hitinn lendir meðal maíhita á öldinni (19 mánuðir alls). Vikin miðast við síðustu tíu ár.
Hiti var ofan meðallags um landið vestanvert og mánuðurinn meðal 5 til 6 hlýjustu á öldinni, en svalara var um landið austanvert og kaldast að tiltölu á Suðausturlandi þar sem maí hefur aðeins þrisvar verið kaldari það sem af er öldinni. Tvö kuldaköst gerði í mánuðinum - það sem enn stendur og svo annað sem stóð stóran hluta fyrsta þriðjungs mánaðarins. Mjög hlýtt var hins vegar á milli þessara tveggja kuldakasta.
Meðalhiti í Reykjavík endaði í 7,7 stigum og í 5,9 á Akureyri. Svo fór að maí varð kaldari heldur en apríl mjög víða á Norður- og Austurlandi. Talnafíklar geta farið í viðhengið og athugað málið og séð að neikvæði munurinn var mestur á Mánárbakka, þar var maí -1,5 stigum kaldari en apríl. Á hálendinu sunnaverðu hlýnaði hins vegar verulega milli apríl og maí, mest við Setur, +2,7 stig. Trúlega hefur óvenjusnemmbær snjóleysing á þessum slóðum ýtt undir þetta.
Á landsvísu var meðalhiti apríl og maí hinn sami. Það kemur fyrir endrum og sinnum að maí er kaldari en apríl. Á landsvísu síðast 1979 og 1958. Tíðni slíkra atburða er mun meiri á Norður- og Austurlandi heldur en syðra. Á Akureyri varð maí síðast kaldari en apríl árið 2011 og það gerðist einnig 2007 og 2003. Aftur á móti er munurinn nú með allra mesta móti - þarf að fara alveg aftur til 1883 til að finna ámóta tölu. Á Dalatanga varð maí síðast kaldari en apríl árið 2015, og miklu munaði árið 2011. Í Vestmannaeyjum þarf hins vegar að fara aftur til 1979 til að finna dæmi þess að maí hafi verið kaldari en apríl. Í Stykkishólmi þarf að fara alveg aftur til 1884 til að finna dæmi og í Reykjavík aftur til 1873. En höfum í huga að það var aprílmánuður sem var hinn afbrigðilegi hvað hita snertir - vikatölur maímánaðar sem við sjáum í töflunni hér að ofan eru ekki stórar.
Það sem hér fer á eftir er uppfærsla á pistli sem fyrst birtist 31.maí 2017 - nú hafa þrír maímánuðir bæst við. Þar á meðal hinn arfaslaki maí í fyrra (2018) og nýliðinn maí - sem kemur nokkuð vel út á þessum (vafasama) kvarða.
Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska leikið sér að því gefa sumarmánuðum og heilum sumrum einkunn. Aðferðafræðin er skýrð í fyrri pistlum. Sú óraunhæfa krafa kemur stundum upp að meta beri veður í maí á sama hátt - og það heyrist meira að segja að menn taki kalda, sólríka þurrkþræsingsmaímánuði fram yfir vota og hlýja. Slíkt er hins vegar í töluverðri andstöðu við það sem tíðkast hefur þegar vortíð er metin.
Gott og vel - við skulum nú bera saman maímánuði í Reykjavík eins og um sumarmánaðakeppni væri að ræða.
Hér má sjá að nýliðinn maímánuður fær 12 stig - vel yfir meðallagi. Bestur var maí 1932 með fullt hús stiga - en jafnlakastir eru allmargir mánuðir með aðeins 2 stig, maí í fyrra þar á meðal. Við skulum taka eftir því að hinn hræðilegi og kaldi maí 1979 er hér metinn góður - fær 12 stig (rétt eins og sá nýliðni). Jú, sólin skein og úrkoma var lítil og úrkomudagar fáir - mánuðurinn fékk hins vegar 0 stig (af fjórum mögulegum) fyrir hita.
En það er kannski að nútíminn vilji hafa veðrið þannig - menn geta vökvað garðinn sé þurrviðrasamt - en erfiðara er að verjast rigningu.
Til gamans er hér útgáfa meira ræktunarmiðuð - hér viljum við hita og sólskin og úrkomu - en líka til gamans eins og allir þessir einkunnarreikningar.
Gróðrarmaímánuðir ríkjandi um 1930 (mesta furða hvað hinn óþægilega þurri maí 1931 kemur út - en leiðindastand um 1980.
Vísindi og fræði | Breytt 4.6.2019 kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 19
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 984
- Frá upphafi: 2420868
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 863
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010