Fyrri hluti júnímánaðar

Þá er það fyrri helmingur júní - auðvitað merkastur fyrir sólskinsstundafjöldann suðvestanlands. En meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins í Reykjavík er 10,0 stig, +1,4 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1961-1990 og +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn er í 11.hlýjasta sæti sömu daga (af 19) á öldinni. Þeir voru hlýjastir 2002, meðalhiti +12,0 stig, en kaldastir 2001, meðalhiti þá 7,6 stig. Á langa listanum er meðalhitinn í 17. sæti (af 145), á honum er það líka 2002 sem er í efsta sætinu, en 1885 í því neðsta. Meðalhiti dagana 15 var þá aðeins 5,8 stig.

Mun kaldara hefur verið fyrir norðan, meðalhiti dagana 15 á Akureyri er 7,8 stig, -1,1 stigi neðan 1961-1990 meðaltalsins, en -1,5 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á landsvísu er hiti ofan meðallags síðustu 10 ára á um það bil fimmtungi stöðva, jákvæða vikið er mest við Setur og Ölkelduháls, +1,1 stig ofan meðallags, en neikvætt vik er mest á Gagnheiði, -3,0 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur aðeins mælst 2,7 mm, það næstminnsta í fyrri hluta júní á öldinni, enn þurrara var 2012 og vitað er um 7 þurrari júníbyrjanir áður, þurrasta 1971, en þá höfðu aðeins 0,2 mm mælst þann 15.

Í fyrri hluta júní hafa 209,2 sólskinsstundir mælst í Reykjavík, rúmlega 30 stundum meira en mest áður sömu daga, það var 1998. Í fyrra mældust aðeins 30,4 stundir sömu daga.

Viðbót:

Hér að neðan má sjá vik fyrri hluta júnímánaðar á einstökum spásvæðum gagnvart meðalhita sömu daga síðustu tíu árin.

w-blogg160619

Hiti hefur verið við meðallag við Faxaflóa og rétt ofan þess á Suðurlandi. Annars hefur hiti verið neðan meðallags, mest á Austurlandi (að Glettingi). Þar og á Norðurlandi eystra er tímabilið það fjórðakaldasta á öldinni - reyndar munar ekki miklu á hitanum nú og á þeim þrem tímabilum sem kaldari reiknast. Talsvert kaldari fyrrihlutar júnímánaðar finnast eystra sé leitað lengra aftur, t.d. 1981, 1975 og 1973. 

Þegar horft er á vikatölur ætti að hafa í huga að júnímánuðir hafa í langtímasamhengi verið sérlega hlýir á þessari öld. Má rifja upp gamlan pistil á hungurdiskum þar um: Júníþrepið mikla, sem birtist 16.júní í fyrra. Þó hiti í Reykjavík sé nú aðeins í meðallagi aldarinnar (og í 11 sæti) er hann samt í 17. sæti 145 ára - eins og nefnt var hér að ofan. Það þýðir að fyrri hluti júní var hlýrri en nú aðeins 6 sinnum fyrir aldamót. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a
 • w-blogg110424b
 • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (15.4.): 12
 • Sl. sólarhring: 149
 • Sl. viku: 1785
 • Frá upphafi: 2347419

Annað

 • Innlit í dag: 12
 • Innlit sl. viku: 1542
 • Gestir í dag: 12
 • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband