Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Landsmeðalhiti í júní 2018

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur júní verið fremur svalur um landið sunnan- og vestanvert, en hlýr norðaustanlands. Hiti er þá í meðallagi á landsvísu.

w-blogg300618a

Myndin sýnir landsmeðalhita í júní aftur á 19.öld. Fyrstu 50 árin eða svo er hann þó illreiknanlegur og ekki rétt að taka allt of mikið mark á (raðir einstakra stöðva eru betri). Við sjáum að heildarleitni er ekki sérlega mikil - miðað við aðra árstíma. Hlýindi síðustu ára eru þó óvenjuleg á sé litið til lengri tíma. Eins og sjá má var kuldatíminn frá því á miðjum sjöunda áratug 20.aldar fram undir aldamótin síðustu mjög hraklegur - skárri þó en mestu harðindin fyrir 1890. 

En þetta er meðaltal landsins alls. Í Reykjavík var hiti verulega neðan meðallags síðustu tíu ára - og neðan landsmeðalhitans. Það er ekki algengt í júní, aðeins í 10 skipti sem það gerist frá því 1874 að telja. Munurinn núna er rétt tæp 0,3 stig - og aðeins þrisvar sem hann hefur verið sjónarmun meiri. Það var í júní áranna 1986, 1988 og 1925. 

Það gerist hins vegar alloft að meðalhiti á Akureyri er hærri í júní heldur en í Reykjavík. Munurinn er hins vegar óvenjumikill að þessu sinni, 2,2 stig, hefur aðeins fjórum sinnum verið meiri síðan 1882, en haustið áður hófust samfelldar mælingar á Akureyri. Þetta var í júní 1986, 1925, 1894 og 1988. Júnímánuður í ár er þannig býsna óvenjulegur hvað hitadreifingu á landinu varðar.  


Spurningar um júnímánuð

Ýmsar spurningar hafa komið upp varðandi júnímánuð þann sem nú er nærri liðinn. Hann hefur verið sérlega þungbúinn um landið sunnan- og vestanvert. Þar hefur úrkoma einnig verið mikil og veður fremur svalt.  Allt aðra sögu er að segja um landið austanvert. Heildarúrkoma mánaðarins er þar að vísu nokkuð mikil sums staðar - (mjög misskipt), en hlýindin mikil og svo virðist sem sól hafi einnig skinið þar glatt.

Hlýindin hafa verið mest á hálendinu austanverðu. Við Kárahnjúka hefur hitinn verið 3,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og víða til fjalla austanlands hafa jákvæð vik verið meiri en 2 stig - heldur minni í byggð. Að tiltölu er svalara eftir því sem vestar dregur. Neikvæða vikið miðað við síðustu tíu ár er mest í Staðarsveit, á Hraunsmúla hefur hiti verið -2,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -1,8 stig á Bláfeldi og svo á Hafnarmelum. 

Í Reykjavík er vikið miðað við síðustu tíu ár -1,6 stig, en +0.9 á Akureyri. Sem stendur er mánuðurinn sá kaldasti á öldinni meðal almanaksbræðra í Reykjavík (munar þó litlu á honum og júní 2001), en á Akureyri er hann í augnablikinu sá sjöttihlýjasti á þessari öld. Austur á Egilsstöðum er hann sá fjórðihlýjasti á öldinni. 

Taflan hér að neðan tekur saman hita á einsökum spásvæðum Veðurstofunnar og setur hita mánaðarins í röð á öldinni.

 röð spásvæði
 17 Faxaflói
 15 Breiðafjörður
 12 Vestfirðir
 9 Strandir og Norðurland vestra
 5 Norðurland eystra
 5 Austurland að Glettingi
 2 Austfirðir
 7 Suðausturland
 15 Suðurland
 8 Miðhálendið

Hér má sjá að við Faxaflóa er mánuðurinn sá næstkaldasti á öldinni, en á Austfjörðum sá næsthlýjasti. Fyrir landið í heild er hiti í meðallagi júnímánaða síðustu tíu ára. 

Þó svalt hafi verið sunnanlands og vestan miðað við undanfarin ár hefur júní samt oft verið talsvert kaldari heldur en nú, t.d. 30 sinnum í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust. Síðast var kaldara en nú 1997, og talsvert kaldara var í júní bæði 1994 og 1992. 

Úrkoma hefur nokkrum sinnum verið meiri í Reykjavík í júní heldur en nú, síðast árið 2014. Aftur á móti eru alveg þurrir dagar í mánuðinum ekki nema 5 til þessa - og verða vart fleiri. Sýnist ritstjóra hungurdiska í fljótu bragði að úrkomudagafjöldi í júní hafi ekki verið slíkur nema tvisvar áður, 1960 og 1983. Ólíkt fór um þau tvö sumur, það fyrra státar einnig af einum lengsta samfellda þurrkakafla nokkurs sumars - (í ágúst) og er enn í minnum haft fyrir gæði, en hið síðara var allt á versta veg, kalt, hvasst og blautt. 

Rigningunum hefur fylgt sérstök deyfðartíð til loftsins um landið sunnan- og vestanvert. Meðalskýjahula í Reykjavík hefur aðeins tvisvar verið ámóta mikil í júní og nú. Það var 1986 og 1988. Sömuleiðis virðist ástandið hafa verið svipað í júní 1914 tökum við mark á athugunum á Vífilsstöðum. Sólskinsstundafjöldi er líka sérlega lágur, þegar þetta er skrifað eru aðeins 70,6 stundir færðar til bókar. Þær voru ámóta fáar 1988, voru þá 60,1 þegar jafnlangt var komið fram í mánuðinn, en síðustu tvo dagana bættust 12,1 við þannig að mánuðurinn endaði í 72,2 stundum. Enn vantar núlíðandi júní 1,6 stund til að jafna þá tölu - en hefur til þess daginn í dag (29.) sem er langt kominn án sólarglennu og svo morgundaginn - en þá er enn möguleiki síðdegis eða undir kvöld. 

Í júní 1914 varð heildarfjöldi sólskinsstunda 65,6. Mælt var á Vífilsstöðum. Dálítil óvissa er alltaf í aflestri á sólskinsblöðum. Danska veðurstofan hafði þannig fengið út töluna 60,9 stundir - og þriðji lestur einhvers annars myndi væntanlega skila þriðju tölunni fyrir mánuðinn í heild. En heildarfjöldinn er samt líklega ívið lægri heldur en nú - það styður líka meðalskýjahulan í júní 1914 og áður var á minnst. 

En þess skal getið að annar mælir hefur undanfarin ár líka mælt sólskinsstundafjölda í Reykjavík - hann er þeim kostum búinn að mæla betur síðustu geisla kvöldsólarinnar og fyrstu geisla á morgnanna þegar sólargangur er allralengstur - heldur en hinn venjulegi mælir. Svo hefur einmitt viljað til nú að sól hefur helst skinið rétt í byrjun og lok dags. Þetta veldur því að sá mælir hefur nú samtals mælt 79,3 stundir í mánuðinum - 9 stundum meira en hefðbundni mælirinn. - En líklega hefði hann líka mælt meira í júní 1988 heldur en hinn. Nokkuð langan samanburðartíma þarf til að nýju mælingarnar geti orðið alveg samanburðarhæfar við þær eldri. - En það kemur.

Eitt af því sem telja má óvenjulegt er að hámarkshiti ársins til þessa í Reykjavík er ekki nema 14,3 stig - og ekki nema 13,5 stig á kvikasilfursmælinn í gamla skýlinu. Þessar tölur eru reyndar frá því í maí. Hæstu tölur í júní eru 13,2 stig (hólkur) og 12,6 stig (skýli). Nú er það svo að skýlið er nú aðeins opnað tvisvar á dag, líklegt er að minni munur hefði verið á hámarkshita hólks og skýlis ef það væri opnað á þriggja stunda fresti eins og var á árum áður. 

Það er sárasjaldan að hámarkshiti júnímánaðar sé lægri en 14 stig í Reykjavík. Frá því að samfelldar hámarksmælingar hófust árið 1920 hefur það gerst sjö sinnum að hámarkshiti júnímánaðar hefur verið undir 14 stigum, þrisvar undir 13,5 stigum og aðeins einu sinni jafnlágur og nú (13,2 stig). Það var 1978. Hámarksmælingar voru mjög stopular fyrir 1920, en voru þó gerðar í júní 1885 þegar mánaðarhámarkshitinn mældist aðeins 12,5 stig. Hæsti hiti sem mældist á athugunartíma í júní 1914 (þeim sólarlausasta af öllum) var 13,0 stig. 

Það hefur gerst aðeins 6 sinnum (frá og með 1920) að hæsti hiti fyrri hluta árs hefur verið lægri en nú í Reykjavík (14,3 stig), síðast 1994, en áður 1978, 1977, 1973, 1961 og 1922. Rétt að hafa í huga að samkeppni upp á tíunduhluta er varla marktæk - mest viðhöfð til gamans.  

Sumareinkunn júnímánaðar á (leik)kvarða ritstjóra hungurdiska verður mjög lág í Reykjavík, líklega núll og enginn sumardagur hefur enn skilað sér í júnímánuði (samkvæmt skilgreiningu ritstjórans). Við látum uppgjörsfréttir og samanburð bíða þar til mánuðurinn er endanlega liðinn. 


Sjávarhitastaðan

Við lítum nú á sjávarhitavik á Norður-Atlantshafi eins og evrópureiknimiðstöðin segir þau vera um þessar mundir.

w-blogg270618a

Köldu vikin suðvestur í hafi eru áberandi á kortinu. Langmest eru þau við Nýfundnaland - þar trúlega afleiðing af hafísbráðnun fyrr í vor. Við sjáum ekki á þessu korti hvort vikin eru aðeins í örþunnu lagi eða hvort þau ná eitthvað dýpra. Ísbráð er létt og flýtur vel ofan á þar til öflugir vindar blanda henni niður - og hlýrri sjó (sem væntanlega er undir) upp. 

Köldu vikin eiga sjálfsagt einhvern þátt í svalanum hér suðvestanlands að undanförnu - vegna þess að ríkjandi vindar hafa blásið beint af þeim slóðum þar sem þau ríkja. Hefðu vindáttir verið lítillega aðrar hefðu áhrif neikvæðu vikanna verið því minni hérlendis. 

Enn er sjávaryfirborð hlýtt fyrir norðan land. Annars er við því að búast að dagleg vikakort reiknimiðstöðvarinnar geti verið nokkuð kvik þessa mánuðina. Stöðin var að taka í notkun nýja tengingu milli lofts og sjávar - loft og vindar þess fá nú að ráða meiru um sjóinn fyrstu daga hverrar spárunu heldur en áður. Þetta kann t.d. að hafa þau áhrif að þau vik sem lítil eru um sig verði snarpari en við eigum að venjast á myndum sem þessum - en reynslan verður að skera úr um það hvernig þetta nýja fyrirkomulag stendur sig. Ef vel gengur mun það bæta spár enn frekar. Reiknimiðstöðin á glæsilegan feril að baki og er í fararbroddi á heimsvísu - þó ekki sé alltaf allt í besta lagi - ekki er með nokkru móti hægt að ætlast til þess. 


Af árinu 1886

Árið 1886 var harðindaár eins og fleiri um þetta leyti. Aðeins einn mánuður ársins telst hlýr. Það var október. Níu mánuðir voru kaldir og tveir, janúar og desember, meðal þeirra tíu köldustu sem vitað er um. Hiti var ekki fjarri meðallagi í mars og nóvember. Þetta er kaldasta ár frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík, ársmeðalhiti þar var aðeins 2,4 stig. 

Hæsti hiti ársins mældist 26,3 stig á Teigarhorni þann 4.júlí. Það var þá hæsti hiti sem mælst hafði á landinu á opinberan mæli dönsku veðurstofunnar. Ekki gætti þessarar hitabylgju á fleiri stöðvum - enda sárafáar austanlands. Mest frost mældist í Möðrudal 15.desember, -25,1 stig. Athuganir byrjuðu í Möðrudal um sumarið - ekki er ótrúlegt að þar um slóðir hafi verið meira frost í janúar, febrúar eða mars þegar frost fór m.a. í -22,9 stig á Raufarhöfn (6.mars). 

ar_1886t

Listi yfir kalda daga í Reykjavík er langur, 37 dagar alls og enginn dagur telst þar hafa verið hlýr. Tólf dægurlágmarsmet lifa enn frá þessu ári í Reykjavík og fjögur á Akureyri. Þann 15.febrúar mældist frostið í Reykjavík -18,3 stig, það mesta sem nokkru sinni hefur mælst þar í febrúarmánuði.  

Á myndinni má sjá mjög órólega hitatíð í janúar og fram eftir febrúar, hiti á stöðugu iði - oftast þó neðan frostmarks. Í mars kom rólegri tími með viðvarandi hláku um tíma, en kuldakastið í lok mars sker sig nokkuð úr og eins má sjá mikla kulda síðari hluta maímánaðar og fyrstu dagana í júní. Síðari hluta júlímánaðar komu allmargir sæmilega hlýir dagar. Snemma í ágúst féll hiti mjög og þá komu margir dagar þegar hámarkshitinn náði ekki 10 stigum í Reykjavík. Seint í nóvember kólnaði mjög og var eftir það linnulítil frostatíð til loka ársins.

ar_1886p

Vetrarþrýstingur var fremur hár og lægsti þrýstingur ársins var ekki lágur, mældist 955,8 hPa í Vestmannaeyjum þann 3.nóvember. Hæstur mældist þrýstingurinn á Akureyri 28.febrúar, 1045,8 hPa. Þrýstingur var óvenjulágur í ágúst. Einnig var tíð óróleg í júní. 

Fréttir frá Íslandi segja:

Með nýári hófst harðindatíð yfir allt land með miklum snjógangi, og allmiklu frosti (þó sjaldan yfir 10°C í Reykjavík, mest 18°C 15. febrúar. Þessi veðrátta hélst út allan janúar og mestallan febrúarmánuð, og var þá farið að skera af heyjum sumstaðar á Suðurlandi. 7.janúar var mesta afspyrnurok á Austurlandi; fauk þá nýsmíðuð kirkja á Kálfafellsstað í Suðursveit af grunni og brotnaði, menn týndust, fiskhús fuku, fjárhús rauf, skútur rak upp og um 1000 fjár fórst þar; seinast í febrúar batnaði nokkuð og var gott og stillt veður mestallan mars, einkum sunnanlands og tók snjó upp nokkuð; enn seinast í mars gerði ofsa-norðanveður um allt land og illviðri. Þá rak hafís mikinn að Norður- og Vesturlandi, enda hafði hafíshroði þegar sést þar í janúar og hélst hafís þar, einkum við Strandir, allmikill, ýmist landfastur eða skammt undan landi allt fram í ágústmánuð; bægði hann strandferðaskipunum tvisvar sinnum frá því að halda ferðaáætlun sína og tálmaði siglingum nokkuð, enn þó minna enn von var á og voru kaupför komin að Norðurlandi á allar hafnir (nema Borðeyri og Raufarhöfn) þegar í maí.

Þetta harðindakast stóð miklu lengur og var harðara á Norður- og Vesturlandi en á Suður- og Austurlandi; þar batnaði það fyrri hluta aprílmánaðar og tók þar upp snjó og gerði gott veður yfir höfuð síðari hluta apríl og fram í maí; norðanlands og vestan var og allgóð veðrátta um tíma um páskaleytið. Mestallan maí var kuldaveðrátta um allt land, þó einkum vestanlands og norðan og stafaði hún af hafísnum, sem þá rak vestnorðan að landinu (í 3. sinn) og hindraði og spillti mjög gróanda, þar sem hann var kominn; hélst hún fram í júní; þannig kom jörð t.d. í Fljótum og á Skaga ekki upp fyrr enn undir fardaga; þó var vorið ekki kallað mjög hart á Suðurlandi nema í Borgarfirði.

Sláttur byrjaði á Norður- og Vesturlandi ekki fyrr eða litlu fyrr en í fyrra [1885], en á Suðurlandi um miðjan júlímánuð; voru þar þerrar allgóðir framan af slætti, en á Norðurlandi þá oftast þokur og deyfur, og í ágústmánuði voru dæmafáir óþerrar um land allt, nema á Suðurlandi með köflum, og héldust þeir fram í september; gerði þá oft bleytukaföld og snjódrífur, einkum á Vestur- og Norðurlandi, svo að menn urðu alloft verklausir svo dögum skipti um heyanna-tímann.

Á Suðurlandi voru svo miklar rigningar í september-byrjun, að á Kjalarnesi hlupu skriður allmiklar úr Esjunni á tún og engjar og spilltu mjög 9 jörðum, og ár báru víða grjót og leir á engjar og ónýttu hey að mun í Kjós og Mosfellssveit, og haustið varð á Suðurlandi fremur rigningasamt, enn gott veður að öðru leyti fram á vetur. Fyrri hluta septembermánaðar náðust fyrst almennt töður og úthey á Norður- og Vesturlandi og slætti var þar haldið áfram lengi fram eftir, sumstaðar alt til Mikjálsmessu.

Haustið þótti yfir höfuð gott, og bætti það mjög úr sumrinu og stóð sú tíð víðast fram á vetur, er einnig var mildur framan af; miklir snjóar voru þó í Skaftafellssýslum, og sumstaðar á Norður- og Vesturlandi komu hríðir (í nóvemberbyrjun), svo að fé fennti og hrakti í vötn og ár (einnig t.d. að Leirá í Borgarfirði um 70 fjár í Laxá).

Við lítum nú á blaðafréttir að vanda:

Janúar: Mjög kalt, víða allmikill snjór og harðindi. Fremur stillt veður í þriðju viku mánaðarins. Þann 7.janúar (Knútsdag] gerði fárviðri um landið austanvert og er það síðan kennt við daginn og kallað knútsbylur. Verða því vonandi gerð betri skil síðar hér á hungurdiskum, enda að sérstakt veður, t.d. var hiti -8,5°C í Vestmannaeyjum í vestanofsaveðri um morguninn. Halldór Pálsson ritaði heila bók um veðrið, þá fyrstu í flokki hans um skaðaveður. 

Austri segir frá þann 29.janúar:

Tíðarfar hefur verið frá því á síðastliðinni jólaföstu fjarskalega óstöðugt og umhleypingasamt, og svo miklir stormar og stórviðri hvað eftir annað, að menn muna varla eins hvikula tið. Fram yfir jól voru þíðvindar öðru hverju og varð nær því öríst í flestum sveitum hér í Múlasýslum, Síðan hafa verið froststormar og snjóað stundum talsvert með. En sökum hvassviðranna hefur snjóinn rifið vel, og mun rétt alstaðar vera hagval, ef af eins veður gæfi til að beita fénaði, sem ekki hefur verið nema nú seinustu 5—6 daga, er stillt hefur viðrað.

7. þ.m. skall á snemma dags ofsaveður af norðri með frosti og mikilli fannkomu; það var litlu fyrir hæstan dag að veðrið kom hér í Seyðisfirði. Það var eitt með hvössustu veðrum er hér koma, svo að varla og ekki var stætt í byljunum. Hér urðu af því nokkrir skaðar, þó litlir í samanburði við það sem víða annarstaðar varð. Fiskihús tók af grunni á Brimnesi, fjárhús fauk á Dvergasteini og hlaða í Vestdal og brotnuðu. Við Búðareyri lágu 3 skútur fyrir akkerum, 2 þeirra norskar og 1 íslensk, Hildur, hákarlaskip, eign Sigurðar Jónssonar verslunarstjóra og þeirra félaga. Þær rak allar í land og skemmdust meir og minna, einkum þær norsku. Að öðru leyti varð ekki skaði hér í Seyðisfirði. Fénaður náðist hér víðast í hús um daginn. Í Mjóafirði fauk þennan dag norskt síldarveiðahús kennt við Grasdal, á fjörð fram. Í því kvað ekki annað hafa verið fémætt en nokkuð talsvert af tunnum tómum. Í Norðfirði fórst bátur þennan sama dag með 4 mönnum. Hann var frá Nesi, og voru þeir að vitja um lagvað, er lá tæpa 1/2 mílu frá landi. Veðrið skall þar á 2 tímum eftir að þeir voru farnir fram. Daginn eftir rak bátinn brotinn með árum og segli inn á Viðfjarðarsandi. Á bátnum voru Stefán Bjarnason, bóndi á Nesi, sonur þeirra heiðurshjóna Bjarna hreppstjóra Stefánssonar á Ormsstöðum og konu hans, er enn lifa bæði. Hann var vel hálffertugur að aldri, lét eftir sig konu og 7 börn, flestöll í ómegð. Var maður duglegur og vel látinn og vel að sér í verslunarstörfum er hann hafði fyrrum haft á hendi í mörg ár bæði á Seyðisfirði og Eskifirði. Hann var einkabarn foreldra sinna sem nú eru komin að fótum fram. Að Stefáni var mikill mannskaði ekki einungis fyrir hans nánustu náunga heldur og fyrir mannfélagið í heild sinni. — Hinir mennirnir er fórust voru Stefán Vilhjálmsson, hálfþrítugur, fósturson þeirra hjóna á Ormsstöðum, Guðni Stefánsson frá Nesi og Gunnar Guðmundsson ættaður af Síðu sunnan, báðir um tvítugt, allt einhleypir og röskir menn.

Í Héraði urðu stórskaðar af veðrinu, þar urðu 4 menn úti og fjöldi fjár týndist. Mennirnir voru: Árni Jónsson á Hóli í Hjaltastaðarhreppi, aldraður maður, var að sögn að sækja við; Ólafur vinnumaður frá Fljótsbakka í Eyðaþinghá, ættaður úr Kjósarsýslu; Einar Ólafsson bóndi í Mýrnesi í sömu sveit um tvítugt, og Sigurður Stefánsson bónda á Gunnlaugsstöðum á Völlum, drengur nálægt fermingaraldri. þessir 3 voru allir við fé. Fjárskaðar urðu meiri og minni í þessum 4 sveitum: Fellum, Eyðaþinghá, Hjaltastaðarþinghá og Tungu. Mun hafa farist til dauðs að minnsta kosti um 800 fjár í þessum sveitum. Á þessum bæjum fór flest: í Hrafnsgerði í Fellum um 60, á Stórabakka í Tungu um 70 og á Hjartarstöðum í Eyðaþinghá um 130. Á flestum bæjum í þessum sveitum var búið að láta fé út um morguninn er veðrið skall á og var það með svo skjótri svipan, að sumstaðar var féð runnið örfáar teigslengdir frá húsunum, er saman laust hríðarmyrkrinu, og náðist ekki í hús, þótt maðurinn væri yfir því. Víðast hvar lá það fé úti um nóttina er búið var að reka í haga, að eins á stöku stöðum varð því komið til húsa. Víða lágu menn úti og skemmdust sumir nokkuð. Í sumum sveitum Héraðsins svo sem víða á Jökuldal, á nær því öllum bæjum í Jökulsárhlíð og i Fljótsdal var ekki búið að láta fé út um morguninn er veðrið skall á. Hefði það ekki verið, mundi fjárskaðinn hafa orðið miklu meiri.

Í Borgarfirði varð lítið um fjárskaðann og lá þó fé þar víðast hvar úti um nóttina. Að eins á einum bæ Bakka, týndist fé til muna, um 30 kindur. Í Reyðarfirði varð úti i byl þessum unglingspiltur frá Borgum, son Guðmundar bónda þar Þorsteinssonar; lágu þeir úti um nóttina feðgar, skammt frá bænum; annar son Guðmundar var dauður um morguninn, hinn kalinn, hann sjálfur skemmdur. Þar hafði og farist fé og víðar í Reyðarfirði.

Austri segir frekar frá skemmdum í Knútsbyl þann 5.febrúar (dagsetur þann 1.):

Í bylnum 7. f.m. fórst bátur á Reyðarfirði með 5 Norðmönnum og drukknuðu allir. Í sömu hríðinni missti bóndinn í Bakkagerði í Reyðarfirði nær því allar ær sinar, 35 að tölu, í sjóinn. Í Breiðdal og sveitunum þar suður af allt suður í Hornafjörð urðu miklir skaðar bæði á fé og hestum. Mun það sumstaðar hafa hrakið í sjó. Á Kálfafellsstað í Suðursveit fauk timburkirkja er byggð var í sumar af grunni og brotnaði öll. Á Þorvaldsstöðum í Breiðdal varð úti maður að nafni Artemund Guðmundsson. Menn höfðu og legið úti þar syðra og kalið til mikilla skemmda. 

Í Austra 24.febrúar er bréf úr Hornafirði dagsett 16.janúar:

Síðan um nýár hefur tíðarfarið ... verið fremur hart, vegna frosta snjóa og stórviðra. Að vísu eru hagar enn þá, en það hefur oft eigi verið hægt að nota þá fyrir illviðrum. Þann 7. þ.m. var þó veðrið verst, því að þá gerði þann blindhríðarbyl, að menn muna varla annan eins, vegna harðviðris, því að allt fauk það sem fokið gat, og laust var. Fyrst um morguninn var veður bærilegt, og voru því sumir búnir að reka fé í haga. En veðrinu skall á út úr dagmálum rétt á einni svipstundu svo vondu að fé varð ekki komið að húsum, jafnvel þó ekki væri nema örskammur vegur, því að menn réðu eigi við neitt vegna harðveðurs. Lá við sjálft að sauðamenn yrðu sjálfir úti, því að þeir villtust víða; en þeir hittu samt flestir á eitthvert hæli og komust svo að bæjum um kveldið, því að þá skánaði veðrið dálítið. Eftir veðrið voru ekki falleg vegsummerki. Það fé sem ekki náði húsum fannst slegið og fast í fönnum og sumt rekið undan. Sumt tórandi og sumt alveg dautt. Í Nesjum varð fjárskaði á þrem bæjum, á einum þeirra fór nálægt 50 fjár. í Lóni urðu miklir fjárskaðar á 3 bæjum líka. Á tveim bæjum á Mýrum fór fé, og það svo að á öðrum bænum lifði ekki nema fáar kindur eftir; þar (á Mýrum) vantar líka nokkur hross, hafa þau líklega hrakið út í sjó.

Þennan sama dag fauk kirkjan á Kálfafellsstað í Suðursveit, og brotnaði í spón. Var það ákaflega mikill skaði, því að kirkjan var byggð í sumar. Þetta veður olli því miklu tjóni hér um Austur-Skaftafellssýslu, var þó mikil heppni að eigi stóð lengur á því en einn dag, því að hefði það staðið lengur myndi engin skepna haldið lífi sem úti var.

Fróði birtir þann 26.mars bréf frá Seyðisfirði - ritað 8.janúar. Þar segir meðal annars:

Eins og ég gat um, var hér hið mesta ofviðri í gær. Sleit þá upp 3 dekkskip, er lágu við Búðareyrina í vetrarfestum; ráku þau öll á land og brotnuðu. Eitt af þeim var hið nýja fiskiskip Sigurðar verslunarstjóra Jónssonar á Vestdalseyri „Hildur", hin voru eign Norðmanna. Ekki hefir enn frést um annan stórskaða af veðri þessu, en mjög er hætt við að það hafi gert meira tjón, því veðrið var óvanalega mikið og illfarandi húsa á millum. Þannig tók mann hér er var á gangi upp í einum bylnum, þeyttist hann góðan spöl, en náði í jarðfastan stein og gat haldið sér í hann, meðan á bylnum stóð; hefði hann ella fleygst á sjó út.

Austri birtir 5.febrúar bréf frá Akureyri dagsett 8.janúar, þar segir m.a.:

Nú fer oss að kólna norðlendingum ef lengi viðrar eins og í dag, því nú er 19° frost á C, og í gær var blindbylur svo illfært þótti húsa milli. Það er önnur stórhríðin, sem teljandi er, er komið hefur hér í vetur. Hin var á sunnudaginn var [3.], og rak þá niður fádæma mikla fönn á einum sólarhring. Ófærð er sögð ákaflega mikil. 

Þjóðólfur segir þann 15.janúar:

Um 80 fjár fórst sunnudaginn 3. þ.m. i Ölfusá eða sjónum þar nálægt frá Vindheimum i Ölfusi og öðrum bæ þar í sveitinni. Hestur kafnaði í hesthúsi á bæ einum i Ölfusi, af því að hesthúsið, sem hann var i, fennti i kaf. Sýnir það, hve mikill snjór er kominn.

Ísafold kvartar yfir tíð - fyrst þann 13.janúar og síðan þann 26.:

[13.] Tíðarfar [er] nú mjög óhagkvæmt, bæði til lands og sjóar. Fannkomur ákaflegar. Jarðbann yfir allt. Örsjaldan gefur á sjó, en þó nokkur fiskur fyrir í syðri veiðistöðunum hér við Faxaflóa, einkum í Garðsjó. Harðindi manna á milli sívaxandi.

[26.] Enn er sama hellan yfir allt af snjókynngi og klaka; fær varla fugl í nef sitt, hvað þá heldur nokkur ferfætt skepna. Er sömu tíð að frétta að norðan með vermönnum. En staðviðri hafa verið nú vikutíma.

Fróði á Akureyri segir frá þann 30.janúar:

Veðrátta hefir verið mjög stirð þennan mánuð, norðan kafaldsbyljir annarslagið og fannkoma mikil og frost. Snjór er því mikill og Eyjafjörður er lagður út að Hjalteyri. Hafíshroði hefir komið inn hjá Hrísey en rekið út aftur. Í Skagafirði og Húnavatnssýslum er snjórinn sagður enn meiri og jarðlaust fyrir hesta í Skagafirði, en Öxndælingar og Svarfdælingar eiga þar marga útigangshesta sem vandræði verða með.

Austri birtir þann 19. mars bréf frá Reykjavík, dagsett 3.febrúar:

Átján fyrstu daga ársins var versta tíð og mjög óstillt, kyngdi þá niður fádæma snjó svo jarðlaust varð bæði fyrir fé og hesta, en sjaldan var frostið yfir 10°. Síðan hafa oftast verið stillingar en frost nokkurt, nema 27. og 28. [janúar], þá daga var dálítill bloti, en hann gjörði að eins vont verra og hleypti öllu í gadd. Frést hefur að farið sé strax að skera af heyjum sumstaðar hér austur með, einkum i „Holtunum", og sýnir það að Sunnlendingar læra seint að setja á svo dugi.

Í Reykjavík var tíð erfið í janúar - við grípum niður á stangli í pistla Jónasar Jónassen:

[6.1] Síðasta dag ársins var hér fagurt veður allan daginn, og gamlársdag var hér aðeins föl á jörðu. Nýársdag snjóaði hér talsvert að kveldi, og aðfaranótt h.2. féll hér talsverður snjór og um kveldið h.2. var hér um tíma blindöskubylur af austri og það hvass; gekk svo sunnudaginn (3.) til norðurs, bráðhvass og snjóaði hér talsvert; allan þann dag var hér moldviðrisbylur. 

[13.1] Umliðna viku hefir verið hin mesta óstilling á veðri, hlaupið úr einni áttinni í aðra sama sólarhringinn; h. 6. var hér bráðviðri á útsunnan að kveldi; rauk aðfaranótt h.7. á norðan með moldöskubyl með gaddi. Snjór hefir fallið hér mjög mikill þessa vikuna; í gærkveldi (11.) fór að rigna hér af landsuðri eftir undangangandi moldöskubyl af austri, frá því um miðjan dag, en um miðnætti var hann genginn til útsuðurs. Í dag (12.) hvass og dimmur á útsunnan með haglhryðjum og blindbyljum; allbjart þess á milli. Loftþyngdarmælir er á einlægu iði allan sólarhringinn.

[20.1] Fyrra miðvikudag (13.) var hér logn og fagurt veður fram yfir miðjan dag; síðan gekk hann til austurs með blindbyl og svo til landsuðurs seinna um kveldið og var hvass, gekk aðfaranótt h.14. til útsuðurs með byljum og miklu brimróti til sjávarins; rauk svo á norðan og hefir síðan verið á þeirri átt, oft rokhvass; þessa síðustu dagana hefir héðan að sjá verið blindbylur allan daginn efra til sveita. Í fyrradag fór sjóinn að leggja hér fram á víkina (hroði). Í dag (19.) fagurt veður, logn, en hvass til djúpanna. 

[27.1] Umliðna viku hefir verið mesta stilling á veðri, oftast bjart veður og sólskin, og má heita aö logn hafi verið daglega, ofurlítill kaldi af austri að kveldi.

Febrúar: Harðindi og snjóþyngsli, snjóþyngslin óvenjuleg vestan til á Norðurlandi. Önnur vikan sérlega köld, en síðan batnaði heldur.

Þann 24.febrúar eru enn skaðafréttir í Austra:

Tíðarfarið hefur enn um undanfarinn tíma verið mjög óstöðugt og umhleypingasamt en frostalítið. Í Fjörðum hefur verið og er nær því alveg jarðlaust. En í Héraði mun víða vera enn talsverð jörð. Nýlega varð slys á Sævarenda í Fáskrúðsfirði, vatnsflóð hljóp þar á bæinn og baðstofuna; hjónin sváfu undir lofti og 1 barn og gömul kona; vatnið braust inn í herbergið undir loftinu og fyllti það allt; drukknuðu þar þessir 4 menn, en hitt fólkið 12 manns, er annarsstaðar svaf í bænum, sakaði ekki.

Sama dag segir Ísafold frá harðindakveini:

Mesta harðindakvein er nú að heyra úr öllum áttum hér sunnanlands að minnsta kosti: bjargarþrot og heyþrot almenn, engin hjálpræðisvon önnur en bráður bati og stöðugur, sem nú virðist líka vera byrjaður. Húnaflói var fullur af hafís, er síðast fréttist. Póstarnir norður og vestur, er lögðu af stað héðan 6. þ.m., voru á níunda degi, sunnudag 14. þ.m., ekki komnir lengra en að Hesti í Borgarfirði; svo voru illviðrin megn um það leyti. ... Eftirfarandi pistill lýsir ítarlega ástandinu í Snæfellsnessýslu, sem er sjálfsagt eitt með bágstöddustu héruðum landsins.

Bjargarskorturinn í Snæfellsnessýslu er meiri og voðalegri en nokkru sinni áður á síðastliðnum 30 árum. Veldur því margt, svo sem mjög óhagkvæm verslun hér fremur en viðast annarstaðar á landinu og vöruskortur nær því árlega; afarslæm veðrátta yfir höfuð síðastliðin 5 ár, og þar af leiðandi skepnufækkun. Þó tók út yfir í sumar er leið, einkum í þeim hreppum sýslunnar, er sunnanfjalls liggja: Breiðuvík, Staðarsveit, Miklaholts-, Eyja-, og Kolbeinsstaðahreppum, og virðist Snæfellsjökull eiga ekki alllítinn þátt í því, að draga að sér vætu, svo að þar eru miklu tíðari úrkomur en norðanfjalls; svo er og norðanátt miklum mun verri þar en innanfjalls á vetrum. Í sumar [1885] hét varla að bithagi kæmi fyrr en eftir mitt sumar; því framan af sumrinu voru jafnast austnorðan og norðanstormar og rok, með frosti að nóttu og oft á daginn líka; þrávalt fennti í fjöll og stundum í byggð. Þegar þessu linnti, komu þrálátar kalsarigningar til rétta. Af þessu leiddi hinn mesta grasbrest, bæði á túnum, sem óvíða gáfu meiri töðu en helming og liðugan helming, og sum ekki nema þriðjung á móts við meðalgrasár, og á engjum, sem alstaðar voru miklu verri en í meðalárum. Eftir þessu var nýtingin, heyin allstaðar nokkuð hrakin og sumstaðar brunnin; ásauður gerði ekki nema hálft gagn, svo málnytusafn er lítið og ekkert sumstaðar; haustskurður afarrýr; því tíminn, sem skepnur höfðu til að fitna, var of stuttur; gagn af kúm í vetur ekki nema hálft og varla það. Matjurtagarðar allir alveg ónýtir.

Eitthvað linaði um hríð syðra síðari hluta febrúarmánaðar. Þjóðólfur segir frá þann 26.:

Tíðarfar hefur hina síðustu viku verið hagstætt hér syðra, því að nú hefur komið hláka, svo að jörð er komin upp í lágsveitum, en ekki upp til heiða og fjalla; enda er það varla von, því að snjórinn er fjarska mikill.

Að norðan nýjustu fréttir úr Svínavatnshreppi 15. þ.m.: „Jarðbönn yfir allt og snjóþyngsli ógurleg, enda hefur varla linnt hríðum og snjókomu síðan um jól. Útlit fyrir heyþröng, ef þessu heldur lengi. Á verslunarstöðunum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum er matvara þrotin, nema í verslun Höepfners á Blönduós og Skagaströnd. Hafís mikill kominn að landi, en eigi orðinn landfastur innst á Húnaflóa".

Vestanpóstur kom i fyrrakveld. Með honum fréttust sömu harðindin um allt Vesturland. Bjargræðisskortur víðast hvar, einkum i Snæfellsnessýslu. Fiskiafli allgóður í Ísafjarðardjúpi.

Þann 3.mars segir Ísafold:

Nú hafa verið stillur síðan með góubyrjun, og ýmist frosthægt eða frostlaust. Jörð komin upp í lágsveitum hér sunnanlands, en svelljökull mikill yfir ella. Hafís um allan Húnaflóa, er síðast fréttist, um Skagafjörð utanverðan og Skjálfanda inn undir Flatey.

Jónas Jónassen lýsir febrúartíð í pistlum sínum og segir m.a. þann 3.:

[3.2.] Framan af þessari viku brá til landsynnings með talsverðri rigningu; hér var húðarigning um kveldið h. 28.[janúar], en aðfaranótt h.29. fór að snjóa aftur og kyngdi hér ákaflega miklum snjó niður þá nótt; síðan hefir verið hægviðri og má heita að verið hafi logn daglega og fagurt veður. Í dag (2.) logn og bjart sólskin. Snjór er hér á jörðu óvenjulega mikill.

[10.2] Umliðna viku hefir mikil ókyrrð verið á veðrinu síðan h.4.; þá var hér austanveður, hvass að morgni með byl, gekk svo til landssuðurs eftir hádegi, hægur með nokkurri rigningu; daginn eftir gekk hann til útsuðurs með hryðjum, þó eigi hvass, og brimlaust; næsta dag h.6. var hér austanveður, hvasst, með krapaslettingsbyl, allt fram að hádegi; en er á leið daginn, var komið landsynningsrok með húðarigningu allt kvöldið og næstu nótt; snemma morguns h.7. lygndi litla stund á meðan hann gekk til í útsuðrið með ákaflega miklu roki og brimi til sjávarins; hefir hann síðan verið við útsuðrið, rokhvass í byljunum. Sá mikli snjór sem kominn var, minnkaði mikið hér við rigninguna 6.-7. 

Mars: Tíð talin allgóð mestallan mánuðinn, en harðviðri í lokin.

Þjóðólfur segir þann 19. (lítillega stytt hér):

.. með góubyrjun (21. febrúar) kom góður bati, svo jörð kom upp i lágsveitum. 5. þ.m. [mars] gjörði aftur allmikinn snjó. En um miðja góu (7. mars) hlánaði aftur og gjörði ágætishláku, svo að nú er orðið öríst í öllum lágsveitum og tíð hin besta. Aldrei hefur verið mikið frost í vetur, sjaldnast yfir 10 gr. C.; mest frost 18 gr. C. aðfaranótt 15. febrúar.

Austri segir þann 19. frá slysi á Seyðisfirði:

Nóttina til 13. þ.m. drukknuðu hér á firðinum 2 menn af báti; bátinn rak i land morguninn eftir með mastri uppistandandi og seglinu útþöndu og föstu. Hafa þeir því farist á siglingu, og annað hvort siglt upp á jaka, því að þá var nokkuð af íshroða í firðinum, eða kastvindur hefur fleygt bátnum um, því að byljótt var þegar snemma um nóttina. Mennirnir voru báðir frá Vestdal.

Jónas Jónassen segir í pistli 17.mars:

Alla umliðna viku hefir verið austanátt, oftast landsynningur með mikilli úrkomu, svo hér er nú allur snjór tekinn upp; laugardaginn h.13. var hér eitthvert hið mesta ofsarok af landssuðri er menn muna til; stóð það allan daginn, þó harðast um og eftir hádegi; fylgdi því óhemjurigning; kl. l0 1/2 um kveldið gjörði allt í einu logn með hinni áköfustu rigningu framan af nóttunni; daginn eftir 14. var hér logn og bjartasta veður. Í dag (16.) hægur landsunnan, bjartur í morgun en dimmur um hádegið og hlýr. ... Áður en ofsarokið kom á laugardaginn var, sást engin breyting á loftþyngdarmælinum, og meðan á því stóð, lækkaði hann mjög lítið, og kom hér fram sem oftar, að mjög hæpið er að reiða sig á hann; sjómenn vorir ættu því að gefa þessu nákvæmustu gætur, Líklegt er, að veðrið hafi eigi náð mjög langt héðan.

Ísafold segir frá því þann 17.mars að í veðrinu þ.13. hafi franska fiskiskútu slitið upp á Reykjavíkurhöfn og hana síðan rekið fyrir öðru akkerinu yfir Grandann og nærri því út í Hólma - ekki varð manntjón. Fjallkonan nefnir 23.mars að tjón hafi einnig orðið af foki, einkum í Borgarfjarðarsýslu í þessu sama veðri. Enn rak tvær franskar skútur upp í Reykjavík í illviðrinu í lok mánaðarins. Í því veðri strandaði líka frönsk skúta við Þorlákshöfn (Ísafold 7.apríl). 

Þjóðólfur segir þann 2.apríl:

Á laugardag var [27.mars] brá til norðanáttar og frosta. Hina síðustu daga hefur verið aftaka norðangarður með 8—12 gr. frosti, og hríðarmökk norðurundan að sjá.

Apríl: Bærileg tíð að fyrsta þriðjungnum slepptum, jörð kom upp syðra og eystra.

Þann 9. segir Þjóðólfur:

Hinu mikla norðanroki, sem getið er um í síðasta blaði, linnti á sunnudagsnóttina [4.];  síðan frostavægt, en hefur gert talsverðan snjó.

Fróði segir frá tíð þann 15.apríl:

Akureyri 14.apríl 1886. Nú í hálfan mánuð undanfarinn hefir tíð verið hörð, frost allt að 13°R. Í dag er þíðviðri. Snjór mjög mikill til fjalla, en nokkur jörð auð á láglendinu, og Eyjafjörður íslagður útfyrir Laufás að austanverðu, en lengra út með vesturlandinu, og þar fyrir utan hafíshroði svo langt sem sést. Á hve miklu svæði hafísinn liggur útfjarðar fyrir Norðurlandi veit enginn, en tilgátur sjómanna eru að hann muni vera mikill. Viða eru menn orðnir mjög heylitlir bæði með töður og úthey.

Þann 23.júlí birti Fróði bréf úr Árnessýslu dagsett 19.apríl:

Veturinn er bráðum á enda, og réðist hann betur en út leit fyrir um hríð, því síðan góa kom hefir eigi komið öðru hærra, nema norðankast gjörði allhart í 2.viku einmánaðar. Þá fór fiskur burt af miðum hér, því sandfok dreif á sjóinn, má kalla að fiskilaust sé síðan og er afli yfir höfuð lítill, og hart í búi hjá mörgum.

Í Austra þann 5.maí er bréf úr Hornafirði dagsett 19.apríl - þar er yfirlit um veðurlag þar um slóðir:

Þegar Austri fékk fréttir héðan síðast 16.janúar var allt hulið snjó og klaka, og norðannæðingur hélst að mestu við út mánuðinn. 5.febrúar brá til austanáttar með þíðu, var svo oftar við hafátt og þíðu allan febrúarmánuð, aðeins einstöku sinnum norðanvindar með frosti. Í mars var tíðarfarið einstaklega gott, oftast frostleysa og blíða þar til 27. að brá í norðanátt með feikna stormum og snjókomu ýmist; frostið oft 12°R. Þessi hörkukafli stóð rétt í viku svo að aldrei varð hlé á. Illviðrið var svo mikið að sjaldan var hægt að láta skepnur út, þennan tíma. Síðan að þessum hörkukafla linnti hefur tíðarfarið verið allgott, og nú rúma viku hefur verið veruleg vorblíða. Yfir höfuð má heita að veturinn hafi verið góður. Það var aðeins þessi kafli í janúar sem nokkuð var harður. Hefði það þó ekki verið svo tilfinnanlegt, hefði ekki drápsbylurinn 7.janúar komið.

Í sama blaði Austra er segir einnig frá Akureyri, 20.apríl:

Framan af þessum mánuði var hörð tíð. Rak þá ís að landi og inn á Eyjafjörð og Skjálfanda og fleiri firði. Um miðjan mánuðinn gekk aftur til sunnanáttar. Síðan hefur oftast verið allgott veður en þó óstillt. Í dag er hláka. Snjór er enn ákaflega mikill. Margir bændur hér um sýslu munu nú orðnir heylitlir.

Maí: Kuldaveðrátta um mestallt land.

Fyrstu dagar mánaðarins þóttu þó hagstæðir ef marka má Þjóðólf þann 7.maí:

Tíðarfar hefur hér í langan tíma verið hið besta. Norðanlands hefur það verið miklu verra en hér syðra síðasta hluta vetrarins. Um sumarmálin var þó farið að lina og viða komin upp jörð. Lagís allmikill innst á fjörðum nyrðra allt til sumarmála og hafís þar fyrir utan; en hann var þá mestallur kominn af Húnaflóa og Skagafirði rétt eftir sumarmálin.

Jónas Jónassen lýsir líka góðri tíð í pistli þann 12.maí:

Umliðna viku hefir viðrað óvenjulega vel bæði til lands og sjávar, rigningaskúrir og sólskin hafa skipst á, svo nú er jörð hér eins græn eins og um miðbik júnímánaðar í fyrra; stöku nótt hefir snjóað lítið eitt í fjöll. Í dag h.11. hæg útnorðanátt, bjart sólskin.

Ísafold segir frá kuldum þann 26.maí:

Kuldatíðin, sem byrjaði hér laust fyrir krossmessuna [hún er 3.maí, en hún er samt stundum talin þann 13. og er það trúlega hér], stendur enn, og stafar af hafís, sem hefir verið að hrekjast um Húnaflóa og líklega legið fastur við Hornstrandir öðru hvoru síðan um mánaðamótin mars og apríl. Austar varð hans ekki vart neinstaðar, þegar strandferðaskipið var á ferðinni, enda hefir vorað ágætlega á Austurlandi: meðalhiti í apríl á Seyðisfirði + 3°C. Nýkomnir ferðamenn norðan úr Strandasýslu segja Hrútafjörð alþakinn lagnaðarís, en þar fyrir utan tók hafísinn við. Þar voru frosthörkur miklar, og skepnur allar hýstar, flestar á gjöf. Sigling var þó komin fyrir nokkru bæði á Blönduós og Reykjarfjörð.

Jónas Jónassen segir frá í pistli þann 19.maí:

Alla umliðna viku hefir hér verið norðanátt með talsverðum kulda; þótt eigi hafi hann verið mjög hvass hér; hefir verið að sjá rok til djúpa á hverjum degi; við og við hefir snjó ýrt úr lofti; í Esjuna hefir snjóað, svo alhvít hefir orðið alveg niður sjávarbakka. Ekkert útlit er fyrir, enn að hann sé að ganga niður veðrið. Í dag 18. vægari með veður, bjartur og með hlýjasta móti.

Enn segir Ísafold frá kuldatíð þann 2.júní:

Kulda- og þurrviðrasamt enn hér sunnanlands og vestan. Frost á hverri nóttu, þegar frá sjó dregur, nær allan fyrra mánuð, jafnvel -4° til 6° í Borgarfirði ofanverðum. Úr Hrútafirði skrifað 20.[maí]: „Um síðustu helgi og eftir hana hafa verið menn á ferð yfir Holtavörðuheiði og Haukadalsskarð, og komu fönnugir og freðnir til byggða, og sögðu eigi ratljóst fyrir fannkomu og skafhríð, en vörðurnar höfðu staðið upp úr gaddinum á heiðinni, því á þessum fjallvegi stígur ekki af gaddi þar til skammt er til byggða“.

Fróði segir frá tíð á Akureyri og víðar 1.júní (dagsett 31.maí):

Síðastliðna viku var veðráttan mjög köld og frost á hverri nóttu, er því alveg gróðurlaust. Í Fljótum og Siglufirði kom snemma í þessum mánuði svo mikill snjór, að fé fennti; síðan hefir ekkert tekið, svo allt útlit er til, að bæði sauðfé og nautpeningur falli þar því nær gjörsamlega. Fyrir fám dögum síðan var á Siglunesi eigi eftir nema ein kýr af sex, og líkt hlutfall mun vera víðar.

Júní: Kuldatíð víðast hvar, einkum þó um norðvestanvert landið. Kalsi stóð gróðri fyrir þrifum.

Þjóðólfur segir ísfréttir og lýsir tíð þann 4.júní:

Strandferðaskipíð „Thyra" kom hingað fyrra mánudagskveld, 24.[maí]; komst alla leið á Skagaströnd, varð vart við hafís undan Hornströndum og sneri við það aftur austur um
land, stóð hér við eina klukkustund, og fór síðan til Vestfjarða.

Alla vikuna sem leið hafa verið norðanstormar og frost á hverri nóttu. En í fyrradag [2.júní] hrá til sunnanáttar með nokkurri úrkomu, sem enn helst. Skepnuhöld sögð góð
um allt Suðurland og Borgarfjörð. Hafís sagður fyrir Norðurlandi vestanverðu, og ótekinn snjór upp til sveita. Öndvegistíð á Austurlandi allt vorið, og skepnuhöld góð. Kaupskip komin á flestallar hafnir norðan lands og austan.

Og enn eru fréttir af kulda í Þjóðólfi þann 18.júní:

Norðanpóstur kom í gærkveld. Kuldar hafa verið mjög miklir um allt Norðurland í vor til þessa. Gróðurleysi frámunalegt, engu betra en í fyrra, ef ekki verra; jörð kom t.d. í Fljótum og á Skaga ekki upp fyrr en undir fardaga. Hafíshroði á Hrútafirði, svo að kaupskip hafa ekki komist inn á Borðeyri; inni á fjörðum er hann ekki annarstaðar, en hákarlaskip frá Akureyri hafa hitt hann allmikinn úti fyrir, þó komst Thyra klaklaust norður um land. Síldarafli ágætur á Eyjafirði seinni hluta maímánaðar.

Ísafold segir frá kulda í pistli þann 23.júní:

Vorið hefir verið ákaflega kalt allt til þessa norðanlands og vestan, einkum á útkjálkum öllum, næst hafísnum, sem nú var reyndar horfinn, en líklega ekki mjög langt farinn. Í Siglufirði og Fljótum lágu tún undir snjó nú er strandferðaskipið fór um; stóðu ekki upp úr nema í hólar og börð. Mjög hart um bjargræði, þar sem sigling er ókomin eða var fyrir skemmstu, svo sem í Strandasýslu og í Húnavatnssýslu vestanverðri. Af Svínavatni í Húnavatnssýslu leysti eigi ís fyrr en að liðnum fardögum.

Fróði birtir 6.júlí pistil dagsettan á Akureyri 28.júní:

Veðurátta flesta daga fremur köld og gróðurlítið í úthaga þó er nú sem óðast að gróa og spretta. Skepnuhöld góð hér um sveitir og hefir mjög fátt farist af unglömbum á þessu vori. Viðri vel hér eftir er útlit til að flæðaengi spretti vel þar sem árnar báru leir á í fyrra, og hann varð ekki of mikill. 

Júlí: Þokudeyfð norðanlands, en þurrkar allgóðir syðra. Kalt.

Þjóðólfur lýsir tíð þann 23.júlí:

Hér syðra hafa nú síðan um fyrri helgi mátt heita stöðugir þurrkar, oftast norðanátt, þangað til í gær að talsvert rigndi. Grasvöxtur er hér syðra og í Árnessýslu víða allgóður. Í Borgarfirði illa sprottið. Annarsstaðar af landinu er yfir höfuð að frétta grasbrest, og hann mjög mikinn á öllum útkjálkum fyrir norðan og vestan.

Í Austra 7.ágúst er tíðarpistill dagsettur þann 3.:

Það sem af er sumrinu hefur tíðin verið ákaflega köld, alla tíð norðan og norðaustan átt með þokum og óþurrkum og hafa eigi komið nema örfáir þurrkdagar. Miklar rigningar hafa aldrei verið. Þá fáu daga sem sól hefur skinið i heiðríku lofti, hafa þó aldrei verið veruleg hlýindi, því strax sem andað hefur úr einhverri átt, sem naumast hefur verið nema annaðhvort af norðri eða norðaustri, þá hefur golan verið sárköld. Loftkuldinn hefur verið og er enn óvanalega mikill. Af þessari kuldatíð leiðir, að jörð er mjög illa sprottin; vöxtur á túnum lítur útfyrir að verða í lakara meðallagi, ef til vill í meðallagi á þurrlendum túnum, en þau tún, sem seilukennd eru, hafa kalið mjög að sögn. Mjög bágborið útlit kvað vera á engjum yfir höfuð enn sem komið er, en ef hlýnaði í veðri, þá getur útengi sprottið enn. Á Úthéraði eru allar blár og mýrar svo fullar með vatni, að grasið sem í þeim er næst eigi, svo að fullum notum verði. Enn sem komið er, því eigi glæsilegt útlit með heyafla bænda, sem er þó undirstaða búskapar þeirra. reyndar getur nokkuð úr þessu bæst enn, ef þurrka- og hlýindatíð kæmi, en engu að síður verður þó bjargræðistíminn með stysta móti, þar sem almennt var eigi hægt að byrja heyskap fyrr en um mitt sumar, en sjaldgæft, að mikið sé að reiða sig á hausttíðina, því sem oftast þarf eigi að telja til heyskapar eftir að 21 vika er af sumri; eftir því að reikna yrði heyskapartíminn nú tveir mánuðir, og er það næsta skammur tími til að búa sig undir veturinn hér á landi. 

Ágúst: Óþurrkar um mestallt land, skást tíð sunnanlands. Kalt.

Jónas Jónassen segir frá því í pistli þann 12. að snjóað hafi í Esjuna aðfaranótt þess 10. og sömuleiðis í öll austur- og suðurfjöll. 

Fróði segir frá 7.ágúst:

Maí, júní og júlímánuðir mega heita hver öðrum líkir hér norðanlands. Norðan og norðaustanátt hefir lengst af ríkt, oftar rigningar og kuldi að eins undantekning ef hlýr og regnlaus dagur hefir komið. Á Austurlandi hefir verið líkt tíðarfar, eftir fréttum, sem nýlega eru komnar þaðan. Tún og harðvelli þar kalið eftir vorharðindin eins og hér norðanlands. Í Breiðdal og og innri hluta Héraðsins er grasvöxtur skástur, svo einstaka menn byrjuðu þar slátt í 14. viku sumars [um 20.júlí] . Í Fjörðunum og á Úthéraði er grasvöxtur á túnum og engjum mjög lítill, en þó tekur yfir þegar kemur norður fyrir Vopnafjörð, á Langanesi og Langanesströndum má ekki heita meira en gróður fyrir skepnur í úthaga og túnin 13 vikur af sumri lítið betri en um fráfærur, þegar vel árar; á stöku bæjum lá eldiviður óþurr á útskeklum túna í fjórtándu viku sumars. Í Þistilfirði og Axarfirði er litlu betra, en þegar kemur inn á Reykjaheiði þá batnar svo að í suðurhluta Þingeyjarsýslu og í Eyjafirði var víðast byrjað að slá eftir miðjan júlímánuð. Vegna rigninga norðan- og austanlands hefur gengið mjög seint að þurrka bæði eldivið, ull og fisk, og sumstaðar ekki búið ennþá.

Og Fróði heldur áfram 24.ágúst:

Úrkomurnar hafa haldist allt að þessu. 17. þ.m. hlýnaði veðrið og gekk til suðvestanáttar. Í gær [23.] var góður þurrkur og úrkomulítið, svo margir munu nú ná saman nokkru eða mestu af töðum sínum.

Ísafold lýsir tíð í pistli þann 25.ágúst:

Veðrátta hefir verið mjög óhagstæð norðanlands, og sömuleiðis austanlands og vestan, fram um miðjan þennan mánuð; sífelldar þokur, kuldar og óþurrkar, og var óvíða nokkur tugga komin í garð. Stafar það eflaust af hafís í nánd, enda komst eigi gufuskipið Minsk fyrir Horn hans vegna, er það var á ferðinni, þótt »Thyra« kæmist það samt rétt um sama leyti á norðurleið sinni, og Camoens, sem kom að norðan rétt á eftir, yrði alls eigi vart við neinn ís. Hér á Suðurlandi var þar á móti þurrkatíð frá sláttarbyrjun — sláttur byrjaði seint og þangað til nú fyrir rúmri viku, að brá til sunnanáttar með miklum rigningum. Tún voru illa sprottin, en töður nýttust prýðilega. Engjar betur sprottnar. Bara að ekki bregðist nú nýting á útheyi.

Austri rekur tíð í ágúst þann 4.september:

Til ágústmánaðar loka má kalla að hér hafi verið sama óþurrka- og kuldatíð og áður; þó komu seinni hlutann af ágúst nokkrir þurrkdagar, svo hægt var að ná inn heyi því er þá var laust; einnig gátu fjarðamenn verkað talsvert af fiski sínum, þótt erfitt hafi gengið, því að fáir hafa þeir dagar verið, þegar þurrkur var, að hann hafi haldist til kvölds, því að oft komu skúrir þegar minnst varði og skemmdu fyrir mönnum. Nú um mánaðamótin fór heldur að hlýna í veðri og gekk þá til landáttar, en mikið vantar þó á að tíðin hafi verið hagstæð, það sem af er þessum mánuði. Undanfarandi daga hafa verið fjarskalega óstöðug veður, þó að hlýtt hafi verið, enda hefur loftþyngdarmælirinn verið á sífelldu flugi, fallið og stigið á víxl. Það hafa verið mörg veður sama daginn. Á morgnana hefur stundum verið heiðskírt og blíðalogn, svo ekki hefur blaktað hár á höfði; með dagmálum hefur þykknað upp, en blíðan haldist þar til um miðjan dag, þá hefur í einu augabragði gengið í ofsastorm, svo að varla hefur orðið við neitt ráðið og stundum helliskúrir. Svona hefur verið tvo undanfarna daga og í gær var ákaflega mikið mistur í lofti. Í dag er sólskin og þurrkur.

Ísafold segir frá þann 1.september:

Óþurrkarnir, sem byrjuðu hér á Suðurlandi um miðjan [ágúst], haldast enn, og hefir ekkert breyst með höfuðdeginum. Stórstreymt var hér um höfuðdaginn í meira lagi, og það svo, að elstu menn minnast eigi þess, að sjór hafi gengið eins langt á land um sumartíma að minnsta kosti eins og 30.[ágúst] hér í bænum, er meiri partur Austurstrætis varð eins og fjörður og flóði yfir talsvert af Austurvelli; var þó logn og sjólaust. Af Norðurlandi er það almenn sögn, að annað eins óþurrkasumar muni eigi hafa þar komið síðan 1835. Má sjá allgreinilega ástandið þar af eftirfarandi bréfkafla úr Eyjafirði 18.[ágúst] frá manni, er þá var nýkominn heim þangað hér að sunnan.

Vér lögðum af stað frá Reykjavík hinn 8.ágúst. Var þá sólskinalítið, en kaldur blástur á norðan. Á Þingvöllum höfðum vér náttstað. Þar hafði ekki verið þerrir á laugardaginn [7.]. Mánudaginn hinn 9. var þurrt, en þerrilítið, og héldum vér að Kalmannstungu. Þriðjudagsmorguninn hinn 10. var túnið þar alhvítt af snjó, og mikið óhirt af töðu. Bleytukafald höfðum vér upp að Búðará; en er kom á Grímstunguheiði, fór að frysta og fjúkið að vaxa, svo ekki sást til vegar. Vindur var á útnorðan, og þoka svo mikil, að ekki sá nema nokkra faðma. Í Vatnsdalnum var bleytukafald allan þann dag. Þar voru sumir búnir að ná inn hér um bil þriðjungi af töðum sínum, en sumir engu, og austar í sýslunni hafði ekkert náðst. Eins var í Skagafirðinum; þar hafði ekkert náðst, eftir því sem mér var sagt. Á einum bæ í Blönduhlíðinni sá ég að búið var að ná nokkrum hestum, en annarstaðar hvergi. Hinn 14. var tún alhvítt á Kotum (næsta bæ fyrir framan Silfrastaði) og á Öxnadalsheiði var götufyllir af snjó, en minni var bleytan, þegar kom í Öxnadalinn. Ekki hefir þó gengið betur með töðuhirðingu hér í Eyjafirðinum. Það er hrein undantekning, ef maður er búinn að hirða nokkra bagga, og má því svo segja, að allar töður liggi óhirtar enn (18.ág.); enda eru þær orðnar skemmdar víða, sem nærri má geta. Hér er það víða siður, að slá nokkuð utantúns, áður en byrjað er á þeim og því hafa menn náð. — Sömu vandræðin og með töðurnar eru með allt sem þurrka þarf, svo sem fisk og eldivið. — Tún eru búin fyrir nokkru, og það, sem slegið hefir verið á engjum síðan, liggur flatt eins og taðan.

September: Rigningasamt syðra, en betri tíð norðanlands.

Þann 2.september urðu fádæmamikil skriðuhlaup á Kjalarnesi. Ítarlegasta frásögnin af þeim birtist í Ísafold þann 8 og má lesa hana í viðhengi þessa pistils. Þar er m.a. þessi lýsing á úrkomunni - bóndinn á Grund (hjáleiga frá Esjubergi) segir frá:

Það var kl.2 á fimmtudaginn (2.september), að mér varð litið upp í gljúfrin og þóttist sjá, hvað verða vildi. Það var þá búið að rigna frá því kl.11, þeim ókjörum, að það er ekki til neins að ætla sér að reyna að lýsa því. Ég hefi aldrei vitað og aldrei heyrt getið um neitt því líkt. Vatnið bunaði niður úr loftinu hvítfyssandi; það var eigi líkt því, að nokkurn tíma sæjust dropaskil. Jörðin flóði öll í vatni. Það var lækur við læk um alla hlíðina, eins og uppistaða í vefstað. Ég tók eftir því allt í einu, að það var eins og flóðið rénaði snögglega hérna í kringum bæinn, án þess að neitt drægi úr ósköpunum úr loftinu, og var síst að skilja, hvernig á því stæði. Þá varð mér litið upp í gljúfrin. Það var þá líkast því sem sagt er frá í eldgosum, þegar hraunflóðið vellur upp og er að brjótast af stað. Áin hafði stíflast í svip af niðurburði og svo fyllst fyrir ofan, en því næst rutt sér nýjan farveg austur úr niður með brekkunni og einmitt hér ofan yfir bæinn. Ég skipaði öllu mínu fólki burt úr bænum og austur í heygarð,— heygarðinn, sem þið sjáið á þarna austanhallt í skriðunni; ég vissi, að þar mundi manni vera óhættast. Það komst þangað allt í tæka tíð, nema konan mín varð seinust, og tökubarn, sem hjá okkur er, drengur á 5. árinu, hún var að útvega honum eitthvað ofan yfir höfuðið. Hún treysti sér ekki austur í garðinn, — og tók það til bragðs, að skríða upp á baðstofumænirinn. Það stóð heima, að þegar hún var þangað komin, skall flóðið á bæinn og allt í kringum hann, og fyllti öll sund«. »Kom þetta allt í einni bendu, öll þessi stórbjörg, sem krökkt er af innan um leirinn og mölina, þar sem túnið hefir verið?« »Nei; það var sumt að smáhrynja og ryðjast fram á eftir aðalflóðið“. 

Þann 10. lýsir Þjóðólfur helsta tjóni:

Í aftaksrigningunni 2. þ.m., [] urðu skaðar miklir af skriðum og vatnavöxtum einkum á Kjalarnesi og i Kjós. Á Kjalarnesi skemmdu skriður meir og minna bæði tún og engjar á níu jörðum; jarðir þessar eru: Vellir (miklar skemmdir á túni), Kollafjörður (nokkuð af túni og engjum undir skriðu), Mógilsá (hálft túnið eyðilagt), Grund (allt túnið þakið urð og meiri hluti af engjum), Móar (nokkrar skemmdir á túni og miklar á engjum), Esjuberg (tveir fimmtungar túnsins á að geta eyðilögðust, miklar skemmdir á engjum), Árvöllur (helmingur túns og engja undir urð), Skrauthólar (miklar skemmdir á engjum), Sjávarhólar (miklar skemmdir á túni og engjum). Auk þess höfðu i Kollafirði og á Esjubergi orðið um 60 hestar af heyi undir skriðu á hvorri jörðinni. — Í Kjósinni hafði skriða skemmt talsvert jörðina Fremra-Háls. Enn fremur hafði Laxá í Kjós flætt yfir allt og sópað burt heyi, sumstaðar að miklum mun t.a.m. á Reynivöllum (um 200 hestum), og borið leir og leðju á engjar. — Leirvogsá i Mosfellssveit hafði flætt yfir allar engjarnar í Leirvogstungu og borið á þær leir og leðju til mikilla skemmda.

Í sama tölublaði Þjóðólfs eru fréttir úr Húnavatnssýslum:

Eftir seinustu fréttum að norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum frá 4. þ.m. hafa þar haldist sömu óþurrkarnir og úrkomurnar sem áður, svo að því nær ekkert var komið inn af heyi nokkurstaðar þar um slóðir; eru ekki í manna minnum dæmi til jafnmikilla óþurrka þar sem í sumar.

Þann 17.september vitnar Þjóðólfur m.a. í Þorvald Thoroddsen sem nýkominn er úr rannsóknarferð um Vestfirði:

Tíðarfar segir hann hörmulegt af Ströndum, í ágúst verra en elstu menn þar muna, sífelldar rigningar, kaföld og kuldar; 5. sept. engin tugga komin inn af heyi fyrir norðan Reykjarfjörð, í Steingrímsfirði aftur á móti betra. — Fyrir norðan í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hefur tíðin batnað litlu eftir septemberbyrjun og um helgina sem leið var þar þurrkur. Eftir fréttum af Seyðisfirði hefur þar og batnað tíðin um sama leyti; og svo mun hafa verið víðar um land. — Hér syðra var góður þurrkur 10.—14. þ.m. og hafa þá flestir náð inn heyjum sínum. 15. þ.m. var hér rigning; í gær góður þurrkur. Heyskapur hér sunnanlands mun vera allt að því í meðallagi allviðast en sumstaðar ekki einusinni það.

Fróði á Akureyri fer yfir heyskapinn í pistli þann 22.:

Fyrst i þessum mánuði náðu flestir inn töðum í Eyjafirði og fyrir norðan. Vikuna 5.—11. þ.m. voru hér stórrigningar, og norðankuldar, þá var þurrkur í Skagafirði og í Húnavatnssýslu og þá fyrst munu margir þar hafa náð töðum. 13. þ.m. skipti hér til betra, hefir síðan verið suðvestanátt og besti þurrkur.

Október: Allgóð tíð, einkum norðanlands.

Þjóðólfur lætur vel af tíð þann 22.október:

Veðrátta hefur hér allengi verið mjög mild og hagstæð; rigning hefur þó verið nokkur, og stundum hefur ekki gefið að róa á sjó. Í fyrrinótt varð hér alhvítt ofan að sjó.

Svipað hljóð er í Þjóðviljanum á Ísafirði þann 30.október:

Síðan í sláttarbyrjun, sem varð i seinna lagi sakir grasbrests, hefir sumarið verið ómunalega óþerrasamt hér vestra, og nýting á heyjum því með langlakasta móti. Haustið hefir aftur á móti verið óvenjulega frosta- og snjóalitið, oftast sumarveðurátta.

Austri birtir 8.nóvember bréf úr Hornafirði dagsett 23.október:

Tíðin var fremur óhagstæð í sumar að því er heyskapinn snertir; óþurrkar voru i meira lagi, mátti segja allan sláttinn; hausttíðin hefur verið heldur votviðrasöm líka, en þó hefur oft verið hægð og blíðviðri. Að vísu hirtist taða ekki mjög illa, en úthey hraktist nokkuð, og var viða fremur illa þurrt, þegar það var tekið inn. Heyskapurinn er í lang minnsta lagi, því að bæði rýrnaði heyið nokkuð við hrakninginn, og svo var mikill grasbrestur víðast hvar, bæði á túnum og engjum, og sumstaðar urðu engjar eigi slegnar fyrir vatni. ... Garðávextir spruttu hér mjög illa í sumar, einkum brugðust jarðepli gjörsamlega. Hefur það líklega gjört hið kalda vor og vætusama sumar.

Ísafold segir þann 17.nóvember:

[U]m Norður- og Vesturland lítur út fyrir að hafi verið einmuna tíð í allt haust að kalla má. Segir svo meðal annars í bréfi úr Húnavatnssýslu siðast í [október]: „Tíðindi eru héðan fá. Þú hefir nógu víða að frétt um ótíðina í sumar, svo ég nenni ekki að tjá og tína þær hörmungasögur. Víða rættist nokkuð úr fyrir blessaða blíðuna, sem við lengst af höfum haft eftir réttir, og sem enn helst, þótt síðustu vikuna hafi verið heldur rosasamt, en ég tek það sem góðs vita, að nú upp úr stormunum er hann búinn að ná eindreginni landsunnanátt, og er nú 10° hiti á Celsius stundu fyrir sólaruppkomu; það hefði þótt hlýtt hundadagaveður í sumar; þá þótti gott, ef ekki var frost fyrir sólaruppkomuna, ef svo bar við, sem sjaldan var, að heiðríkt væri. Fénaðarfækkun verður hér samt fjarskaleg, og þó tæpast nóg til þess, að menn geti þolað annan eins vetur og veturinn sem leið. Ég vildi óska, að það væri óhætt að taka mark á því. sem sumir okkar miklu veðurfræðingar taka sem óbrigðulan sannleika: að alla snjóa á vetrinum leggi líkt og fyrstu snjóa; þá ættum við hér á miðbyggðinni þó blíðara byr að fagna en í fyrra".

Þjóðviljinn birtir 15.nóvember bréf úr Djúpinu dagsett 26.október:

Nú er öndvegistíð. Það var sem sumarið kæmi fyrst með haustinu, hlýindi á hverjum degi og sunnanátt, sjórinn fullur af síld; veiðist hún hvervetna þar sem nokkuð er til reynt.

Í bréfi úr Eyjafirði sem birtist í Ísafold 1.desember og dagsett er 9.nóvember segir:

Illt þótti oss sumarið hér nyrðra. Allt af gengu bleytukrapar og kuldar, og töður náðust ekki fyrri en undir höfuðdag; minna voru þær skemmdar en við mátti búast, og þökkum vér það nokkuð kuldunum. Allir væntu eftir bata með höfuðdeginum; en sú von brást, og hélt sama ótíðin áfram þangað til 12. september; þá komu þurrkar og góðviðri og bætti það mjög mikið heyskap manna, því að þá náðist það sem laust var og menn gátu haldið áfram heyskap til Mikaelsmessu, þeir sem nokkuð höfðu til að slá.

Seinustu dagana af september og fyrstu dagana af október var norðanskot allhart og snjóaði nokkuð; en brátt snerist aftur til hins sama góðviðris, og náðu þá allir því, sem þeir áttu úti af heyjum, og fáeinir héldu áfram að heyja nokkuð eftir þetta. Heyskapur varð því nokkur á endanum; þó mun hann almennt engan veginn hafa náð meðallagi. Annars var mjög misjafnt með heyskap manna, og það þótt engjar lægi saman. Ég veit á ýmsum stöðum, að allvel hefir heyjast á einum bæ og afleitlega á næsta bæ; svo hefir grassprettan verið misjöfn.

Allan októbermánuð, nema fyrstu dagana, var besta veður og næstum því sumarhiti, enda sáust í fyrstu viku vetrar nýútsprungnar sóleyjar beggja megin fjarðarins. Þó var nokkuð vindasamt með köflum. Fyrir viku versnaði veðrið og kom allmikið hríðarkast á austnorðan og snjór talsverður.

Nóvember: Hríðasamt snemma í mánuðinum nyrðra og suðaustanlands.

Ísafold birtir 22.desember bréf úr Húnavatnssýslu 7.desember:

Jarðir víðast hvar og lengst um nógar og góðar það sem af er vetrinum; hann gerði reyndar 3. og 4. nóvember aftakahríð á norðan með miklum fannaustri, sem óvíða gat spillt högum, en allvíða drap kindur, því hríðin kom á auða jörð, og óvíða farið að hýsa, svo að kindur fennti, einkum út til nesja ; en 14. og 15. nóvember bætti hann talsverðu af fönn, er kom í fyrstu hríðinni, svo að jarðlítið varð á stöku stöðum, en viku seinna gerði hann hláku, sem hélst í viku, og varð þá alveg snjólaust, og jörð auk þess víðast hvar klakalaus. Nú er aftur kominn talsverður snjór, en mjög vel lagður, svo að jörð er hin besta, enda eru allar skepnur í haustholdum, og má þetta vetrarfar heita gott guðstillag, svo erfiðlega sem heyskapur hafði gengið í sumar, þar sem hey allvíðast urðu bæði lítil og að meira eða minna leyti hrakin, en víðast hvar gjörsleikt innan í vor, svo að ekki var á forn hey að setja. Utan til á Vatnsnesi og reyndar víðar hefir heyfengur í sumar orðið litlu eða engu ríflegri en sumarið 1882, og lengra verður eigi jafnað, þegar um eymdarheyskap er að tala.

Þjóðólfur segir 17.desember úr bréfi frá Húsavík 22.nóvember:

Síðari hluta október var sjaldgæf veðurblíða og þurrkar hér nyrðra; sem dæmi þess má nefna, að eftir veturnætur voru heyjuð 3 eða 4 kýrfóður af stör í Múla í Aðal-Reykjadal.

Desember: Jarðsæl og meinlítil tíð. Sérlega kalt.

Þjóðólfur segir þann 24.desember:

Með póstunum fréttist tíðarfar gott víðast hvar til síðustu mánaðamóta, en þá gerði snjó allmikinn. — í Skaftafellssýslu kominn fjarskamikill snjór eftir sögn ferðamanna, sem komið hafa nýlega austan af Austfjörðum. Hafði austanpóstur eigi komist með hesta vestur yfir Mýrdalssand, en komst þó með póstflutninginn og kom að Breiðabólsstað fyrra mánudag, en þá var Reykjavíkurpósturinn farinn þaðan.

Fróði birti 4.janúar 1887 pistil frá Akureyri dagsettan 27.desember:

Hinn 21. þ.m. lentu tveir menn frá Hleinargarði í Eyjafirði i snjóflóði á svonefndum Gilsárdal í Eyjafirði. Annar þeirra, Hannes Sveinsson að nafni, komst nauðuglega úr flóðinu og heim til bæja, lítt skemmdur, en hinn, Brynjólfur Ólafsson, fannst örendur um kvöldið. Brynjólfur heitinn var rúmlega tvítugur og einn með efnilegustu ungum mönnum í Eyjafirði.

Skipstrand. 6. nóv. rak upp á land undan veðri og strandaði á Eskifirði síldarveiðaskipið „Virgo", eign kaupmanns Carls D. Tuliníusar. Veðrátta og aflabrögð: Á Suður- og Vesturlandinu hefir viðrað heldur vel að undanförnu en þó stundum nokkuð óstöðug tíð, og talsverður afli hefir verið í mörgum veiðistöðum.

Jónas Jónassen segir frá því í pistli 29.desember að þann 22. hafi fallið nokkur snjór í Reykjavík og síðan hafi verið talsverður snjór á jörðu. Hann segir síðan í pistli 5.janúar 1887 að síðasta dag ársins hafi gert aftakaveður af suðri og varla verið stætt húsa á milli um kl. 18 til 19, en veðrið hafi gengið ofan nokkru fyrir miðnætti og snúist til útsuðurs. 

Þjóðviljinn segir 31.desember frá mannskaðasnjóflóði sem varð þann 20.:

Snjóflóð varð 3 mönnum að bana á Ingjaldssandi i vikunni fyrir jólin.

Fróði minnist ársins 1886 í heild í pistli þann 14.janúar 1887:

Þetta ár, sem nú er liðið, mun lengi verða minnisstætt þeim mönnum, sem nú lifa; mun flestir óska að sem lengst verði þangað til annað eins ár kemur aftur. Veturinn, vorið og sumarið var hvert öðru líkt; mátti vorið og sumarið framundir miðjan septembermánuð fremur heita vetur en vor og sumar.

Austri birtir 28.febrúar 1887 bréf úr Skagafirði þar sem finna má yfirlit um tíðarfar ársins 1886 þar um slóðir:

Árið 1886 hefur verið eitthvert hið erfiðasta hér í Skagafirði af undanförnum harðindaárum. Veturinn var frá nýári snjóþungur og heyfrekur og vorið ákaflega kalt og hretasamt. Hér varð því almennt lítið um hey, og að eins einstöku menn höfðu nóg fyrir sig. Skepnuhöld urðu því vond og afnot af búsmala léleg í sumar. Vorið var hér talið öllu verra en 1882 að því einu frá skildu, að hafís lá ekki inni. Geldfé varð ekki rúið fyrr en í miðjum júní og ekki rekið neitt á fjall fyrr en í byrjun júlímánaðar, um fráfærur. Sumarið var eitthvert hið versta sem menn muna. Grasvöxtur víðast lítill, og nýting hin versta. Þeir fáu sem byrjuðu heyskap fyrir 25.júlí náðu um það leyti dálitlu af heyi inn með góðri nýtingu. Síðan kom aldrei tryggur þurrkdagur fyrr en i miðjum september. Það gengu sífelldar þokur og súldir þangað til hundadögum lauk; þá gekk í stórviðri og stórrigningar, svo að allt engi fór á flot, sem ekki var komið það áður, fram undir miðjan september.

Um miðjan september gátu menn fyrst hirt töður sínar og úthey, sem laust var, mjög skemmt sem von var. Þá kom besta tíð til loka októbermánaðar en 3. nóv. byrjaði vetrartíðin. þann dag og hinn næsta var hér stórhríð og fennti fé víða, nokkuð að mun, einkum hér um miðfjörðinn. Brim varð þá eitt hitt mesta er menn muna, og strandaði þá verslunarskip Gránufélagsins á Sauðárkrók, Nicoline (eign Tryggva kaupstjóra). Upp frá þeim tíma hefur tíðin verið ákaflega stormasöm og ónotaleg; en frostalítil. nema um tíma á jólaföstunni; þá var um tíma 10-12°R.

Fróði birti 4.febrúar 1887 skýrslu Jóns Hjaltalín um veðráttu í Eyjafirði 1886:

Janúarmánuður var kaldasti mánuður ársins eins og árið 1884 og 1883; en 1885 var febrúarmánuður kaldasti mánuður ársins. Hinn 3. var moldbylur á norðvestan, og úr því snjóaði meira eða minna með blindbyljum á milli, svo sem hinn 7. og hinn 17. til 19. Þá breyttist til frosta og staðviðra rúman viku tíma. Í hríðunum var áttin á norðvestan eða norðan. Frá hinum 20. voru logn.

Í febrúarmánuði voru frost allmikil fram yfir miðjan mánuðinn og snjóaði talsvert; var og oftast blástur nokkur. Eftir miðjan mánuðinn linuðu frostin; varð þá veður kyrrara og aðgjörðalítið. Átt var lengst af við suður.

Í marsmánuði var frost allmikið og loft létt til hins 10. Þá þiðnaði, en var þó lítil hláka, seinustu daga mánaðarins voru hríðar miklar og frost töluverð. Veður var hæglátt mestan hluta mánaðarins og átt lengst af við suður.

Í aprílmánuði héldust frostin fram til hins 12. þá þiðnaði og hélst svo mánuðinn út. Engar stórhríðar voru, en snjóaði þó oft lítið eitt. Veður var oftast hæglátt, en átt mjög óstöðug.

Þrjá fyrstu dagana af maímánuði var sunnanátt og hlýindi, en þá snerist til norðanáttar og kulda og hélst svo mánuðinn út. Vindasamt var nokkuð og kafaldskóf suma daga. Átt var lengst af við norður.

Mest allan júnímánuð voru kuldaþræsingar og ekki nema fáeinir dagar hlýir. Úrkoma var töluverð og logn sjaldan. Átt var lengst af við austur og norður.

Lengi fram eftir júlímánuði var nokkur hiti á daginn en mjög kalt á nóttunni. Átt var nálega allan mánuðinn við norðaustur, og úrkoma var talsverð, regn og krapi.

Ágústmánuður var allur bæði votviðrasamur og kaldur, jafnaðarlega snjóaði niður á fjöll og niður undir byggð, en frost var stundum á nóttunni. Áttin var mest við austur og norður.

Framan af septembermánuði var mjög líkt veður og í ágústmánuði; gengu þá stöðugar rigningar og bleytur; en hinn 12. kólnaði veðrið og þornaði; hélst þá allgott veður til hins 27. Þá tók að rigna og snjóa það, sem eftir var mánaðarins. Hér um bil helming mánaðarins var átt við norður og hinn helminginn við suður.

Fyrstu þrjá daga októbermánaðar var frost og snjór nokkur. En úr því mátti heita besta veður mánuðinn út, og oft var sumarhiti, svo að nýútsprungnar sóleyjar sáust hér sumstaðar á túnum. Vindasamt var nokkuð með köflum og átt lengt af við suður.

Snemma í nóvembermánuði gjörði snjó töluverðan, og helst frost en þó vægt til hins 20.; þá gjörði góða hláku og leysti upp snjó allan, seinustu tvo daga mánaðarins var snjókoma mikil og frost töluvert.

Desembermánuður byrjaði með allmiklu frosti og snjókomu, og héldust frostin út allan mánuðinn, nema lítið eitt blotaði tvo síðustu daga ársins, og á gamlaárskveld gjörði
ofsaveður af suðvestri. Fyrir jólin voru lengi staðveður.

Ofviðri voru 3. og 7. janúar af norðri, hinn 24.okt og 31.des af suðvestri.

Hafíshroði kom hér inn á fjörðinn hinn 17. janúar og varð samfrosta lagnaðarís. Um sama leyti var sagður mikill hafís við Melrakkasléttu. Um sama leyti rak hafíshroða inn á Skagafjörð og Húnaflóa. Hafís lá við Hornstrandir fram í ágústmánuð. Allur íshroði fór hér af firðinum hinn 2. maí. Þrumur heyrðust aldrei.

Af skýrslu þessari sést, að hið liðna ár hefir verið hið kaldasta hinna fjögra síðast liðnu ára, og á það einkum rót sína í því, hve vor og sumarmánuðirnir voru hitalitlir; hinsvegar var frostharkan um vetrarmánuðina eigi sérlega mikil.
Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar 1887. Jón A. Hjaltalín.

Austri lýsir veðri ársins í samantekt sem birtist 5.ágúst 1887 - virðist rituð á Héraði:

Janúar: Dimmviðrisbylur mikill þ.7. Allan mánuðinn oftast NVN- og NA-átt mjög óstöðug og hvassviðrasöm. Mikil ljósaský á lofti þegar heiðríkt var. Heldur hagasælt þennan mánuð, þar til þ.31. pá var ákafur snjóburður. SAA-átt.

Febrúar. Þann 7. voru komnir hagar. Mjög óstöðug tíð allan mánuðinn, en oft þíður með A., SA., S. og SV. átt, og aldrei ákaft snjóveður.

Mars. Allmikil frost frá 1.-8. Þaðan frá oftast þíður til 28.; eftir það snörp frost. Hafís var kominn um miðjan mánuð fyrir Austurland og inn á Norðurfirði. Haglaust víða í fjörðum um fyrir þann tíma, en nokkrir á Héraði. Snjóaði sjaldan fyrr enn 31. Þá illt veður.

Apríl. Síðustu daga af mars og fyrstu af apríl var hörð veðurátt frost og snjóar. Eftir þann 11. oftast þíður. Páskadag þ. 25. ASA átt +8°. Þó var enginn gróður kominn i lok mánaðarins.

Maí. Allan mánuðinn var fremur loftkalt og oftast við N og A átt og frost á nóttum. Ekki nema sá eini dagur (21.) hlýr. Snjóar og kólgur frá 24. til 28.

Júni. Snjóaði á fjöll og ofan að byggð. Oft þokusamt. Súldur og þerrilítið einkum i sjóarsveitum.

Júlí. Allan mánuðinn einatt NA og A átt með þokum og úrkomum og spratt gras seint og mjög lítið.

Ágúst. Þ.28. frosthéla — krapahríð um kveldið og snjóaði á fjöll. Þann 8. og 10. krapahríð. Fimm fyrstu daga mánaðarins hlýtt veður. Oftast veðurátt við NA og A, rosasöm og óstöðug og óþerrisamt mjög einkum í sjávarsveitum.

September. Allan fyrri hlut mánaðarins var mjög rosasamt með þokum og úrkomum. Eftir þ.14. hlýnaði heldur og blíðviðrisdagar 6 frá 20.—26. 27. stormur og stórrigning, A- átt. Heyskapur rýr og kjarnlítill. Sáðgarðar ónýtir svo að óvíða fékkst útsæði af kartöflum.

Október. Sjaldan voru frost en góð veðrátt, oftast við S. og V. Vetrardag fyrsta var SV vindur, +4—8°. Þann 31. S stórrigning.

Nóvember. Þann 2. snjóaði fyrst á fjöll og byggð, og þ. 4. NNA hvasst og dimmt snjóveður. Eftir þann 6. voru flestar ár undir mannheldum ísi.

Desember. Frá 6. til 11. nokkrar snjókomur. 13., 14. og 15. var stillt og bjart veður, loft heiðskírt og mikil norðurljós þær nætur. Oft nokkuð haglítið þennan mánuð einkum á
Útsveitunum en ekki kom nema lítill snjór. Lagarfljót undir ísi upp að Vallanesi.

Endar hér að segja frá árinu 1886 - að sinni. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Varð nokkuð óvenjulegt

Lægðin snarpa sem fór yfir landið í nótt og morgun (25.júní) skilaði af sér nokkrum mánaðarmetum á einstökum stöðvum - bæði vindhraða og loftþrýstings. Við horfum aðeins á stöðvar sem mælt hafa vind í 10 ár eða meir (upphaf mælinga í sviga): Ingólfshöfði (2004), Gagnheiði (1993), Möðrudalur (2003), Kárahnjúkar (1998), Eyjabakkar (1997), Flatey á Skjálfanda (2005), Hallormsstaðaháls (1996), Grímsey (2005), Raufarhöfn (2005), Rauðinúpur (1997), Fontur (1994), Brú á Jökuldal (1998), Fjarðarheiði (1995), Oddsskarð (1995), Kvísker (2002), Möðrudalsöræfi (2000), Hálsar (1995) og Breiðdalsheiði (1997).

Júnílágþrýstimet voru sett á Húsavík, í Grímsey, á Raufarhöfn, Rauðanúp og á Fonti. Sömuleiðis á mönnuðu stöðinni á Skjaldþingsstöðum (1994).

Enn er kalt um landið suðvestan- og vestanvert. Sé notuð þriðjungaskipting til að greina á milli kaldra og hlýrra mánaða (og þeirra sem teljast í meðallagi), spásvæði Veðurstofunnar - og viðmiðið öldin það sem af er, telst mánuðurinn hingað til kaldur á Suðurlandi (15 af 18), við Faxaflóa (15 af 18) og Breiðafjörð (15 af 18). Hitinn er í meðallagi á Vestfjörðum (12 af 18) og á Ströndum og Norðurlandi vestra (9 af 18), en hlýr á Norðurlandi eystra (6 af 18), Austurlandi (6 af 18), Miðhálendinu (6 af 18), Suðausturlandi (5 af 18) og Austfjörðum (4 af 18).

Viðbót: 

Svo virðast hafa verið sett fáein stöðvarsólarhringsúrkomumet fyrir júní. Það er á Augastöðum í Hálsasveit, Kvennabrekku í Dölum, Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi og Brúsastöðum í Vatnsdal. 


Fremur óvenjulegt

Snöggar loftþrýstisveiflur eru óvenjulegar að sumarlagi. Hér á árum áður þegar loftþrýstingur var ekki mældur oftar en á 3 klukkustunda fresti varð 3 stunda breyting þrýstingsins að einskonar einingu loftþrýstibreytinga. Veðurfræðingar fengu fljótt tilfinningu fyrir því hvað er lítið, hvað er mikið og hvað er óvenjumikið. Á tímum tölvuspáa er ekki alvegjafnmikil áhersla á þessa einingu lögð og áður var. Þumalfingurregla var þó að sæist breyting upp á 8 hPa eða meira mætti vænta vinds af stormstyrk (20 m/s jafnaðarvind) einhvers staðar í nágrenni hennar. 

Breyting um 10 hPa á þremur klukkustundum er varla óvenjuleg á vetrum þó mikil sé - enda stormar tíðir á þeim árstíma. Svo skyndileg þrýstibreyting er hins vegar sjaldséð hér á landi nærri sólstöðum - og fram yfir miðjan ágúst. Ekki er til nein skrá yfir snöggar þrýstibreytingar eða met varðandi þær eftir mánuðum, en ritstjóri hungurdiska gerði þó sér það ómak að athuga hversu oft slík breyting fyndist í íslenskum athugunum í síðasta þriðjungi júnímánaðar síðustu 40 árin tæp. Svarið er aldrei. Vel má vera (og trúlegt) að eldri dæmi finnist sé leitað vel - en við látum slíkt biða betri tíma. 

Tilefni þessara vangaveltna er veðurkortið hér að neðan.

w-blogg230618a

Það sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og 3 stunda þrýstibreytingar um hádegi á mánudag 25.júní. Við sjáum á kortinu að loftvogin hefur risið um 11,9 hPa á 3 klukkustundum á bletti rétt norðaustur af landinu. Líklega hittir hámark rissins ekki á landið. Eins og áður sagði er ris sem þetta ekki algengt í síðari hluta júnímánaðar - trúlega ekki met þó (en það vitum við ekki). Svo er auðvitað ekki víst að spáin rætist. Þetta er samt greinilega með snarpari lægðum árstímans.

Við veitum því líka athygli að snarpur (allt fremur snarpt) kuldapollur fylgir lægðinni eftir. Þykktin er á bletti minni en 5280 metrar - lægst 5240 metrar. Ekki er þetta met fyrir síðasta þriðjung júnímánaðar, en samt í neðsta lagi. Þá sjaldan kuldi sem þessi sýnir sig við landið á þessum tíma árs hefur hann oftast komið úr norðri en ekki suðvestri. Við leit finnast þó dæmi frá fyrri árum um svipaða aðkomuleið. 

w-blogg230618b

Kortið sýnir kuldapollinn vel - það gildir 6 stundum síðar en það fyrra, kl.18 á mánudag. Þá er lágmarksþykktin orðin 5250 m í miðju pollsins (sjórinn hitar hann að neðan) - ekki fjarri meti hitti miðja pollsins á háloftaathugun í Keflavík um kvöldið (ólíklegt).  Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu. Hiti í 850 hPa er hér um -5 stig þar sem lægstur er - líka óvenjukalt í suðvestanátt. Hitinn er sýndur með litum.

w-blogg230618c

Síðasta kortið sýnir háloftalægðina á mánudagskvöld. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti í litum. Frostið er -33 stig þar sem mest er. Það er með mesta móti á þessum árstíma - en ekki met samt. 

Þetta er satt best að segja heldur hryssingslegt allt saman. 


Af árinu 1822

Miklir umhleypingar voru ríkjandi framan af ári 1822 og tíð var þá erfið, áfreðar víða og snjóþyngsli mikil um landið norðaustan- og austanvert. Um vorið rættist betur úr en á horfðist. Aftur á féll haust nokkuð snemma á - en úr því rættist síðan líka. 

Við eigum ekki á lager hitamælingar á landinu þetta ár nema úr norðurglugga Jóns Þorsteinssonar í Nesi en þykjumst af þeim ráða að fyrstu fjórir mánuðir ársins hafi verið kaldir, sérstaklega febrúarmánuður, en þá var einnig órólegt veðurfar og þrýstisveiflur miklar frá degi til dags. Hlýrra og rólegra veður var um sumarið frá því í maí og út ágúst. Hiti afgang ársins virðist hafa verið ekki fjarri meðallagi, nóvember þó í kaldara lagi. 

Loftþrýstingur var lágur í febrúar, mars og maí, en óvenjuhár og stöðugur í júlímánuði.

Eldgosið í Eyjafjallajökli sem hófst í desember 1821 virðist  hafa legið niðri að mestu fyrstu mánuðina - en höfum þó illviðratíð í huga í því sambandi og ekki er víst að auðvelt hafi verið að fylgjast með rólegu gosi. Gosið tók sig verulega upp aftur um vorið, sérstaklega í júní og júlí og varð öskufalls vart víða og er misturs einnig getið. Lausafregnir bárust einnig af eldgosi í Vatnajökli - og sömuleiðis var minnst á Kötlu, en hún gaus þó ekki fyrr en árið eftir. Þess er getið að grasspretta hafi verið góð í öskufallssveitum. 

Við byrjum þetta yfirlit á frásögn Annáls 19.aldar. Frásögn hans er þó að mestu soðin upp úr Klausturpóstinum eins og við sjáum síðar. 

Vetur var harður um allt land fram undir páska, einkum um Múlasýslur, og mikill fénaður féll í Þingeyjar- og Vaðlasýslum, en í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum var vetur vægari og menn betur undir hann búnir. ... Vorveðrátta var mild um allt land og varð því minna af fjárfellinum eystra og nyrðra en áður áhorfðist, en eftir vinnuhjúaskildaga [14.maí] lagðist í miklar rigningar, svo eldiviður og fiskur ónýttist mjög. Grasvöxtur um allan Austfirðingafjórðung og Suðurland var víðast góður, en frábærlega mikill var hann í þeim sveitum, er öskufallið náði yfir, þótt illa notaðist. Um Vesturland var grasspretta rýrari, en lökust nyrðra. Töður náðust víða lítt skemmdar, en úthey stórum hrakin. Haustveðrátta var storma- og hretasöm og hélst það tíðarfar allt fram undir árslok. 

Hafís kom um kyndilmessu [2.febrúar] og lagðist kring um allt Norðurland, en hvað hann lá lengi við er mér [Pétur, höfundur annálsins] óljóst. Voru 400 selir rotaðir við Grímsey. Á Ísafirði aflaðist og mikið af vöðusel og nokkur landselur náðist í nætur í Héraðsvötnum, 150 smáhveli voru rekin á land í Njarðvíkur og fuglaafli var allgóður við Drangey. 

Jóladaginn braut ofveður Setbergskirkju og gjörði víða um land mikinn skaða á skipum, heyjum og húsum. 

Annállinn rekur síðan ýmis konar slysfarir en getur ekki dagsetninga. Þar á meðal er sagt að 12 manns hafi orðið úti á árinu. 

ar_1822t

Línuritið sýnir hitamælingar Jóns Þorsteinssonar í Nesi við Seltjörn. Mælingin var gerð í óupphituðu herbergi nærri glugga móti norðri sem opinn var nema í verstu veðrum. Í september var einnig byrjað að mæla utandyra. Rauður ferill sýnir þær mælingar. Minni sveiflur eru að jafnaði frá degi til dags á mælum sem staðsettir eru innandyra heldur en á þeim sem staðsettir eru á hefðbundinn hátt. Þessi munur kemur líka greinilega fram á myndinni. 

Þar sem mælingarnar eru gerðar nærri hádegi er hiti almennt „of hár“ að sumarlagi, en samt verður að teljast mjög líklegt að fjölmargir hlýir dagar hafi í raun komið í Nesi þetta sumar. Fleiri heimildir greina frá júlíhitunum. Mælingarnar sýna einnig eindregin hlýindi í kringum mánaðamótin apríl/maí. 

ar_1822p

Í fréttum Klausturpóstsins af veðri og tíð (sjá hér neðar) segir neðanmáls:

Merkilegt, eða máskje óheyrt annarstaðar tel ég að Barometrum eða Loft-þynnku mælirinn féll á þessum vetri hér syðra þrisvar til 25 ½ þumlungs – á undan ofviðrum. 

Það er rétt hjá Magnúsi Stephensen að óvenjulegt sé, því 25,5 franskir þumlungar eru 920,3 hPa. Þá á að vísu eftir að bæta við hæðar- og þyngdarleiðréttingu. Jón Þorsteinsson mældi lægst (eftir að leiðrétt hefur verið) 926,5 hPa. Það var þann 8.febrúar. Ekki var skráð nema einu sinni á sólarhring þannig að við vitum ekki hvort þrýstingur í Nesi fór enn neðar. Tveimur árum síðar mældi Jón lítillega lægri þrýsting en þetta og var það lengi lægsti sjávarmálsþrýstingur sem mælst hafði utan hitabeltisfellibylja. 

Myndin sýnir þrýstiathuganir Jóns í Nesi árið 1822. Við sjáum á línuritinu að þrýstingur hélst stöðugur og hár lengst af í júlímánuði. 

Að vanda er veður- og tíðarfarslýsing Brandstaðaannáls nokkuð ítarleg:

Vestanátt, blotar og frostlítið, hnjótar auðir til 13. jan., að rigning og áhlaupsnorðanbylur gjörði jarðlaust. Með þorra komu seinast öll hross á gjöf. Blotar, hríðar og hörkur gengu á víxl. Vörðu þeir ei degi lengur. Er þetta sýnishorn af veðrinu: Blotar 1., 7., 8., 12., 13., 16., 23., 26. jan., 9., 17., 21., 27. febr., 12., 15., 21. mars, en hríðar mest 9., 13., 19., 31. jan., 4., 5., 6., 8., 14., 25., 26., 28., febr., 2., 3., 4., 5., 10., 12., 18., (s86) 21. mars. Í annarri viku góu féllu því nær allar rjúpur. Var þessi vetur kenndur við rjúpnafelli. Olli því svellgaddar yfir allt og grimmustu hörkur. Með einmánuði fór að bera á heyskorti allvíða. Höfðu færri hey til krossmessu, ef þurft hefði.

Með apríl svíaði og úr því kom hægur bati. Var þítt um 2 vikur, síðan frost og stillt og snjóaði stundum í maí. Gróðurlaust fram yfir krossmessu [3.maí]. Fyrir hvítasunnu (26. maí) yfirtaksvatnavextir og háflóð. Í júní oft votviðri, hretalaust. 3.júlí fóru lestir fyrst suður. Gaf þeim nú vel. Í þeim mánuði voru oft breiskjur miklar. Grasbrestur var á túni og þurrengi, en flæði og votengi dágott. Oft var mikið mistur að sjá. [Þetta mistur stafaði einkum af gosinu í Eyjafjallajökli]. Þornaði vatn upp, hvar ei voru uppsprettur og rýrnaði málnyt við þetta allvíða. Sláttur hófst 24. júlí. Héldust þá rekjulausar breiskjur til 3.ágúst. Komu þá rekjur og óþurrkar 2 vikur, svo ei náðist hey inn. Að þeim liðnum hirtu þó ei allir sæti sitt og beið það lengi, því óþurrkar urðu þaðan af til 11.september, en stórregn og hret þaðan 2.-3.september.

Náðu fæstir óskemmdum heyjum, en flestum varð á þeim ónýting mikil, einkum á votengi og kölluðu sumar vont fyrir töðubrest og lítil og slæm úthey, en 4 daga fyrir göngur, sem alltaf byrjuðu hér í öllum sveitum á sunnudag í 21. viku [um 10.september], stormþerrir, svo alhirða mátti. Gangnaveður gott, en 30.september stórrigning. Í október jafnt þurrviðri, frostalítið og snjólaust með norðanátt. Vetur til jóla mikið góður, snjólítið, lengst blíðviðri með austanátt. Á jóladaginn kom minnilegt ofsaveður. Varð fólki torsótt heimferðin móti veðri og yfir ísa. Reif víðast af húsum og heyjum, en gott veður og þítt kom á eftir því til lagfæringar. (s87) Sá harði vetur norðanlands varð með þeim mildustu í allri Norðurálfu, en í meðallagi syðra hér á landi. (s88)

Klausturpósturinn (í ritstjórn Magnúsar Stephensen) segir allmikið frá veðri og tíð þetta ár. 

Veðuráttan syðra varð kastasöm á jólaföstu; hlánaði þó vel um þriggja vikna tíma kringum jól og nýár, en féll síðan til megnra útsynningsgarra, með ærnri snjókomu, áfreðum og sífelldum ofviðrum og jarðbönnum víðast, þó jafnan með vægum frostum allt að góulokum, þá mildasti vorbati kom með blíðu sumarveðri síðan allt til þessa [sennilega átt við apríllok].

Þyngri varð syðra til uppsveita, og vestanlands veturinn, svo að hefði svo æskilegur vorbati lengur dregist horfði víða til stórfellis hjá mörgum, en nú telst (hafi) alls enginn, heldur bestu peningshöld verða í þeim landsfjórðungum báðum, hvar

og góður heyjafengur afliðið ár bjó fólk betur undir vetrarharðindi. Sú sárbága heyjanýting norðanlands og í Múlasýslum og svo snemma þar áfallinn langur vetur á sumarsins tíma, sem ég umgat í fyrra á bls.203, gjörði fólk þar allvíða ófært til að standast þann feykilega þunga vetur sem sífellt þaðan af þjakaði þessum byggðum allt fram á einmánuð, gróf heilar sveitir í fönnum, næstum dæmalaust, hvar til áfreðar miklir og hafísabelti utan fyrir komu: þar varð og kuldinn meiri, og fannkoma og kaföld; fáir komust suður til sjóar; margir í Múla-, Þingeyjar- og Vaðlasýslum tjást gjörfellt, en allir stórum pening sinn; færri þar á mót til stórmuna í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, hver vetur varð nokkuð vægari og fólk var betur undirbúið að taka bágindum hans – því – þó hross nokkur eða saufé þar kunni hafa hrokkið af, var þar af miklu þar orðið að taka, og margt máskje missanlegt af hrossum. Þeirra nyrðri og austlægari héraða ógna fellir, gjörir nú fjöldanum þar framtíðina mjög svo óttalega. ...

Vestanlands telst fiskiafli þar á mót í rýrara lagi. Á Ísafirði samt góður af vöðuselum. Með þeim ágæta afla fylgdu samt nokkrar óheillir. Skip fórst eitt fyrir vestan Jökul og týndust á því 7 menn. Annað nýlega [síðar, bls. 115 kemur í ljós að þetta var á páskadag, 7.apríl] í Þorlákshöfn, týndust 4, og í Njarðvíkum kom hvalavaður að síldartorfum, og sló einn þeirra skip úr Reykjavík svo, að það klofnaði endilangt, hlaðið fiski við netatekt, og sökk; týndust 3 menn, en tveimur var bjargað.

Í 9. tölublaði (s151) segir svo frá því að minna hafi orðið úr felli norðaustanlands en menn óttuðust, „vegna æskilegasta og stöðugs vorbata“. 

Í 7. tölublaði 1822-árgangs Klausturpóstsins er sagt frá enskum skipum sem fórust í ís fyrir norðaustan land um vorið og komust sumir skipverjar í land, af öðru skipinu í Vopnafjörð, en hinu að Glettinganesi. Miklar mannraunir. Sagt er að bæði skipin hafi verið að ná í ís. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki áður heyrt um slíkar „ísveiðar“ á sjó - en veit um mikla flutninga á ís sem skorinn var af vötnum á norðlægum slóðum og fluttur til annarra landa. 

Síðan segir (7.tölublað):

Um þær mundir [um 25. júlí] lagði yfir Suðurland vestur eftir svo dimman mistursmökk um allt loft í hreinu þurrviðri, að skammt sást burt til nálægara sveita en sól roðnaði um góðviðris daga, sem nú gjörast hér brennheitir, venju framar, mót sólu 34-36°. 

Í 12. tölublaði segir frá sumar- og haustveðráttu: 

Vorveðurátta og sumars varð annars yfir allt land hin mildasta og besta, og því minna langtum af fellinum norðan- og austanlands, enn áður áhorfðist. Grasvöxtur yfir allan Austlendingafjórðung og Suðurland víðast hvar fyrirtaks góður og nýting samboðin; þó vestarlega og um Vesturland rýrari en í fyrra, samt allgóð. Hverttveggja lakara norðanlands. Hinn frábæri fiskafli yfir allt Suður- og meiri hluta Vesturlands allt þetta ár; syðra í haust og í vetur svo á grunni, að langt mun síðan lík dæmi gáfust þar; því nú í nóvembri hlóð fjöldi skipa daglega af vænum þorski inn um öll sund milli eyanna, allt um kring Viðey, Engey, Akurey, uppí landsteinum með Kjalar- og Akranesi, hvar nú er besti afli, eins sunnan með, og margir komnir í 4ra hundraða vetrar-hluti. Heilbrigði er almenn hjá fólki og slysfarir fáar enn á spurðar, nema sexærings af Seltjarnarnesi, í hastarlega áföllnu bráðviðri af norðri og týndust 7 menn. Í því verðri fékk póstskipið undir Vestmannaeyjum, á hingaðleið mikið áfall; lá flatt, kollsiglt í 16 stundir en fékk þó viðréttst aftur og náði hér höfn í Hafnarfirði þann 23ja nóvember þ.á.

Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir frá tíð 1822 í bréfi sem dagsett er 7.febrúar 1823. Bréfið má finna í Andvara 1973 (s170):

Eftir langan og strangan vetur næstliðið ár til góuloka hér norðanlands kom einhver hinn blíðasti bati, er hélst svo að segja stöðugt við þar til um túnasláttarlok, en gras skrælnaði þó af túnum og harðvelli vegna ofþurrka og hita. Úthey nýttust hér um norðursveitir víða báglega vegna úrfella og stórrigninga um engjasláttartímann samt snjókomu, er hindraði fólk lengur eða skemur (á vissum stöðum í mánuð) frá heyverkum. Haustveðrátta var annars einhver sú besta og vetur hinn blíðasti, er ég til man allt til þessa, alloftast snjólaus jörð og sjaldan bitur frost. ... Stormur af suðaustri gjörði víða tjón á heyjum og húsum á jóladaginn, líka fórust þá skip fáein hér og hvar. 

Geir Vídalín biskup segir í ódagsettu bréfi (vetur 1822):

... prófastur síra Árni Þorsteinsson skrifar mér, að í Múlasýslu hafi fallið svo mikill snjór, að hann taki aldrei upp. – Um eldinn eystra veit ég ekkert með sanni að segja, þó heyri ég, að hann ekkert mein hafi gjört af sér síðan í vetur, samt sjáist stöðugur reykur úr jöklinum og jafnvel eldur á millum. Hér gefur aldrei á sjó fyrir stormum og umhleypingum ... (s192)

Betra hljóð er í Geir biskup þann 7.maí:

Um veðráttufarið er það skjótast yfir að fara, að eins grimmur og hryssingslegur veturinn var, eins æskilegt og indælt hefur vorið verið allt til þessa, svo hér er allareiðu farið að grænka í mýrum. (s195)

Í bréfi líklega frá því í seint í ágúst segir Geir:

Hér hefur um tíma verið mikið votsamt, svo að töður eru teknar að skemmast. Afli góður, en fáir getað notað sér hann, því allir, sem tún eiga, eru að urga og láta urga ofan í þau, þótt það líklega verði að litlum notum, því hér er víðast mikill grasbrestur. Þar hjá óséð, hvernig hey muni gefast til vetrar, því eg ætla, að nokkur aska muni vera hér á öllu grasi, þótt hún ekki sé rétt merkileg.

Og þann 7.október er biskupi kalt:

Fátt er nú til frétta héðan, nema svo mikill kuldi í gær og í dag, að ég er beinloppinn. ... Þar hjá sagði Jónsen í Skálholti mér, að menn sem fóru á Flóamannaafrétt hefðu þóst sjá reykjarmökk í [norðaustur] frá sér feykistóran og ekki minni en hinn úr Eyjafjallajökli. Ber það saman við það sem Þórður Bjarnason sagði mér, þegar hann kom að austan, að af Síðu hefði sést reykjarmökkur í fullt norður og eldsíur í honum á millum. Þykir mér líkast, að þessi eldur muni vera í þeim svokölluðu Grímsvötnum. 

Einhver órói var í Vatnajökli um þessar mundir og bárust líka óljósar fréttir af gosi þar veturinn 1822 til 1823. Katla gaus hins vegar 1823 sem kunnugt er. 

Eins og getið hefur verið um hér að ofan gerði mikið veður á jóladag. Fréttir af því birtust í danska blaðinu Dagen 18.apríl 1823: 

... især rasede her förste Juledag en svær Orkan, som omstyrtede forskielliege Kirker og andre Bygninger, især paa Vesterlandet. Mange Fiskerbaade knækkedes ogsaa af denne Storm.

Geir biskup getur þessa verðurs líka í bréfi til Bjarna Thorsteinssonar amtmanns á Arnarstapa sem dagsett er 16.mars 1823:

Jóladagsveðrið kom hér og við. Þó það gjörði ekki eins mikið illt af sér og hjá ykkur, rauf það samt víða hús og hey, lamaði og braut skip og báta, og ekkert stakkit stóð hér heilt eftir í Reykjavík. Verst þótti mér um Setbergskirkju, kannski vegna þess að hún mun vera í einslags tengslum við mig ... (s211)

Í öðru bréfi til Bjarna (dagsett 21.janúar 1823) segir Geir um sama veður:

... því hér mátti heita, að hvorki væri reitt né gengt. Braut hér þá plankaverk nærri því allsstaðar, rauf hús og hey og bramlaði skip og báta. Þó varð skaðinn minni en von var á, því fólk var allt á ferli og viðbúið að bjarga.

Jón Jónsson á Möðrufelli segir frá gríðarmiklum umhleypingum, harðindum og jarðbönnum framan af árinu, en lofar flesta aðra hluta þess. Júlí segir hann mikið góðan og desember gæðagóðan.  

Lýkur hér að segja frá tíðarfari ársins 1822 að sinni. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls.  


Af árinu 1808

Nokkuð skiptar skoðanir eru í heimildum um árið 1808. Snemma árs gerði miklar frosthörkur, en aftur á móti gerði hlýja tíð á góunni áður en herti aftur. Sumarið þótti skárra syðra heldur en nyrðra þar sem hafís kom mjög við sögu og spillti veðri ef vindur andaði að utan. Meðalhiti í Stykkishólmi reiknast lágur, aðeins 1,9 stig og ágiskun um hita í Reykjavík nefnir 3,1 stig þar. Þessar tölur fela þó hlýja mars- og júlímánuði, ekki kom hlýrri mars fyrr en 1847. Janúar var sérdeilis kaldur og ársspönn hitans (mismunur meðaltala hlýjasta og kaldasta mánaðar) óvenjustór. 

Reglubundnar siglingar til landsins féllu að miklu leyti niður vegna stríðsátaka í Evrópu, en ensk skip voru þó eitthvað á ferð, jafnvel hálfgerðir sjóræningjar [með bresk leyfisbréf]. Meira mætti fjalla um þá í almennum sögubókum heldur en gert er, þeir hafa fallið nokkuð í skugga Jörundar sem var hér árið eftir.  

Annáll 19. aldar segir frá:

Vetur var harður frá nýári fram á góu, með fannkomu og vondum áhlaupum; síðan var allgóð tíð fram í miðjan einmánuð. Kom þá hafís að Norðurlandi og var frostasamt öðruhverju fram undir sólstöður, en betur féll syðra. Gjörði snjókomu með frosti nyrðra fyrir höfuðdag og varð lítið um heyafla eftir það. Mátti þó kalla nýtingu allgóða norðanlands, en lakari syðra. Haustið var hrakviðra- og snjóasamt, en gott á milli; rak niður fönn mikla mánuði fyrir vetur og var skarpt um jörð; batnaði um allraheilagramessu og var bærileg tíð það eftir var ársins, en þó jafnan lítið um þurrka, einkum sunnanlands. 

ar_1808t-a

Hitamælingar voru gerðar bæði í Kotmúla í Fljótshlíð og á Akureyri. Mælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla voru nokkuð stopular vegna stöðugra ferðalaga (læknisvitjana) Sveins, en eins og sjá má á myndinni hér að ofan ber athugunum á báðum stöðunum ekki illa saman um köld og hlý tímabili. Gríðarlegt frost var á þorranum á Akureyri, fór í rétt rúm -30 stig þegar mest var. Hafa verður þó í huga að mælirinn var að nokkru óvarinn og hefði nútímamælir e.t.v. ekki sýnt alveg jafn lága tölu við sömu skilyrði að öðru leyti. Stöð þeirra landmælingamanna var á „gömlu Akureyri“ og hafa síðari tíma samanburðarmælingar sýnt að þar er oft kaldara í stillum heldur en á núverandi mælistöðvum við Lögreglustöðina og Krossanesbraut. 

Sveinn Pálsson mældi mest frost þann 25.janúar, 19 1/4°R eða -24°C. Sérlega mikið frost þar um slóðir. Hann segir í athugasemd að vindur hafi verið stífur og snjó skafið á sama tíma. 

Góan var hins vegar sérlega hlý - eins og áður sagði varð mars meðal þeirra hlýrri á 19.öld - en leiðindakuldar fylgdu í kjölfarið, eins og oft er. Þann 1.maí segir Sveinn: „Temmeligt sneefald om natten“ - allmikil snjókoma um nóttina. 

Línuritið sýnir kvöldhita á stöðvunum, en mælt var á fleiri tímum. Í júlímánuði fór hiti 5 daga upp fyrir 20 stig á Akureyri, mest í 25,8 þann 22. Þetta er hæsti hiti sem mældist á Akureyri þau sjö ár tæp sem mælingar landmæliteymisins stóðu. Jón á Möðrufelli segir þennan sama dag (nokkurn veginn): „Enn nú sami sterkjuhiti og þurrkur“. Daginn eftir var þar þokuútræna og kuldi. Þá var hiti hjá mælingamönnum á Akureyri 11,4 stig um miðjan dag. Við sjáum að frost hefur gert á Akureyri að kvöldi 25. ágúst og þar var hiti neðan frostmarks á öllum athugunartímum þann 26. - harla óvenjulegt ástand. Ekki er auðvelt að lesa lýsingu Jóns í Möðrufelli þennan dag - þó sér ritstjóri hungurdiska líklega orðið „sárkaldur“ og sömuleiðis að hægt hafi síðdegis og gert snjóhríð svo alhvítt varð.

Sandrok var þessa ágústdaga suður í Fljótshlíð og hiti rétt ofan frostmarks í norðaustanstorminum. Það snjóaði þar í fjöll. 

ar_1808p-b

Þó loftvog Sveins í Kotmúla hafi verið illa kvörðuð sýnir hún þó sömu meginsveiflur og betra tæki mælingamannanna á Akureyri. Þrýstingur var almennt nokkuð hár frá því snemma í febrúar - en þó gengu greinilega yfir miklar og stórar háloftabylgjur - furðu reglulegar á gróflega 10 daga fresti. Sömuleiðis eru það nokkrar langar sveiflur sem einkenna sumarið - þrýstingur skiptist á að vera lágur um og neðan við 1000 hPa og hár, upp undir 1020 hPa.  

Brandsstaðaannáll:

Á nýársdag mikil hríð og harka á norðan, 9.janúar bloti. Jarðskarpt varð þá og algjörlega haglaust með þorra fyrir áfreðablota. Var þá hafís landfastur og sá út fyrir harðindi. Út þorra gengu bleytuhríðar og blotar á víxl. Voru þeir orðnir 18 þann 24. febrúar er hláku og góðan bata gerði. Góa mikið góð. 18.mars kom lognfönn er brátt tók af. Eftir það var vorið þurrt og kalt, seingróið og oft smáhret. Eftir fardaga heiðarleysing og gróður allgóður, en í júlí voru þurrkar svo allt harðlendi spratt illa. Í 14. viku byrjaði sláttur [um 20.júlí]. Varð besta nýting og heyskapur mikill af flóum og fjalllendi, en lítill af þurrengi og harðlendi.

Heyskapartími var ekki nema 7 vikur og hann leiðinlegur á gráleitu og graslitlu harðlendi, svo Áshagi allur útsleginn gjörði 280 hesta og túnið 120. Um göngur storma- og rigningasamt til jafndægra, en eftir það þiðnaði ei jörð né torf, því snjó og frost lagði þá að. 7.október og 11. og einkum 16. stórhríð, svo ei var beitandi og föstudaginn fyrstan í vetri. Var þá komin fjarskamikil fönn og fé mjög hrakað. 26 október norðanhláka, en sletti þó í, svo haglaust varð, en 28. skipti um með hláku eftir þessa mánaðarskorpu, svo hætt var að gefa lömbum, er lærðu át þann vonda Gallus. [Gallusmessa var 16.október]. Þíðusamt fyrri part nóvember, svo snjólítið og þægileg vetrartíð. Á jólaföstu þíður oft og fjórum sinnum stórrignt, en stillt og gott um jólin. 

Frú Gyða sýslumannsfrú á Reyðarfirði sneri aftur til landsins um vorið eftir árs fjarveru. Hún segir að vorið hafi verið heldur hógvært: „... tilbageholdt sin milde Aande“ og falist undir frosinni jörð. Hún hafi venjulega hlakkað til þeirrar stundar að ísinn hyrfi þannig að skip kæmust inn á fjörðinn og fiskveiðar gætu hafist. Nú hafi hún hins vegar vonað að ísinn lægi sem lengst - til að sjóræningjar kæmust ekki inn. En ísinn hafi horfið - sumarið komið, en engin skip sýnt sig. 

Jón á Möðrufelli segir að 2/3 hlutar febrúarmánaðar hafi verið harðir, en tíð hafi verið góð, síðasta vikan oftast þíð. Mars hafi allur yfirhöfðuð verið góður, fyrstu vikuna var ákafleg leysing, en rosafengin. Vikan sem hann færir til bókar þann 12. var góð - áin þíð og næsta vika þar á eftir líka dágóð. Vikan sem endaði þann 26. var mikið stillt og góð, en svalari. Apríl var hins vegar æði harður og í maí var allt uppstoppað af hafís inn í fjarðarbotn. Júní telur hann í meðallagi, en júlí góðan og stilltan. Október var úrkomusamur allur, en nóvember stilltur og snjólítill, desember líka stilltur, en frostasamur tíðast. 

Árið í heild telur hann meðalár upp á land, en harðindaár úti á sjó - hafís hafi verið mikill. 

Eins og fram kemur í annálunum virðist hafís hafa verið nokkuð mikill. Svo virðist vera sem fylla af hafís hafi farið langt vestur með Suðurlandi seint í maí. Sveinn Pálsson getur hans frá 24.maí og fram til 6.júní. Þann 24.maí segir að grænlandsís hafi rekið að austan og við það hafi strax kólnað. Tveimur dögum síðar segir að ísinn liggi meðfram allri ströndinni, en hann nái þó ekki alveg út til Vestmannaeyja. Þann 2.júní virðist ísinn hafa rekið frá í norðanátt, en samt ekki langt. Þann 6. sé hann horfinn til hafs. Ef rétt er skilið segir Sveinn að ísinn hafi legið eitthvað lengur við Meðalland. 

Annáll 19.aldar telur upp langa röð slysa og mannskaða, flest ódagsett og sumt ótengt veðri. Dagsetning, 17.október, er þó á skaða þegar þrír menn frá Vatnsnesi fórust á bát á Húnaflóa. Þann 15.desember varð skólapiltur úti í hríðarbyl á Álftanesi. 

Þórarinn í Múla og Jón Hjaltalín lýsa báðir veðri í bundnu máli - hér er valið úr. Þórarinn fyrst. Hann segir m.a. frá miklum skriðuföllum í Kjós sem og banvænu krapaflóði í Hvammi í Norðurárdal, þar fórst 15 vetra piltur: 

Reisti hríðar öndvert ár
Ofsa stríðar himin blár;
Frosta sótti feikn að ríkt,
Færri þóttust muna slíkt.

Hrannar blök, og hörku skvak
Hafís-þök að landi rak,
Þjáðu gríðar-þung og löng
þorra tíðar veðrin ströng

Þorri skeggið þeytti grimmt,
þusaði hregg og veður dimmt;
En góu fata-gustur vann
Gefa´ oss bata farsælan.

Söfnuðust lítil sumars hey, [1807]
Síðan nýt til fóðurs ei,
Sex fyrir vetur, vegna snjós,
Vikum létust kýr í fjós.

Héldust víða harðindin
Hausti, síðan veturinn,
Góu að, um dægur dimm,
Dráp og skaða veittu grimm.

Veðurátt góð og velþokkuð
Væg fram stóð á einmánuð;
Bjuggu menn við betra kost
Bitur enn þó næturfrost

Sunnanvindar, sólskin hlýtt,
Sinntu rindar elju títt,
Ísa þrengdu ár og sær,
Öldur slengdu þessum fjær.

Úr hafi þegar hríð og snjór
Hastarlega geysi stór
Niður hrapa, fjölda fjár
Fönnin drap og harka sár.

Enn í miðjan einmánuð
Ægis-hryðja stórrituð,
Jökli hálum helst óvær
Hafs úr álum renndi nær.

...

Um fardaga yfirsló
Aftur baga´ af hríð og snjó;
Féð þá nakið fraus í hel,
Fór nýklakið ekki vel

...

Sunnan betur landi lét
Liðinn vetur, minni hret;
Byrsæl höldin búsmalans,
bæði töld og notin hans.

Vetrar síðla voru þar
Vatns stórhríðir ákafar;
Vor og sumar öndvert eins,
Urðu guma þar til meins

Sumarið allt var sólhvörf á
Sára kalt hér norðurfrá;
Um svo breytt í einkar gott,
Allmjög heitt, en sjaldan vott

...
Sláttar tíðin þótti þekk,
þurrkinn víðar taðan fékk;
Auðnast vann og ítri þjóð
Útheyjanna nýting góð.

Velsemd stærstu veitti slag
Vika næst fyrir höfuðdag:
Hreggs í hviðum hríð og snjór
Hrapaði niður geysi stór.

...
Allr´heilagra messu mund
mikið fagra gæfustund
Oss framskína aftur lét:
Öll þá dvína mundu hret.

Veðurstaða´ og vinda hjól
Var oss þaðan allt á jól
Hagstæð, snjólaus, hægðar frost
Himinn bjó þann vægðar kost.

...
Haustið syðra sagt er allt
Sár- hretviðra fullt og -kalt,
Höfuðdegi frekt svo frá
Framar eigi þornað strá.

...
Frost í haust og feikna snjó
Fyrir austan niðursló;
Voða stríða vetrarfar
Verður síðan letrað þar.

...
Á Suðurlandi´ í vetur var
Vurðu´ að grandi rigningar;
Eyddu Reynivalla völl
Veitu og steinum skriðuföll.

Enn þó heyrist, skeður skal
Skaði meiri´ í Norð´rárdal,
Regnið hleypti fjalli fram
Frekt og steypti´ að öllu Hvamm.

Jón Hjaltalín segir líka frá skriðuföllum í Kjós og Hvalfirði og krapaflóðinu í Hvammi:

Árið liðna örðugt var í ýmsum sökum,
Frost og stormar fanna-rokum,
Feyktu nær að þorralokum.

Hér næst vatna hríð um grundir hvatti ferðir.
Skriður hrundu skaflar harðir,
Skemmdust víða þar af jarðir.

Hér alþekktar þrjár ég nefni þeirra á milli.
Þá er fengu þyngstu skelli,
Þyril, Háls og Reynivelli.

...
Gras var lágt, en góð þó nýting gafst á töðum,
Síðan dundi drjúg að flóðum
Dögg og snjór með vindum óðum

Hey var krabbað heim í garða hrakið, frosið,
Líka enn um láðið gisið
Liggur það í hrúgum visið.

...
Hrakviðra og hryðjusamt má haustið kalla,
Gripum jafnan gafst þó fylli,
Gott hefur verið þess á milli.

...
Hvamm í Norðrárdal ádundi djarfur skaði.
Snjóflóð bæinn braut að láði
Barn eitt prestsins dauða þáði

Ólafur Jónsson [Skriðuföll og snjóflóð] hefur það eftir annál Hallgríms Jónssonar að það hafi verið 28.febrúar sem skriður hafi hlaupið fram víða og skemmt nokkrar jarðir í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Ef til vill varð skriðutjónið í Hvalfirði um svipað leyti. 

Ólafur Jónsson segir frá því að prestþjónustubók Hvamms í Norðurárdals geti þess að krapaflóðið þar hafi orðið þann 20.febrúar. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun um árið 1808. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls. 


Norðurhvelsstaðan

Við lítum á norðurhvelsstöðuna nærri jónsmessu - eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða síðdegis á laugardag, 23.júní. Nú er komið sumar á norðurhveli - síðustu leifar vetrarkuldans þrjóskast þó við eins og venjulega. Meginlöndin hafa náð að hrista af sér megnið af vetrarsnjónum en auðvitað er íshella á Norðuríshafi.

w-blogg210618a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Meginvestanhringrás hvelsins er orðin mjög veikluleg - stóri hringurinn sem settur hefur verið inn á kortið markar hana gróflega. Við sjáum stór og mikil lægðardrög skiptast á við ámóta öfluga hryggi frá Vestur-Evrópu í vestri - austur eftir allri Asíu. Vestanáttin nær sér nokkuð á strik yfir Norður-Kyrrahafi, en óregla er yfir Norður-Ameríku. 

Leifar vetrarkuldans hanga enn á þröngu svæði sem hér er afmarkað gróflega með rauðri sporöskju. Í kringum þær blása öflugir vindar (jafnhæðarlínur eru þéttar) - innan sporöskunnar snúast nokkrir kuldapollar þar sem enn má sjá bláan lit. Kuldapollurinn sem er við strönd Labrador er öflugur og er á nokkurri hreyfingu til austurs - og dælir sunnanáttin austan við hann hlýju og röku lofti í átt til Íslands - þykktin (hiti í neðri hluta veðrahvolfs) er vel yfir meðallagi á laugardaginn. Í neðstu lögum blandast þetta hlýja loft kaldara sjávarlofti þannig að áveðurs á landinu er ekki sérlega hlýtt - en þess hlýrra verður þar á landinu þar sem hærra hlutfall loftsins er komið að ofan. 

Það er bæði kostur og ókostur við þessa stöðu hversu öflugir háloftavindarnir eru - ókosturinn er rigning, dimmviðri og jafnvel hvassviðri um stóran hluta landsins, en kosturinn aftur sá að þetta er hvikult - ekki fastlæst eins og stundum er að sumarlagi. Rauða sporaskjan snýst og hnikast til og auk þess eru enn 6 til 7 vikur enn í norðurhvelshámark sumarsins. - Nú, auk þess koma margir hlýir og góðir dagar eystra, megi þeir sem þar eru vel njóta. 


Fyrstu 20 dagar júnímánaðar

Þá eru tuttugu dagar liðnir af þessum júnímánuði. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 8,5 stig, -0,4 stigum neðan meðallags áranna 1961-1990, en -1,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Fyrstu tuttugu dagarnir hafa tvisvar verið kaldari á þessari öld, 2001 og 2015. En á langa listanum er hiti þeirra í 94. sæti af 144 - (því rétt utan kalda þriðjungsins). Hlýjastir voru fyrstu 20 dagar júnímánaðar árið 2002, meðalhiti þá var 11,5 stig, en kaldastir 1885, meðalhiti þá 6,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti það sem af er júní 10,2 stig, 0,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Sem fyrr eru hitavik jákvæð norðaustan og austanlands, mest +3,1 stig við Kárahnjúka, en þau eru aftur á móti neikvæð um landið sunnan- og vestanvert. Mesta neikvæða vikið er á stöðinni á Hafnarmelum, -1,8 stig.

Úrkoma hefur mælst 40,1 mm í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi, en 23,7 mm á Akureyri, líka í ríflegu meðallagi. Aftur á móti er úrkomu nokkuð misskipt um landið, furðuþurrt hefur verið sums staðar á Vestfjörðum og á stöku stað sunnanlands.

Sólskinsstundir hafa verið fáar í Reykjavík - þar til í dag (20.) að þær mældust 17,6 - aðeins 10 mínútum minna en mest hefur mælst þennan dag (munurinn í reynd enginn). Heildarsumma mánaðarins stökk því upp og er nú 61,7 stundir. Þó það sé afspyrnulág tala er hún samt hærri heldur en heildarfjöldi sólskinsstunda í júní 1914 - það þýðir víst að þó ekkert sólskin mælist afgang mánaðarins er meti samt þegar forðað. En sé miðað við fyrstu 20 dagana er sólskinsstundafjöldinn nú í 99. sæti af 106, neðar eru t.d. sömu dagar 2013 - sem er í 102. sæti með 56,5 stundir - en endaði þó í 121,7. Það er 1988 sem á langlægstu heildarsummu júnímánaðar á síðari áratugum, 72,2 stundir. Það hlýtur að takast á næstu tíu dögum að skrapa saman í þær 10,6 stundir sem nú vantar til að ná upp fyrir hana. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 121
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 956
  • Frá upphafi: 2420771

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 844
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband