Fremur óvenjulegt

Snöggar loftþrýstisveiflur eru óvenjulegar að sumarlagi. Hér á árum áður þegar loftþrýstingur var ekki mældur oftar en á 3 klukkustunda fresti varð 3 stunda breyting þrýstingsins að einskonar einingu loftþrýstibreytinga. Veðurfræðingar fengu fljótt tilfinningu fyrir því hvað er lítið, hvað er mikið og hvað er óvenjumikið. Á tímum tölvuspáa er ekki alvegjafnmikil áhersla á þessa einingu lögð og áður var. Þumalfingurregla var þó að sæist breyting upp á 8 hPa eða meira mætti vænta vinds af stormstyrk (20 m/s jafnaðarvind) einhvers staðar í nágrenni hennar. 

Breyting um 10 hPa á þremur klukkustundum er varla óvenjuleg á vetrum þó mikil sé - enda stormar tíðir á þeim árstíma. Svo skyndileg þrýstibreyting er hins vegar sjaldséð hér á landi nærri sólstöðum - og fram yfir miðjan ágúst. Ekki er til nein skrá yfir snöggar þrýstibreytingar eða met varðandi þær eftir mánuðum, en ritstjóri hungurdiska gerði þó sér það ómak að athuga hversu oft slík breyting fyndist í íslenskum athugunum í síðasta þriðjungi júnímánaðar síðustu 40 árin tæp. Svarið er aldrei. Vel má vera (og trúlegt) að eldri dæmi finnist sé leitað vel - en við látum slíkt biða betri tíma. 

Tilefni þessara vangaveltna er veðurkortið hér að neðan.

w-blogg230618a

Það sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og 3 stunda þrýstibreytingar um hádegi á mánudag 25.júní. Við sjáum á kortinu að loftvogin hefur risið um 11,9 hPa á 3 klukkustundum á bletti rétt norðaustur af landinu. Líklega hittir hámark rissins ekki á landið. Eins og áður sagði er ris sem þetta ekki algengt í síðari hluta júnímánaðar - trúlega ekki met þó (en það vitum við ekki). Svo er auðvitað ekki víst að spáin rætist. Þetta er samt greinilega með snarpari lægðum árstímans.

Við veitum því líka athygli að snarpur (allt fremur snarpt) kuldapollur fylgir lægðinni eftir. Þykktin er á bletti minni en 5280 metrar - lægst 5240 metrar. Ekki er þetta met fyrir síðasta þriðjung júnímánaðar, en samt í neðsta lagi. Þá sjaldan kuldi sem þessi sýnir sig við landið á þessum tíma árs hefur hann oftast komið úr norðri en ekki suðvestri. Við leit finnast þó dæmi frá fyrri árum um svipaða aðkomuleið. 

w-blogg230618b

Kortið sýnir kuldapollinn vel - það gildir 6 stundum síðar en það fyrra, kl.18 á mánudag. Þá er lágmarksþykktin orðin 5250 m í miðju pollsins (sjórinn hitar hann að neðan) - ekki fjarri meti hitti miðja pollsins á háloftaathugun í Keflavík um kvöldið (ólíklegt).  Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu. Hiti í 850 hPa er hér um -5 stig þar sem lægstur er - líka óvenjukalt í suðvestanátt. Hitinn er sýndur með litum.

w-blogg230618c

Síðasta kortið sýnir háloftalægðina á mánudagskvöld. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti í litum. Frostið er -33 stig þar sem mest er. Það er með mesta móti á þessum árstíma - en ekki met samt. 

Þetta er satt best að segja heldur hryssingslegt allt saman. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 222
 • Sl. sólarhring: 463
 • Sl. viku: 1986
 • Frá upphafi: 2349499

Annað

 • Innlit í dag: 207
 • Innlit sl. viku: 1799
 • Gestir í dag: 205
 • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband