Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018
19.6.2018 | 21:49
Skyldi lægðagangurinn mikli bara halda áfram?
Já, þannig lítur málið alla vega út í augnablikinu (þriðjudag 19.júní). Að vísu er dálítill munur á framtíðarspám frá degi til dags, lægðirnar dálítið misdjúpar og einhver tilbrigði í þeim leiðum sem stungið er upp á. Meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir fyrir vikuna 25.júní til 1. júlí sýnir þetta nokkuð vel.
Sérlega stílhrein - og þannig séð falleg - staða. Gríðareindregin suðvestanátt með lægðasveigju í háloftunum. Rætist þetta rignir mikið um landið sunnan- og vestanvert - og ekki bara það heldur verður oft hvasst líka, en íbúar Norðaustur- og Austurlands kætast trúlega að mun. Sumar spár (en bara sumar) sýna meira að segja háar hitatölur þar um slóðir einhverja dagana - en talsvert svalara á milli - eins og verða vill séu lægðir þær sem framhjá fara djúpar. - Ekki má heldur miklu muna að þær fari yfir landið með úrkomutíð alls staðar.
Það má hins vegar segja um þessa stöðu að hún er í sjálfu sér hvikul - getur tekið upp á því að velta snögglega yfir í eitthvað allt annað.
19.6.2018 | 16:30
Kaldur dagur suðvestanlands
Dagurinn (19.júní) var harla kaldur suðvestan- og vestanlands. Sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík reiknast 6,3 stig, -3,7 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og hefur ekki verið svo lágur nokkurn dag síðari hluta júnímánaðar frá því 1992 - en þá komu margir afarkaldir dagar í röð um jónsmessuna og snjó festi rétt ofan við bæinn snemma morguns. Sé leitað að 19.júní einum og sér þarf að fara aftur til gæðasumarsins 1974 til að finna jafnkaldan.
Hegðan hitans í dag var þó óvenjuleg - hann var nánast jafn allan sólarhringinn. Lágmarkshiti dagsins [6,0 stig] telst þannig ekki sérlega lágur miðað við meðalhitann. Hann hefur t.d. fjórum sinnum verið lægri þann 19.júní á þessari öld. Það er einkennilegra með hámarkshitann. Hæsti hiti sólarhringsins á sjálfvirku stöðinni var 7.8 stig, það er óvenjulágt hámark í Reykjavík nærri sólstöðum. En þetta er ekki sú tala sem færist til bókar sem hámarkshiti dagsins heldur 9,8 stig. Sólarhringur hitaútgilda nær nefnilega frá kl.18 daginn áður til kl.18 viðkomandi dag. Þetta fyrirkomulag (sem var á árum áður algjörlega óhjákvæmilegt) mun um síðir heyra sögunni til - þegar mannaðar mælingar leggjast endanlega af - og gerir það nú þegar á sjálfvirku stöðvunum.
Víða um heim er meðalhiti sólarhrings skilgreindur sem beint meðaltal hámarks- og lágmarkshita. Það meðaltal er oftast ekki fjarri lagi - en sjáum til hvað gerist með daginn í dag ef við notum þá reglu. Meðaltal 9,8 og 6,0 er 7,9 stig - langt ofan við þau 6,3 sem við fáum með þeirri aðferð sem notuð hefur verið áratugum saman. Ef við reiknum meðaltal hámarks- og lágmarks sjálfvirku stöðvarinnar [sem miðað er við réttan sólarhring] verður útkoman 6,9 stig - mun lægra en 7,9 en samt marktækt hærra en þau 6,3 stig sem við sögðum að ofan að meðaltalið væri. Réttur meðalhiti sjálfvirku stöðvarinnar var hins vegar 6,4 stig.
Nú eru flestir lesendur sjálfsagt löngu búnir að tapa þræði - en vonandi átta sumir þeirra sig samt á því að vegna þess að reglur um meðaltalsreikninga og aflestur mæla hafa breyst í gegnum tíðina (því miður, því miður, því miður) - og enn er verið að hringla með slíkt (og víst ekki hjá því komist) þarf alltaf að vera að reikna gömul meðaltöl upp á nýtt og samræma þau sem best verður.
Lesendur mega vita að það er hægt að gera þetta á viðunandi hátt - ekki þó án þess að þeir sem vinna við það viti hvað þeir eru að gera og kunni að greina hvað er hvað, en það verður aldrei til nein endanleg hitatímaröð. Mestallt þras um breytingar á hitaröðum er byggt á misskilningi (eða skilningsleysi) og er því afskaplega þreytandi. Bent er á gæs og hún sögð vera hundur. Verst er að fjöldi manns trúir því - og af þessu er stöðugt ónæði og æsingur - ekki síst nú á netöld - hingað til lands berast meira að segja öldur misskilnings allt frá Ástralíu - víst sé gæsin hundur.
Vísindi og fræði | Breytt 20.6.2018 kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2018 | 14:17
Júniþrepið mikla
Júnímánuðir þessarar aldar hafa að jafnaði verið mun hlýrri heldur en almennt var áður. Segja má að breytingin hafi orðið í einu þrepi - frá 2001 til 2002. Eftir þann tíma er meðalhiti júní í Reykjavík 10,4 stig, en var næstu 16 ár á undan ekki nema 9,0 stig [og sama á viðmiðunarskeiðinu 1961 til 1990]. Hann var meira að segja ekki nema 9,6 stig á hlýskeiðinu 1931 til 1960. Eftir 2001 hefur júníhiti í Reykjavík alltaf verið ofan við gamla meðallagið og aðeins tvisvar neðan meðallags hlýju áranna 1931-1960 (og einu sinni jafnhár því).
Þetta ástand er orðið svo langvinnt að farið er að reikna með því sem eðlilegu. Að vísu er veðurfar hlýnandi á heimsvísu, en stór þrep af þessu tagi eru varla þeirri þróun eingöngu að kenna. Það er svosem hugsanlegt að skeiðið fyrir þrep hafi verið óeðlilega kalt og að júníhitinn hafi því aðeins verið að fá leiðréttingu sinna mála.
Myndin sýnir meðalhita júnímánaðar í Reykjavík allt aftur til 1870. Áður en þrepið mikla var stigið 2002 hafði meðalhiti mánaðarins varla náð 10 stigum áratugum saman - og þegar hann gerði það á annað borð var það ekki með neinum glæsibrag - nema í fáein skipti á stangli fyrir 1942. Sé hin almenna leitni (blá lína) fulltrúi hnattrænnar hlýnunar (ekkert víst að hún sé það) er ljóst að júníhlýindi þessarar aldar eru talsvert umfram þær væntingar sem menn geta tengt heimshlýnun. Við vitum að sjálfsögðu ekkert um það hvað gerist í þeim efnum. Vel má vera að annað þrep upp á við bíði okkar á næstu árum eða áratugum - en ekki er heldur ólíklegt að eitthvað af hlýindunum gangi aftur til baka - færist e.t.v yfir á maímánuð en í honum hefur mun minna hlýnað en í júní, júlí og ágúst.
Þó breytileiki hita frá degi til dags í júní í Reykjavík geti verið töluverður er hann samt oftast lítill.
Það þarf aðeins að hugsa til að átta sig á þessari mynd. Reiknaður er meðalhiti hvers sólarhrings í júní í Reykjavík á árunum 1871 til 2017. Síðan er talið hversu oft hann fellur á hvert stig. Hér var það reyndar gert þannig að í flokkinn 9 falla öll sólarhringsmeðaltöl sem eru frá 9,00 til 9,99 stig og svo framvegis. Heildarfjöldi daga er talinn og hlutföll reiknuð (í prósentum).
Bláar súlur sýna niðurstöður tímabilsins alls 1871 til 2017. Algengast er að sólarhringsmeðalhitinn falli á bilið 9 til 10 stig - meir en 20 prósent tilvika, 5.hver dagur. Brúnu súlurnar sýna tímabilið 1949 til 2017. Þá var líka algengast að hiti væri 9 til 10 stig. Grænu súlurnar sýna hins vegar síðustu 20 ár, 1998 til 2017. Þá var algengast að hitinn væri 10 til 11 stig, og dagar með 12 til 13 stiga og 13 til 14 stiga hita voru þá tvöfalt fleiri heldur en á lengri tímaskeiðunum.
Við sjáum líka að dagar þegar hiti var á bilinu 6 til 7 stig voru helmingi fleiri áður fyrr heldur en þeir hafa verið á síðari árum og dagar þegar meðalhiti var undir 6 stigum voru nærri fjórum sinnum fleiri á árum áður heldur en verið hefur að undanförnu.
15.6.2018 | 20:40
Fyrstu 8 vikur sumars
Spurt var um stöðu mála eftir fyrstu 8 vikur sumars. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur veður fram undir þetta verið mjög tvískipt á landinu. Mikil hlýindi norðaustan- og austanlands, en svalara suðvestanlands. Úrkoma hefur verið óvenjumikil og sólskinsstundir fáar á Suðvestur- og Vesturlandi, framan af rigndi einnig talsvert eystra, en síðan stytti þar upp og sólin fór að skína. Síðustu daga hefur aftur breytt til.
Hitafar suðvestanlands telst vart til stórtíðinda, -0,3 stigum neðan meðallags 1961-1990 í Reykjavík, en -1,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Talsvert kaldara var á sama tíma 2015. Á Akureyri hefur hitinn hins vegar verið +1,7 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +0,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Það er ekki mjög oft sem þessi árstími hefur verið hlýrri á Akureyri - en þó var nokkru hlýrra árið 2014. Við eigum daglegan meðalhita ekki á lager lengra aftur á Dalatanga en til 1949 og hafa fyrstu tvær vikur sumars aldrei á þeim tíma verið jafnhlýjar þar og nú.
Eins og áður sagði hefur úrkoma verið óvenjumikil í Reykjavík. Myndin sýnir úrkomu fyrstu átta vikur sumars allt aftur til 1885 - fáein ár vantar framan af.
Þetta er sannarlega óvenjulegt - eins og sjá má var úrkoma á þessum tíma einnig mjög mikil í fyrra. Helst er keppt við fyrstu átta vikur sumars 1896 í úrkomumagni. En myndin sýnir líka vel hversu gríðarbreytilegt magnið er frá ári til árs og að auki mjög tilviljanakennt.
Svipað má segja um sólskinsstundafjöldann. Sólin hefur lítið látið sjá sig.
Sólarleysið hefur verið óvenjulegt miðað við síðari ár, en á árabilinu 1980 og fram yfir 1990 var það ámóta á sama tíma og það nokkrum sinnum. Sólskinsstundir voru enn færri hernámsvorið 1940 heldur en nú.
Hálfur júnímánuður er nú liðinn. Meðalhiti hans í Reykjavík er nú 8,6 stig, nákvæmlega í meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti á öldinni (af 18). Töluvert kaldara var sömu daga 2011, 2015 og 2001. Á langa listanum eru dagarnir í 81. sæti af 144. Hlýjastir voru þeir árið 2002, meðalhiti 12,0 stig, en kaldastir 1885, meðalhiti aðeins 5,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga júnímánaðar 10,9 stig, +2,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990, en +1,7 ofan meðallags síðustu tíu ára. Miðað við síðustu tíu ár hefur að tiltölu verið hlýjast á Eyjabökkum, +4,6 stig ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Hraunsmúla í Staðarsveit, -1,8 stig neðan meðallagsins.
Úrkoma hefur mælst 17,3 mm í Reykjavík og er það við meðallag síðustu tíu ára. Óvenjuþurrt hefur verið á Vestfjörðum.
Sólskinsstundir hafa mælst óvenjufáar í Reykjavík það sem af er júnímánuði, aðeins 31. Aðeins tvisvar er vitað um færri sólskinsstundir sömu daga, það var 1988 og 2013.
Vísindi og fræði | Breytt 16.6.2018 kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2018 | 17:55
Liggja í loftinu
Næstu vikuna eða svo eru aðstæður til myndunar djúpra lægða á Atlantshafi ákjósanlegar. Slík þróun er þó ekki vís - og þar að auki er algjörlega óljóst hvort slíkar hugsanlegar lægðir muni plaga okkur eitthvað - eða fara hjá fyrir sunnan land. Tilurð þeirrar fyrstu virðist nokkuð örugg - og sömuleiðis að hún fari norðaustur um Færeyjar eða þar sunnan við á fimmtudag. Miðjuþrýstingur verður um eða undir 970 hPa. Svo lágar tölur eru óvenjulegar í júni.
Ef við leitum í gögnum að tilvikum þegar sjávarmálsþrýstingur hefur hér á landi farið niður fyrir 980 hPa fáum við eftirfarandi töflu:
röð | stöð | ár | mán | dagur | þrýstingur | nafn | |
1 | 815 | 1983 | 6 | 11 | 959,6 | Stórhöfði | |
2 | 816 | 1894 | 6 | 16 | 964,7 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
3 | 772 | 1961 | 6 | 16 | 968,2 | Kirkjubæjarklaustur | |
4 | 178 | 1876 | 6 | 4 | 971,1 | Stykkishólmur | |
5 | 422 | 1874 | 6 | 4 | 972,2 | Akureyri | |
6 | 1 | 1845 | 6 | 2 | 972,6 | Reykjavík | |
7 | 1 | 1827 | 6 | 17 | 973,4 | Reykjavík | |
8 | 815 | 1967 | 6 | 28 | 975,4 | Stórhöfði | |
9 | 816 | 1881 | 6 | 25 | 975,8 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
10 | 707 | 2002 | 6 | 18 | 976,1 | Akurnes | |
11 | 772 | 1962 | 6 | 14 | 976,2 | Kirkjubæjarklaustur | |
12 | 772 | 1995 | 6 | 17 | 976,8 | Kirkjubæjarklaustur | |
13 | 178 | 1873 | 6 | 28 | 977,1 | Stykkishólmur | |
14 | 815 | 1972 | 6 | 20 | 977,7 | Stórhöfði | |
15 | 285 | 1955 | 6 | 24 | 977,8 | Hornbjargsviti | |
16 | 178 | 1862 | 6 | 17 | 978,0 | Stykkishólmur | |
17 | 816 | 1879 | 6 | 28 | 978,2 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
18 | 816 | 1920 | 6 | 20 | 978,3 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
19 | 815 | 1959 | 6 | 3 | 978,8 | Stórhöfði | |
19 | 422 | 1852 | 6 | 22 | 978,8 | Akureyri | |
21 | 816 | 1905 | 6 | 2 | 979,3 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
22 | 816 | 1885 | 6 | 22 | 979,5 | Vestmannaeyjakaupstaður | |
23 | 675 | 1930 | 6 | 10 | 979,7 | Teigarhorn |
Gögnin ná til 196 ára - en fyrstu 50 árin rúm voru stöðvar á hverjum tíma fáar og auk þess er nokkur óvissa í nákvæmninni - getur hæglega munað 1 til 2 hPa til eða frá. En við sjáum að þrýstingur hér á landi hefur farið niður fyrir 980 hPa 23 á þessu tímabili eða á 8 til 9 ára fresti að meðaltali, sjö sinnum niður fyrir 975 hPa (einu sinni á 25 til 30 árum) og aðeins þrisvar niður fyrir 970 hPa - sem er sá þrýstingur sem fimmtudagslægðin á að fara niður í. Ísland er ekki mjög stór hluti af Norður-Atlantshafinu öllu og líkur á að svona djúp lægð hitti á landið einmitt þann stutta tíma sem hún er hvað öflugast eru ekki miklar. Lægðir sem eru dýpri en 970 hPa eru því mun algengari en íslensku tölurnar sýna einar og sér.
Lægðin sem kom að landinu 11.júní 1983 er alveg sér á parti. Atburðaskrá hungurdiska segir: Kindur króknuðu á Snæfjallaströnd og í Fljótum. Á Snæfellsnesi féllu rafmagnsstaurar, þakplötur fuku og bátar á Búðum skemmdust. Skemmdir urðu á kartöflugörðum í Þykkvabæ og Kjós. Alhvítt varð víða norðantil á Vestfjörðum og norðanlands, ökklasnjór sagður í Fljótum. Auk þess urðu miklar skemmdir á Sultartangastíflu - en hún var í byggingu.
Eina tjónið sem frést hefur af samfara lægðinni miklu í júní 1894 er að þá rak franskt fiskiskip á land á Vopnafirði - og í kjölfar lægðarinnar kólnaði um hríð og snjóaði þá niður í miðja Esju og á Akrafjall.
Leiðindaveður fylgdi líka lægðinni djúpu 1961. Morgunblaðið segir þann 17. (fréttin skrifuð daginn áður):
Ekki er útlit fyrir að veðrið verði dýrlegt í dag nema síður sé. Veðurstofan tjáði Mbl. í gær, að loftvogin stæði illa, sérstaklega illa með tilliti til þjóðhátíðarinnar. Það verður norðan eða norð-vestan gjóla hér sunnanlands, hitinn fer niður í 57 stig, vonandi ekki neðar", sagði veðurfræðingurinn. Ekkert sólskin", bætti hann við. Fyrir norðan og austan er veður hvasst víða með rigningu. Það veitir sennilega ekki af að klæða börnin vel þar til þessi lægðin verður gengin hjá.
Og eftir helgina - þriðjudaginn 20. sagði blaðið:
Þjóðhátíðarveðrið var heldur hryssingslegt norðan- og vestanlands. Fólk vaknaði víða við það fyrir norðan á laugardaginn, að tekið var að fenna í fjöll og síður en svo vænlegt til hátíðahalda undir berum himni. Mikil rigning var samfara, sumstaðar slydda. Kaldast var á Möðrudal, aðfaranótt sunnudags, eins stigs frost. Á Raufarhöfn var hitinn í 0 sömu nótt. Hátíðahöldum var víða frestað til sunnudags, sums staðar felld niður með öllu. Veðrið hafði þannig truflandi áhrif á þjóðhátíðarhöldin á Húsavík, Ólafsfirði, Siglufirði, Akureyri, ísafirði og víðar. Á sunnudaginn hitnaði snögglega.
Tíminn segir frá þann 20.:
Bændur á Hólsfjöllum segja, að þar hafi brostið á þreifandi norðanhríð í fyrrinótt, og stóð veðrahamurinn fram eftir degi i gær. Varð öll jörð þar fannhvít á skammri stundu og víða dró í tveggja metra þykkt. Lömb fundust á nokkrum stöðum i snjó, og einnig munu þau hafa farið í læki og ársprænur, sem fylltust krapi. Eindæma ótíð hefur verið þar eystra, það sem af er sumri, og er gróður því mjög seint á ferðinni af þeim sökum. Horfir uggvænlega fyrir bændum á Hólsfjöllum, ef ekki rætist úr með veðráttuna.
Vaðlaheiði teppist. Sem dæmi um veðurofsann má nefna það, að í gærmorgun tepptist Vaðlaheiði um tíma, og komust bílar, sem lagt höfðu á heiðina, ekki leiðar sinnar, nema með aðstoð ýtu. Langferðabíll á leið til Húsavíkur sat fastur, en á eftir honum biðu 14 smærri bílar eftir því að vera dregnir yfir verstu kaflana. Nú hefur hins vegar hlýnað aftur í veðri þar nyrðra, að sögn fréttaritara, og hverfur þá snjór fljótlega úr heiðinni. Ekki mun þó Siglufjarðarskarð hafa teppst, og má þakka það því, hve átt var austlæg. Í Húnavatnssýslu var versta veður yfir helgina, rigning og kuldi, en snjókoma til fjalla.
Vegna veðurhæðarinnar leituðu vel flest skip vars á 17. júní. Við Grímsey lágu um 30 norsk skip í vari, en á miðunum þar voru nærri tíu vindstig. Á Skagaströnd lágu 16 skip við festar yfir helgina, en flest þeirra eru nú farin út á veiðar. Mikill fjöldi skipa lá í höfn á Siglufirði, en flest þeirra héldu út á veiðar, snemma í gærmorgun, enda veður þá tekið að lægja.
Áfram mætti halda við að þylja leiðindi samfara mjög djúpum júnílægðum - en látum staðar numið að sinni.
12.6.2018 | 14:46
Sólarleysi
Í lok dags í gær (mánudag) voru algjörlega sólarlausir dagar orðnir 6 í mánuðinum í Reykjavík. Óvenjulegast er að þessir dagar eru allir í röð. Og þegar þetta er skrifað lítur ekki sérlega vel út með sólskin í dag (þriðjudag) - þó stöku spá geri að vísu ráð fyrir einhverri glennu í kvöld. Ekki er vitað til þess að 6 (og því síður 7) sólarlausir dagar hafi áður komið í röð í júní í Reykjavík. Einu sinni er vitað um sjö algjörlega sólarlausa daga í röð í Reykjavík í júlí, það var rigningasumarið mikla 1984 og eins komu sjö sólarlausir dagar í röð í ágúst 1999.
Sé litið á júnímánuð í heild voru sólarlausir dagar (margir stakir) flestir 1933, tíu talsins. Júnímánuður nú hefur auðvitað ekki enn náð þeirri tölu - hvað sem verður. Í júlí 1984 voru sólarlausu dagarnir 17, og 13 voru þeir í ágúst rigningasumarið mikla 1955, 11 í annars ágætum ágústmánuði 1957, daufum júlí 1959, ágúst 1981 og í rigninga- og kuldaágústmánuði 1983.
11.6.2018 | 21:38
Norðurhvelsórói
Eins og minnst var á á þessum vettvangi fyrir nokkrum dögum eru háloftakerfi nú að hnikast til - en langt í frá ljóst hvert stefnir því mikill órói er víða á norðurhveli.
Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir að hún verði síðdegis á miðvikudag 13.júní. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykkt er sýnd í litum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Gulir og brúnir litir einkenna sumarhlýindi. Mörkin milli þeirra og grænu litanna er við 5460 metra.
Meðalþykkt júnímánaðar yfir Íslandi er um 5420 metrar - sú tala er í ljósasta græna litnum. Eins og sjá má á kortinu (það skýrist nokkuð sé það stækkað) er landið í miðgrænu, en dekksti græni liturinn snertir Vesturland. Þetta þýðir að hita er spáð neðan meðallags hér á landi á miðvikudaginn.
Ekki er hægt að benda á eina orsök þessa óróa - en mikil hlý hæð hefur skotist langt norður um kanadísku heimskautaeyjarnar - nægilega fyrirferðarmikil til að stugga við kuldanum og hrekja hann til allra átta. Góða aðstoð fær hún frá tveimur hlýjum hæðum yfir Síberíu. Einhvers staðar verður kuldinn að vera þannig að hann hörfar undan og kemur nokkuð víða við þessa dagana.
Á netinu sást falleg mynd af snjó í nýlaufguðum birkiskógum Kamtsjatkaskaga (blá ör á kortinu) og sömuleiðis nokkuð óvenjulegar myndir af snjó úr Bresku Kólumbíu í Kanada þar sem kalt loft ruddist suður með ströndinni (önnur blá ör) - lausafregnir herma að það sé eitthvert það kaldasta sem þar hefur lengi sést í júnímánuði. Á báðum þessum slóðum mun þó mesti kuldinn kominn hjá þegar þetta kort gildir.
Ef við lítum nær okkur má sjá að kalda loftið fyrir sunnan okkur er á miðvikudaginn að hitta fyrir hlýja tungu úr suðvestri (rauð ör) vestan við Bretland. Flestar spár gera ráð fyrir því að þar myndist óvenjuöflug lægð sem fari til norðausturs rétt norðan við Skotland og þaðan norðurúr talsvert fyrir austan Ísland. Hún hefur óbein áhrif hér - auðveldar köldu lofti langt að norðan að stinga sér hingað á fimmtudag og föstudag.
Fyrir okkur skiptir líka máli hvað kuldapollurinn vestan við Grænland gerir. Á kortinu er hann á suðurleið - og langtímaspár stinga upp á því að hann æsi upp fleiri djúpar lægðir sunnan Grænlands um eða upp úr næstu helgi. Sem stendur er þeim lægðum spáð beint til okkar - en alltof snemmt er þó að segja til um slíkt. Það er samt ljóst að vikan verður lengst af svöl og sólarlítil um meginhluta landsins - og raunar enga breytingu að sjá svo langt sem greint verður að sinni - en kannski skýin hér suðvestanlands verði eitthvað hærra á lofti en verið hefur.
11.6.2018 | 01:31
Af veðurfari fyrstu 10 daga júnímánaðar
Meðalhiti fyrstu tíu daga júnímánaðar er 8,6 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 15.sæti sömu daga á öldinni, þeir voru talsvert kaldari árin 2015, 2001 og 2011. Sé litið til lengri tíma er hitinn í 64. til 66. sæti af 144 sem við höfum aðgang að - ofan miðgildis. Dagarnir tíu voru hlýjastir árið 2016, meðalhiti var þá 11,5 stig, en kaldastir voru þeir 1885 þegar meðalhitinn var aðeins 4,9 stig.
Mun hlýrra hefur verið á Norður- og Austurlandi, á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu dagana 12,0 stig, þetta er fjórðahlýjasta júníbyrjun þar frá 1936, hlýrri var hún 2013, 2007 og 1940. Á Austurlandi eru dagarnir tíu einnig meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um.
Miðað við síðustu tíu ár er jákvæða vikið mest á hálendinu norðaustanlands, við Upptyppinga, Kárahnjúka og á Eyjabökkum er hitinn 6,5 stigum ofan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 11,9 mm og er það um 75 prósent af meðallagi, norðanlands og austan hefur lítið rignt ennþá í mánuðinum.
Sólarleysi hefur verið mikið í Reykjavík, síðustu fimm dagar alveg sólarlausir. Það hefur aðeins gerst einu sinni áður að fimm algjörlega sólarlausir dagar í röð hafi áður mælst í Reykjavík í júní. Það var dagana 18. til 22. árið 1913 - og var reyndar mælt á Vífilsstöðum um þær mundir - og nákvæmni mælinganna ekki alveg treystandi. Sex sinnum hafa komið fjórir algjörlega sólarlausir dagar í röð í júní í Reykjavík, síðast 1986.
Tvær mjög langar sólarleysissyrpur komu í Reykjavík í júlí 1984, sú fyrri var 5 dagar, 4. til 8., en sú síðari var 7 daga löng, þann 21. til 27.
Sólskinsstundir það sem af er þessum mánuði hafa aðeins mælst 23,0 og hafa aðeins 5 sinnum verið færri síðan byrjað var að mæla, 1979, 1962, 1992, 1988 og fæstar 2013 (13,4). Við Mývatn eru sólskinsstundirnar aftur á móti orðnar 118 - eða 11,8 á dag að meðaltali.
Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár, sá 13.hæsti síðustu 196 árin.
Nú virðist talsverð breyting á veðurlagi vera að eiga sér stað og líklegt að saxist eitthvað á jákvæðu hitavikin norðanlands og austan næstu tíu dagana - og loftþrýstingur þokast niður á við.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2018 | 02:18
Háloftakerfi hrökkva til
Síðastliðna tíu daga rúma hefur mikill og hlýr háloftahæðarhryggur fyrir austan og suðaustan land ráðið veðri hér á landi. Sólarlítið hefur verið suðvestanlands og heldur svalt í hafáttinni, en mjög hlýtt um landið norðaustan- og austanvert.
Myndin sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, hæðarvik eru sýnd í lit. Rauðbrúnu litirnir sýna jákvæð vik, en bláir neikvæð. Þó suðvestanáttir væru líka ríkjandi í maímánuði var hæðarhryggurinn þá mun austar en verið hefur að undanförnu. Loftþrýstingur í maí var óvenjulágur, en hefur síðustu tíu dagana hins vegar verið óvenjuhár.
Nú virðast háloftakerfin aftur eiga að hrökkva til. Lítum á kort sem sýnir ástand á föstudaginn kemur, 15.júní.
Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og kallast safnið spáklasi eða klasaspá. Líkanið hefur ekki alveg jafn mikla upplausn og aðalspárunan hverju sinni og upphafsskilyrðum er breytt lítillega - reyndar mjög lítið. Fyrstu dagana eru þessar 50 spár venjulega nokkuð sammála, en síðan reka þær hver frá annarri - mishratt. Með því að mæla rekið má fá einhverja hugmynd um óvissu - og jafnvel hvers eðlis hún er hverju sinni.
Kortið hér að ofan sýnir eins og áður sagði meðalhæð 500 hPa-flatarins og meðalþykkt um hádegi á föstudaginn kemur, eftir 6 daga. Strax sést að hér er allt önnur staða uppi heldur en verið hefur ríkjandi að undanförnu. Í stað hæðarhryggjarins er komið mikið og breitt lægðardrag sem nær yfir stóran hluta kortsins. Hæð 500 hPa-flatarins hefur fallið úr því að vera um 5700 metrar niður í 5340 metra og þykktin úr því að vera um og yfir 5500 metrar niður í 5360 metra (segir meðaltal klasans alls). Neðri hluti veðrahvolfs á að kólna um 7 stig miðað við það sem verið hefur.
Íbúar Suðvesturlands hafa reyndar ekki notið þessa háloftahita þannig að viðbrigðin verða miklu minni þar heldur en norðaustanlands. Kannski sér meira að segja eitthvað til sólar þannig að hlýrra verður sunnan undir vegg heldur en áður.
Ritstjórinn hefur bætt nokkrum örvum á kortið. Sé rýnt í það má með góðum vilja sjá mjóar strikalínur. Þær sýna staðalvik hæðarinnar innan klasans. Því meira sem það er því meira hefur spárnar 50 rekið í sundur. Rauðu örvarnar benda á staði þar sem þetta rek er hvað mest. Annars vegar yfir sunnanverðri Skandinavíu - þar er töluvert ósamkomulag um hvar einstakar lægðabylgjur verða staðsettar á föstudaginn - og hversu öflugar þær verða. Hins vegar er svæði mikillar óvissu vestan Grænlands. Þar eru spárnar 50 mjög ósammála um útrás öflugs kuldapolls úr norðurhöfum - í sumum spánum kemur hann ekki inn á svæðið, en í öðrum gerir hann það.
Bláu örvarnar benda hins vegar á svæði þar sem klasinn er allur meira eða minna sammála um hæð 500 hPa-flatarins á föstudaginn kemur. Það er suður af Íslandi - þar á að verða lægðardrag hvað sem öðru líður, og líka langt vestur í Kanada - þar segist klasinn viss um að verði mikill og hlýr hæðarhryggur.
Óvissa mæld í klasaspám er auðvitað ekki sú sama og raunveruleg óvissa - vel má vera að allar spárnar 50 séu hringavitlausar. Samt verður að telja miklar líkur á því að hæðarhryggurinn sem fært hefur landinu austanverðu hlýindin brotni niður og eitthvað annað taki við.
9.6.2018 | 21:54
Af árinu 1750
Við lítum nú aftur á stöðuna um miðja 18.öld og veljum í þetta sinn árið 1750. Veðurupplýsingar eru aðallega úr annálum, en þó höfum við líka mælingar Niels Horrebow sem hann gerði á Bessastöðum. Mælar hans voru að vísu illa kvarðaðir þannig að erfitt er að reikna meðalhita með þeirri nákvæmni sem við helst vildum - en samt er miklu betra að hafa þessar mælingar heldur en engar. Veðurdagbók Jóns eldra er tiltölulega læsileg þetta ár - en er öll á latínu og ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að byggja á henni - þó orð og orð sé mjög vel skiljanlegt (svo sem frost og hiti, þurr, regn ofl.) - og auðvelt að greina veður dag og dag.
Rit Horrebows, Tilforladelige Efterretninger om Island innihélt töflu með öllum veðurathugunum hans. Þegar íslenska þýðingin loks kom út árið 1966 undir titlinum Frásagnir um Ísland var þessum töflum sleppt. Ritstjóri hungurdiska heldur sérstaklega upp á afsökun þýðandans:
Töflunum er sleppt í þessari útgáfu, enda eru þær ekki lestrarefni. En þeim fylgja nokkrar athugasemdir til yfirlits, og eru þær teknar hér með, nema upphafið, þar sem höfundurinn skýrir frá tækjum sínum og vinnubrögðum. Frásagnir um Ísland, Bókfellsútgáfan 1966.
Myndin sýnir hitamælingar Horrebow. Hér verðum við að hafa í huga að kvörðun mælisins er ábótavant og að hann var lengst af ekki úti heldur við opinn norðurglugga í húsi. Hið síðarnefnda þýðir að snarpar hitasveiflur koma síður fram. Þann 1.október 1750 var hitamælirinn settur út fyrir gluggann - og við sjáum að eftir það verður hitinn sveiflukenndari - og þá fraus oftar og meira heldur en veturinn á undan þegar lengst af var frostlaust í mælaherberginu. Lengsti frostakaflinn kom í marslok og stóð fram eftir aprílmánuði. Eftir það hefur vorað vel á Bessastöðum.
Fram kemur að um sumarið voru margir bjartir og þurrir dagar og dágóður hiti er allt til septemberloka. Ekki kólnaði að ráði fyrr en um veturnætur.
Loftvogin sýnir órólegt veðurlag fyrstu þrjá mánuði ársins, hefðbundinn háþrýstikafla í maí og framan af júní og síðan í aðalatriðum hægt fallandi loftvog í júlí, ágúst og september. Haustið einkennist af miklum háþrýstikafla frá því í lok september þar til í lok nóvember.
Horrebow nefnir þann 16.desember að þá hafi vindur verið hægur og veður bjart í 5 daga þó loftvog standi lágt. Sömuleiðis að hann hafi þessa daga verið hvass á norðan rétt úti á Flóanum þannig að sjósókn hafi gengið illa og mikið hafi látið í sjónum. Má minna okkur á að náttúruhljóð voru mikilvægt hjálpartæki við veðurspár hér áður fyrr, sérstaklega fyrir vana menn - nú greinast þau varla frá öðrum hávaða. Þetta virðist hafa verið mikið norðurljósaár á Bessastöðum - þeirra er mjög oft getið.
Annálar greina frá nokkuð erfiðu árferði um landið norðanvert, en betra syðra. Mikill hafís kom að landinu. Við skiptum annálunum gróflega upp eftir árstíðum. Byrjum á vetri og vori. Eins og sjá má af orðalagi éta þeir sumir eftir öðrum og ekki gott að segja hversu margar frumheimildir eru óháðar. Sumardaginn fyrsta bar upp á 23.apríl.
Ölfusvatnsannáll: Vetur frá jólum miðlungi, með iðuglegum úrkomum, ýmist af snjó eða regni, fyrir kyndilmessu gömlu [13. febr.]. Fór þá að smáherða á með jafnlegum (s361) snjó og áfreða, hagleysi alltíð meir og meir, er hélst við til Magnúsdags [16. apríl]. Batnaði þá og varð góð vorveðrátta. Samt vegna undanfarinna vetrarharðinda ... varð víða stráfellir á útipeningum, sérdeilis sauðfé, svo sumir, áður af fé vel ríkir, áttu lítið og nokkrir ekkert eftir af því. ... Vorið var kalt og vindasamt, þó við meðalmáta. (s362) ...
Þessari frásögn Ölfusvatnsannáls ber allvel saman við hitamælingar Horrebow, en ekki minnist Horrebow á áfreðana, kannski hafa þeir ekki verið svo áberandi á Bessastöðum.
Grímsstaðaannáll [af Snæfellsnesi]: Vetur dágóður fyrir jól og eftir, en ógæftir til sjóarins víðast kringum Jökul. ... Tveir skiptapar urðu syðra, annar á Akranesi, voru á 4, (s605) ... drukknuðu 2 en formaðurinn og annar komust af. Hinn skiptapinn syðra skeði við Engey og drukknuðu allir sem á voru. ... Hafís var allt þetta ár frá 1749 um jól og allan veturinn, allt vor og sumarið, og fram undir haust. Voru þá hin mestu harðindi um Strandir norður, einnig í Húnavatnssýslu, en rekaviður hinn allra mesti undan og í hafísnum, hvar af fólkið hafi mikið gagn. (s606) ...
Höskuldsstaðaannáll: Spilltist veðurátt með föstuinngangi. Rak ís að Norðurlandi á einmánuði með austanhríðum. Var Húnafjörður fullur af ísi eftir sumarmál fram til krossmessu. ... Vorið var kalt.
Íslands árbók: Fyrri partur vetrarins viðraði allvel og fram á góu. Síðan harðnaði, og kom þung skorpa fram á vor. Þann 12. Martii gjörði mikla vatnshríð, sem orsakaði bæði skriður og snjóflóð, hvar af ýmsar jarðir fengu skaða, og sums staðar tók hey og fjárhús. Urðu og harðindi meðal fólks, svo peningi varð lógað til matar. Fyllti upp með hafís fyrir öllum Vestfjörðum og Norðurlandi. (s23) ...
Sauðlauksdalsannáll: Vetur í meðallagi á Íslandi til lands og sjóar. (s429)
Úr Djáknaannálum: §1. Vetrarveðrátta góð framanaf en spilltist og varð óstöðug og fjúkasöm. Á einmánuði gjörði norðanhríðir; rak þá ís að Norðurlandi og Vestfjörðum svo Húnafjörður fylltist af honum eftir sumarmál fram til krossmessu [3.maí]. Vorið kalt. §4. Þann 12ta Martii gjörði vatnshríð af vestri, sem orsakaði miklar skriður og snjóflóð, hvar af ýmsar jarðir fengu skaða og sumstaðar tók hey og fénað úr húsum. (s75).
Um sumarið 1750. Það virðist hafa verið allgott sunnanlands, en mun erfiðara nyrðra.
Ölfusvatnsannáll: Sumarið var gott og grassamt, með góðri nýtingu (s365) sunnanlands. Brá til vætu með Maríumessu fyrri [15.ágúst]. Nýttust þó hey til höfuðdags [29.ágúst], en úr því ekki. En í hinum fjórðungum landsins var bág nýting og graslítið. ...
Grímsstaðaannáll: Þetta var þurrkasumar hið mesta, en lítill töðugrasvöxtur. (s613)
Höskuldsstaðaannáll: Fór ísinn burt í 12. viku sumars [um 25. júlí]. ... Iðulegur óþerrir af þokum og skemmdust víða töðurnar. Einnig haustið óstöðugt. (s489)
Úr Djáknaannálum: Hafísinn fór burt í 12tu viku sumars. Iðulegur óþerrir af þokum; skemmdust víða töður, batnaði eftir hundadaga [lýkur 23.ágúst]. Haustið óstöðugt.
Espólín: XVII. Kap. Þá var grasár í meðallagi syðra og vestra, en illt norður um; var vætusamt og snjóaði þar í hundadögum, og nýttust illa hey, en batnaði veðrátt síðan. (s 24).
Ölfusvatnsannáll: Haustið var vott og vindasamt til veturnótta, batnaði þá og varð þurr og góð veðrátta, svo vetur var til jóla einn sá allra besti. ... Á mánudagsnóttina fyrstu í jólaföstu, [30. nóv.] að líðandi vökutíma, varð í heiðríkjum svo björt leiftran, að hún yfirgekk glaðasta tunglsljós, en þá var ekki tunglskin, því það var í kveikingu. (s366)
Íslands árbók: Haustið viðraði vel og fram á vetur. (s25)
Úr Djáknaannálum: Vetur góður til nýárs. (s 74).
Djáknaannálar segja einnig frá almennu harðrétti:
Úr Djáknaannálum: Góður fiskiafli eystra og syðra, sæmilegur undir jökli. Um vorið enginn fiskur fyrir norðan, en hákall nokkur. Smáfiskur venju framar um haustið á Húnafirði. Þann 5ta Oct. rak hvalbrot á Sviðningi á Skaga. Harðrétti manna á milli svo peningi var sumstaðar til matar lógað. Á Langanesströndum, Vopnafirði og utarlega í Fljótsdal dóu í harðrétti 44 manneskjur og 40 bæir eyddust. (s 74).
Hrafnagilsannáll segir frá - spurning hvort verið er að lýsa glitskýjum frekar en eldsbjarma:
3.febrúar 1750 sást eftir dagsetur blóðrauður reykur eður ský undan austurfjöllunum hér í Eyjafirði millum miðs morguns og dagmálastaðar um dagsetursleyti, varaði meir en tíma og færði sig suður eftir. Þenktu menn þetta koma af jarðeldi úr Mývatnsfjöllum eður námum, sást og fyrir norðan. (s679)
Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt flestra annálatextanna [úr Annálaútgáfu Bókmenntafélagsins] og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar - mistök við þá aðgerð eru hans).
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.11.): 225
- Sl. sólarhring: 324
- Sl. viku: 1659
- Frá upphafi: 2408527
Annað
- Innlit í dag: 211
- Innlit sl. viku: 1491
- Gestir í dag: 204
- IP-tölur í dag: 203
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010