Af árinu 1808

Nokkuð skiptar skoðanir eru í heimildum um árið 1808. Snemma árs gerði miklar frosthörkur, en aftur á móti gerði hlýja tíð á góunni áður en herti aftur. Sumarið þótti skárra syðra heldur en nyrðra þar sem hafís kom mjög við sögu og spillti veðri ef vindur andaði að utan. Meðalhiti í Stykkishólmi reiknast lágur, aðeins 1,9 stig og ágiskun um hita í Reykjavík nefnir 3,1 stig þar. Þessar tölur fela þó hlýja mars- og júlímánuði, ekki kom hlýrri mars fyrr en 1847. Janúar var sérdeilis kaldur og ársspönn hitans (mismunur meðaltala hlýjasta og kaldasta mánaðar) óvenjustór. 

Reglubundnar siglingar til landsins féllu að miklu leyti niður vegna stríðsátaka í Evrópu, en ensk skip voru þó eitthvað á ferð, jafnvel hálfgerðir sjóræningjar [með bresk leyfisbréf]. Meira mætti fjalla um þá í almennum sögubókum heldur en gert er, þeir hafa fallið nokkuð í skugga Jörundar sem var hér árið eftir.  

Annáll 19. aldar segir frá:

Vetur var harður frá nýári fram á góu, með fannkomu og vondum áhlaupum; síðan var allgóð tíð fram í miðjan einmánuð. Kom þá hafís að Norðurlandi og var frostasamt öðruhverju fram undir sólstöður, en betur féll syðra. Gjörði snjókomu með frosti nyrðra fyrir höfuðdag og varð lítið um heyafla eftir það. Mátti þó kalla nýtingu allgóða norðanlands, en lakari syðra. Haustið var hrakviðra- og snjóasamt, en gott á milli; rak niður fönn mikla mánuði fyrir vetur og var skarpt um jörð; batnaði um allraheilagramessu og var bærileg tíð það eftir var ársins, en þó jafnan lítið um þurrka, einkum sunnanlands. 

ar_1808t-a

Hitamælingar voru gerðar bæði í Kotmúla í Fljótshlíð og á Akureyri. Mælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla voru nokkuð stopular vegna stöðugra ferðalaga (læknisvitjana) Sveins, en eins og sjá má á myndinni hér að ofan ber athugunum á báðum stöðunum ekki illa saman um köld og hlý tímabili. Gríðarlegt frost var á þorranum á Akureyri, fór í rétt rúm -30 stig þegar mest var. Hafa verður þó í huga að mælirinn var að nokkru óvarinn og hefði nútímamælir e.t.v. ekki sýnt alveg jafn lága tölu við sömu skilyrði að öðru leyti. Stöð þeirra landmælingamanna var á „gömlu Akureyri“ og hafa síðari tíma samanburðarmælingar sýnt að þar er oft kaldara í stillum heldur en á núverandi mælistöðvum við Lögreglustöðina og Krossanesbraut. 

Sveinn Pálsson mældi mest frost þann 25.janúar, 19 1/4°R eða -24°C. Sérlega mikið frost þar um slóðir. Hann segir í athugasemd að vindur hafi verið stífur og snjó skafið á sama tíma. 

Góan var hins vegar sérlega hlý - eins og áður sagði varð mars meðal þeirra hlýrri á 19.öld - en leiðindakuldar fylgdu í kjölfarið, eins og oft er. Þann 1.maí segir Sveinn: „Temmeligt sneefald om natten“ - allmikil snjókoma um nóttina. 

Línuritið sýnir kvöldhita á stöðvunum, en mælt var á fleiri tímum. Í júlímánuði fór hiti 5 daga upp fyrir 20 stig á Akureyri, mest í 25,8 þann 22. Þetta er hæsti hiti sem mældist á Akureyri þau sjö ár tæp sem mælingar landmæliteymisins stóðu. Jón á Möðrufelli segir þennan sama dag (nokkurn veginn): „Enn nú sami sterkjuhiti og þurrkur“. Daginn eftir var þar þokuútræna og kuldi. Þá var hiti hjá mælingamönnum á Akureyri 11,4 stig um miðjan dag. Við sjáum að frost hefur gert á Akureyri að kvöldi 25. ágúst og þar var hiti neðan frostmarks á öllum athugunartímum þann 26. - harla óvenjulegt ástand. Ekki er auðvelt að lesa lýsingu Jóns í Möðrufelli þennan dag - þó sér ritstjóri hungurdiska líklega orðið „sárkaldur“ og sömuleiðis að hægt hafi síðdegis og gert snjóhríð svo alhvítt varð.

Sandrok var þessa ágústdaga suður í Fljótshlíð og hiti rétt ofan frostmarks í norðaustanstorminum. Það snjóaði þar í fjöll. 

ar_1808p-b

Þó loftvog Sveins í Kotmúla hafi verið illa kvörðuð sýnir hún þó sömu meginsveiflur og betra tæki mælingamannanna á Akureyri. Þrýstingur var almennt nokkuð hár frá því snemma í febrúar - en þó gengu greinilega yfir miklar og stórar háloftabylgjur - furðu reglulegar á gróflega 10 daga fresti. Sömuleiðis eru það nokkrar langar sveiflur sem einkenna sumarið - þrýstingur skiptist á að vera lágur um og neðan við 1000 hPa og hár, upp undir 1020 hPa.  

Brandsstaðaannáll:

Á nýársdag mikil hríð og harka á norðan, 9.janúar bloti. Jarðskarpt varð þá og algjörlega haglaust með þorra fyrir áfreðablota. Var þá hafís landfastur og sá út fyrir harðindi. Út þorra gengu bleytuhríðar og blotar á víxl. Voru þeir orðnir 18 þann 24. febrúar er hláku og góðan bata gerði. Góa mikið góð. 18.mars kom lognfönn er brátt tók af. Eftir það var vorið þurrt og kalt, seingróið og oft smáhret. Eftir fardaga heiðarleysing og gróður allgóður, en í júlí voru þurrkar svo allt harðlendi spratt illa. Í 14. viku byrjaði sláttur [um 20.júlí]. Varð besta nýting og heyskapur mikill af flóum og fjalllendi, en lítill af þurrengi og harðlendi.

Heyskapartími var ekki nema 7 vikur og hann leiðinlegur á gráleitu og graslitlu harðlendi, svo Áshagi allur útsleginn gjörði 280 hesta og túnið 120. Um göngur storma- og rigningasamt til jafndægra, en eftir það þiðnaði ei jörð né torf, því snjó og frost lagði þá að. 7.október og 11. og einkum 16. stórhríð, svo ei var beitandi og föstudaginn fyrstan í vetri. Var þá komin fjarskamikil fönn og fé mjög hrakað. 26 október norðanhláka, en sletti þó í, svo haglaust varð, en 28. skipti um með hláku eftir þessa mánaðarskorpu, svo hætt var að gefa lömbum, er lærðu át þann vonda Gallus. [Gallusmessa var 16.október]. Þíðusamt fyrri part nóvember, svo snjólítið og þægileg vetrartíð. Á jólaföstu þíður oft og fjórum sinnum stórrignt, en stillt og gott um jólin. 

Frú Gyða sýslumannsfrú á Reyðarfirði sneri aftur til landsins um vorið eftir árs fjarveru. Hún segir að vorið hafi verið heldur hógvært: „... tilbageholdt sin milde Aande“ og falist undir frosinni jörð. Hún hafi venjulega hlakkað til þeirrar stundar að ísinn hyrfi þannig að skip kæmust inn á fjörðinn og fiskveiðar gætu hafist. Nú hafi hún hins vegar vonað að ísinn lægi sem lengst - til að sjóræningjar kæmust ekki inn. En ísinn hafi horfið - sumarið komið, en engin skip sýnt sig. 

Jón á Möðrufelli segir að 2/3 hlutar febrúarmánaðar hafi verið harðir, en tíð hafi verið góð, síðasta vikan oftast þíð. Mars hafi allur yfirhöfðuð verið góður, fyrstu vikuna var ákafleg leysing, en rosafengin. Vikan sem hann færir til bókar þann 12. var góð - áin þíð og næsta vika þar á eftir líka dágóð. Vikan sem endaði þann 26. var mikið stillt og góð, en svalari. Apríl var hins vegar æði harður og í maí var allt uppstoppað af hafís inn í fjarðarbotn. Júní telur hann í meðallagi, en júlí góðan og stilltan. Október var úrkomusamur allur, en nóvember stilltur og snjólítill, desember líka stilltur, en frostasamur tíðast. 

Árið í heild telur hann meðalár upp á land, en harðindaár úti á sjó - hafís hafi verið mikill. 

Eins og fram kemur í annálunum virðist hafís hafa verið nokkuð mikill. Svo virðist vera sem fylla af hafís hafi farið langt vestur með Suðurlandi seint í maí. Sveinn Pálsson getur hans frá 24.maí og fram til 6.júní. Þann 24.maí segir að grænlandsís hafi rekið að austan og við það hafi strax kólnað. Tveimur dögum síðar segir að ísinn liggi meðfram allri ströndinni, en hann nái þó ekki alveg út til Vestmannaeyja. Þann 2.júní virðist ísinn hafa rekið frá í norðanátt, en samt ekki langt. Þann 6. sé hann horfinn til hafs. Ef rétt er skilið segir Sveinn að ísinn hafi legið eitthvað lengur við Meðalland. 

Annáll 19.aldar telur upp langa röð slysa og mannskaða, flest ódagsett og sumt ótengt veðri. Dagsetning, 17.október, er þó á skaða þegar þrír menn frá Vatnsnesi fórust á bát á Húnaflóa. Þann 15.desember varð skólapiltur úti í hríðarbyl á Álftanesi. 

Þórarinn í Múla og Jón Hjaltalín lýsa báðir veðri í bundnu máli - hér er valið úr. Þórarinn fyrst. Hann segir m.a. frá miklum skriðuföllum í Kjós sem og banvænu krapaflóði í Hvammi í Norðurárdal, þar fórst 15 vetra piltur: 

Reisti hríðar öndvert ár
Ofsa stríðar himin blár;
Frosta sótti feikn að ríkt,
Færri þóttust muna slíkt.

Hrannar blök, og hörku skvak
Hafís-þök að landi rak,
Þjáðu gríðar-þung og löng
þorra tíðar veðrin ströng

Þorri skeggið þeytti grimmt,
þusaði hregg og veður dimmt;
En góu fata-gustur vann
Gefa´ oss bata farsælan.

Söfnuðust lítil sumars hey, [1807]
Síðan nýt til fóðurs ei,
Sex fyrir vetur, vegna snjós,
Vikum létust kýr í fjós.

Héldust víða harðindin
Hausti, síðan veturinn,
Góu að, um dægur dimm,
Dráp og skaða veittu grimm.

Veðurátt góð og velþokkuð
Væg fram stóð á einmánuð;
Bjuggu menn við betra kost
Bitur enn þó næturfrost

Sunnanvindar, sólskin hlýtt,
Sinntu rindar elju títt,
Ísa þrengdu ár og sær,
Öldur slengdu þessum fjær.

Úr hafi þegar hríð og snjór
Hastarlega geysi stór
Niður hrapa, fjölda fjár
Fönnin drap og harka sár.

Enn í miðjan einmánuð
Ægis-hryðja stórrituð,
Jökli hálum helst óvær
Hafs úr álum renndi nær.

...

Um fardaga yfirsló
Aftur baga´ af hríð og snjó;
Féð þá nakið fraus í hel,
Fór nýklakið ekki vel

...

Sunnan betur landi lét
Liðinn vetur, minni hret;
Byrsæl höldin búsmalans,
bæði töld og notin hans.

Vetrar síðla voru þar
Vatns stórhríðir ákafar;
Vor og sumar öndvert eins,
Urðu guma þar til meins

Sumarið allt var sólhvörf á
Sára kalt hér norðurfrá;
Um svo breytt í einkar gott,
Allmjög heitt, en sjaldan vott

...
Sláttar tíðin þótti þekk,
þurrkinn víðar taðan fékk;
Auðnast vann og ítri þjóð
Útheyjanna nýting góð.

Velsemd stærstu veitti slag
Vika næst fyrir höfuðdag:
Hreggs í hviðum hríð og snjór
Hrapaði niður geysi stór.

...
Allr´heilagra messu mund
mikið fagra gæfustund
Oss framskína aftur lét:
Öll þá dvína mundu hret.

Veðurstaða´ og vinda hjól
Var oss þaðan allt á jól
Hagstæð, snjólaus, hægðar frost
Himinn bjó þann vægðar kost.

...
Haustið syðra sagt er allt
Sár- hretviðra fullt og -kalt,
Höfuðdegi frekt svo frá
Framar eigi þornað strá.

...
Frost í haust og feikna snjó
Fyrir austan niðursló;
Voða stríða vetrarfar
Verður síðan letrað þar.

...
Á Suðurlandi´ í vetur var
Vurðu´ að grandi rigningar;
Eyddu Reynivalla völl
Veitu og steinum skriðuföll.

Enn þó heyrist, skeður skal
Skaði meiri´ í Norð´rárdal,
Regnið hleypti fjalli fram
Frekt og steypti´ að öllu Hvamm.

Jón Hjaltalín segir líka frá skriðuföllum í Kjós og Hvalfirði og krapaflóðinu í Hvammi:

Árið liðna örðugt var í ýmsum sökum,
Frost og stormar fanna-rokum,
Feyktu nær að þorralokum.

Hér næst vatna hríð um grundir hvatti ferðir.
Skriður hrundu skaflar harðir,
Skemmdust víða þar af jarðir.

Hér alþekktar þrjár ég nefni þeirra á milli.
Þá er fengu þyngstu skelli,
Þyril, Háls og Reynivelli.

...
Gras var lágt, en góð þó nýting gafst á töðum,
Síðan dundi drjúg að flóðum
Dögg og snjór með vindum óðum

Hey var krabbað heim í garða hrakið, frosið,
Líka enn um láðið gisið
Liggur það í hrúgum visið.

...
Hrakviðra og hryðjusamt má haustið kalla,
Gripum jafnan gafst þó fylli,
Gott hefur verið þess á milli.

...
Hvamm í Norðrárdal ádundi djarfur skaði.
Snjóflóð bæinn braut að láði
Barn eitt prestsins dauða þáði

Ólafur Jónsson [Skriðuföll og snjóflóð] hefur það eftir annál Hallgríms Jónssonar að það hafi verið 28.febrúar sem skriður hafi hlaupið fram víða og skemmt nokkrar jarðir í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Ef til vill varð skriðutjónið í Hvalfirði um svipað leyti. 

Ólafur Jónsson segir frá því að prestþjónustubók Hvamms í Norðurárdals geti þess að krapaflóðið þar hafi orðið þann 20.febrúar. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun um árið 1808. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 978
  • Frá upphafi: 2341352

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 896
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband