Bloggfærslur mánaðarins, september 2017
30.9.2017 | 02:24
September- og sumarhiti
Nú má september heita liðinn og óhætt að líta á landsmeðalhitann. Mánuðurinn er í flokki þeirra hlýjustu - er í fimmtahlýjasta sæti á lista sem nær aftur til 1874.
Línuritið sýnir septemberhitann. Fjórir mánuðir eru í nokkrum sérflokki hvað hita varðar og vantar september nú nokkuð upp á að ná þeim. Langtímahitaleitni reiknast ekki mikil í september, en þó hafa hlýir mánuðir verið mun meira áberandi á þessari öld heldur en nokkru sinni áður.
Hefðbundið er á Veðurstofunni að telja september til sumarsins. Sumarið 2017 var hlýtt þegar borið er saman við allt safnið, lendir í 17. til 18. hlýindasæti af 144 á lista.
Á þessari öld hafa enn hlýrri sumur verið nokkuð algeng, en á öllu tímabilinu 1954 til 1995 kom ekkert sumar jafnhlýtt eða hlýrra heldur en það sem nú er nær liðið - og varla neitt á tímanum fyrir 1933 (nema e.t.v. 1880). Kaldast var 1882.
Í ár gerðist það að september var á landsvísu hlýrri en júní - og víða um land var hann einnig hlýrri en ágúst. Það er alloft sem landsmeðalhiti í september er hærri en í júní, 29 sinnum af 144 skiptum sem við höfum sæmilega áreiðanlega vissu um - þar af 5 sinnum á þessari öld - og hlýtur að réttlæta veru 9. mánaðar ársins í hópi sumarmánaða. Á sama tímabili hefur september 8 sinnum verið hlýrri en ágúst (enn á landsvísu).
Ekki er vitað til þess að október hafi verið hlýrri en júní sama árs - á landsvísu, en það hefur nokkuð oft gerst á einstökum stöðvum. Það hefur meira að segja gerst að nóvember hefur orðið hlýrri en júní. Til þess að svo megi verða þarf að hittast svo á að júní sé óvenjukaldur og nóvember óvenjuhlýr - ekkert óskaplega líklegt. Við vitum um slík tilvik í fimm árum, 1931 í Papey, í Kjörvogi á Ströndum 1968, á Dalatanga, í Neskaupstað og á Kambanesi 1993, og á Fonti á Langanesi 1998 og 2011. Desember hefur aldrei orðið hlýrri en júní sama ár á veðurstöð hérlendis - svo vitað sé til.
27.9.2017 | 00:02
Hiti og úrkoma (september)
Almennt má segja að líkur á úrkomu vaxi með auknum hita - en sannleikurinn er samt sá að leitin að því sambandi er ekki auðveld. Í pistli dagsins lítum við á eina mynd. Hún sýnir meðalhita septembermánaða í Reykjavík á móti úrkomumagni sömu mánaða.
Lárétti ásinn sýnir hitann, en sá lóðrétti úrkomumagn. Hér má sjá að samband þessara tveggja stika er ekki neitt. Aðfallslínan vísar að vísu upp (vaxandi úrkoma) með vaxandi hita, en það er allt og sumt.
Hér má sjá allar gerðir mánaða, hlýja og vota, hlýja og þurra, kalda og vota og kalda og þurra. Jú, að vísu er enginn þeirra allra hlýjustu mjög þurr og aðeins einn kaldur er mjög votur - eitthvað segir það kannski.
Ein af ástæðum þessa sambandsleysis er sú að ekki þarf nema örfáa (afbrigðilega) daga til að gera mánuð votan - það voru kannski einu hlýju dagar mánaðarins - svo fáir að þeir höfðu lítil áhrif á meðalhitann.
Við sjáum einn mjög hlýjan og blautan mánuð - september 1941. Tveir hlýjustu mánuðirnir, september 1939 og 1958 voru ekkert sérstaklega blautir í Reykjavík.
Hlýindi stafa oft af miklum sunnanáttum - þeim fylgir mikil úrkoma um landið sunnanvert - en oftast er líka hlýtt austan við (mjótt) sunnanáttarhámarkið - þar sem loftþrýstingur er hár og loft mun þurrara.
Við gætum velt okkur eitthvað upp úr þessu - en látum hér staðar numið að sinni.
25.9.2017 | 00:35
Svipuð staða og í fyrra
Staða stóru veðrakerfanna er nú ekkert ósvipuð því sem var um sama leyti í fyrra. Gríðarleg fyrirstöðuhæð yfir Skandinavíu, en lægðagangur til norðurs nærri Íslandi og fyrir suðvestan land.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á þriðjudag 26. september. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd með litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs.
Ísland og allt svæðið þar austuraf er undir sumarhita en svalara loft streymir til suðurs vestan Grænlands. Hæðin yfir Skandinavíu telst óvenjuöflug. Við jörð er loftþrýstingur meiri en 1040 hPa. Þó þetta sé ekki algengt var staðan svipuð í fyrra - þá rétt eftir mánaðamótin september/október. Hæðin þá var sjónarmun vestar en nú og entist langt fram eftir mánuðinum.
Ekkert vitum við um endinguna nú, en meðan hún varir verðum við í stöðugri sunnanátt í háloftum með miklum úrkomugusum sem verða öflugastar um landið suðaustanvert. Dag og dag nær heldur kaldara loft úr suðvestri til landsins.
Á kortinu má sjá tvo fellibylji, hina alræmdu Maríu sem enn er nokkurt afl í þó mesta skaðræðið sé vonandi hjá. Svo má sjá dvergfellibylinn Lee - örsmár, en honum mun þó fylgja fárviðri á litlu svæði. Eins og sjá má af stafrófsröðinni myndaðist Lee á undan Maríu - var um tíma talinn af, en hefur náð sér nokkuð á strik aftur - en sem smælki.
Því er spáð að bæði María og Lee muni mæta vestanröstinni undir næstu helgi en reikningum ber ekki saman um hvernig þeim mun reiða af í átökunum.
Kuldinn yfir Norðuríshafi er aðeins að ná sér á strik, ef vel er að gáð má sjá litinn sem fylgir 5040 metra jafnþykktarlínunni þekja smáblett í miðri háloftalægðinni. Veturinn farinn að líta í kringum sig.
23.9.2017 | 21:08
Sumarmegin jafndægra
Við lítum nú til gamans á meðalhita tímans frá vorjafndægrum til haustjafndægra. Til að geta reiknað hann þarf að hafa upplýsingar um meðalhita hvers dags þau ár sem litið er á. - Sannleikurinn er sá að ekki munar miklu á meðalhita þessa tímabils og meðaltals mánaðanna apríl til september - sem við gætum reiknað fyrir fjölmargar stöðvar langt aftur í tímann. En til gamans látum við jafndægrin ráða.
Við eigum til daglegan meðalhita í byggðum landsins aftur til 1949.
Hér sýnist hafa hlýnað verulega síðustu 70 árin - en mikill munur er þó á stöðunni frá ári til árs. Súlurnar sýna meðaltölin, en rauða línan tíuárakeðju. Græn, stutt strik sýna landsmeðalhita sem reiknaður er út frá sjálfvirku stöðvunum - við sjáum að ekki munar miklu. Nýliðið sumar er í flokki þeirra hlýjustu - þó talsverðu muni hins vegar á því og þeim allrahlýjustu, 2003 og 2014. Sumarið 1960 gerði það gott og sömuleiðis var þjóðhátíðarsumarið 1974 áberandi hlýrra en önnur á kuldaskeiðinu mikla á síðari hluta aldarinnar 20. - Langkaldast var 1979.
Við þekkjum daglegan meðalhita á Akureyri allt aftur til 1936 - lítum á línurit sem sýnir meðaltöl reiknuð með hjálp þeirra gagna.
Þetta er auðvitað svipuð mynd og sú fyrri - nema hvað nú náum við í gamla hlýskeiðið líka og þar með sumarið 1939 - það hlýjasta á öllu tímabilinu, sjónarmun hlýrra en 2014. Leitnin komin niður í 0,8 stig á öld.
Við getum reiknað lengra aftur í Reykjavík - en fyrir 1921 vantar nokkuð af gildum einstakra daga í skrána - það væri hægt að reikna stóran hluta þess sem enn vantar (eftir 1871) út og verður e.t.v. gert um síðir, en hefur ekki enn verið gert. Myndin er því nokkuð skellótt framan af.
Tímabilið 1830 til 1853 er lengst til vinstri - nokkuð heillegt. Eins og sjá má virðast allmörg nokkuð hlý sumur þá hafa gengið yfir höfuðborgina. Leitnin er reiknuð - en auðvitað vafasöm.
Eins og á Akureyri nær 1939 toppsætinu, í þessu tilviki rétt ofan við 2003 og 1979 er kaldast sem fyrr. Hvað sem allri leitni líður þá sjáum við vonandi að glórulítið væri að byrja slíka reikninga á þessu kalda ári - en því miður virðast menn ekkert endilega hika við það.
Það skiptir svosem ekki stóru fyrir ritstjóra hungurdiska - hann er enn þeirrar skoðunar að framtíð sé ætíð óbundin af allri fortíðarleitni. Varla verður samt gengið framhjá þeirri staðreynd að síðustu 15 ár hafa saman verið hlýrri en við vitum áður dæmi um.
23.9.2017 | 00:53
Horfinn? (í bili)
Undanfarin þrjú ár rúm hefur svokallaður blár blettur á Norður-Atlantshafi fyrir sunnan Grænland og Íslands oft verið áberandi í umræðum um veður og veðurfar. Bletturinn sá er stórt svæði þar sem yfirborðssjávarhiti hefur verið neðan meðallags - og því (oftast) litaður blár á vikakortum.
Nú ber svo við að hann virðist horfinn - að vísu er sjávaryfirborð lítillega kaldara (miðað við meðallag) á slóðum blettsins heldur en umhverfis - þar sem hiti er langt ofan meðallagsins.
Kortið er úr greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Eins og sjá má er hiti á því nokkuð ofan meðallags víðast hvar - sums staðar mikið.
En - það er samt varla ástæða til að fagna svo mjög - alla vega ekki í bili. Sumarsólin hitar yfirborð sjávar mjög að sumarlagi en ekki svo langt niður - kaldi sjórinn sem norðvestanáttin bjó til veturna 2014 og 2015 er að líkindum ekki búinn að jafna sig. Hann liggur trúlega enn í leyni neðan yfirborðs. Óvíst er hvort umframvarmi sumarsins nægir til að halda hita ofan meðallags þegar að vinda herðir nú í haust og hlýr sumarsjórinn fer að marki að blandast við þann kalda.
Blái bletturinn gæti því hæglega birst aftur nokkuð skyndilega í haust - en við vitum það auðvitað ekki með vissu. Síðan er spurning hvernig veturinn fer með sjóinn - þegar kalt loft frá heimskautasvæðum Kanada fer að ryðjast út yfir hann úr vestri og norðvestri.
Síðari myndinni er nappað frá Noregi (sjá tengil á mynd).
Hún sýnir hitamælingar frá bresku hafrannsóknadufli sem staðsett er á milli Nýfundnalands og suðurodda Grænlands. Dufl sem þessi (argo) sökkva niður á um 2 km dýpi og gera mælingar, fljóta síðan upp aftur og senda gögnin frá sér.
Lóðrétti ásinn sýnir dýpi í kílómetrum en sá lárétti hitann í gráðum. Við sjáum að yfirborðshitinn er rúm 10 stig, en rétt undir yfirborði er hann aðeins um 3,5 stig. Vindur mun hræra upp í þessu efsta lagi og blanda við kaldari sjó neðar. Blöndunin ræðst líka af seltumagni. Í þessu tilviki er yfirborðið reyndar mun seltuminna heldur en það sem dýpra er. Það veldur því (líklega) að þegar vetrar mun blandsjórinn sem verður til með hjálp vinda ekki sökkva þótt hiti fari niður fyrir 3,5 stig - heldur hugsanlega kólna enn meira. -
En ekki skal ritstjóri hungurdiska neitt um framtíðina fullyrða til þess hefur hann ekki vit. En lesendur mega samt gjarnan velta fyrir sér þessari mynd.
21.9.2017 | 17:37
Haustjafndægur
Nú líður að jafndægrum á hausti. Ekki er óalgengt að telja að þá sé sumri lokið. Sumar er þá talið frá sumarsólstöðum til haustjafndægra, haustið frá þeim fram að vetrarsólstöðum, vetur þaðan til vorjafndægra og vorið síðan að sumarsólstöðum. Ekki óskynsamleg skipting.
Fæstir munu taka eftir því að með þessu móti verða sumar og vor samtals 7 dögum lengri en haust og vetur. Það eru rúmir 186 dagar frá vorjafndægrum til haustjafndægra, þá eru ekki nema tæplega 179 dagar eftir handa hausti og vetri.
Ástæða þessa er sú að jörð er lengra frá sól að vor- og sumarlagi heldur en að hausti og vetri og gengur því hægar - en snýst jafnhratt, fleiri dagar komast fyrir á þeim hluta leiðarinnar sem liggur fjær sólu.
Um sólnánd og sólfirð hefur verið fjallað á hungurdiskum áður - auk þess má benda á enn betri umfjöllun á stjörnufræðivefnum. Sólnánd og sólfirð (stundum skrifað sólfirrð) færast smám saman til í árinu og eru nú um hálfum mánuði á eftir sólstöðum - tíminn frá vetrarsólstöðum til sólnándardags lengist um 1 dag á tæpum 60 árum. - Þessar færslur valda lúmskum veðurfarsbreytingum.
Þegar fram líða stundir mun tíminn frá vorjafndægrum til haustjafndægra því styttast - úr 186 dögum í 179 - og svo auðvitað aftur og aftur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2017 | 21:06
Bleytutíð framundan (syðra)?
Það sem af er mánuði hefur úrkoma verið undir meðallagi síðustu tíu ára víðast hvar á landinu. Snæfellsnes virðist þó skilja sig nokkuð úr en þar rigndi mikið um helgina. Samanburður við lengra tímabil sýnir blandaðri mynd - því septembermánuðir kuldaskeiðsins voru talsvert þurrari heldur en algengast hefur verið á síðari árum.
Sé eitthvað að marka spár virðist nú eiga að blotna rækilega um landið sunnanvert og margfaldri meðalúrkomu er spáð næstu tíu daga. Vonandi kemur hún þó frekar í mörgum skömmtum heldur en í einu lagi.
Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting næstu tíu daga. Mikið lágþrýstisvæði fyrir suðvestan land, en hæð yfir Skandinavíu. Því er spáð að hér á landi verði sunnanátt ríkjandi með mikilli úrkomu. Litirnir sýna hlutfall úrkomunnar af meðallagi áranna 1981-2010. Hlutfallið er langhæst sunnanlands - allt upp í 13-föld meðalúrkoma, en meir en fimmföld á allstóru svæði. Norðanlands er hins vegar búist við því að úrkoma verði undir meðallagi.
Spár gera ráð fyrir því að margar myndarlegar lægðir heimsæki landið og nágrenni þess, allmikil hlýindi fylgi þeim flestum - en svalara loft ættað úr vestri skjóti sér inn á milli.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2017 | 00:01
Augað óttalega
Fellibyljir hrjá enn eyjar Karíbahafs. Ná nýjasti heitir María og lítur illa út. Nýjasta yfirlit fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami hefst á þessum orðum: Maria is developing the dreaded pinhole eye. - Augað óttalega - ginnungagap.
Rétt að líta á mynd sem kanadíska veðurstofan sýnir okkur þannig að lesendum sé ljóst hvernig auga af þessu tagi lítur út - og geta þá þekkt slíkt síðar.
María er neðarlega á myndinni. Augað - örsmátt hringlaga gat í skýjahulunni umhverfis bylinn sést greinilega - órækt merki þess að voði sé á ferð. Fellibyljamiðstöðin var einmitt að lýsa yfir 5. aflstigi. Eina huggun er sú að versta veðrið nær ekki yfir stórt svæði. Augað er aðeins um 20 km í þvermál og fárviðrishringurinn nær ekki nema 30 til 40 km út fyrir það. Flestar eyjar Karíbahafs eru litlar - miðað við hafflæmið umhverfis og líkur á að einstakur staður verði fyrir fárviðri eru því ekki miklar - en það er örugglega óþægilegt að sitja í brautinni og bíða.
Þegar ritstjóri hungurdiska settist niður til að skrifa pistilinn var miðjuþrýstingur Maríu talinn 950 hPa - er nú 929 hPa.
Fellibylurinn José er enn á lífi - heitir meira að segja fellibylur ennþá í viðvörunum og fellibyljamiðstöðin er ekki enn búin að afskrifa hann. En hann hefur fyrir löngu glatað auganu illa. Gæti svosem komið sér upp nýju - en það yrði þá annars eðlis en það sem María skartar nú - og orðið til í samvinnu sjávar og heiðhvolfs - hættulegt samband það.
16.9.2017 | 17:08
Aftur hlýtt eftir nokkra svala daga
Óvenjuhlýtt er hér á landi í dag (laugardag 16. september) - og var víða í gær líka. Nýtt landsdægurmet hefur þegar verið sett í dag, (í annað sinn í þessum mánuði). Ef einhver frekari tíðindi verða getum við þeirra í lok dags á fjasbókardeildinni.
Fyrrihluti septembermánaðar hefur almennt verið hlýr, meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana var 10,0 stig og 9,4 á Akureyri. Reykjavíkurhitinn er +1,9 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990 og +0,2 ofan meðallags síðustu tíu ára og situr í 7. sæti af 17 á aldarlistanum. Á 141-árslistanum er hitinn í Reykjavík í 26.sæti.
Úrkomu hefur verið óvenjumisskipt um landið - og óreglulega. Í Reykjavík er hún um 2/3 hlutar meðaltals, en í meðallagi nyrðra. Sólskinsstundir í Reykjavík eru vel umfram meðallag.
Í pistli á hungurdiskum fyrir 3 árum (16. september 2014) skilgreindi ritstjórinn eitthvað sem hann kallaði haustpunkta og síðan haustsummu. Hún var reiknuð þannig að daglegur landsmeðalhiti í byggð var dreginn frá tölunni 7,5 (haustpunktar dagsins - mínustölum sleppt), síðan var á hverjum degi reiknuð summa þessa mismunar (haustsumma). Haustið taldi hann komið þegar summan næði tölunni 30. Að meðaltali (1949 til 2014) gerðist það 16. september - en sveiflast mjög til frá ári til árs - og nokkuð frá einu tímabili til annars. Þetta er nokkuð ströng skilgreining þannig séð - ekki þarf marga mjög kalda daga til að haustið detti inn. Það hefur ekki gerst núna, summan stendur í aðeins 2 punktum.
En lítum á stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða síðdegis á morgun, sunnudag 17. september.
Hér má sjá óvenjuhlýja hæð austan við land. Hún stendur að vísu ekki lengi við og heldur kaldara loft sækir að úr vestri eftir helgina.
Fellibylurinn Jose er enn á sveimi í Þanghafinu eða þar í grennd og þreytir félaga vora í veðurspám vestra. Honum er ýmist spáð á land (varla þó af fellibylsstyrk) eða að hann falli inn í hakkavél vestanvindabeltisins. Reiknilíkön hafa ýmist verið að fletja hann þar út eða búa til úr leifum hans mjög öfluga lægð. Fjórði möguleikinn er að hann veslist bara upp þarna austur af og hverfi smám saman. Enn er ekki nokkur leið að segja hver þessara fjögurra helstu möguleika verður ofan á - eða þá einhver enn annar.
Viðbót í dagslok:
Laugardagur 16. september varð sérlega hlýr á landsvísu - fjórðihlýjasti dagur ársins. Landsdægurmet féll og auðvitað aragrúi dægurmeta á einstökum stöðvum. Septembermánaðarmet féllu á allmörgum stöðvum, þar á meðal á Hornbjargsvita (sjálfvirkar frá 1995 og áður mannaðar frá 1946), í Bjarnarey, á Fagradal, Breiðdalsheiði og Öxi, svo aðeins séu nefndar stöðvar þar sem athugað hefur verið lengur en í 10 ár. Ekki hefur heldur mælst meiri hiti í september á sjálfvirkri stöð á Seyðisfirði.
Á fáeinum stöðvum varð hámarkshitinn jafnhár eða hærri en nokkru sinni á árinu [Seyðisfirði, Raufarhöfn, Fonti, Brúðardal, Þórdalsheiði, Kollaleiru, Eskifirði, Dalatanga Skjaldþingsstöðum, Fagradal, Oddsskarði, Sandvíkurheiði, Öxi og Breiðdalsheiði].
Vísindi og fræði | Breytt 17.9.2017 kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2017 | 01:03
Í vari fyrir vestanvindabeltinu
Nú eru þrír fellibyljir á Atlantshafi. Veðurfræðingar eru stöðugt spurðir að því hvort slíkir geti komist til Íslands. Einfalda svarið er einfalt: Fellibyljir sem slíkir komast ekki til Íslands - þeir eru hitabeltisfyrirbrigði sem ekki komast ósködduð í gegnum vestanvindabeltið. Hið flóknara: Þó kemur alloft fyrir að hlýindin og rakinn sem fellibyljum fylgja geta orðið að fóðri fyrir snarpar lægðir.
Þannig lægðir hafa alloft komist til Íslands og stöku sinnum valdið foktjóni - jafnvel miklu. Sömuleiðis hefur einnig komið fyrir að miklar rigningar hafa fylgt leifum fellibylja hér við land, jafnvel þó vindtjóns hafi ekki gætt.
Fyrir allmörgum árum (2001) birtist grein í tímaritinu Journal of Climate þar sem höfundar töldu fjölda þeirra fellibylja sem umbreytast í kerfi á norðurslóðum - þeirrar gerðar sem ritstjóri hungurdiska kallar gjarnan riðalægðir. Sömuleiðis veltu þeir vöngum yfir þeim skilyrðum sem ýttu undir slíka ummyndun - og á hvaða tíma árs líkur væru mestar á henni.
Niðurstöður voru í grófum dráttum þessar (raðtölur ekki þeirra):
1. Um 46% fellibylja/hitabeltisstorma Atlantshafs ummyndast í riðalægðir. Líkindi á því að það gerist eru meiri seint á fellibyljatímanum (október) heldur en snemma (júlí).
2. Ummyndun á sér oftast stað milli 30°N og 40°N snemma og seint á fellibyljatímanum, en á 40°N til 50°N seint í ágúst og í september. Samkeppni tveggja orsakaþátta veldur þessu. Annars vegar er síðsumarsupphitun sjávar, myndunar- og viðhaldssvæði fellibylja stækkar svo lengi sem sjávarhiti hækkar. Í september fer svæðið aftur að dragast saman. Riðalægðamyndun breiðist hins vegar til suðurs þegar kemur fram í september og nær þá um tíma einnig til þess svæðis þar sem fellibyljir geta myndast (áður en það hörfar aftur til suðurs).
3. Þegar fellibyljir byrja ummyndun getur styrkur þeirra breyst snögglega, ýmist þannig að lægðin grynnist eða dýpkar. Rúmur helmingur þeirra fellibylja sem ná að ummyndast í djúpar lægðir á uppruna sinn í sjálfu hitabeltinu - sunnan hvarfbaugs, gjarnan nærri Grænhöfðaeyjum eða á ámóta breiddarstigi. [Hreinræktaðir fellibyljir eru líklegri en bastarðar].
4. Um 50% af styrkbreytingu má skýra með þeim tíma sem tekur lægðina að komast á milli fellibylja- og riðasvæðanna. Bæði grunnar og djúpar hitabeltislægðir geta dýpkað eftir ummyndun, en þær grunnu (miðjuþrýstingur 990 hPa eða meiri) þurfa þá að komast í riða áður en 20 klst eru liðnar frá því að þær yfirgefa fellibyljasvæðið.
Þetta hljómar nokkuð tæknilega - en er skýrt betur út í nokkrum pistlum sem ritstjóri hungurdiska skrifaði fyrir allmörgum árum og finna má á vef Veðurstofunnar undir fyrirsögninni fellibyljir (1-7).
En lítum á stöðu dagsins (föstudags 8. september).
Kortið er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á föstudag 8. september. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum heimskautaröstina hringa sig um norðurhvel - svæði þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar og þykktarbratti er jafnframt mikill.
Mikið lægðardrag liggur til suðurs eftir Norður-Ameríku austanverðri og nær nærri því suður á fellibyljaslóðir - en ekki alveg. Söðullinn milli vestanáttarinnar stríðu og hægrar austanáttar - og svo norðan- og sunnanátta (vestan og austan við) situr á kortinu ekki langt norður af fellibylnum Irmu - ekkert mjög miklu munar að lægðardragið norðan við kræki í bylinn og bjargi Flórída - en spár segja þó að það muni ekki gerast. (Að vísu að lokum - en um seinan, langt inni á meginlandinu).
Fellibylurinn smái, Katia, er alveg í vari, og Jose berst til vesturs með hægri austanáttinni í háloftunum. En mjög veik norðvestanátt er ekki langt fyrir norðaustan hann, í kringum veika lægð sem situr talsvert fyrir sunnan Asóreyjar. Austanáttin sem ber Jose er því e.t.v. ekki varanleg. Spár vita ekki enn hvert leiðir hans liggja í framtíðinni. Hann er enn að dóla sér á spákorti sem gildir eftir 10 daga - án þess að hafa valið Bandaríkin eða hættulegt riðasvæðið norðurundan. Hann gæti þess vegna dottið út í röstina um síðir og borist hingað eða til Evrópu - eða beðið bana yfir svölum sjó áður en þangað er komið.
Það er ekki hægt að yfirgefa þetta kort án þess að benda á hlýja hrygginn yfir Norður-Kanada. Þar nær 5700 metra jafnþykktarlínan norður fyrir 60. breiddargráðu - hlýtur að vera óvenjulegt í september. Enda fréttist þar af meira en 30 stiga hita í dag. Hins vegar er kalt á eyjunum - gaddfrost.
Greinin sem vitnað var til:
Hart, R.E og J. L. Evans, 2001: A climatology of the extratropical transition of Atlantic tropical cyclones. J. Climate, 14, 546564.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 123
- Sl. sólarhring: 146
- Sl. viku: 958
- Frá upphafi: 2420773
Annað
- Innlit í dag: 114
- Innlit sl. viku: 846
- Gestir í dag: 109
- IP-tölur í dag: 108
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010