Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017
31.8.2017 | 22:18
Alþjóðasumarið - landsmeðalhiti
Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur mánuðina júní til ágúst til sumarsins - Veðurstofan bætir september hins vegar við. Við skulum nú athuga hvernig nýliðið alþjóðasumar stóð sig hér á landi hvað hita varðar.
Lóðrétti ásinn sýnir hita, en sá lárétti ár frá 1874 til 2017. Nýliðið sumar er lengst til hægri á myndinni. Það liggur vel ofan meðallags tímabilsins alls, í 42. sæti af 144, en á þessari öld hafa 11 verið hlýrri - enda sérlega hlý.
Við tökum leitni tímabilsins alls svona hóflega alvarlega, en nefnum þó að nýliðið alþjóðasumar er alveg á leitnilínunni - á væntingareit (sé eitthvað svoleiðis til).
Í leiðinni lítum við á landsmeðalhita fyrstu 8 mánuði ársins.
Tímabilið er mjög hlýtt í ár, hefur aðeins 7 sinnum verið jafnhlýtt eða hlýrra. Leitnin reiknast 1,2 stig á öld.
Svo virðist sem meðalhiti júní til ágúst 2017 endi í 10,8 stigum í Reykjavík. Það er í kringum 30. sæti á 147-áralistanum, en í 12 sæti (af 17) á öldinni. Telst eindregið hlýtt að þriðjungatali, en á mörkum þess að vera hlýtt og mjög hlýtt sé fimmtungaflokkun beitt.
Á Akureyri verður meðalhiti þessara mánaða nærri 10,5 stigum og í 40. sæti á 137-áralista þess staðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2017 | 01:55
Hlýr dagur eystra?
Nú virðist stefna í hlýjan dag víða eystra. Þykkt er spáð meiri en 5600 metrum yfir landshlutanum á föstudag. Þessi hlýindi komu að Suður-Grænlandi í dag og lausafregnir herma að hiti hafi þá farið í 21,0 stig í Kristjánssundi við Hvarf - þeim útforblásna stað.
Þessi spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl. 18 síðdegis á föstudag. Sömuleiðis er spáð nokkuð ákveðinni vestanátt sem gæti náð hlýindunum í háloftunum niður. Þetta þýðir að hiti gæti víða farið í meir en 20 stig þar um slóðir.
Þrátt fyrir heiðarleg hlýindi á köflum í sumar eru þó fáeinar stöðvar sem sitja eftir. Þar á meðal er Dalatangi - þar sem hæsti hiti ársins til þessa er ekki nema 16,0 stig (mannaða stöðin) og 16,6 á þeirri sjálfvirku. Kambanes á sömu tölu sem hæsta hita ársins til þessa.
Seley kemur síður á óvart með 15,1 stig. Fáskrúðsfjörður og Kollaleira í Reyðarfirði hafa ekki enn náð 20 stigum á þessu ári, Fáskrúðsfjörður 18,7 og Kollaleira 19,8 stigum. Allgóður möguleiki ætti að vera á því á föstudaginn að 20 stig mælist á þessum stöðvum. Hæsti hiti ársins til þessa á Höfn í Hornafirði er 17,6 stig. Smávon er um hærri hita þar á föstudag - en heldur minni þó en á Austfjarðastöðvunum.
Brúarjökull hefur ekki enn náð 10 stigum. Þar er hæsti hiti ársins til þessa aðeins 9,2 stig sem mældust 15. febrúar.
30.8.2017 | 14:37
Svar við spurningu um úrkomumagn
Ritstjóri hungurdiska fékk spurningu um mestu úrkomu í Reykjavík - og samanburð við atburðinn í Texas. Satt best að segja hefur hann varla vit til að svara henni svo vel sé - rétt að spyrja frekar sérfræðinga í veitumálum.
Rétt þó að í upphafi komi fram að engar líkur eru á því að 1000 mm úrkoma falli í Reykjavík á fjórum dögum. Mikil vandræði geta þó skapast við miklu minna magn en það.
Ritstjóri hungurdiska hefur ekki fengið staðfestar fréttir um úrkomumet í Texas, fréttir eru sem vonlegt er heldur grautarlegar. Svo sýnist þó nokkuð áreiðanlegt að 1000 til 1400 mm hafi fallið þar á 3 til 4 dögum þar sem mest var. Um útbreiðslu þessara aftaka veit hann ekki eða hvort mikill munur var á úrkomunni þar innan þess svæðis sem hún var hvað mest. Það er vitað að 500 til 1000 mm hafa í fáein skipti áður mælst á þessu svæði og þá á einum sólarhring - hvar sólarhringsúrkoman var mest að þessu sinni veit ég ekki - og ekki heldur hver hún var. Fréttir fjalla aðallega um heildarúrkomu atburðarins (storm total). Tjónið nú er að einhverju leyti háð því að stórborg var inni á því svæði þar sem úrkoman var hvað mest.
Tjón er alltaf samsett úr tveimur meginþáttum, því sem nefnt hefur verið tjónmætti (mælir afl hins náttúrulega atburðar) og tjónnæmi eða húf (mælir það sem fyrir tjóninu verður). Verði úrkomu- eða vindatburður sem þessi eingöngu yfir sjó eða eyðibyggðum er tjónið lítið jafnvel þótt tjónmætti atburðarins sé sá sami. Húfið er svo samsett úr allmörgum þáttum sem við rekjum ekki hér og nú (gætum gert það síðar).
Svona áköf úrkoma mælist aldrei hér á landi. Við vitum um 1000 mm á einum mánuði og hugsanlega má finna dæmi um 400 - 500 mm á fjórum dögum. Sólarhringsmetið á Íslandi er 293 mm.
Í Reykjavík hefur úrkoma nokkrum sinnum mælst meiri en 50 mm á sólarhring, (metið er 56,7 mm) en vitað er um meir en 200 mm á sólarhring á Bláfjallasvæðinu og þar austur af. Setja má upp tilbúin dæmi um veðurstöðu þar sem úrkoma þar í fjöllunum yrði um 500 mm á fjórum sólarhringum (tæplega helmingur þess sem nú mældist í Texas).
Mesta fjögurra daga úrkoma sem mælst hefur í Reykjavík eru 112,1 mm sem féll niður dagana 28. til 31. desember 1903. Samkvæmt blaðafréttum lak þá víða í hús, ný sem gömul.
Frétt sem birtist í Ísafold 2. janúar 1904 er bæði skemmtileg og umhugsunarverð (m.a. í ljósi nýlegrar lekaumræðu).
Úrkoma var svo mikil 28. f. m., að eigi hefir endranær meiri verið á jafn stuttum tíma, sem sé 54,5 millim. og þykir þá óþurkasamt, er svo mikið rignir sumarlangt. Fylgdi þessari úrkomu landssynningsrok og var því vatnið heldur áleitið á hýbýli manna, enda kom víða fram leki og það sumstaðar, er menn sízt höfðu ætlað, sem sé á nyjum húsum. Er hrapallegt að svo illa skuli takast til, eigi sízt er í hlut eiga þeir menn, er vilja og geta haft alt sem vandaðast og ekkert vilja til spara. Svo langt eiga þó byggingameistarar höfuðstaðarins að vera komnir, að þeir geti séð við lekanum þegar þeir mega sjálfir öllu ráða og fyrir þá er lagt, að hafa húsin sem vönduðust og bezt, hvað sem það kostar.
Skyndileysingar á snjó geta bætt við áhrif mikillar úrkomu þannig að meira flæðir en úrkomumagn eitt gefur til kynna.
Engar líkur eru á 1000 mm á fjórum dögum í Reykjavík, en félli slík úrkoma samt þar myndi mikið vandræðaástand skapast og stórkostlegt tjón verða. Fráveitur taka ekki við nema broti af slíkum vatnselg. Brunnar fylltust allir. Það þýðir að flestir kjallarar bæjarins myndu fyllast af vatni - ekki aðeins þeir sem lágt standa. Á sléttari svæðum myndi vatn standa uppi langtímum saman, götur yrðu ófærar og víða græfi úr þar sem straumur væri á vatninu. Víða myndi verða alldjúpt vatn á neðstu hæðum húsa á slíkum svæðum. Gríðarlegur fjöldi bifreiða myndi skemmast eða eyðileggjast.
Vatn myndi streyma inn af svölum fjölmargra húsa - þar sem slíks gætir venjulega ekki og sömuleiðis myndi fjöldi þaka leka - m.a. fjöldi sem annars eru talin þétt.
Væri vindur hvass magnaðist vatnstjónið stórlega. Hætt er við að dælubúnaður alls konar myndi skaddast eða stöðvast - jafnvel við Gvendarbrunna þannig að vatnsveita væri í voða. Sömuleiðis er hætt við slitum á lögnum, raflagna og fjarskiptatengingum þar sem vatnið leitaði framrásar.
Óbeint tjón, vegna röskunar á innviðum, yrði gríðarlegt og langan tíma tæki að koma hlutum í samt lag.
30.8.2017 | 00:51
Í skjóli Esjunnar (leit)
Fyrirsögnin er dálítið afvegaleiðandi - en það var nú samt hún sem bjó til þennan pistil. Það er nokkuð algengt - eða svo segir tilfinningin - að alloft sé besta veður í Reykjavík þegar næðingur er annars staðar á landinu. Kenna menn það gjarnan skjólinu frá Esjunni, sem er vafalítið rétt. Aftur á móti er ekki endilega auðvelt að finna þessa daga og þar með greina hvað er á seyði. Beita má margskonar aðferðum við leitina.
Það sem hér fer á eftir er varla við skap nema hörðustu veðurnörda - rétt að geta þess áður en aðrir fara að eyða tíma í lesturinn.
Ritstjóri hungurdiska er fremur latur að eðlisfari og reynir þess vegna að leita uppi auðveldar aðferðir sem ekki krefjast mikillar vinnu af hans hálfu. Gallinn er bara sá að slíkt skilar ekki alltaf árangri.
En hér er ein tilraun. Hún fann hins vegar ekki nema suma af þeim dögum sem ritstjórinn geymir í minni sínu sem dæmigerða skjóldaga - þess vegna verður að hann leita betur síðar. Þessi leit skilaði hins vegar einhverjum árangri og við skulum líta á hann (eða eitthvað af honum).
Hér er reiknað út hversu miklu munar á sólarhringsmeðalhita Reykjavíkur og landsmeðalhita í byggð sama dag og búnir til listar yfir mun og daga.
Lítum fyrst á veðurkort - dæmigerðan Esjuskjólsdag.
Kortið sýnir veðrið á hádegi 16. maí 1988 (allir löngu búnir að gleyma honum). Þá var hiti tæplega 15 stig í Reykjavík, en ekki nema 8 uppi í Borgarfirði og yfirleitt var skítakuldi um mestallt land - og rétt ofan frostmarks við norðausturströndina. Það munaði tæplega 7 stigum á Reykjavíkurhita og landsmeðalhita, ekki oft sem munurinn hefur orðið jafnmikill eða meiri. Áttin er norðaustlæg.
Annar skjóldagur var með öðrum hætti.
Þetta var um hávetur, 6. janúar 2001. Þá var tæplega -8 stiga frost í Reykjavík á hádegi (og reyndar tæp -15 stig uppi í Borgarfirði. En talsvert hlýrra var víðast hvar á Norðaustur- og Austurlandi - frostlaust á Raufarhöfn, nánast frostlaust á Vestfjörðum og hiti tæp 4 stig í Hornafirði.
Þetta er líka skjóldagur, en áhrifin eru á hinn veginn hvað hitann varðar. Þennan dag var meir en 5 stigum kaldara í Reykjavík en á landsvísu.
En það er þó ekki alltaf skjólið sem veldur hitamun af þessu tagi. Kortið að neðan sýnir öðruvísi dæmi.
Þennan dag muna e.t.v. einhverjir, 30. apríl 2011. Þá snjóaði mikið í Reykjavík og hiti á hádegi ekki nema 0,6 stig, en austur á Vopnafirði var hitinn 13,7 stig. Hægfara kuldaskil voru yfir landinu - og Esjan kom ekki við sögu hitamunarins.
Þá er að telja.
Hér má sjá hvernig hitamunur höfuðbogar og landsins alls dreifist. Lárétti ásinn sýnir hitamun - þó ber að athuga að hér á núll við bilið frá 0,0 upp í 0,9 stig, -1 á því við bilið -0,1 til -1,0 stig (og svo framvegis). Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallslegan fjölda. Í leiðinni var athugað hvort munur væri á dreifingunni eftir meðalvindhraða á landinu. Blái ferillinn sýnir þau tilvik þegar meðalvindhraðinn var minni en 5 m/s, en sá rauði þegar hann var meiri.
Langoftast er hitamunurinn lítill, í hægum vindi er hann þó oftar 1 til 2 stig heldur en 0 til 1, en í hvössum er algengast að hann sé 0 til 1 stig. Við sjáum að það er ekki oft sem munurinn er meiri en 3 stig - og sárasjaldan er meir en 2 stigum kaldara í Reykjavík heldur en að meðaltali á landinu öllu.
Næst einbeitum við okkur að þeim dögum þegar munurinn er 3 stig eða meira, Reykjavík hlýrri en landið í heild.
Hér má sjá hvernig tilvikin dreifast á vindáttir. Á árabilinu 1949 til 2016 var hitamunurinn meiri en 3 stig í 1291 tilviki (um 19 sinnum á ári að meðaltali) væri vindur minni en 5 m/s, en í 780 tilvikum væri vindur minni en 5 m/s (um 11 sinnum á ári). Við sjáum að sé vindur meiri en 5 m/s er það einkum norðaustanáttin sem skilar Reykjavík sérstökum hitaávinningi umfram aðra landshluta.
Við skulum líka líta í hinn veginn á hitakvarðanum, teljum tilvik þegar 2 stigum (eða meira) er kaldara í Reykjavík en á landsvísu.
Þessi tilvik eru miklu færri en hin (ekki nema 155 á 68 árum, ekki greint eftir vindhraða). Hér sjáum við að Reykjavík er helst kaldari en aðrir landshlutar í norðaustanátt (samanber kortið hér að ofan) - Esjan kemur vafalítið við sögu - býr til skjól og bjart veður að vetrarlagi - og svo í suðvestanátt - hinn dæmigerði suðvestansuddi að sumarlagi þegar hiti fer vart yfir 10 stig í Reykjavík en hlýindi ríkja norðaustanlands. Esjan kemur þá ekki við sögu.
Að lokum teljum við daga þegar áttin er af norðri eða norðaustri, vindur á landinu meiri en 5 m/s að meðaltali og Reykjavík er meir en 3 stigum hlýrri en aðrir landshlutar.
Mikill munur er á tíðni svona daga frá ári til árs. Enginn slíkur kom t.d. 1984, en flestir voru þeir 1968 - og reyndar skera hafísárin 1965 til 1971 sig nokkuð úr. Svo virðist sem dögum af þessu tagi fari fjölgandi - en það er ekkert að marka það.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2017 | 00:43
Á Hólmi
Á árunum 1961 til 1983 var starfrækt veðurstöð á Hólmi fyrir ofan Reykjavík. Byrjað var að mæla úrkomu þar í júní 1961 en tveimur árum síðar var hitamælingum bætt við. Þær héldu síðan áfram í 20 ár, þar til í júní 1983, og var úrkoma síðan mæld út árið en eftir það lögðust mælingar af.
Stöðin á Hólmi var í 87 metra hæð yfir sjávarmáli, 35 metrum hærra en stöðin á Veðurstofutúni og auðvitað lengra frá sjó. Nokkuð sléttlendi er í nágrenni stöðvarinnar og þar er tiltölulega frostamikið í hægum vindi og björtu veðri.
Hitamælaskýli og úrkomumælir á Hólmi 7. júlí 1981. Myndin er eign Veðurstofu Íslands. Hér sést sléttan við Hólm mjög vel - eftir henni rennur lygn kuldaá í björtu og hægu veðri ofan úr heiðalöndunum í kring.
Strax eftir að úrkomumælingar hófust kom í ljós að úrkoma á Hólmi er mun meiri en niðri í bænum (þá var athugað á Reykjavíkurflugvelli) og þau ár sem mælt var þar var ársmeðalúrkoman 1215 mm, en ekki nema 791 mm á Veðurstofunni. Munar ríflega 50 prósentum.
Munur á ársmeðalhita stöðvanna á tímabilinu reyndist vera 0,9 stig, en munur á meðalhámarkshita þeirra var 0,5 stig, en munur á meðallágmarkshita hins vegar 1,8 stig.
Myndin sýnir hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita hvers mánaðar á Hólmi og í Reykjavík á árunum 1964 til 1982. Bláu súlurnar sýna Reykjavík, en þær brúnu Hólm. Hæsta hámarkið er hærra á Hólmi í mánuðunum maí til september, en annars lítið eitt lægra. Lágmarkið er hins vegar lægra á Hólmi en í Reykjavík í öllum mánuðum. Þar mældist meira að segja frost í júlí. Einu sinni á því tímabili sem myndin sýnir(-0,4 stig þ.28. 1964), en varð reyndar mest í síðasta júlímánuðinum, 1983, en þá fór hiti þar niður í -1,7 stig aðfaranótt þess 18. Svo mældist þar líka frost í júlí fyrsta sumar mælinganna (-0,7 stig, þann 25. 1963, líka utan myndar), Ekkert frost mældist í Reykjavík í þessi skipti - og hefur reyndar aldrei mælst þar í júlí (kemur síðar).
Það vakti töluverða athygli á sínum tíma þegar frostið í Reykjavík fór í -19,7 stig þann 30. janúar 1971. Hafði ekki mælst svo mikið þar síðan 1918 - og aldrei síðan. Þá sömu nótt fór frostið á Hólmi niður í -25,7 stig. Það er ekki oft sem svo mikið frost hefur mælst á Suðvesturlandi. Fáein dæmi frá Þingvöllum, reyndar - og svo frá frostavetrum fyrri tíðar. Suðvesturlandsmetið líklega sett á Hrepphólum í janúar 1881, -29,8 stig.
Myndin sýnir meðalfrostdagafjölda hvers mánaðar í Reykjavík (gráar súlur) og á Hólmi (brúnar) 1964 til 1982. Oftar frystir á Hólmi í öllum mánuðum. Tíðnimunurinn er hlutfallslega mestur að sumarlagi. Frostnætur voru að meðaltali 9 í maí á Hólmi á viðmiðunartímabilinu, en ekki nema 4 í Reykjavík, svipaður munur er í september.
En svo kemur að óþægilegra máli.
Myndin sýnir mun á mánaðarmeðalhita í Reykjavík og á Hólmi 1963 til 1983. Lágmörkin í ferlinum eru að sumarlagi, en hámörkin að vetri. Árstíðasveifla regluleg. En við sjáum þó greinilega að munurinn er meiri fyrri hluta tímabilsins heldur en þann síðari. Þrepið er sérlega áberandi að sumarlagi. Hvað gerðist 1973 til 1974?
Jú, veðurstöðin í Reykjavík var flutt frá flugvellinum upp á Veðurstofutún. Við það kólnaði í Reykjavík miðað við Hólm og munur á milli stöðvanna minnkaði. Þetta þýðir auðvitað að til að ná samræmi í Reykjavíkurröðinni yfir flutninginn þarf að lækka tölur þar fyrir 1974 (eða hækka þær sem á eftir koma). Það hefur reyndar verið gert - en e.t.v. ekki nægilega mikið eins og vel má sjá á næstu mynd.
Hér hefur verið búin til 12-mánaða keðja hitamunar stöðvanna. Þrepið 1973 er afar greinilegt. Að baki rauða ferlinum er hitinn í Reykjavík eins og hann var birtur í Veðráttunni á sínum tíma - en sá blái sýnir samanburð stöðvanna sé sú hitaröð sem nú er í umferð er notuð. Jú, þessi breyting minnkar muninn, en varla þó nægilega mikið.
Nú væri auðvitað freistandi að ganga alla leið og einfaldlega lækka eldri flugvallartölur um þau 0,2 stig sem þarf til viðbótar til að munurinn verði ámóta allt í gegn. En hér er rétt að ganga hægt og varlega um. Við vitum ekki um áreiðanleika Hólmsraðarinnar - við höfum einfaldlega trúað henni. Rétt er áður en lengra er haldið að kanna hann frekar - og auðvitað bera Reykjavíkurröðina saman við fleiri stöðvar í nágrenninu. Skyldi sá samanburður skila ámóta þrepi - eða gerðist eitthvað á Hólmi líka? Svo var líka töluverður munur á veðurfari 7. áratugnum og þeim 8. Skyldi sá munur koma við sögu?
En takið eftir því að það er ekkert verið að ræða um að breyta mælingum á Reykjavíkurflugvelli - aðeins er verið að samræma langtímaröð Reykjavíkurstöðvarinnar. Þetta er tvennt ólíkt. Það er munur á hita á flugvellinum og á Veðurstofutúni - líka nú.
En ákveðnar hættur fylgja alltaf samræmingu - það er sérlega varasamt að fara síðan að nota það sem samræmt hefur verið til frekari samræmingar - stundum verður að gera það - en hættur leynast þar á hverju horni svo úr getur orðið ein allsherjar samræmingarpest.
Það var Karl V.E. Norðdahl sem athugaði á Hólmi, Salbjörg Norðdahl athugaði allra síðustu mánuðina.
Í viðhenginu má sjá meðalhitamun Reykjavíkur og Hólms í einstökum mánuðum ársins á tímabilunum tveimur (1963 til 1972 og 1974 til 1983).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2017 | 00:43
Höfuðdagurinn
Höfuðdagurinn (kenndur við höfuð Jóhannesar skírara) er á þriðjudaginn. Um þetta leyti árs lýkur sumri á norðurslóðum og þáttaskil verða oft í veðri. Enn eru þó rúmar þrjár vikur til jafndægra á hausti og nærri því tveir mánuðir eftir af íslenska sumrinu, tvímánuður hófst á þriðjudaginn var (þ.22).
Varla sér þó enn til vetrar á veðurkortunum.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina kl. 18 á höfuðdaginn. Þarna má sjá nokkuð öflugan kuldapoll úti af norðausturhorni Grænlands - kannski vex veturinn út frá honum?
Hér á landi er gert ráð fyrir skammvinnri en heiðarlegri norðanátt á þriðjudag. Eins og sjá má er hún ekki köld, rétt að ljósgræni þykktarliturinn nái að þekja landið - hann tilheyrir frekar sumri en hausti.
Hæðarhryggur er í vestri - en hann á að berast hratt til austurs og kerfið sem er þar fyrir vestan á að ná undirtökum strax á fimmtudag. Lítið samkomulag er hjá reiknimiðstöðvum um nákvæma aðkomu þess og örlög. Í þessari spárunu reiknimiðstöðvarinnar er gert ráð fyrir miklu hlýindaskoti austanlands - en við látum vera að velta okkur upp úr þeim hugsanlega möguleika að sinni.
Örin lengst til vinstri bendir á leifar fellibylsins Harvey yfir Texas. Þær hreyfast lítið því hæðarhryggurinn öflugi þar fyrir vestan ver hann að mestu fyrir atgangi vestanvindabeltisins.
Undan ströndum Virginíu má sjá hlýja bylgju - hún er að valda ákveðnu hugarangri vestra. Hugsanlega verður þar til nýr hitabeltisstormur (Irma) - jafnvel strax í nótt eða á mánudag. Að vísu myndi vestanvindabeltið grípa hann nánast samstundis, keyra á haf út og umturna yfir í hefðbundna lægð, en það er samt óþægilegt að hafa vaxandi kerfi sem þetta í landsteinum - ekki síst eftir að hafa horft upp á skyndivöxt Harvey.
26.8.2017 | 01:02
Dægursveifla skýjafars
Skýjafar ræðst af lóðréttum hreyfingum lofts og rakastigi þess. Uppstreymi kælir loft og myndar ský (sé raki nægur), en niðurstreymi hitar loft og eyðir skýjum. Kæling lofts eða rakaíbæting eykur rakastig þess. Á sumrin er talsverð dægursveifla í hvoru tveggja.
Á daginn er uppstreymi yfir landi vegna þess að land hitnar meira en sjór. Þá er tilhneiging til þess að ský myndist yfir landinu, en bjart veður sé yfir sjónum. Sólarvarminn veldur einnig því að raki gufar upp á daginn bæði yfir sjó og landi, þannig að rakamagn í lofti vex þegar á daginn líður. Í meginatriðum má segja að tvenns konar ský myndist yfir landi á daginn, eftir því hvort loft er óstöðugt eða stöðugt.
Sé loft óstöðugt myndast bólstrar og jafnvel skúraklakkar. Uppstreymi er þá óhindrað upp í nokkur þúsund metra hæð. Loftið kólnar í uppstreyminu og raki þess þéttist og myndar ský og jafnvel skúrir nái hitinn í skýinu niður fyrir frostmark. Þá dregur fyrir sól.
Sé loft aðallega stöðugt verða til fláka- eða netjuský, nokkuð samfelldar skýjabreiður, sem einkum myndast þegar uppstreymi rekst upp undir hlýrri og stöðugri loftlög ofan við. Hér á landi hagar mjög oft þannig til að tiltölulega hlýrra loft liggur yfir kaldara. Þá eru oftast takmörk fyrir því hversu hátt uppstreymi getur náð og fer síðan eftir raka hvort ský myndast eða ekki. Skýjabreiður af þessu tagi myndast oft yfir landinu. Þegar líður á daginn leita þær til hliðanna og breiðast í átt til sjávar án þess að valda úrkomu. Stundum er neðsta lagið ekki nægilega rakt til að (fláka-) ský geti myndast í því. Þó bólgnar loftið út við að hitna á daginn og getur þá lyft næsta raka lagi fyrir ofan upp á við, þannig að þar myndist skýjabreiða (netjuský eða jafnvel klósigar). Nokkur skýjalög geta myndast á þennan veg, mishátt á lofti.
Nokkuð er algengt undir kvöld á sólardögum að ský myndist efst í því lofti sem streymdi utan af hafi sem hafgola síðdegis. Þetta loft er að jafnaði mjög rakt og þegar það kólnar eftir að sól er hætt að verma það, þéttist rakinn og ský myndast. Í Reykjavík byrja þannig ský oftast að myndast í Esjuhlíðum, þá sem mjótt band, en fyrr en varir er komin nokkuð samfelld þokuskýjabreiða yfir allt loftið.
Dægursveifla af þessum toga getur endurtekið sig tilbrigðalítið dag eftir dag á sumrin. Oft má þó merkja hægfara þróun frá stöðugu lofti yfir í óstöðugt eða öfugt. Algengt er að sú þróun taki 3 til 6 daga svo lengi sem eiginleg lægða- og skilakerfi fara ekki hjá og rjúfa leikinn.
Þróun frá stöðugu yfir í óstöðugt gerist oft þannig að fyrsta daginn er mjög hlýtt loft yfir landinu, einu skýin eru þá há netjuský eða klósigar sem verða til þegar loft í neðri lögum bólgnar út og lyftir þeim efri. Síðdegis kemur hafgola með ný hitahvörf og við þau myndast þokuskýjabreiða fyrstu nóttina. Þokuskýjabreiðan rofnar síðan á öðrum degi, en rakinn helst yfir landinu. Hitahvörfin hafa nú tilhneigingu til þess að hækka lítillega frá einum degi til þess næsta þegar blandaða lagið neðan þeirra étur sig smám saman upp á við. Þá hækkar þokuskýjalagið og breytist í síðan flákaský og breytir þá líka um eðli. Flákaskýin oft samfelld yfir hádaginn, en leysast upp á nóttunni öfugt við þokuskýjabreiðuna.
Þegar neðra borð hitahvarfanna hefur kólnað niður fyrir frostmark fara ískristallar að myndast í skýjabreiðunni og hlutar hennar breytast í mjög lágreista og bælda skúraklakka sem erfitt er að greina frá meginflákanum. Klakkarnir skila fáeinum dropum, en óstöðugleikinn í þeim hjálpar til að brjóta hitahvörfin sem nú eru orðin margra daga gömul. Þegar liðnir eru fjórir til fimm dagar fara að falla stórar dembur og skúraklakkarnir eru þá orðnir bústnir og þriflegir.
Þetta er auðvitað einföldun og oftast er það hæg norðanátt sem flýtir fyrir þykknun lagsins undir hitahvörfunum.
Það þarf nokkra þolinmæði og athygli til að átta sig á lóðréttri lagskiptingu og þróun hennar frá degi til dags. Það er heldur ekki oft sem fullur friður er dögum saman fyrir aðvífandi lægðagangi sem öllu blæs veg allrar veraldar. En þeim sem nenna er um síðir launað með skýrari sjón.
Myndin með pistlinum sýnir þokuskýjaband í myndun við Brekkufjall í Borgarfirði júlínótt eina sumarið 1975. Ofar er flákaskýjabreiða dagsins að róast.
23.8.2017 | 21:47
Dögg
Lítum á dögg og daggarmyndun í tilefni þess að sumri tekur að halla. Rifjum fyrst upp hvað daggarmark er. Einnig er minnst á hrím.
Daggarmark er sá hiti sem loft hefur þegar það hefur verið kælt niður til þéttingar (við óbreyttan þrýsting). Eina leiðin til að breyta daggarmarki lofts (án þrýstibreytinga) er með rakaíbætingu eða rakabrottnámi. Við getum bæði flutt loft til, kælt það eða hitað án þess að daggarmarkið breytist. Ef breyting verður á daggarmarki þýðir það að annað hvort hefur vatnsgufa bæst í loftið (daggarmarkið hækkar), vatnsgufa þést úr því (daggarmarkið lækkar) eða þá að nýtt loft annars staðar að er komið til sögunnar.
Svo kemur að dögginni:
Ef loft kólnar niður að daggarmarki þéttist vatnsgufan næst jörðu sem dögg. Mismunandi yfirborð kólnar mismikið, það fer eftir lögun (áferð) þess og því hversu mikilli varmarýmd það hefur aðgang að. Jarðvegsyfirborð kólnar að öðru jöfnu minna en efsti hluti gróðurs vegna þess að varmaleiðni frá jarðvegi rétt undir yfirborðinu er nægileg til að hita verði haldið lengur uppi, en gróður er aftur á móti að mestu einangraður frá jörð af lofti sem umhverfis hann er. Á móti kemur að gróður verndar síðan jörðina og neðstu gróðurlög með því að taka á sig megnið af (geislunar-) kælingunni. Hiti við jörð (undir gróðrinum) er þannig stundum nokkrum stigum hærri en við yfirborð gróðursins sem þekur það. Dögg myndast því fremur á gróðri en á nakinni jörð og fremur efst á plöntunum en neðst á þeim.
Yfirborð bíla kólnar sérstaklega mikið vegna þess að blikkið er þunnt og heildarvarmarýmd í því lítil. Dögg (og ís) getur því myndast á bílum áður en hún myndast á jörð eða gróðri.
Dögg á gróðri myndast bæði úr vatnsgufu sem er í loftinu ofan við og raka úr yfirborðinu. Vegna þess að hiti getur haldist ofan daggarmarks niðri í gróðrinum heldur vatn áfram að gufa þar upp þó þétting eigi sér stað við yfirborðið. En vatnsgufan berst smám saman upp á við og hittir fyrir kaldasta lagið við efri mörk gróðursins. Sé logn eða því sem næst í 2 m hæð berst lítið af raka að ofan og döggin er að mestu mynduð úr vatni sem er að gufa upp úr jörðinni eða neðstu hlutum gróðursins. Raki að ofan er hins vegar ráðandi sé vindur á bilinu 1-3 m/s. Sé vindur enn meiri er blöndun oftast orðin það góð að þurrara og hlýrra loft að ofan verður til þess að hiti helst ofan daggarmarks. Í logni er loftið kaldast næst jörðu og rakastigið því hæst þar.
Daggarmyndunarskilyrði eru því best ef heiðskírt er (hámarksútgeislun) og ef loftið er rakt þegar við sólarlag. Daggarmarkið myndar ákveðna hindrun gegn frekari kólnun því þéttingin skilar umtalsverðum varma til umhverfisins og vinnur þannig gegn því að loftið kólni enn frekar.
Frosthættu á sumrin og snemmhausts er hægt að meta að nokkru leyti af daggarmarkinu, sé það vel ofan frostmarks er ólíklegt að næturfrost verði (ef rólegt aðstreymi af þurru lofti er ekki í gangi). Hægt er að hækka daggarmark lofts næst jörðu með vökvun og draga þannig úr líkum á næturfrosti og stundum er reykur líka notaður í sama skyni. Hann getur dregið í sig varmageisla og þar með fært virkasta útgeislunarflötinn frá jörðu að efra borði reykjarins. Þar með vinnst smátími fyrir plönturnar niðri í reyknum. Báðar aðferðir eru nothæfar til að forðast gróðurskemmdir þegar ljóst er að frosthætta er aðeins lítinn hluta næturinnar.
Vatn á gróðri að morgunlagi er ekki endilega dögg eða af völdum rigningar. Gróðurinn getur hafa safnað á sig örsmáum dropum þegar vindur leikur um hann í þoku. Vatnið getur líka átt uppruna sinn inni í plöntunni vegna þess að á nóttunni eru ræturnar hlýrri en blöðin. Þetta vatn þéttist þegar plantan andar (rétt eins og gufa birtist við vit okkar í kulda). Þessir öndunardropar eru venjulega fáir en stórir, venjulega talsvert stærri en daggardroparnir (meir en 2 mm, dæmigerður daggardropi er innan við 1 mm í þvermál).
Í frosti frjósa daggardropar skömmu eftir að þeir myndast, síðan þéttist vatnsgufan í ís utan á þeim ískristöllum sem fyrir eru. Ískristallar þessir eru oftast mjög óreglulegir, með holrúmum og loftbólum og eru því hvítir. Stundum gerist það að eftir að dögg hefur fallið í hita ofan frostmarks að meir kólnar og daggardroparnir frjósa, tæknilega er munur á slíku hrími og því venjulega. Einnig er að morgni dags hægt er að rugla saman dögg annars vegar og bráðnu hrími hins vegar.
Dögg og hrím myndast langoftast vegna útgeislunarkólnunar. Fyrir kemur þó að þau myndast vegna þess að tiltölulega hlýtt loft streymir yfir kalt land. Þegar saman fara útgeislun og aðstreymi af röku, hlýrra lofti getur daggarmyndun orðið umtalsverð. Á strandsvæðum fáeinna eyðimarka er dögg sem mynduð er á þennan hátt umtalsverður hluti ársúrkomunnar og gerir gæfumuninn fyrir lífkerfi þessara svæða (t.d. strönd Máritaníu og Namíbíu).
Ís á jörðu getur að sjálfsögðu einnig myndast við það að vatn eða krapi frýs eða vegna samþjöppunar snævar vegna umferðar eða traðks. Einnig myndast ís á jörð í frostrigningu og sem slyddu- eða skýjaísing.
---
Textinn er fenginn úr hinni dularfullu veðurbók trj sem reynst hefur útgefendum landsins ofviða að eiga við.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2017 | 00:28
Á liggjandanum
Um þessar mundir eru árstíðahvörf í heiðhvolfinu. Austanátt sumarsins er að víkja fyrir vaxandi vestanvindi hausts og vetrar.
Hluti þessarar myndar birtist hér á hungurdiskum í vor, 14. apríl. Það var rauði ferillinn - (var þá reyndar blár). Hann sýnir styrk vestanáttarinnar í 30 hPa-fletinum, en hann er í um 22 til 24 km hæð frá jörðu (vindhraðakvarði til vinstri á myndinni). Ferillinn liggur neðan við núll á kvarðanum frá því um 20. apríl til um það bil 25. ágúst. Austanáttin (lágmark ferilsins) er í hámarki um sólstöður.
Athugið að myndin nær til 18 mánaða - til þess að við sjáum báðar árstíðir, vetur og sumar, í heild sinni.
Blái ferillinn sýnir hins vegar meðalvindhraða - hver sem svo áttin er. Hann fer að sjálfsögðu aldrei undir núll. Á því tímabili sem hér er til grundvallar er lágmark meðalvindhraðans þann 21. ágúst. Sá dagur hnikast sjálfsagt eitthvað lítillega til eftir tímabilum.
Græni ferillinn sýnir svonefnda áttfestu, eða festuhlutfall. Þetta er hlutfall vigurvindhraða og meðalvindhraða. Sé áttin laus í rásinni er festan lítil. Blási vindur úr vestri helming tímans og svo jafnstrítt úr austri hinn helminginn er vigurmeðaltalið núll - alveg sama hversu mikill meðalvindhraðinn er. Festuhlutfallið er þá núll. Blási vindur úr nákvæmlega sömu átt allan tímann verður festuhlutfallið einn, alveg sama þótt styrkurinn sé síbreytilegur.
Festuhlutfallið er mjög hátt meginhluta ársins í 30 hPa. Vindátt er svipuð sama dag frá ári til árs - úr vestri í hátt í 8 mánuði að vetri, en úr austri nærri 4 mánuði að sumarlagi. Skiptin eru furðusnörp - við sæjum þau þó ekki á mynd sem þessari ef þau kæmu alltaf nákvæmlega sama daginn. Umskiptin verða ekki sama dag á hverju ári - en ekki fjarri því.
Festulágmörkin tvö eru hér 19. apríl að vori - og svo 23. ágúst síðla sumars. Meðalvindhraði er ívið minni í lok sumars heldur en á vorin og fellur lágmark hans nánast saman við festulágmarkið. Ritstjóri hungurdiska líkir þessu við liggjanda sjávarfallanna - fallaskipti. En athugum að við tölum ekki um að komin sé fjara þó farið sé að falla út. Á sama hátt er varlegt að tala um að sumri sé lokið strax við liggjandann. En það styttist þó í haustið.
Þessi liggjandi er greinilegastur í heiðhvolfinu - en hans gætir einnig neðar. Myndir sem sýna það hafa verið gerðar og reyndar hefur verið á þær minnst á hungurdiskum áður. En ferlarnir sem þær sýna eru ekki eins hreinir - það þarf lengri tíma en 40 til 60 ár til að hreinsa upp suðið.
Það þarf verulegar breytingar á veðrakerfinu til að hnika árstíðaskiptum vindátta heiðhvolfsins til. En það er víst flest mögulegt er okkur sagt. Í pistli á hungurdiskum 22. maí 2016 var um slíkt fjallað og þann nærtækari möguleika að heiðhvolfsaustanáttin ryðji sér leið neðar en hún nær - eða að það slái verulega á sumarvestanáttina í veðrahvolfinu.
22.8.2017 | 01:51
Sundurlausir ágústhitamolar
Hæsti meðalhiti ágústmánaðar hér á landi er ekki alveg óumdeildur. Hæsta reiknaða talan er 14,1 stig, á Mýrdalssandi í ágúst 2003. Ekki ótrúlegt í sjálfu sér, en mælingar stöðvarinnar hafa ekki verið teknar út - við vitum ekki hvort einhver hliðrun hefur verið í mælinum.
Ágúst 2003 var sérlega hlýr á landinu, er í næstefsta sæti á landslistanum með 10,9 stig, aðeins ágúst 1933 er sjónarmun hærri, 11,0 stig.
Næsthæsta talan er ekki alveg trygg heldur, 14,0 stig reiknast sem meðalhiti ágústmánaðar 1880 austur á Valþjófsstað. Við vitum enn ekkert um aðstæður á stöðinni. Ágúst 1880 var sérlega hlýr um land allt og er í þriðjahlýjasta sæti á landslistanum, 10,7 stig.
Þriðjuhæstu töluna finnum við á Húsavík í ágúst 1947, 13,9 stig. Sá mánuður er nokkru neðar á landslistanum, í 12. sæti, en var sérlega hlýr um landið norðanvert, hlýjastur ágústmánaða á fjölmörgum stöðvum, m.a. á Akureyri. Í Reykjavík er ágúst 2003 hlýjastur.
En hver er þá lægsti ágústmeðalhitinn? Auðvitað tók Dyngjujökull þá tölu strax og byrjað var að mæla þar - stöðin í tæplega 1700 metra hæð yfir sjávarmáli og mælar þar að auki ekki í löglegri hæð frá jörðu. En meðalhiti í ágúst 2016 var þar 0,0 stig. Spurning hvort meðalhiti ágústmánaðar nú verður enn lægri - takist að ná mælingum mánaðarins alls í hús. Eftir 21 dag núlíðandi mánaðar er meðalhitinn þar +0,4 stig.
Næstlægsta talan er líka af jökli. Stöðin á Brúarjökli er sögð í 845 metra hæð yfir sjávarmáli, meir en 800 metrum neðar en Dyngjujökulsstöðin. Þar hefur verið mælt samfellt frá 2005. Kaldastur á þeim tíma var ágúst 2011 með meðalhita 2,5 stig. Það sem af er ágúst nú er meðalhiti á Brúarjökli 2,3 stig - spurning hvort hann nær neðsta sætinu.
En sjálfvirku hálendisstöðvarnar hafa ekki mælt lengi, þær sem lengst hafa mælt eru þó komnar í meir en 20 ár og orðnar vel keppnishæfar.
Lægstu byggðartölurnar eru líka afspyrnulágar. Meðalhiti í Grímsey í ágúst 1882 var ekki nema 2,4 stig. Það mun vera óhætt að trúa þessari tölu. Bráðnandi hafís í kringum eyna mestallan mánuðinn. Ágúst 1882 er líka lægstur á landslistanum, meðalhiti á landsvísu 6,5 stig. Við eigum til fleiri mælingar frá stöðvum við norðurströndina í ágúst 1882, Kjörvogur á Ströndum segir meðalhita mánaðarins 2,7 stig og á Skagaströnd og á Siglufirði reiknast meðalhitinn í mánuðinum 3,1 stig. Siglufjörður segir ágúst 1864 hafa verið enn kaldari, með meðalhitann 2,6 stig þar á bæ (Hvanneyri).
Lægsta talan eftir aldamótin 1900 er úr Möðrudal í ágúst 1903, 3,6 stig og þá sömu tölu nefna Grímsstaðir á Fjöllum í ágúst 1943. Sérlega vondir mánuðir nyrðra báðir tveir - en skárri syðra.
Raðir hámarks- og lágmarksmælinga eru styttri og rýrari heldur en meðalhitaraðirnar. En hæsti meðalhámarkshiti ágústmánaðar sem við sjáum í fljótu bragði er 18,5 stig á Staðarhóli. Þessi árangur náðist 2004, og meðalhiti ágústmánaðar 1984 var litlu lægri á Vopnafirði, 18,4 stig - sem einnig reiknast á Torfum í ágúst 2004.
Lægsti meðalhámarkshitinn reiknast í Grímsey í ágúst 1903, 5,5 stig.
Hæsta meðallágmark ágústmánaðar finnum við á Vatnsskarðshólum árið 2004, 10,8 stig og lægsta meðallágmarkshitann á Grímsstöðum á Fjöllum 1912, -0,6 stig. Harla ískyggileg tala.
Hæsti hiti sem mælst hefur í ágúst hér á landi er 29,2 stig - á Egilsstaðaflugvelli þann. 11. árið 2004.
Lægsti hiti sem er skráður á mæli hér á landi í ágúst eru -10,7 stig, mældist á dögunum á Dyngjujökli (þ.13.). Við vitum ekki enn hvort það er óvenjulegt eða ekki.
Þann 27. ágúst 1974 mældist lágmarkshiti -7,5 stig í Sandbúðum á Sprengisandsleið, lægsti hiti í ágúst hér á landi utan jökuls. Lægsti hiti sem vitað er um í byggð í ágúst mældist á Barkarstöðum í Miðfirði þann 27. árið 1956. Frost var víða þá nótt og þær næstu, m.a. fór hiti niður í -0,4 stig í Reykjavík, ágústlágmarksmet á þeim bæ og næsta nótt á lágmarkshitamet ágústmánaðar á Akureyri, -2,2 stig.
Hæsti lágmarkshiti sólarhringsins sem við vitum um í ágúst er 19,5 stig - á Vatnsskarðshólum þann 11. 2004.
Að lokum spyrjum við hver sé hæsti lágmarkshiti ágústmánaðar. Í ágúst 2003 fór hiti aldrei neðar en 8,5 stig í Patrekshöfn á Patreksfirði og ekki heldur á Steinum undir Eyjafjöllum í sama mánuði (eða er e.t.v. sagt í Steinum?).
---
Þess má að sjálfsögðu geta að hungurdiskar halda upp á 7 ára afmæli um þessr mundir, um 1940 pistla á bloggi og fjölmarga þar að auki á fjasbókinni. Ritstjórinn er að vanda meyr á tímamótunum og fyllist efa um framhaldið - hvort halda eigi sömu leið, breyta á einhvern hátt um stefnu eða hreinlega hætta. Pistlarnir 1940 fylla nú 7 allstór bindi - vel á fjórða þúsund blaðsíður alls og hver sem er getur prentað út eða afritað.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 185
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010