Í skjóli Esjunnar (leit)

Fyrirsögnin er dálítið afvegaleiðandi - en það var nú samt hún sem bjó til þennan pistil. Það er nokkuð algengt - eða svo segir tilfinningin - að alloft sé besta veður í Reykjavík þegar næðingur er annars staðar á landinu. Kenna menn það gjarnan „skjólinu frá Esjunni“, sem er vafalítið rétt. Aftur á móti er ekki endilega auðvelt að finna þessa daga og þar með greina hvað er á seyði. Beita má margskonar aðferðum við leitina.

Það sem hér fer á eftir er varla við skap nema hörðustu veðurnörda - rétt að geta þess áður en aðrir fara að eyða tíma í lesturinn.  

Ritstjóri hungurdiska er fremur latur að eðlisfari og reynir þess vegna að leita uppi auðveldar aðferðir sem ekki krefjast mikillar vinnu af hans hálfu. Gallinn er bara sá að slíkt skilar ekki alltaf árangri. 

En hér er ein tilraun. Hún fann hins vegar ekki nema suma af þeim dögum sem ritstjórinn geymir í minni sínu sem dæmigerða „skjóldaga“ - þess vegna verður að hann leita betur síðar. Þessi leit skilaði hins vegar einhverjum árangri og við skulum líta á hann (eða eitthvað af honum). 

Hér er reiknað út hversu miklu munar á sólarhringsmeðalhita Reykjavíkur og landsmeðalhita í byggð sama dag og búnir til listar yfir mun og daga. 

Lítum fyrst á veðurkort - dæmigerðan Esjuskjólsdag.

w-blogg300817aa

Kortið sýnir veðrið á hádegi 16. maí 1988 (allir löngu búnir að gleyma honum). Þá var hiti tæplega 15 stig í Reykjavík, en ekki nema 8 uppi í Borgarfirði og yfirleitt var skítakuldi um mestallt land - og rétt ofan frostmarks við norðausturströndina. Það munaði tæplega 7 stigum á Reykjavíkurhita og landsmeðalhita, ekki oft sem munurinn hefur orðið jafnmikill eða meiri. Áttin er norðaustlæg. 

Annar skjóldagur var með öðrum hætti.

w-blogg300817ab

Þetta var um hávetur, 6. janúar 2001. Þá var tæplega -8 stiga frost í Reykjavík á hádegi (og reyndar tæp -15 stig uppi í Borgarfirði. En talsvert hlýrra var víðast hvar á Norðaustur- og Austurlandi - frostlaust á Raufarhöfn, nánast frostlaust á Vestfjörðum og hiti tæp 4 stig í Hornafirði. 

Þetta er líka skjóldagur, en áhrifin eru á hinn veginn hvað hitann varðar. Þennan dag var meir en 5 stigum kaldara í Reykjavík en á landsvísu. 

En það er þó ekki alltaf skjólið sem veldur hitamun af þessu tagi. Kortið að neðan sýnir öðruvísi dæmi.

w-blogg300817ac

Þennan dag muna e.t.v. einhverjir, 30. apríl 2011. Þá snjóaði mikið í Reykjavík og hiti á hádegi ekki nema 0,6 stig, en austur á Vopnafirði var hitinn 13,7 stig. Hægfara kuldaskil voru yfir landinu - og Esjan kom ekki við sögu hitamunarins. 

Þá er að telja.

w-blogg300817a

Hér má sjá hvernig hitamunur höfuðbogar og landsins alls dreifist. Lárétti ásinn sýnir hitamun - þó ber að athuga að hér á núll við bilið frá 0,0 upp í 0,9 stig, -1 á því við bilið -0,1 til -1,0 stig (og svo framvegis). Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallslegan fjölda. Í leiðinni var athugað hvort munur væri á dreifingunni eftir meðalvindhraða á landinu. Blái ferillinn sýnir þau tilvik þegar meðalvindhraðinn var minni en 5 m/s, en sá rauði þegar hann var meiri.

Langoftast er hitamunurinn lítill, í hægum vindi er hann þó oftar 1 til 2 stig heldur en 0 til 1, en í hvössum er algengast að hann sé 0 til 1 stig. Við sjáum að það er ekki oft sem munurinn er meiri en 3 stig - og sárasjaldan er meir en 2 stigum kaldara í Reykjavík heldur en að meðaltali á landinu öllu. 

Næst einbeitum við okkur að þeim dögum þegar munurinn er 3 stig eða meira, Reykjavík hlýrri en landið í heild.

w-blogg300817b

Hér má sjá hvernig tilvikin dreifast á vindáttir. Á árabilinu 1949 til 2016 var hitamunurinn meiri en 3 stig í 1291 tilviki (um 19 sinnum á ári að meðaltali) væri vindur minni en 5 m/s, en í 780 tilvikum væri vindur minni en 5 m/s (um 11 sinnum á ári). Við sjáum að sé vindur meiri en 5 m/s er það einkum norðaustanáttin sem skilar Reykjavík sérstökum hitaávinningi umfram aðra landshluta. 

Við skulum líka líta í hinn veginn á hitakvarðanum, teljum tilvik þegar 2 stigum (eða meira) er kaldara í Reykjavík en á landsvísu.

w-blogg300817c

Þessi tilvik eru miklu færri en hin (ekki nema 155 á 68 árum, ekki greint eftir vindhraða). Hér sjáum við að Reykjavík er helst kaldari en aðrir landshlutar í norðaustanátt (samanber kortið hér að ofan) - Esjan kemur vafalítið við sögu - býr til skjól og bjart veður að vetrarlagi - og svo í suðvestanátt - hinn dæmigerði suðvestansuddi að sumarlagi þegar hiti fer vart yfir 10 stig í Reykjavík en hlýindi ríkja norðaustanlands. Esjan kemur þá ekki við sögu. 

Að lokum teljum við daga þegar áttin er af norðri eða norðaustri, vindur á landinu meiri en 5 m/s að meðaltali og Reykjavík er meir en 3 stigum hlýrri en aðrir landshlutar.

w-blogg300817d

Mikill munur er á tíðni svona daga frá ári til árs. Enginn slíkur kom t.d. 1984, en flestir voru þeir 1968 - og reyndar skera hafísárin 1965 til 1971 sig nokkuð úr. Svo virðist sem dögum af þessu tagi fari fjölgandi - en það er ekkert að marka það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.11.): 180
  • Sl. sólarhring: 436
  • Sl. viku: 1669
  • Frá upphafi: 2409100

Annað

  • Innlit í dag: 168
  • Innlit sl. viku: 1495
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 166

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband