Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017
21.8.2017 | 02:05
Skyldum við fá að njóta?
Reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að hlýtt loft heimsæki okkur í vikunni. Hlýindin eru þó til þess að gera meiri í efri hluta veðrahvolfs og á miðhæðinni heldur en neðar. En það er þó aldrei að vita nema að við fáum þó að njóta þeirra á einhvern hátt.
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á miðvikudag (23. ágúst). Heildregnu línurnar afmarka þykktina, en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Í dag, sunnudag, var þykktin yfir miðju landið 5440 metrar, 120 metrum lægri en hér er spáð. Að öðru ætti hámarkshitinn á landinu á miðvikudag því að vera 5 til 6 stigum hærri en hann var í dag, eða 23 til 24 stig.
Slíkar tölur eru þó e.t.v. fullbjartsýnar - margt þarf að ganga upp til að ná hitanum niður úr háloftunum. Svo þyngist nóttin óðum í taumi - sé veður bjart kólnar mikið í neðstu lögum og tíminn sem sól hefur til að hreinsa þann kulda úr lofti styttist með hverjum deginum. Til að ná hitinn verði sem hæstur þarf helst að vera einhver blástur og skýjað veður að nóttu - síðan létti vel til - en hóflegur blástur af landi haldi áfram - þá blasa 25 stigin við.
En svo gæti auðvitað farið þannig að vindur verði hægur af hafi um land allt - það verði alveg sólarlaust og landshámarkið ekki nema 16 stig.
20.8.2017 | 14:49
Hefur hægt á hlýnun hér á landi?
Það skal tekið skýrt fram í upphafi þessa pistils að reikningarnir hér að neðan teljast til dellu. Málið er bara það (svo notað sé tískuorðalag) að ámóta dellu ber nánast daglega fyrir augu þeirra sem fylgjast með umræðum um loftslagsbreytingar.
Ef fáeinir stakir kaldir dagar koma í röð birtast umsvifalaust fullyrðingar um að svonefnd hnattræn hlýnun hafi greinilega stöðvast - ef svalur mánuður sýnir sig magnast þær að mun. Því er svosem ekki að neita að hins öfuga gætir einnig nokkuð - því miður.
Eftirfarandi hálffullyrðingu var varpað fram í athugasemd á fjasbókarsíðu hungurdiska fyrr í dag (20. ágúst): Hlýnunin er í það minnsta mjög hæg þennan áratuginn! - En er hún það?
Það er reyndar svo (eins og ítrekað hefur verið fjallað um á þessum vettvangi áður) að hnattræn hlýnun er eitthvað sem tekur tíma - hún er að jafnaði ekki meiri en svo á hverju ári að mælingar heillar aldar þarf til að greina hana frá breytileika þeim sem skekur veður og veðurlag frá ári til árs. Undanfarna tvo til 3 áratugi hefur hún að vísu verið svo mikil að víða um heim hefur merki hennar heyrst betur og betur - þar á meðal hér á landi. - En til allar hamingju er hún þó enn ekki meiri en svo að hún yfirgnæfir ekki allar aðrar sveiflur. Þegar og ef hún fer að gera það er sannarlega illt í efni.
En hvernig á að reikna hvort hægt hafi á hlýnun þennan áratuginn? Það verður e.t.v. hægt að svara þeirri spurningu af einhverju viti eftir 20 til 30 ár - en ekki nú. Jú, það er hægt að reikna og það er hægt að fá útkomu - en lítt er að marka slíka reikninga.
Við skulum samt framkvæma þá - eða eina gerð þeirra - því úr mörgu er að velja.
Þessi mynd sýnir daglegan meðalhita í byggðum Íslands frá 1.janúar 2006 til 19. ágúst 2017. Við sjáum að hiti er lágur á vetrum en hærri á sumrin - árstíðasveiflan yfirgnæfir allt annað. - Það kemur hún líka til með að gera sama hversu mikið hlýnar í framtíðinni og gerði það líka á ísöld. - En við skulum nú samt reikna leitnina í gegnum myndina - rauða línan sýnir hana. - Útkoman er harla ótrúleg og samsvarar 7,3 stiga hlýnun á 100 árum. Ef okkur dytti í hug að trúa þessu gætum við með engu móti sagt að hægt hefði á hlýnun - hún virðist snaróð.
Gildran liggur í því að tímabilið sem valið var byrjar að vetrarlagi - en endar á miðju sumri. - Þetta nægir til að reikningarnir skila þessari (vonandi) fráleitu hlýnun.
Við skulum losna við hluta vandamálsins með því að bæla árstíðasveifluna. Það gerum við með því að reikna 365 daga-keðjumeðaltöl hitans og reiknum leitni hans (það má strangt tekið ekki heldur - en samt er stöðugt verið að sýna slíka reikninga í umræðunni).
Eftir sérlega flatt tímabili frá 2006 til 2013 hrökk hitafarið í annan (og eðlilegri) gír - yfir í meiri sveiflur. Reiknum við leitni á þessar tölur er útkoman 2,0 stig á öld, meir en tvöfalt á við hraða heildarhlýnunar frá því að mælingar hófust. Hefur hlýnunin þá hægt á sér?
Að lokum lítum við á sömu tölur - en byrjum í árslok 2010 og reiknum hraða hlýnunar síðan þá.
Jú, hér reiknast leitnin enn meiri, 3,6 stig á öld, milli þreföld og fjórföld meðalhlýnun frá upphafi mælinga.
Hefur hlýnunin þá hægt á sér?
Eins og áður sagði eru flokkast útreikningar sem þessir sem vafasamir. Við skulum enn ítreka það sem ítreka virðist þurfa nánast daglega: Veðurlag einstakra daga, mánaða, ára og jafnvel áratuga segir lítið sem ekkert um hnattræna hlýnun. Hún sýnir sig hins vegar í lengra samhengi. Þegar hún fer að sýna sig á annan hátt, t.d. með stöðugum og órjúfandi straumi hitameta og öfgaveðri er vís voði á höndum. Þökkum fyrir meðan svo er ekki. Líklegt er að næstu áratugi liggi ýmsar óvæntar veðuruppákomur í leyni - bæði þær sem túlka má sem aukinn þunga hlýnunar sem og þær sem verða túlkaðar á hinn veginn - að hlýnun hafi stöðvast.
Aðalgreinar hungurdiska (hingað til) um hitaleitni hérlendis birtust 28. apríl og 1. maí 2016 og 25. og 26. janúar 2017. Þær eru vitlegri en þessi - og ritstjórinn telur þær auðvitað skyldulesningu. -
16.8.2017 | 11:20
Fyrri hluti ágústmánaðar
Ágústmánuður er nú hálfnaður. Hann hefur verið fremur svalur miðað við það sem algengast hefur verið á öldinni. Meðalhiti í Reykjavík er 10,7 stig, -0,1 stigi neðan meðallags sömu daga 1961-1990 og -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri er meðalhitinn 10,0 stig og er það -0,6 neðan meðallags 1961-1990, en -1,4 undir meðallagi síðustu tíu ára.
Mánuðurinn er nú í 14. hlýjasta sæti (af 17 á öldinni), kaldari var hann 2002, 2013 og 2015. Nokkuð bil er upp í 13. sætið (2001). Sé lengri tími tekinn til samanburðar er hitinn í í kringum 90. sæti (af 143). Hlýjastir voru þessir dagar árið 2004, meðalhiti 14,0 stig, en kaldast 1912. Þá var meðalhitinn 7,4 stig.
Hiti á landinu er víðast hvar nokkuð undir meðallagi síðustu tíu ára, mest á Norðurlandi, (neikvætt vik miðað við síðustu tíu ár er mest -1,9 stig í Víkurskarði). Hiti er rétt ofan meðallags á smábletti við austurströndina, mest +0,5 stig í Seley og +0,4 stig á Dalatanga.
Úrkoma í Reykjavík er vel neðan meðallags, hefur mælst 18,1 mm eða ríflega 60 prósent meðalúrkomu sömu daga, sú fjórðaminnsta á öldinni. Mun meiri úrkoma (að tiltölu) hefur verið nyrðra, meiri en tvöfalt meðallag á Akureyri. Aftur á móti hefur til þessa verið sérlega þurrt austast á landinu, innan við 5 mm hafa mælst á Dalatanga (það kann þó að breytast rækilega á fáeinum dögum).
Sólskinsstundir hafa verið ívið fleiri en að meðallagi í Reykjavík það sem af er ágúst.
Í heild hefur farið vel með veður. Hiti á landinu hefur enn ekki náð 20 stigum í mánuðinum. Líklegast er að hann geri það síðar - en þess má þó geta að ágúst hefur ekki verið tuttugustigalaus síðan 1979.
16.8.2017 | 00:04
Litlar breytingar
Ekki er að sjá miklar breytingar í veðurlagi hér á landinu næstu dagana - heldur lokuð staða. Hún verður þó að teljast meinlaus að mestu þó hiti mætti gjarnan vera dálítið hærri. Við lítum á kort sem sýnir stöðuna á norðurhveli síðdegis á fimmtudag (mat evrópureiknimiðstöðvarinnar).
Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar að vanda og þykktin sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hér sést að hásumar er enn á öllu hvelinu. Blái þykktarliturinn varla til og heimskautaröstin líka í sumarlinku sinni - einna helt að að henni kveði yfir Bretlandseyjum og svæðum þar suður og austur af - og svo líka vestan Alaska.
Gríðarmikill hæðarhryggur liggur norður um Hudsonflóa og allt norður á heimskaut. Hann hefur hér stuggað við kuldapollinum í Norðuríshafi og skipt honum í tvennt. Annar helmingurinn er hér við Norðvestur-Grænland og á að liggja þar áfram án þess að plaga okkur að heitið geti. Samt rétt að gefa honum auga.
Við sjáum að Ísland er við mörk gulu og grænu þykktarlitanna - sem þýðir að hiti er við meðallag árstímans. Háloftalægðin fyrir suðaustan land átti uppruna sinn úr heimskautakuldanum - stóri kuldapollurinn hafði sent smáskammt til suðurs fyrir vestan land um helgina og m.a. valdið næturfrostinu sem plagaði suma landshluta. Nú er sjórinn sunnan við landið búinn að vinna á þeim kulda.
Örin bendir á leifar fellibylsins Gert - örsmátt kerfi, en ef menn nenna að telja þykktarlitina sést að þykktin er meiri en 5820 metrar á smábletti við miðju hans. Gert gengur inn í háloftalægðina við Nýfundnaland - en hún er á ákveðinni hreyfingu til austurs fyrir sunnan land.
En eftir viku eða svo fer sumri að halla á heimskautaslóðum - og einnig í heiðhvolfinu. Heiðhvolfið er langoftast mjög læst í sólargang - haustbyrjun reyndar ekki alveg eins niðurnjörvuð og vorið, en veðrahvolfið er ívið sveigjanlegra í sínum sumarlokum - mörkin milli sumars og hausts ekki alveg jafn eindregin.
Sé litið á mjög mörg ár saman kemur þó í ljós að hringrásin hrekkur venjulega úr sumargírnum í kringum höfuðdag (29. ágúst). Koma haustsins er þó ekki nægilega snögg til þess að ná til alls hringsins norðan heimskautarastarinnar í einu. - En í ágústlok má heita víst að haustið sé einhvers staðar komið á skrið á norðurslóðum. Tilviljanakennt er frá ári til árs hvar og hvernig haustkoman slær sér niður (ef svo má segja). Það er ekki fyrr en rúmum mánuði síðar að haustið hefur náð undirtökum allt suður að röst - og er að auki farið að víkka þann hring sem hún ræður.
Það verða því oft breytingar á veðurlagi hér á landi eftir 20. ágúst - og sérlega oft nærri höfuðdegi - en ekki alltaf.
15.8.2017 | 00:40
Smávegis af 1815 og 1816
Þegar leitað er í hrúgum af drasli finnast stundum löngu gleymdir hlutir - sem ekkert var verið að leita að. Þetta á líka við um þær hrúgur af skrám sem stöðugt safnast upp í tölvum ritstjóra hungurdiska. Við eina slíka leit rakst hann á myndina hér að neðan. Hún var upphaflega gerð vegna erlendar fyrirspurnar og varðaði hitafar áranna 1815 og 1816.
Í apríl 1815 varð gríðarlegt hamfaragos í fjallinu Tambóra í Indónesíu, það stærsta slíkt á síðari öldum. Árið eftir var tíð daufleg í austanverðri Norðurameríku og sömuleiðis á stórum svæðum í Evrópu. Talað var um sumarleysisárið. Veðurlag mun víðar hafa farið úrskeiðis þetta sama ár og hefur gjarnan verið tengt gosinu. Ekki er ástæða til að efast um það og má finna um það nokkrar sannfærandi greinar og fleiri bækur en eina.
Tengillinn neðst á þessari síðu nær í ágæta svissneska samantekt um gosið og veðurfarslegar afleiðingar þess. Þar (og víðar) er bent á að nokkrum árum áður, 1809, varð annað gos sem líklega var líka nægilega stórt til að geta haft áhrif á veðurlag. Þegar ritstjórinn síðast vissi var ekki enn búið að negla niður hvar í heiminum það gos hefði orðið - nokkuð dularfullt mál - og ekki nema tvöhundruð ár rúm síðan.
Heimildir um veðurfar á Íslandi um þetta leyti eru nokkuð rýrar. Dagbækur þær sem til eru eru ekki auðlæsilegar - nema hitamælingar séra Péturs Péturssonar á Víðivöllum í Skagafirði - sem notaðar eru við gerð myndarinnar hér að neðan.
Lárétti kvarðinn sýnir mánuði áranna 1815 og 1816 en sá lóðrétti hitavik. Notuð eru tvö samanburðartímabil. Annars vegar árin 1801 til 1830, þau vik ættu að sýna hvernig hitafarið hefur blasað við samtímamönnum, en hins vegar eitthvað sem er nær okkar tíma 1981 til 2010.
Við sjáum strax að fyrstu fjórir mánuðir ársins 1815 virðast hafa verið sæmilega hlýir, síðan tekur við tímabil sem ekki er mjög fjarri meðallagi, nema hvað ágústmánuður hefur verið mjög kaldur. Kuldar taka svo við í desember 1815 og veturinn var kaldur fram á vor (apríl). Maí og júní 1816 virðast hafa verið bærilega hlýir, en sumarið harla svalt eftir það - nóvember var einnig kaldur.
Fram kemur í rituðum heimildum að heyskapur hafi gengið allvel sunnanlands þessi tvö sumur þótt grasvöxtur hafi ekki verið mikill það síðara. Í ágúst þeim kalda 1815 gekk á með stórrigningum nyrðra - en grasmaðkur spillti túnum syðra. Almennt að segja fá þessi ár ekki sem verst umtal syðra - en síðra norðaustanlands.
Þess er ekki getið í prentuðum heimildum að séð hafi á sól - sem það hefur þó vafalítið gert - mest þá um haustið ef marka má reikninga sem og reynslu af Pinatubogosinu 1991. Tamboragosið var mest í apríl 1815 eins og áður sagði og þess varla að vænta að það hafi farið að hafa áhrif hér á landi fyrr en seint um haustið. Nú er það örugglega svo að áhrif gosa eru misjöfn - það er ekki aðeins stærð þeirra sem er áhrifavaldur heldur einnig eðlið, efnasamsetning gjóskunnar, staðsetning og einnig skiptir vafalítið máli á hvaða tíma árs gosið verður.
Það eru þó talin almenn sannindi að gos í hitabeltinu valdi hlýindum í heiðhvolfi - meiri þar suðurfrá en á norðurslóðum. Afleiðingin er sú að styrkur hvarfbaugsrastarinnar vex og líkur verða meiri á því að hún geti dregið heimskautaröstina á Atlantshafssvæðinu suður á bóginn og aukið styrk hennar fyrsta vetur eftir gos. Sé það rétt ætti lægðagangur sunnan Íslands að verða meiri þann hinn sama vetur - lágþrýstinorðanáttir þá meiri hér á landi en venjulega - en fremur hlýtt - alla vega illviðrasamt - á meginlandi Evrópu.
Kuldarnir vestanhafa og austan sumarið 1816 ættu þá að hafa stafað af því að vestanáttir vetrarins hafi haldið áfram að bleyta Evrópu, en norðanáttir náð til norðausturhluta Bandaríkjanna. - En um þessi atriði má lesa í svissnesku skýrslunni sem vísað er í hér að neðan (afrita og líma þarf tengilinn til að virkja hann).
Tambora and the Year Without a Summer of 1816. A Perspective on Earth and Human Systems Science.
http://www.geography.unibe.ch/unibe/portal/fak_naturwis/e_geowiss/c_igeogr/content/e39624/e39625/e39626/e426207/e431531/tambora_e_webA4_eng.pdf
14.8.2017 | 01:54
Smámoli um næturkulda
Spurt var hvort kuldi síðastliðna nótt (aðfaranótt 13. ágúst) hefði verið óvenjulegur. Því er til að svara að venjulegur var hann ekki. Frost mældist á 13 veðurstöðvum í byggð (af 107). Ámóta hátt hefur hlutfallið sjaldan orðið síðan rekstur sjálfvirka stöðvakerfisins hófst 1997 - aðeins 2013 og 2014 (tvo daga hvoru sinni, þ. 7. og 12. fyrra árið, en þ.2 og 14. það síðara). Einnig er skylt að geta næturinnar slæmu, 25. júlí 2009 í þessu samhengi. Sú nótt var verri en þessi að því leyti til að kartöfluþroski var mun skemur á veg kominn heldur en nú.
Einnig má nota meðallágmarkshita í byggð sem samanburð. Hann var 4,0 stig nú, var þrisvar lægri í fyrrihluta ágústmánaðar 2013 (þ.6., 7. og 12.) en annars ekki á tíma sjálfvirku stöðvanna. Í eldri gögnum er slatti af lægri meðallágmarkshita, 34 tilvik af 1020 alls, eða nærri 3 prósent - sum sé um annað hvert ár að jafnaði. Að segja annað hvert ár er þó varla rétt því oft eru fleiri en ein slík nótt í sama ágústfyrrihlutanum. t.d. fjórar 1993 en það ár var sú kaldasta, 10. ágúst, meðallágmarkshiti í byggð 2,8 stig. Árin eru 19 af 68 (árið í ár ekki talið með) - við væntum því nætur af þessu tagi í fyrrihluta ágúst þriðja til fjórðahvert ár, en komi ein er líklegt að önnur eða fleiri fylgi með í pakkanum.
9.8.2017 | 21:08
Smámoli um hámarkshita
Í dag, 9. ágúst mældist hæsti hiti mánaðarins á landinu til þessa, 19,3 stig í Kvískerjum í Öræfum. Enn verður að telja líklegt að hæsti hiti mánaðarins verði hærri þegar upp verður staðið.
En samt var spurt hvenær það hefði átt sér stað síðast að hiti næði ekki 20 stigum á landinu í ágúst. Svarið er ... 1979, en þá voru veiðar ekki eins ákaft stundaðar og nú, og það munaði ekki miklu, hæsti hiti mánaðarins mældist þá 19,5 stig á Hellu og Kirkjubæjarklaustri þann 7.
Árin 1958, 1961 og 1962 náði hitinn á landinu hvergi 19 stigum í ágúst - 1958 fór hann hins vegar yfir 20 stigin í september.
Það eru um helmingslíkur á því að hæsti hiti ágústmánaðar mælist fyrstu 10 dagana - þá einnig um helmingslíkur á að hann mælist hina 21 sem eftir standa. Það eru innan við 20 prósent líkur á að hæsti hiti mánaðarins mælist síðar en þann 20. - Það var þó þannig í ágúst 2014, 2015 og 2016. Hvernig verður það nú?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2017 | 01:50
Tólfmánaðameðalhitinn - staðan um þessar mundir
Við lítum nú rétt einu sinni á stöðu tólfmánaðameðalhitans í Reykjavík. Tíminn líður og líður.
Þessi mynd nær rétt rúm 20 ár aftur í tímann. Ártölin eru sett við lok almanaksárs (janúar til desember). Grái ferillinn sýnir 12-mánaða meðaltölin (12 á ári). Lóðrétti kvarðinn markar hitann. Á þessum 20 árum hefur 12-mánaðahitinn sveiflast frá 4,33 stigum upp í 6,61. Hámarkinu náði hann í september 2002 til ágúst 2003. Upp á síðkastið hefur hann einnig verið í hæstu hæðum, komst í 6,38 stig í mars 2016 til febrúar 2017 og í 6,37 í júní 2016 til maí 2017. Nú í júlílok var hann í 6,21 stigi. Það er líklegt að hann lækki heldur í haust og vetur því hitinn í október 2016 var með þvílíkum ólíkindum að varla er við því að búast að komandi október eigi nokkurn möguleika í að slá hann út.
Rauði ferillinn á myndinni sýnir 120-mánaða meðaltalið (10 ár). Sá ferill er að sjálfsögðu mun jafnari en er lítillega lægri nú en hann var hæstur fyrir 5 árum, ekki munar þó nema 0,13 stigum á stöðunni nú og þá.
Næsta mynd sýnir mun lengra tímabil. Þar er 120-mánaðahitinn grár, en rauði ferillinn sýnir 360-mánaðameðaltalið (30 ár).
Greinilega má sjá hversu óvenjulega tíma við höfum lifað að undanförnu. 120-mánaðahitinn hefur nú lengi verið langt ofan við það sem best gerðist á tuttugustualdarhlýskeiðinu og 360-mánaðahitinn nýlega kominn upp fyrir það, fór í fyrsta sinn yfir 5 stig í lok árs 2016. Hann hækkar ekki mikið á þessu ári vegna þess að árið 1987 var fremur hlýtt en þar á eftir komu fjölmörg mjög köld ár og því er góður möguleiki á frekari hækkun 360-mánaðahitans á næstu árum svo fremi sem ekki kólni niður fyrir meðaltal þeirra köldu ára. Allt ofan við það hækkar 360-mánaðahitann.
Sú spurning vaknar hversu langt sé síðan 360-mánaðahitinn hefur verið jafnhár eða hærri í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að svara því svo vel sé. Það er hins vegar líklegt að ekki sé alveg jafnlangt síðan 120-mánaðahitinn hefur verið jafnhár eða hærri en nú (hvenær sem það annars hefur verið).
En auðvitað segja þessar myndir ekkert um framhaldið - þær sýna fortíðina. En þungi löngu meðaltalanna er þó mikill. Stærsta sveifla 12-mánaðahitans sem við þekkjum í Reykjavík var frá því í september 1880 þegar hann stóð í 5,55 stigum og var hrapaður niður í 2,08 stig í ágústlok árið eftir. Ef sú atburðarás endurtæki sig nú (varla líklegt) myndi 120-mánaðahitinn ekki lækka nema um 0,3 stig og 360-mánaðahitinn um tæplega 0,1 stig á 12 mánuðum.
6.8.2017 | 14:46
Þykktarvik júlímánaðar 2017
Bregðum upp korti sem sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, þykktarinnar og þykktarvik í júlí 2017.
Mikil flatneskja er við Ísland. Áttin þó frekar suðlæg heldur en eitthvað annað. En allmikil jákvæð þykktarvik með miðju fyrir norðan land teygja sig suður um landið. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs yfir meðallagi - og vel það norðurundan. Við sjáum líka kuldapollinn mikla vestan við Grænland - þar sem hiti var -2,5 stigum undir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs. Einnig var mjög kalt yfir Skandinavíu sunnanverðri.
En fremur hagstætt hjá okkur.
Spáin næstu tíu daga er öllu kuldalegri - óþarflega kuldaleg satt best að segja:
Hiti í neðri hluta veðrahvolfs almennt 2 til 3 stigum undir meðallagi ágústmánaðar á landinu. Vonandi ekki alveg svo mikið niðri í mannheimum. En upplifun af þessum kulda fer nokkuð eftir veðurlaginu að öðru leyti - sé vindur hægur og nái sól eitthvað að skína verður þetta ekki svo slæmt - en í bleytu og vindi er annað uppi á teningnum.
Svo getum við auðvitað vonað að spáin sé einfaldlega röng - nú eða tautað eitthvað um að verra gæti það verið (sem það svo sannarlega gæti).
3.8.2017 | 23:47
Skýjasveipur yfir Austurlandi
Nú í kvöld (fimmtudag 3. ágúst) var skýjasveipur yfir landinu austanverðu - áberandi á gervihnattamyndum.
Mynd af vef Veðurstofunnar frá kl. 21:56. - En á sjávarmálskortum er lítið sem ekkert að sjá.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar á 4 hPa bili - varla línu að finna við landið - 1008 hPa hringar sig þó á Suðurlandi vestanverðu. Rigningarbakki er yfir Vestur-Skaftafellssýslu og teygir sig til norðurs og suðurs. Sjálfvirkar úrkomumælingar staðfesta legu bakkans.
En þegar litið er upp mitt veðrahvolf sést hvers kyns er.
Þar má sjá allgerðarlegan kuldapoll - miðja hans og miðja sveipsins á myndinni falla einkar vel saman. Frostið í miðjum pollinum er meira en -24 stig - en hlýrra er til allra átta.
Pollurinn er hvað öflugastur við veðrahvörfin. Það sést vel á 300 hPa-kortinu, í rúmlega 9 km hæð.
Hér er kerfið orðið hið gerðarlegasta. Hér er 300 hPa-flöturinn ofan veðrahvarfanna og þau hafa dregist niður yfir kuldapollinum - sá niðurdráttur veldur hærri hita í miðju kerfisins en fyrir utan það - einmitt yfir kuldanum sem undir er. Þessi samhverfa pörun kulda og hlýinda veldur því að ekkert þrýstikerfi sést við sjávarmál. - Sama á við mun minni poll við austurströnd Grænlands.
Mikill kuldapollur yfir Norðuríshafi er þessa dagana að verpa hverju kuldaegginu á fætur öðru og skýtur í átt til okkar. Það vil bara svo til að þessar sendingar eru ekki mjög stórar - en alveg nógu stórar ef út í það er farið - og þyngjast sjálfsagt er frá líður.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 29
- Sl. sólarhring: 128
- Sl. viku: 2476
- Frá upphafi: 2434586
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 2200
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010