Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Enn um AMO (en í mæðutón)

Hér má lesa um mæðu þá sem ritstjóri hungurdiska hefur af ágangi amo-vísisins svonefnda. Ekki hefur hann þó neitt sérstakt á móti vísinum sjálfum - . 

Pistillinn líður nokkuð fyrir það að vera eins konar viðhengi við fyrri amo-pistil, þann frá 10. maí 2016 - kannski rétt að lesendur kynni hann sér fyrst muni þeir ekki eftir honum - sjá viðhengið hér að neðan. 

Í gamla pistlinum voru sýndar myndir sem byggðar voru á „hrágildum“ amo-vísisins. Á netinu er hins vegar algengast að sjá myndir af röðinni eftir að hnattræn hlýnun hefur verið numin á brott úr henni. Það er reyndar óþarfi að nota orðalagið „hnattræn hlýnun“ í þessu sambandi heldur ætti e.t.v. að segja að sá þáttur raðarinnar sem hefur fylgni við ártalið (tímans rás) sé numinn á brott. - En þessi þáttur er mjög stór miðað við almennan breytileika vísitölunnar eins og við munum komast að hér að neðan. 

Í fyrra pistli var hrái amo-vísirinn borinn saman við ársmeðalhita í Stykkishólmi, bæði einstök ár sem og tíu ára meðaltöl. Fylgni þessara raða var nokkur - en því haldið fram að hluti hennar stafaði af sameiginlegri leitni þeirra við tímans rás. 

Við skulum nú líta á leitnilausu raðirnar - fyrst ársgildin.

w-blogg-amo_a 

Lárétti ásinn sýnir leitnilausa amo-vísinn, en sá lárétti hita sama árs í Stykkishólmi. Fylgnin er að vísu marktæk (fylgnistuðull 0,28), en þó svo lítil að segja má að staða amo-vísisins skýri nánast ekki neitt af breytileika Stykkishólmshitans. Amo-vísirinn er t.d. hæstur árið 1878, en það ár er neðan meðallags leitnilausa Stykkishólmshitans. - En góður vilji sér samt eitthvað samband - enda er Ísland innan hins (óljósa) skilgreiningarsvæðis amo-vísisins. 

Ef við tökum mörg ár saman batnar sambandið talsvert - verður umræðuvert. Það sést einna best með því að setja 10-árakeðjur raðanna tveggja á sömu mynd. 

w-blogg-amo_b

Blái ferillinn (vinstri kvarði) sýnir amo-vísinn, en sá rauði (hægri kvarði) ársmeðalhitann í Stykkishólmi (athuga að hér er um leitnilausa hitann að ræða). Ritstjóri hungurdiska hefur reynt að fella kvarðana saman þannig að spönnin líti svipað út fyrir báða ferla. 

Þeir sýna báðir tuttugustuldarhlýskeiðið mikla sem og hlýindin í upphafi 21. aldar. En á 19. öld er samræmið harla lítið (ekkert reyndar), auk þess er nokkur smáatriðamunur á ferlunum - sé leitað. Til dæmis kólnar nokkuð í Stykkishólmi á miðju hlýskeiðinu gamla - en amo-vísirinn fellur þá ekki neitt. Amo-vísirinn fer hins vegar að leita upp á við á undan Stykkishólmshitanum í lok kuldaskeiðsins síðasta. Stykkishólmshitinn tekur við sér aðeins á undan amo-vísinum í upphafi hlýskeiðsins gamla - en sú túlkun gæti verið afleiðing af því hvernig myndin er gerð. 

Við vitum að hlýskeið var hér á landi um og fyrir miðja 19. öld (utan við þessa mynd, amo-vísirinn nær aðeins aftur til 1856) - það kemur sérlega vel fram í leitnilausa hitanum. Hvernig skyldi amo-vísirinn hafa verið þá? Hafi hann verið hár spillist „taktur“ vísisins mjög - en hafi hann aftur á móti staðið lágt verður samband hans við 10-árakeðju ársmeðalhita í Stykkishólmi enn verra en það sem við þó sjáum á þessari mynd. 

Það er furðulegt (og ískyggilegt) til þess að hugsa að myndir eins og sú hér að ofan séu blákalt notaðar til þess að fullyrða eitthvað um framtíðina. Er í raun og veru hægt að segja út frá þessari mynd að amo-vísirinn sveiflist reglubundið milli há- og lággilda á 50 til 70 ára fresti? Er hægt að fullyrða að næsta lágmark verði jafnlangt frá því síðasta og tíminn er á milli lágmarkanna á þessari mynd og þar að auki að það verði jafnstórt? 

Hvernig í ósköpunum er hægt að fullyrða um þróun hitafars í Stykkishólmi á grundvelli hugsanlegra breytinga á amo-vísinum þegar við sjáum svart á hvítu að Stykkishólmshitinn vissi nákvæmlega ekki neitt um meint amo-hámark á 19. öld? Hér er orðalagið „meint hámark“ notað vegna þess að sjávarhitamælingar á 19. öld eru sérlega óvissar (en á þeim byggir amo-vísirinn). Það er alveg hugsanlegt að nítjándualdar amo-hámarkið sé hreinn og beinn skáldskapur þeirra sem vilja endilega sjá þriðju „reglubundnu“ sveifluna. Ritstjóri hungurdiska vill reyndar ekkert um það fullyrða - vel má vera að þetta hámark sé raunverulegt - og við skulum trúa því. 

Myndin hér að ofan - (eða aðrar ámóta) eru sýndar okkur til óbóta á netinu. Með þeim sýningum fylgir oftast eitthvað hjal um markleysi hnattrænnar hlýnunar. Langoftast er það leitnilausa gerðin sem valin er til sýningar - hin almenna hlýnun sést ekki á henni - flestir sýningarstjórar virðast ekki gera sér grein fyrir brottnáminu né ástæðum þess. Við skulum líta aftur á hráa vísinn okkur til heilsubótar. 

w-blogg-amo_c

Hér eru 10-árakeðjur hráa amo-vísisins og Stykkishólmshitans - ásamt reiknaðri leitni þess fyrrnefnda - hann hefur stigið um 0,4 stig á tímabilinu. Það er ámóta og hin almenna sveifluspönn hans. Lágskeiðið síðasta tekur ámóta gildi og háskeið 19.aldar. Leitnin jafnar - eða jafnvel yfirgnæfir sveiflurnar. - Við megum líka taka eftir því að fyrri tvö amo-hlýskeiðin sem við sjáum á myndinni stóðu hvert um sig í um 30 ár (lengd flatneskjunnar á toppi þeirra), það núverandi hefur ekki enn náð 20 árum. Hvers vegna eru þeir sem eru að halda fram reglubundnum sveiflum jafnframt að halda því fram að núverandi háskeiði sé lokið - hvers vegna skyldi núverandi háskeið verða eitthvað styttra en hin fyrri? - Það getur svosem vel verið að það verði það um það vitum við einfaldlega ekki neitt - það gæti líka orðið enn lengra. 

Töluleg leitni eða greining á tveimur sveiflulágmörkum og 2 og hálfu hámarki geta aldrei orðið grundvöllur einhverra framtíðarspádóma. Eðli leitninnar og sveiflnanna - hvors þáttar um sig - er þó misjafnt. Leitnina má e.t.v. skýra með þeim miklu breytingum sem orðið hafa á geislunareiginleikum lofthjúpsins sem og breyttri landnýtingu - það er alla vega einhver vitleg eðlisfræði að baki þeim skýringum. Þessar breytingar halda áfram - líkur á því eru yfirgnæfandi - við kunnum hins vegar varla full skil á afleiðingum þeirra. Sveiflurnar sem myndirnar sýna eru hins vegar óskýrðar - en alveg raunverulegar samt. Langlíklegast er að þær séu í raun óreglulegar en ekki reglubundnar - afleiðing flókins samspils fjölmargra stýriþátta. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útrás úr Norðuríshafi

Að undanförnu höfum við gefið gaum miklum kuldapolli sem haldið hefur sig í námunda við norðurskautið stóran hluta júnímánaðar. Nú bregður svo við að hann sleppur úr búri sínu og virðist ætla að fara suður með vesturströnd Grænlands næstu vikuna eða svo. 

w-blogg290617a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina kl.18 á laugardag 1. júlí, að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kuldapollurinn sést vel við Vestur-Grænland - en hefur ekki enn náð til helstu byggða á Grænlandi. 

Nú er það svo að útrásir sem þessar úr íshafinu eru ekki endilega sjaldséðar þegar á heildina er litið, en samt sjaldséðar á hverjum einstökum stað sem fyrir þeim verður. Ritstjóri hungurdiska verður að játa að hann er ekki með tíðni kuldakasta sem þessara á Vestur-Grænlandi sjálfvirkt kvarðaða í hausnum og getur því lítið sagt um það hversu óvenjulegt þetta er. Evrópureiknimiðstöðin telur þetta þó vera með mestu kuldum á þessum slóðum í fyrrihluta júlímánaðar - það tímabil sem þeirra viðmið nær yfir (20 ár). 

Til allrar hamingju verndar Grænlandsjökull okkur fyrir því versta - en við sleppum samt ekki alveg. Það má ráða af kortinu hér að neðan.

w-blogg290617b

Litirnir á kortinu sýna vik þykktar næstu tíu daga (29. júní til 9. júlí) frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, en strikalínur meðalþykkt í 10-daga spánni, 5370 til 5400 metra hér við land. Það er svosem ekkert hættulega kalt, en samt um 80 metra undir meðallagi við Vestfirði. Slíkt vik er mikið - setjandi svip sinn á veður í tíu daga - trúlega þá meira einhverja dagana. 

Nú samsvara 20 metrar nálægt einu stigi, -80 metrar segja þá að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verði um 4 stigum undir meðallagi þessa tíu daga. Vikin verða væntanlega (eða vonandi alla vega) minna í jarðneskum sveitum. 

Þegar þetta er ritað er ekki gert ráð fyrir sérlegum illviðrum hér á landi samfara svalanum - ritstjórinn er hálfhissa á því - vonandi rætast þær spár. 

Það má þó segja að gott sé að losna við kuldann úr íshafinu - og að við verðum ekki í beinni braut hans - það tekur stund að búa hann til aftur. 

Að lokum lítum við á útgilda- og halavísa evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir hita sunnudagsins. Ég þakka Bolla Pálmasyni fyrir að galdra þessa mynd fram úr iðrum reiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg290617c

Báðir vísarnir mæla hversu „óvenjulegu“ veðri er verið að spá. Bláu svæðin sýna útgildavísinn - á dökkfjólubláu svæðunum heggur nærri kuldametum árstímans (miðað við síðustu 20 ár) - en á þeim dökkbrúnu er hiti nærri hámarkshitametum. Heildregnar línur (sjást ef rýnt er í fjólubláa svæðið) sýna svokölluð halagildi (halavísi) - við skýrum þau ekki frekar hér, en látum þess þó getið að allt sem nær hærra tölugildi en 2 telst mjög óvenjulegt. Hér er hæsta talan í fjólubláa svæðinu 1,7. Það er hátt. - Daginn eftir (mánudag) má á samsvarandi korti sjá halavísinn fara upp í 2,4 - en það er uppi á Grænlandsjökli - þar eru öll hitameðaltöl líkana harla vafasöm og við gerum ekki tíðindi úr slíku - en ritstjórinn mun hins vegar fylgjast vel með hvernig spárnar þróast. Honum veitir ekki af að bæta við reynslu sína í túlkun þessarar nútímavéfréttar. - Skyldu véfréttir fornaldar hafa notað halavísa? 


Svipuð staða í norðurhöfum

Staða veðurkerfa í norðurhöfum er enn svipuð og var fyrir rúmri viku. Öflug háloftalægð situr sem fastast í námunda við norðurskautið - en grynnist þó heldur.

w-blogg250617a

Hér má sjá spá bandarísku veðurstofunnar sem gildir kl. 18 á morgun, mánudag 26.júní. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við viljum helst vera í gulum eða brúnum litum á þessum tíma árs, en meðaltal síðustu 20 ára (fyrir síðustu viku júnímánaðar) er þó um 5440 metrar - rétt græna megin við litaskilin - en þau eru sett við 5460 metra. 

Daufasti græni liturinn er því ekki svo mjög kaldur - en er samt meinað að gefa einhver hlýindi sem hægt er að tala um nema rétt sunnan undir vegg í síðdegissól og logni. En hinir grænu litirnir eru ókræsilegri sem sumarvöllur. 

Kuldinn norðurundan er frekar ógnandi að sjá, en sem stendur eru langtímaspár ekki að senda hann beint til okkar (eins og bar við að þær gerðu fyrir nokkrum dögum). Í langtímaspánum eru annars þau tíðindi helst að kuldinn fari e.t.v. til suðurs fyrir vestan Grænland - slík hegðan gæti kallað fram veðrabreytingu hér á landi - á hvorn veg sem er. - Það verður bara að koma í ljós.

Eins og sjá má af kortinu er sæmilega hlýtt yfir Grænlandi og í spám má sjá yfir 20 stiga síðdegishita bæði í innsveitum í kringum Syðristraumfjörð og í Vestribyggð hinni fornu á Grænlandi, í dag, á morgun og e.t.v. aðeins lengur. Væntanlega eru það dagar af þessu tagi sem gerðu Vestribyggð byggilega á sinni tíð. En þar hafa margskonar vandræði í veðri þó plagað - vetrarkuldar ekki verstir. Kannski frekar vorþurrkar og almennt sumarsprettuleysi á velli. Ætli grænlenskur gróður sá sem aðlagaður var slíku - og þurfti ekki vætu árlega hafi ekki smám saman verið uppnagaður í námunda við byggðina af stöðugri vetrar- og vorbeit. 

Einkennileg er alltaf frásögn Ívars Bárðarsonar úr Vestribyggð - búfé sást í haga - en ekkert fólk. Hálfvillt búfé hefur kannski fundið eitthvað sér til viðurværis árum- og áratugum saman eftir að vitlegur búrekstur varð ómögulegur - hjörðum varð ekki haldið saman. 

En hér er ritstjóri hungurdiska kominn langt út fyrir sitt vit - biðst forláts og snýr við aftur - inn á gróskumikla veðurbithaga sína. 


Er kalt? Eða er kannski hlýtt?

Það vekur nokkra furðu meðal eldri veðurnörda að talað sé um núlíðandi júnímánuð sem kaldan hér í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska er meðal þeirra - finnst mánuðurinn hafa verið nokkuð hlýr. Hvað skyldi valda misræmi sem þessu? 

Almennt er engin bindandi skilgreining á því hvað er kalt og hvað er hlýtt. Það hlýtur þó að einhverju leyti að ráðast af því við hvað er miðað. Ekki er fráleitt að taka mið af því sem „venjulegt“ er á þeim tíma árs sem fjallað er um. 

Oft er þar litið til svonefndra þriðjungamarka. Búinn er til listi yfir viðmiðunaratburði, í þessu tilviki mánaðarmeðalhita. Listanum er raðað eftir hita og skipt jafnt á þriðjunga. Lendi mánaðarmeðalhiti í efsta þriðjungi er sá mánuður talinn hlýr - lendi hann í neðsta þriðjungi er hann talinn kaldur, en afgangurinn (líka þriðjihluti fjöldans) er talinn í meðallagi. 

Eins og viðbúið er skiptir hér máli hvaða tímabil er miðað við. Í ljós kemur að í tilviki júníhita í Reykjavík skiptir það afgerandi máli. 

Lítum á mynd.

Þriðjungamörk júníhita í Reykjavík

Lóðrétti ásinn sýnir mánaðarmeðalhita, en sá lárétti lengd viðmiðunartímabils - árafjöldi afturábak frá 2016. Árin 9, 2008 til 2016, eru notuð sem fyrsta tímabil. Þá telst hiti undir 9,9 stigum lágur (í þriðjungaskilningi), en yfir 10,9 stigum hár. 

Myndin sýnir vel að júnímánuðir síðustu 15 ára hafa verið mjög afbrigðilegir sé litið til lengri tíma. Hér á árum áður taldist júní hýr ef hiti náði 10 stigum og ekki kaldur nema meðalhiti væri undir 9 stigum. 

Nú vitum við ekki hvernig fer með júní í ár. Þegar þetta er skrifað lifa rúmir 8 dagar af mánuðinum. Meðalhiti fyrstu þriggja viknanna er 10,0 stig í Reykjavík. Segjum sem svo að sá hiti haldist til mánaðamóta. Þá kæmi upp sú staða (þykka línan á myndinni) að mánuðurinn teldist kaldur ef við veljum síðustu 15 ár sem viðmiðunartímabil, í meðallagi ef við veljum 9 eða 12 ár, eða allt að 40 árum (nema 15), en sé miðað við lengri tíma en 40 ár (eins og við gamalnördin gerum) telst hann hlýr. 

Núlíðandi júnímánuður er að tiltölu hlýjastur suðvestanlands, annars staðar er hann kaldari, nægilega kaldur til þess að hann á varla möguleika á að teljast hlýr jafnvel þótt gripið sé til langrar reynslu - aftur á móti á hann enn möguleika á að teljast í meðallagi (að þriðjungatali) sé langt viðmiðunartímabil notað. Á Akureyri stendur mánuðurinn nú í 52. sæti af 82 á lista, rétt ofan neðri þriðjungamarka - og þar með í meðalástandi. Neðri þriðjungamörk júnímánaðar alls eru hins vegar 8,6 stig þar á bæ, 0,3 stigum ofan við meðalhita fyrstu þriggja viknanna. 

En af þessu má e.t.v. draga þann lærdóm að veðurfarsbreytingar séu farnar að hafa áhrif á væntingar heilla kynslóða - og þær virðist jafnvel meiri innanhugar en utan - og stundum finnst manni þær jafnvel mestar hjá þeim sem reyna að gera lítið úr utanhugarbreytingunum - en það er kannski útúrsnúningur. 


Hitabylgjuvísir

Á dögunum (16. júní) var hér fjallað um árstíðasveiflu „tíustigavísitölunnar“. Við skrúfum nú mörk hennar upp í 20 stig og köllum hitabylgjuvísi. Vísir þessi hefur alloft komið við sögu hungurdiska - en í lagi að athuga árstíðasveiflu hans og sömuleiðis hvernig hann hefur staðið sig síðan síðast var á minnst (t.d. 26. júní 2012). 

Fundið er hversu hátt hlutfall stöðva (á láglendi) mælir hámarkshita dags 20 stig eða meira. Hér er mælt í þúsundustuhlutum.

Fyrsta myndin sýnir meðalvísi einstakra almanaksdaga.

Hitabylgjuvístala - árstíðasveifla (meðaltal)

Blái ferillinn sýnir meðaltal sé miðað við sjálfvirku stöðvarnar, en sá rauði miðar við þær mönnuðu. Á sjálfvirku stöðvunum er miðað við 1997 til 2016 en á þeim mönnuðu farið aftur til 1949. Ástæða þess að blái ferillinn liggur ofar er einkum sú að sumur síðustu 20 ára hafa verið hlý miðað við það sem áður gerðist.

Að vori hefur hiti ekki farið yfir 20 stig fyrir 29. mars, og ekki eftir 26. nóvember að hausti. Merkingin á lárétta ásnum miðar við 15. hvers mánaðar. Við sjáum að tíðni 20 stiga hita tekur nokkurn kipp snemma í júní, og að hann er almennt langalgengastur síðari hluta júlímánaðar - eftir það fækkar tilvikum - og mjög mikið eftir miðjan ágúst. 

Hitabylgjuvístala - hæstu gildi einstaka daga

Næsta mynd sýnir hæstu vísa einstaka daga. Rauði ferillinn (mönnuðu stöðvarnar) er oftast ofan við þann bláa. Langlíklegasta skýringin á því er mislengd tímabilana. Líkur á að hitta á mjög háan vísi vaxa með lengri tíma. Hefðum við gögn frá síðustu 200 árum yrði ferill sem byggðist á þeim enn ofar. 

Við getum líka reiknað summu allra vísa einstakra daga heilu árin og borið saman. - Það höfum við reyndar gert áður hér á hungurdiskum.

Hitabylgjur - árssummur

Hér er það blái ferillinn sem sýnir gögn mönnuðu stöðvanna, en sá rauði þau sem byggjast á sjálfvirku stöðvunum. Við sjáum að stöðvakerfunum ber vel saman - hitabylgjurýr ár falla saman - og sömuleiðis þau hitabylgjugæfu. 

Það er mjög áberandi hversu þessi öld og reyndar allur tíminn frá 1997 hefur lengst af verið hitabylgjugæfur miðað við það sem áður var. Á nýju öldinni er það einkum sumarið 2001 sem sker sig úr í rýrð ásamt því að síðustu tvö ár (2015 og 2016) hafa líka verið rýr hvað hitabylgjur snertir. 

Ekkert vitum við enn um sumarið 2017 - nema hvað það hefur þegar safnað 450 stigum (í maí) - og að hiti hefur enn ekki náð 20 stigum á landinu í júní - en enn er von. Júnímánuður hefur ekki verið tuttugustigalaus á landinu síðan 1987. Það er sjálfsagt tilviljun, en maímánuður það ár var sérlega hitabylgjugæfur rétt eins og maí nú. 


Frá skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar

Ýmislegt undarlegt sést í framtíðarspám reiknimiðstöðva - flest það óvenjulegasta er einfaldlega rangt og gengur ekki eftir. En veðurnörd hafa af því töluverða ánægju að fylgjast með öllum fyrirganginum - þó óraunverulegur sé. 

Tilfinningin er sú að hitabylgjur - sem svo ekkert verður úr - séu algengari en kuldaköst í 8 til 10 daga spám, en kuldaköst - sem aldrei verða neitt - aftur á móti í 4 til 7 daga spánum. Þetta er þó aðeins tilfinning ritstjóra hungurdiska - ekki raunhörð staðreynd. 

Nú bregður svo við að boðið er upp á snarpan kulda í sjödagaspá hádegisrununnar í dag (20. júní). 

w-blogg200617a

Kuldapollurinn sem hér er settur við Vesturland eftir viku á að koma hratt úr norðri - þar sem kuldapollavirkni er með þroskaðasta móti um þessar mundir. Við sjáum bláan lit í miðju hans, þykktin er þar minni en 5280 metrar. Svo lágar tölur eru sjaldséðar hér við land eftir sólstöður og vel frameftir ágústmánuði. Ekki þó dæmalausar - jónsmessukastið fræga 1992 var sýnu efnismeira en þetta sem hér er brugðið upp. Þá snjóaði í efstu byggðum á höfuðborgarsvæðinu. - Fleiri dæmi má finna sé skinnið skafið. 

En við skulum ekki taka þessari spá mjög alvarlega fyrr en nær dregur - þangað til telst hún eingöngu á vegum skemmtideildar evrópureiknimiðstöðvarinnar. 


Fornís - hvað varð um hann (ef eitthvað)?

Hér kemur mikil langloka - ekki fyrir hvern sem er. Við skulum byrja á því að líta á mynd 4 í ritgerð (bók) Lauge Koch um Austurgrænlandsísinn (skýrara eintak í viðhengi). 

koch_fig4

Myndin sýnir hugmynd Koch um „tegundaflokkun“ íssins í Norðuríshafinu, Síberíuís, Norðurskautsís og svo Fornís („Paleorystic“). Koch taldi að hingað til lands kæmu þá þrjár aðaltegundir hafíss. Í fyrsta lagi vetrarís sem myndast hefði sama ár í Austurgrænlandsstraumnum, (eldri ís myndaður þar er þá farinn hjá til Suður-Grænlands), í öðru lagi fjölær ís myndaður við Síberíu og í þriðja lagi þykkari og enn eldri fjölær ís frá svæðinu um norðurskautið. 

Norðurskautsísinn væri upprunninn í ferskvatni frá Norður-Ameríku, en Síberíuísinn úr fljótum Austur-Síberíu. Á síðari árum hefur komið í ljós að töluvert er um hvirfla og iður í straumnum sem kemur út um Framsundið (milli Grænlands og Svalbarða) og í Austurgrænlandsstraumnum - og fullyrt er að þær blandi saman ístegundum þannig að Norðurskautsísinn komist þar jafnvel austur fyrir Síberíuís - og að allt lendi í einum graut. Jafnstreymi Kochs eigi sér ekki stað í raunveruleikanum. 

Koch taldi Síberíuís mun algengari hér við land heldur en Norðurskautsísinn. 

Til allrar hamingju (fyrir okkur) hefur lítið sést af ís hér við land um áratuga skeið - og minna en svo að nokkur geti lengur greint hér hvaðan að ís kemur - sé hann eldri en nokkrir mánuðir. Það litla sem hér hefur sést er einæringur. 

Á þessari öld hafa orðið gríðarmiklar breytingar í norðurhöfum - bæði Síberíuísinn og Norðurskautsísinn (hafi þeir verið aðgreinanlegir á annað borð) hafa „yngst“ og þar með þynnst. 

Á nítjándu öld var uppi önnur staða. Ís var að vísu lítill sem enginn hér við land í sumum árum og jafnvel mörg ár í röð, en oftar dvaldi hann lengi við og menn gátu í raun og veru greint einhverjar tegundir að. 

En þá er það þriðja Norðuríshafsístegund Koch - fornís. Orðið sem hann notar (paleocrystic = fornfrosinn) mun komið úr leiðangri Nares sjóliðsforingja en hann fór á tveimur skipum eins langt og komist varð norður með vesturströnd Grænlands. Sundið milli Grænlands og Ellesmereeyju er nú nefnt eftir honum. 

Menn úr leiðangrinum komust norður fyrir Ellesmereeyju og rákust þar á einkennilegan ís - öðru vísi en þeir höfðu áður séð. Til er fræg mynd af slíkum ísjaka sem gengið hafði á land þar á ströndinni. Myndin (plate xii) er fengin úr bókinni „Shores of the Polar Sea“ eftir leiðangursmanninn Edward Moss. Bók þessi er aðgengileg á netinu. 

moss_pl-xii1876-04-xx

Í fljótu bragði virðist hér um borgarís að ræða. Borgarís er að uppruna úr jöklum sem kelfa í sjó fram. - Í skýringartexta kemur hins vegar mjög skýrt fram að hér er um hafís að ræða („saltís“). Moss segir hér um að ræða brot úr fjölæringi sem liggi þar undan ströndinni og undrast (að vonum) þá krafta sem þurft hefur til að koma þessu flykki langt upp á ströndina. Var það víst umræðuefni tedrykkjumanna á myndinni. 

Leiðangursmenn höfðu uppi kenningar um myndun þessa íss - sem greinilega var áratugagamall - jafnvel aldagamall að þeirra mati. Nafnið „paleocrystic“ varð ofaná - „archaiocrystic“ kom víst einnig til greina - en þótti ívið of smásmugulegt („pedantic“). 

Önnur bók var einnig rituð um leiðangurinn. „The Great Frozen Sea“ eftir Albert Hastings Markham. Þar er margt merkilegt að finna - m.a. er fjallað um kröfur sem gerðar voru þegar leiðangursmenn voru valdir. Áhersla var lögð á að þeir kynnu að skemmta öðrum. Hljóðfæraleikarar komust því frekar með en hljóðfæralausir og skáldmæltir frekar en þumbaralegir. Fram kemur að haldnar voru reglulegar kvöldvökur - með söng og ljóðaflutningi. M.a. var flutt verkið „Grand Palaeocrystic Sledging Chorus“ - ljóðabálkur eftir „lárviðarskáld“ leiðangursins - er hann birtur í heild sinni í bókinni.

nv-grænland_kalallit-nunaat-atlas

Kortið hér að ofan sýnir Nares-sund og nágrenni - því er nappað úr ágætri grænlenskri kortabók, „Kalaallit Nunaat Atlas“ - birt hér til að næsta mynd verði skýrari. Sú er fengin úr ritgerð (1925 - sjá nánari tilvísun í lok pistilsins) Lauge Koch um ferð hans um þessar slóðir 1921.

koch_fig1-1925

Nokkuð óskýr - en þarna er fornísinn samt vendilega merktur norður af Ellesmereeyju (Grant Land) allt austur að nyrsta hluta Grænlands (Peary Land). Nyrst í Naressundi er sérmerkt svæði þar sem Koch segir fornís ríkja í sumum árum (t.d. slapp talsvert af fjölæring ís þarna í gegn nú í vetur - takk fyrir ábendinguna Björn Erlingsson). 

En er sá fjölæringur sem þarna er núna sá sami og var á tíð Koch og Nares? Hvað er eiginlega þessi ís sem teikningin í riti Moss sýnir? Er hann enn á þessum slóðum? 

Þegar orðinu „paleocrystic“ er flett upp í nútímaritum kemur í ljós að varla er á hreinu hvað er á ferðinni. Venjulega talinn að minnsta kosti tíu ára gamall - segir í skilgreiningu bandaríska veðurfræðifélagsins - en sé farið að fletta greinum fara skilgreiningar nokkuð á flot. Það ætti kannski einhver að taka þetta saman. 

Í ritgerðinni (frá 1925) nefnir Koch fjórar tegundir hafíss á þessum slóðum. Hér er ekki rúm til að rekja það allt saman - en greinilega um vandasamt mál að ræða sem fljótt rennur út í vitleysu sé ekki afskaplega verlega farið. Við skulum samt nefna þessa fjóra flokka:

1. Sikussak-ís. Mun vera grænlenska og þýða „mjög gamall ís“. Koch skilgreinir hann nákvæmlega - en þeirri skilgreiningu hefur ekki endilega verið fylgt síðar - sést hefur að sikussak og fornís sé ruglað saman.

2. Fjölæring (Mangeaarig Havis) skilgreinir Koch sem hafís sem legið hefur í meir en fimm ár, en minna en 20. 

3. Vetrarís (orðinn til á fjörðum Grænlands og liggur þar jafnvel árum saman).

4. Fornís (paleocrystic). Þetta er ís eins og teikning Moss sýnir. Koch telur hann vera eins konar ísþrýsihryggjasambreyskju orðna til í flóknu straumakerfi milli lands og þess svæðis sem merkt er á myndinni að ofan sem „The Big Lane“ - nafn sem Peary gaf því svæði þar sem ákveðinn straumur ber norðurskautsís til Atlantshafs.- Allt öðru vísi yfirferðar en hitt sem nær er landi.  

Samkvæmt þessu öllu mætti ráða að fornís sé fjölæringur - sem þykknað hefur af átökum frekar en að hann hafi jafnt og þétt bætt á sig frá ári til árs (sem Naresmenn töldu). 

Í ágætri bók, „On Sea Ice“ eftir W.F. Weeks - (líklega þeirri ítarlegustu sem ritstjórinn hefur séð um hafís) er minnst á fornísinn - þar er hann tengdur ísgerð sem er nefndur „stamukha“ upp á rússnesku - forvitnir lesendur eru hvattir til að kynna sér ísgerð þessa. 

Í mjög fróðlegri ritgerð „Arctic Ocean Glacial History“ (sjá tilvísun) er líka minnst á fornís og þá á ísöld. Sá möguleiki nefndur að uppbrot hans hafi raskað sjávarhringrás á Yngra-Dryas skeiðinu kalda í lok ísaldar. 

En hafa fornísjakar nokkru sinni komist til Íslands? Lítið er hægt um það að fullyrða, en áhugaverð eru samt skrif Bjarna Thorarensen 1840 (sjá bréfasafn Bjarna 7. október):

„... en þaraðauki hefir sá fjarskalegi ís sem hingað hefir í ár komið verið annars eðlis en hin árin, því flatísinn hefir verið miklu þykkari og þaraðauki komið með honum borgajakar sem menn segja að hafi staðið botn á 6tugu og 8ræðu djúpi!. Hann er því langt að kominn kannské frá sjálfum Nástrandar Dyrum, og ekki ólíklegt að það sé losnað sem losnað getur“. 

Bjarni greinir að „flatís“ og „borgarís“. Borgarísinn sem hann nefnir gæti verið sá venjulegi - nema hvað óvenjulegt er að mikið sé af honum hér við land samfara hafís. - En flatísinn segir hann miklu þykkari en venjulega og greinir hann frá hinum venjubundna. Ekki er ástæða til að rengja Bjarna. Varð eitthvað los við „Nástrandar dyr“? Hvað getur komið út um Framsundið? 

Langt er í frá að við þekkjum ísasögu norðurslóða til nokkurrar hlítar - og þá atburði sem þar geta orðið. Við vitum í raun lítið hvað getur gerst í norðurhöfum. 

 

Tvær tilvísandir, auðfundnar á netinu - bækur þeirra Moss og Markham eru þar líka og óþarfi að vísa nánar til þeirra - nöfnin nægja. 

Jakobsen og félagar, 2014, „Arctic Ocean Glacial History“ Quaternary Science Reviews 92,  s 40-67

Koch, 1925. De videnskabelige Resultater af Jubilæumsexpeditionen Nord om Grønland. Rapport II: Glaciologi. Geologisk Tidskrift, 28. s.139-152


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tveir kuldapollar

Hér segir af tveimur kuldapollum. Annar er við norðurskaut en hinn vestur af Grænlandi.

w-blogg170617a

Myndin sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á mánudagsmorgni 19. júní. Ísland er alveg neðst á myndinni, en norðurskautið nærri miðju. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þær segja til um vind og vindhraða, en þykktin er merkt í lit. Því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs.

Grænu litirnir þrír eru áberandi - hið eiginlega sumar ekki áberandi á kortinu. Að meðallagi er þykkt við Ísland um 5430 metrar á þessum tíma árs - ljósasti græni liturinn. - En spáin er í miðgrænu, um 60 metrum neðar en meðallag - hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 3 stig undir meðallagi. - Ekkert sérlega skemmtilegt (en gæti verið verra). 

Rauðu örvarnar tvær benda á kuldapollana sem vísað er til í fyrirsögninni. Sá sem er fyrir vestan Grænland virðist vera á leið til austsuðaustur og síðar austurs. Hann mun á einn eða annan hátt ráða veðri hér á landi mestalla næstu viku. Þegar hann gengur inn á Grænlandshaf - á þriðjudag sé að marka spár - ryðst eitthvað hlýrra loft að okkur úr suðri (hiti gæti þá náð 20 stigum norðaustanlands í fyrsta skipti í mánuðinum) - en bara tímabundið - því kaldur kjarni pollsins heldur svo áfram til austurs í átt til okkar og loks framhjá skammt frá landinu. Reiknimiðstöðvar eru enn ekki alveg sammála um hversu leiðinlegt veðrið verður - en rétt að nota vel þær góðu stundir sem þó stinga upp kollinum við og við. 

Kuldapollurinn við norðurskautið er mun öflugri. Því hefur verið haldið fram (ekki endilega með réttu) að svona sumarpollar hafi verið óvenjualgengir á síðari árum. Þeir hringsóla um íshafið og nái þeir tímabundið í hlýrra loft verða til mjög djúpar lægðir. Eins og fjallað hefur verið um áður hér á hungurdiskum (við svipað tilefni) verja pollarnir ísinn á þessum árstíma - og svo lengi sem jaðarís  meðfram Síberíu hefur ekki bráðnað að marki. - En nái þeir sér á strik í ágúst eyða þeir ís. - Líklega eykur ástandið nú viðnámsþrótt þess þunna íss sem liggur yfir íshafinu (nema að hann sé að bráðna að neðan eins og sumir halda fram - margir óvissuþættir í því dæmi öllu). 

En þessi kuldapollur á að lifa áfram - kannski þar til honum verður beinlínis sparkað út af vellinum (vonandi ekki til okkar). Varlegt er að trúa spám mjög langt fram í tímann - þær eru oftast vitlausar - en skemmtiefni er í þeim að finna. Síðasta spáruna evrópureiknimiðstöðvarinnar býr t.d. til 959 hPa lægð við norðurskautið eftir rúma viku. 


Af tíustigavísitölunni

Ritstjóri hungurdiska reiknar á hverjum degi fáeinar hitavísitölur fyrir landið. Eina þeirra kallar hann tíustigavísitöluna. Hún greinir frá því hversu hátt hlutfall veðurstöðva í byggð tilkynnir að hámarkshiti sólarhringsins hafi komist í 10 stig eða meira. Notast er við þúsundustuhluta, vísitalan 1000 segir að 10 stig eða meira hafi mælst á öllum stöðvum, núll að 10 stig hafi hvergi mælst. Talan 500 segir að 10 stigum hafi verið náð á helmingi stöðvanna. 

Til hvers er verið að þessu, kann einhver að spyrja. Ekki er til skothelt svar við þeirri spurningu. Forvitni kannski - eða veðureftirlitsfíkn á háu stigi? Sé hún til hlýtur hún að vera skárri heldur en flestar aðrar eftirlitsfíknir nútímans - kannski mun þó upp rísa draugur leyndarhyggju sem gerir eftirlit af þessu tagi útilokað. Alla vega er aðgangur að veðurathugunum víða mjög takmarkaður (hvers vegna veit enginn) - veðureftirlitsfíknin er eftir allt saman talin óæskileg.

En nú hefur ritstjórinn tekið saman yfirlit um árstíðasveiflu tíustigavísitölunnar (og mega nú áhugalausir fara að krossa sig í bak og fyrir).

En það má upplýsa að upphaflegur tilgangur tíustigavísutölureikninga ritstjórans var að geta betur fylgst með óvenjulegum hlýindum að vetri. Sérstök hlýindi að sumarlagi veiðir hitabylgjuvísitala hans. 

w-blogg160617a

Á lárétta ásnum má sjá mánuði ársins, merkt er við 15. hvers mánaðar. Rauði ferillinn sýnir hámark vísitölunnar hvern dag ársins í þau 20 ár sem undir liggja. Hiti nær stundum 10 stigum á öllum byggðarveðurstöðvum landsins á sumrin - þá rekst rauði ferillinn uppundir. 

Græni ferillinn sýnir á sama hátt þá daga tímabilsins sem lægsta tíustigavísitölu eiga. Þetta lágmark er auðvitað núll lengst af á vetrum - flesta daga á þeim árstíma nær hiti hvergi 10 stigum. 

Blái ferillinn sýnir svo meðaltalið. Um miðjan júní er það í kringum 700 - má kannski sjá þrep upp á við eftir þann 20. 

Það má ýmislegt merkilegt sjá út úr myndinni (að mati ritstjórans). Eitt er t.d. að það hversu áberandi þrep eru í meðalferlinum (þeim bláa). Sömuleiðis er athyglisvert að eftir stóra stökkið undir lok maí liggur leiðin hægt upp á við - allt til hámarks. Niðurleiðin að því loknu er hraðari. 

En lítum á fáeinar dagsetningar - sama mynd:

w-blogg160617b

Vænsti dagur ársins er 2. ágúst. Stærsta skyndilega þrepið upp á við er 28. maí. Síðasti tíustigalausi dagur vorsins (á þessu 20 ára tímabili) var 7. júní (misritast hefur 6. á myndinni). Sá fyrsti að hausti er 16. september. Einn áberandi lélegur dagur kemur fram í júlí, það reynist við athugun vera sá 23. árið 1998. Afskaplega daufur dagur greinilega - norðanátt og rigning um mestallt land.

Fyrsti dagur á sumri til að ná fullu húsi er 14. júní, en sá síðasti að hausti 30. september. 

Margt má meira um tíustigavísitöluna segja - en þreytum ekki þreytta. Jú, í dag (15. júní) reiknaðist hún 638 stig, um 100 stigum undir meðallagi 20 ára. 


Af sjávarhitavikastöðu

Við lítum til gamans á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarhita á Norður-Atlantshafi næstu vikuna (12. til 19. júní).

w-blogg130617a

Heildregnar línur sýna meðalsjávarmálsþrýstispá fyrir sömu viku, en strikalínur yfirborðssjávarhita. - Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað. Strikalínurnar eru dregnar með 2 stiga bili. Litir sýna vik yfirborðshita sjávar frá meðallaginu 1981 til 2010. Á hafísslóðum (svosem við strendur Grænlands) er lítið að marka þessi vik - en þau eru samt reiknuð. 

Við sjáum að enn er hlýtt á norðurslóðum - bæði fyrir norðan og austan Ísland og undan Vestur-Grænlandi. Kalt er í Eystrasalti - sumarsól gæti breytt ástandinu þar hratt - fái hún að skína. 

Kaldi bletturinn suðvestur í hafi er enn nokkuð áberandi - en vikin eru þó víðast hvar minni en -1 stig - á milli -1 og -2 á allstóru svæði og rétt slær í -2,1 þar sem mest er. 

Neikvæð vik ríkja meðfram Labradorströnd og til suðurs í kringum Nýfundnaland - þar sem þau magnast nokkuð. Ís mun hafa verið þar með meira móti í vor miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum, en ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn séð neitt alvöruuppgjör á magninu miðað við lengri tíma. 

Mjög stór neikvæð (og jákvæð) vik eru við norðurjaðar Golfstraumsins. Vik á þessu svæði eru gjarnan mjög stór - til beggja vikhanda. Það er eðlilegt vegna þess að Golfstraumurinn liggur þarna gjarnan í stórum sveigum - með köldum sjó að norðan á milli. Munur á hita hans og kaldsjávarins er mikill, meiri en 10 stig á innan við 200 km breiðu svæði. - Mjög litlar tilfærslur þarf því til að búa til mjög stór vik, jafnvel enn meiri en þau sem við hér blasa við (hæsta neikvæða talan er hér -6,2 stig). Þeir sem treysta sér til að rýna vel í kortið geta séð þetta vel - strikalínurnar þurfa að færast mjög lítið úr stað til að þessi stóru staðbundnu neikvæðu vik hverfi - eða verði einn meiri. 

Annað mál er með þau neikvæðu vik sem áður var fjallað um og þekja víðáttumikil hafsvæði - þau hverfa ekki svo glatt. Það er þó þannig að sólarylur sumarsins gæti útrýmt þeim tímabundið - en um þau mál, lagskiptingu og blöndun höfum við rætt einhvern tíma áður hér á hungurdiskum og verður það ekki endurtekið að sinni. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 119
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 954
  • Frá upphafi: 2420769

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 842
  • Gestir í dag: 105
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband