Af sjávarhitavikastöðu

Við lítum til gamans á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarhita á Norður-Atlantshafi næstu vikuna (12. til 19. júní).

w-blogg130617a

Heildregnar línur sýna meðalsjávarmálsþrýstispá fyrir sömu viku, en strikalínur yfirborðssjávarhita. - Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað. Strikalínurnar eru dregnar með 2 stiga bili. Litir sýna vik yfirborðshita sjávar frá meðallaginu 1981 til 2010. Á hafísslóðum (svosem við strendur Grænlands) er lítið að marka þessi vik - en þau eru samt reiknuð. 

Við sjáum að enn er hlýtt á norðurslóðum - bæði fyrir norðan og austan Ísland og undan Vestur-Grænlandi. Kalt er í Eystrasalti - sumarsól gæti breytt ástandinu þar hratt - fái hún að skína. 

Kaldi bletturinn suðvestur í hafi er enn nokkuð áberandi - en vikin eru þó víðast hvar minni en -1 stig - á milli -1 og -2 á allstóru svæði og rétt slær í -2,1 þar sem mest er. 

Neikvæð vik ríkja meðfram Labradorströnd og til suðurs í kringum Nýfundnaland - þar sem þau magnast nokkuð. Ís mun hafa verið þar með meira móti í vor miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum, en ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn séð neitt alvöruuppgjör á magninu miðað við lengri tíma. 

Mjög stór neikvæð (og jákvæð) vik eru við norðurjaðar Golfstraumsins. Vik á þessu svæði eru gjarnan mjög stór - til beggja vikhanda. Það er eðlilegt vegna þess að Golfstraumurinn liggur þarna gjarnan í stórum sveigum - með köldum sjó að norðan á milli. Munur á hita hans og kaldsjávarins er mikill, meiri en 10 stig á innan við 200 km breiðu svæði. - Mjög litlar tilfærslur þarf því til að búa til mjög stór vik, jafnvel enn meiri en þau sem við hér blasa við (hæsta neikvæða talan er hér -6,2 stig). Þeir sem treysta sér til að rýna vel í kortið geta séð þetta vel - strikalínurnar þurfa að færast mjög lítið úr stað til að þessi stóru staðbundnu neikvæðu vik hverfi - eða verði einn meiri. 

Annað mál er með þau neikvæðu vik sem áður var fjallað um og þekja víðáttumikil hafsvæði - þau hverfa ekki svo glatt. Það er þó þannig að sólarylur sumarsins gæti útrýmt þeim tímabundið - en um þau mál, lagskiptingu og blöndun höfum við rætt einhvern tíma áður hér á hungurdiskum og verður það ekki endurtekið að sinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti og bestu þakkir fyrir athyglisverðar fréttir:

"Ís mun hafa verið þar með meira móti í vor miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum."(sic)

Ég geri ráð fyrir að þú sért að tala um hafís, ekki satt?

Þurfum við svo nokkuð að hafa hljótt um að Norður-Atlantshafið er að kólna?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.6.2017 kl. 08:11

2 identicon

Sælir og takk fyrir fróðleik allan.

Háskólinn í Manitoba hefur verið í vandræðum með rannsóknir vegna hafíss: 

http://www.winnipegfreepress.com/local/u-of-m-climate-change-study-postponed-due-to-climate-change-428030543.html

Kv. Elló

Ello (IP-tala skráð) 14.6.2017 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 196
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 2021
  • Frá upphafi: 2350757

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 1807
  • Gestir í dag: 175
  • IP-tölur í dag: 175

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband