Frá skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar

Ýmislegt undarlegt sést í framtíðarspám reiknimiðstöðva - flest það óvenjulegasta er einfaldlega rangt og gengur ekki eftir. En veðurnörd hafa af því töluverða ánægju að fylgjast með öllum fyrirganginum - þó óraunverulegur sé. 

Tilfinningin er sú að hitabylgjur - sem svo ekkert verður úr - séu algengari en kuldaköst í 8 til 10 daga spám, en kuldaköst - sem aldrei verða neitt - aftur á móti í 4 til 7 daga spánum. Þetta er þó aðeins tilfinning ritstjóra hungurdiska - ekki raunhörð staðreynd. 

Nú bregður svo við að boðið er upp á snarpan kulda í sjödagaspá hádegisrununnar í dag (20. júní). 

w-blogg200617a

Kuldapollurinn sem hér er settur við Vesturland eftir viku á að koma hratt úr norðri - þar sem kuldapollavirkni er með þroskaðasta móti um þessar mundir. Við sjáum bláan lit í miðju hans, þykktin er þar minni en 5280 metrar. Svo lágar tölur eru sjaldséðar hér við land eftir sólstöður og vel frameftir ágústmánuði. Ekki þó dæmalausar - jónsmessukastið fræga 1992 var sýnu efnismeira en þetta sem hér er brugðið upp. Þá snjóaði í efstu byggðum á höfuðborgarsvæðinu. - Fleiri dæmi má finna sé skinnið skafið. 

En við skulum ekki taka þessari spá mjög alvarlega fyrr en nær dregur - þangað til telst hún eingöngu á vegum skemmtideildar evrópureiknimiðstöðvarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki veit ég nú hversu skemmtileg þessi spá er en miðað við veðrið sem er búið að vera hér á suðvesturhorninu sl. sólarhring er mér ekki skemmt. Reyndar má spyrja sig hvort þessi kuldapollur sé ekki þegar kominn yfir landið því rok og rigning og 8 stiga hiti telst nú varla til hlýinda.
En talandi um spár má benda á að eftir rúma viku, á fimmtudag og föstudag, er verið að spá nætur"hita" upp á 4-5 stig. Fyrir mér er það kuldapollur - og enn er mér ekki skemmt.

Allt stefnir í ömurlegt sumar.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 04:18

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Greinum á milli skemmtilegra spáa og góðrar tíðar eða veðurblíðu. Það veður sem upp kemur í „skemmtilegum“ spám getur verið mjög til baga. Kuldapollur skemmtideildarinnar og fjallað var um í pistlinum er ekki sá sami og nú gengur yfir - og er þegar þetta er ritað (að morgni miðvikudags 21. júní) ekki lengur af sama afli í spánni - hvað sem svo síðar verður.

Trausti Jónsson, 21.6.2017 kl. 11:38

3 identicon

Engin von á leifum af hitabylgjunni í Evrópu þá :( ?

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 13:37

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er langt í slíkt Egill

Trausti Jónsson, 21.6.2017 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 240
 • Sl. sólarhring: 445
 • Sl. viku: 2004
 • Frá upphafi: 2349517

Annað

 • Innlit í dag: 222
 • Innlit sl. viku: 1814
 • Gestir í dag: 219
 • IP-tölur í dag: 215

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband