Af tíustigavísitölunni

Ritstjóri hungurdiska reiknar á hverjum degi fáeinar hitavísitölur fyrir landið. Eina þeirra kallar hann tíustigavísitöluna. Hún greinir frá því hversu hátt hlutfall veðurstöðva í byggð tilkynnir að hámarkshiti sólarhringsins hafi komist í 10 stig eða meira. Notast er við þúsundustuhluta, vísitalan 1000 segir að 10 stig eða meira hafi mælst á öllum stöðvum, núll að 10 stig hafi hvergi mælst. Talan 500 segir að 10 stigum hafi verið náð á helmingi stöðvanna. 

Til hvers er verið að þessu, kann einhver að spyrja. Ekki er til skothelt svar við þeirri spurningu. Forvitni kannski - eða veðureftirlitsfíkn á háu stigi? Sé hún til hlýtur hún að vera skárri heldur en flestar aðrar eftirlitsfíknir nútímans - kannski mun þó upp rísa draugur leyndarhyggju sem gerir eftirlit af þessu tagi útilokað. Alla vega er aðgangur að veðurathugunum víða mjög takmarkaður (hvers vegna veit enginn) - veðureftirlitsfíknin er eftir allt saman talin óæskileg.

En nú hefur ritstjórinn tekið saman yfirlit um árstíðasveiflu tíustigavísitölunnar (og mega nú áhugalausir fara að krossa sig í bak og fyrir).

En það má upplýsa að upphaflegur tilgangur tíustigavísutölureikninga ritstjórans var að geta betur fylgst með óvenjulegum hlýindum að vetri. Sérstök hlýindi að sumarlagi veiðir hitabylgjuvísitala hans. 

w-blogg160617a

Á lárétta ásnum má sjá mánuði ársins, merkt er við 15. hvers mánaðar. Rauði ferillinn sýnir hámark vísitölunnar hvern dag ársins í þau 20 ár sem undir liggja. Hiti nær stundum 10 stigum á öllum byggðarveðurstöðvum landsins á sumrin - þá rekst rauði ferillinn uppundir. 

Græni ferillinn sýnir á sama hátt þá daga tímabilsins sem lægsta tíustigavísitölu eiga. Þetta lágmark er auðvitað núll lengst af á vetrum - flesta daga á þeim árstíma nær hiti hvergi 10 stigum. 

Blái ferillinn sýnir svo meðaltalið. Um miðjan júní er það í kringum 700 - má kannski sjá þrep upp á við eftir þann 20. 

Það má ýmislegt merkilegt sjá út úr myndinni (að mati ritstjórans). Eitt er t.d. að það hversu áberandi þrep eru í meðalferlinum (þeim bláa). Sömuleiðis er athyglisvert að eftir stóra stökkið undir lok maí liggur leiðin hægt upp á við - allt til hámarks. Niðurleiðin að því loknu er hraðari. 

En lítum á fáeinar dagsetningar - sama mynd:

w-blogg160617b

Vænsti dagur ársins er 2. ágúst. Stærsta skyndilega þrepið upp á við er 28. maí. Síðasti tíustigalausi dagur vorsins (á þessu 20 ára tímabili) var 7. júní (misritast hefur 6. á myndinni). Sá fyrsti að hausti er 16. september. Einn áberandi lélegur dagur kemur fram í júlí, það reynist við athugun vera sá 23. árið 1998. Afskaplega daufur dagur greinilega - norðanátt og rigning um mestallt land.

Fyrsti dagur á sumri til að ná fullu húsi er 14. júní, en sá síðasti að hausti 30. september. 

Margt má meira um tíustigavísitöluna segja - en þreytum ekki þreytta. Jú, í dag (15. júní) reiknaðist hún 638 stig, um 100 stigum undir meðallagi 20 ára. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 229
 • Sl. sólarhring: 390
 • Sl. viku: 1545
 • Frá upphafi: 2350014

Annað

 • Innlit í dag: 202
 • Innlit sl. viku: 1405
 • Gestir í dag: 199
 • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband