Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Kaldir júnídagar (langt síðan)

Setjum okkur í stellingar og rifjum upp nokkra kalda júnídaga. Þetta er að vísu harla þurr upptalning, en ef til vill felst í henni einhver hollusta.

Fyrst er listi yfir köldustu júnídaga á landsvísu frá 1949 að telja. Engin breyting hefur orðið á þessum lista síðan hann var síðast birtur hér á hungurdiskum fyrir langalöngu.

röðármándagurlandsm.h.
11975620,60
21997670,81
31975630,94
41975610,99
51952621,79
61975641,90
719736102,14
81977662,17
91983612,23
101975652,30
111956672,38
121952632,43
1219736112,43
141977672,48

Reyndar er enginn dagur á öldinni nýju á listanum. Gömul og legin veðurnörd kannast vel við flestar þessar dagsetningar - hrollkaldar minningar læðast að. Kaldastur júnídaga var sá 2. 1975, hluti af hrikalegu kuldakasti sem á 5 daga á þessum fjórtándagalista. Meðalhiti í byggðum landsins var aðeins 0,6 stig - rétt eins og á venjulegum vetrardegi. Hér er rétt að taka fram að annar aukastafur talnanna er að sjálfsögðu óráð - einungis til metingsskemmtunar. 

Næstkaldastur var sá 7. 1997. Líka hluti af margradaga kuldakasti, en enginn annar dagur í kastinu nær þó með á listann. Sumir minnast þess að smáþjóðaleikarnir voru haldnir hér á landi um þær mundir - og fuku þá snjókorn um Laugardalsvöll þótt hádegi væri. 

Annan júní 1952 (5. sæti) varð alhvítt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, snjódýpt 2 cm. Í 7. sæti er svo komið að hvítasunnukastinu 1973 - fáeinir muna e.t.v. eftir unglingamótinu „Vor í dal“ sem haldið var í Þjórsárdal þessa helgi.

Eins og sjá má er enginn dagur á listanum síðar í mánuðinum heldur en þann 11. Að meðaltali hækkar hiti talsvert frá upphafi til enda júnímánaðar. Sú spurning kemur eðlilega upp hvort sömu dagar skili sér á lista ef við miðum við vik frá meðalhita hvers dags. Miðaða er við meðaltal áranna 1961 til 2010 (50 ár). 

ármándagurdagsm.h.vik
1997670,81-6,70
1975620,60-6,48
1975630,94-6,34
19736102,14-6,22
1975610,99-5,94
19736112,43-5,86
19736122,76-5,47
1975641,90-5,42
19596173,24-5,30
19686233,52-5,06
19786213,95-4,61

Ekki breytir þetta miklu, sá 7. 1997 nær þó efsta sætinu (meðalhiti 7. júní er sjónarmun hærri en þess 2.). Væri ámóta listi gerður fyrir Reykjavík eina gætum við haldið lengra aftur á bak í tíma - þá kæmi í ljós að þessi dagur er meðal þeirra allraköldustu í borginni allt aftur til 1871.

Í þremur neðstu sætunum á listanum birtast dagar úr síðari hluta mánaðarins. Þetta er hinn sérlega illræmdi 17. júní 1959 - hefur oft komið við sögu á hungurdiskum. Svo er dagur úr jónsmessukastinu 1968, 23. júní. Þá festi snjó á láglendi víða fyrir norðan.

Annað kast gerði um sólstöður 1978. Ekki var mikið undan því kvartað í blöðunum (annað væri upp á teningnum í dag). Ritstjóri hungurdiska man það ekki - var í útlöndum. Þó segir í myndartexta á forsíðu Dagblaðsins þann 22. júní: „Ákjósanlegt væri að börnin okkar hefðu betri uppvaxtarskilyrði en veðrið suðvestanlands býður þeim upp á.“ - Hófleg ósk. 


Óvenju ...

Í kaldara lagi kannski en það er varla hægt að segja að það sé óvenjukalt - júníkuldaköstin oft miklu verri en þetta. Meðalhiti á landinu í dag var 5,5 stig, 1,1 stig sama dag 1997. Förum kannski í frekari upprifjun - ef núverandi kast endist eitthvað. En lítum samt á spá um hita í 850 hPa. Hún gildir kl. 9 í fyrramálið (fimmtudag 8. júní).

w-blogg080617a

Hiti er sýndur með litum, jafnhæðarlínur heildregnar og vindur sýndur með vindörvum. Blái flekkurinn er nokkuð fyrirferðarmikill - þar er frostið meira en -6 stig í 850 hPa (rúmlega 1300 metra hæð). Þetta gæti verið verra - og fer svo hægt (mjög hægt) hlýnandi. 

Eins og sjá má stefnir mjög hlýtt loft í áttina að Norðaustur-Grænlandi - tökum eftir því. 

w-blogg080617c

Hér kemur það óvenjulega. Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting og úrkomu. Það gildir kl. 6 að morgni föstudags 9. júní. Neðri rauða örin bendir á djúpa lægð langt suður í hafi. Miðjuþrýstingur er hér 964 hPa - það er óvenjulegt í júní.

Efri rauða örin bendir á úrkomuklessu við Norðaustur-Grænland - þar er hlýja loftið áðurnefnda að rekast á fjöllin. Á þessum slóðum er venjulega mjög þurrt á þessum tíma árs og atburðurinn er óvenjulegur að sögn útvísa evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

Tíu daga úrkomuspáin sýnir vel hversu óvenjulegt þetta er.

w-blogg080617d

Spáin gildir frá 7 til 17. júní. Litir sýna hlutfall tíudagaúrkomu af meðallagi. Örin bendir á úrkomuklessuna við Grænland - 25 falda meðalúrkomu - og hún á reyndar ekki að falla á tíu dögum heldur fylgir nær eingöngu þessu eina veðurkerfi sem sjá mátti á efri myndinni. - En munum að meðalúrkoma á þessu svæði er sáralítil í júní þannig að flestum hér á landi þætti ekki mikið til heildarmagnsins koma. - En þetta er athyglisvert ef rétt reynist. 

Hér á landi er úrkomu hins vegar spáð undir meðallagi næstu tíu daga - lægstu tölurnar eru við Breiðafjörð - dekksti brúni liturinn sýnir svæði þar sem úrkomu er spáð innan við 25 prósent af meðallagi. 


Júní kaldari en maí?

Nei, hér er ekki verið að spá neinu um að júní verði kaldari en maí. Það er hins vegar þannig að líkur á því að júní sé kaldari en maí eru mun meiri þegar maí er óvenjuhlýr heldur en þegar hann er kaldur - eða í meðallagi. 

Við spyrjum því hvort þetta hafi gerst. Svarið er já, og líkurnar eru mestar norðaustanlands - eftir hlýjan maí. 

Á landsvísu verður að fara aftur til ársins 1946 til að finna dæmi um svona hegðan hitafarsins. Munurinn var hins vegar ómarktækur, landsmeðalhiti í maí reiknaðist þá 7,4 stig, en 7,3 í júní. Árið 1928 var munurinn aðeins meiri, meðalhiti í maí reiknaðist 7,4 stig, en 7,0 í júní. 

Það er varla hægt að segja að þetta hafi komið fyrir í Reykjavík - að vísu nefnir meðalhitalistinn ártölin 1845 og 1851. Maí 1845 reiknast „óeðlilega“ hlýr í Reykjavík, meðalhiti 10,0 stig - á mörkum þess trúverðuga, en júníhitinn það ár á að hafa verið 9,4 stig. 

Árið 1851 er trúverðugra, þá var meðalhiti í maí í Reykjavík 7,2 stig, en ekki nema 6,3 í júní. Þetta sama ár var maí hlýrri en júní í Stykkishólmi (6,0 og 5,9 stig), á Akureyri (6,7 og 6,2 stig), á Siglufirði (5,9 og 5,6 stig) og í Hvammi í Dölum (4,9 og 4,4 stig). 

Í Stykkishólmi var maí hlýrri en júní bæði 1928 og 1946 eins og á landinu í heild - (og 1851) en ekki oftar. Þetta ástand er algengara á Akureyri, auk 1928 og 1946 (og 1851) koma líka upp árin 1890, 1961 og svo 1991. 

Á Egilsstöðum gerðist þetta 1991 og 1998. Vestur á Fjörðum (Bolungarvík) eru enn 1928 og 1946 nefnd. Í uppsveitum Suðurlands kemur aðeins upp árið 1890 (eins og á Akureyri) - en ekki er vitað um nein dæmi þess að maí hafi verið hlýrri en júní í Vestmannaeyjum. 

Ekkert dæmi er um það að júní hafi verið kaldari en maí á þessari öld. 

Landsmeðalhiti maímánaðar nú var 7,4 stig. Meðalhiti í júní hefur 30 sinnum verið lægri en þetta. Við notum gögn aftur til 1874, 143 ár. Væri júníhitinn algjörlega óháður hita í maí ættu líkur á því að júní nú verði kaldari en maí að vera rúm 20 prósent. - Það er þó ekki alveg svo - við dveljum nú á hlýskeiði - mjög kaldir mánuðir eru nú ólíklegri en þeir voru fyrir öld og meira - en alls ekki útilokaðir. Ætli líkurnar séu ekki nær því að vera 8 til 10 prósent heldur en rúmlega 20 - það er samt umtalsvert. 

Líkur á því að þetta gerist á einhverri stöð um landið norðaustanvert eru meiri en þetta - en minni suðvestanlands. Listi yfir öll þekkt tilvik fortíðar er í textaviðhengi. 

Við bíðum auðvitað spennt. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á norðurhveli í upphafi sumars

Sumarið, eins og Veðurstofan skilgreinir það hófst í gær, 1. júní. Það á sér auðvitað ýmsar hliðar og ekki er hægt að gera til þess einhverjar sérstakar kröfur, stundum er það gott - en stundum harla hraklegt og þá lítið að gera nema bíða þess næsta. 

En óvenjuleg hlýindi ríktu hér á landi í maímánuði. Meðalhiti á landsvísu var 7,4 stig og hefur aðeins tvisvar reiknast lítillega hærri í maí, 1935 (7,6 stig) og 1939 (7,5 stig). Tvisvar hefur verið jafnhlýtt í maí og nú, 1946 og 1928. 

En júnímánuður er frjáls af fortíðinni og byrjar svosem ekkert sérlega illa, hiti fyrstu tvo dagana er lítillega undir meðallagi sömu daga síðustu tíu ár (-0,7 stig). Aftur á móti er ekki spáð neinum sérstökum hlýindum alveg á næstunni. 

w-blogg030617a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykkt um mestallt norðurhvel jarðar síðdegis á sunnudaginn kemur (hvítasunnudag) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd með litum (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalþykkt fyrstu 10 daga júnímánaðar er í kringum 5400 metrar hér á landi, nærri mörkum ljósasta og næstljósasta græna litarins. - Sé að marka spána verður þykktin heldur minni en það á sunnudaginn - hiti því líklega heldur undir meðallagi áfram. 

Guli liturinn færir okkur hins vegar afgerandi hlýrra veður - næst þegar hann kemst til landsins. Eins og venjulega greinir reiknimiðstöðvar á um það hvenær það verður. 

Á kortinu er mikil háloftalægð fyrir sunnan land - hún er hægfara eins og slíkar eru oftast. Nokkuð langt er í alvarlegan kulda - hann er þó til ennþá, það er nokkuð snarpur kuldapollur nærri norðurskautinu.  

Rauð strikalína markar hrygg sem aðskilur norðurhringrásina frá þeirri sem ræður veðri hjá okkur. Nú er vandi að bera fram óskir - jú, það er auðvitað æskilegt að við sleppum við útrás norðurskautskuldans - hryggurinn hjálpar til við að halda henni í skefjum - en á móti kemur að þessi sami hryggur beinir þá til okkar kuldapolli sem nú er við Norður-Noreg - og rauða örin bendir á. 

Evrópureiknimiðstöðin sendir hann í frekar ólíkindalegt ferðalag - fyrst vestur og suðvestur til okkar (segir hann fara hér hjá á miðvikudag með leiðindakulda) og síðan vestur yfir Grænland og áfram. Bandaríska veðurstofan er á öðru máli - snýr honum tilbaka áður en hingað er komið. 

En þetta eru engir stórviðburðir - smáatriði á leið vors til sumars. 


Austanátt með þrálátasta móti í nýliðnum maí

Austanátt var ríkjandi í maí - að því er virðist hin þrálátasta um áratugaskeið. Hægt er að meta tíðni vindátta á ýmsa vegu - og ekki skila þær aðferðir allar sömu niðurstöðu. Hér lítum við á þrýstisviðið við landið eins og endurgreiningar lýsa því. 

w-blogg020617a

Myndin sýnir vestanþátt þrýstisviðsins yfir Íslandi í maímánuði 1881 til 2017. Því meiri sem austanáttin er því neðar liggja súlurnar á myndinni. Eins og sjá má eru austanáttarmaímánuðir mun fleiri en hinir, þegar vindur blæs úr vestri. Það er aðeins ein súla sem liggur neðar en sú sem sýnir stöðuna í nýliðnum maí, maí 1925 - og svo er maí 1931 ámóta neðarlega. Á síðustu árum er það helst maímánuður 2011 sem skákar þeim nýliðna - en mjög ólíkur þessum.

Veðurlag þessara tveggja bræðra nýliðins maí var líka mjög ólíkt því sem var nú. Hiti í maí 1925 var t.d. undir meðallagi en í hæstu hæðum nú. Maí 1931 var alveg sérlega þurr - og þar með fjandsamlegur gróðri, mjög ólíkt því sem nú var. 

Sumrin sem fylgdu þessum miklu austanáttamaímánuðum voru líka mjög ólík - veður maímánaðar bindur framtíðina á engan hátt. Og framtíðarspár evrópureiknimiðstöðvarinnar eru líka afskaplega óráðnar - engin sérstök merki að sjá - . 

Svipað má segja um háloftin - þar virðist austanáttin nú hafa verið eindregnari en frá 1972 en í maí það ár var hún svipuð og nú.

Ritstjóri hungurdiska reiknar áttir á fleiri vegu - kannski gefa þeir reikningar aðra niðurstöðu eða þeir staðfesta þessa - það verður bara að koma í ljós. 

Viðbót:

w-blogg020617b

Myndin sýnir sjávarmálsþrýsting og þrýstivik í nýliðnum maí. Hæðin fyrir norðan land var talsvert sterkari en venja er til, en eindregið lægðasvæði suður í hafi. Bæði kerfi bættu í austanáttina svo um munaði. - En við sjáum að loftið virðist í raun hafa komið úr suðaustri og suðri enda mjög hlýtt. Eindregin lægðasveigja var á þrýstisviðinu og úrkoma mikil. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 407
  • Frá upphafi: 2343320

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 368
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband