Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Óvenjulegar spár (ekki þó hér við land)

Þeir sem fylgjast best með erlendum veðurfréttasíðum - bloggi, fjasbók og tísta sjá þar minnst á óvenjulegar veðurspár þessa dagana - eða ætti e.t.v. að segja að óvenjulegu veðri sé spáð? Það er alkunna að sýndarheimar reiknilíkana sýna oft alls konar afbrigðilegt veður - sem svo ekki skilar sér í raunheimum. Sérstaklega á þetta við spár sem ná meir en 4 til 7 daga inn í framtíðina.

Nýjasta afbrigði bandaríska spálíkansins gfs er nú - eftir aðeins 6 mánaða birtingu - orðið nær alræmt fyrir alls konar skrýtna hluti. - Vonandi verður sem fyrst komist fyrir þau vandræði. Þetta er ekki heppilegt - vegna þess að veðrið er þrátt fyrir allt stundum óvenjulegt og gfs-líkanið hefur líka oft á réttu að standa. 

Líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar er öllu stöðugra - alla vega berast færri tilkynningar um sérdeilis óvenjulegt veður úr þvi húsi. 

En - gfs-spáin bandaríska og spá bresku veðurstofunnar eru þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi 30. maí) sammála um að óvenju djúp lægð verði nærri Skotlandsströndum síðdegis á mánudag (1. júní). Þrýstingur verði um 970 hPa í lægðarmiðju og breska líkanið kemur þrýstingnum niður í 967 hPa um hádegi á þriðjudag. 

Reynd veðurnörd á Bretlandi átta sig á því að hér er um óvenjulegar tölur að ræða - hugsanlega er verið að slá lágþrýstimet Bretlandseyja fyrir júnímánuð. 

Það er árásin kalda úr vestri sem fjallað var um í hungurdiskapistli í fyrradag sem þessu veldur. 

En - nú er evrópureiknimiðstöðin öllu hógværari - hjá henni fer þrýstingur ekki niður fyrir 975 hPa - óvenjulágt samt. Við skulum líta á spákort hennar sem gildir á mánudag (1. júní) kl. 18.

w-blogg310515a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar að vanda, úrkoma sýnd með litum og hiti í 850 hPa með strikalínum. Hér á landi er leiðinleg norðaustanátt - hiti í 850 hPa um -5 stig - snjókoma á fjöllum norðanlands og jafnvel í byggð. Það skiptir okkur máli hversu djúp lægðin verður - verði hún dýpri en hér er sýnt verður því meiri norðanátt á þriðjudag. 

Reikni miðstöðvar rétt eiga bretar von á fleiru óvenjulegu því í lok vikunnar á sérlega hlýtt loft að fara þar hjá. Það sýnir kort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan.

w-blogg310515b

Kortið gildir kl.18 laugardaginn 6. júní. Litirnir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sitjum í dökkgrænum litum að vanda - engin hlýindi að sjá við landið. En England fær á sig fádæma hlýtt loft, því er spáð að þykktin fari yfir 5700 metra - enda segja sjálfvirkar spár að hiti fari í 30 stig í London - og hiti í 850 hPa í 17 stig. Kannski fer hiti í 36 stig í Frakklandi - eins og sést hefur á tístinu. 

En - veruleg óvissa er í þessari spá - hún er satt best að segja harla ótrúleg og rétt að taka hana sem hverju öðru skemmtiatriði þar til nær dregur. En spáin fyrir Ísland og nágrenni er ekkert sérstaklega uppörvandi dagskráratriði - jú, það gæti verið miklu verra.  


Vangaveltur um hæsta hámark maímánaðar 2015

Oftast er færslum bloggs hungurdiska lekið yfir á fjasbókardeild þeirra - en sjaldnar í hina áttina. En stundum liggur straumurinn í öfuga átt - og einmitt í dag.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í maí til þessa eru 15,7 stig - rétt hugsanlegt er að morgundagurinn (laugardagur 30.) hækki þessa tölu - en ef hún fær að standa til mánaðamóta. Við þurfum að fara aftur til 1982 til að finna lægra maílandshámark. Í langa hungurdiskalistanum sem nær aftur til 1874 eru aðeins 16 maímánuðir með lægra landshámark en nú.- þetta er reyndar ekki alveg sambærilegt - núverandi stöðvakerfi hefði örugglega hækkað hámörk þeirra töluvert. Raunverulegur fjöldi „lægri“ mánaða á þessu tímabili er því örugglega minni.


Hámarkshiti mældist 11,2 stig í Reykjavík í dag (29. maí) - það er hæsti hiti sem enn hefur mælst þar á árinu. Möguleiki til að bæta um betur á morgun (laugardag 30.) er meiri í Reykjavík heldur en á landinu í heild - en EF mánuðinum lýkur með 11,2 stigum sem hæsta hámarki í maí þurfum við að fara aftur til 1989 til að finna lægra maíhámark (10,5 stig).

Áreiðanlegar, samfelldar hámarksmælingar í Reykjavík ná aftur til 1920 og hefur það aðeins gerst í einu sinni, auk 1989 að maí lyki með lægri tölu en 11,2 stigum, það var 1922 þegar hámarkið var 10,8 stig - en 1973 var það jafnlágt og nú. Ekki beinlínis algengt.

Fyrir 1920 eru hámarksmælingar í Reykjavík nokkuð stopular - við eigum þó lista yfir hæsta hita hvers mánaðar - ýmist lesnar af sírita (sæmilega góð hámarksmæling) - eða sem hiti kl. 14,15, eða 16 (- ekki eins góðar hámarksmælingar) - í einstökum mánuðum getur skeikað miklu sé engar sírita eða hámarksmælaupplýsingar að hafa.

En við getum samt búið til maíhámarkalista fyrir árin frá 1871 - þá kemur í ljós að hæsta tala hvers maímánaðar áranna 1871 til 1919 er aðeins sex sinnum lægri en 11,2 stig - allra lægst í maí 1914, 9,7 stig. Það er reyndar alræmdur skítamánuður - frægastur fyrir vestankulda sína (ólíkt 1979 sem var norðankuldamánuður) - en samt er líklegt að hefðu hámarksmælingar þá verið gerðar hefði hæsta hámarkið orðið hærra en þetta. Hámarksmælingar á Vífilsstöðum féllu niður í þessum mánuði - því miður.

Hámarks- og lágmarksmælingar voru einnig gerðar í Reykjavík á árunum 1829 til 1851. Mælum var reyndar þannig komið fyrir að þeir ýktu hámark í þurru veðri og sólskini - en lægsta hámark í maí á þessum árum mældist 1837, 10,0 stig.

En kannski að hámarkshiti laugardagsins 30. verði hærri í Reykjavík heldur en 11,2 stig - og þá er allur metingur í textanum hér að ofan úreltur - lesið hann því hratt.

Og ennfremur:

Föstudagurinn (29. maí) var um 1,5 stigi hlýrri en fimmtudagurinn en samt kaldur, lhb reiknaðist +5,37 stig og er það -2,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Lágmarksdægurmetin urðu 36 á sjálfvirku stöðvunum.

Frost mældist á 11 stöðvum í byggð en hámarkið náði tíu stigum eða meira á 39 stöðvum. Hámarkshitinn var sá hæsti á árinu á 19 stöðvum, þar á meðal öllum Reykjavíkurstöðvunum.

Reykjavíkurhitinn féll um sæti á 67 ára hitalistanum - og eru nú aðeins tveir kaldari maímánuðir á honum, 1949 og 1979. Stykkishólmsmaíhitinn er nú í 133. sæti af 170. Ef meðalhiti mánaðarins í Reykjavík endaði í því sem hann er í dag (4,31 stig) lendir hann 11. til 12. lægsta sæti frá 1870, maí 1949 er í 5. neðsta sæti og 1979 í því lægsta - síðustu tveir dagarnir núna munu trúlega hífa mánuðinn upp um 2 til 3 sæti á þessum langa lista.

Meðalvindhraði í byggð reiknaðist 4,0 m/s - og dagurinn þar með í hópi þeirra hægustu í mánuðinum. Sólskinsstundirnar mældust 14,2 í Reykjavík í dag og er maí þar með í 11. sæti á sólskinslistanum

 


Nær ekki hingað

Kuldaköstin halda áfram að ganga út yfir Atlantshaf úr norðvestri - frá rótum kuldans. Næsta kast mun væntanlega fara hjá fyrir sunnan land - en það er býsna öflugt. Á undan kuldanum fer mjó tunga af frekar hlýju lofti - hún fer að mestu fyrir sunnan land líka - en sér þó til þess að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hækkar um á að giska 6 stig yfir landinu um helgina - munar um minna í kuldatíðinni. 

Fyrra kort dagsins sýnir háloftastöðuna annað kvöld (föstudag 29. maí kl.24) - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg290515a

Myndarleg lægð (miðað við árstíma) er við Suður-Grænland á leið austur. Sunnan við hana er mjög kalt loft - þykktin í dekksta bláa litnum er innan við 5160 metrar - komi slík þykkt yfir landið frýs um land allt. - En þessi kuldi nær ekki til okkar - hann fer beit til austurs - og þótt sjórinn hiti baki brotnu á blái liturinn að komast allt til Bretlandseyja á sunnudagskvöld. Sé sú spá rétt snjóar á heiðum Skotlands á aðfaranótt mánudags - en spár eins og þessi vanmeta oft varmann sem stöðugt streymir úr hafinu - og ekki fullvíst að Bretland bláni að þessu sinni.

Hér er hins vegar hlýnandi - þykktin að komast upp í 5340 metra og á að fara upp í 5380 eða þar um bil á laugardaginn - en ekki meir, síðan á hún að minnka hægt aftur. Kuldatíðinni er því ekki lokið - þótt aðeins skáni.

Á næsta korti sést snerpa kuldakastsins sérlega vel.

w-blogg290515b

Gildistími er sá sami og á fyrra kortinu - kl.24 á föstudagskvöld (29. maí). Jafnþykktarlínur eru strikaðar (sjást betur sé kortið stækkað) - og eru auðvitað þær sömu og litirnir á efra kortinu marka. Hér sýna litirnir hins vegar 12 stunda þykktarbreytingu, kólnun er blá - en hlýnun gul og brún. Heildregnu línurnar sýna þrýsting við sjávarmál - venjulegar jafnþrýstilínur. Vindörvar gilda fyrir 700 hPa-flötinn (um 3 km hæð). Lægðin er djúp (miðað við árstíma) - innsta jafnþrýstilínan sýnir 984 hPa. 

Þeir sem stækka kortið ættu að geta séð tölu inni í dekksta bláa litnum,-32,6 - það eru dekametrar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur fallið um 15 til 16 stig á 12 klukkustundum. Það hlýtur að teljast töluvert - alla vega gott að sleppa við það.

Í venjulegri hitamælahæð er hitasveiflan töluvert minni - mest munar þar um að hlýja tungan á undan lægðinni nær ekki alveg til jarðar - og sjórinn sér um að hiti fer nær örugglega ekki niður fyrir frostmark á þessum slóðum. Kalda loftið verður því mjög óstöðugt - éljahryðjur. Það veður mun trúlega ná alla leið til Skotlands - eins og áður sagði.  


Svalt áfram

Enn bólar ekkert á hlýju lofti. Hiti hefur þó hangið í meðallagi síðustu tíu ára á landinu í heild síðustu tíu til tólf daga - og út af fyrir sig varla hægt að kvarta undan því. En maímánuður í heild verður samt sá kaldasti um langt skeið - og næstu tveir til þrír dagar sennilega kaldari heldur en þeir síðustu. - Eitthvað hlýnar um helgina en ekki svo um muni. 

w-blogg270515a

Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á fimmtudag, 28. maí. Litirnir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því lægri sem hún er því kaldara er loftið. Ljósblái liturinn er frekar litur aprílmánaðar heldur en maí. Þótt sólargangur sé nú orðinn mjög langur eru líkur á næturfrosti víða um land í bláa litnum - þar sem léttskýjað verður. 

Út af fyrir sig nægir hann ekki í snjókomu á láglendi - nema þar sem úrkoma er áköf - þar snjóar - við látum Veðurstofuna um að meta líkur á snjókomu. 

Kuldapollurinn yfir Labrador er athyglisverður - það er reyndar hann sem á að færa okkur austanátt og ívið hlýrra veður um helgina - en á að ná mikilli snerpu fyrir sunnan Grænland - spár segja 500 hPa-flötinn fara þar niður í 5002 metra um hádegi á laugardag, það er með lægstu gildum á þessum árstíma - en hann á ekki að ná í nægilega hlýtt loft til að um lágþrýstimet við sjávarmál verði að ræða. 


Hiti ársins 2015?

Árið 2015 hefur byrjað heldur kuldalega um landið sunnan- og vestanvert. Maí er að vísu ekki búinn - en afgangur mánaðarins kemur ekki til með að breyta neinu sem nemur þar um. Meðalhiti í Reykjavík frá áramótum til og með 21. maí er 1,2 stig - og er í 49. sæti á 67 ára hitalista hungurdiska. Á Akureyri er árið hins vegar rétt ofan við miðjan flokk, í 29. sæti af 68 og enn hlýrra hefur verið austur á Dalatanga þar sem hitinn er nú í 20. sæti á lista. 

Fyrstu fimm mánuðir ársins segja býsna mikið um meðalhita þess alls - eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Ársmeðalhita í Reykjavík spáð eftir hita í janúar til maí

Lárétti ásinn sýnir meðalhita í janúar til maí - en sá lóðrétti árshita. Rauða línan sýnir línulegt samband. Fylgnin er mjög góð - stór hluti af venjulegum breytileika ársins felst í vetrarmánuðunum þremur, janúar til mars. 

Ef allt fer á „venjulegastan“ hátt ætti ársmeðalhitinn 2015 að verða 4,1 stig. Ef við rýnum í myndina getum við séð að rúmlega hálfrar gráðu vik eru algeng - en sjaldgæft er að vikið sé stærra en svo. Þó er eitt ár - sem byrjaði álíka kalt og nú - sem nær að slá sér verulega upp - og endaði 5,02 stigum. Þetta er 1958. 

Hiti afgang ársins hefur áhrif - en meginlínurnar eru oftast lagðar - en þó ekki alveg alltaf. Við skulum til gamans líka líta mynd sem sýnir samband hita fyrstu fimm mánaðanna við hita afgang ársins.

Hita í júní til desember „spáð“ eftir hita í janúar til maí

Lárétti ásinn sýnir sem fyrr meðalhita í janúar til maí - en sá lóðrétti er meðalhiti frá júní til desember. Reiknað samband virðist marktækt - en þó ekki svo að við treystum spánni eins vel og þeirri að ofan. Við sjáum að algeng vik (bæði jákvæð og neikvæð) eru um 1 stig. Ef við setjum hitann í janúar til maí í ár inn - „spáir“ línuritið 6,1 stiga hita afgang ársins - ef það yrði svo reyndin lendir árið 2015 í heild í 4,0 stigum - því sama og sambandið á hinni myndinni „spáði“.

En - nú hefur hlýnað umtalsvert frá 1870. Kaldur árshluti nú er því afbrigðilegri heldur en jafnkalt tímabil á 19. öld. Reyna má að taka tillit til þessara veðurfarsbreytinga við gerð spár - og þar með „leiðrétta“ hana. Hægt er að gera það á ýmsa vegu - reyndar umdeilanlegt hvernig best sé farið að. Ritstjórinn leyfði sér í fljótheitum að slá máli á „leiðréttinguna“ - en getur ekki ábyrgst að rétt sé reiknað (frekar en venjulega) - og fær út töluna +0,6 stig - fyrir afgang ársins 2015. Þar með yrði ársmeðalhitinn 4,4 stig - en ekki 4,0. 

Niðurstaðan er e.t.v. sú að haldi árið áfram með svipuðum hætti og verið hefur muni ársmeðalhiti í Reykjavík 2015 enda í um 4 stigum. En en verði bara „venjulega“ kalt - er 4,4 fullt eins líkleg tala. Til að komast upp fyrir 5 stig þarf mikið átak - marga mjög hlýja mánuði. Það er hugsanlegt - eins og 1958 - en varla líklegt - en samt líklegra heldur en fyrir 60 árum. Verði óvenjulega kalt það sem eftir lifir árs gæti ársmeðalhitinn í Reykjavík endað niðri í 3,5 stigum. 

Geta menn nú smjattað á þessu um hríð. 


Veðurfarsbreytingar og sólin (fáeinar staðreyndir og álitamál - söguslef)

Að sjálfsögðu hefur sólin áhrif á veðurfar á jörðinni - hún er uppspretta þess. Hin miklu áhrif hennar sjást best á dægur- og árstíðasveiflu hita (og fleiri veðurþátta). Við sjáum afl hennar í allt að margra tuga gráða hitamunar dags og nætur, vetrar og sumars. Allt óumdeilt. Lofthjúpurinn allur, auk hafa og landa, bregst síðan við og leitast við að dreifa sólarorkunni - á ótrúlega flókna vegu. 

Fyrir meira en fjórum árum var á hungurdiskum pistli (viðhengi) fjallað um líkleg áhrif hægfara afstöðubreytinga snúningsáss jarðar, jarðbrautar og sólar (Milankovicsveiflur). Þeir sem vilja geta rifjað það upp - en við endurtökum það ekki hér og nú. 

Það sem hér fer á eftir er að stofni til upprunnið í hungurdiskapistli frá 2010 sem aldrei birtist. Nauðsynlegt reyndist þó að endurskoða, þurrka út og bæta við ýmsu alveg nýju. Kannski ætti að kalla þess aðferð rústabjörgun. Lesendur eru beðnir velvirðingar á ójöfnum í veginum og hugsanlegum missögnum eða endurtekningum. 

Eins og eðlilegt má telja hefur sólin legið undir grun um að vera meginorsakavaldur veðurfarsbreytinga bæði til langs og skamms tíma. Í fljótu bragði mætti því halda að hún gæti skýrt nærri því hvaða veðurfarsbreytingar sem er. Það hefur hins vegar ekki gengið vel að tengja breytingar í sólvirkni þekktum veðurfarsbreytingum. Satt best að segja illa. Mikið hefur verið reynt og áratugum saman (og lengur) hafa birst nýjar og nýjar yfirlýsingar um að „nú“ hafi það loksins tekist. Ritstjóri hungurdiska er orðinn nokkuð mæddur á kenningaflóðinu - e.t.v. mun sú mæða um síðir byrgja honum sýn - en ekki enn. 

Á hinn bóginn hafa orðið mjög miklar framfarir í sólarfræðum á síðustu áratugum - bylting, ætti frekar að segja. Mælingum fleygir fram og þekking vex á samskiptum sólar og umhverfis hennar. Á síðustu árum eru menn hiklaust farnir að ræða um „geimveður“ og „geimveðurspár“ - og þær eru nú þegar hagnýttar á ýmsa vegu. Sömuleiðis er reynt að spá fyrir um „veður“ á sólinni sjálfri - hvernig virkni hennar verður á næstu dögum, árum og áratugum. Mikil bjartsýni ríkir fræðasviðinu og hefur ritstjóri hungurdiska engar ástæður eða forsendur til að efast um réttmæti hennar.

En þrátt fyrir þetta hefur enn ekki tekist að sýna fram á hver áhrif breytileika sólar, sem mældur hefur verið, eru á veðurfar - eða hvort þessi mældi breytileiki skiptir máli miðað við aðra orsakavalda veðurfarsbreytinga. Varla heldur nokkur því þó fram að þessi breytileiki hafi nákvæmlega engin áhrif. 

Vandkvæðin eru margþætt - og örugglega fleiri en hér verða talin. Áður en áfram er haldið skulum við líta á skýringarmyndir.   

w-blogg160515-solin-a

Sólgeislun á flöt sem liggur hornrétt á geislastefnu og er staðsettur í sömu fjarlægð frá sól og jörðin, er að meðaltali um 1364 W á fermetra [sjá þó síðar]. Þessi tala nefnist sólstuðull. Sólgeislunin gengur oft undir nafninu „inngeislun” eða „stuttbylgjugeislun” til aðgreiningar frá geislun jarðar sem þá nefnist útgeislun” eða „langbylgjugeislun”.

Jörðin er kúla og getur ekki nýtt meiri sólarorku en þá sem fellur á þversnið hennar. Heildarflatarmál jarðaryfirborðs er hins vegar fjórum sinnum meira, helmingurinn í skugga hverju sinni auk þess sem geislarnir falla skásett á megnið af því sem eftir er. Að meðaltali nýtist því aðeins fjórði hluti sólstuðulsins hverjum fermetra á yfirborði jarðar - eða um 341 W á fermetra. Í stöku riti má sjá þessa fjórðungstölu kallaða sólstuðul - lesendur ættu að hafa það í huga þegar lesið er um sól og veður.

w-blogg160515-solin-b

En sú tala sem nýtist lofthjúpnum er raunar ennþá lægri, eða um 240 W á fermetra, vegna þess að rétt tæp 30% inngeislunarinnar endurkastast beint út í geiminn aftur (aðallega frá skýjum og snjó). Speglunarhlutinn er oftast nefndur endurskin eða endurskinshlutfall (albedo = hvítni). Vegna þess að orka getur ekki (til langs tíma) safnast saman í kerfinu geislar jörðin öllu því sem hún fær út aftur - en þá í formi lengri geisla (á varmageislahluta rafsegulrófsins).

Þeir sem leita sér upplýsinga um nákvæmt tölugildi sólstuðulsins komast fljótt að því að fleiri en ein tala er nefnd í heimildum. Hér hefur talan 1364 W á fermetra verið tilfærð, en annars staðar má sjá tölur allt niður í 1361 W og upp í 1368 W á fermetra. Umræða um veðurfarsbreytingar líður nokkuð fyrir þessa óvissu. Hún er þó ekki nærri því eins alvarleg í umræðunni og óvissa um hversu stöðugur sólstuðullinn hefur verið í gegnum tíðina. 

Óvissa um breytileika sólstuðulsins er e.t.v. það sem mestu lífi hefur haldið í vísindalegri umræðu um þátt sólarinnar í þeim hitabreytingum sem orðið hafa síðustu 150 árin eða svo - og allvel eru þekktar. 

Mælingar á geislun sólar hafa nú verið gerðar úr gervihnöttum síðan 1978 - með mælitækjum mismunandi gerðar. Þessar mælingar hafa greint breytileika sem tengist hinni alþekktu „11-ára“ sólblettasveiflu. Nýjasta skýrsla IPCC (2013) notar töluna 0,1 prósent (um 1,3 W á fermetra). Sömuleiðis er breytileiki frá degi til dags orðinn sæmilega þekktur - hann er meiri við hámark sólblettaskeiða heldur en nærri lágmörkum þeirra. [1]

Í ljós hefur einnig komið að 11-ára sveiflan er mun meiri á útfjólubláa sviði sólarrófsins heldur en á því sýnilega og að áhrif sveiflunnar á efstu lög lofthjúpsins (hitahvolf/úthvolf) eru umtalsverð. 

Sú skoðun er uppi að auk þessa breytileika - sem þrátt fyrir allt hefur verið mældur - séu einnig breytingar á sólstuðlinum á lengri tímakvarða. Almennt er talið að þær breytingar - séu þær einhverjar - ættu að greinast best í sólblettalágmörkum - þegar sveiflur frá degi til dags og mánuði til mánaðar eru miklu minni en á virkari hluta hverrar sveiflu.

Við skulum kalla slíkt undirliggjandi breytileika - reynt hefur verið að finna reglubundnar sveiflur hans og þeim gefin fjölmörg nöfn. Mjög illa hefur þó gengið að negla þær niður - kannski er um flókið samspil fjölmargra sveifluþátta að ræða sem afhjúpast ekki nema á mjög löngum tíma. Það er eftirtektarvert hversu sannfærðir flestir þeir sem stunda leitina eru um þeir hafi fundið sveiflutíðnina - furðuoft aðra en aðrir hafa fundið.

Hugmyndin er sú að gangi undirliggjandi virknisveifla til lágmarks standi það ástand jafnvel áratugum saman, þá tvær eða fleiri 11-ára sveiflur. Sólblettahámörkin reglubundnu verði þá vægari - eða hverfi jafnvel alveg - eins og sumir telja að hafi gerst um hríð á 17. öld - kallað Maunderskeið. Í IPCC-skýrslunni áðurnefndu er talað um að hugsanlega sé um 0,1 prósent munur á sólstuðlinum meðan á undirliggjandi lágmörkum stendur og því sem hann var í virknihámarkinu á síðari hluta 20. aldar. 

Sólblettir 1700 til 2014

Menn hafa nú fylgst náið með sólblettum frá því á 17. öld. Myndin sýnir niðurstöður slíkra talninga á ársgrundvelli allt fram til 2014 [2]. Einnig eru til ámóta tímaraðir sem ná til einstakra mánaða og daga mestallt tímabilið (dagleg röð aftur til öndverðrar 19. aldar). 

Grái ferillinn sýnir ársgildi - en sá rauði er 11-ára keðjumeðaltal og sýnir hann töluverðan langtímabreytileika sólblettavirkni. Hún var í lágmarki á 17. öld (Maunderlágmarkið áðurnefnda - utan þessarar myndar að mestu) og annað lágmark var snemma á 19. öld (Daltonlágmark). Sést það vel á myndinni og náði yfir þrjú 11-ára skeið. Mikið hámark var hins vegar um miðja 20.öld og allt fram að síðustu aldamótum. Nú (árið 2015) stefnir í einhvers konar lágmark - við vitum ekki enn hversu mikið eða langvinnt það verður. Einnig eru til tímaraðir sem sýna heildarflatarmál sólbletta og eru þær efnislega svipaðar þeirri hér að ofan.  

Sumum þykir rauði ferillinn á myndinni minna nokkuð á þann sem sýnir hita á norðurhveli jarðar - en nokkuð góðan vilja þarf samt til að sjá mikil líkindi. Misræmi er á milli ferilsins og hitafars hér á landi -. En ætíð verður að hafa í huga að alls konar breytingar á veðurfari eru hugsanlegar án þess að meðalhiti jarðar eða hvela breytist mikið.  

Við hættum okkur ekki út í umræður um áreiðanleika sólblettatalninga í tímans rás. Margar ágætar bækur hafa verið skrifaðar um sögu sólrannsókna og leit að reglubundnum sveiflum sólvirkninnar. - Fjasbókarsíða hungurdiska hefur minnst á nokkrar slíkar.

Ágiskaður breytileiki sólstuðuls 1600 til 2009

En þá er það hinn undirliggjandi breytileiki sólstuðulsins. Eigi að búa til trúverðug veðurfarslíkön þurfum við að þekkja hann - hvort sem hann er mikill eða lítill. 

Í grein eftir Gavin Schmidt og félaga (2012)[4] má finna ágæta umfjöllun um þá kosti sem bjóðast þegar reynt er að herma aðalatriði veðurfarsbreytinga síðustu þúsund ára. Greininni fylgir gagnasafn sem sýnir breytileika nokkurra líklegra geislunarálags- eða mótunarþátta veðurfars. Breytileiki sólstuðulsins er einn þeirra (ásamt gróðurhúsaáhrifa-, agnamengunar-, eldgosa- og landnotkunarvísum). Greinarhöfundar taka meðal annars saman nokkrar ágiskanir um breytileika sólstuðulsins síðustu þúsund árin.

Myndin að ofan sýnir þrjár þessara ágiskuðu tímaraða - þær sem eru ólíkastar innbyrðis. Blái ferillinn sýnir ágiskun þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum „undirliggjandi“ breytingum - sólblettasveifla sólstuðulsins er sú eina. Rauði ferillinn sýnir vinsæla ágiskun Judith Lean og félaga - þar er undirliggjandi breytileiki umtalsverður - um tvöfaldur á við nýjasta álit IPCC.  

Fyrir fáeinum árum bættist græni ferillinn síðan við - hann er í grein Schmidt og félaga fenginn frá Shapiro og félögum [7]. Hér er undirliggjandi breytileiki talinn miklu meiri heldur en venjulegt er að gera. Munur á undirliggjandi lágmarki á Maunderskeiðinu og nýlegu hámarki er talinn vera um 6 W á fermetra. Þegar búið er að taka tillit til dreifingar um allt flatarmál jarðar og endurskins er ítrasti munur á mestu og minnstu sólaráhrifum um 1,3 W á fermetra. Til samanburðar má geta þess að í síðustu samantekt IPCC (2013) er áætlað að mannrænu áhrifin (miðað við 1750) séu á bilinu 1,3 til 3,3 W á fermetra, líklegasta talan sé 2,3 W á fermetra.

Hér stendur hnífurinn í kúnni. Hver af þessum ferlum er sá rétti? Er breyting á sólarálagi frá árinu 1750 0,2 W á fermetra (eða minna) eins og IPCC telur eða er hún 1,3 W á fermetra eins og Shapiro og félagar reikna (reyndar frá 1700)?

Þrátt fyrir að langflestir þeir sem um málið fjalla hallist á sveif með áliti IPCC verður samt að játa að afdráttarlaus svör varðandi breytileika stuðulsins fást því miður ekki fyrr en svo dregur úr sólvirkni að undirliggjandi breytileiki sýni sig í mælingum - sé hann fyrir hendi á annað borð.

Fjölmargir hafa reynt að nota veðurfarslíkön til að herma megindrætti veðurfars (einkum hita og úrkomu) síðustu þúsund ára. Til að hægt sé að gera það eru upplýsingar um geislunarálag nauðsynlegar - þar á meðal ágiskanir um breytileika sólstuðulsins.

Líkanreikningarnir þykja benda til þess að blái ferillinn (eða nánir ættingjar hans) sé sá rétti - eða alla vega falli hann best að breytingum á hitafari síðustu 150 ára - og þá líklega líka lengra tímabils. Áhrif breytileika sólar á veðurfar þessa tíma séu lítil (ekki engin) - enda hafi breytileiki sólgeislunar verið lítill. 

Séu stærri sveiflur notaðar (rauði eða græni ferillinn - eða ættingjar þeirra) verði hitasveiflur síðustu 150 ára (þær þekkjum við allvel) óraunverulegar. Þetta styður óneitanlega álit IPCC.   

Þeim sem hafa áhuga á því hvernig rauðu og grænu ferlar myndarinnar eru reiknaðir er bent á greinarnar sjálfar, þær eru aðgengilegar á netinu (Lean og félagar [3] og Shapiro og félagar [6]).  

Fyrir utan þessar ágiskanir hefur verið reynt að særa upp undirliggjandi breytileika með því að athuga lengd hverrar sólblettasveiflu. Meðallengdin er 10,6 ár - en getur verið styttri og lengri. Það þvælir málið að ekki er vitað hvort miða á við tíma á milli eftirfylgjandi lágmarka eða hámarka - auk þess sem sum hámörk eru tvöföld og sum lágmörk mjög flöt. Segulmælingar hafa einnig verið notaðar við þessar lengdarmælingar. Niðurstaðan virðist sú að sé sólblettahámarkið mikið er tilhneiging til styttri sveiflu en þegar það er lítið.

Um þetta og fleira athyglisvert má lesa í ágætri greinargerð Richard og félaga [7] - þeim er þó ekki sérlega umhugað um hitaspár eða sólstuðul.  

Rétt er að minnast einnig á þá hugmynd að þegar sólvirkni sé í lágmarki sé aðgengi geimgeisla að lofthjúpi jarðar í hámarki. Geimgeislar auki fjölda þéttikjarna í lofthjúpnum og þar með myndist ský með auðveldari hætti en ella - endurskin jarðar aukist - og lofthjúpurinn kólni. IPCC-skýrslan (2013) gerir lítið úr hugmyndinni - enda hafi ekkert komið fram sem styður hana.   

Endurskin jarðar hefur verið mælt í allmörg ár og á því tímabili hefur breytileiki þess frá ári til árs verið lítill (um 0,2 prósent - rúmt 0,1 W á fermetra) eða enn minni heldur en sólblettavirknisveiflan [8]. Trúlega þarf þó lengri tíma nákvæmra mælinga til að skera endanlega úr um þetta atriði. 

Hugmyndir eru einnig uppi um tengsl sólvinda (og/eða sveiflna í segulsviði sólar og/eða samspili þess við segulsvið jarðar) við hringrás lofts í efri lögum lofthjúpsins - jafnvel niður í heiðhvolfið. Um slíkt hefur verið fjallað lengi - aðallega með fremur veikum tölfræðilegum rökum - en ef um slík tengsl er að ræða er líklegra að þau taki fremur til veðurs heldur en veðurfars.

Er einhver niðurstaða? Varla - en verður vonandi fyrir hendi eftir 10 til 15 ár. 

Númeruðu tilvitnanirnar [] eru listaðar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Staða sjávarhitavika

Hér var síðast litið á sjávarhitavik í pistli 2.maí - þar er kort yfir meðalvik aprílmánaðar alls. Þann 11. apríl kom pistill um vikakort fyrir 9. apríl einan og sér. Rétt er að taka stöðuna aftur. Myndin sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar 22. maí. 

w-blogg230515a

Grænir litir sýna neikvæð vik, en gulir jákvæð. Miðað við 9. apríl virðist hafa hlýnað að tiltölu við Nýfundnaland - en neikvæða svæðið fyrir sunnan Ísland hefur breitt úr sér - bæði í átt til okkar - sem og austur að vestanverðum Bretlandseyjum. Á móti kemur að blái liturinn (neikvætt vik stærra en -2 stig) hefur nær alveg horfið. Hann þakti áður að minnsta kosti tvöfalt flatarmál Íslands. 

Neikvæða vikið við Austurland hefur heldur styrkst - hér verður ekki giskað á ástæður þess (auðvelt er að giska - en vandmeðfarnara að giska rétt). Töluverð hlýindi eru enn fyrir norðan land. Mjög stórt jákvætt vik er í Barentshafi (rétt utan við kortið). 

Vindur sem blæs til okkar frá neikvæðu vikunum verður líklega enn um sinn kaldari en venjulega (1 til 2 stig). Illmögulegt er að geta sér til um hvort sólinni tekst að útrýma neikvæðu vikunum í sumar - tilfinning telur það ólíklegt - svo kemur í ljós þegar hvessa fer í haust hvort kaldari sjór liggur í leyni rétt undir yfirborði.

Það má enn benda á að óvenjuþrálátir kaldir loftstraumar frá Kanada - tvo vetur í röð - bjuggu neikvæða sjávarhita vikið til - en ekki öfugt. 

Hér að neðan er annað kort - þar sem notaður er sami litakvarði og viðmiðunartímabil og á meðalvikakorti aprílmánaðar sem birtist í pistlinum 2. maí og áður var minnst á. 

w-ecm05_nat_msl_ci_sst-anom_2015052212_000

Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting um hádegi föstudaginn 22. maí en litirnir vikin (og hafís). Á þessu korti sjást hlýindin í norðurhöfum betur en á því efra þar sem það nær aðeins lengra til norðurs og norðausturs. 


Vestanloft - vestanloft - vestanloft

Það virðist vera lítið framboð á öðru en svölu vestanlofti þessa dagana. Nokkrir klukkutímar á stangli með suðlægri átt, en það gæti svosem verið kaldara.

w-blogg220515a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa um hádegi á laugardag, 23. maí. Þá er skammvinnur skammtur af sunnanlofti á hraðri leið austur af landinu. Þótt viðdvöl hann sé stutt er ekki útlokað að hiti fari í 17 til 19 stig - svona rétt í svip - en guli liturinn er hagstæður, þar er þykktin meiri en 5460 metrar - eins konar sumar. 

En græni liturinn ræður ríkjum - svalt á nóttum - og á daginn líka alls staðar þar sem skýjað er. Háloftalægðin vestur af landinu fer hratt hjá líka  - skammvinn norðanátt fylgir - ef til vill með slyddu og snjó á heiðum nyrðra á aðfaranótt mánudags (eða svo er sagt). Lægðin verður svo rétt farin hjá þegar sú næsta tekur við - hún er hér vestast á kortinu. Kemur á þriðjudag - svo gætu komið tveir norðanáttardagar eða svo - vonandi ekki meir - því lengri tíma þarf til að ná í alvörukulda - vestansvalinn er alveg nógu kaldur. 

Hlýinda er vart að vænta fyrr en síðar - segir evrópureiknimiðstöðin.  


Svalt loft að vestan

Nú undir kvöld (mánudag 18. maí) sló fallegum blikubakka upp á vesturloftið við Faxaflóa - hann er forboði þykkari skýjabakka og úrkomu síðdegis á morgun (þriðjudag) eða annað kvöld. Lægðarmiðjan sjálf er enn vestan Grænlands þar sem mjög kalt loft úr vestri hefur komið upp að ströndinni. Í Nuuk og víðar þar um slóðir var hríðarbylur og frost í dag.

Eins og oftast stíflar Grænland framrás kaldasta loftsins en nokkuð sleppur samt yfir jökulinn og kemur hér við sögu á miðvikudag og fimmtudag. Þótt kuldinn sé ekki mjög mikill gætu þessir dagar samt orðið mjög hráslagalegir miðað við árstíma. 

Kortið að neðan gildir síðdegis á miðvikudag (20. maí).

w-blogg190515a

Meginúrkomusvæði lægðarinnar er hér við Vesturland. Við sjáum -5 stiga jafnhitalínu 850 hPa-flatarins yfir landinu. Hún vísar oft á mörk á milli snjókomu og rigningar. Við sjáum líka að aðalkuldinn (handan -10 stiga jafnhitalínunnar) er stíflaður vestan Grænlands. 

Svo verður víst skammvinn norðanátt á föstudag og síðan koma lægðirnar á færibandi, evrópureiknimiðstöðin talar um lægð á laugardag aðra á mánudag og enn aðra á miðvikudag - það er á tveggja daga fresti. Það er helst að einhverra hlýinda gæti norðaustan- og austanlands rétt í svip þegar lægðirnar fara hjá - en að öðru leyti verði heldur svalt í veðri hér á landi. 


Hvorki né - vika?

Eftir kuldakastið mikla - og þriðja lægsta loftþrýsting maímánaðar á Íslandi blasir við tíðindalítil veðurvika. Ekki þó tíðindalaus - veðrið er það aldrei - því fleiri en ein lægð á að fara hjá og gert er ráð fyrir að norðlægar og suðlægar vindáttir skiptist á. 

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa-fletinum næstu tíu daga (16. til 26. maí). 

w-blogg170515a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Þrýstingur verður að jafnaði lægstur fyrir vestan land - en lægðardrag yfir landinu. Þetta gefur til kynna frekar grámyglulegt veðurlag lengst af. Strikalínurnar sýna hita í 850 hPa, það er -4 línan sem snertir Vestfirði og -2 jafnhitalínan er skammt fyrir suðvestan land. Ekki er það hlýtt.

Litafletirnir sýna hitavik í 850 hPa og þrátt fyrir að okkur finnist hitinn ekki hár er hann samt ekki fjarri meðallagi maímánaðar áranna 1981 til 2010. Sjá má töluna -1,3 þar sem vikið er mest vestan við land. 

Sá kuldi sem nær til landsins segir spáin að komi úr vestri - en ekki norðri eins og verið hefur að undanförnu. Úrkomu fáum við víðast hvar á landinu því margar lægðir fara hjá þessa tíu daga - gangi spáin eftir.

Hvorki né - miðað við öfgakennt ástand að undanförnu. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 145
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 2524
  • Frá upphafi: 2434966

Annað

  • Innlit í dag: 131
  • Innlit sl. viku: 2241
  • Gestir í dag: 127
  • IP-tölur í dag: 125

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband