Hiti ársins 2015?

Árið 2015 hefur byrjað heldur kuldalega um landið sunnan- og vestanvert. Maí er að vísu ekki búinn - en afgangur mánaðarins kemur ekki til með að breyta neinu sem nemur þar um. Meðalhiti í Reykjavík frá áramótum til og með 21. maí er 1,2 stig - og er í 49. sæti á 67 ára hitalista hungurdiska. Á Akureyri er árið hins vegar rétt ofan við miðjan flokk, í 29. sæti af 68 og enn hlýrra hefur verið austur á Dalatanga þar sem hitinn er nú í 20. sæti á lista. 

Fyrstu fimm mánuðir ársins segja býsna mikið um meðalhita þess alls - eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Ársmeðalhita í Reykjavík spáð eftir hita í janúar til maí

Lárétti ásinn sýnir meðalhita í janúar til maí - en sá lóðrétti árshita. Rauða línan sýnir línulegt samband. Fylgnin er mjög góð - stór hluti af venjulegum breytileika ársins felst í vetrarmánuðunum þremur, janúar til mars. 

Ef allt fer á „venjulegastan“ hátt ætti ársmeðalhitinn 2015 að verða 4,1 stig. Ef við rýnum í myndina getum við séð að rúmlega hálfrar gráðu vik eru algeng - en sjaldgæft er að vikið sé stærra en svo. Þó er eitt ár - sem byrjaði álíka kalt og nú - sem nær að slá sér verulega upp - og endaði 5,02 stigum. Þetta er 1958. 

Hiti afgang ársins hefur áhrif - en meginlínurnar eru oftast lagðar - en þó ekki alveg alltaf. Við skulum til gamans líka líta mynd sem sýnir samband hita fyrstu fimm mánaðanna við hita afgang ársins.

Hita í júní til desember „spáð“ eftir hita í janúar til maí

Lárétti ásinn sýnir sem fyrr meðalhita í janúar til maí - en sá lóðrétti er meðalhiti frá júní til desember. Reiknað samband virðist marktækt - en þó ekki svo að við treystum spánni eins vel og þeirri að ofan. Við sjáum að algeng vik (bæði jákvæð og neikvæð) eru um 1 stig. Ef við setjum hitann í janúar til maí í ár inn - „spáir“ línuritið 6,1 stiga hita afgang ársins - ef það yrði svo reyndin lendir árið 2015 í heild í 4,0 stigum - því sama og sambandið á hinni myndinni „spáði“.

En - nú hefur hlýnað umtalsvert frá 1870. Kaldur árshluti nú er því afbrigðilegri heldur en jafnkalt tímabil á 19. öld. Reyna má að taka tillit til þessara veðurfarsbreytinga við gerð spár - og þar með „leiðrétta“ hana. Hægt er að gera það á ýmsa vegu - reyndar umdeilanlegt hvernig best sé farið að. Ritstjórinn leyfði sér í fljótheitum að slá máli á „leiðréttinguna“ - en getur ekki ábyrgst að rétt sé reiknað (frekar en venjulega) - og fær út töluna +0,6 stig - fyrir afgang ársins 2015. Þar með yrði ársmeðalhitinn 4,4 stig - en ekki 4,0. 

Niðurstaðan er e.t.v. sú að haldi árið áfram með svipuðum hætti og verið hefur muni ársmeðalhiti í Reykjavík 2015 enda í um 4 stigum. En en verði bara „venjulega“ kalt - er 4,4 fullt eins líkleg tala. Til að komast upp fyrir 5 stig þarf mikið átak - marga mjög hlýja mánuði. Það er hugsanlegt - eins og 1958 - en varla líklegt - en samt líklegra heldur en fyrir 60 árum. Verði óvenjulega kalt það sem eftir lifir árs gæti ársmeðalhitinn í Reykjavík endað niðri í 3,5 stigum. 

Geta menn nú smjattað á þessu um hríð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2020
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

 • w-blogg110820a
 • w-blogg090820aa
 • ar_1871p
 • ar_1871t
 • ar_1870p

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (13.8.): 9
 • Sl. sólarhring: 703
 • Sl. viku: 2774
 • Frá upphafi: 1953717

Annað

 • Innlit í dag: 9
 • Innlit sl. viku: 2440
 • Gestir í dag: 9
 • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband