Smávegis af aprílmánuði 2015

Á fjasbókarsíðu hungurdiska var í gær lítillega fjallað um veðurfar í nýliðnum aprílmánuði. Mörgum fannst mánuðurinn kaldur (og víst var síðasta vikan köld) en var hann það? Hiti var ofan meðallags síðustu tíu ára á Austurlandi, en vel undir á Suðvesturlandi, samt var þar þó nokkuð kaldara í apríl fyrir tveimur árum.

Það er fyrst og fremst meðalvindhraði mánaðarins sem verður að teljast óvenjulegur. Reikningar (varla alveg áreiðanlegir þó) segja vindinn hafa verið meiri en áður hefur orðið í aprílmánuði.

En lítum á landsmeðalhita og meðalvindhraða í byggð í apríl frá og með 1949. Meðaltalið hefur ritstjóri hungurdiska reiknað og ekki víst að aðrir fái nákvæmlega sömu útkomu. 

w-blogg010515

Gráu súlurnar sýna hitann ásamt lóðrétta kvarðanum til vinstri. Þarna sést að mánuðurinn er u.þ.b. í miðjum hópi hlýindaáranna á þessari öld, áberandi kaldara var í apríl 2013. Langhlýjasti aprílmánuður tímabilsins var 1974 - og næst því kemst apríl undraárið 2003. Eftirtekt vekja kaldir aprílmánuðir 1949, 1951 og 1953. 

Rauðu ferlarnir sýna meðalvindhraða - kvarðinn er til vinstri. Strikuðu línurnar sýna mannaðar stöðvar, en heildregin meðaltal sjálfvirkra stöðva. 

Nýliðinn apríl er sá hvassasti - meðalvindhraðinn í mánuðinum var í kringum 7 m/s. Á seinni árum er það helst illviðramánuðurinn apríl 2011 sem skákar honum og svo hinn löngu liðni, afburðaleiðinlegi apríl 1953. 

Vindurinn hefur verið svo stríður undanfarna mánuði að athygli fer að vekja - en við skulum bíða með umfjöllun um það þar til síðar. 

Sjávarhitavik hafa líka verið til umræðu upp á síðkastið. Lítum á þau:

w-blogg010515a

Kortið gildir fyrir nýliðinn aprílmánuð og er ættað úr gögnum evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnu línurnar sýna meðalloftþrýsting við sjávarmál. Bleiku og gráu svæðin sýna hafísinn (sjá kvarðann efst til hægri), en bláir og gulir litir vik sjávarhita frá meðallagi áranna 1981 til 2010. 

Við sjáum mikil hlýindi norður í höfum og ná þau allt til Norðurlands, einnig er hlýtt fyrir suðaustan land. Mjög kalt er aftur á móti um miðbik Norður- Atlantshafs. Pólar mikilla neikvæðra og jákvæðra vika undan Nýfundnalandi vekja einnig athygli.

Nú verður ritstjóri hungurdiska að játa ákveðið tilfinningaleysi gagnvart ástandinu í hafinu langt frá landinu. Hann veit þó að víðáttumikla neikvæða vikið er afleiðing óvenjuöflugra árása kulda frá Norður-Ameríku í vetur. Það kostar varma að hita allt það loft á leið til okkar og Vestur-Evrópu. 

Vikapólarnir við Nýfundnaland eru sennilega líka afleiðing af sterkum vestanáttum sem hafa styrkt Golfstrauminn (jákvæðu vikin) - en jafnframt fært miðju hans lítillega til austurs og suðausturs. Kaldi póllinn getur því bæði orsakast af varmatapi upp í kalda loftið - en hugsanlega er líka um uppdrátt kaldsjávar norðan við óvenjuöflugan streng í Golfstraumnum að ræða - sé svo eru ástæður neikvæðu vikanna ekki þær sömu alls staðar. En takið þessa greiningu ritstjórans ekki of hátíðlega. 

Að undanförnu hefur líka verið rætt um það hversu kalt árið hafi verið það sem af er. Jú, það má segja að það hefi verið fremur kalt - miðað við það hvað hlýtt hefur verið undanfarin ár - en í lengra samhengi er það alls ekki.

Hér að neðan er mynd sem sýnir landsmeðalhita fyrstu fjögurra mánaða ársins frá 1823 ti okkar daga. Mikil óvissa er í reikningum fyrir 1880 - en síðan þá ætti að vera þónokkuð vit í þeim. 

w-blogg010515b

Hér sést vel að fyrstu fjórir mánuðir ársins 2015 teljast greinilega til hlýindaskeiðsins sem á myndinni virðist hafa byrjað 2003. Rauða línan sýnir reiknaða leitni alls tímabilsins (um 1,3 stig á öld), en blái ferillinn er útjöfnun. Við minnum enn og aftur á að leitnin hefur ekkert spágildi.

Við sjáum enn og aftur hversu óvenjulegt núverandi hlýskeið er í langtímasamhengi - breytileikinn frá ári til árs er mun minni heldur en almennt hefur verið - árið í ár breytir því ekki - þótt það sé neðan leitnilínunnar. 

Við eigum inni miklu kaldari ár (fyrstu fjóra mánuði ársins) í núverandi hlýskeiði. Það er beinlínis óeðlilegt ef við förum ekki að fá það - það er ekki efnilegt ef þetta heldur kuldalaust áfram mikið lengur. Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2015 eru ekki þeir köldu sem beðið hefur verið um - það er óskhyggja að telja svo vera. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held nú að engir hafi beðið um köld ár þó svo að menn séu að tala um að margt bendi til kólnunar, tímabundinnar eða ekki. 

Það væri auðvitað fróðlegt að sjá svipaðar tölur fyrir Reykjavík eina. Þar er greinilegt að árið í ár (það sem af er) tilheyrir kuldatímabilinu (1965/6-2002) en ekki hlýskeiðinu síðustu 12 ár, sem virðist nú vera að ljúka. Ég hefði persónulega viljað hafa hlýskeiðið lengur hér á norðurslóðum og tel það "ekki efnilegt" ef nú fer að kólna.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 2.5.2015 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 357
  • Sl. viku: 2290
  • Frá upphafi: 2348517

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 2006
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband