Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Norðanátt - en ekki sérlega köld

Lægðin djúpa sem nú er við landið (föstudagskvöld 15. maí) snýst hring í kringum sjálfa sig á morgun (laugardag) og fer síðan til suðausturs. Norðanátt fylgir auðvitað í kjölfarið - en svo bregður við að hún verður ekki sérlega köld - það er að segja ef miðað er við ósköpin að undanförnu. 

w-blogg160515a

Kortið gildir kl. 18 síðdegis á sunnudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassara er í fletinum. Litir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Ljósgrænu litirnir einkenna maí og júní og okkur finnst dökkgræni liturinn jafnvel viðunandi - en þeir bláu mun síður. - Á bestu dögum maímánaðar fáum við gulan lit til okkar. Þá fer þykktin yfir 5460 metra - allt ofan við 5550 er hálfgert kraftaverk í maí.  

Hver litur táknar 60 metra þykktarbil - um 3 stig á hitamæli að vetrarlagi - en aðeins minna vor og sumar þegar stöðugleiki loftsins er meiri. Rætist spáin verður þykktin um 5300 metrar yfir landinu á sunnudaginn - gefur tilefni til að spá um 12 stiga landshámarkshita síðdegis. Flestir vilja meira - en það er samt þolanlegt í norðanátt í maí. - En það snjóar í fjöll og á sumar heiðar nyrðra. 

Næsta lægð kemur að sögn á þriðjudag eða miðvikudag - henni fylgir ekki sérlega hlýtt loft - og svo kemur aftur norðanátt - nógu köld - síðan gengur í framtíðarþoku í sýndarheimum. 


Djúp lægð (miðað við árstíma)

Að meðaltali er maí sá mánuður ársins þegar loftþrýstingur er hæstur hér á landi. Í takt við það eru lægðir þá oftast grynnri en á vetrum. Lægsti þrýstingur sem mælst hefur hér á landi í maí er 967,3 hPa, á Stórhöfða þann 13. maí 1956. Trúlega eigum við einhvern tíma eftir að sjá þrýsting fara niður fyrir 960 hPa í maí - því það hefur einu sinni gerst í júní.

Til viðbótar við metið 1956 hefur þrýstingur þrisvar farið niður fyrir 970 hPa í maí hér á landi (2006, 1963 og 1911) - það er því ekki beinlínis algengt. Maí 2015 gæti hugsanlega bæst í hópinn annað kvöld (föstudaginn 14. maí) því mjög djúp lægð stefnir nú í átt til landsins.

Rétt er að taka fram að hún virðist ekki líkleg til stórræða hvað vind varðar því reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir að við sleppum við vestanstrenginn slæma sunnan við hana - og áður en norðanáttin vestan við kemur að landinu verður hún aftur tekin að grynnast - en eitthvað hvessir samt af suðaustri á stöku stað - og hressilegri rigningu er spáð suðaustanlands. En - Veðurstofan sér um spárnar - ekki blogg hungurdiska. 

En lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir annað kvöld kl.18 (föstudag 14. maí).

w-blogg150515a

Hér er þrýstingur í lægðarmiðju 968 hPa (jafnþrýstilínur eru dregnar með 4 hPa bili). Það er hugsanlegt að þrýstingur í Vestmannaeyjum eða á Eyrarbakka fari niður fyrir 970 hPa seinna um kvöldið - ekki víst þó. En metinu frá 1956 ætti að vera óhætt. 

Að sögn erlendra fjölmiðla féll evrópuhitamet maímánaðar í dag þegar 42,9 stig mældust á Spáni. 


Þrjár vikur af sumri

Nú eru liðnar þrjár vikur af sumri - eftir íslenska tímatalinu. Þær hafa verið sérlega kaldar og reyndar líka allar þurrar sunnanlands, en fyrstu sumarvikuna snjóaði talsvert víða um landið norðanvert og sérstaklega mikið allra austast á landinu.

Því er ekki að neita að kuldinn hefur verið óvenjulegur, m.a. hafa þrjú landsdægurlágmarksmet fallið. Það þarf að leita nokkra áratugi aftur í tímann til að finna viðlíka upphaf á sumri - á Akureyri og í Reykjavík er þetta þriðja kaldasta sumarbyrjun síðustu 67 ára og í Stykkishólmi hefur sumarbyrjun aðeins 14 sinnum verið kaldari en nú frá upphafi mælinga þar. 

Við skulum þó hafa í huga að kuldakastið nú „hittir vel í“ vikurnar þrjár - það byrjaði á sumardaginn fyrsta - ekki er víst að önnur þriggja vikna kuldaköst á viðmiðunartímabilum hafi gert það. En - þetta kuldakast á sér auðvitað framtíðarvon og verði næsta vika líka köld er aldrei að vita nema að sumarbyrjun 2015 skori enn betur en hingað til. 

En lítum á töflubrot sem sýna stöðu á keppnislistunum:

Fyrst er Reykjavík.

röðármeðalh.°C
119491,00
219791,08
320151,36
419822,16
519672,26
619682,39
719892,81
819752,91
919832,91
1019813,03

Hér eru það fyrstu þrjár vikur sumars 1949 og 1979 sem eru kaldari. 

Á Akureyri er staðan svipuð.

röðármeðalh.°C
11968-1,55
21979-0,93
32015-0,46
419490,05
519690,33
619810,77
719890,85
819830,88
919671,16
1019951,78

Vorið 1979 er á sínum stað, en kaldasta sumarbyrjunin er 1968 sem er í 6. sæti í Reykjavík.

Í Stykkishólmi getum við reiknað meðaltal fyrstu 3 vikna sumars allt aftur til 1846, í 170 ár. Meðalhitinn nú er +0,46 stig - og eins og nefnt var að ofan eru 14 kaldari tilvik á tímabilinu - kaldast 1882 þegar meðalhitinn var -3,52 stig og 1906 þegar hann var -1,41 stig. Bæði þessi ár gerði hrikaleg og langvinn norðanveður í upphafi sumars, - slíkt og þvílíkt höfum við sloppið við - alla vega enn sem komið er. 

Eins og nefnt var að ofan hefur úrkoma verið óvenjulítil sunnanlands og vestan. Fyrstu þrjár vikur sumars hefur hún aðeins mælst 2,6 mm í Reykjavík. Ekki er vitað um jafnlitla úrkomu í Reykjavík á sama tímabili frá upphafi mælinga 1884 (að vísu vantar mælingar frá árunum 1907 til 1919). Næstminnst var úrkoman fyrstu þrjár vikur sumars vorið 1924, 4,0 mm. Fyrir norðan var fyrsta vikan úrkomusöm - en síðari tvær þurrar þannig að ekki er enn um nein met að ræða þar um slóðir. 

Eins og fram hefur komið á fjasbókarsíðu hungurdiska (og á fleiri frjálsum fjölmiðlum) hafa sólskinsstundir verið sérlega margar í Reykjavík að undanförnu og hafa ekki verið fleiri fyrstu þrjár vikur sumars frá upphafi mælinga. Þriggja vikna summan er 237,4 stundir, næstflestar voru sólskinsstundirnar í sumarbyrjun 1958, 233,7 - síðan er talsvert bil niður í þriðja sætið, 212,3 stundir, vorið 1924. 

Þetta er flest harla óvenjulegt - en óráðin spurning hvað svo gerist.

Í pistli gærdagsins var minnst á hitabylgju í sýndarheimum gfs-líkansins á fimmtudag í næstu viku. Það fór eins og búast mátti við að sýningin stóð stutt - en í dag reis upp heldur líklegri sýn - í henni er hitabylgja næstkomandi fimmtudags njörvuð við suðausturströnd Grænlands - og evrópureiknimiðstöðin tekur undir. Þessi hiti - ef af verður nær ekki til Íslands.

En - málinu er ekki alveg lokið. Á hádegi í dag uppfærði evrópureiknimiðstöðin líkan sitt - og telur uppfærsluna auðvitað til bóta, sem hún vonandi er. En í tilefni dagsins býður reiknimiðstöðin til sinnar einkasýndarhitabylgju á laugardag í næstu viku - með uppfærðu líkani. Satt best að segja er þessi spá ekki mjög traustvekjandi en samt trúlegri en sýn þeirra amerísku í gær að því leyti að hitanum er ekki spáð alveg til Íslands. Við skulum sjá spána á mynd - fagra hugsýn eða falsvon.

w-ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2015051312_240

Já, ekki amalegt - nema hvað að þegar ámóta stöður koma upp í raunheimum fylgja allt of oft slæm norðanköst í kjölfarið - nú eða einhver annar ósómi. 


Landsynningurinn knái snýr aftur

Eftir þriggja vikna kuldakast snýst vindur nú til suðaustanáttar um stund. Útlit er fyrir að henni fylgi nokkur rigning - ekki veitir af - og hlýrra veður. Þetta verður þó ekki neitt sérlega hlý sunnanátt, en ætli hiti fari samt ekki yfir tíu stig sums staðar - jafnvel um 15 stig þar sem best lætur. En suðaustanáttin verður nokkuð hvöss um landið vestanvert aðfaranótt fimmtudags - sé að marka spár. 

Við lítum á eina slíka, þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 925 hPa-fletinum sem gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni 14. maí. 

w-blogg130515a

Flöturinn er hér í um 700 metra hæð yfir landinu vestanverðu. Jafnhæðarlínurnar eru heildregnar (og merktar í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Vindhraði og vindátt eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Vindur er nokkuð mikill í strengnum við Vesturland, um 25 m/s í fletinum - en væntanlega minni víðast hvar á láglendi. 

Litafletir sýna hita, hann er hér á bilinu 0 til 4 stig yfir landinu. Það er í 700 metra hæð. Hiti fellur með hæð - oft um um það bil 2 stig á hverja 300 metra. Við getum því bætt um 5 stigum við til að giska á hita við sjávarmál - en þar sem ekki rignir og loft í 700 metrum nær niður óblandað er óhætt að bæta 7 stigum við hitann á kortinu. Svo er enn hlýrra loft fyrir ofan - reiknimiðstöðin segir mættishita í 850 hPa verða um 12 til 14 stig - kannski sjá það einhverjir á mælum fyrir norðan á fimmtudaginn.

Næsta lægð fylgir svo á eftir - þannig að vindur nær varla að snúast alveg í suðvestur. Lægðin sú er mjög djúp (miðað við maímánuð) en virðist ætla að leggjast vel að landinu - reyndar mun vera spurning með norðanáttina sem á að fylgja í kjölfarið - en það er framtíðarmál. 

Stundum unga reiknimiðstöðvar út ólíkindaspám sem geta varla ræst - ein slík fæddist hjá bandarísku veðurstofunni nú í kvöld. Við skulum líta á kortið - til gamans aðeins - þetta getur tæplega verið rétt.

w-blogg130515b

Eins og sjá má er þykktin nærri 5600 metrum yfir landinu - sem væri glæsilegt maímet. Hita í 850 hPa er spáð yfir 13 stig - það væri auðvitað maímet líka - og ekki fjarri hæsta sumarhita sem þekktur er yfir landinu.

Varla þarf að taka fram að evrópureiknimiðstöðin er með eitthvað allt annað - og jarðbundnara - væntanlega verða ameríkumenn líka með eitthvað annað í fyrramálið - en er á meðan er.   


Heldur hlýrra framundan?

Nú er helst útlit fyrir að hiti komist loks upp í meðallag maímánaðar (eða þar um bil). Hvort það verður samfellt - eða þá að hlýir og kaldir dagar skiptist á er varla útséð um. En spákortið hér að neðan gildir fyrir næstu tíu daga (að meðaltali).

w-blogg120515a

Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins, strikalínurnar þykktina og litir sýna þykktarvik - bláir þar sem þykktin (hiti í neðri hluta veðrahvolfs) er undir meðallagi en gulir og rauðir þar sem hún er yfir meðallagi maímánaðar 1981 til 2010. 

Svo virðist sem skrúfað hafi verið fyrir kuldann úr norðri - meðalvindstefna yfir landinu er komin í suðvestur. Kalt loft er farið að streyma úr norðvestri út yfir Atlantshaf - eins og lengst af í vetur. Skyldi nú skipta aftur yfir í svipaða umhleypinga - lægðagang og tilheyrandi skítkast? Það vitum við ekki - en þó bendir flest til þess að djúp lægð verði í námunda við landið um helgina. 

Evrópureiknimiðstöðin leggur hana að landinu á til þess að gera hagstæðan hátt - en kemur henni svo austur fyrir land með tilheyrandi norðanátt - en bandarísku reikningarnir búa fyrst til leiðindaútsynning sem við varla megum við að fá - nema úrkomuna, sem auðvitað hlýtur að teljast velkomin eftir allan þurrkinn síðustu vikurnar. 


Tíundi maí

Hér er færsla af fjasbókarsíðu hungurdiska látin leka yfir á blogghliðina - hún varð svo löng. Lesendur mega gjarnan afsaka símskeytastílinn.

Sunnudagurinn (10. maí) var líka kaldur - en landsmeðalhiti í byggð (lhb) þó ofan frostmarks eins og í gær, reiknaðist +0,36 stig, -4,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Jafnkaldir almanaksbræður finnast ekki í tíð sjálfvirka kerfisins, en fáeinir nokkuð kaldari í eldri gögnum, kaldastur 10. maí 1975, lhb -2,59 stig.

Landsdægurlágmarksmet féll í dag þegar hitinn á Brúarjökli fór niður í -18,1 stig. Þetta var óvenju vel að verki staðið því þetta er miklu kaldara en gamla metið, -13,8 stig, sem sett var á Hveravöllum 1992. Þetta er þriðja landsdægurlágmarksmetið sem fellur í mánuðinum.

Lágmarksdægurmetin á sjálfvirku stöðvunum urðu 97 og er það mjög mikið. Lágmarksdægurmet féllu líka á sex mönnuðum stöðvum. Sólarhringslágmarkshiti var neðan frostmarks á 100 stöðvum í byggð, af 108, og frost var allan sólarhringinn á 9 þeirra. Leitarforritið segir að ný maílágmarksmet hafi verið sett á þremur stöðvum sem hafa athugað frá því fyrir aldamót, Neskaupstað, Fagradal og í Ögri. Neskaupstaðarmetið nær þó aðeins til sjálfvirku stöðvanna þar, kaldara var á mönnuðu stöðinni í maí 1975.

Staðan er nú sú á 67 ára listunum að maí hefur aðeins tvisvar byrjað kaldari í Reykjavík, á Akureyri og á Dalatanga. Í Reykjavík eru það 1982 og 1979 sem eru kaldari. Lengra í fortíðinni má finna meiri kulda en nú 1943 og á nokkrum árum á 19. öld í Reykjavík - kaldast var þó 1979. Á langa Stykkishólmslistanum er staðan þannig að 18 maímánuðir hafa byrjað kaldari síðustu 170 árin, kaldasta maíbyrjunin var þar 1979.

Hlýjast það sem af er mánuði er í Surtsey, meðalhitinn 3,0 stig, en kaldast í Sandbúðum á Sprengisandsleið þar sem frostið hefur verið -8,0 stig að meðaltali - mikill vetur enn á Sprengisandi. Hiti er neðan meðallags á öllu landinu, neikvæða vikið er minnst (hlýjast að tiltölu) á Skagatá og á Gjögri, -3,2 stig, en mest er vikið í Veiðivatnahrauni, -7,9 stig.

Meðalvindhraði í byggð reiknaðist 4,9 m/s - það telst viðunandi, en óþægilegur næðingur var samt víða. Snjódýptarmet fyrir maí var sett á Reykjum í Hrútafirði, snjódýpt mældist 9 cm.

Sólskinsstundirnar í Reykjavík mældust 7,1 í dag, nægir ekki alveg til að ná 1. sæti á sólskinslistanum, 0,4 stundum munar á núverandi mánuði og maí 1958. Sáralítið sólskin hefur mælst við Mývatn í mánuðinum, aðeins 17,7 stundir.

Þurrkur fer að teljast óvenjulegur - en ekki samt komið alveg að því. Úrkoma hefur verið lítil um mestallt land nema allra austast - en algjör þurrkur - [úrkoma minni en 0,1 mm] hefur verið á 14 stöðvum það sem af er mánuði (ef trúa má fréttum). Úrkoman hefur mælst 2,9 mm í Reykjavík til þessa í mánuðinum - en var t.d. engin fyrstu tíu daga maímánaðar 1958.


Smáupprifjun á fáeinum spurningum (úr flokknum söguslef)

Í júní í fyrra (2014) var hér á hungurdiskum litið á nokkrar myndir tengdar veðurfarssögu Ísland og fjallað um þær í nokkru máli. Þær langlokur verða ekki endurteknar hér en rifjum samt upp eina mynd sem þá birtist - og bætum einni við (sú er reyndar líka endurnýting frá enn fyrri tíma) og horfum á tvo lista.

Fyrri myndin sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi - mældan og áætlaðan allt aftur til 1798 og fram til síðastliðins árs. Hún er öðruvísi en þær sem oftast eru sýndar að því leyti að búið er að nema línulega leitni (eins og hún reiknast fyrir allt tímabilið, 0,8°C/100 ár) á brott. Við sitjum eftir með áratugasveiflur - auk þess sem sveiflur frá ári til árs sjást mætavel. 

reykholt-fyrirlestur_leitnilaus-hiti

Lárétti ásinn sýnir árin en sá lóðrétti vísar á hita - gráu súlurnar sýna ársmeðalhitann, en rauða línan 10-ára keðjumeðaltal. Það þarf ekkert sérstaklega góðan vilja til að sjá þrjú hlýindaskeið - þau eru hér afmörkuð með lóðréttum strikalínum. Það fyrsta er talið standa frá 1828 til 1858 - í 31 ár - breytileiki innan skeiðsins er mikill. 

Næsta hlýskeið er hér talið byrja 1928 og talið standa til 1964 í 37 ár. Breytileiki er töluverður frá ári til árs - en minni en á fyrsta hlýskeiðinu. Síðasta hlýskeiðið er talið hefjast 2003 og stendur enn - breytileiki er mjög lítill - eða hefur verið það hingað til. Á milli hlýskeiðanna eru tvö mjög mislöng kuldaskeið. Breytileiki er mikill innan kuldaskeiðanna - en þó heldur minni eftir 1892 en áður.

Margt má um myndina segja - en hér skulum við fyrst spyrja okkur þeirrar spurningar hvort takturinn milli hlý- og kuldaskeiða er svo skýr að við getum spáð því hversu langt núverandi hlýskeið verður? Svo er auðvitað ekki. Lengd tveggja fyrri skeiða segir okkur ekkert um lengd þess sem nú stendur - en ef við höllumst að reglulegum sveiflum verðum við að trúa því að í aðalatriðum muni það standa í að minnsta kosti 25 ár til viðbótar - og að inn í það muni koma fáein kaldari ár - hugsanlega klasi. Ritstjóri hungurdiska trúir ekki á aðrar reglubundnar sveiflur en þær sem hafa eðlisfræðilega verið negldar niður með afli - svo það sé á hreinu. Í flokki sveiflna sem ritstjórinn hefur ofurtrú á eru dægursveiflan og árstíðasveiflan - sömuleiðis trúir hann á þær stjarnfræðilegu - en þær eru þó þess eðlis að krefjast varfærnari meðhöndlunar heldur en þær tvær fyrstnefndu. 

Þá kemur að spurningum: 

1. Hvernig stendur á sveiflum frá ári til árs? [svar til – en nýtist ekki við spár]
2. Hvernig stendur á áratugasveiflunum? [svör mjög óljós – en þær eru samt staðreynd]
3. Eru áratugasveiflur síðustu 200 ára eitthvað sérstakar? [ekki vitað – en líklega ekki]
4. Hvernig stendur á „langtíma“-leitninni? – Er hún eitthvað sérstök? [líkleg svör til]
5. Eru sveiflurnar reglubundnar? [sumar – en aðrar ekki]

Lítum svo á hina myndina:

gisp2-vik-landnam

Lárétti ásinn sýnir tímann í árum - nær reyndar aftur til landnáms Íslands. Lóðrétti kvarðinn til hægri sýnir svonefnd súrefnissamsætuvik - um þau og merkingu þeirra hafa hungurdiskar fjallað áður. Vikin eru fengin úr grænlenskum borkjarna sem kallast GISP2 - og ná næst okkur í tíma til 1988. Samband er á milli hita og samsætuvikanna - á þeim tíma sem við getum borið þau og hitamælingar saman samsvarar 1 prómill vik um 2,5 stigum (eða lítillega meir). 

Kjarninn er tekinn á hábungu Grænlands og það er ekkert sjálfsagt mál að samband sé þaðan við hita á Íslandi - það er samt mesta furða hvað það er - og sömuleiðis má að einhverju leyti ráða í það hvers vegna ósamræmi er stundum mikið og stundum lítið. Við veltum okkur ekki upp úr því hér og nú. 

Ljósgrái ferillinn sýnir samsætuvikin frá landnámi - því miður vitum við ekki nákvæmlega hvers konar straujárn er notað - en gæti verið í kringum 10 ára meðaltal - það skiptir okkur litlu að þessu sinni. 

Rauða línan lengst hægri sýnir 7-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi frá 1798 til okkar daga. Mjög greinilega sést að hiti og samsætuvik hækka - eftir 1800 og áfram. 

Dökkgráa, breiða línan er útjöfnunarsía sem hér á að sýna breytileika samsætuvikanna á 100 ára kvarða eða þar um bil. 

Ef við nú trúum sambandi samsætuvika og hita segir myndin okkur að svokölluð litlaísöld hafi verið um 1,6 stigum kaldari heldur en nútíminn - og ámóta kaldari líka og um 70 ára skeið í kringum árið 1000 (nokkru eftir landnám).

Eftir að hafa rýnt myndina ætti það að vera kristaltært að áratugasveiflur yfirgnæfa hina löngu litluísaldarsveiflu algjörlega - gefum því rækilega gaum. 

Svo er það listinn. Hann sýnir þau atriði sem stungið hefur verið upp á sem stýriþáttum bæði áratugasveiflnanna og litluísaldarsveiflunnar og er hér kastað fram til umhugsunar - e.t.v. má ræða einstök atriði hans síðar.

Helstu grunnstýriþættir eru:

Breytingar í virkni sólar
Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins
Breytingar á armengun
Breytingar á landnotkun
Eldgos
Breytingar á brautarþáttum jarðar
„Tilviljanakenndur“, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar

Tilviljanakennd „slys“ - svo sem loftsteina- eða halastjörnuárekstrar.

Ef leysa á veðurfarsgátuna verður saga stýriþáttana að vera þekkt. Sömuleiðis viljum við fá að vita hver staðbundin áhrif breytinga á þeim eru. Öll þessi atriði eru uppi á borðinu í veðurfarsumræðunni - en skoðanir á innbyrðis vægi þeirra vægast sagt skiptar. 

Vonandi gefst tóm til þess síðar að fjalla nánar um bæði spurningarnar sem varpað var fram hér að ofan - sem og stýriþættina nefndu.

Greinar um líklega breytingasögu álags/mótunarþátta á heimsvísu:

http://www.geosci-model-dev.net/5/185/2012/gmd-5-185-2012.pdf [samantekt]
http://arxiv.org/pdf/1102.4763.pdf [sólin]
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1029/2011GL048529/epdf [sólin]
http://climate.envsci.rutgers.edu/pdf/Gao2008JD010239.pdf [eldfjöll]
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1466-8238.2010.00587.x/epdf [landnotkun]


Snjóalög nú - og á sama tíma í fyrra

Við berum enn saman sýndarsnjóalög í ár og í fyrra. Gögn eru úr harmonie-veðurlíkani Veðurstofunnar. Hversu vel þau falla að raunveruleikanum vitum við ekki - (snjódýpt er aðeins mæld á láglendi) - en tilfinningin er samt sú að talsvert vit sé í reikningunum.

Veturnir tveir, 2013 til 2014 og 2014 til 2015 voru mjög ólíkir, þann fyrri voru austlægar áttir mjög ríkjandi og snjór mjög mikill í fjöllum á Norður- og Austurlandi, en nú í vetur voru vestlægar áttir algengari og meira snjóaði í fjöll á Suður- og Vesturlandi heldur en fyrri veturinn.

Kortið sýnir mismun vetranna í kílóum snævar á fermetra. Litakvarðinn verður skýrari sé kortið stækkað og ætti að verða flestum ljós eftir að horft hefur verið á kortið stutta stund. 

w-blogg-090515a

Litatónar frá gráu um hvítt yfir í fjólublátt og blátt sýna svæði þar sem sýndarsnjór er meiri í ár en á sama tíma í fyrra. Tónar úr sandgulu yfir í brúnt og þaðan í grænt sýna minni snjó í ár heldur en á sama tíma í fyrra. Nokkuð er af gráum skellum yfir Norðausturlandi og við sjávarsíðuna viða austanlands, þar er nú snjór á jörð þar sem var autt í fyrra.

En það sem sést fljótlega er að mun meiri snjór enn í fyrra er nú á fjöllum og jöklum sunnan í móti á landinu. Sömuleiðis á vestur- og suðurhluta Vestfjarða. Aftur á móti er mun minni snjór á fjöllum á landinu norðan- og austanverðu heldur en í fyrra - sömuleiðis á norðanverðum Vestfjörðum - og allt suður á fjalllendið í kringum Gilsfjörð.

Takið einnig eftir því að ívið minni snjór virðist vera norðaustan við Mýrdalsjökul heldur en á sama tíma í fyrra - þar er líka eins konar skuggi fyrir suðvestanáttinni rétt eins og um landið norðaustanvert. Sama má segja um háfjöll við Vatnajökul suðaustanverðan - þar er snjór nú minni en í fyrra. 

Hæsta talan - mesti munur á snjó nú og í fyrra er á Eyjafjallajökli, þar er munurinn rétt tæp þrjú tonn á fermetra - við reynum ekki að breyta því í snjódýpt - þeir sem vilja, geta slegið á það með sínum uppáhaldseðlismassatölum. Ekki veitir Eyjafjallajökli af snjóaukanum. 

Á hinn veginn er mestur munur á Drangajökli, tvö tonn vantar nú upp á tölu ársins í fyrra. Miklu munar líka á fjöllum við utanverðan Eyjafjörð, beggja vegna Vopnafjarðar og á háfjöllum Austfjarða. 

Í kuldakastinu að undanförnu hefur sýndarsnjó lítið leyst. Svipað er líklega með þann raunverulega. Fyrir mánuði var hæsta tala í Bláfjöllum 1202 kg á fermetra, en er nú 1151 - aðeins munar 51 kg - þrátt fyrir allt sólskinið. Á Skarðsheiði var hámarkið fyrir mánuði 907 kg á fermetra en er 908 nú. 

Uppi á Langjökli hafa um 300 kg af snjó bæst við á hvern fermetra undanfarinn mánuð - ef trúa má líkaninu. En höfum í huga að vetrinum lýkur mjög seint (eða alls ekki) á háfjöllum - meira að segja í meðalári.   


Sjöundi maí

Þar sem fjasbókarfærsla hungurdiska var óvenju ítarleg að þessu sinni telur ritstjórinn rétt að hleypa henni líka yfir í bloggdeildina. Flest er í bústnum símskeytastíl. 

Fimmtudagurinn 7. maí varð kaldasti dagur mánaðarins til þessa, landsmeðalhiti í byggð (lhb) reiknaðist -1,63 stig og er það -6,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, kaldasti 7. maí frá upphafi sjálfvirka kerfisins (1996). Við vitum um nokkra kaldari almanaksbræður í fortíðinni, kaldastur síðustu 67 ára var sami dagur 1980 með meðaltalið -2,64 stig. Lágmarksdægurmetin urðu 117 í dag á sjálfvirku stöðvunum og sjö á þeim mönnuðu - sem er óvenjumikið.

Eins og í gær var sólarhringslágmarkshitinn neðan frostmarks á öllum stöðvum nema einni og frost var allan sólarhringinn á 30 stöðvum í byggð - og hafa ekki verið fleiri sama sólarhringinn í mánuðinum.

Svo sýnist sem að landsdægurlágmörk hafi nú verið slegin tvisvar í mánuðinum, þann 3. og 6., í Veiðivatnahrauni í báðum tilvikum - en tölurnar bíða staðfestingar.

Á lista yfir vik frá meðallagi síðustu tíu ára má sjá að „hlýjast“ að tiltölu á landinu er nú á Gjögurflugvelli þar sem hitinn er -3,52 stigum undir meðallaginu, en kaldast að tiltölu hefur verið í Veiðivatnahrauni og hitinn -8,24 stig undir meðallagi. Það er áberandi hversu kalt (að tiltölu) hefur verið á hálendinu - lengst frá hinum mildandi áhrifum hafsins.

Nú er svo komið að aðeins fjórir maímánuðir hafa byrjað kaldari síðustu 67 árin í Reykjavík og þrír á Akureyri og Dalatanga, og á langa listanum í Stykkishólmi eru það 25 (af 169)sem hafa byrjað kaldari.

Ritstjórinn reiknar (til gamans) alltaf út stöðu meðaltals hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík og ber saman við meðaltal sömu stika allt aftur til 1870 - því miður vantar nokkur ár í samanburðinn. Stundum munar töluverðu á þessari gerð meðaltala og þeirri hefðbundnu - en dagurinn í dag var í 123. hlýjasta sæti af 139 sætum almanaksbræðra og mánuðurinn í 122. sæti af 139.

Meðalvindhraði í byggðum landsins var 6,7 m/s - sá mesti í mánuðinum til þessa.

Nú má fara að gefa þurrkum gaum - alla vega er gróðureldahætta orðin veruleg. Úrkoma hefur hvergi verið að ráði nema allra austast á landinu, Hánefsstaðir við Seyðisfjörð sitja með mesta úrkomu, síðan Dalatangi og Neskaupstaður.

Sólskinsstundirnar mældust 16,0 í Reykjavík í dag - rétt við dægurmetið - það er 16,1 og sólskinsstundir mánaðarins eru nú orðnar 106,4, nærri tíu fleiri en mest hefur verið sömu daga í maí áður (1924, 1931 og 1958).


Yfir Norðuríshafi

Kuldinn þessa dagana á uppruna sinn í Norðuríshafi. Þegar hlýna tekur á vorin gerist það fyrst yfir meginlöndunum og hinir stóru kuldapollar vetrarins hörfa til norðurs og setjast gjarnan að yfir Norðuríshafi. Þar skjóta þeir öngum í ýmsar tilviljanakenndar áttir - og svo vill til að þessa dagana liggur einn anginn til okkar.

Þetta sýnir kortið hér að neðan.

w-blogg070514a

Ísland er alveg neðst á myndinni - en norðurskautið nærri miðju. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa síðdegis á laugardag (9. maí) að mati bandaríska líkansins gfs. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

Meginkuldapollurinn er rétt við norðurskautið - þar er vetrarkalt í miðju, smáblettur þar sem þykktin er enn undir 4980 metrum. Þrír kuldaangar liggja út frá miðju kuldapollsins - einn í átt til okkar, annar suður um Hudsonflóa og sá þriðji og öflugasti í átt til austurhluta Síberíu (er að hluta til utan við kortið).

Breytingar eru hægar - jafnhæðarlínur gisnar og fátt til bjargar. Það tekur tíma að búa til hlýjan hæðarhrygg sem beinir hlýju lofti í átt til landsins. Meiri von er til þess að eitthvert lægðardraganna stuggi við kaldasta loftinu - og við lendum á mörkum bláu og grænu litanna - það er ekki gott en þó talsvert skárra en ástandið síðustu vikuna.

Annar möguleiki er að meginkuldapollurinn fari á stjá - til þess þarf þó að aflaga hann eitthvað - þá gæti hann breytt lægðardraga og hæðarhryggjamynstrinu sem hefur verið alveg fastlæst að undanförnu. - En fari pollurinn á hreyfingu fer af stað eins konar rússnesk rúlletta - við viljum alla vega ekki fá hann eða frekari útskot úr honum til okkar -. 

Þeir sem nenna að fletta í gegnum froðuna geta fundið tölulega smámola um kuldakastið á fjasbókarsíðu hungurdiska - . 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 140
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 1919
  • Frá upphafi: 2347653

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1648
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband