Nær ekki hingað

Kuldaköstin halda áfram að ganga út yfir Atlantshaf úr norðvestri - frá rótum kuldans. Næsta kast mun væntanlega fara hjá fyrir sunnan land - en það er býsna öflugt. Á undan kuldanum fer mjó tunga af frekar hlýju lofti - hún fer að mestu fyrir sunnan land líka - en sér þó til þess að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hækkar um á að giska 6 stig yfir landinu um helgina - munar um minna í kuldatíðinni. 

Fyrra kort dagsins sýnir háloftastöðuna annað kvöld (föstudag 29. maí kl.24) - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg290515a

Myndarleg lægð (miðað við árstíma) er við Suður-Grænland á leið austur. Sunnan við hana er mjög kalt loft - þykktin í dekksta bláa litnum er innan við 5160 metrar - komi slík þykkt yfir landið frýs um land allt. - En þessi kuldi nær ekki til okkar - hann fer beit til austurs - og þótt sjórinn hiti baki brotnu á blái liturinn að komast allt til Bretlandseyja á sunnudagskvöld. Sé sú spá rétt snjóar á heiðum Skotlands á aðfaranótt mánudags - en spár eins og þessi vanmeta oft varmann sem stöðugt streymir úr hafinu - og ekki fullvíst að Bretland bláni að þessu sinni.

Hér er hins vegar hlýnandi - þykktin að komast upp í 5340 metra og á að fara upp í 5380 eða þar um bil á laugardaginn - en ekki meir, síðan á hún að minnka hægt aftur. Kuldatíðinni er því ekki lokið - þótt aðeins skáni.

Á næsta korti sést snerpa kuldakastsins sérlega vel.

w-blogg290515b

Gildistími er sá sami og á fyrra kortinu - kl.24 á föstudagskvöld (29. maí). Jafnþykktarlínur eru strikaðar (sjást betur sé kortið stækkað) - og eru auðvitað þær sömu og litirnir á efra kortinu marka. Hér sýna litirnir hins vegar 12 stunda þykktarbreytingu, kólnun er blá - en hlýnun gul og brún. Heildregnu línurnar sýna þrýsting við sjávarmál - venjulegar jafnþrýstilínur. Vindörvar gilda fyrir 700 hPa-flötinn (um 3 km hæð). Lægðin er djúp (miðað við árstíma) - innsta jafnþrýstilínan sýnir 984 hPa. 

Þeir sem stækka kortið ættu að geta séð tölu inni í dekksta bláa litnum,-32,6 - það eru dekametrar. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur fallið um 15 til 16 stig á 12 klukkustundum. Það hlýtur að teljast töluvert - alla vega gott að sleppa við það.

Í venjulegri hitamælahæð er hitasveiflan töluvert minni - mest munar þar um að hlýja tungan á undan lægðinni nær ekki alveg til jarðar - og sjórinn sér um að hiti fer nær örugglega ekki niður fyrir frostmark á þessum slóðum. Kalda loftið verður því mjög óstöðugt - éljahryðjur. Það veður mun trúlega ná alla leið til Skotlands - eins og áður sagði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 71
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2407619

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 1324
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband