Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Fyrirgjöf (eða öllu heldur fyrirgjafir)

Ef trúa má reiknimiðstöðvum verður veðurlag næstu vikuna á N-Atlantshafi nokkuð ólíkt því sem verið hefur. Fyrst lítum við til baka.

w-blogg261115a

Kortið sýnir meðalástand síðustu tíu daga. Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, strikalínur meðalþykkt og litir vik þykktarinnar frá meðaltali áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar sýna afbrigði hitafars mjög vel.

Í reynd hefur veður verið mjög breytilegt - en kortið sýnir samt óvenjuleg hlýindi yfir Suður-Grænlandi og þar vestur af - en fremur kalt hefur verið í vestanverðri Evrópu. Yfir Íslandi hefur hiti þessa tíu daga verið ekki svo fjarri meðallagi. Meðalvindátt í háloftunum hefur verið úr norðvestri hér á landi. 

Nú á að verða mikil breyting.

w-blogg261115b

Þetta kort gildir frá og með deginum í dag (fimmtudag 26. nóvember) fram til sunnudags 6. desember. Miklum kulda er nú spáð þar sem einna hlýjast var á fyrra korti. Neikvæða þykktarvikið við Suður-Grænland er meira en -140 metrar - hiti í neðri hluta veðrahvolfs er meir en 7 stig undir meðallagi. Það er nokkuð mikið fyrir 10 daga. 

Kuldinn að vestan teygir sig til Íslands - sjálfsagt er hann að einhverju leyti kominn úr norðri í neðsta hluta veðrahvolfsins. Þeir sem sjá vel (og stækka kortið) taka eftir því að jafnþykktarlínurnar (þær strikuðu) liggja mjög þétt austan Grænlands - undir mjög gisnum jafnhæðarlínum á sömu slóðum. Þetta segir sögu af mjög mikilli norðanátt þarna undir. 

Hér er auðvitað um meðalástand að ræða og veður einstaka daga verður allt annað (fyrir utan þá sjálfsögðu staðreynd að spáin getur brugðist). En - verði þetta raunin er hér komin staða sem fyrirsögn pistilsins vísar til: Kalt loft úr norðvestri streymir út yfir Atlantshaf - knattspyrnumaður hleypur átt að marki og bíður fyrirgjafar úr hliðarspyrnu úr suðri. Hitti hann boltann verður til snörp og jafnvel gríðardjúp lægð með tilheyrandi illviðri - hann skorar. 

Í hádegisspá evrópureiknimiðstöðvarinnar má sjá margar slíkar lægðir myndast næstu tíu daga. Flestar eiga þær reyndar að fara hjá fyrir sunnan land, þannig að Bretland og sunnanverð Skandinavía verði aðallega fyrir höggunum - en reyndin er sú að margra daga reikningar ráða illa við stöður sem þessa hvað einstakar lægðir varðar. 

Sunnanhlýindin eiga uppruna sinn í þrýstiflatneskju hlýtempraða beltisins þar sem rakaþrungnir bakkar (hvarfbaugshroði) sveima um í hálfgerðu iðjuleysi og tilviljun ein virðist ráða hvort og hvenær heimskautaröstin húkkar þá upp á hringekjuna. 

Svona verður staðan á síðdegis á laugardag (ef trúa má).

w-blogg261115c

Við sjáum kalda norðvestanáttina milli Grænlands og Labrador vel - og sömuleiðis þrungið úrkomubelti liggja til norðausturs austan Nýfundnalands - en það er eins og fyrirgjöfin úr suðri hitti ekki alveg á norðvestanáttina (hvarfbaugshroðinn bíði næstu umferðar) - en á sunnudag verður boltinn kominn austar og annað spark þá mögulegt - upprunnið í norðanáttinni stríðu norðan Íslands. 

Spár eru langt í frá sammála um hversu snarpt sunnudagsillviðri Bretlands og Danmerkur verður - allt frá engu upp í tjónastorm. - Svo segir tíu daga meðalkortið okkur að sóknin haldi áfram af miklum þunga næstu vikuna. - Verða einhver mörk skoruð?


Að mörgu að hyggja

Óvenjuhlýtt loft verður yfir landinu um helgina - en þar sem vindur er yfirleitt hægur er ekki sjálfgefið að kalda, þunga, loftið næst jörðu yfirgefi svæðið. Jú, þar sem það getur streymt niður í móti og út á sjó kemur hlýtt loft að ofan í stað þess. Að spá um hita á einstökum stöðum er mjög erfitt. Síðdegis þegar ritstjórinn ók um Kjalarnes var -5 stiga frost á stöð Vegagerðarinnar við Móa - en við Skrauthóla var komið í +1 stigs hita og utar á nesinu mígrigndi. Þetta er alveg sérlega varasamt veðurlag því hálka getur myndast skyndilega - og verið þar sem engin virðist. 

En við skulum líta á nokkur kort og sjá hvernig vandinn birtist. Fyrst er eitt sem sýnir sjávarmálsþrýsting og mættishita í 850 hPa fletinum á sunnudagsmorgunn (22. nóvember) kl. 6. Mættishiti lofts er sá sem við myndum mæla ef við gætum dregið það óblandað niður í 1000 hPa (nærri sjávarmáli). 

w-blogg211115a

Litirnir sýna mættishitann. Þeir sem rýna í kortið munu sjá töluna 23,6 stig yfir Hornströndum. Já, ef við gætum náð loftinu í 1400 metra hæð óblönduðu niður til sjávarmáls yrði það 23,6 stiga heitt. Slíkt er auðvitað óskhyggja - og sérstaklega í hægum vindi. Við skulum líka taka eftir lægðinni kröppu suður af Grænlandi. Loftið í henni er komið langt úr suðri - kortið sýnir mættishitann 27,1 stig suður af lægðarmiðjunni. 

Vert er að fylgjast með þessari lægð - en reiknimiðstöðvar eiga ekki létt með að höndla hana - meir um það hér síðar.

Næst er það spákort harmonie-líkansins um hita í 2 m hæð á landinu á sunnudag kl.6 - sama tíma og kortið hér að ofan sýnir.

w-blogg211115b

Hér má sjá tilraun líkansins til að segja okkur hvar kalda loftið þrjóskast við. Vel hefur gengið að losna við það um landið norðvestanvert - enda er vindur þar einna mestur - 9 stiga hiti á Hornbjargsvita. En kuldinn liggur víða - frost er á bláu svæðunum og meira að segja má sjá meir en -10 stiga frost á blettum á hálendinu - en í niðurstreyminu norðan Vatnajökuls er 6 stiga hiti í Kverkfjöllum.

Förum næst upp í 100 metra hæð í líkaninu - alls staðar 100 metra yfir yfirborði landsins - hvort sem er á láglendi eða hálendi.

w-blogg211115c

Hér eru frostsvæðin miklu minni umfangs - berið t.d. saman hita kortanna í Skaftafellssýslu - þau gilda á sama tíma. Hitinn í Kverkfjöllum er 12 stig. Eins og augljóst ætti að vera er varla hægt að ætlast til þess að líkanið hafi alls staðar á réttu að standa í stöðu sem þessari - hitinn sveiflast mikið bæði lárétt og lóðrétt - blöndun er afleit í allra neðsta laginu. 

Þessi vandræði ná ekki aðeins til hitans heldur einnig til raka - kortið hér að neðan sýnir rakaspá líkansins kl. 18 á morgun, laugardag 21. nóvember. 

w-blogg211115d

Rakastigið við Faxaflóann er hátt í 100 prósent - í skýlausu veðri (megi trúa líkaninu) - skyldi verða þoka? Í 700 metra hæð (925 hPa) ríkir þurra loftið - eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg211115e

Skraufþurrt loft er yfir Flóanum - á Esjutindi. Neðsta lagið liggur óblandað rakt hráslagalegt - en kannski þó nægilega þurrt til að þoku sé forðað - ekki veit ritstjórinn neitt um það. 

En að lokum er gervihnattamynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar. Myndin er frá því um miðnætti á föstudagskvöld (20. nóvember). 

w-blogg211115f

Við sjáum Atlantshaf, allt frá Íslandi í norðri og langleiðina suður að miðbaug. Skýjakerfi er á hraðri austurleið yfir Grænlandi (hlýja loftið okkar) - sunnan Grænlands er skýlítið svæði þar sem er óvenjumikil hæð - líka á leið til austurs. Þar sunnan við er mikið skýjakerfi - sannkallaður hroði - það bíður færis að skjótast á móts við heimskautaröstina um leið og hæðarhryggurinn er kominn hjá. 

Nú er spurningin hversu mikið af þessu suðræna lofti kemst norður - og ræður það afli lægðarinnar sem við sáum sunnan Grænlands á fyrsta kortinu hér að ofan - kannski lokast fyrir sunnanloftið aftur - þannig að lítið sleppur norður - ?

Það er að mörgu að hyggja um helgina. 


Óvenjuleg hitasveifla (í háloftunum)

Eins og nefnt var í síðasta pistli hungurdiska stefnir í óvenjulega hitasveiflu í háloftunum í námunda við landið. Það er varla að raunveruleikinn verði alveg svona öfgakenndur - spá er bara spá - en lítum samt á þetta okkur til gamans.

Mikið er að gerast vestur í Ameríku eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Það er úr fórum bandarísku veðurstofunnar og sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 6 (að okkar tíma) miðvikudaginn 18. nóvember.

w-blogg181115a

Kortið sýnir Norður-Ameríku. Alaska eftst í vinstra horni - Flórída og Kúba neðst til hægri. Mikið háþrýstisvæði er yfir Labrador og annað vestan Kaliforníu - en yfir meginlandinu eru þrjár lægðir. Óvenjuöflug lægð hefur brotist yfir Klettafjöll nærri landamærum Bandaríkjanna og Kanada og hitti fyrir aðra sem er á norðurleið yfir miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Það sem hér er sérlega óvenjulegt er að hvöss sunnanátt nær allt sunnan frá Mexíkóflóa og nærri því norður úr kortinu.

Úr þessu á svo að verða til mikill sveipur í námunda við Hudsonflóa - nóg að gera hjá veðurnördum og fræðingum vestra. 

Þessi gríðarlega sunnanátt stuggar svo við kuldapollinum Stóra-Bola yfir Norður-Íshafi að dálítil sneið skerst úr honum og flæmist til suðurs austan við Ísland á fimmtudag - og heldur síðan áfram til Frakklands - jafnvel alla leið til Spánar um helgina. 

Næsta kort sýnir stöðuna síðdegis á fimmtudag.

w-blogg181115b

Jafnhægðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á kortinu er strokan við Ísland. Evrópureiknimiðstöðin spáir þykktinni niður í 4990 metra yfir Norðausturlandi - svo vill til að lágþykktarmet nóvembermánaðar yfir Keflavíkurflugvelli er einmitt 4990 metrar. Svo lágt á þykktin að vísu ekki að komast þar nú - en talan sýnir vel um hve óvenjukalt loft er að ræða. 

En þetta kalda loft fer svo hratt hjá að frólegt verður að sjá hversu mikið nær að kólna á veðurstöðvunum - væntanlega nær kuldinn hámarki á þeim á aðfaranótt föstudags eða jafnvel síðar.

En sunnanáttin ameríska nær líka að koma hlýju lofti alla leið hingað til lands á laugardag. Það sýnir síðasta kort pistilsins sem gildir síðdegis þann dag.

w-blogg181115c

Hér er kuldinn kominn suður á Frakkland - en skammt vestan við Ísland er hlýr hæðarhryggur - þar er hámarksþykktin 5570 metrar - einmitt sama tala og mest hefur mælst yfir Keflavíkurflugvelli í nóvember. 

Það er svona rétt varla að ritstjórinn trúi þessum öfgum - skammt í metþykkt á báða vegu á tveimur sólarhringum - ætli raunveruleikinn verði ekki aðeins vægari á báða vegu? En við sjáum hér hitasveiflu upp á hátt í 30 stig í háloftum - hver verður hún við jörð? Nái að kólna verulega inn til landsins á Norðausturlandi gæti frost farið þar í -20 stig, kannski fer hiti svo vel yfir 10 stig einhvers staðar auðaustalands um helgina? 

Eftir helgina á síðan að kólna nokkuð aftur - eða hvað? 


Snarpt kuldakast

Reiknimiðstöðvar eru nú að verða sammála um að mjög kalt heimskautaloft nái til landsins í vikunni - en líkur benda helst til þess að það standi ekki lengi við. 

Í dag - sunnudaginn 15. nóvember er víða mjög kalt í hægum vindi inn til landsins en hlýrra við strendur og þar sem vind hreyfir. Ofan við er loft ekki sérlega kalt og á morgun - mánudag 16. nóvember á hiti að verða rétt undir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs.

Spákort evrópureiknimiðstöðvararinnar sem við sjáum hér að neðan gildir kl. 18 síðdegis á mánudag.

w-blogg151115-2a

Heildregnu línurnar sýna þykktina - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Talsverður þykktarbratti er yfir landinu - munar ríflegum 80 metrum á Suðausturlandi og Vestfjörðum - um 4 stigum. Talan í kassanum við Austfirði sýnir vik þykktarinnar yfir landinu miðju frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Vikið er -20 metrar. Það er ekki fjarri -1°C. Ekki svo kalt það. 

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í um 1200 metra hæð) (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). Yfir miðju landi er hann um -5°C, sú tala er til hægðarauka sett í kassa vestur á Grænlandshafi. 

Til þriðjudags lækkar þykkin nokkuð (sjá næsta kort).

w-blogg151115-2b

Hér er þykktin orðin um -100 metrum undir meðallagi, samsvarar um -5°C og hitinn í 850 hPa kominn niður í -11°C, algeng tala í nóvember. Þykktin er hér um 5180 metrar yfir miðju landi sem er líka algengt í nóvember og varla hægt að tala um alvarlegt kuldakast enn. 

En svo gerist það. - Kuldapollur úr norðri ryðst norðan úr höfum - reyndar eru stóratburðir yfir Ameríku sem stugga við honum - og kemur hann beint suður yfir landið á miðvikudag og fimmtudag - og fer síðan og plagar Breta og V-Evrópu verulega dagana þar á eftir. 

Spáin fyrir fimmtudag er ansi grimm - miðað við nóvember - og viðbúið að reiknimiðstöðin sé ekkert að skafa utan af því - en hún gæti alveg haft á réttu að standa - hvað vitum við?

w-blogg151115-2c

Hér er komið -18 stiga frost í 850 hPa-fletinum og þykktin niður í 5000 metra, -280 metrum undir meðallagi nóvembermánaðar - eða -14 stigum undir meðallagi. Við bíðum þess að spáin staðfestist frekar áður en við förum að tala um met - það er varla tímabært. 

En - svo á þetta að taka fljótt af - sé eitthvað að marka reikninga. Við lítum að lokum á spána fyrir laugardag (aðeins 2 dögum eftir kuldann hér að ofan).

w-blogg151115-2d

Hiti í 850 hPa kominn í +2 stig - +7 ofan meðallags og þykktin komin +180 metra (9 stig) upp fyrir meðallagið - sannkallaður rússibani.

Fáum við svo að sjá þetta raungerast? Eða er þetta bara leikur í líkanheimum? 


Forvitnileg staða (fyrir stöku nörd)

Þetta kann að virðast véfréttarkennt - (að sögn er véfréttamennska í uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska) en lítum á sjávarmálsspá hirlam-líkansins sem gildir kl. 6 í fyrramálið (sunnudag 15. nóvember). 

w-blogg151115a

Lægð er vestur af Bretlandseyjum. Hún er nokkuð einkennileg að því leyti að þrátt fyrir að vera mjög dýpkandi er engin úrkoma í miðju hennar í spánni. Rauða örin bendir á þetta svæði - breiður hlýr geiri, en engin úrkoma þar sem hann nær lengst í átt að kalda loftinu - fyrr en hinu megin við lægðarmiðjuna - þar er allmikill úrkomuhnútur. Rétt sunnan við hann er nokkuð snarpur kuldapollur. 

Þetta sést vel á gervihnattarmynd frá því kl. 1.

w-blogg151115b

Örvarnar benda um það bil á sömu staði. Úrkomusvæðin þrjú sjást öll vel - sömuleiðis niðurstreymissvæðið við rauðu örina. Ritstjórinn var búinn að lofa sjálfum sér því að verða ekki langorður um þetta - og ætlar að standa við það - en hlýi hluti kerfisins er leifar fellibylsins Kate - sem varð svosem aldrei stór. Þessar leifar mæta hér köldu lofti úr norðvestri og gefa möguleika á mikilli dýpkun. 

Myndanörd (séu þau til) ættu gleðjast yfir þessari mynd - rétt eins og ritstjórinn - sem er reyndar ekki í allt of góðu skapi vegna ýmissa hiksta á aðgengi gagna í dag. 


Þarf eina lægð enn - til þess að hann kólni að marki

Nú er hann genginn í norðanátt - sem ekki er þó sérlega köld. Landsmeðalhiti í dag (fimmtudag 12. nóvember) var nærri meðallagi síðustu tíu ára - og á ekki að lækka mikið - strax. 

Kortið sýnir stöðuna síðdegis á laugardag. 

w-blogg131115a

Lægðin sem plagar austlendinga á morgun - föstudag - er þá komin austur til Noregs - en það er nýja lægðin vestur af Bretlandseyjum sem gæti dregið með sér (eða étið) háloftakerfin tvö sem nú tefja framrás norðanloftsins til okkar. Í einhverjum skilningi er lægð þessi leifar fellibylsins Kate. 

Háloftakerfin tvö sem rætt er um er hæðarhryggur fyrir norðan land - kalda loftið kemst ekki greiðlega framhjá honum þar sem hann er - gæti kannski laumast undir - og köld háloftalægð á Grænlandshafi sem beinir lofti úr suðaustri yfir landið. Þótt þetta loft sé frekar kalt - er það ekki nærri nógu kalt til þess að teljast til vetrarsveitanna höggþungu. 

En lægðin á kortinu hér að ofan á að dýpka og valda allhvassri norðaustanátt hér á land á mánudag. 

Við skulum líka líta á 500 hPa-kortið sem gildir á sama tíma (síðdegis á laugardag).

w-blogg131115b

Heimskautaröstin er hér fyrir sunnan land - og við því tæknilega í kalda loftinu - svölu haustlofti. En ef lægðin á Grænlandshafi dregst til austurs fyrir sunnan land - og hæðin eyðist gæti orðið til greið leið til suðurs yfir Ísland fyrir vetrarloftið - en ekki fyrr en í fyrsta lagi seint á þriðjudag en líklega enn seinna - og hugsanlega ekki. - En þar sem evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan virðast í aðalatriðum sammála um innreið vetrarins skulum við trúa - í bili - en áskiljum okkur rétt til að skipta um skoðun (við erum alltaf að því hvort eð er. 


Aðalkuldinn er hinumegin

Þó hiti sé nú í meðallagi (þriðjudag 10. nóvember) og muni trúlega heldur lækka áfram næstu daga er hinn eiginlegi vetur varla kominn á okkar slóðir. Það er auðvitað tilviljun - því hann er þarna einhvers staðar - og gæti þess vegna verið hér. Hann er heldur ekki endilega lengi á leiðinni - fái hann tækifæri til. 

Fyrra kortið sem við lítum á í dag sýnir veðrahvolfsástandið á norðurslóðum - eins og bandaríska veðurstofan segir það verða síðdegis á fimmtudaginn 12. nóvember.

w-blogg111115a

Ísland er alveg neðst á þessu korti, en norðurskautið rétt ofan miðju. Kaldir, bláir litir eru nærri einráðir - eins og vera ber þegar komið er fram í nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - en þykktin er sýnd í litum. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - meðalþykkt í nóvember yfir Íslandi er um 5280 metrar, við mörk grænu og bláu litanna. 

Eins og sjá má er fimmtudagsþykktin íslenska rétt undir meðallagi. Bláu litatónarnir á þessum kortum eru sex. Fyrstu tveir, þeir ljósustu eru haustlitir, hiti er í kringum frostmark - og frost ekki mjög mikið í þeim næstljósasta - það er fyrst við þriðja lit (þykkt minni en 5160 metrar) sem eitthvað fer að bíta. Fyrir utan kalda tungu vestan Grænlands er sáralítið af mjög köldu lofti á svæðinu - hérna megin norðurskautsins.

Öðru máli gegnir lengra í burtu - við sjáum meira að segja í fjólubláan lit efst á kortinu. Fyrirstöðuhæðin austur af Svalbarða flækist mjög fyrir hringrás kulda um heimskautasvæðið - það tekur tíma að losna við hana.

Kuldinn gæti komið til okkar á tvennan hátt - annað hvort myndi hæðarhryggur úr suðvestri stugga við kalda draginu við Vestur-Grænland þannig að það þvingaðist yfir jökulinn - norðanáttin vestan við dragið næði þá til Íslands - ekki ofan af Grænlandi - heldur til suðurs fyrir austan það. Í framtíðarsýn sumra spáa á það að gerast á þriðjudag í næstu viku. Þette er auðvitað of langur tími til þess að við getum gert okkur mikla grillu út af því fyrr en þá nær dregur. 

Norðanáttin sem spáð er fram til þess tíma er upprunnin í fölbláu litunum - norðanátt jú, en ekki köld. Hinn möguleikinn á innreið vetrarins hér á landi er að allt norðurhvelskerfið snúi sér - en það tekur enn lengri tíma.

Síðara kortið gildir á sama tíma og það fyrra - og sýnir það sama nema hvað undir er miklu stærra svæði.

w-blogg111115b

Þótt kortið sé ættað frá evrópureiknimiðstöðinni sýnir það nokkurn veginn það sama og hitt á því svæði sem sameiginlegt er. Hér sjáum við - ef vel er rýnt í kortið að heimskautaröstin (eða strangt tekið hes hennar) liggur hringinn í kringum blá svæði myndarinnar - grænu svæðin eru mjóslegin og jafnhæðarlínur þéttar. 

Fjöldi lægðardraga (háloftabylgna) hreyfist austur í námunda við röstina. Þróun þeirra ræður miklu um framhaldið - við getum talið 6 til 8 bylgjur á hringnum - einhverjar þeirra munu rísa og dæla þar með hlýju lofti norður (og köldu suður) - jafnvel til okkar. 

En svo langt sem þessar spár ná - 10 daga fram í tímann - eigum við allan tímann að vera norðan rastar - ekkert hlýtt loft - en hvort eitthvað kalt kemur heldur er ekki gott að sjá. 

Ein eða tvær djúpar lægðir eiga að fara hjá norðanverðum Bretlandseyjum næstu dagana - ameríska spáin gerir meira úr þeim fyrir okkur heldur en evrópureiknimiðstöðin - fari svo fylgir einhver haustnæðingur - evrópureiknimiðstöðin gerir minna úr. 

En málið er það að þótt hann kólni - er vetur konungur varla mættur á svæðið - hann er að sinna öðrum viðskiptavinum handan hafs - einhverjir fulltrúar leppríkja hans sýna sig þó í boðinu - en ekki hann sjálfur. 


Á köldu hliðinni - en samt kólnar lítið (að sögn)

Förulægðir þær sem fylgja heimskautaröstinni æða nú til austurs og norðausturs um Bretlandseyjar norðanverðar og Skandinavíu - dýpka ekki nóg til að færa okkur norðanátt að ráði. Til okkar berast veiklaðir úrkomubakkar og smærri lægðir úr suðvestri. Nokkurra daga spár gera þó ráð fyrir að meginvindáttin verði norðlæg um síðir.

Fyrra kort dagsins sýnir heimskautaröstina eins og hún á að liggja síðdegis á miðvikudag (11. nóvember).

w-blogg101115a

Vindörvar sýna vindstefnu og vindhraða, en litirnir leggjast yfir þar sem vindhraði er meiri en 40 m/s í 300 hPa hæð (í kringum 9 kílómetra). Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Illviðri fylgja röstinni. Yfir Íslandi er vindur aftur á móti hægur og aðallega af suðri. 

Niðri í mannheimum er myndin ekki svo ólík þessu - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg101115b

Lægðirnar ganga hratt með háloftavindi í norðurjaðri rastarinnar - og mjög kalt loft ryðst til suðausturs um Davíðssund vestan Grænlands út á Atlantshaf. Þarna er mjög kalt - við sjáum þarna -15 og -20 stiga jafnhitalínur 850 hPa-flatarins. Ekki er nærri því eins kalt austan Grænlands, uppsprettusvæði norðanáttarinnar sem spáð er síðar í vikunni. Þetta verður að teljast haustloft fremur en alvöruvetur. Það er rétt að -10 stiga jafnhitalínan sjáist. 

Þegar þetta er skrifað (seint á mánudagskvöldi) er laugardeginum spáð köldustum í þessari syrpu - en í raun ekki svo köldum - nema það lægi og létti til. 


Lægð við Austurland

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi, 6. nóvember, er djúp lægð við Suðausturland - hún á að fara norður með Austurlandi í nótt og verður fyrir norðan land á morgun. Lægðin er til þess að gera flatbotna - en töluverður vindur er samt umhverfis hana. 

Á kortinu hér að neðan má sjá vindaspá harmonie-líkans Veðurstofunnar sem gildir kl. 3 í nótt - og í 100 metra hæð yfir sýndarlandslagi þess. Við jörð er vindur almennt minni en kortið sýnir (almennt minni - takið eftir því orðalagi). 

w-blogg071115a

Mestur er vindurinn á Grænlandssundi - þar sem illa fer um kalt loft í þrengslunum á milli lægðarinnar og fjalllendis Grænlands. Annar vindstrengur er fyrir suðaustan land - ekki samt sérlega sterkur miðað við árstíma og dýpt lægðarinnar - kannski gustar samt eitthvað um Austur- og Norðurland í nótt og fram eftir laugardegi? Við látum Veðurstofuna um að segja til um það. 

Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að lægðin er nokkuð sammiðja allt upp í veðrahvörf. Það sést vel á þversniðinu hér að neðan. Sammiðja, stórar lægðir á norðurslóðum eru yfirleitt að grynnast - eiga lítið eftir af fóðri.

w-blogg071115b

Þversniðin eru ekkert léttmeti - það þarf að rýna dálítið í þau - þeir sem ekki vilja það ættu bara að hætta lestri pistilsins - takk fyrir innlitið. 

Litla kortið í efra hægra horni sýnir legu sniðsins. Það liggur frá 60 gráðum norðurbreiddar (lengst til vinstri) til norðurs um landið þvert (gráa svæðið neðst í sniðinu sýnir landið) og norður á 69. breiddarstig. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting - frá sjávarmáli og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). 

Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og vindstyrk - en litirnir sýna vindstyrkinn líka. Við sjáum að vindur er af suðvestri og vestri sunnan við land - en er austlægur norðan við - en yfir landinu er vindur hægur - upp úr og niður úr. Vindur er oft hægur í lægðarmiðjum - og hér má vel sjá það sem um var talað hér að ofan - lægðin er sammiðja - hallast ekki - vestanáttin nær alveg upp vinstra megin á myndinni (sunnan miðjunnar) - og austanáttin alveg upp hægra megin (norðan lægðarinnar).

Heildregnu línurnar sýna mættishita - (í Kelvinstigum) - hann vex upp á við. Verum ekkert að rýna í hann að þessu sinni - þótt fjölmargt mjög athyglisvert sé að sjá. Nú - það má líka taka eftir því að vindurinn er mestur í austanáttinni upp við veðrahvörf (til hægri á myndinni) - vinstra megin - í vestanáttinni - er vindur mestur neðantil - við sjáum hér í vestanstrenginn - en hámark hans er austan við sniðið - eins og sjá mátti á fyrstu myndinni.

Við skulum líka líta á annað þversnið - sama snið raunar - en sýnir nú jafngildismættishita (heildregnar línur), rakastig (litafletir) og rakamagn (rauðar strikalínur).

w-blogg071115c

Hér sjáum við tvo þurra poka (rifur) teygja sig frá veðrahvörfum og niður í átt til jarðar. Rakastig er þar miklu lægra en umhverfis. Það mætti velta sér upp úr þessum fyrirbrigðum - en trúlega er hér um íblöndun heiðhvolfslofts niður í veðrahvolfið að ræða. - Í nyrðri pokanum (þeim til hægri) er rakastigið innan við 10 prósent í 600 hPa hæð (um 4 km). 

Jæja - þetta var dálítið moð - en venst - og verður loksins hollt og gott - rétt eins og sagt er af sjóböðum - það er ekki þar með sagt ... 


Stórar og blautar - en ekki mjög krassandi lægðir

Miklar lægðir reika nú um Atlantshafið - en virðast varla ætla að valda umtalsverðum leiðindum. Nokkuð snörp lægð á að vísu að fara norður með Austurlandi annað kvöld (föstudag) - en vindbelgingurinn virðist aðallaga ætla að halda sig austan við hana - en ekki inn á landinu. 

Þegar þessi lægð fer hjá snýst vindur til norðurs og síðar vesturs um meginhluta landsins - samfara þessu á að kólna - en varla að nokkru gagni - (eða ógagni).

Kortið sýnir hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á laugardag (7. nóvember).

w-blogg061115a

Aðallægðin er komin norðaustur fyrir land og leggur lægðardag til vesturs með norðurströndinni - eitthvað kólnar og sjálfsagt snjóar á fjallvegum. Næsta lægð er svo yfir Labrador - hún er eitthvað misþroska og á ekki að gera margt af sér á leið sinni - en hún á að liggja til austurs fyrir sunnan land. Á undan lægðinni fer hæðarhryggur - sem truflar hana - jafnvel svo að hún fær ekki að njóta sín - en það kemur í ljós. 

Það er býsna kalt loft vestan Grænlands - og sömuleiðis við norðaustaurhorn þess - þessir kuldapollar eiga víst ekki að angra okkur að sinni - en mjög hlýtt loft ekki að gleðja okkur heldur. 

Tilfinningin er sú að í grunninn sé eitthvað lítið sé um að vera - þrátt fyrir lægðaganginn. Ritstjórinn brosir ánægjubrosi meðan svo er - og heldur áfram að huga að fortíðinni - enda er hún enn fastari fyrir heldur en systir hennar framtíðin. 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 179
  • Sl. sólarhring: 381
  • Sl. viku: 2558
  • Frá upphafi: 2435000

Annað

  • Innlit í dag: 159
  • Innlit sl. viku: 2269
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 146

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband