Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Í heiðhvolfinu - í 16 og 23 km hæð

Við lítum á tvö spákort um vinda og hita í heiðhvolfinu síðdegis á föstudag 6. nóvember. Ekki það að eitthvað óvenjulegt sé þar á seyði - heldur er ágæt tilbreyting að líta stundum upp. 

Fyrra kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 100 hPa-flatarins og vind og hita í honum.

w-blogg051115a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og hér má sjá mikið lægðardrag teygja sig um Grænland langt suður í höf. Merkingar á línunum eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Það er 15840 metra línan sem liggur um Ísland. Litafletir sýna hita (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). 

Það er sérlega eftirtektarvert að mun kaldara er yfir Spáni (<-72 stig) heldur en á austurvæng lægðardragsins (>-52 stig) - það munar meira en 20 stigum, 100 hPa flöturinn yfir Spáni er nærri veðrahvörfum. Reiknimiðstöðin segir þau vera þar í um 120 hPa hæð (rétt undir kortafletinum). Þar sem hlýjast er á kortinu er hæð þeirra hins vegar ekki fjarri 300 hPa - eða í um 9 km hæð. 

Að jafnaði fellur hiti frá yfirborði jarðar allt til veðrahvarfa - stígur síðan gjarnan lítillega/nokkuð næst ofan við þau - en breytist síðan lítið þegar enn hærra er haldið. Þar sem veðrahvörfin eru há getur hitafallið frá jörð því verið meira heldur en þar sem þau liggja lágt. Þetta skýrir að nokkru hitamynstrið á myndinni. 

En við skulum líka líta á vindinn - hann er mestur austan við hlýjasta svæðið - þar undir er einn skotvinda heimskautarastarinnar. Vindrastir hafa áhrif á lóðréttar hreyfingar lofts í kringum þær. Á þessu korti liggur röstin þannig að niðurdráttur verður vestan hennar - og loft sem streymir niður hlýnar. Niðurstreymi er því hluti skýringar á því hvers vegna þarna er hlýjast á kortinu. 

Í 23 kílómetra hæð er þrýstingur kominn niður í 30 hPa - það er sá flötur sem við sjáum á neðra kortinu. Það gildir á sama tíma og það efra - kl. 18 síðdegis á föstudag 6. nóvember.

w-blogg051115b

Þetta kort sýnir mun stærra svæði (og er úr ranni bandarísku veðurstofunnar). Þetta er langt ofan veðrahvarfa - lægðardragið suður um Grænland er ekki jafn eindregið og á hinu kortinu - en er samt þarna - því fylgir hlýrra loft - er það rastarvakið niðurstreymi sem veldur því að það er hlýrra en umhverfis? - eða er það hlýrra vegna þess að það er komið að sunnan? Ekki gott að segja. 

Við sjáum hins vegar að hlý pylsa liggur austur um alla Asíu - þetta eru örugglega rastarvakin hlýindi. Á þessum slóðum eru heimskautaröstin og svokölluð hvarfbaugsröst oft(-ast) samsíða á vetrum - mikill niðurdráttur er norðan þessara sameinuðu rasta. Hvarfbaugsröstin er ofar í lofti en heimskautaröstin. Við getum reyndar séð niðurstreymi vakið af henni í hitahámörkum yfir Líbýu og svo nærri hvarfbaug í Atlantshafi (undir textahólfinu). 

Langkaldast er yfir Norðuríshafi - þar er skammdegishvirfillinn að búa um sig. Varmabúskapur heiðhvolfsins ræðst af námi sólargeisla annars vegar (óson sér aðallega um það) og langbylgjuútgeislun hins vegar. Þegar sólin hættir að koma upp - heimskautavetrarnóttin tekur við - kólnar hægt og bítandi. Við það minnkar fyrirferð lofsins og þrýstifletir falla - og til verður þriðja meginröst norðurhvels - skammdegisröstin (heimsskautaskammdegisheiðhvolfsröstin). 

Muna þetta - gjöra svo vel: (i) Heimskautaröstin („lausa“ búta hennar köllum við gjarnan skotvinda), (ii) hvarfbaugsröstin, (iii) skammdegisröstin. 

Ensku heitin eru: Heimskautaröstin er "(polar) jet stream", skotvindur er "jet streak", hvarfbaugsröstin er "sub-tropical jet stream" og skammdegisröstin er "polar night jet".

Fróðleiksfúsir geta netflett sér til bóta (eða óbóta).  


Af vikum októbermánaðar (og smávegis um framhaldið)

Við lítum á þrýsti- og þykktarvik októbermánaðar á N-Atlantshafi. Fyrsta kortið sýnir meðalþrýsting mánaðarins og vik hans frá meðallagi áranna 1981 til 2010.

w-blogg041115a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Þær eru hér dregnar með 2 hPa bili - mánaðarkort eru gjarnan nokkuð flöt. Litirnir sýna þrýstivikin. Þrýstingur hefur verið óvenjuhár yfir sunnanverðri Skandinavíu - þar upplifðu menn einhvern þurrasta október allra tíma. Aftur á móti hefur þrýstingur verið venju fremur lágur í kringum Grænland - á Íslandi nærri meðallagi.

Sunnanátt hefur greinilega verið mun meiri en venjulegt er í kringum Ísland - og langt norður í höf. Norðanátt aftur á móti meiri en vant er við Labrador. - Suður í Mið-Evrópu hefur austanátt verið algengari en venjulega - á þessum ársíma getur slíkur austanáttarauki verið kaldur - eigi loftið uppruna yfir Rússlandi - en hlýrri komi loftið frá Svartahafssvæðinu. 

Hitavik í háloftunum sjást vel á næsta korti. Það sýnir þykktarvikin í litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Fréttasamband við hita nærri jörð er misgott - en í aðalatriðum er óvenjuhlýtt þar sem þykktin er óvenjumikil - og öfugt. 

w-blogg041115b

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Hér má sjá að hlýindi sunnanáttarinnar voru mest austan Íslands í október - hér var ekki mjög langt í svalari suðvestanátt í háloftum. Kalt var vestan Grænlands. 

Þessi staða virðist ætla að þrauka eitthvað áfram. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um 500 hPa hæð, þykkt og þykktarvik næstu tíu daga. Rétt er að hafa í huga að 10-daga spár eru oft nokkru „ýktari“ heldur en mánaðaruppgjör - 

w-blogg041115c

- en mynstrið í námunda við Ísland er svipað og ríkti í október. Sunnanvindurinn er þó slakari en var - kannski liggja kaldari dagar í leyni. Mynsturmunurinn er þó meiri í Evrópu - þar eiga jákvæðu vikin að teygja sig mun sunnar en var í október - enda á vestanátt að ríkja langt suður eftir álfunni. Hér á landi er hita spáð yfir meðallagi - ef við tökum tölurnar bókstaflega er verið að tala um 1 til 2 stig. 

En - neikvæðu vikin austur af Nýfundnalandi eru stór - hiti í neðri hluta veðrahvolfs á þar að vera allt að 5 stigum undir meðaltali - það kemur eiginlega á óvart að spáin skuli ekki gera ráð fyrir miklu lægðafári þarna - en líklega er rétt að gefa svæðinu gaum (eins og reyndar alltaf þarf að gera) - þetta er eitt gjörgæslusvæðanna - eða var það á þeim tíma þegar ritstjórinn reyndi að gera spár). 


Ný nóvemberhitamet í nágrannalöndum

Undanfarna daga hafa mjög óvenjuleg háloftahlýindi legið yfir norðvestanverðri Evrópu - samfara mikilli hæð sem fóðruð var lofti langt að sunnan. Úr þessu dregur væntanlega heldur næstu daga. 

Þegar komið er svona langt fram á haust er hins vegar erfitt að ná hlýindunum niður til jarðar. Sólin orðin máttlítil með hrærusleifina og vindur í miðjum háþrýstisvæðum er lítill. Líklegasta veðrið er því annað hvort þoka eða mengunarmóðar - eins og við höfum reyndar eitthvað fengið að sjá á fréttamyndum. 

En loftið ofan við er svo óvenjulega hlýtt að ekki þarf mikið að hræra í til að hitamet fari að falla. Þannig féll hitamet nóvembermánaðar á Stóra-Bretlandi í gær (sunnudag 1. nóvember) þegar hiti í Trawsgoed í Wales fór í 22,4 stig - og í dag (mánudag) komst hiti víst yfir 20 stig á mörgum stöðvum þar um slóðir. Það er auðvitað óvenjulegt að mánaðarhitamet á Bretlandseyjum falli - þar sem mælingar hafa verið stundaðar með góðri þéttni á annað hundrað ár - og gisið reyndar allt frá því um 1690. 

En landshitamet nóvembermánaðar féll einnig í Finnlandi í dag - ef trúa má fréttum, þegar hiti komst í 13,3 stig í Jomala á Álandeyjum - gamla metið var 13,0 stig sett á sama stað 1999. Það kemur e.t.v. á óvart að landshitamet þessa mánaðar skuli ekki vera hærra í Finnlandi - en þar er lítið um fjöll til að auðvelda blöndun háloftahlýinda niður til jarðar. - Við ættum að bíða staðfestingar á þessu meti áður en við smjöttum of mikið á því. 

Mæri og Þrændalög í Noregi hafa einnig fengið að njóta hlýindanna - þar komst hiti t.d. yfir 21,5 stig í Álasundi á laugardaginn (sem var reyndar síðasti dagur októbermánaðar - og reyndi ekki við nein nóvembermet). 

En við lítum á kort sem sýnir þessa miklu hæð. Það er úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 18 nú í kvöld (mánudag 2. nóvember).

w-blogg021115a

Kortið sýnir megnið af norðurhveli norðan hvarfbauga - það skýrist mjög sé það stækkað. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Hæðarmiðjan er yfir Þýskalandi. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Litir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þykktin í hæðarmiðjunni er meiri en 5640 metrar - telst mikil hitabylgja að hausti í Norður-Evrópu. 

Við sjáum mikla norðvestanátt yfir fjöllum Skandinavíu - og háloftavindurinn þar yfir og fjallabylgjur hans hafa náð að blanda einhverju af hlýja loftinu niður til finnskra.

Næstu daga á hæðin að gefa heldur eftir - en hlýtt verður áfram í Vestur-Evrópu. Á norðurslóðum er auðvitað að kólna - þetta er eiginlega það fyrsta sem við sjáum af fjólubláum þykktarlit á kortinu nú í haust. Jökulkalt er við Norður-Grænland - langt frá metum þó. 

Ísland er í lægðabraut - á mörkum hlýja og kalda loftsins. Reiknimiðstöðvar eru þó sammála um að mjög kalt loft eigi ekki greiðan aðgang til landsins - enda verði suðlægar áttir ríkjandi næstu vikuna að minnsta kosti. Von er þó á einhverjum tilbrigðum frá degi til dags - eins og venja er.

Netið er auðvitað fullt af veðurfréttum - en ritstjóri hungurdiska leggur fáeinar þeirra til hliðar á „aukafjasbókarhópa“ diskanna - vilji hann muna þær sjálfur. Hóparnir eru opnir - en fastir lesendur ekki nema um 20 - þeir sem kunna að hafa áhuga og jafnframt aðgang að fjasbókinni gætu litið á:

Svækjusumar (fréttir af hitum):

https://www.facebook.com/groups/529908403810040/

og 

fimbulvetur (fréttir af kuldum):

https://www.facebook.com/groups/682079995214954/

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband