Fyrirgjöf (eða öllu heldur fyrirgjafir)

Ef trúa má reiknimiðstöðvum verður veðurlag næstu vikuna á N-Atlantshafi nokkuð ólíkt því sem verið hefur. Fyrst lítum við til baka.

w-blogg261115a

Kortið sýnir meðalástand síðustu tíu daga. Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, strikalínur meðalþykkt og litir vik þykktarinnar frá meðaltali áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar sýna afbrigði hitafars mjög vel.

Í reynd hefur veður verið mjög breytilegt - en kortið sýnir samt óvenjuleg hlýindi yfir Suður-Grænlandi og þar vestur af - en fremur kalt hefur verið í vestanverðri Evrópu. Yfir Íslandi hefur hiti þessa tíu daga verið ekki svo fjarri meðallagi. Meðalvindátt í háloftunum hefur verið úr norðvestri hér á landi. 

Nú á að verða mikil breyting.

w-blogg261115b

Þetta kort gildir frá og með deginum í dag (fimmtudag 26. nóvember) fram til sunnudags 6. desember. Miklum kulda er nú spáð þar sem einna hlýjast var á fyrra korti. Neikvæða þykktarvikið við Suður-Grænland er meira en -140 metrar - hiti í neðri hluta veðrahvolfs er meir en 7 stig undir meðallagi. Það er nokkuð mikið fyrir 10 daga. 

Kuldinn að vestan teygir sig til Íslands - sjálfsagt er hann að einhverju leyti kominn úr norðri í neðsta hluta veðrahvolfsins. Þeir sem sjá vel (og stækka kortið) taka eftir því að jafnþykktarlínurnar (þær strikuðu) liggja mjög þétt austan Grænlands - undir mjög gisnum jafnhæðarlínum á sömu slóðum. Þetta segir sögu af mjög mikilli norðanátt þarna undir. 

Hér er auðvitað um meðalástand að ræða og veður einstaka daga verður allt annað (fyrir utan þá sjálfsögðu staðreynd að spáin getur brugðist). En - verði þetta raunin er hér komin staða sem fyrirsögn pistilsins vísar til: Kalt loft úr norðvestri streymir út yfir Atlantshaf - knattspyrnumaður hleypur átt að marki og bíður fyrirgjafar úr hliðarspyrnu úr suðri. Hitti hann boltann verður til snörp og jafnvel gríðardjúp lægð með tilheyrandi illviðri - hann skorar. 

Í hádegisspá evrópureiknimiðstöðvarinnar má sjá margar slíkar lægðir myndast næstu tíu daga. Flestar eiga þær reyndar að fara hjá fyrir sunnan land, þannig að Bretland og sunnanverð Skandinavía verði aðallega fyrir höggunum - en reyndin er sú að margra daga reikningar ráða illa við stöður sem þessa hvað einstakar lægðir varðar. 

Sunnanhlýindin eiga uppruna sinn í þrýstiflatneskju hlýtempraða beltisins þar sem rakaþrungnir bakkar (hvarfbaugshroði) sveima um í hálfgerðu iðjuleysi og tilviljun ein virðist ráða hvort og hvenær heimskautaröstin húkkar þá upp á hringekjuna. 

Svona verður staðan á síðdegis á laugardag (ef trúa má).

w-blogg261115c

Við sjáum kalda norðvestanáttina milli Grænlands og Labrador vel - og sömuleiðis þrungið úrkomubelti liggja til norðausturs austan Nýfundnalands - en það er eins og fyrirgjöfin úr suðri hitti ekki alveg á norðvestanáttina (hvarfbaugshroðinn bíði næstu umferðar) - en á sunnudag verður boltinn kominn austar og annað spark þá mögulegt - upprunnið í norðanáttinni stríðu norðan Íslands. 

Spár eru langt í frá sammála um hversu snarpt sunnudagsillviðri Bretlands og Danmerkur verður - allt frá engu upp í tjónastorm. - Svo segir tíu daga meðalkortið okkur að sóknin haldi áfram af miklum þunga næstu vikuna. - Verða einhver mörk skoruð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 153
  • Sl. sólarhring: 170
  • Sl. viku: 2395
  • Frá upphafi: 2348622

Annað

  • Innlit í dag: 126
  • Innlit sl. viku: 2089
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband