Óvenjuleg hitasveifla (í háloftunum)

Eins og nefnt var í síðasta pistli hungurdiska stefnir í óvenjulega hitasveiflu í háloftunum í námunda við landið. Það er varla að raunveruleikinn verði alveg svona öfgakenndur - spá er bara spá - en lítum samt á þetta okkur til gamans.

Mikið er að gerast vestur í Ameríku eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Það er úr fórum bandarísku veðurstofunnar og sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 6 (að okkar tíma) miðvikudaginn 18. nóvember.

w-blogg181115a

Kortið sýnir Norður-Ameríku. Alaska eftst í vinstra horni - Flórída og Kúba neðst til hægri. Mikið háþrýstisvæði er yfir Labrador og annað vestan Kaliforníu - en yfir meginlandinu eru þrjár lægðir. Óvenjuöflug lægð hefur brotist yfir Klettafjöll nærri landamærum Bandaríkjanna og Kanada og hitti fyrir aðra sem er á norðurleið yfir miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Það sem hér er sérlega óvenjulegt er að hvöss sunnanátt nær allt sunnan frá Mexíkóflóa og nærri því norður úr kortinu.

Úr þessu á svo að verða til mikill sveipur í námunda við Hudsonflóa - nóg að gera hjá veðurnördum og fræðingum vestra. 

Þessi gríðarlega sunnanátt stuggar svo við kuldapollinum Stóra-Bola yfir Norður-Íshafi að dálítil sneið skerst úr honum og flæmist til suðurs austan við Ísland á fimmtudag - og heldur síðan áfram til Frakklands - jafnvel alla leið til Spánar um helgina. 

Næsta kort sýnir stöðuna síðdegis á fimmtudag.

w-blogg181115b

Jafnhægðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á kortinu er strokan við Ísland. Evrópureiknimiðstöðin spáir þykktinni niður í 4990 metra yfir Norðausturlandi - svo vill til að lágþykktarmet nóvembermánaðar yfir Keflavíkurflugvelli er einmitt 4990 metrar. Svo lágt á þykktin að vísu ekki að komast þar nú - en talan sýnir vel um hve óvenjukalt loft er að ræða. 

En þetta kalda loft fer svo hratt hjá að frólegt verður að sjá hversu mikið nær að kólna á veðurstöðvunum - væntanlega nær kuldinn hámarki á þeim á aðfaranótt föstudags eða jafnvel síðar.

En sunnanáttin ameríska nær líka að koma hlýju lofti alla leið hingað til lands á laugardag. Það sýnir síðasta kort pistilsins sem gildir síðdegis þann dag.

w-blogg181115c

Hér er kuldinn kominn suður á Frakkland - en skammt vestan við Ísland er hlýr hæðarhryggur - þar er hámarksþykktin 5570 metrar - einmitt sama tala og mest hefur mælst yfir Keflavíkurflugvelli í nóvember. 

Það er svona rétt varla að ritstjórinn trúi þessum öfgum - skammt í metþykkt á báða vegu á tveimur sólarhringum - ætli raunveruleikinn verði ekki aðeins vægari á báða vegu? En við sjáum hér hitasveiflu upp á hátt í 30 stig í háloftum - hver verður hún við jörð? Nái að kólna verulega inn til landsins á Norðausturlandi gæti frost farið þar í -20 stig, kannski fer hiti svo vel yfir 10 stig einhvers staðar auðaustalands um helgina? 

Eftir helgina á síðan að kólna nokkuð aftur - eða hvað? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

 Já, við lifum á öfgafullum tímum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2015 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a
  • w-blogg071124a
  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 321
  • Sl. viku: 1624
  • Frá upphafi: 2408638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband