Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Veggurinn Grænland

Grænland skýlir Íslandi að miklu leyti fyrir árásum lofts frá kanadísku heimskautaeyjunum - ekki þó alveg alltaf. Í dag (þriðjudaginn 20. janúar) sást kalt loft falla niður af jöklinum í mjóum vindstreng sunnan við Kulusuk - ef marka má greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi. Kortið að neðan sýnir vind í 100 metra hæð (yfir líkanlandinu) á hádegi í dag.

w-blogg210115a

Ísland er lengst til hægri - en yfir fjöllum Austur-Grænlands er stór blettur þar sem vindhraði er allt upp í 36 m/s (dekksti brúni liturinn). Megnið af loftinu sem þarna fellur niður fer trúlega í svokallað straumstökk - það lyftist upp aftur og fer uppúr þessu korti. Á smábili nær vindur að haldast yfir 24 m/s langt út á haf og lendir þar loks í samkrulli við eitthvað fleira. 

Hinn vindstrengurinn á myndinni, sá sem er utan miðlínu á Grænlandssundi er annars eðlis - þar þrengir hlýrra loft úr austri sér að kaldara sem kemur að norðan svo úr verður rok eða ofsaveður. 

Á þykktarkortinu að neðan sjáum við stærra svæði - og fallvindurinn ofan af Grænlandi sést vel - ekki sem vindur heldur sem tunga af köldu lofti.

w-blogg210115b

Heildregnu línurnar sýna þykktina - en litir hita í 850 hPa. Hér sést veggur Grænlands mjög vel. Alveg efst í vinstra horni má sjá 4900 metra jafnþykktarlínuna. Kalda loftið teygir sig til austurs yfir jökulinn þar sem vindstrengurinn er á fyrra kortinu. Lágþykktarás er merktur með lítilli rauðri ör - en þykktin getur samt ekki talist lág - hún er bara lægri í ásnum heldur en til beggja handa.

Framrás kuldans sést betur á litunum sem sýna hita í 850 hPa. Ás hans er merkt með gulu örinni. Við sjáum töluna -17 í fjólubláum bletti skammt undan strönd Grænlands - alvörukuldi. Það er hins vegar lítið að marka -30 stiga töluna á háhrygg Grænlands - jökullinn nær í raun upp fyrir 850 hPa.

Við notum tækifærið og tökum eftir því að ásar kuldans eru ekki á sama stað. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs - eins konar meðaltal neðstu 5 km þess, en 850 hPa flöturinn er neðar (heldur en það meðaltal). Kuldaásinn hallast greinilega - hann er hér sunnar neðantil heldur en ofar. 

Fallvindur ofan af Grænlandsjökli nefnist piteraq - hungurdiskar hafa oft minnst á hann  og eðli hans áður. 

Þessi piteraq gengur fljótt niður því lægðakerfi nálgast úr suðvestri. Á morgun (miðvikudag) verður það komið langleiðina til Íslands. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18.

w-blogg210115c

Þrátt fyrir að þessi lægð sé út af fyrir sig ekkert aumingjaleg, finnst manni það samt því þrýstilínurnar eru ekkert sérlega þéttar í kringum meginúrkomusvæði hennar - varla að nái stormstyrk. Þetta er auðvitað góð tilbreyting frá því sem verið hefur. Vanmetum samt ekki veðrið á ferðum okkar um landið. 

En - fyrir vestan Grænland er mjög kalt. Eins gott að veggurinn í vestri skýli okkur vel þegar lægðin er komin framhjá. Það á hann líka að gera - að mestu, en rétt er að fylgjast með baráttu þyngdar- og flotkrafta við Suðaustur-Grænland næstu daga. 


Heldur hlýrra framundan?

Hiti það sem af er mánuði sýnist vera um -1,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára í byggðum landsins (ekki nákvæm tala). Það hefur auðvitað oft verið kaldara þessa janúardaga, t.d. í janúar 2007 þegar hitinn var meir en einu stigi neðar en nú. Þá endaði janúar í -1,5 stigum undir meðallagi sama tíma 2005 til 2014 í Reykjavík. 

Ekki er útlit fyrir nein sérstök hlýindi út mánuðinn, en samt eru spár heldur hlýlegri en verið hefur. Hér lítum við á runu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (mánudag 19. janúar). Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik 19. til 29. janúar (10 daga).

w-blogg200115a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Þær strikuðu meðalþykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvikin eru síðan sýnd í lit. Bláir litir ráða svæðum þar sem þykkt er undir meðallaginu 1981 til 2010, en gulir og brúnir þar sem hlýrra er en að meðaltali. 

Hér hefur orðið mikil breyting frá síðustu 10 dögum, en þá var þykktin 70 til 80 metrum undir meðallagi hér á landi eða sem svarar 3,5 til 4 stigum. Næstu tíu daga á þykktin að vera við meðallag sunnanlands, en 20 til 30 metra (1 til 1,5 stig) ofan þess fyrir norðan. 

Kannski meðalhiti janúarmánaðar 2015 verði ekki mjög lágur eftir allt saman? 

Á myndinni má sjá hin afbrigðilegu hlýindi við Norðaustur-Grænland. Þau hafa verið viðvarandi mestallan mánuðinn - en teygja sig nú í átt til Íslands. Aftur á móti er Kanadakuldapollurinn Stóri-Boli óvenjunærri Grænlandi, þar á þykktin að vera 180 metra undir meðallagi (-9 stig). Hér sést óvenjuvel hvernig Grænlandsjökull stíflar kuldann - hann kemst ekki yfir jökulinn (að meðaltali). Miklum kulda er líka spáð við Miðjarðarhaf - ætli úrkoma fylgi þá ekki líka?

En á kortinu má einnig sjá mikla lægðarbeygju við Ísland - skarpt lægðardrag. Ætli það bendi ekki til áframhaldandi umhleypinga? Alla vega er slatti af lægðum væntanlegur á okkar slóðir - sé að marka spána. 


Um háan ársmeðalhita

Hitinn á árinu 2014 var sá næsthæsti í Reykjavík og á Akureyri síðan samfelldar mælingar hófust á þessum stöðum á síðari hluta 19. aldar. Veðurstofan hefur enn ekki birt endanlegar niðurstöður en þær hljóta að birtast alveg á næstunni. Ljóst er þó að árið er það hlýjasta frá upphafi mælinga víða um norðan- og austanvert landið, mælinga sem staðið hafa í meir en 140 ár samfellt. 

Ritstjóri hungurdiska reiknar líka landsmeðalhita í byggðum landsins sér til gamans. Um áreiðanleika þeirrar leikfimi fullyrðir hann ekki neitt. Árið 2014 reynist vera hið hlýjasta frá upphafi samsuðunnar, 0,02 stigum hlýrra en árið 2003 sem var það næsthlýjasta. En þar sem ritstjórinn telur sig hófsaman mann (eða þannig) vill hann síður að þessi merki áfangi sé kynntur með einhverjum lúðrablæstri og látum. Jú, þetta er merkilegt út af fyrir sig - en fyrst og fremst þannig að enn eitt afburðahlýtt ár hafi nú bæst við öll hin á þessari nýju öld. 

Eftir hver áramót þegar tölur hafa borist reiknar ritstjóri hungurdiska út þykktarhita landsins (líka sér til gamans). Mjög gott samband er nefnilega á milli 500/1000 hPa-þykktarinnar og hita á veðurstöðvum - m.a. í Reykjavík. Fyrst árið 2014 var svona hlýtt er eðlilegt að spurt sé hvernig þykktarhitinn hafi staðið sig.

Það sýnir myndin hér að neðan.

h-thykktarhiti-2014

Reikningarnir ná yfir háloftaathuganatímabilið 1949 til 2014. Fylgnistuðull milli þykktar og hita á þessu tímabili er um 0,9. Mæld gildi eru á lóðréttum ás myndarinnar, en áætluð á þeim lárétta. Hæstur varð meðalhitinn árið 2003 (6,06 stig) og nærri því jafnhár árið 2014 (5,99 stig). Þessi ár liggja nánast hlið við hlið – enda var meðalþykkt áranna mjög svipuð. Þykktin hefur hins vegar nokkrum sinnum verið meiri en nú, langmest árið afbrigðilega, 2010, en þá var ársmeðalhiti í Reykjavík sjónarmun lægri en nú (5,90 stig). Við sjáum líka að þykktin (og þar með þykktarhitinn) var einnig sjónarmun hærri en nú árin 2008 og 2009 - þótt þau ár reyndust lítillega kaldari. 

Mismunur reiknaðra og mældra gilda nefnist leif. Hún er mjög misjöfn frá ári til árs. Þegar ár lendir neðan línunnar hefur hitinn verið lægri en þykktin bendir til, þannig var það 2010 - þykktarhitinn var þá 6,15 stig - leifin var -0,09 stig, hann var hins vegar ekki nema 5,32 stig 2014 - leifin er +0,67 stig. Þetta er reyndar stærsta jákvæða leif alls tímabilsins. 

Áður en við förum að hrópa eitthvað út af því skulum við muna að þykktarmælinröðin (fengin úr nokkuð ósamstæðum veðurlíkönum) er ekki eins nákvæm og mælingin á stöðinni. Auk þess er þykktin reiknuð yfir miðju landi (65°N, 20°V) og af þeim ástæðum myndast einnig suð í röðinni sem reyndar mætti með lagni leiðrétta fyrir - því við eigum þykktarbrattann líka. Við eigum ekkert við þá leiðréttingu í bili.

En lítum nú á þróun þykktarleifarinnar síðan 1949. Einstök ár eru sýnd með súlum - en 7-ára keðjumeðaltal með rauðri strikalínu. 

w-blogg190115-thykktarleif-rvk

Við munum auðvitað að ákveðið var í upphafi að leifin skyldi vera núll yfir tímabilið allt. Hefðum við valið annað tímabil hefðu tölur hnikast til. 

Þykktarleifin nær (jákvæðu) hámarki snemma á tímabilinu en verður síðan neikvæð á hafísárunum 1965 til 1971, minnkar síðan aftur, en hefur svo verið óvenjumikil, og jákvæð, síðustu 7 ár tímabilsins (2008 til 2014).

Hvers vegna er þykktarleif mismunandi? Á því geta verið ýmsar skýringar. Fyrst þær sem nefndar voru hér að ofan: i) liggur í gallaðri þykktarröð, ii) að mismunandi bratti þykktarsviðsins milli Reykjavíkur og viðmiðunarpunktsins valdi.

Tvær aðrar verður að nefna sérstaklega: iii) Breytingar geta orðið á stöðinni eða staðsetningu hennar – líklegt má telja að ef Reykjavík hefur vegna þéttbýlisáhrifa hlýnað meira en dæmigert er á stærra svæði myndi slíkt sýna sig – sem vaxandi þykktarleif. iv) Stöðugleiki neðsta hluta veðrahvolfs er breytilegur. Mikill og stöðugur sjávarkuldi – nú eða óvenju mikil bjartviðri á vetrum gætu t.d. valdið því að samband þykktar og hita raskaðist – hiti væri lægri við yfirborð heldur en þykktin ein getur séð. Við getum þá sagt að kuldinn sé grunnur. Sé þykktarleifin jákvæð hefur hlýnað meira við yfirborð heldur en almennt í neðri hluta veðrahvolfs.

Á þessu langa (66-ára) skeiði vitum við um hafísárin sem mögulegt tímabil með lágum sjávarhita í kringum landið og sjávarkuldi gæti verið ábyrgur fyrir neikvæðri þykktarleif þess tíma – það mætti segja meira um það síðar. Kuldinn um 1980 hlýtur að hafa verið djúpur – orðinn til þar sem kalt loft streymir út yfir hlýjan sjó þannig að þykktin hefur verið í góðu sambandi við hita í neðstu lögum. Hin stóra jákvæða þykktarleif síðustu ára – hver er skýring hennar?

Meðan við höfum ekki fjallað um leif á fleiri stöðvum getum við ekki útlokað skýringu iii) hér að ofan – að „of mikið“ hafi hlýnað í Reykjavík vegna þéttbýlisáhrifa eða annarra staðbundinna breytinga sem tengdar eru mælingunum. Óhætt er að upplýsa að ekkert bendir til þess að þetta sé skýringin.  

Hið góða samband hita og þykktar segir okkur að þrátt allt skýra breytingar á þykkt yfir 65°N og 20°V stóran hluta af breytileika hitans í Reykjavík frá ári til árs. 

Fleira þessu nátengt liggur í pokahorni ritstjórans - en ætli hann liggi ekki á því í bili. 


Landsynningur

Á sunnudag (18. janúar) kemur öflug lægð inn á Grænlandshaf. Því er spáð að henni fylgi nokkuð öflugur landsynningur. Landsuður er gamalt nafn á suðaustri. Orðið landsynningur vísar því til suðaustanáttar - en oftast ekki hvaða suðaustanáttar sem er, heldur til þeirrar sem ber með sér bæði hvassviðri og úrkomu - sem oftast er rigning. 

Lægðin þessi er af mjög algengri gerð - landsynningur hennar er „alvöru“ (eins og menn vilja oftast orða það í dag) - en útsynningurinn (suðvestanátt með éljum) sem oft fylgir í kjölfarið skilar sér ekki nema mjög stutta stund - eða alls ekki. Lægðin fer í hring aftur fyrir sig (kannski má segja að hún stolli) og hrapar svo skyndilega út úr myndinni og brotnar - brotin fara svo til Bretlandseyja. 

Tölvuspár undanfarinnar viku hafa verið mjög óljósar um þetta lægðarbrot - meira að segja var um tíma útlit fyrir að landsynningurinn næði aldrei til okkar (suðaustanátt kannski - en ekki landsynningur). 

Nú er samkomulag orðið betra. Kortið hér að neðan sýnir spá harmonie-líkans Veðurstofunnar um vind í 100 metra hæð (yfir líkanlandinu) kl. 10 á mánudagsmorgunn. Þá á hvassviðrið að vera í hámarki (að sögn). Á kortinu stendur 2014 en á að vera 2015.

w-blogg180115a

Örvar gefa stefnu til kynna, en litir sýna vindhraða. Rauðbrúnu litirnir sýna vind yfir 24 m/s. Hér má sjá að fjöll hafa mikil áhrif á vindhraðann - hlémegin (auðvitað öfugmæli hið versta) er vindur miklu meiri en áveðurs. Hæstu hámörkin eru við Langjökul, þar sem vindur á að vera yfir 40 m/s. Tölur í litlum gulum kössum sýna líklegar hviður (sem geta náð til jarðar). 

Landsynningsstormurinn hreyfist til norðausturs - en minnkar jafnframt. Öllu hægari suðaustanátt fylgir í kjölfarið. Spáin gerir ráð fyrir talsverðri úrkomu - aðallega slyddu og rigningu í byggð en hríð á fjöllum. Það er alltaf spurning hvers konar úrkoma fylgir í kjölfarið - hér má sjá að vindstefna virðist ekki breytast mikið í þann mund sem draga fer úr vindi. Það bendir til þess að hiti breytist ekki mjög - og þar með er snjókoma ólíklegri. Ef snögglega lygnir alveg í lok landsynningsveðra að vetri er viðbúið að hann fari strax að snjóa. 

En þetta er vindur í 100 metra hæð. Kortið hér að neðan sýnir vind í hæð vindhraðamæla - 10 metrum á sama tíma, kl. 10 á mánudag 19. janúar. Núningur sér til þess að hann er öllu minni heldur en 100 metravindurinn. Á kortinu stendur 2014 en á að vera 2015.

w-blogg180115b

Hér hafa rauðleitu svæðin dregist mjög saman - en samt eru þarna flákar, t.d. einn á Kjalarnesi. Nú er varla hægt að ætlast til þess að líkanið nái öllum smáatriðum. Þannig geta verið stakir blettir þar sem vindur er meiri en þetta kort sýnir og gott að eiga bæði kortin þegar ráða á í líklegan vindhraða á þeim stað sem við höfum áhuga á hverju sinni. 


Súðavíkurlægðin í janúar 1995

Nú eru 20 ár liðin frá mannskaðasnjóflóðinu á Súðavík. Illviðrið sem því olli kom illa fram í tölvuspám þess tíma - þótt allgóðar teldust. Síðari endurgreiningar vestanhafs og austan náðu því heldur ekki á fullnægjandi hátt. Það er loksins að sjá má lægðina miklu í fullri dýpt í nýjustu endurgreiningarafurð evrópureiknimiðstöðvarinnar, ERA-interim. 

Hvort og hvernig þessu veðri yrði spáð með reiknilíkönum og gervihnattaathugunum nútímans er ekki gott að segja, miklar skekkjur sjást enn í spánum. En ætli maður verði samt ekki að trúa því að nú gæfist að minnsta kosti sólarhringsfyrirvari - með heppni lengri tími. Við stríðum líka við það vandamál að spár nokkra daga fram í tímann taki of djúpt í árinni - og dæmisögunni um úlfinn og skreytna piltinn er oft veifað framan í veðurfræðinga - engum til gagns. 

Eitt er það svo að spá vondri hríð og síðan annað að spá stóru snjóflóði - jafnvel í ákveðinni hlíð. Snjóflóð geta komið rækilega á óvart þó veðurspáin sé rétt. Þekking á snjóflóðum hefur til allrar hamingju aukist að miklum mun í landinu á 20 árum - örfáir þekktu þá til snjóflóða svo gagn væri af - en nú eru þeir fjölmargir. En ekki má samt sofna á verðinum - fjöldi staða á landinu er enn án fullnægjandi varna og vetrarferðamennska vex hröðum skrefum. 

En lítum nú á þrjú veðurkort úr nýju safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Fyrst verður fyrir kort sem sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 6 að morgni mánudagsins 16. janúar 1995.

w-blogg170115c

Þarna er lægðin um 941 hPa í miðju - rétt fyrir norðan land. Þetta er mjög nærri raunveruleikanum. Það gæti vantað upp á að réttur hiti sé í neðstu 1500 metrunum yfir Vestfjörðum - úrkoma gæti líka verið vanmetin - það mætti líta betur á það. Veðurkortareyndir lesendur sjá auðvitað að hér fer foráttuveður - úrkoma var gríðarleg og það sem skipti miklu máli að úrkomuáttin var óvenjuleg.

Víða norðanlands setti niður mikla fönn á fjöll og heiðar í vestanátt, allt austur í Bárðardal -. Sömuleiðis fennti mikið í Borgarfirði, Dölum og Húnavatnssýslum - ritstjórinn var (rétt einu sinni) á ferð í blindhríð í Hvalfirði á sunndagskvöld - einmitt þegar lægðin dýpkaði hvað örast. Leist honum lítt á blikuna -. 

Metvindur var á Hveravöllum - af vestnorðvestri, átt sem varla er til á vindrós stöðvarinnar. Íslandsmet í vindhraða var slegið á Gagnheiði. 

Á Vestfjörðum var fárviðrisáttin rétt vestan við norður - ekki norðaustanátt eins og þar er miklu algengara. Í næsta aðdraganda veðursins hafði snjóað mikið í fremur hægum vindi og safnast ofan við fjallabrúnir, þegar fárviðrið skall á hreinsaðist snjórinn ofan í gil og kletta - og lenti á óvenjulegum stöðum vegna vindáttarinnar. 

Síðan hélt fárviðrið velli á Vestfjörðum í rúma þrjá sólarhringa til viðbótar - því ný lægð endurnýjaði þá gömlu. 

Næsta kort sýnir háloftastöðuna sólarhring fyrr, kl. 6 að morgni sunnudags. 

w-blogg170115d

Kuldapollurinn mikli, sem við köllum Stóra-Bola er mættur alveg inn á Grænlandshaf og teygir sig langt til suðurs eftir hlýju og röku lofti í stefnumótið örlagaríka. Eitt einkenni hættulegra veðra er mikið frost í stinningsvindi eða hvassviðri við lágan loftþrýsting - sérstaklega ef vindur stendur jafnframt af hafi. Að kveikja á þeim aðvörunarljósum í tíma reynist hins vegar erfitt.

Á kortinu sést breið og mikil bylgja af hlýju lofti fyrir sunnan land - það er mjög riðið sem við köllum svo, jafnhæðar- og jafnþykktarlínur skerast á mynda þétta möskva eins og net -. Þetta er óskastaða til ofsadýpkunar. 

Síðasta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting á sama tíma, kl. 6 að morgni 15. janúar 1995, sólarhring áður en Súðavíkurlægðin náði dýpstu stöðu.

w-blogg170115e

Hér er lægðin rétt að myndast sunnan við land. Kuldalægðin situr á Grænlandshafi. Örin sem sett er á kortið sýnir þá stefnu sem tölvuspár gerðu ráð fyrir að lægðin tæki. Hún átti að fara hjá fyrir austan land, tiltölulega átakalítið. En svo fór ekki, heldur hreyfðist hún til norðnorðausturs - nokkurn veginn yfir Vatnajökul - aflagaðist nokkuð við það - en sló sér síðan niður yfir Norðurlandi austanverðu og endaði loks vestur yfir Húnaflóa. 

Dæmi eru um allmargar lægðir af svipuðum uppruna sem fóru svipaða leið. Þessi er samt minnisstæðust og snörpust. Mikill svipur var með þeim systrum Súðavíkurlægðinni og þeirri sem kennd er við snjóflóðið Flateyri í október sama ár (1995). Sú síðarnefnda hafði þó ekki eins snarpan aðdraganda og meginvindátt var hefðbundnari norðan- og norðaustanátt. Reiknilíkön náðu henni talsvert betur - þó ekki nóg.

Októbermánuður er líka mun ólíklegri til stórra snjóflóða heldur en janúar. Þó hafði enn mjög svipað veður í október 1934 valdið mannsköðum í snjóflóði í Önundarfirði. 

Veður sem þessi liggja auðvitað mörg í leyni í framtíðinni - og örugglega enn verri - aðeins spurning hversu lengi þurfi að bíða. 


Hvenær er kaldast á vetrum? 2

Við höldum áfram að spyrja um kaldasta dag vetrarins, en höfum í huga að við erum í leik en ekki í djúpum vísindalegum hugleiðingum. Mest rými fer í lágmarkshitann í Reykjavík - við eigum upplýsingar um kalda daga í Reykjavík aftur til 1871 til 1872 - en að vísu vantar nokkur ár í þann lista snemma á 20. öld, en við náum 140 vetrum.

Spurningin er þá hversu miklar líkur eru almennt á því að kaldasti dagurinn sé þegar liðinn 15. janúar. Svarið er 35 prósent fyrir veturna 140, og reyndar það sama sé aðeins miðað við vetur frá 1950 til okkar daga. 

Hér verður að taka fram - að þessi almenna tala segir ekkert til um líkurnar nú [15. janúar] - eftir að veturinn er byrjaður. Lágmarkið í Reykjavík fram til þessa í vetur er -9,1. Vetrarlágmarkið hefur aðeins einu sinni verið hærra en þetta. Það var 2013 þegar lægsta lágmark vetrarins alls (2012 til 2013) var ekki nema -8,4 stig. Mjög litlar almennar líkur eru á því að -9,1 stig fái að sitja óáreitt til vors (þó aldrei að vita). 

Í framhaldi af þessu koma fleiri spurningar - hversu snemma vetrar eða seint hefur vetrarlágmarkið orðið á þessum 140 árum?

Haustið 1899 (vetur 1899 til 1900) mældist -15,8 stiga frost í Reykjavík þann 5. nóvember. Þetta er mjög ótrúlegt og þarfnast nánari skoðunar - en skráin segir þetta. Veturinn 1921 til 1922 mældist mesta frostið -11,8 stig, það var 7. nóvember. Alls á nóvember 7 vetrarlágmörk á árunum 140. 

Á hinum endanum: Þar situr 17. apríl 1967. Þá mældist mesta frost vetrarins 1966 til 1967 í Reykjavík, -11,7 stig og 14. apríl 1951 mældist 12. stiga frost, það mesta veturinn 1950 til 1951 - lengi von á einum. Sex apríldagar af 140 hafa verið þeir köldustu á vetrinum - og einn til viðbótar jafnkaldur og kaldast hafði verið fram að því. 

Í morgunhitaskrá Stykkishólms sem nær aftur til 1845 til 1846 eru aðeins 23 prósent vetrarlágmarka komin þann 16. janúar. Svalur síðvetur þar. Kaldasti morgun vetrarins 1921 til 1922 var 7. nóvember (sami dagur og nefndur var í Reykjavík), hitinn kl. 9 var -9,9 stig. Það eru 8 dagar í nóvember 165 vetra sem náðu lægstu tölu í Stykkishólmi.

Á hinum endanum er 25. apríl 1932, það var kaldasti morgunn vetrarins 1931 til 1932 í Hólminum, hitinn kl. 9 mældist -8,2 stig - enda hafði veturinn verið fádæma hlýr. Þá hafa menn haldið að hlýindaskeiðinu væri þar með lokið (en það stóð í um 30 ár til viðbótar). 

Landslágmörk (í byggð) eigum við samfellt á lager frá vetrinum 1949 til 1950. Hér bregður svo við að á þeim tíma mældist lægsti hiti vetrarins í 51 prósent tilvika fyrir 16. janúar. Eins og fram kom að ofan eru eru tilvikin 35 prósent í Reykjavík - eins og í allri 140 ára röðinni. Við gætum másað yfir þessu misræmi - en sleppum því. 

Að likum eru hér tvær litlar töflur. Sú fyrri sýnir hversu oft einstakir mánuðir eiga lægsta lágmarkshita vetrarins í Reykjavík - en sú síðari hvernig talningin kemur út fyrir allt árið - dreifingin er ekki sú sama.

Fjöldi vetrarlágmarka í Reykjavík

v-lágmörkmán
7 nóvember
24 desember
42 janúar
35 febrúar
26 mars
6 apríl

Fjöldi árslágmarka í Reykjavík

á-lágmörk mán
46 janúar
29 febrúar
26 mars
3 apríl 
5 nóvember
31 desember

Hvenær er kaldast á vetrum?

Þessari einföldu spurningu er ekki auðvelt að svara og enn erfiðara hér á landi heldur en víða annars staðar því mánuðirnir desember til mars eru svo jafnir að hita. Síðan er að á bakvið spurninguna liggja margar aðrar í leyni. Hvað er átt við þegar talað er um kaldast?

Þótt veturinn sé jafnkaldur eru hitasveiflur svo miklar frá degi til dags að þeirra gætir í meðaltölum sem ná yfir marga áratugi - og raunar enn lengri tíma. Svo er árstíðasveiflan ekki alveg einföld. Aðalþátturinn - sólarhæðin - breytist mjög lítið frá öld til aldar og sólnánd (sá dagur ársins þegar jörð er næst sólu) breytist líka svo hægt að engu skiptir í þeim röðum hitamælinga sem við höfum aðgang að (um 200 ár). 

Annar aðalþáttur - varmarýmd lands og sjávar (í sjálfu sér) breytist ekki heldur frá ári til árs. Það er hins vegar nokkur munur á því frá ári til árs hvernig varmabúskap þeirra er háttað sem og þá samskiptum við loftið. Samanburður hitamælinga á okkar tímum og á 19. öld sýna t.d. að munur er á árstíðasveiflu hita þá og nú - síðvetur og vor voru að jafnaði kaldari heldur en nú. Það teygðist úr vetrinum - í meðaltölum. 

Vegna breytileikans frá degi til dags og lítilsháttar áratugabreytileika í árstíðasveiflunni er ólíklegt að við getum neglt niður einhvern ákveðinn dag sem þann kaldasta - með því að búa til algilda útjafnaða (slétta) ártíðasveiflu. Það er þó reynt og gert - og hefur þýðingu auk þess að vera forvitnilegt. 

En við látum það alveg eiga sig hér. Það sem hér fer á eftir er að nokkru endurtekið efni eldri hungurdiska - árstíðasveiflu landsmeðalhitans á árunum 1949 til 2014 og skýringarmynd af henni.

w-blogg150115a

Lárétti ásinn sýnir 18 mánuði - til þess að vetur og sumar í heild sjáist í samfellu. Lóðrétti ásinn er meðalhitinn. Kaldasti dagurinn á landinu á þessu tímabili er að meðaltali 18. janúar - þó er sáralítill munur á honum og 19. desember - það eru einhver endurtekin sólstöðukuldaköst sem eru að stríða strauvélinni. Raunar virðist 18. janúar frekar undantekning í sínu umhverfi - dagarnir fyrir og eftir hann eru hlýrri heldur en sólstöðurnar. 

Sé spurningu varpað fram um hvaða dag meðallágmarkshiti er lægstur á landinu á þessu tímabili - er svarið 19. desember og talan er -4,96 stig. En meðal-lægsta-lágmark landsins (segjum þetta hægt) er lægst á aðfangadag, 24. desember, -12,2 stig. 

Við hljótum að eiga eitthvað inni af hlýjum jólum - nú eða meiri kulda í janúar og febrúar. 

Morgunhitinn í Stykkishólmi er til á lager aftur til 1. nóvember 1845. Hvernig skyldi árstíðasveifla hans líta út - hvaða dagur er kaldastur á þessu 169 ára langa tímabili?

w-blogg15015b

Hér virðist strauvélin virka heldur betur -. Að meðaltali er það 25. febrúar sem á kaldasta morgun Stykkishólms, -2,18 stig, en 5. febrúar er skammt undan (reyndar alveg jafn) en talan heitir -2,17 stig. Á milli þessara dagsetninga er hlýrri toppur, þar er 17. febrúar hæstur með -0,63 stig, það munar nærri 1,5 stigum á meðalhita - þrátt fyrir að árin séu nærri 170.

Hver skyldi kaldasti dagurinn verða ef við hefðum mælingar frá landnámi?

Í afgangspistli (síðar) er ætlunin að fjalla um hver er oftast kaldasti dagur vetrarins - (það hlýtur að vera tilviljun) og minnast aðeins á kaldasta dag ársins og kaldasta dag vetrarins. Hvernig skyldi því víkja við?


Almenn staða á norðurhveli

Nú hefur það gerst að slitna er í sundur á milli Kanadakuldapollsins mikla, sem við köllum Stóra-Bola og afkvæmis hans á Atlantshafi norðaustanverðu. Að vísu sendir hann enn eina kraftlægðina í átt til Bretlands á morgun. Við lítum á almenna stöðu síðdegis á fimmtudag.

w-blogg140115a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar en þykktin er að vanda sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Íslend er neðan við miðja mynd. Við sjáum allt austur á Persaflóa þar sem handboltakeppnin er að hefjast. Þar er sumarhiti, þykktin í 5640 metrum eða svo - en nokkuð snörp háloftalægð er yfir Sýrlandi. 

En Stóri-Boli hefur nú loks kólnað niður í venjulegt vetrarlágmark - kringum hann eru fjórir fjólubláir litir, sá dekksti sýnir þykkt undir 4740 metrum - einhvern tíma var það kölluð „ísaldarþykktin“ hér á hungurdiskum. Kuldi sem þessi er sjaldnast stöðugur á kortinu - þótt hávetur sé. Hann birtist og hverfur á víxl. Þetta er þó ekki lægsta „hugsanleg“ þykkt, dekksti fjólublái liturinn nær yfir bilið frá 4680 metrum upp í 4740 metra. Lægri tala en 4680 sést ekki á hverju ári - og þá frekar yfir Austur-Síberíu heldur en Kanadamegin. Á þessu korti kæmi hún fram sem hvítur blettur.Við bíðum eftir honum. 

Síberíumegin er ástandið frekar tætingslegt - það er ekki nóg til af köldu lofti til að hreinsa heimskautasvæðið. Við sjáum þar tvær (ræfilslegar) hæðir. Sú við Norður-Grænland kom við sögu í pistli fyrir nokkrum dögum og hindrar enn kuldaframrás suður með Grænlandi austanverðu (þökkum fyrir það). Hún tengist líka hæðarhrygg á Grænlandshafi - minni fyrirstaða ætti að vera í honum en samt skilur hann á milli lægðarhringrásar á okkar svæði og aðalkuldans í vestri. Háloftaáttin er hér norðlæg en ekki vestlæg - en ekki tiltakanlega köld. 

Þessi einkakuldapollur okkar er alls ekki svo kaldur - sjórinn er búinn að hita hann í marga daga og hafa þeir sem fylgjast með gervihnattamyndum séð þétta éljaflóka sem fylgja köldu lofti yfir hlýrri sjó þekja mestallt hafsvæðið kringum Ísland og fyrir sunnan land. 

Þegar þetta kort gildir (kl. 18 á fimmtudag) er dálítil lægð (sem við höfum minnst á áður) að nálgast landið úr norðaustri - enn er ekki orðið til samkomulag um það hvort illviðri verður úr hér á landi eða ekki og ekki heldur hver hitinn samfara veðrinu verður. 

En framhaldið? Ekki gott að segja - en sumar spár segja að hæðin auma við Norður-Grænland styrkist aftur með smáhjálp úr suðri og hlífi okkur þar með áfram fyrir versta atgangi kuldans úr vestri. Það væri þá svipað og gerðist í fyrra - en ábyggilega verða einhverjar nýjar lausnir fundnar á málinu. 


Í norðaustanátt

Veður er aldrei alveg tíðindalaust - og í þetta sinn ekki heldur, en samt hlutfallslega tíðindaminna heldur en að undanfarna daga. Við notum því tækifærið til að líta á óvenjulegt veðurkort (nóg er af þeim).

Heildregnu línurnar sýna reyndar sjávarmálsþrýstinginn - langlífasta veðurþátt veðurkortasögunnar (og ekki að ástæðulausu), svo má einnig sjá hefðbundnar vindörvar í 700 hPa-fletinum. Sá flötur er á seinni árum ekki mikið uppi á borðum hérlendis - en lifir enn góðu lífi í daglegum störfum veðurfræðinga þar sem skúra- og éljagarðar ráða illviðrum - svosem víða í Ameríku.

Litirnir eiga einnig við 700 hPa-flötinn og sýna upp- og niðurstreymi.

w-blogg130115a

Kortið gildir kl. 15 þriðjudaginn 13. janúar. Til upplýsingar er hér settur inn skýringartexti beint úr handriti ritstjórans að hinu merka riti Kortafyllerí (ritstjórinn er sem kunnugt er stöðugt á slíku fylleríi og búinn að vera það síðan haustið 1961):

„Litakvarði sýnir lóðrétta hreyfingu lofts. Mínustölur (bláar) tákna uppstreymi, en gult, brúnt og rautt sýnir niðurstreymi. Mælieiningin er Paskal á sekúndu. Talan 10 er ekki fjarri uppstreymishraðanum 1 m/s.

Lóðréttar hreyfingar stafa ýmist af áhrifum fjalla eða það á sér stað sökum úrstreymis ofan uppstreymisins (eða ístreymis neðan þess). Uppstreymi er áveðurs fjalla, en niðurstreymi hlémegin. Sé stöðugleiki loftsins „hagstæður“ getur lóðrétt bylgjuhreyfing haldið áfram langt handan fjallgarðs.

Í neðsta hluta veðrahvolfs er streymi við eða yfir fjöll aðalástæða lóðréttra hreyfinga. Í lægðakerfum er ístreymi talið ríkjandi í neðstu lögum (negatívt úrstreymi) en úrstreymi efst í kerfinu. Einhvers staðar á milli sé úrstreymið því núll.

Í raun og veru er um mikla einföldun að ræða en hún veldur því samt að algengt er að setja upplýsingar um (reiknað) uppstreymi á 700 hPa kort (í um 3 km hæð yfir sjávarmáli). Eftir því er farið hér. Stundum er talað um uppstreymi sem lóðréttan vind. Sé það gert er mælieiningin m/s eða jafnvel cm/s. Hreyfing upp á við er þá jákvæð. Einnig er algengt að reikna hversu lengi loft er á leið upp frá einum þrýstifleti til annars – uppstreymið er þá í átt til lægri þrýstings og þar með ber það með sér mínusmerki. Hér er auðvelt að ruglast í ríminu.“

Á kortinu að ofan eru fjallaáhrif mjög áberandi bæði yfir Íslandi sem og Norðaustur- Grænlandi. Flestar löngu og mjóu dökkbláu línurnar (sem ekki tengjast fjöllum) á kortinu tengjast éljagörðum.

Á þessu korti má sjá báðar lægðirnar sem fjallað var í pistli gærdagsins. Önnur er enn fyrir sunnan land (tvær miðjur merktar á kortið) en hin er lengst uppi í hægra horni - enn um 948 hPa í miðju. Sú lægð hreyfist næst til vesturs og til suðvesturs í átt til Íslands - en grynnist jafnframt. Ekki er enn ljóst hvort illviðri fylgir henni hér á landi á fimmtudaginn (15. janúar). 


Hlý lægð - og önnur ekki svo hlý

Spákort morgundagsins sýnir tvær lægðir sem hafast ólíkt að. Önnur er í æði við Færeyjar, en hin í rólegheitum sunnan við land. 

w-blogg120115a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar, hæð, vind og hita í 500 hPa-fletinum um hádegi á morgun (mánudaginn 12. janúar). Flöturinn er nálægt 5 km yfir sjávarmáli. Ísland er nærri miðri mynd. Lægðin sem er fyrir sunnan land er mun kaldari heldur en sú við Færeyjar. Litirnir sýna hitann. Hann er hæstur um -27 stig norður af Færeyjum - ljósari blái liturinn í lægðinni fyrir sunnan land sýnir hita á bilinu -36 til -38 stig. Fjólublái liturinn neðst á kortinu (og yfir Grænlandsjökli) sýnir meir en -42 stiga frost - og aðeins sést í -44 stig í neðra horni til vinstri. 

Nú kemur erfiður kafli (þrjár málsgreinar) sem hraðlæsir ættu bara að sleppa. 

Við sjávarmál er Færeyjalægðin um 940 hPa við sjávarmál - en í hinni er þrýstingur í miðju í kringum 960 hPa. Það munar 20 hPa (160 metrar). Í miðri Færeyjalægðinni er hæð 500 hPa-flatarins ekki nema 4830 metrar - en um 4850 í kaldari lægðinni - ekki munar nema 20 metrum - sem skilar sér ekki nema í 2 til 3 hPa við sjávarmál. Við skulum ekki þvæla málið frekar - en ákafir lesendur geta reynt að skýra dýptarmuninn með hlýrri kjarna í Færeyjalægðinni og fengið út svar - [hver var spurningin annars]?

Hlýr kjarni í lægð bætir í vind í neðri lögum (og þar með við sjávarmál) miðað við vindinn í 500 hPa þá er vindur því meiri neðar - hér mun hann vera mestur í kringum 850 hPa - um 50 m/s í Færeyjalægðinni. Í 500 hPa er hann mestur um 30 m/s. Hlýi kjarninn bætir við um 20 m/s. Lágröst verður til. 

Þótt hitasviðið sé flatneskjulegt í kaldari lægðinni er samt nokkru kaldara sunnan við hana heldur en er næst lægðarmiðjunni, það munar um 6 stigum. Það má því segja að þessi lægð búi líka yfir hlýjum kjarna - alla vega miðað við það sem sunnar er. Það sést ekki mjög vel á myndinni (nema rýna í hana) að mestur vindur sunnan við þessa lægð er rúmlega 20 m/s - í 850 hPa er hann hins vegar um 35 m/s. Hér er sum sé líka lágröst á ferðinni, hitamunurinn bætir í vindinn. 

Vindur 100 m yfir sjávarmáli er sýndur á næsta korti - það gildir á sama tíma og hið fyrra - um hádegi á mánudag (12. janúar).

w-blogg120115b

Litirnir sýna vindhraðann, en örvar stefnu hans. Hér sjást báðar rastirnar vel, sú sem er fyrir sunnan Færeyjalægðina er öflugri þar er vindur í 100 metra hæð yfir sjó um 38 m/s þar sem mest er. Vonandi að Færeyingar hafi sloppið við hana og vonandi að hún fari framhjá Vestur-Noregi líka. 

Í hinni röstinni - suður af kaldari lægðinni er vindhraðinn mestur rúmlega 30 m/s. Tölur í litlum kössum sýna hviður.  

Nú, svo er þarna ein röst í viðbót - milli Grænlands og Íslands - ekki óvenjulegt það. Þar er vindur í 500 hPa mestur um 15 m/s, en er í 100 metra hæð yfir 30 m/s. Í þessari röst er vindur mestur í 925 hPa-fletinum, um 40 m/s.   

Svo er það síðasta kort dagsins. Það gildir enn á sama tíma, kl. 12 á hádegi mánudaginn 12. janúar. 

w-blogg120115c

Hér sést loks miklu stærra svæði. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, vindörvar vind í 700 hPa (já), en litirnir þykktarbreytingu síðustu 12 klst. Hér sést vel hvernig veðurkerfin hnika lofti til. Það aðallega Færeyjalægðin sem stendur í slíku - kuldaskilin eru yfir sunnanverðu Englandi - og kalt loft úr vestri sækir af afli til austurs fyrir sunnan lægðarmiðjuna. Það hefur kólnað um 270 metra (13 stig) síðustu 12 tíma í dekksta bláa litnum vestur af Skotlandi - yfir mjög hlýjum sjó svo éljagangurinn ætti að vera í góðum gír. Hin lægðin tekur þátt - en hvergi er hlýnandi í námunda við hana. 

Færeyjalægðin á nú að fara stóran hring um Noregshaf og grynnast - séu spár teknar trúanlegar kemur hún að landinu úr norðaustri á fimmtudaginn og veldur leiðindaveðri - en það er önnur saga - og efni í annan pistil ef að því kemur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 1129
  • Sl. viku: 2695
  • Frá upphafi: 2426552

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 2399
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband