Súðavíkurlægðin í janúar 1995

Nú eru 20 ár liðin frá mannskaðasnjóflóðinu á Súðavík. Illviðrið sem því olli kom illa fram í tölvuspám þess tíma - þótt allgóðar teldust. Síðari endurgreiningar vestanhafs og austan náðu því heldur ekki á fullnægjandi hátt. Það er loksins að sjá má lægðina miklu í fullri dýpt í nýjustu endurgreiningarafurð evrópureiknimiðstöðvarinnar, ERA-interim. 

Hvort og hvernig þessu veðri yrði spáð með reiknilíkönum og gervihnattaathugunum nútímans er ekki gott að segja, miklar skekkjur sjást enn í spánum. En ætli maður verði samt ekki að trúa því að nú gæfist að minnsta kosti sólarhringsfyrirvari - með heppni lengri tími. Við stríðum líka við það vandamál að spár nokkra daga fram í tímann taki of djúpt í árinni - og dæmisögunni um úlfinn og skreytna piltinn er oft veifað framan í veðurfræðinga - engum til gagns. 

Eitt er það svo að spá vondri hríð og síðan annað að spá stóru snjóflóði - jafnvel í ákveðinni hlíð. Snjóflóð geta komið rækilega á óvart þó veðurspáin sé rétt. Þekking á snjóflóðum hefur til allrar hamingju aukist að miklum mun í landinu á 20 árum - örfáir þekktu þá til snjóflóða svo gagn væri af - en nú eru þeir fjölmargir. En ekki má samt sofna á verðinum - fjöldi staða á landinu er enn án fullnægjandi varna og vetrarferðamennska vex hröðum skrefum. 

En lítum nú á þrjú veðurkort úr nýju safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Fyrst verður fyrir kort sem sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 6 að morgni mánudagsins 16. janúar 1995.

w-blogg170115c

Þarna er lægðin um 941 hPa í miðju - rétt fyrir norðan land. Þetta er mjög nærri raunveruleikanum. Það gæti vantað upp á að réttur hiti sé í neðstu 1500 metrunum yfir Vestfjörðum - úrkoma gæti líka verið vanmetin - það mætti líta betur á það. Veðurkortareyndir lesendur sjá auðvitað að hér fer foráttuveður - úrkoma var gríðarleg og það sem skipti miklu máli að úrkomuáttin var óvenjuleg.

Víða norðanlands setti niður mikla fönn á fjöll og heiðar í vestanátt, allt austur í Bárðardal -. Sömuleiðis fennti mikið í Borgarfirði, Dölum og Húnavatnssýslum - ritstjórinn var (rétt einu sinni) á ferð í blindhríð í Hvalfirði á sunndagskvöld - einmitt þegar lægðin dýpkaði hvað örast. Leist honum lítt á blikuna -. 

Metvindur var á Hveravöllum - af vestnorðvestri, átt sem varla er til á vindrós stöðvarinnar. Íslandsmet í vindhraða var slegið á Gagnheiði. 

Á Vestfjörðum var fárviðrisáttin rétt vestan við norður - ekki norðaustanátt eins og þar er miklu algengara. Í næsta aðdraganda veðursins hafði snjóað mikið í fremur hægum vindi og safnast ofan við fjallabrúnir, þegar fárviðrið skall á hreinsaðist snjórinn ofan í gil og kletta - og lenti á óvenjulegum stöðum vegna vindáttarinnar. 

Síðan hélt fárviðrið velli á Vestfjörðum í rúma þrjá sólarhringa til viðbótar - því ný lægð endurnýjaði þá gömlu. 

Næsta kort sýnir háloftastöðuna sólarhring fyrr, kl. 6 að morgni sunnudags. 

w-blogg170115d

Kuldapollurinn mikli, sem við köllum Stóra-Bola er mættur alveg inn á Grænlandshaf og teygir sig langt til suðurs eftir hlýju og röku lofti í stefnumótið örlagaríka. Eitt einkenni hættulegra veðra er mikið frost í stinningsvindi eða hvassviðri við lágan loftþrýsting - sérstaklega ef vindur stendur jafnframt af hafi. Að kveikja á þeim aðvörunarljósum í tíma reynist hins vegar erfitt.

Á kortinu sést breið og mikil bylgja af hlýju lofti fyrir sunnan land - það er mjög riðið sem við köllum svo, jafnhæðar- og jafnþykktarlínur skerast á mynda þétta möskva eins og net -. Þetta er óskastaða til ofsadýpkunar. 

Síðasta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting á sama tíma, kl. 6 að morgni 15. janúar 1995, sólarhring áður en Súðavíkurlægðin náði dýpstu stöðu.

w-blogg170115e

Hér er lægðin rétt að myndast sunnan við land. Kuldalægðin situr á Grænlandshafi. Örin sem sett er á kortið sýnir þá stefnu sem tölvuspár gerðu ráð fyrir að lægðin tæki. Hún átti að fara hjá fyrir austan land, tiltölulega átakalítið. En svo fór ekki, heldur hreyfðist hún til norðnorðausturs - nokkurn veginn yfir Vatnajökul - aflagaðist nokkuð við það - en sló sér síðan niður yfir Norðurlandi austanverðu og endaði loks vestur yfir Húnaflóa. 

Dæmi eru um allmargar lægðir af svipuðum uppruna sem fóru svipaða leið. Þessi er samt minnisstæðust og snörpust. Mikill svipur var með þeim systrum Súðavíkurlægðinni og þeirri sem kennd er við snjóflóðið Flateyri í október sama ár (1995). Sú síðarnefnda hafði þó ekki eins snarpan aðdraganda og meginvindátt var hefðbundnari norðan- og norðaustanátt. Reiknilíkön náðu henni talsvert betur - þó ekki nóg.

Októbermánuður er líka mun ólíklegri til stórra snjóflóða heldur en janúar. Þó hafði enn mjög svipað veður í október 1934 valdið mannsköðum í snjóflóði í Önundarfirði. 

Veður sem þessi liggja auðvitað mörg í leyni í framtíðinni - og örugglega enn verri - aðeins spurning hversu lengi þurfi að bíða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 41
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 532
  • Frá upphafi: 2343294

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 484
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband