Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Norðanátt í vændum?

Óðalægðaskeiðinu á N-Atlantshafi er ekki alveg lokið - en svo virðist þó sem vindur ætli að halla sér til hefðbundinnar norðanáttar hér á landi. Seinni lægðin sem fjallað var um í pistli hungurdiska í gær (fimmtudag) á að valda illviðri í Vestur-Noregi á morgun (laugardag 10. janúar). Norska veðurstofan gefur helstu illviðrum nöfn - þetta heitir Nína og kemur ekki beint við sögu hér á landi. 

Við erum enn undir áhrifum lægðar sem er að grynnast fyrir vestan land - hún að grynnast enn frekar og fara austur suður af landinu á morgun, laugardag. Síðan á ný lægð að nálgast á sunnudag en nú ber svo við að hún virðist frekar saklaus í spám - miðað við atganginn að undanförnu. 

Vissara er hins vegar að fylgjast með lægð sem kemur í kjölfar hennar en sú á að fara til norðausturs fyrir suðaustan land og dýpkar væntanlega mikið. Í kjölfar hennar gengur í ákveðna norðanátt hér á landi og sér vart fyrir endann á henni í lengri spám. Munum þó að spár hafa reynst vægast sagt ótryggar upp á síðkastið. 

Mjög hefur dregið úr æði heimskautarastarinnar og á kortinu hér að neðan er litarhaft hennar aftur orðið „eðlilegt“.

w-blogg100115a

Kortið gildir um hádegi á sunnudag og sýnir hæð og vind í 300 hPa fletinum. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en vindhraði jafnframt í lit. Heimskautaröstin hlykkjast eins og ormur yfir kortið þvert - en fyrir sunnan land. 

Sunnudagslægðin getur ekki dýpkað ofan á hæðarkryppunni fyrir sunnan land - en aftur á móti eru mun meiri möguleikar austan megin í lægðardraginu austur af Nýfundnalandi og þar á næsta stórlægð uppruna sinn. Eins og áður sagði eru nú líkur á því að hún fari fyrir suðaustan land (en við skulum samt ekki alveg útiloka annað fyrr en slík verður raunin). Evrópureiknimiðstöðin nefnir 938 hPa við Færeyjar um hádegi á mánudag (hlutirnir gerast hratt). Ætli bætist þá ekki enn við á nafnalista Norðmanna?

Í kjölfar lægðarinnar á röstin að fara í heldur suðlægari stöðu - sem slær á breytileikann hjá okkur. Annars skulum við líka veita athygli austlægum háloftavindum við Norðaustur-Grænland - alveg efst á kortinu. Þar norður af er háloftahæð - ekki stór um sig en skiptir samt máli. 

Hún sést vel á kortinu að neðan.

w-blogg100115b

Kortið sýnir norðurskautssvæðið, Ísland er alveg neðst, en norðurskautið rétt ofan við miðju. Heildregnar líkur sýna hæð 500 hPa-flatarins en litirnir sýna hér þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kortið er úr reiknimiðstöð bandarísku veðurstofunnar og gildir á sama tíma og fyrra kortið, um hádegi á sunnudag (11. janúar).

Hér sjáum við aðallega kulda - eins og vera ber á norðurslóðum um miðjan vetur. Kuldapollarnir stóru, þann Kanadamegin höfum við kallað Stóra-Bola - en þann á austurhveli Síberíu-Blesa. Á milli þeirra má sjá þriðja pollinn, hann er reyndar gjöf að austan til Stóra-Bola - en verður að fara í sveig í kringum dálitla hæð við Norðaustur-Grænland.

Þetta er ekki mikil hæð - en þvælist fyrir kalda loftinu - hún eyðist (vegna útgeislunarkólnunar) ef hún er kyrr nógu lengi - en annars er hún nærri því ódrepandi - það þarf hlýjan hrygg að sunnan til að veiða hana og draga á brott.

Alla vega virðist sem hæðin verði þarna fram undir næstu helgi. Hún kemur okkur óbeint að gagni - bæði hindrar hún aðsókn stóru kuldapollanna meðan hún er á þessum stað og auk þess þvælist hún fyrir háloftalægðunum suður af - vonandi þannig að verstu átök tengd röstinni haldist fyrir sunnan og austan land. 

Norðanáttin ætti því ekki að verða mjög köld (komi hún) fyrr en vel er liðið á næstu viku.


Fárviðri vestur af Skotlandi

Í kvöld (fimmtudaginn 8. janúar) er sérlega kröpp lægð á leið til austnorðausturs vestur af Skotlandi. Á myndinni hér að neðan er hún sennilega upp á sitt besta, þurra loftið að ofan um það bil að hringa lægðarmiðjuna.

w-blogg090115a

Lægðin dýpkaði gríðarlega á stuttum tíma nú síðdegis, evrópureiknimiðstöðin giskaði á 15 hPa milli kl. 12 og 18. Illa horfir um stund fyrir íbúum Norður-Skotlands, Orkneyja og Hjaltlandseyja, en fárviðrið á að verða furðuskammlíft - heimskautaröstin sem fóstraði lægðina mun kremja hana á örskotsstund aftur. Þannig að það allra versta gæti verið afstaðið þegar lægðin strýkst við Skotland og dottið niður í venjulegt hvassviðri eða storm þegar til Noregs og Norðursjávar er komið.

En þeim sem eitthvað eiga undir veðri á þessum slóðum er samt ómótt því spár eru bara spár og illt að fullyrða um réttmæti þeirra fyrr en reynslan hefur sýnt svart á hvítu hvað úr verður. Veðurstofur á svæðinu hafa allan vara á. 

Önnur lægð fylgir síðan í kjölfarið. Hún á þó að fara aðeins norðar en sú fyrri og ekki ná sér alveg eins vel á strik. Við sjáum hana á kortinu hér að neðan.

w-blogg090115b

Við höfum nokkrum sinnum litið á svona kort áður (en fæstir muna það). Mikið litafyllerí virðist á ferðinni - en allt er nú samt á sínum stað. Kortið sýnir það svæði á Atlantshafi sem við oftast horfum á, Ísland er rétt ofan við miðja mynd í dökkbrúnu klessunni miðri.

Ofan í litunum má greina venjulegt sjávarmálsþrýstikort, en af litununum má greina afstöðu veðrahvarfanna og raka í lægri lögum veðrahvolfsins (höfum ekki áhyggjur af því) - en lægðin nýja er hér vestan Skotlands - nærri því á sama stað og fyrri lægð var nú síðdegis. Við sjáum vel hlýjan geira hannar sem rauðlitað svæði suður og suðaustur af lægðarmiðjunni. 

Norðan við lægðina er lína þar sem snögglega skiptir á milli lita - þar er brot í veðrahvörfunum, þau liggja þar nánast lóðrétt - eða að þau ganga inn undir sig sjálf. Þar er nægur máttur til að hleypa skyndidýpkun í lægðina - ef hún kemst þangað.

Stefnumót lægðarinnar í dag, hlýja loftsins og veðrahvarfabrotsins gekk sérlega vel upp - ofurdýpkun varð staðreynd - enn sjá má leifar hennar við Vestur-Noreg á kortinu - jú, talsverður vindur í Danmörku og við strönd Noregs - en gengur fljótt hjá og hjaðnar.

Lægðinni á kortinu á að takast að ná brotinu - þá fer loftþrýstingur í lægðarmiðjunni að hrapa. Hér er hún 980 hPa djúp - en reiknimiðstöðin segir hana komna niður í 945 hPa innan við sólarhring síðar - þá úti af Firðafylki í Noregi - norska veðurstofan er óróleg, við látum hana segja beint frá á nýnorsku:

Fortsatt auka overvaking - met.no

„Fredag kan det verte vestleg full storm på 25 m/s i Hordaland, Rogaland og i Vest-Agder, med vindkast på 30 til 35 m/s. Laurdag er det venta vestleg sterk storm 30 m/s, kan hende orkan 33 m/s, med vindkast på 35 til 45 m/s på Vestlandet og i Vest-Agder. Både fredag og laurdag er det venta høge bølger inn mot kysten. Laurdag og natt til søndag er det fare for ekstremt høg vasstand“.

Ísland situr í rólegri háloftalægð meðan á þessu stendur - brúni liturinn táknar mjög óstöðugt loft - en að vetrarlagi er lítið tilefni til uppstreymis yfir landi. Talsverðir éljagarðar geta þó borist inn á land standi vindur af hafi og sömuleiðis geta myndast smálægðir sem bera með sér strekkingsvind og snjókomu. 

 


Líka í heiðhvolfinu

Veðurfar er um þessar mundir ekki aðeins stórgert í veðrahvolfinu heldur uppi í heiðhvolfi líka. Lægðin mikla sem ríkir þar á þessum tíma árs leikur öll á reiðiskjálfi ef svo má segja - ástæðan er sú að öldugangurinn í veðrahvolfinu togar í. Ekki hefur þó enn komið til þess að lægðin hafi alveg dottið í sundur eins og stundum gerist. Rétt er að taka fram að ástand þetta er alls ekki einstakt heldur fremur hluti af hefðbundinni - en misjafnri - flugeldasýningu vetrarins.

Textinn hér að neðan er trúlega inni á nördasvæðinu - frekar en á áhugasviði hins almenna lesanda - en ritstjóri hungurdiska er ekki háður auglýsingatekjum eins og margir aðrir kollegar hans og getur því leyft sér að vera með leiðinlegt efni að vild (jæja - er það bara svona).

Við lítum fyrst á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 30 hPa-flatarins auk vinds og hita í fletinum. Flöturinn er nú í um 23 km hæð yfir sjávarmáli. Kortið er litabólgið þannig að örstutta stund tekur að átta sig á því - en reynum það.

w-blogg080115a

Kortið sýnir Norður-Atlantshaf - sama svæði og við oftast skoðum. Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en Spánn neðst til vinstri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - og hæðin tilfærð í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum - á miðju kortinu eru víða tveir fánar á örvunum - hver fáni er táknar 25 m/s.

Litirnir sýna hita í fletinum. Þar er alls staðar frost - á hvítu blettunum sem sprengja litakvarðann er það minna en -30 stig. Það telst mjög hlýtt í 23 km hæð hlýtt er umhverfis á stóru svæði.

Á kortum sem sýna hitafar í veðrahvolfinu er ástæða vetrarhlýinda annað hvort sú að loft frá suðlægari slóðum streymi inn á svæðið - eða að niðurstreymi sé mikið. Í 23 km hæð er ekki um það að ræða að -30 stiga hlýtt loft komi að sunnan - þessi hlýindi eru einfaldlega þau mestu á öllu norðurhveli um þessar mundir. Þá hlýtur ástæðan að vera mikið niðurstreymi - mættishiti vex (nær) alltaf upp á við - að draga loft niður í flöt að ofan hækkar hita í honum. 

Þar sem hitinn er mestur er því nær örugglega mikið niðurstreymi - hvers vegna? Ástæðan ætti að sjást vel á næsta korti - það er nærri því það sama og við litum á í fyrradag, 300 hPa kort sem sýnir heimskautaröstina í miklum ham suður í hafi. 

w-blogg080115b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - hér erum við í um 9 km hæð. Vindörvar hefðbundnar, en litafletirnir sýna vindhraða. Fallegan kjarna (skotvind) í heimskautaröstinni norðan í breiðum bylgjuhrygg sem hreyfist allhratt austur (þó miklu hægar en vindurinn). Austurhreyfing hryggjar og rastar dregur niður loft á eftir sér og ef við berum saman myndirnar sést að hitahámarkið í 30 hPa er einmitt norðvestur af þeim stað þar sem 300 hPa vindurinn er mestur. Vonandi átta lesendur sig á þessu.

En það er nokkuð langt frá 9 km upp í 23 km og þar á milli eigum við kort af 100 hPa-fletinum - en sleppum því hér. Þar má líka sjá hitahámark - en er nærri beint yfir rastarkjarnanum en ekki til hliðar við hann. Við látum ástæður þess liggja á milli hluta hér.

En þessi mikli niðurdráttur á lofti norðvestan við röstina aflagar allt þrýstisvið 30 hPa flatarins - heiðhvolfslægin er því langt frá hefðbundinni hringlögun sinni. Þetta sést vel á kortinu að neðan - en það er úr líkani bandarísku veðurstofunnar og gildir á sama tíma og kortin að ofan - athugið að litakvarðinn er hér allt annar en á hinu 30 hPa-kortinu.

w-blogg080115c

Hitahámarkið í bandaríska líkaninu er svipað og hjá evrópureiknimiðstöðinni. Hringrásin er mjög úr lagi gengin. Við vitum ekki hvort hún brotnar alveg niður á næstunni - því er ekki spáð. Ástæða kulda í heiðhvolfinu á þessum tíma árs er fyrst og fremst neikvæður geislunarbúskapur. Sólin sem venjulega hitar ósonsameindir (sem síðan rekast á aðrar) sést nema rétt norður fyrir heimskautsbaug og þar er stöðugt varmatap (sem blöndun að sunnan vinnur eitthvað á móti. 

Um jólaleytið fór hiti í 30 hPa-fletinum niður fyrir -84 stig í lægðinni miðri - en lægsta tala á þessu korti er um -78 (á að giska). Lægðin er líka þó nokkuð grynnri en var þá. Eins og áður er getið er þessi heiðhvolfsóróleiki orðin til vegna mikils öldugangs í veðrahvolfinu - en ekki öfugt. Brotni heiðhvolfslægðin hins vegar niður - vilja áhrif af því smám saman skila sér niður í veðrahvolf - en við erum ekkert að velta okkur upp úr því í bili - höfum reyndar gert það áður eins og (mjög) þrautseigir geta staðfest með lestri á gömlum hungurdiskapistlum.


Enn í kanadakulda

Aðalatriði veðurlagsins breytast lítið þessa dagana. Stórar lægðir - nú eða þá krappar ganga hratt til austurs og norðausturs um Atlantshaf - hver þeirra með sínum sérkennum, en aðalleið þeirra svipuð. Helst er þó að öllu stærri hluti kerfanna fari til austurs fyrir sunnan land næstu vikuna heldur en þá liðnu. 

w-blogg070115a

Í fljótu bragði er 10-daga spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar nánast eins og fyrir viku. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Munur er þó á kortunum. Fyrir viku var það 5160 metra jafnhæðarlínan sem lá yfir miðju Íslandi frá suðvestri til norðausturs. Nú er það 4950 metra línan sem liggur á svipuðum stað og hin gerði. Þetta er mikill munur [310 metrar] - svo er líka áberandi meiri lægðarbeygja á línunum heldur en var. Hvorugt skiptir miklu máli á þessum árstíma - fyrir ásýnd veðursins.

Jafnþykktarlínurnar eru strikaðar á kortinu. Fyrir viku var þykktin yfir miðju landinu um 5240 metrar en er hér um 5190 metrar - fellur um 50 metra milli spátímabila. Það þýðir - eitt og sér - að tíu daga spáin nú er um -2,5 stigum kaldari heldur en var þá. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010 og er vikið yfir Íslandi nú um -50 metrar - en var innan við -10 metrar fyrir viku. Hita er því spáð neðan meðallags næstu tíu daga - að meðaltali. Loft sem komið er frá Kanada og hefur farið fyrir sunnan Grænland er alltaf mjög óstöðugt þegar hingað er komið - éljagangur viðloðandi - það er því tiltölulega hlýtt neðst - miðað við loftið ofar - og þykktin ýkir því neikvæð vik frekar en hitt. 

Enn er það gríðarlegur kuldi í Kanada [þykktarvikið er tæpir -180 metrar þar sem mest er] og vestanáttin austur af honum sem ræður mestu um ásýnd vikakortsins. 

Að þykktin falli um 50 metra þegar hæðin fellur um 310 þýðir að loftþrýstingur við sjávarmál er spáð um 260 metrum að jafngildi lægri að meðaltali heldur en í spánni fyrir viku síðan. Það reiknast sem rúmlega 32 hPa munur. Loftþrýstingi er sum sé spáð miklu lægri heldur en var fyrir viku - enda á þrýstivikið að vera meira en -25 hPa næstu tíu daga. Það verður að teljast harla óvenjulegt (en er ekki einsdæmi). 

Lægðin sem nú er við landið er dýpri en 940 hPa (við sjáum á morgun, miðvikudag, hvort þrýstingur hér á landi fer niður fyrir það). Lægð sem spáð er hingað til lands þegar líður á helgina á að verða ámóta djúp. 

Þrátt fyrir þennan lágþrýsting allan sleppum við tiltölulega vel frá þessu (enn sem komið er). Þetta risaþrýstivik veldur gríðarsterkri vestanátt á öllu svæðinu frá Kanada austur um Bretlandseyjar. Á þeirri leið geta myndast mjög krappar lægðir - sem við vonandi sleppum við - en Vestur-Evrópa er í stöðugri skotlínu. Reiknimiðstöðvar eru óskaplega reikandi varðandi þróun þessara minni lægða - ýmist er ekkert gert úr - eða þá að spáð er ofsaveðri á þeim slóðum. Hryggurinn sem verndað hefur Evrópu fyrir ásókn vestanlofsins virðist nú vera að brotna niður - og menn krossleggja fingur. 

Í janúar í fyrra var líka kuldastroka frá Kanada austur um Atlantshaf - en þá var þrýstivikið mest um 10 gráðum sunnar en nú er - og austanátt var ríkjandi hér á landi. 


Meira af stórgerðu veðurlagi

Lægðir gerast nú djúpar. Það getur varla talist óvenjulegt að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 940 hPa á Atlantshafi - en ár og síð líður oft á milli þess að svo lágur þrýstingur mælist hér á landi. Nú er möguleiki á að það gerist í fyrsta skipti síðan 1999. Reyndar hafs spár að undanförnu gert lægðir ívið dýpri heldur en svo raunin verður og frekar trúlegt að svo fari einnig nú - en höldum samt augunum opnum og fylgjumst með.

Lægðin sem um er að ræða er nú að dýpka við Nýfundnaland - fer til norðausturs. Skilakerfi hennar á að fara hraðar en lægðarmiðjan (eins og algengt er þegar lægðir ná ákveðnum þroska) og gerir hér landsynningsrudda annað kvöld (þriðjudag 6. janúar). Meginbakinn fer hratt hjá og á eftir fylgir mun betra veður en síðan á vindur að vaxa af útsuðri þegar sjálf lægðarmiðjan nálgast undir morgun á miðvikudag.

Spurningin er hversu vel reiknimiðstöðvar ná þessari lægðarmiðju - tillaga evrópureiknimiðstöðvarinnar er hér að neðan, spá sem gildir á hádegi miðvikudags.

w-blogg060115a

Reiknimiðstöðin telur að lægðin verði um 937 hPa í miðju - skammt vestur af Snæfellsnesi. Vel má vera að þetta rætist - reiknimiðstöðin er býsna góð - en jafnlíklegt er að miðjan verði e.t.v. um 943 hPa. Rætist þessi spá fer þrýstingur rétt niður fyrir 940 hPa vestast á Snæfellsnesi og e.t.v. á Vestfjörðum litlu síðar. 

Eins og áður sagði væri það í fyrsta sinn síðan 1999 að þrýstingur færi niður fyrir 940 hPa hér á landi. Verði lægðin ekki svona djúp við Snæfellsnes gæti þrýstingur samt farið niður fyrir 945 hPa - en það er mun algengara, gerðist síðast í desember fyrir rúmum tveimur árum.

Þegar þrýstingur er svona lágur og suðvestanáttin svo stríð - jafnvel þótt ekki sé um nein met að ræða - er rétt að fylgjast mjög náið með sjávarstöðu - nærri stórstreymi. Fyrir 25 árum, þann 8. janúar 1990 mældist þrýstingur á Gufuskálum 937,4 hPa, morguninn eftir varð mikið sjávarflóð á Eyrarbakka og Stokkseyri (og víðar) svo ekki mun hafa komið meira síðan. Lægðina bar þá að vísu ekki alveg eins að og nú - hún fór hraðar og vindur í kjölfar hennar var hvassari en nú er spáð. 

Eins og sjá má er lægðin gríðarstór - nær um Atlantshafið þvert og sjór sunnan við hana mjög illur og úfinn. Ekki beinlínis hagstæður flutningum og fiskveiðum. 

En illindin eru ekki bara í sjó og við sjávarmál þessa dagana því háloftavindar eru gríðarsterkir. Í kjölfar þessarar lægðar á að rísa upp breiður hæðarhryggur í veðrahvolfi og á norðurjaðri hans nær heimskautaröstin styrk sem er frekar óvenjulegur á okkar breiddarstigi. Kortið hér að neðan sýnir þetta vel. Það er líka úr garði evrópureiknimiðstöðvarinnar en gildir á föstudaginn (þann 9. janúar) kl.06. 

w-blogg060115b

Hér er hæð 300 hPa-flatarins sýnd (heildregnar línur) - auk vindáttar og vindhraða sem sýnd eru með hefðbundnum vindörvum auk lita. Varla er það samt venjulegt sem við sjáum því flöggin á vindörvunum sem hvert um sig tákna 25 m/s (50 hnúta) eru fjögur á hverri ör þar sem mest er á hvíta svæðinu (litakvarðinn springur) og einar þrjár fanir til viðbótar. Vindurinn er meiri en 110 m/s. 

Við sjáum að hæðarbeygja er á lögun rastarkjarnans (skotvindarins), við eigum auðveldara með að líkja eftir beygjunni með vinstri hendi - bendi fingur í vindstefnuna. Þetta þýðir mikla ókyrrð lofti á jöðrum rastarinnar - en aftur á móti gríðarlegan eldsneytis- og tímasparnað í flugi ef tekst að finna ókyrrðarlítil svæði í meðvindi, hátt í 400 km/klst bætast við hraða flugvélar inni í hvíta svæðinu. En látum flugmenn og flugveðurfræðinga ráða úr því máli. 

Standi rétt á geta rastir sem þessi fóðrað gríðarlega og hraða lægðadýpkun - og ekki er útséð með það hvort þessari tekst það - en á þessu korti hefur hún ekki alveg rétta lögun gagnvart umhverfinu til að hún fullnýtist til slíkra verka. - En eins gott er fyrir veðurfræðinga að fylgjast náið með þróuninni. 

Þótt þessi vindhraði sé fremur óvenjulegur á okkar slóðum er hann algengari yfir Austur-Asíu þar sem meginvindröstunum tveimur, þeirri sem venjulega er kennd við heimskautið og þeirri sem kölluð er hlýtempruð slær saman á vetrum. Sú síðarnefnda er í fullum styrk ofar en 300 hPa - en þó nær hes hennar vel niður í 300 hPa. Kortið hér að neðan sýnir víðari sýn á rastirnar á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg060115c

Þetta kort nær um mestallt norðurhvel - þó ekki yfir svæði sameinaðra rasta í Austur-Asíu (þær eru reyndar aflminni en „okkar“ röst á þessum tíma). Heimskautaröstin hnyklar sig langt suður um Norður-Ameríku - gríðarlegur kuldi er þar undir sem lægðarbeygjan er mest (suðvestur af Hudsonflóa). Hes hvarfbaugsrastarinnar liggur yfir Norður-Afríku og austur til Himalayafjalla og rétt sést í sameinuðu rastirnar efst á kortinu. 

Sé kortið gaumgæft má sjá strikalínur hringa sig við Ísland. Þetta er hringrásin við sjávarmál (jafnþrýstilínur strikaðar - en aðeins sýndar þar sem þrýstingur er minni en 980 hPa).

Látum duga að sinni. 


Stórgert veðurlag

Mjög stórgert veðurlag er nú ríkjandi á Atlantshafi og reyndar báðum megin þess líka. Næsta stóra lægð er væntanleg hingað síðdegis á þriðjudag (6. janúar) og fleiri eru á biðlista. En spár eru mjög reikandi og breytast mikið frá degi til dags, jafnvel þær stuttu. Það er því e.t.v. fulllangt að líta til hádegis á miðvikudag - umfjöllun gæti orðið úrelt strax á morgun (mánudag) - en leyfum okkur það samt.

Hvað sem óvissu líður má samt segja að þetta veðurlag muni halda áfram meðan Kanadakuldapollurinn (sem við köllum oft Stóra-Bola) er að velta sér í skotstöðu. Fram á miðvikudag á kuldinn að mjakast suður í átt til Bandaríkjanna - eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Það sýnir spá amerísku veðurstofunnar um veður á hádegi (utc = okkar tími) á miðvikudaginn.

w-blogg050615a

Kortið sýnir alla Norður-Ameríku - Kúba er neðst til hægri og Alaska efst til vinstri. Efri jaðar til hægri snertir vesturströnd Íslands. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í flatarhæð (um 5 km). Hann blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Gríðarlegur kuldi er yfir vötnunum miklu og mikil kuldastroka langt suður um miðvesturríkin. Þykktin í miðju kuldans er minni en 4800 metrar - talað er um hugsanlegt nýtt lágmarksmet í Chicago (það mun vera um -23 stig). Aftur á móti er mjög hlýtt við vesturströnd álfunnar. Þykktin yfir Suður-Kaliforníu er meiri en 5640 metrar - jöfn því sem mest verður hér á landi um hásumar og yfir Kúbu er hún meiri en 5700 metrar. Munurinn er um 900 metrar.  

Á vesturjaðri kuldans er mikið háþrýstisvæði (við yfirborð) á hraðri leið til suðurs. Spár gefa til kynna að miðjuþrýstingur í því fari yfir 1055 hPa - sem er óvenjulegt í Bandaríkjunum - helst að slíkt mælist í Alaska og Kanada. Evrópureiknimiðstöðin teygði sig meira að segja upp í 1060 hPa - möguleikinn er fyrir hendi - en heldur ótrúlegur samt. Á sama tíma á lægðin sem verður í námunda við Ísland að vera í kringum 942 hPa í miðju - vantar ekki nema 2 hPa upp á 120 hPa mun. Við trúum því þó ekki fyrr en á er tekið.

Bylgjurnar sem kuldapollurinn vekur með heimskautaröstinni sveiflast austur um haf og allt til Evrópu. Hryggur þeirrar sem angraði okkur í dag (sunnudag) fór hratt til austurs og sama gerir hryggurinn á undan miðvikudagslægðinni. Sjá má báða þessa hryggi klessta saman á Evrópukortinu hér að neðan - en það gildir á sama tíma og það efra.

w-blogg050615b

Við sjáum þar græna fleyginn fyrir austan land - og svo næsta græna fleyg á undan. Þetta eru hryggirnir tveir. Þeir virðast stranda að nokkru á gríðarlegri kaldri bylgju yfir Austur-Evrópu. Það er mjög kalt í Rússlandi miðju - en ekki eins og vestanhafs. Kuldi sem þessi er ekki óvenjulegur í Rússlandi. Aftur á móti er óvenjulegt hvað kuldinn nær langt til suðurs - rætist þetta verður mikið frost á hásléttum Tyrklands og illviðri halda áfram suður á Miðjarðarhafi austanverðu. 

Spár sem ná lengra fram í tímann gera ráð fyrir því að vestanáttin yfir Atlantshafinu muni brjótast austur um - með miklum hlýindum um miðja álfuna - en jafnframt hættu á skammvinnum ofsaveðrum undir heimskautaröstinni. Langtímaspár verið að gera mikið úr styrk rastarinnar eftir miðja vikuna og vindhraða upp fyrir 110 m/s í skotvindi (kjarna) hennar. 

Allur þessi mikli öldugangur missir smám saman hlýtt loft upp í efri hluta veðrahvolfsins og norður fyrir meginatganginn - þar myndar þetta loft hæðarhringrás, veikar hæðir og hæðarhryggi sem flækjast um næsta tilviljanakennt - og gætu um síðir hjálpað til að róa veðrið á okkar slóðum. Mikill atgangur er líka í heiðhvolfinu þessa dagana - og þar hefur hlýnað mikið frá því sem var fyrir viku - en þó ekki nóg til þess að brjóta hringrásina þar niður.  


Sunnudagslægðasúpa

Eftir nokkra rólega daga virðist stefna aftur í ólguna. Nú (seint á laugardagskvöldi, 3. janúar) nálgast ný lægð - eða öllu heldur lægðasúpa sem ganga mun yfir landið á sunnudag og mánudag. Lægðin er mjög samsett - og telst eiginlega til tíðinda ráði reiknilíkönin alveg við hana. Enda hafa þau verið mjög flöktandi undanfarna daga. 

Við skulum hafa gervihnattamynd til hliðsjónar. Hitamynd sem tekin er kl.23:00 á laugardagskvöldi.

w-blogg040115a

Á hitamyndum eru köldustu svæði hvítust og sýna háský. Hér má sjá nokkrar hvítar skýjaræmur - sem marka miklar vindrastir í háloftunum. Þær sem merktar eru með tölustafnum 4 virðast vera víkjandi - aðalröstin liggur langt sunnan úr höfum nærri því beint í norður - en beygir snögglega til austurs fyrir sunnan land. Beygjan er á ákveðinni hreyfingu til norðurs. 

Nálægt tölustafnum 3 má sjá rof í háskýjahulunni - þetta er „þurra rifan“ svokallaða. Nærri miðju hennar er hvítleitur þríhyrningur. Sunnan við og í kring er niðurstreymi. Þessi form einkenna ört dýpkandi lægðir. 

Þarna sunnan við er skýjaflóki - ör sem merkt er með tölustafnum 1 bendir á hann. Tölvuspár og greiningar segja okkur að þarna sé að myndast lægðabylgja sem á að yfirtaka fyrri lægðina - það á víst að verða til þess að landsynningshvassviðrið sem kemur til landsins í nótt eða snemma í fyrramálið missir taktinn - hvenær, hvort og hvernig er ekki ljóst. Veðurfræðingar munu fylgjast rækilega með þróuninni á þessum slóðum næstu klukkustundirnar.   

Þegar þetta er skrifað - á að verða hlé á milli lægða einhvern tíma sunnudagsins - síðan skelli veður nýju lægðarinnar á undir kvöld. Eins og venjulega spá hungurdiskar engu um það - en hvetur til skoðunar á nýjustu fréttum af spám á vef Veðurstofunnar.

Nú - svo fer þessi lægð hjá - fer sem fer - en ekki alveg allt búið enn því í kringum þar sem talan 2 er á myndinni er mjög flókin skýjasúpa - samkvæmt nýjustu spám á kröpp lægð - orðin til úr henni að fara hér hjá á mánudag - nýjustu spár segja að aðalveðrið sem fylgir henni fari að mestu fyrir sunnan land - vonandi er það rétt. 


Miklar staðbundnar hitasveiflur

Í dag (föstudaginn 2. janúar) hagaði þannig til að éljaloft var úti fyrir ströndum landsins en víða bjart veður inni á landi. Í heiðríkju sem þessari mynduðust víða svæsin hitahvörf - þunnt lag af mjög köldu lofti sem svo streymir í átt til sjávar. Þar sem brattlent verða hitahvörfin óljósari - þyngdaraflið sér um að koma loftinu á skrið niður í móti og við það vill kuldinn blandast hlýrra lofti ofan við. 

Þar sem sléttur eru í landi og kalt loft yfir þeim er á leið til sjávar verður oft furðukalt - alveg niður að sjó. Þetta þekkja menn víða við suðurströndina, t.d. á Eyrarbakka, í Þykkvabæ og austur í Álftaveri, svo einhverjir staðir séu nefndir.

Um leið og þetta kalda loft kemur út yfir til þess að gera hlýjan sjó blandast loft neðan hitahvarfanna greiðlega upp og þau eyðast. Þegar þrýstifari er þannig hagað að þrýstivindur liggur nokkuð samsíða ströndinni geta minniháttar sveiflur í vindátt og styrk valdið miklum sveiflum í hita - stöðin er þá ýmist inni í sjávar- eða landlofti. 

Nokkuð bar á þessu vestanlands og sunnan í dag. Dæmi um þetta má sjá í viðhenginu - en það sýnir hita á Eyrarbakka á 10-mínútna fresti frá áramótum. Áhugasamir ættu að fara í gegnum það - fyrir utan hitann má gaumgæfa rakastigið - frekar óvænt gæti virst að rakastigið er hærra í kalda landloftinu heldur en því hlýja frá sjónum. 

Stöðug skipti milli 1 til 2 stiga hita og 6 til 8 stiga frosts eins og á Eyrarbakka í kvöld eru skemmtileg - en aðeins að vissu marki - því aldrei er að vita hvernig hálkan þróast við þessi skilyrði - og ísing á bílrúðum. Já, margt þarf að varast á vetri. 

Hitamyndin hér að neðan er af vef Veðurstofunnar. Það sem kaldast er (háreistir éljaklakkar) eru hvítastir en hlýjast er bútur af Nýja-Holuhrauni - kolsvartur. 

w-vefur-150102_2139

Miklar hitasveiflur urðu viðar en á Eyrarbakka - með þeim má fylgjast á vef Veðurstofunnar - bæði í tölum og á línuritum

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eitt hlýjasta ár frá upphafi mælinga

Eins og fram hefur komið á vef Veðurstofunnar (og fjasbókarsíðu hungurdiska) var árið 2014 í flokki þeirra allra hlýjustu. Það er í öðru sæti í Reykjavík og á Akureyri og á nokkrum stöðvum um landið norðan- og austanvert er það í fyrsta sæti (uppgjöri ekki alveg lokið). Á landinu í heild er það líka alveg við toppsæti. 

Lengsta samfellda mæliröðin sem við eigum er úr Stykkishólmi, þar hafa mælingar staðið nánast samfellt frá hausti 1845 til okkar daga. Með hjálp mælinga annars staðar á landinu hefur verið giskað á ársmeðalhitann þar allt aftur til 1798 -. Þótt sú framlenging hafi hlotið „blessun í ritrýndu tímariti“ er hún samt ekki eins áreiðanleg og mælingarnar á staðnum sjálfum - höfum það rækilega í huga. 

Meðalhiti ársins 2014 í Stykkishólmi er í 2. til 3. sæti á hlýindalista mæliskeiðsins alls. Endanleg tala er 5,33 stig. Meðalhiti ársins 2010 var 5,35 stig (reyndar 5,349 stig) og telst jafn hita ársins í ár - en árið 2003 var meðalhitinn 5,41 stig - sjónarmun hærri en nú. 

Við lítum á línurit sem sýnir þetta.

w-blogg-sth-arshiti

Lárétti kvarðinn sýnir árin, en sá lóðrétti ársmeðalhitann. Súlurnar sýna hita einstakra ára, en rauða línan sýnir 10-ára meðaltöl. Hlýskeið 21. aldar stendur enn og er greinilega hlýrra heldur en hlýskeiðið fyrir miðja 20. öld. Það er 1941 sem var hlýjast ára á því hlýskeiði í Stykkishólmi. 

Það sem einkennir núverandi hlýskeið - fyrir utan háan hita - er það hversu árin eru jafnhlý. Breytileikinn frá ári til árs nú er talsvert minni en hann hefur áður verið. 

Þegar litið er yfir tímabilið allt má greinilega sjá umtalsverða hlýnun, hún reiknast nærri 0,8 stig á öld. - Það fríar okkur þó ekki frá þeim næsta örugga möguleika að köld ár bíði okkar í framtíðinni - við getum ekki byggt spár á leitninni einni saman. Svo vill þó til að svo virðist sem skýra megi að minnsta kosti hluta hennar - með auknum gróðurhúsaáhrifum - hnattrænni hlýnun. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1100
  • Sl. sólarhring: 1109
  • Sl. viku: 3490
  • Frá upphafi: 2426522

Annað

  • Innlit í dag: 985
  • Innlit sl. viku: 3141
  • Gestir í dag: 952
  • IP-tölur í dag: 881

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband