Lægðir gerast nú djúpar. Það getur varla talist óvenjulegt að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður fyrir 940 hPa á Atlantshafi - en ár og síð líður oft á milli þess að svo lágur þrýstingur mælist hér á landi. Nú er möguleiki á að það gerist í fyrsta skipti síðan 1999. Reyndar hafs spár að undanförnu gert lægðir ívið dýpri heldur en svo raunin verður og frekar trúlegt að svo fari einnig nú - en höldum samt augunum opnum og fylgjumst með.
Lægðin sem um er að ræða er nú að dýpka við Nýfundnaland - fer til norðausturs. Skilakerfi hennar á að fara hraðar en lægðarmiðjan (eins og algengt er þegar lægðir ná ákveðnum þroska) og gerir hér landsynningsrudda annað kvöld (þriðjudag 6. janúar). Meginbakinn fer hratt hjá og á eftir fylgir mun betra veður en síðan á vindur að vaxa af útsuðri þegar sjálf lægðarmiðjan nálgast undir morgun á miðvikudag.
Spurningin er hversu vel reiknimiðstöðvar ná þessari lægðarmiðju - tillaga evrópureiknimiðstöðvarinnar er hér að neðan, spá sem gildir á hádegi miðvikudags.
Reiknimiðstöðin telur að lægðin verði um 937 hPa í miðju - skammt vestur af Snæfellsnesi. Vel má vera að þetta rætist - reiknimiðstöðin er býsna góð - en jafnlíklegt er að miðjan verði e.t.v. um 943 hPa. Rætist þessi spá fer þrýstingur rétt niður fyrir 940 hPa vestast á Snæfellsnesi og e.t.v. á Vestfjörðum litlu síðar.
Eins og áður sagði væri það í fyrsta sinn síðan 1999 að þrýstingur færi niður fyrir 940 hPa hér á landi. Verði lægðin ekki svona djúp við Snæfellsnes gæti þrýstingur samt farið niður fyrir 945 hPa - en það er mun algengara, gerðist síðast í desember fyrir rúmum tveimur árum.
Þegar þrýstingur er svona lágur og suðvestanáttin svo stríð - jafnvel þótt ekki sé um nein met að ræða - er rétt að fylgjast mjög náið með sjávarstöðu - nærri stórstreymi. Fyrir 25 árum, þann 8. janúar 1990 mældist þrýstingur á Gufuskálum 937,4 hPa, morguninn eftir varð mikið sjávarflóð á Eyrarbakka og Stokkseyri (og víðar) svo ekki mun hafa komið meira síðan. Lægðina bar þá að vísu ekki alveg eins að og nú - hún fór hraðar og vindur í kjölfar hennar var hvassari en nú er spáð.
Eins og sjá má er lægðin gríðarstór - nær um Atlantshafið þvert og sjór sunnan við hana mjög illur og úfinn. Ekki beinlínis hagstæður flutningum og fiskveiðum.
En illindin eru ekki bara í sjó og við sjávarmál þessa dagana því háloftavindar eru gríðarsterkir. Í kjölfar þessarar lægðar á að rísa upp breiður hæðarhryggur í veðrahvolfi og á norðurjaðri hans nær heimskautaröstin styrk sem er frekar óvenjulegur á okkar breiddarstigi. Kortið hér að neðan sýnir þetta vel. Það er líka úr garði evrópureiknimiðstöðvarinnar en gildir á föstudaginn (þann 9. janúar) kl.06.
Hér er hæð 300 hPa-flatarins sýnd (heildregnar línur) - auk vindáttar og vindhraða sem sýnd eru með hefðbundnum vindörvum auk lita. Varla er það samt venjulegt sem við sjáum því flöggin á vindörvunum sem hvert um sig tákna 25 m/s (50 hnúta) eru fjögur á hverri ör þar sem mest er á hvíta svæðinu (litakvarðinn springur) og einar þrjár fanir til viðbótar. Vindurinn er meiri en 110 m/s.
Við sjáum að hæðarbeygja er á lögun rastarkjarnans (skotvindarins), við eigum auðveldara með að líkja eftir beygjunni með vinstri hendi - bendi fingur í vindstefnuna. Þetta þýðir mikla ókyrrð lofti á jöðrum rastarinnar - en aftur á móti gríðarlegan eldsneytis- og tímasparnað í flugi ef tekst að finna ókyrrðarlítil svæði í meðvindi, hátt í 400 km/klst bætast við hraða flugvélar inni í hvíta svæðinu. En látum flugmenn og flugveðurfræðinga ráða úr því máli.
Standi rétt á geta rastir sem þessi fóðrað gríðarlega og hraða lægðadýpkun - og ekki er útséð með það hvort þessari tekst það - en á þessu korti hefur hún ekki alveg rétta lögun gagnvart umhverfinu til að hún fullnýtist til slíkra verka. - En eins gott er fyrir veðurfræðinga að fylgjast náið með þróuninni.
Þótt þessi vindhraði sé fremur óvenjulegur á okkar slóðum er hann algengari yfir Austur-Asíu þar sem meginvindröstunum tveimur, þeirri sem venjulega er kennd við heimskautið og þeirri sem kölluð er hlýtempruð slær saman á vetrum. Sú síðarnefnda er í fullum styrk ofar en 300 hPa - en þó nær hes hennar vel niður í 300 hPa. Kortið hér að neðan sýnir víðari sýn á rastirnar á sama tíma og kortið að ofan.
Þetta kort nær um mestallt norðurhvel - þó ekki yfir svæði sameinaðra rasta í Austur-Asíu (þær eru reyndar aflminni en okkar röst á þessum tíma). Heimskautaröstin hnyklar sig langt suður um Norður-Ameríku - gríðarlegur kuldi er þar undir sem lægðarbeygjan er mest (suðvestur af Hudsonflóa). Hes hvarfbaugsrastarinnar liggur yfir Norður-Afríku og austur til Himalayafjalla og rétt sést í sameinuðu rastirnar efst á kortinu.
Sé kortið gaumgæft má sjá strikalínur hringa sig við Ísland. Þetta er hringrásin við sjávarmál (jafnþrýstilínur strikaðar - en aðeins sýndar þar sem þrýstingur er minni en 980 hPa).
Látum duga að sinni.