Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Úrkomulítill sunnudagur?

Nei, hér er ekki verið að spá þurrki - á hungurdiskum eru ekki gerðar spár - en hins vegar fjallað um þær. En reiknimiðstöðvar eru með einhverjar hugmyndir um úrkomulítinn sunnudag á rigningasvæðunum - en þá rigni aftur á mót eystra. Úrkomusvæðið sem veldur þeirri úrkomu er ekki stórt um sig en tengist litlu lægðarkerfi sem rífur sig út úr þrumugarði sem nú er yfir Bretlandseyjum. 

Fyrsta kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu síðdegis á sunnudag, 20. júlí.

w-blogg190714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Úrkomukvarðinn batnar sé myndin stækkuð - hann sýnir 3 klst uppsafnaða úrkomu, þ.e. úrkomu sem reiknast að falli milli kl. 15 og 18. Nú ber svo við að allt vestanvert landið er sýnt (nánast - ekki alveg) úrkomulaust. En sama spáruna gerir samt ráð fyrir sólarlausu - eða sólarlitlu veðri. Loftið yfir landinu er nefnilega sérlega rakaþrungið.  En íbúar á rigningasvæðunum þakka hverja þurra stund - og meira að segja er líklegt þessi verði nokkuð hlý. Fylgist með spám Veðurstofunnar.

Úrkomusvæðið fyrir austan er býsna öflugt. Það er eins og áður sagði hluti af þrumugarði sem nú (seint á föstudagskvöld) er yfir Bretlandseyjum. Þar sem kerfið er lítið og hér er um tveggja daga spá að ræða er talsverðrar óvissu að vænta um þróun þess. 

Þarna ryðst mjög hlýtt og rakt loft fram með látum í 1 til 10 kílómetra hæð - lætur kaldan sjóinn ekkert trufla sig (sé rétt reiknað). Við sjáum vel á þykktarkortinu sem gildir á sama tíma hversu hlýtt loftið er.

w-blogg190714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjá má að hitinn í 850 hPa er allt að 15 stig. Það er meira en mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli (en trúlega hefur jafnhlýtt loft sloppið á milli mælinga á leið sinni yfir landið eða í námunda við það). Þykktin er líka mjög mikil, virðist vera í kringum 5630 metrar þar sem mest er (hefur mælst mest 5660 yfir Keflavík). Þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs.

Allt hlýjasta loftið er á leið til norðurs alllangt fyrir austan land - en það fer eftir því hversu nálægt það fer hvort við heyrum eitthvað af þrumum austanlands þegar það æðir hjá. En þótt við njótum ekki þess hlýjasta eru þykktartölurnar yfir landinu samt býsna háar - vel yfir 5500 metrum. Njóti sólar fer hiti yfir 20 stig að deginum við þessi skilyrði þar sem vindur stendur af landi. En sólskin telst happdrættisvinningur eins og staðan er í dag. 

Nú kemur að erfiða kaflanum - sleppið honum bara - það er skaðlaust. 

Ekki er nóg með að loftið sé hlýtt - heldur er það líka þrungið raka og geymir þar með mikinn dulvarma. Síðasta kortið sýnir þetta.

w-blogg190714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum hér sjávarmálsþrýstinginn (heildregnar gráar línur) og jafngildismættishita (úff) í 850 hPa - í Kelvinstigum sem litafleti (kvarðinn batnar við stækkun). Jafngildismættishitinn sýnir hver hiti lofts yrði sé allur dulvarmi er losaður og að auki sé loftið dregið niður undir sjávarmál (1000 hPa þrýstings). Talan sem stendur inni í dökka svæðinu fyrir austan land (þar sem við sáum 15 stigin á fyrra korti) er 331,8 K = 58,6°C. 

En þetta er bara tala - mælistika á varma sem gerir okkur mögulegt að bera saman varma í þurru og röku lofti - á einskonar jafnréttisgrundvelli. Það mælast samt „aðeins“ +15 stig á mæli í hlýja loftinu - dulvarminn getur ekki losnað nema þar sem uppstreymi ríkir - en hann hitar um síðir efri hluta veðrahvolfsins en ekki þann neðri.  

En það gæti verið þess virði að fylgjast með þessum hlýja hnút - ef eitthvað verður úr honum á annað borð.  


Sunnanraki áfram

Nú eru mánaðamótalægðarleifarnar komnar norður í hafsauga. Við tekur sunnanrekja á mörkum svalrar lægðar suðvestur í hafi og háþrýstisvæðis austur undan. Á laugardaginn eiga kerfin að líta út eins og kortið hér að neðan sýnir.

w-blogg180714-n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er hefðbundið norðurhvelskort úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því hvassari er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

Það er að hlýna aftur eftir frekar svala viku. Landið er allt inni í gulum og brúnum litum og svo virðist sem vindurinn sé að beina enn hlýrra lofti í átt til landsins. Það gagnast þó varla nóg meðan landið er hulið þykkri skýjakápu. En ef sólin sýnir sig fer hiti fljótt yfir 20 stigin. En sunnanáttin gerir vonir um það nærri því að engu um landið sunnanvert - rigning og meiri rigning. Spár eru eitthvað að velta vöngum yfir möguleika á að vindur snúist meira til suðausturs - og þá vaxa líkur á hlýju vestantil á Norðurlandi og jafnvel sums staðar vestanlands - ekki minnst ef lægðabeygjan þráláta lætur undan.

Við tökum slíkum vonum með mikilli varúð vegna vondrar reynslu. Svo virðist sem það gangi bara ekki að komast yfir í hæðarsveiginn langþráða í sumar. Ef hann gerist líklegur birtast alltaf einhverjar smálægðir sem snúa öllu á lægðarvísu umsvifalaust aftur.

Nú nálgast hlýjasti tími sumarsins á norðurhveli - alla vega yfir meginlöndunum. Dekksti liturinn á kortinu er yfir Persaflóa, táknar þykktarbilið 5940 til 6000 metra og enginn blár er sjáanlegur. Mörkin á milli þess bláa og græna eru við 5280 metra. Blátt sést þó dag og dag í spánum.

Merkilega mikill kuldapollur er yfir Síberíu vestanverðri, hann hefur endurnýjað sig með fóðri að norðan hvað eftir annað og reiknimiðstöðin segir að hann lifi áfram. 

Svo má sjá (ef vel er gáð) að 5700 metra jafnþykktarlínan snertir Bretlandseyjar á laugardaginn - ekki algengt - og við borð liggur að hiti fari þar í 20 stig í 850 hPa-fletinum - það hlýtur beinlínis að vera óvenjulegt. Þarlendir fá þó ekki hita í fullu samræmi við það því þetta loft er rakabólgið og þykkskýjað. Næturhiti verður þó hár og mikil þrumuveður kvu vera líkleg. Breska veðurstofan hefur gefið út það sem þeir kalla heilbrigðishættuviðvörun vegna hita og raka. 


Enn meiri rigning (en breyting samt)

Landið hefur nú setið í sömu háloftalægðarmiðjunni frá mánaðamótum. Hún er nú að þokast norður af og grynnist. Ný kemur í staðinn - en sú virðist ekki ætla að lenda á sama stað og hin fyrri (sé að marka spár). Það er þó óhætt að upplýsa strax að í þessu felst líklega lítil bót (engin) fyrir landið sunnanvert. 

En lægðin er ekki alveg búin að ljúka sér af. Fyrsta kortið hér að neðan sýnir uppsafnaða úrkomu sem harmonie-líkanið hellir yfir landið næstu tvo sólarhringa, frá þriðjudegi kl. 18 til fimmtudags kl. 18.

w-blogg160714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kvarðinn og tölurnar, sem eru í mm, skýrast sé kortið stækkað. Þetta má heita dæmigerð dreifing úrkomu undir háloftalægð að sumarlagi (þó er þurrara norðaustanlands heldur en allra dæmigerðast er). Úrkoman er almennt mest inn til landsins, svæðin eru þó „misvön“ þessu magni. Sunnanlands er meðalúrkoma júlímánaðar alls víða á bilinu 65 til 85 mm - en langt yfir 100 þar sem mest er. Á Norðurlandi vestanverðu er hún hins vegar ekki nema 30 til 40 mm. Talan 20 mm er því „aðeins“ um fjórðungur meðalmánaðarúrkomunnar sunnanlands (eða minna) - en helmingur hennar fyrir norðan. 

Landið veit einhvern veginn af þessu - rétt eins og menn sem eru misvel búnir til fótanna blotna mismikið í sömu rigningu. 

En við skulum ekki taka mikið mark á smáatriðunum á kortinu. Það er t.d. harla ótrúlegt að Álftanes utanvert og Seltjarnarnes sleppi að mestu við úrkomu (hún er samkvæmt spánni minni en 1 mm) þessa tvo daga - en það er svosem aldrei að vita.

En þetta er sumsé dæmigert fyrir úrkomudreifingu undir háloftalægð - við getum þóst sjá að hún á að þokast norðurfyrir (suðvestanátt tekur við) á því að lítið á að rigna inn til landsins á Norðausturlandi eins og fyrr sagði.

Meðalveðurkort vel ástandið sem hefur verið ríkjandi síðustu tíu daga. 

w-blogg160714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - en litir sýna hæðarvik, blá þar sem hæð flatarins hefur verið undir meðallagi, en bleik þar sem hæðin hefur verið yfir því. Margar jafnhæðarlínur hringa sig um lægðarmiðjuna - sem þýðir að hún getur ekki hafa hreyfst mikið (annars myndi hún „smyrjast“ út).

Meðalkort næstu tíu daga (frá evrópureiknimiðstöðinni) er dálítið öðru vísi.

w-blogg160714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér hafa neikvæðu vikin hörfað langt suður í haf - en háþrýstisvæðið fyrir austan sótt að okkur (þó ekki nóg). Mjög eindregin sunnanátt er ríkjandi - standist þessi spá mun halda áfram að rigna um landið sunnanvert - jafnvel mikið á köflum. En sunnanáttin er alltaf hlý - sérstaklega norðaustanlands. Gætu þar komið einhverjir mjög hlýir dagar rætist þessi spá.

Þessi umskipti (sem kannski fáir sunnlendingar finna á skinni sínu) eiga þó ekki að verða fyrr en háloftalægðin hefur yfirgefið okkur - við eigum ekki að losna við lægðarbeygju hennar fyrr en síðdegis á fimmtudag. 

Það munar hins vegar grátlega litlu að við fáum hin raunverulegu hlýindi, sem verið hafa viðloðandi fyrir austan okkur allan þennan mánuð, til okkar. Ein og ein spáruna á stangli hefur gefið vonir, kannski ein af hverjum 6 til 10 (tvær koma á dag), líkindin eru kannski þessi - 10 til 20 prósent. Það er eiginlega ekki nógu gott. 


Af háum og lágum sjávarhita

Eins og fram kom í pistli á hungurdiskum fyrir nokkru er sjávarhiti nú óvenju hár undan Norðurlandi - en lágur á litlu svæði eystra. Sá lági hiti er þó varla óvenjulegur. Fyrir norðan blandaðist yfirborðssjór nokkuð í hvassviðrinu í upphafi mánaðarins svo minni munur er nú (en var fyrir 10 dögum) á yfirborðshita sem mældur er úr gervinhnöttum og sjávarhita við Grímsey - hann er mældur af Veðurstofunni í samvinnu við Hafrannsóknastofnun.

Við lítum á tvö kort - annað þeirra er gróft klippt út úr greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir vik sjávarhita í dag, 14. júlí, frá meðallagi. Ekki liggur á lausu hvert viðmiðunartímabilið er - trúlega síðustu 11 til 15 ár - alla vega hlýr tími.

w-blogg150714iaa

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hiti fyrir sunnan land er hér nærri meðallaginu, í kringum 1 stigi ofan meðallags undan Vesturlandi og Vestfjörðum en 3,5 til 4,0 stigum ofan þess undan austanverðu Norðurlandi. Kaldsjórinn sem „á“ að vera þarna - er það greinilega ekki.

Aftur á móti er hiti -2,5 til -3,0 undir meðallagi á litlu svæði við Austfirði. Líklega er þarna eitthvað uppstreymi kaldari sjávar.

En lítum líka á hvaða hita er hér verið að tala um. Til að sjá það nöppum við korti dagsins úr evrópsku tilraunahaflíkani (myocean)

w-blogg150714ia

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir yfirborðshita og strauma. Hér kemur í ljós að yfirborðshiti á kalda blettinum er innan við 6 stig, en yfir 10 stig fyrir norðan. Í innanverðum Faxaflóa segir líkanið (og mælingar gervihnatta) sjávarhitann vera um 12 stig.

Við skulum taka þessu öllu með hæfilegri varúð - munandi annars vegar að líkön lifa í eigin heimi og hins vegar að haffræði er í jaðri þægindasviðs hungurdiskaritstjóra.  


Endurteknar fréttir af engum breytingum

Veðrakerfin eru jafnlæst sem fyrr - mikil háloftalægð situr sem fastast við Ísland eins og að undanförnu. Að vísu á hún að mjakast til norðurs um miðja vikuna og víkja sæti fyrir annarri - nærri því eins - sem kemur að vestan undir vikulokin. Ekkert verulega hlýtt loft kemst til landsins en ekkert mjög kalt heldur. 

w-blogg140714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir 500 hPa hæðar- og hitaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudag (15. júlí). Hún hefur lítið grynnst frá því á (laugardag - sjá kort í 3 daga gömlum pistli) - og hiti í miðjunni er nánast sá sami og var þá. En hún er samt orðin flatneskjulegri og vindur í kringum hana er því hægari. Ef hún mjakast norður - snýst háloftavindurinn hér á landi til suðvesturs - það breytir ekki miklu - nema hvað líklega kólnar aðeins á Vesturlandi frá því sem verið hefur undanfarna daga. 


Enn af hundadögum

Orðin „enn af“ benda til þess að eitthvað hafi verið fjallað um hundadaga áður hér á hungurdiskum. Nánar tiltekið var það fyrir tveimur árum (alltítarleg umfjöllun) og fyrir þremur árum (mest í framhjáhlaupi). 

En síðan hafa tvennir hundadagar, 2012 og 2013, bæst við. Fróðlegt er að sjá hvernig þeir koma út úr samanburði við fyrri tíma. Við látum okkur nægja að líta á hundadagahita og hundadagaúrkomu í Reykjavík frá 1949. Í pistlinum frá 2012 sem tengt er á hér að ofan má einnig sjá niðurstöður fyrir Akureyri og samanburð milli staðanna tveggja. 

En hundadagahitinn í Reykjavík:

w-blogg130714-hundadagar-a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn sýnir hita, súlurnar meðalhita 13. júlí til 23. ágúst ár hvert. Við hálfhrökkvum við að sjá ástandið á hundadögum 1983 - alveg í sérflokki. Einnig sker í augu að öll árin frá 2003 til 2012 eru hlýrri en 11,8 stig. Hundadagar 2013 voru aftur kaldari - en samt rétt við meðalhita tímabilsins alls. Fjórir hlýjustu hundadagarnir eru á nýrri öld, 1950 er svo í fimmta sæti.  

Og þá úrkoman:

w-blogg130714-hundadagar-b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru hundadagarnir 1984 á toppnum - og rigningasumrin miklu, 1976, 1983 og 1955 þar næst á eftir. Á nýrri öld eru hundadagar 2002 úrkomusamastir - en annars allt í kringum meðaltal - eða neðar. Það á meira að segja við um sumarið 2013 - þá kom nefnilega mjög góður sumarkafli frá 20. júlí og meir en viku af ágúst um landið sunnanvert - talsvert stykki úr hundadögunum. 

Nú er byrjað með hreint borð - úrkoman sem fallið hefur fyrr í sumar telst ekki með hundadagaúrkomunni 2014 - og hlýindin ekki heldur. 


Hvar fellur nú úrkoma á norðurhveli?

Það rignir víðar en hér á landi. Kortið að neðan sýnir 12 klst uppsafnað úrkomumagn um mestallt norðurhvel á sunndaginn (12. júlí) - í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg120714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Meginlöndin eru sýnd í daufum gráum lit og ættu kortavanir að átta sig á þeim. Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd. Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar en úrkoma er sýnd í grænum (og bláum) litum, kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Slatti af L-um og H-um er merktur á kortið til að greina lægðir og hæðir - en þær eru fleiri en merktar eru.

Ísland er meira eða minna allt í grænum úrkomulit (sem þýðir þó ekki að úrkoma sé stöðug). Mikil úrkoma er yfir Danmörku - en þar er hreyfanleg lægð á ferð (ekki föst við stjóra eins og hér). Það rignir líka á Bretlandseyjum og í Frakklandi - lægðir sem fara út á Atlantshaf úr vestri leggjast að okkur, en hver pokinn úr þeim á fætur öðrum gengur til austsuðausturs yfir Frakkland. Lítið lát á því. 

Mikil úrkoma er sýnd ofarlega til hægri á kortinu. Þetta eru monsúnsvæðin miklu í Suðaustur- og Austur-Asíu. Við rétt sjáum í Afríkumonsúninn yfir Eþíópíu (ósköp var erfitt að skrifa þetta nafn) og eitthvað sýnir Norðurameríkumonsúninn sig yfir Mexíkó. Við sjáum smábút af Suður-Ameríku, þar er úrkoma við Amazon.

Gríðarmikil úrkoma er yfir vötnunum miklu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, þar er talsvert norðanskot í uppsiglingu.

Mikið háþrýstisvæði nær alveg frá Klettafjöllum til norðurs og svo austur til Norður-Grænlands og þaðan til suðausturs um Barentshaf. Þetta kerfi er þó ekki alveg eins sterklegt og það sýnist.

Asóreyjasumarhæðin er nokkurn veginn á sínum stað - hleypir grunnum lægðardrögum austur í gegnum sig en endurnýjast jafnharðan. Þar suður undan er stórt gulgrænt úrkomusvæði. Sé litið á kvarðann kemur í ljós að þetta er innan við 1 mm úrkoma á 12 klst. Óvíst hvort hún er raunveruleg - eða bara sýndarúrkoma í líkaninu. 


Háloftalægðin þaulsetna

Framan af vikunni var veik von um að háloftalægðin sem ræður veðri hér þessa dagana myndi hörfa til suðurs og þar með hleypa hlýrra og þurrara lofti til landsins úr austri. Sú von er alveg liðin hjá og litlar breytingar að sjá á næstunni. Þó er það þannig að inni í lægðinni miðri fellur úrkoman mest sem skúrir í þeim landshlutum sem njóta landáttar og þar geta komið alllangir þurrir kaflar og jafnvel sést til sólar. Svo er núverandi útgáfa lægðarinnar um 3 stigum hlýrri heldur en sú sem réði ríkjum um helgina og í upphafi vikunnar.

Fyrra kort dagsins sýnir hæð 500 hPa-flatarins, ásamt hita og vindi um hádegi á laugardaginn, 12. júlí. Bæði kortin eru gerð eftir líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg110714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, litir sýna hita (kvarðinn batnar mjög við stækkun) og hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Við sjáum að jafnhæðar- og jafnhitalínur fylgjast vel að, lægðin er langköldust í miðjunni - en hlýrra er í kringum hana á alla vegu. Frostið er um -24 stig þar sem það er mest. 

Kuldinn og sveigjan á jafnhæðarlínunum ýta undir uppstreymi - sérstaklega síðdegis - og verður að reikna með skúrum víða um land. En vel má vera að stór svæði sleppi við miklar dembur, sérstaklega svæði við sjóinn í þeim landshlutum þar sem háloftavindurinn stendur af landi.

Síðara kortið sýnir 500 hPa hæð og þykkt á norðurhveli á sama tíma, laugardag 12. júlí kl. 12.

w-blogg110714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina - því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Ísland er rétt neðan við miðja mynd - við lægðina sem við sáum betur á hinu kortinu.

Það vekur athygli að háloftalægðir eru fleiri á svipuðu breiddarstigi og Ísland, ein vestan Suður-Grænlands, önnur vestan við Hudsonflóa í Kanada. Rétt suður af Alaska er líka myndarleg lægð auk grynnri lægðar austast í Síberíu og einnar krappar í Síberíu vestanverðri.

Hringrásin í júlí er oft þessu lík - margar smálægðir - og svo ein stærst yfir Norðuríshafi. Norðurslóðahringrásin í kringum stóra kerfið er ekki mjög líkleg til stórræða - en gæti samt stuggað við lægðinni okkar í næstu viku. 

Nú er bara að bíða eftir því að næsta hlýindasókn verði lögð upp.  

Fjallað er um stöðu úrkomumála í Reykjavík í færslu á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/ 


Skemmtilega (?) læst staða.

Við berum nú saman meðalþrýstikort síðustu tíu daga og meðalþrýstikort næstu tíu daga (spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Þau eru furðulík. 

w-blogg100714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægð við Ísland, hringuð af þremur jafnþrýstilínum, í miðju stóru viki (-8,2 hPa er mikið miðað við árstíma). Lægð var þó ekki föst við landið allan tímann - lögun vika og jafnþrýstilína ræðst að miklu leyti af lægðinni miklu sem hrelldi okkur um síðustu helgi. 

En óskaplega er spá næstu tíu daga lík.

w-blogg100714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðarmiðjan á nærri því sama stað (aðeins hagstæðari fyrir norðaustanvert landið) - vikin aðeins minni (-4,4 hPa) - en fjórar jafnþrýstilínur hringa lægðina. Enn meiri lægðarbeygja. 

Sama veður? Aldrei eins - og vonandi kemur ekkert illviðri. En hvort vilja menn að sé að baki véfréttarinnar, ein djúp lægð með illviðri í tvo til þrjá daga - eða sama lægðin sí og æ allan tímann?

En við skulum muna að þetta er tíu daga meðaltal - nægur tími fyrir spár að ganga úr lagi.  


Nei - sennilega lítil eða engin bót

Það er þó ekki endanlega ráðið. Við sjáum ástandið kl. 21 á fimmtudagskvöld á kortinu hér að neðan. Það er framleiðsla úr hirlam-líkaninu og sýnir sjávarmálsþrýsting, 850 hPa-hita og úrkomu síðustu 6 klst fyrir gildistíma. 

w-blogg090714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er lægð skammt fyrir suðvestan land og með henni er að sjálfsögðu rigning. Leiðindavindur er á undan skilum lægðarinnar sem eiga - ef eitthvað er að marka spána - að fara yfir á aðfaranótt föstudags. 

Málið í framhaldinu er að við þurfum að losna út úr lægðarbeygjunni. Til skýringar má sjá lægðar- og hæðarbeygju í kassa neðarlega á myndinni. Lægðarbeygjan kemur fram sem hægrihandargrip - þumall upp, en hæðarbeygjan er vinstrihandargrip - þumall upp. Lægðarbeygja ýtir undir uppstreymi - en hæðarbeygjan bælir það. Miklu máli skiptir hvor beygjan ræður í neðri hluta veðrahvolfs - (aldrei þó alveg öllu).

Skilin á milli hæðar- og lægðarbeygju á kortinu er merkt sem lína rétt við töluna 2. Við þurfum bráðnauðsynlega að komast austur fyrir þessa línu (eða öllu heldur að línan þarf að komast vestur fyrir okkur). Það gerist ekki nema lægðin hörfi frá landinu - um það eru spár svosem ekki alveg sammála frá einni spárunu til annarrar - en einmitt þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi) reiknast lægðin allt of nálægt okkur alla helgina - og þá með sinni endalausu lægðarbeygju.

Hitaskilin fyrir austan okkur (við töluna 1) virðast alveg föst og sennilega verður búið að undirstinga hitann fyrir austan þau (og þar með éta þau) áður en þau geta gagnast okkur - vonlítil björgun þaðan. 

En ekki dugir að leggjast í svartsýni - það er enn langt í helgina - og síðan kemur ný vika með nýju veðri. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband