Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Af stöðu veðurkerfa - einhver bót?

Illviðri helgarinnar er að mestu gengið hjá. Kuldapollurinn skilaði myndarlegum skúrum (og jafnvel þrumum) yfir Suðurlandi í dag - og enn rignir norðaustanlands í tengslum við leifar kerfisins. Nú er spurning hvað gerist næst. Til að velta vöngum yfir því lítum við á spá hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting og úrkomu kl. 21 á þriðjudagskvöld (8. júlí). 

w-blogg080714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma er sýnd í grænu og bláu og sömuleiðis má sjá jafnhitalínur 850 hPa-flatarins strikaðar. Myndin batnar talsvert við stækkun.

Inn á kortið hafa verið settar þrjár tölur - við þau veðurkerfi sem við sögu koma næstu daga. Hjá tölunni 1 geta menn sett hitaskil sem liggja frá Norðursjó norður til Jan Mayen. Þarna er stutt á milli jafnhitalínanna +5 og +10 í 850 hPa. Óskin er sú að fá +10-línuna hingað til lands. Það er sennilega óhófleg bjartsýni. Í dag var hiti nærri frostmarki í þessari hæð hér yfir landinu. 

Skilin hreyfast lítið - aðeins þó til vesturs. Austan þeirra er eðalhiti - fór í 30 stig á nokkrum stöðvum í Norður-Noregi í dag.

Næsta kerfi sem kemur hér við sögu er merkt sem númer 2. Þetta er úrkomusvæði sem nálgast úr suðvestri og við sleppum víst ekki við - allt í lagi með það - ekki nein aftakarigning né vindur. 

Við verðum hins vegar að bíða spennt eftir kerfi sem merkt er númer 3 (við Nýfundnaland á kortinu). Þetta er dýpkandi lægðasvæði - öllu máli skiptir hvar það dýpkar. Gerist það á réttum stað fyrir sunnan land verður það til þess að hlýja loftið við Noreg dregst til vesturs við norðurjaðar lægðarinnar (kólnar að vísu nokkuð) en myndi þá veita okkur eina 2 til 3 hlýja daga (e.t.v. ekki alveg úrkomulausa). Dýpki lægðin of snemma heldur svaltíðin áfram með sunnan- og suðvestanáttum - en geri hún það of seint fáum við strax norðaustanátt - heldur svala líka. Úrslitastundin er á föstudag - kannski að reiknimiðstöðvar gefi okkur eitthvað styrkjandi fram að þeim tíma - eða þá enn meiri vonbrigði.

Sjá má tvær myndir af skúraskýjum dagsins á vegg fjasbókarútibús hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

Frost var -27 stig í 5 km hæð yfir Suðurlandi í dag. Í dag var úrkoma fyrstu 7 daga mánaðarins komin í 132,2 mm í Birkihlíð í Súgandafirði - þar hefur úrkoma verið mæld síðan 1997. Þess má geta að þar hefur úrkoma fyrstu sjö daga júlímánaðar mest mælst 25,4 mm (2005). Á Reykjahlíð við Mývatn þarf að fara aftur til 1969 til að finna jafnblauta júlíbyrjun og nú, til 1972 á Tjörn í Svarfaðardal og á Staðarhóli í Aðaldal. Á Hlaðhamri í Hrútafirði þarf að fara aftur til 1978 til að finna jafnblauta júlíbyrjun og nú. Heldur þurrara er að tiltölu sunnanlands - en þó eru þar nokkrar stöðvar þar sem úrkoma er komin yfir meðallag júlímánaðar alls. Þar fara Vatnsskarðshólar líklega fremstir í flokki, en þar hefur fyrsta júlívikan ekki verið jafnblaut frá 1954. Allar úrkomutölurnar eru óyfirfarnar og því með fyrirvara. 


Svöl mánaðarbyrjun

Júlímánuður fer frekar kuldalega af stað - þó er ekki kaldara en svo að hiti er enn yfir meðallaginu 1961 til 1990 austast á landinu. Samanburðurinn við síðustu tíu ár er mun óhagstæðari. 

Í viðhenginu er listi yfir vik fyrstu sex daga mánaðarins á þeim sjálfvirku stöðvum sem athugað hafa samfellt árin 2004 til 2013 - og eru enn mælandi. Tólf stöðvar halda enn í við tíu-ára meðaltalið, að tiltölu er hlýjast í Papey. Vegagerðarmegin eru tvær stöðvar enn ofan meðallagsins 2004 til 2013, Hvalnes (ekki svo langt frá Papey) og Kvísker í Öræfum. Allar aðrar stöðvar eru neðan meðallags.

Að tiltölu er kaldast á  Seljalandsdal og á Þverfjalli þar í grennd, -4.0 og -3,6 stig undir meðallagi og vik á þeim stöðvum á hálendinu þar sem snjóaði í hretinu eru litlu minni. En lítið á listann. 

En þrátt fyrir þetta hafa fyrstu 6 dagar mánaðarins 15 sinnum verið kaldari síðustu 65 árin í Reykjavík og 25 sinnum á Akureyri. Það vantar því mikið upp á að við séum að tala um eitthvað verulega afbrigðilegt. Á átta stöðvum (norðanlands) er úrkoman hins vegar nú þegar komin upp fyrir meðalúrkomu alls júlímánaðar. 

Ætli við fáum ekki venjulegra veður næstu viku - trúlega mjakast hitinn upp eftir kvarðanum.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tvenns konar kuldi?

Tvenns konar kuldi? Já, eiginlega. Í fyrsta lagi er það kuldinn i dag (laugardaginn 5. júlí), ættaður úr norðri - hefur alla vega komið þar við og kólnað að neðan. Hann nær hins vegar ekki svo hátt. Lítum á hann á korti. Kortin eru öll úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg060714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er kort sem sýnir hæð 925 hPa-flatarins auk vinds og hita. Það batnar mjög við stækkun. Kortið gildir á hádegi í dag (laugardag). Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu -  25 til 30 m/s norður af Vestfjörðum og jafnvel suður með Vesturlandi. Jafnhæðarlínurnar eru líka mjög þéttar, sú sem liggur til suðurs rétt vestur af landinu sýnir 700 metra hæð. Svipað og hálendi Vestfjarða. Litafletirnir sýna hita, á græna svæðinu er lítilsháttar frost, með góðum vilja má sjá töluna -0,2 yfir Ísafjarðardjúpi. Það er nærri lagi því á sama tíma var hiti um frostmark á Þverfjalli - í 743 metra hæð.

Kalda loftið liggur eins og fleygur til suðurs frá Norðaustur-Grænlandi og langt suður í haf. Hlýrra er á báða vegu. Þessi kalda stroka er á leið til vesturs og vonandi úr sögunni í bili. Heldur hlýrra loft kemur í staðinn.  

Því miður eigum við 925 hPa-hita yfir Keflavík ekki á lager í gagnagrunni lengra aftur en til 1991. Lægsta tala sem hefur sést í 925 hPa í júlí síðan þá er -0,2 stig. Nokkuð skortir á að það sé jafnað að þessu sinni. 

En svo er næsti kuldi - hann er allt öðru vísi. Kominn úr suðaustri, heldur til í háloftunum og á samkvæmt spám að ná hámarki yfir landinu á mánudag. Við lítum líka á hann á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg060714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins ásamt vindi og hita. Litirnir eru ekki á sama stað á kvarðanum og á fyrra kortinu. Hér sýnir græni liturinn hvar frostið er meira en -26 stig. Þetta er mjög dæmigerður háloftakuldapollur að sumarlagi. Við eigum upplýsingar um hita í 500 hPa-fletinum yfir Keflavík allt aftur til 1952. Mesta frost í júlí í fletinum á þeim tíma mældist -33,4 stig, það var kuldasumarið mikla 1979. Við erum talsvert frá þeim leiðindum. 

En þegar loft hlýnar í neðstu lögum og kólnar í þeim efri vill lóðrétt jafnvægi riðlast. Kælingin að næturlagi yfir landinu sér að mestu um að koma í veg fyrir að neðsta loftið fljóti upp, en sólarylur að deginum hefur öfug áhrif - hann hrindir lofti neðri laga á flot - og það flýtur upp - alveg upp undir veðrahvörf - ef svo vill verkast.

Þetta er að sjálfsögðu uppskrift að síðdegisskúrum - hvort þær verða litlar og á stangli - eða öflugar og raðast í garða fer eftir svo mörgum smáatriðum að ritstjóri hungurdiska verður bara að segja pass. En margir staðir sleppa alveg.

Það er kostur að fá miklar skúrir - því þá er von til þess að klakkatindarnir breiði úr sér undir veðrahvörfunum og myndi þar skýjalag - klósiga - og e.t.v. annað í netjuskýjahæð. Það ætti að koma í veg fyrir að hann frysti - en á því er hætta á aðfaranótt mánudags - á þeim stöðum sem veikir eru fyrir slíkum freistingum. 

Svo er það hvernig gengur að losna við kuldapollinn - smálægðabylgjur í jaðri hans sparka honum eitthvað til og frá - og hann er það kaldur að sjórinn mun fyrr eða síðar draga svo úr afli hans að önnur veðrakerfi geta losað okkur við hann.

En á 10-daga jafnaðarspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar má sjá hversu þrautseigur hann er.

w-blogg060714c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar (meðalhæð næstu tíu daga), jafnþykktarlínur eru strikaðar, og litafletir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi júlímánaðar 1981 til 2010.  

Ekki er alltaf auðvelt að túlka véfréttir 10-daga meðalspánna - en reynum samt. Kuldapollurinn á á þessu tímabili að leita bæði til norðvesturs - og til suðausturs. Suðausturskriðið sést á vikunum stóru yfir Bretlandi og Frakklandi.  Skyldu þeir sitja í þrumuveðrageri? Gríðarleg hlýindi eru hins vegar í Noregi - þar á meðalþykktin að vera yfir 5640 metrum í tíu daga og hiti í neðri hluta veðrahvolfs 6 til 7 stigum ofan meðallags. Þar er að vísu sjávarloft við að eiga - rétt eins og hér en hitinn gæti hæglega teygt sig upp í 27 til 30 stig þar sem sólar nýtur - það er munur eftir kuldakastið sem þar gerði um miðjan júní. 

Það er eftirtektarvert hversu skörp skil eru á milli kuldans hér og hlýindanna eystra - við getum jafnvel leyft okkur að vona að stíflan gefi sig og eitthvað af hlýja loftinu sleppi til vesturs til okkar. En reiknimiðstöðvar eru ekki allt of bjartsýnar með það. 


Skammt undan - en samt alveg utan seilingar

Ekki er mjög langt í hásumarloftið - en það er samt alveg utan seilingar (svo langt sem séð verður). Kortið hér að neðan sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á sunnudaginn (6. júlí).

w-blogg050714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþykktarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs. Litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum, en hann er í um 1300 metra hæð yfir landinu - jöklar og hæstu fjöll stinga sér upp í hann. Á grænum og bláum svæðum er hitinn undir frostmarki. Kortið og þar með tölur og kvarði verða mun læsilegri sé kortið stækkað (í vafra yðar). 

Þykkt sem er minni en 5400 metrar er varla boðleg í júlí - og ekki batnar skúffelsið þegar horft er á kræsingarnar til beggja átta. Við sjáum í 13 stig uppi í hægra horni - opinbert júlíhitamet í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli er einmitt 12,7 stig [ein gömul mæling í 13,9 - en það þarf að skoða hana betur]. 

Líka er hlýtt í suðvesturhorni kortsins - en ekki alveg eins í 850 hPa og er fyrir norðaustan land.

Og þykktin er heldur ekkert slor - við sjáum 5620 metra línuna við töluna 13 og suðvestur í hafi sést sama lína - en það er miklu venjulegra á þeim suðurslóðum. 

En okkur eru allar bjargir bannaðar - kuldapollurinn stíflar öll innflutt hlýindi - innflutningshöft ríkja. Einhvers staðar verða vondir (kalda loftið) að vera - best væri á skáskjóta því norðvestur til Grænlands [kannski í næstu viku - með tilheyrandi kostnaði] - nú eða þá suðaustur til Frakklands - bretar eru nú þegar litlu betur settir en við. 

Nokkur vindhraðamet júlímánaðar féllu á sjálfvirku stöðvunum í dag (föstudag 4. júlí), t.d. á Ísafirði, Súðavík, Hraunsmúla í Staðarsveit, Garðskagavita og Þingvöllum en allar þessar stöðvar byrjuðu að athuga fyrir aldamót. Eitthvað óvenjulegt er þetta. 

Sömuleiðis að ekki tók nema þrjá daga fyrir úrkomuna í Mjólkárvirkjun að komast upp fyrir meðaltal júlímánaðar.  


Óvenju lágur hámarkshiti

Enn einn „óvenjueitthvaðpistill“. Upphaf hans er minniháttar bilun sem í dag varð á vef Veðurstofunnar. Þar má að jafnaði sjá hæsta hita dagsins á landinu á forsíðu veðurathugana - endurnýjaðan á klukkustundarfresti gerist þess þörf. Í dag (fimmtudaginn 3. júlí) brá svo við að þar sat talan 14,5 stig í toppsæti alveg frá því kl. 10 og situr nú enn þegar nálgast miðnætti.

Þetta var grunsamlega lág tala - grunsamlega vegna þess að það er ekki oft sem dagshámarkshiti landsins er undir 15 stigum. Þegar leitað var betur kom í ljós að hinn raunverulegi hámarkshiti dagsins var einu stigi hærri, 15,5 stig sem mældust í Árnesi kl. 14. 

En hversu algengt er það að hámarkshiti júlídags sé lægri en í dag? Vitlegar tölur úr sjálfvirka stöðvakerfinu ná aftur til sumarsins 1996. Síðan þá hefur dagshámarkið aðeins 20 sinnum verið lægra í júlí heldur en var í dag. Á eins til tveggja ára fresti. Sé listinn skoðaður nánar kemur í ljós að 14 tilvik af þeim 20 eru frá því fyrir aldamót og eftir 2004 hefur það aðeins einu sinni gerst að hámarkshiti dagsins hefur verið undir 15,5 stigum, það var 24. júlí 2009 (þá 14,7 stig). 

Við getum að einhverju leyti þakkað þéttara stöðvakerfi því að tilvikum sem þessum hefur fækkað - en það hefur líka eitthvað með hlýindin miklu á öldinni að gera.

Það má líka leika sér svona með mönnuðu stöðvarnar. Á þeim komst hitinn hæst í dag í 14,6 stig, á Eyrarbakka og í Hjarðalandi. Nú er fjöldi mannaðra stöðva ekki nema þriðjungur þess sem var fyrir um áratug eða svo. Líkur fara því vaxandi á því að kerfið finni ekki háan hita sem þéttara kerfið hefði fundið fyrir áratug og meira. Hvort slíkt á við daginn í dag vitum við ekki. 

En tökum þessa tölu, 14,6 stig, góða og gilda. Á tímabilinu 1949 til 2013 var hæsti hámarkhiti dagsins á landinu 58 sinnum lægri en í dag - tæplega einu sinni á ári. Þar af eru fjórir dagar í júlí í fyrra (2013), þrír með 13,6 stig hæst, en einn með 14,3 stig hæst. Takið eftir því að alla fjóra dagana var hæsta hámark á sjálfvirku stöðvunum hærra en 15,5 stig. Þetta bendir til þess að mannaða kerfið eigi erfiðara en áður að ná „raunverulegu“ dagshámarki. Gæsalappirnar eiga að minna á það að meira að segja sjálfvirka kerfið, jafnþétt sem það nú er, nær örugglega aldrei (eða nærri því örugglega aldrei) raunverulegum hámarkshita landsins. 

En að slepptum dögunum fjórum í júlí í fyrra er aðeins einn dagur það sem af er öldinni með lægra landshámark mannaðra stöðva heldur en í dag. Það er dagurinn sem þegar hefur verið minnst á, 27. júlí 2009 (13,5 stig - 1,2 stigum lægra en sama dag á sjálfvirku stöðvunum). Síðan þarf að fara aftur til júlí 1995 til að finna landshámarkshita undir 14,6 stigum. 

En hvaða júlídagur á þá lægsta landshámarkshita frá og með 1949? Það er 2. júlí 1973, þá var landshámarkshitinn aðeins 12,7 stig. Þetta er eini dagurinn með landshámarki undir 13 stigum á öllu tímabilinu 1949 til 2013. 

Við getum séð af þessu að það hefðu verið talsverð tíðindi ef landshámarkshitinn í dag hefði ekki verið hærri en 14,5 stig. - En hann var sem sagt 15,5 stig. 

Fleira óvenjulegt átti sér stað í dag - m.a. var úrkoma norðantil á Vestfjörðum óvenjuleg - en ekki þó út úr kortinu.  


Heldur laklegt útlit

Lægðasvæðið mikla sem plagað hefur okkur síðastliðna tvo til þrjá daga fer nú að grynnast. Ekki náði það því að vera það dýpsta sem sést hefur í júlí, en heiðarleg tilraun samt og lágþrýstimet féllu á nokkrum veðurstöðvum. Uppgjör um það verður vonandi tilbúið eftir miðnætti (á miðvikudagskvöldi) og verður upplýsingum þar um bætt neðan við þessa færslu þegar allt er í húsi. 

Þótt lægðin sé farin að grynnast gerir hún sig líklega til þess að sitja nærri landinu eða skammt fyrir austan það allt sitt langa dauðastríð. Það gæti varað í meir en viku - en óþarfi er að vera með mikla svartsýni svona löngu fyrirfram. Inn í lægðina eiga að ganga nokkrar minni - en satt best að segja er mikil óvissa um afl þeirra eða hreyfingar, reiknimiðstöðvar hringla með það fram og til baka frá einni spárunu til annarrar. 

Lægðin nær alveg upp úr veðrahvolfinu og á þessum tíma árs eru háloftavindar almennt slakir þannig að spörk annarra kerfa eru máttlítil.

Við skulum líta á tvö kort - bæði úr heldur svartsýnni spárunu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi í dag (miðvikudag). Kortin eru bæði hönnuð af Bolla Pálmasyni á Veðurstofunni, það fyrra er ókunnugt lesendum hungurdiska - en það síðara vanabundið norðurhvelskort.

w-blogg030714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir Norður-Atlantshaf, Ísland er rétt ofan við miðja mynd og er lægðarmiðja við suðausturströndina. Spánn er neðst til hægri. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar og sýna meðalloftþrýsting næstu tíu daga samkvæmt spánni. Sjá má mjög eindregna norðan- og norðaustanátt yfir Íslandi og mikla lægðasveigju á jafnþrýstilínunum. Heldur leiðinlegt útlit, norðanátt sem er svo lægðasveigð að hún dugir vart í góðan þurrk syðra. 

Litafletirnir sýna úrkomu sem hlutfall (prósentur) af meðalúrkomu í líkaninu 1981 til 2010. Bláir litir sýna úrkomu yfir meðallagi en á gulum og brúnum svæðum reiknast úrkoman undir meðallagi. Smáblettur undan Suðurlandi er gulur - þar er gert ráð fyrir því að úrkoma næstu tíu daga verði undir meðallagi. Annars er landið allt hulið bláum lit. Á fjólubláa svæðinu á úrkoma að vera fimmföld meðalúrkoma tíu daga í júlí. Þar sem tíu dagar eru um það bil þriðjungur mánaðarins er reiknað með því að næstu tíu daga falli um 170 prósent mánaðarmeðalúrkomunnar á því svæði. Júlíúrkoman yrði því 70 prósent umfram meðallag þótt ekkert félli síðustu 20 dagana. 

Þessi úrhellisspá byggir reyndar á því að þrjár býsna öflugar smálægðir komi úr norðaustri - í kringum aðallægðina og beini fremur hlýju og rakaþrungnu lofti inn á Norðurland. Ekki er víst að þessar lægðir sýni sig í raunheimum - rétt þó að fylgjast með.

Síðara kortið er hefðbundið norðurhvelskort og gildir það kl. 12 föstudaginn 4. júlí. 

w-blogg030714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en hér nær kortið allt frá Persaflóa neðarlega lengst til hægri á kortinu og Alaska ofarlega á vinstri hlið. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindur sem blæs samsíðan þeim. Þykkt er táknuð í lit - kvarðinn batnar mjög við stækkun. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Þetta er hefðbundin sumarstaða. Blár litur fyrirfinnst ekki nema á örlitlu svæði nærri norðurskautinu, þar er þykktin minni en 5280 metrar - það er aðeins lægra en lægst er vitað um hér við land í júlí. Mörkin milli grænu og gulu litanna er við 5460 metra - við viljum helst vera undir meiri þykkt en svo í júlí. Allt neðan við 5400 er illviðunanlegt í júlí - verst þó fari þykktin niður í dekksta græna litinn. 

Það er erfitt að sjá breytingu á þessu fyrr en háloftalægðin mikla við Ísland fer að aflagast - þá fer hún að hökta til og frá og hrekkur e.t.v. út úr þessu sæti. Til þess þarf hún að grynnast frá því sem hér er sýnt (hringlaga jafnhæðarlínum þarf að fækka).

Ör bendir á hitabeltisstorminn Arthúr við austurströnd Bandaríkjanna. Evrópureiknimiðstöðin gerir talsvert úr honum - en ekki nóg til þess að hann öðlist einn og sér afl til að sparka í lægðina sem ásækir okkur.  

Rétt að benda lesendum á góða júnísamantekt nimbusar og Emil H. skrifar líka upplýsandi hitapistil á bloggi sínu.  

Svo fór að lægsti þrýstingur lægðarinnar mældist á Húsavík, 975,0 hPa. Þetta er fjórði til fimmti lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í júlí. Listi yfir ný stöðvamet er í viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrefalt kerfi (og smávegis um veðurofsóknir)

Lægðakerfið sem er að plaga flesta landsmenn þessa dagana er samsett, inniheldur að minnsta kosti þrjár aðskildar lægðarmiðjur og tekur hver við af annarri. Sú fyrsta fór hjá í dag (mánudaginn 30. júní), sú næsta kemur á morgun (þriðjudaginn 1. júlí) og sú síðasta verður allsráðandi á miðvikudag (2. júlí).

Tvær seinni lægðirnar eru óvenjudjúpar miðað við árstíma, þótt nú virðist ólíklegt að þær slái einhver met hvað það varðar. Kortið hér að neðan sýnir spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 9 að morgni þriðjudags.

w-blogg010714d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Daufar strikalínur sýna þykktina, en litafletir þrýstibreytingu síðust 3 klst. Tölurnar tákna kerfishlutana þrjá. Hluti 1 er hér kominn hjá, er kominn nærri því til Jan Mayen. Hluti 2 sýnir lægð í vexti (þrýstingur fellur allt í kringum hana), mest um 6 hPa á 3 klst rétt norðan við lægðarmiðjuna. Hluti þrjú sést sem lægðardrag - en við það er sérstakt fallhámark, eftir litakvarðanum á milli 4 og 6 hPa á 3 klst.

Næsta mynd sýnir það sama - nema 9 klst. síðar eða um miðnætti á þriðjudagskvöld (1. júlí).

w-blogg010714e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðin fyrir vestan land er hér þegar farin að grynnast - en hún þokast nú til suðurs. Mjög vaxandi lægð er undan Suðurlandi á leið til norðurs eða norðausturs. Á undan henni er mikið þrýstifall, -8,8 hPa á þremur tímum þar sem mest er. Fyrir tíma gæðatölvuspáa átti þrýstifall sem þetta, yfir 8 hPa á þremur tímum, að kveikja á veðurfræðingi - væri hann ekki búinn að spá stormi (>20 m/s) ætti hann að gera það nú þegar. Auðvitað réði þetta ekki öllu í reynd - það þarf t.d. að ákveða hvar á að spá storminum.

En þessi þriðja lægð - eða lægðarhluti verður óvenjudjúp miðað við árstíma. Þrýstimet júlímánaðar falla á einhverjum veðurstöðvum - og enn er möguleiki á að það gerist fyrir landið í heild. Í pistli gærdagsins kom fram að til þess þarf þrýstingur á einhverri veðurstöð að fara niður fyrir 972,4 hPa.

Svo er að sjá að marga daga taki að losna við leifar þessa kerfis.

Eins og fram hefur komið er nýliðinn júnímánuður einn sá hlýjasti sem um getur hér á landi, jafnframt einn sá úrkomusamasti um landið suðvestanvert - og reyndar sums staðar annars staðar líka. Væntanlega kemur frétt frá Veðurstofunni þar um á þriðjudag og miðvikudag.

Þessi miklu hlýindi eru svo sannarlega óvenjuleg - og ástæðulaust að tala þau niður þrátt fyrir dauft veðurlag um landið sunnan- og vestanvert. Í fyrra léku hungurdiskar sér að því að gefa sumrinu og einstökum mánuðum þess gæðaeinkunn. Það verður líka gert í sumar. Í fljótheitum virðist júnímánuður í Reykjavík fá einkunnina fjóra af sextán mögulegum. Júní í fyrra fékk einkunnina þrjá. Myndin hér að neðan sýnir gæðaeinkunn júnímánaða frá 1921 að telja. 

w-blogg010714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum júní 2013 og 2014 langt niðri á kvarðanum - þó hafa margir júnímánuðir verið enn neðar. Ritstjórinn er kominn á sjötugsaldur og bjó á yngri árum við skítasumur í löngum röðum - kulda, rigningu og illviðri. Júnímánuðirnir 2013 og 2014 eru einfaldlega nærri því meðallagi sem verst var. Þeir sem nota sumur þessarar aldar sem viðmið eru auðvitað skelfingu lostnir þegar sumur eins og 2013 og fyrsti sumarmánuður ársins 2014 sýna sig. En þeir verða bara að átta sig á því að þetta er bara hluti af hinu almenna íslenska veðurlagi.

Segja má að sumur frá og með 1996 hafi flest verið viðunandi hér á Suðvesturlandi, það eru 18 ár. Eðlilegt er að þeir sem eru yngri en 30 ára noti þau sem viðmið sín. Það er nærri því hálf þjóðin. Við sem erum komin yfir miðjan aldur munum hins vegar kveinstafi enn eldri kynslóðar yfir vondri tíð - sú kynslóð átti árin kringum 1940 sem viðmið - en við höfðum ekki kynnst neinu betra. Sumargæði nýju aldarinnar eru því algjör happdrættisvinningur - sem við getum þó ekki búist við að endist um alla framtíð - fullt hús stiga bæði 2008 og 2012. 

Við sem nú erum á sjötugsaldri heyrðum líka í þarnæstu kynslóð á undan - þeirri sem notaði árin fyrir 1920 sem viðmið. Þeim þótti líka ástandið í kringum 1980 bara eðlilegt - sumarhlýindin 1925 til 1945 voru einfaldlega afbrigðilegur happdrættisvinningur - sem leið hjá.

Við vitum ekkert um sumur framtíðarinnar - (ekki einu sinni um afgang sumarsins 2014) - vel má vera að nú komi sjö skítasumur í röð - þess vegna skítköld að auki. Fari svo þýðir ekkert að kveina undan því eins og um ofsóknir sé að ræða og alla vega getur ritstjóri hungurdiska ekkert gert í málinu.  


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 197
  • Sl. viku: 1645
  • Frá upphafi: 2349605

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband