Hvar fellur nú úrkoma á norðurhveli?

Það rignir víðar en hér á landi. Kortið að neðan sýnir 12 klst uppsafnað úrkomumagn um mestallt norðurhvel á sunndaginn (12. júlí) - í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg120714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Meginlöndin eru sýnd í daufum gráum lit og ættu kortavanir að átta sig á þeim. Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd. Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar en úrkoma er sýnd í grænum (og bláum) litum, kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Slatti af L-um og H-um er merktur á kortið til að greina lægðir og hæðir - en þær eru fleiri en merktar eru.

Ísland er meira eða minna allt í grænum úrkomulit (sem þýðir þó ekki að úrkoma sé stöðug). Mikil úrkoma er yfir Danmörku - en þar er hreyfanleg lægð á ferð (ekki föst við stjóra eins og hér). Það rignir líka á Bretlandseyjum og í Frakklandi - lægðir sem fara út á Atlantshaf úr vestri leggjast að okkur, en hver pokinn úr þeim á fætur öðrum gengur til austsuðausturs yfir Frakkland. Lítið lát á því. 

Mikil úrkoma er sýnd ofarlega til hægri á kortinu. Þetta eru monsúnsvæðin miklu í Suðaustur- og Austur-Asíu. Við rétt sjáum í Afríkumonsúninn yfir Eþíópíu (ósköp var erfitt að skrifa þetta nafn) og eitthvað sýnir Norðurameríkumonsúninn sig yfir Mexíkó. Við sjáum smábút af Suður-Ameríku, þar er úrkoma við Amazon.

Gríðarmikil úrkoma er yfir vötnunum miklu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, þar er talsvert norðanskot í uppsiglingu.

Mikið háþrýstisvæði nær alveg frá Klettafjöllum til norðurs og svo austur til Norður-Grænlands og þaðan til suðausturs um Barentshaf. Þetta kerfi er þó ekki alveg eins sterklegt og það sýnist.

Asóreyjasumarhæðin er nokkurn veginn á sínum stað - hleypir grunnum lægðardrögum austur í gegnum sig en endurnýjast jafnharðan. Þar suður undan er stórt gulgrænt úrkomusvæði. Sé litið á kvarðann kemur í ljós að þetta er innan við 1 mm úrkoma á 12 klst. Óvíst hvort hún er raunveruleg - eða bara sýndarúrkoma í líkaninu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 210
  • Sl. viku: 1800
  • Frá upphafi: 2484680

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1617
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband