Háloftalægðin þaulsetna

Framan af vikunni var veik von um að háloftalægðin sem ræður veðri hér þessa dagana myndi hörfa til suðurs og þar með hleypa hlýrra og þurrara lofti til landsins úr austri. Sú von er alveg liðin hjá og litlar breytingar að sjá á næstunni. Þó er það þannig að inni í lægðinni miðri fellur úrkoman mest sem skúrir í þeim landshlutum sem njóta landáttar og þar geta komið alllangir þurrir kaflar og jafnvel sést til sólar. Svo er núverandi útgáfa lægðarinnar um 3 stigum hlýrri heldur en sú sem réði ríkjum um helgina og í upphafi vikunnar.

Fyrra kort dagsins sýnir hæð 500 hPa-flatarins, ásamt hita og vindi um hádegi á laugardaginn, 12. júlí. Bæði kortin eru gerð eftir líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg110714b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, litir sýna hita (kvarðinn batnar mjög við stækkun) og hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Við sjáum að jafnhæðar- og jafnhitalínur fylgjast vel að, lægðin er langköldust í miðjunni - en hlýrra er í kringum hana á alla vegu. Frostið er um -24 stig þar sem það er mest. 

Kuldinn og sveigjan á jafnhæðarlínunum ýta undir uppstreymi - sérstaklega síðdegis - og verður að reikna með skúrum víða um land. En vel má vera að stór svæði sleppi við miklar dembur, sérstaklega svæði við sjóinn í þeim landshlutum þar sem háloftavindurinn stendur af landi.

Síðara kortið sýnir 500 hPa hæð og þykkt á norðurhveli á sama tíma, laugardag 12. júlí kl. 12.

w-blogg110714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina - því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Ísland er rétt neðan við miðja mynd - við lægðina sem við sáum betur á hinu kortinu.

Það vekur athygli að háloftalægðir eru fleiri á svipuðu breiddarstigi og Ísland, ein vestan Suður-Grænlands, önnur vestan við Hudsonflóa í Kanada. Rétt suður af Alaska er líka myndarleg lægð auk grynnri lægðar austast í Síberíu og einnar krappar í Síberíu vestanverðri.

Hringrásin í júlí er oft þessu lík - margar smálægðir - og svo ein stærst yfir Norðuríshafi. Norðurslóðahringrásin í kringum stóra kerfið er ekki mjög líkleg til stórræða - en gæti samt stuggað við lægðinni okkar í næstu viku. 

Nú er bara að bíða eftir því að næsta hlýindasókn verði lögð upp.  

Fjallað er um stöðu úrkomumála í Reykjavík í færslu á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 179
  • Sl. sólarhring: 291
  • Sl. viku: 1753
  • Frá upphafi: 2350380

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1565
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband