Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Úr útjaðri þess líklega

Stöku sinnum detta inn tölvuspár sem sýna mjög ólíklegt veður. Við lítum nú á eina slíka. Hún var gerð af evrópureiknimiðstöðinni frá hádegi föstudagsins langa (18. apríl 2014) og sýndi hita í 850 hPa og þykkt eftir 222 klukkustundir - það er sunnudaginn 27. apríl. Þegar þetta er skrifað (á sumardaginn fyrsta - fimmtudag fyrir umræddan spátíma) teljast engar líkur á því að þessi spá rætist - þótt ekki sé enn alveg víst hver endanleg niðurstaða verður.

Spáin er svo sannarlega með ólíkindum. Hér er verið að spá þykktinni 5590 metrum í apríl og hita ofan við 12 stig í 850 hPa.

w-blogg240414c 

Mesti hiti sem mælst hefur í 850 hPa í apríl yfir Keflavík (í 60 ár) er 7,2 stig (13. apríl 1997) og 7,1 stig mældist 27. apríl 1962. Hámarkið á kortinu að ofan hittir að vísu ekki á Keflavík en er samt 5 stigum hærra heldur en þar hefur nokkru sinni mælst. Mesta þykkt sem mælst hefur í apríl yfir Keflavík er 5523 metrar (5. apríl 2012).

Við finnum ekki öllu hærri þykktartölur í bandarísku endurgreiningunni löngu - jafnvel þótt við leitum á allstóru svæði kringum Ísland. Hæsta talan þar er 5536 metrar - reyndar í punkti nærri Keflavík þann 21. apríl 1972.

Eins og áður sagði detta ofurhlýindi (nú eða kuldar) stundum inn í framtíðarspám - en það má nærri því treysta því að þær séu ekki réttar. En það er jafnvíst að einhvern tíma munu ofurhlýindi eins og þau að ofan birtast á raunverulegum apríldegi.  

Hér að neðan er svo 102 stunda spá fyrir sama tíma - runa frá hádegi 23. apríl.

w-blogg240414d 

Nokkuð aðrar tölur hér - allt nærri flötu meðallagi.


Sýndarsnjórinn nú (2014) og í fyrra (2013)

Eins og margoft hefur verið fjallað um á hungurdiskum er haldið utan um þann snjó sem fellur á landið í harmonie-spálíkani Veðurstofunnar. Hann bráðnar líka - ef hiti gefur tilefni til þess. Hér berum við saman líkansnjómagnið nú (miðvikudag 23. apríl 2014) og sama dag í fyrra (2013). Tölurnar sýna kíló á fermetra, hversu djúpur snjór það er fer eftir eðlismassanum. Líkanið segist ekkert vita af honum.

w-blogg240414a

Þetta er sýndarmagnið núna (2014). Tölurnar sýna staðbundin hámörk - sem undantekningalítið eru nærri hæstu fjöllum líkansins. Myndin batnar talsvert sé hún stækkuð. Kortið að neðan sýnir ástandið í fyrra (2013).

w-blogg240414b 

Lítum fyrst á tölur á Esjunni, nú eru þar uppi 683 kg á fermetra, en voru á sama tíma í fyrra 575. Snjórinn í ár er nokkru meiri en í fyrra. í Bláfjöllum eru tölurnar 609 og 601 - alveg eins. Alauðu svæðin á kortinu sýnast stærri nú heldur en í fyrra. Á Suðurlandi munar mest um þunnan snjó sem þakti allstór svæði í fyrra en ekki er til staðar nú. (Ekki þarf nema minniháttar hret til að breyta því).

Í lágsveitum á Norður- og Austurlandi er sýndarsnjór nú mun minni heldur en í fyrra, t.d. á Melrakkasléttu, Öxarfirði og lágsveitum Suður-Þingeyjarsýslu - en þegar kemur upp í fjöll er snjór nú talsvert meiri heldur en í fyrra. Til dæmis er hæsta talan nærri Ljósavatnsskarði nú 1945 kg á fermetra en var á sama tíma í fyrra 1330, hér munar hátt í 50 prósentum - skyldi sú vera raunin?

Svipað má segja um Austfjarðafjöllin - þar er mun meiri snjór nú heldur en í fyrra, víða munar 20 til 30 prósentum milli ára.

Vestan til á Norðurlandi er hins vegar minni snjór heldur en í fyrra - enda hefur þar löngum verið afspyrnuþurrt í vetur. Sýnist muna 10 til 20 prósentum hvað snjór er minni nú. Á Vestfjarðafjöllum er nú víðast hvar talsvert meiri snjór heldur en í fyrra. Miklu munar t.d. á Drangajökli, 4800 kg á fermetra í fyrra en 6300 nú.

Á öðrum jöklum er misjafna sögu að segja. Á Langjökli er snjór nú lítillega minni en í fyrra, jafnmikill á Hofsjökli og minni á Mýrdalsjökli. Öræfajökull er í nánast sömu tölu, en sýndarsnjór er meiri nú á hábungum á norðanverðum Vatnajökli heldur en var á sama tíma í fyrra.

Mikið bráðnar í hlýindunum þessa dagana af lægri fjöllum - en spurning hvernig staðan verður eftir fjórar til fimm vikur undir lok maímánaðar.


Dugði ekki alveg í landsdægurmet (18,1 stig í Skaftafelli)

Hámarkshiti á landinu í dag (þriðjudaginn 22. apríl) mældist í Skaftafelli, 18,1 stig. Er það vel af sér vikið á þessum tíma árs - en dugir samt ekki í nýtt landsdægurmet. Það er nefnilega 19,8 stig, sett á Akureyri 22. apríl 1976. Landsdægurmet daganna 21. og 23. apríl eru hins vegar lægri og 18,1 stig hefði nægt í landsmet báða þá daga. Gildandi met fyrir þann 23. er 17,2 stig - til þess að gera forn mæling - frá Egilsstöðum 1972.

Annars eru 18,1 stig býsna há tala miðað við hæsta mættishita sem sást á 850 hPa-spákortum í dag. Hann var 20,4 stig - það er oftast erfitt að ná fullum mættishita og enn erfiðara sé snjór á jörðu. Á morgun, miðvikudaginn 23. apríl er hæsta mættishitaspáin nú í 19,3 stigum. Varla er að hiti verði svo hár á nokkurri stöð (?).

Annars voru ný hámarksdægurmet sett á um 70 sjálfvirkum stöðvum í dag (vegagerðarstöðvarnar ekki inn í þeim lista). Merkilegasta metið - ef rétt er - er trúlega 11,0 stig sem mældust á Þverfjalli vestra. Hugsanlegt er að setja megi út á mæliaðstæður í logni og sólskini (?). Ekki er víst að þessi tala lifi nánari skoðun.


Fyrsti þriðjungur aprílmánaðar

Þriðjungur aprílmánaðar 2014 er nú liðinn. Hann hefur verið óvenjuhlýr - en spár benda nú til þess að gefið verði eftir - næsta þriðjungi er spáð köldum og þeim þriðja reyndar líka. En lítum á nokkrar tölur:

ármándagafjmhitivikúrkúrkvikmþrýstþrýstviksólsksólarvik
20144105,963,1224,4-5,4998,1-9,829,1-24,0Reykjavík
20144103,872,1513,1-9,2999,0-9,7Stykkishólmur
20144102,892,3321,6-2,01000,8-8,5Bolungarvík
20144103,322,026,4-6,01000,7-8,0Akureyri
20144104,162,6846,99,11001,6-6,6Dalatangi
20144106,573,4460,31001,3-7,5Höfn í Hornafirði

Taflan sýnir meðaltöl, summur og vik fyrir fyrstu 10 daga mánaðarins á 6 veðurstöðvum. Vikin miða við meðaltal áranna 2004 til 2013 [síðustu 10 árin]. Þetta eru mikil hlýindi og í Reykjavík er þetta næsthlýjasta aprílbyrjun frá 1949 að telja, það er aðeins aprílbyrjun 1957 sem er hlýrri - og ekki munar nema 0,2 stigum rúmum. Á Akureyri er heldur kaldara, hiti 2 stig ofan meðallags (en 3,1 í Reykjavík) og nægir í 13. sæti hlýinda. Á Dalatanga er þetta 6. hlýjasta aprílbyrjunin frá og með 1949.

Stykkishólmsvikið liggur um 1 stigi neðan þess í Reykjavík. Við eigum morgunhita þar á lager aftur til 1846 og hefur aðeins 12 sinnum orðið hlýrra en nú á 169 árum.

Eins og áður sagði eru spár með heldur kaldan svip, en samt er ekki ráðið hversu kalt verður um páska og til mánaðarloka.

Úrkoma er ekki fjarri meðallagi það sem af er, en loftþrýstingur er langt undir meðalaginu. Ótrúlegt er samt að lágþrýstimetið frá apríl 2011 verði slegið - en meðalþrýstingur í apríl það ár var lægri en nokkru sinni. Sólarlítið hefur verið í Reykjavík- það sem af er.


Breytileiki hita frá ári til árs

Æi - þið farið nú varla að lesa þessa langloku er það? 

Í söguslefi 21 skildum við eftir fimm spurningar varðandi hitafar síðustu árhundruða: 

1. Hvernig stendur á sveiflum frá ári til árs? [„svar“ er til – en nýtist ekki við spár]
2. Hvernig stendur á áratugasveiflunum? [svör mjög óljós – en þær eru samt staðreynd]
3. Eru áratugasveiflur síðustu 200 ára eitthvað sérstakar? [það er ekki vitað – en líklega ekki]
4. Hvernig stendur á „langtíma“-leitninni? – Er hún eitthvað sérstök? [líkleg svör til]
5. Eru sveiflurnar reglubundnar? [sumar – en aðrar ekki]

Í pistli dagsins skulum við sinna þeirri fyrstu. Töluverðar sveiflur eru á lofthringrás í námunda við landið frá ári til árs. Reikningar sýna að hægt er að skýra um 50% breytileika hita með hringrásarþáttum eingöngu - e.t.v. meira - sé dýpra fiskað.

w-blogg090414a

Fyrsta mynd dagsins sýnir kort af mestöllu norðurhveli. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Í gegnum þéttar línur og liti má sjá móta fyrir útlínum meginlandanna. Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1981 til 2010. Vindur blæs nokkurn veginn samsíða línunum og er því meiri sem þær eru þéttari. Litafletir og örmjóar punktalínur sýna þykktina - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Háloftahringrás norðurhvels að vetrarlagi einkennist af mikilli lægð yfir kanadísku heimskautaeyjunum og annarri yfir Austur-Síberíu. Hringrásin er ekki hreinn hringur heldur gengur hún nokkuð í bylgjum - lægðardrögum með hæðarhryggjum á milli. Tvö lægðardrög og tveir hryggir eru sérmerkt á kortið með rauðum grófgerðum punktalínum.

Mikilvægast fyrir okkur er Baffindragið, merkt með tölunni 1. Hreyfingar þess skipta miklu máli fyrir veðurlag hér á landi. Hryggur sem við til hægðarauka köllum Golfstraumshrygginn er merktur með tölunni 2. Hann er ekki öflugur - en sér til þess að sunnanátt er meiri vestast í Evrópu heldur en austar. Þessi tvö kerfi eru afleiðing af legu meginlanda og sjávar. Loft kólnar og dregst saman yfir meginlöndunum að vetrarlagi, en hlýnar og bólgnar eftir því sem það á lengri leið yfir sjó - sömuleiðis að vetrarlagi.

Talan 3 er sett við hæðarhrygg við vesturströnd Norður-Ameríku. Hann er orðinn til vegna þeirrar fyrirstöðu sem fjallgarðurinn mikli vestan til í Ameríku, og við köllum gjarnan Klettafjöll, veldur á hringrásinni um norðurhvel.

Hann veldur líka því að Baffindragið er sterkara heldur en það væri eitt og sér - myndað vegna kólnunar meginlandsins. Það má því segja að Klettafjöllin valdi því að hér er jafnhlýtt á vetrum og raun ber vitni - væru þau ekki til staðar væri Baffindragið grynnra og kalt loft frá Kanada þá algengara hér heldur en þó er. Það má líka benda á að þessi samáhrif fjalla og meginlandskulda ráða því líka hversu sterk vestanáttin er við austurströnd Norður-Ameríku - og hvar hún er sterkust. Minniháttar breytingar á þessu fyrirkomulagi gætu breytt styrk og stöðu vestanstrengsins - en hann ákveður að einhverju leyti styrk og stefnu Golfstraumsins (sem við köllum svo). En - ekki meir um það.

Talan 4 er svo sett við dálítið lægðardrag yfir Evrópu, Austur-Evrópudragið. Lega þess og styrkur skiptir miklu máli fyrir vetrarástand á þeim slóðum.

Við lítum næst á það sama - nema nú er svæðið mun minna.

w-blogg090413b 

Á þessu korti er Ísland innan í svarta punktarammanum. Við sjáum bæði Baffindragið (1) og Golfstraumshrygginn (2), en líka fleiri smáatriði sem máli skipta fyrir veðurlag á Íslandi. Fyrst er að telja slakka í þykktarsviðinu við austurströnd Grænlands (beygla á litamynstrinu - merkt með tölunni 5). Þarna liggur kalt loft í leyni í neðsta hluta veðrahvolfs og er venjulega talað um það sem hæðina yfir Grænlandi – það má svo sem gera það en er samt dálítið misvísandi. Þykktarslakki þessi er mjög misöflugur á öllum tímakvörðum og virðist afl hans að einhverju leyti ráðast af hafísmagni í norðurhöfum.

Önnur strikalína er lögð á milli Grænlands og Íslands. Þarna er dálítill hæðarhryggur (talan 6) - merki um tilhneigingu lægða til að vera annað hvort vestan Íslands eða austan að vetrarlagi - en síður yfir landinu sjálfu.

Einnig má sjá langa punktalínu (merkt 9) sem liggur sunnan úr hafi í sveig til austurs fyrir sunnan land en síðan til vestnorðvesturs í átt að suðurodda Grænlands. Þeir sem sjá vel (kortið batnar við stækkun) munu taka eftir því að við línuna skiptir um aðstreymi - austan hennar er aðstreymið hlýtt (vindur blæs frá hærri þykkt til lægri) en vestan megin er aðstreymið kalt (vindur blæs frá lægri þykkt til hærri).

Ramminn utan um Ísland kemur við sögu í næsta pistli. Þar er athugað hvað breytingar innan rammans segja um ársmeðalhita. Þar koma þrír þættir við sögu - meðalvindstefna, meðalvindhraði og hæð 500 hPa-flatarins. Við þáttum stefnu og hraða í tvo þætti, vestanátt og sunnanátt. Þær breytingar sem við erum að mæla felast bæði í hliðrun á vindsviðinu sem og aflögun þess.

En áður en við ljúkum okkur af í dag skulum við líka líta á sumarkort - meðalástand í júlímánuði.

w-blogg090414c 

Hér er allt með mildari svip eins og vera ber. Meginlægðin er nú við norðurskautið og mun nær því að vera hringlaga heldur en í janúar. Þó má vel sjá Baffindragið og Klettafjallahrygginn - en í stað Golfstraumshryggjarins er nú komið lægðardrag. Að sumarlagi er nefnilega kaldara við vesturströnd Evrópu heldur en austar. Hringrás á okkar slóðum truflast mjög af Grænlandi.

Í júlímánuði er Norðuríshafið áberandi kaldasta svæði norðurhvels - þar bráðnar ís baki brotnu og kælir það loftið svo um munar. Það er sama þótt allur ísinn hverfi - kaldasti staður júlímánaðar verður enn yfir íshafinu. Hvað gerðist þá í águst og langt fram eftir hausti er annað og flóknara mál. En ef ísinn bráðnaði allur eða næstum því allur myndi lægðin grynnast nokkuð, kannski um heilt þykktarbil (litum myndarinnar fækkaði um einn). Slíkt myndi hafa áhrif á hringrásina á miklu stærra svæði - en látum þær vangaveltur bíða síðari tíma.

Lítum líka á minna svæði:

w-blogg090414d

Hér sést Baffindragið vel en hringrásin við Ísland og Grænland er mjög óráðin. Hér má sjá votta fyrir hæðarhrygg yfir Grænlandi (8) - sem stundum gætir hér á landi (þá er sólríkt), annars erum við í námunda við afskaplega óljós lægðardrög - sumarveðrið er mikið smáatriðahappdrætti.


Íslandssöguslef 2

Náttúrufræðingurinn mikli, Þorvaldur Thoroddsen, hélt því fram að veðurfar hefði lítið breyst frá landnámi, harðinda- og gnægtaár hefðu að vísu gengið yfir en á svipaðan hátt allan tímann. Seint á ritferlinum viðurkenndi hann með semingi að 19. öldin hefði verið ívið skárri en aldirnar tvær næstar á undan. Þegar hlýindahrinan mikla skall á - um það bil sem Þorvaldur féll frá fóru jöklar að hörfa, hríðum fækkaði og hafís var nærri því úr sögunni, skiptu fræðingar um skoðun og fram var sett grófgert línurit hitabreytinga frá landnámi.

Hún sýndi mikil hlýindi á þjóðveldisöld og svo aftur þegar frelsi var fengið - en sífelld harðindi og hörmungar þar á milli. Í greinum sem Jón Eyþórsson veðurfræðingur skrifaði á þriðja áratugi aldarinnar var hann mjög á línu Þorvaldar - ásamt landkönnuðinum Fritjof Nansen - vildu báðir tengja velmegun þjóðanna, fyrr á tímum sem og nú, þjóðfélaginu en ekki einhverjum tilviljanakenndum veðurfarsbreytingum. Jón áttaði sig fljótt á jöklabreytingunum og hlýindunum ástæðu þeirra, en í síðustu pistlunum sem hann skrifaði í tímaritið Veðrið árið 1965 fjallaði hann um milda og hlýja vetur fyrri tíðar - það var oft harla gott veður á hörmungaskeiðinu.

Harðindamenn fengu síðan á silfurfati að utan hina dægilegu hugmynd um „litla ísöld“ - sem reyndar enginn veit hvenær byrjaði og hvenær endaði - og breski veðurfarsfræðingurinn Hubert Lamb bjó til eitthvað sem kallað er „miðaldahlýskeið“ - þótt enginn viti heldur um upphaf þess eða lok. Þessir tveir tímabilaleppar virtust falla vel að hugmyndum um þjóðveldishlýindi, niðurlægingarkulda og að lokum endurreisnarhlýindi. Bæði litlaísöld og miðaldahlýskeiðið hafa verið þrálát í skrifum – en eru ekki eins fastnegld og flestir halda. Þannig hefur lokst nærri því tekist (en bara nærri því) að höggva miðaldahlýskeiðið í spað - með því að breyta nafninu í „miðaldavik“ sem ekki er jafn gildishlaðið og upprunanlegi nafnbleðillinn.

Hlýnunin sem varð á árunum 1920 til 1930 og kólnunin snögga um miðjan sjöunda áratuginn ollu því að menn töldu meiri ástæðu en áður til að leggjast aftur í þær rituðu heimildir sem Þorvaldur Thoroddsen hafði verið hvað duglegastur við að draga saman, en sömuleiðis var byrjað á því að ráða í náttúruna sjálfa. Þá var búið til frjókornatímatal nútíma þar á meðal var leitað svara við spurninguna um útbreiðslu kornræktar á Íslandi fyrr á öldum, landnýtingar- og uppblástursaga var tengd og tímasett með rannsóknum á öskulögum og meira að segja var hugað að borunum í jökla landsins í leit að veðurfari fortíðar.

Á undanförnum 15 árum eða svo hafa gríðarmiklar rannsóknir farið fram á veðurfari fortíðar á Íslandi, greinarnar orðnar meira en hundrað og flestar þeirra bitastæðar. Grófgerð mynd er að verða til af veðurfari „nútíma“ - frá lokum síðasta jökulskeiðs og þar með fylgja batnandi upplýsingar um veðurfar Íslands frá landnámi. Talsvert vantar þó upp á að sú mynd sé orðin skýr - sérstaklega er skortur á fullnægjandi skýringum á þeim breytingum sem veðurvitni segja frá. Sömuleiðis vantar sárlega samantektir á öllum rannsóknunum – þótt e.t.v. sé byrjað að sjá í land í þeim efnum 

Í bakgrunni allrar umræðu um veðurfar fortíðar er listi um orsakavalda:

•  Breytingar í virkni/útgeislun sólar (upplýsingar fara batnandi um sögu þeirra - en að minnsta kosti tvö alvarleg álitamál standa út af borðinu)
•  Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins (sæmilega þekktar á íslandssögulegum tíma)
•  Breytingar á armengun (óljósari - og áhrif ekki nægilega fastnegld)
•  Breytingar á landnotkun/gróðurfari (þekking á þeim er batnandi - en hugmyndir um áhrif nokkuð misvísandi)
•  Eldgos (eldgosasagan er smám saman að verða heillegri - en deilt er um langtímaáhrif - og áhrif komi mörg stór í röð)
•  Tilviljanakenndur, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar (vantar talsvert upp á þekkingu á orsökum og afleiðingum)
•  Staðbundnar breytingar á lóðréttum stöðugleika sjávar (athyglisverðar hugmyndir uppi en saga stöðugleikans lítt þekkt)

Breytingar á hitafari jarðar skila sér nær óhjákvæmilega í breytingum á snjóhulu og hafísþekju. Fleira (áðurnefndur lóðréttur stöðugleiki sem og breytileg vindáttartíðni á norðurslóðum) kemur við sögu hafíssins, en breytingar á endurskinshlutfalli jarðar skila sér aftur í auknum hita eða kólnandi veðurlagi - eftir því sem við á.

Fleira kemur við sögu veðurfarsbreytinga

•  Breytingar á brautarþáttum jarðar (hafa varla áhrif nema á þúsundáratímakvarða sjá gamlan hungurdiskapistil og viðhengi hans)

•  Halastjörnuárekstrar og þannig nokkuð - algjörlega tilviljanakennt - en einhverjir eru samt alltaf aðð nefna þá (einnig í gömlum hungurdiskapistli)
•  Landrek og afstaða meginlanda og hafs, hálendis og láglendis - engin áhrif á tímakvarða Íslandssögunnar (líka nefnt í gömlum pistli)

Meira síðar.


Árssveiflur - áratugasveiflur (og hlýnun) - Íslandssöguslef 1

Æði langt er nú frá því hungurdiskar slefuðu síðast um veðurfarssögu. Slef dagsins ætti þó að vera mörgum lesendum hungurdiska kunnuglegt - myndirnar hafa verið sýndar hér áður, en eru þó uppfærðar til síðustu áramóta (2013/2014).

Fyrst er margnefnd mynd sem sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 til okkar daga.

w-blogg070414a 

Lárétti ásinn sýnir árin frá 1798 til 2013, sá lóðrétti hita í °C. Hita einstakra ára má sjá af gráu súlunum og að kaldast var árið 1812 en hlýjast 2003. Spönn milli hita þeirra ára er um 4,5 stig. Græni ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. Það munar hátt í þremur stigum á hlýjasta og kaldasta 10-ára meðaltalinu. Við reiknum línulega leitni hitans og ef við trúum henni sést að hitinn hefur hækkað um hvorki meira né minna en 1,6 stig á þeim tíma sem línuritið tekur til eða um nokkurn veginn 0.8 stig á öld.

Rétt er að taka fram að þessa mynd mætti túlka öðruvísi t.d. með því að láta fyrri hluta tímabilsins tákna sístöðu en leitnin sé síðari tíma viðbót (þá því meiri) og – eins og alltaf - segir hún ekkert um framtíðina.

En athugum hvernig línuritið lítur út ef við nemum leitnina á brott.

w-blogg070414b 

Gráir og grænir ferlar eru sá sömu og áður nema hvað búið er að draga samfellda leitni út. Hér má sjá þrjú tímabil þegar hiti er til þess að gera hár – það síðasta er ekki enn orðið nærri því eins langt og þau fyrri. Kuldaskeiðin á milli eru mjög mislöng. Af aðeins tveimur og hálfri sveiflu er auðvitað ekkert hægt að segja um það hvort svona sveiflur séu reglubundnar eða ekki – alla vega bendir mislengd kuldaskeiðanna til þess að svo sé ekki. Aftur á móti er áberandi hversu hratt skiptir á milli hlýrra og kaldra skeiða.

Við sjáum tvö hlýskeið í heild sinni, það fyrra stóð frá því upp úr 1820 og fram á 6. áratug 19. aldar, hið síðara frá því um 1925 til 1965. Sömuleiðis sjáum við í þriðja hlýskeiðið - það sem við nú lifum þessi árin. Skyldi það verða jafnlangt og hin tvö? Síðasta kuldaskeið var miklu styttra heldur en það sem næst var á undan. Hlýskeiðin þrjú stinga sér ámóta hátt upp úr umhverfi sínu þótt það nýjasta sé (vegna leitninnar) miklu hlýrra en það fyrsta og byrjar líka hlýrra heldur en það næsta á undan.

Við lítum líka á tölurnar. Árshitaspönnin er hér 4,03 stig (var 4,47 á tímabilinu öllu). Áratugsspönnin hefur fallið niður í 1,50 stig og 30-ára spönnin (blár ferill) er 1,02 stig. Hlýnunin upp úr botni síðasta kuldaskeiðs til toppsins sem nýgenginn er yfir er á þessari mynd um 1,5 stig – ansi stór hluti af heildarhlýnun áranna 216 – sú nýlega hlýnun tók aðeins 30 ár, 0,5 stig á áratug, heildarleitnin er hins vegar innan við 0,1 stig á áratug – þótt hún sé mikil. 

Hér höfum við séð heildarleitni og áratugasveiflur. Við skulum líka líta aðeins á breytileikann frá ári til árs yfir sama tímabil. Reiknað er hver hitamunur er á ákveðnu ári og árinu á undan.

w-blogg070414c 

Hann hefur mestur orðið um 2,4 stig – rúmlega helmingur munar á hæsta og lægsta ársmeðalhita tímabilsins alls. Eitthvað virðist árið í ár muna eftir árinu í fyrra. En hér eru líka tímabilaskipti – breytileikinn frá ári til árs er greinilega meiri á kuldaskeiðum heldur en á hlýskeiðum – á núverandi hlýskeiði er áratugameðalmunur um 0,4 stig en var um 0,8 á síðasta kuldaskeiði (um 1980). Hringl frá ári til árs var líka mun meira á 19. öld heldur en lengst af á þeirri 20.

Myndirnar þrjár kalla fram margar spurningar þar á meðal þessar:

1. Hvernig stendur á sveiflum frá ári til árs? [„svar“ er til – en nýtist ekki við spár]

2. Hvernig stendur á áratugasveiflunum? [svör mjög óljós – en þær eru samt staðreynd]

3. Eru áratugasveiflur síðustu 200 ára eitthvað sérstakar? [það er ekki vitað – en líklega ekki]

4. Hvernig stendur á „langtíma“-leitninni? – Er hún eitthvað sérstök? [líkleg svör til]

5. Eru sveiflurnar reglubundnar? [sumar – en aðrar ekki]

Síðari pistill heldur áfram því sem hér er hafið.


Meira af hæstu hámörkum

Í síðustu færslu var litið á töflu sem sýnir hæsta hita sem mælst hefur á veðurstöðvum - hverri fyrir sig (sjá viðhengi færslunnar). Færsla dagsins fjallar um sama efni. Þau nörd (og aðrir) sem afrita listann og líma hann inn í töflureikni munu örugglega raða hámörkunum frá því mesta til þess minnsta. Við tökum ómakið af öðrum og setjum hæstu tölurnar í töfluna hér að neðan.

röðstöðármándagurhámbyrjarendarnafn
1675193962230,51881      2008Teigarhorn
2772193962230,21926      2012Kirkjubæjarklaustur
3580194671730,019371990Hallormsstaður
4422191171129,91881#Akureyri
5923192473029,91923#Eyrarbakki
61596200873029,71996#Þingvellir
74271200481129,21998#Egilsstaðaflugvöllur
8564191171029,119071919Nefbjarnarstaðir
86499200481029,11995#Skaftafell
106420200481029,02003#Árnes
11615191171128,919071919Seyðisfjörður
1163519917428,919762007Kollaleira
1136519200481128,92001#Gullfoss

Fyrsti dálkurinn sýnir röð, síðan kemur númer stöðvarinnar í gagnagrunni Veðurstofunnar. Þriðji, fjórði og fimmti dálkurinn sýna dagsetningu metsins, þá kemur hámarkið sjálft, en síðan dálkur sem sýnir hvenær stöðin byrjaði að athuga. Þar á eftir er dálkur sem sýnir hvenær hún hætti, en táknið # merkir að stöðin sé enn að mæla.

Allar þessar tölur þykja trúlegar nema ein, 29,9 stigin á Eyrarbakka 1924 - hún er líklega röng. Það styrkir 1. og 2. sætið að það séu tvær stöðvar sem ná 30 stigum sama dag. Sama á við um tölurnar í 4., 8. og 11. sæti (Seyðisfjörður), þær bera vitni um hitabylgjuna miklu 1911. Ágústhitabylgjan 2004 á líka þrjár tölur á listanum. Miklar hitabylgjur voru víða um land í júlí 1991 og 2008.

Mannaðar athuganir eru ekki gerðar lengur á þeim þremur stöðvum sem eiga hæstu tölurnar - en þar eru nú sjálfvirkar stöðvar. Af þeim hefur sjálfvirka stöðin á Hallormsstað náð hæst, 27,7 stigum í ágústhitabylgjunni 2004, en nýju stöðvarnar á Teigarhorni og Kirkjubæjarklaustri hafa enn ekki náð 25 stigum.

Sú stöð sem lægst er á listanum er Nýibær, í 890 metra hæð á Nýjabæjarfjalli inn af Eyjafirði - hún var starfrækt aðeins eitt ár - og það að auki hitabylgjurýrt. Talan, 15,6 stig, telst því e.t.v. bara nokkuð há. Lágt á listanum liggja líka nýjar stöðvar sem ættu eiginlega ekki að vera með á honum - þær hafa enn bara séð eitt eða tvö sumur.

Allir dagar frá og með 29. júní til og með 3. ágúst eiga fulltrúa á listanum. Hitabylgjurnar í ágúst 2004 og júlí 2008 keppast um flest metin. Þetta eru langmestu hitabylgjurnar síðan stöðvunum fjölgaði mikið með tilkomu sjálfvirkra athugana, 59 stöðvar lenda á 11. ágúst 2004 (og fleiri dagana þar um kring), en 53 þann 30. júlí. Síðarnefnda dagsetningin fær aðstoð frá mikilli hitabylgju í júlílok 1980 - en þá voru engar sjálfvirkar stöðvar komnar til sögunnar.

Á listanum er getið um 171 mannaða stöð, þar af eiga 26 met frá 2004, 16 frá 1991, 9 frá 1980, 10 frá 1976, 9 frá 1955, 8 frá 1939 og 8 frá 1911. 

Sjálfvirku stöðvarnar á listanum eru 299, 107 af þeim eiga sín met frá 2004 og 57 frá 2008. Síðan eru nokkuð margar stöðvar með met 2012 (46) og 2013 (51) en þar er nær eingöngu um að ræða þær sem eru svo ungar að þær upplifðu hvorki 2008 né 2004.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 234
  • Sl. viku: 1801
  • Frá upphafi: 2412821

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1606
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband