Breytileiki hita frá ári til árs

Æi - þið farið nú varla að lesa þessa langloku er það? 

Í söguslefi 21 skildum við eftir fimm spurningar varðandi hitafar síðustu árhundruða: 

1. Hvernig stendur á sveiflum frá ári til árs? [„svar“ er til – en nýtist ekki við spár]
2. Hvernig stendur á áratugasveiflunum? [svör mjög óljós – en þær eru samt staðreynd]
3. Eru áratugasveiflur síðustu 200 ára eitthvað sérstakar? [það er ekki vitað – en líklega ekki]
4. Hvernig stendur á „langtíma“-leitninni? – Er hún eitthvað sérstök? [líkleg svör til]
5. Eru sveiflurnar reglubundnar? [sumar – en aðrar ekki]

Í pistli dagsins skulum við sinna þeirri fyrstu. Töluverðar sveiflur eru á lofthringrás í námunda við landið frá ári til árs. Reikningar sýna að hægt er að skýra um 50% breytileika hita með hringrásarþáttum eingöngu - e.t.v. meira - sé dýpra fiskað.

w-blogg090414a

Fyrsta mynd dagsins sýnir kort af mestöllu norðurhveli. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Í gegnum þéttar línur og liti má sjá móta fyrir útlínum meginlandanna. Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1981 til 2010. Vindur blæs nokkurn veginn samsíða línunum og er því meiri sem þær eru þéttari. Litafletir og örmjóar punktalínur sýna þykktina - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Háloftahringrás norðurhvels að vetrarlagi einkennist af mikilli lægð yfir kanadísku heimskautaeyjunum og annarri yfir Austur-Síberíu. Hringrásin er ekki hreinn hringur heldur gengur hún nokkuð í bylgjum - lægðardrögum með hæðarhryggjum á milli. Tvö lægðardrög og tveir hryggir eru sérmerkt á kortið með rauðum grófgerðum punktalínum.

Mikilvægast fyrir okkur er Baffindragið, merkt með tölunni 1. Hreyfingar þess skipta miklu máli fyrir veðurlag hér á landi. Hryggur sem við til hægðarauka köllum Golfstraumshrygginn er merktur með tölunni 2. Hann er ekki öflugur - en sér til þess að sunnanátt er meiri vestast í Evrópu heldur en austar. Þessi tvö kerfi eru afleiðing af legu meginlanda og sjávar. Loft kólnar og dregst saman yfir meginlöndunum að vetrarlagi, en hlýnar og bólgnar eftir því sem það á lengri leið yfir sjó - sömuleiðis að vetrarlagi.

Talan 3 er sett við hæðarhrygg við vesturströnd Norður-Ameríku. Hann er orðinn til vegna þeirrar fyrirstöðu sem fjallgarðurinn mikli vestan til í Ameríku, og við köllum gjarnan Klettafjöll, veldur á hringrásinni um norðurhvel.

Hann veldur líka því að Baffindragið er sterkara heldur en það væri eitt og sér - myndað vegna kólnunar meginlandsins. Það má því segja að Klettafjöllin valdi því að hér er jafnhlýtt á vetrum og raun ber vitni - væru þau ekki til staðar væri Baffindragið grynnra og kalt loft frá Kanada þá algengara hér heldur en þó er. Það má líka benda á að þessi samáhrif fjalla og meginlandskulda ráða því líka hversu sterk vestanáttin er við austurströnd Norður-Ameríku - og hvar hún er sterkust. Minniháttar breytingar á þessu fyrirkomulagi gætu breytt styrk og stöðu vestanstrengsins - en hann ákveður að einhverju leyti styrk og stefnu Golfstraumsins (sem við köllum svo). En - ekki meir um það.

Talan 4 er svo sett við dálítið lægðardrag yfir Evrópu, Austur-Evrópudragið. Lega þess og styrkur skiptir miklu máli fyrir vetrarástand á þeim slóðum.

Við lítum næst á það sama - nema nú er svæðið mun minna.

w-blogg090413b 

Á þessu korti er Ísland innan í svarta punktarammanum. Við sjáum bæði Baffindragið (1) og Golfstraumshrygginn (2), en líka fleiri smáatriði sem máli skipta fyrir veðurlag á Íslandi. Fyrst er að telja slakka í þykktarsviðinu við austurströnd Grænlands (beygla á litamynstrinu - merkt með tölunni 5). Þarna liggur kalt loft í leyni í neðsta hluta veðrahvolfs og er venjulega talað um það sem hæðina yfir Grænlandi – það má svo sem gera það en er samt dálítið misvísandi. Þykktarslakki þessi er mjög misöflugur á öllum tímakvörðum og virðist afl hans að einhverju leyti ráðast af hafísmagni í norðurhöfum.

Önnur strikalína er lögð á milli Grænlands og Íslands. Þarna er dálítill hæðarhryggur (talan 6) - merki um tilhneigingu lægða til að vera annað hvort vestan Íslands eða austan að vetrarlagi - en síður yfir landinu sjálfu.

Einnig má sjá langa punktalínu (merkt 9) sem liggur sunnan úr hafi í sveig til austurs fyrir sunnan land en síðan til vestnorðvesturs í átt að suðurodda Grænlands. Þeir sem sjá vel (kortið batnar við stækkun) munu taka eftir því að við línuna skiptir um aðstreymi - austan hennar er aðstreymið hlýtt (vindur blæs frá hærri þykkt til lægri) en vestan megin er aðstreymið kalt (vindur blæs frá lægri þykkt til hærri).

Ramminn utan um Ísland kemur við sögu í næsta pistli. Þar er athugað hvað breytingar innan rammans segja um ársmeðalhita. Þar koma þrír þættir við sögu - meðalvindstefna, meðalvindhraði og hæð 500 hPa-flatarins. Við þáttum stefnu og hraða í tvo þætti, vestanátt og sunnanátt. Þær breytingar sem við erum að mæla felast bæði í hliðrun á vindsviðinu sem og aflögun þess.

En áður en við ljúkum okkur af í dag skulum við líka líta á sumarkort - meðalástand í júlímánuði.

w-blogg090414c 

Hér er allt með mildari svip eins og vera ber. Meginlægðin er nú við norðurskautið og mun nær því að vera hringlaga heldur en í janúar. Þó má vel sjá Baffindragið og Klettafjallahrygginn - en í stað Golfstraumshryggjarins er nú komið lægðardrag. Að sumarlagi er nefnilega kaldara við vesturströnd Evrópu heldur en austar. Hringrás á okkar slóðum truflast mjög af Grænlandi.

Í júlímánuði er Norðuríshafið áberandi kaldasta svæði norðurhvels - þar bráðnar ís baki brotnu og kælir það loftið svo um munar. Það er sama þótt allur ísinn hverfi - kaldasti staður júlímánaðar verður enn yfir íshafinu. Hvað gerðist þá í águst og langt fram eftir hausti er annað og flóknara mál. En ef ísinn bráðnaði allur eða næstum því allur myndi lægðin grynnast nokkuð, kannski um heilt þykktarbil (litum myndarinnar fækkaði um einn). Slíkt myndi hafa áhrif á hringrásina á miklu stærra svæði - en látum þær vangaveltur bíða síðari tíma.

Lítum líka á minna svæði:

w-blogg090414d

Hér sést Baffindragið vel en hringrásin við Ísland og Grænland er mjög óráðin. Hér má sjá votta fyrir hæðarhrygg yfir Grænlandi (8) - sem stundum gætir hér á landi (þá er sólríkt), annars erum við í námunda við afskaplega óljós lægðardrög - sumarveðrið er mikið smáatriðahappdrætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

virðist fróðlegt en eithvað hlítur að valda þessu flögti í veðurfari

gétur það verið að möndulhallin breitist ár frá ári

fjarlægð frá sólu sé mismunandi eftir árum

hraði jarðar um himinhvolfið sé ekki sá sami eftir árum .

staðsetníng vetrarbrautar breitist þar sem hún er ekki á föstum stað hvað skildi stjórna henni

og guð hjálpi okkur þegar túnglið gefst upp á stjórnmálamönum okkar og yfirgéfur okkur alveg

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 2.6.2014 kl. 23:16

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Kristinn: Allt sem þú nefnir skiptir máli á langtímakvarða en ekki frá ári til árs - möndulhallinn fer nú minnkandi, hraði jarðar í brautinni og fjarlægð til sólar eru misjöfn eftir árstímum - en breytast nánast ekki neitt frá ári til árs - en gera það á árþúsundakvarða. Staða sólar í vetrarbrautinni breytist á tugmilljónum ára - en ekki hefur tekist að sýna fram á nein tengsl við veðurfar varðandi það atriði. Tunglið er að fjarlægjast - en það gerist líka ofurhægt. Reynt hefur verið nánast til þrautar að tengja sveiflur í samspili sólar og tungls við veður - en árangurinn af þeim tilraunum má heita enginn - en þó eru margir enn að reyna.

Trausti Jónsson, 2.6.2014 kl. 23:30

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Rétt að fram komi að athugasemdir þar sem mannsnafns er getið verða ekki birtar. Þetta er hluti af nýsamsoðinni ritstjórnarstefnu hungurdiska - vinsamlegast hafið þetta í huga. Hungurdiskar eru nú einnig á facebook - ekki alveg sama efni þó.

Trausti Jónsson, 4.6.2014 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 30
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 1779
  • Frá upphafi: 2348657

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1558
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband